Fréttatilkynning frá rannsóknarnefnd Alþingis

Stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur blekkt

Rannsóknarnefnd Alþingis hefur sannreynt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser var aldrei í reynd fjárfestir í Búnaðarbankanum þegar 45,8% hlutur ríkisins í honum var seldur í janúar 2003, ólíkt því sem haldið var fram allt frá upphafi. Það er afdráttarlaus niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld hafi skipulega verið blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar.

Ítarleg skrifleg gögn sýna með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í orði kveðnu. Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.

Síðari viðskipti á grundvelli ofangreindra leynisamninga gerðu það að verkum, að Welling & Partners fékk í sinn hlut rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem voru lagðar inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum, voru 57,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla. Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson. Um svipað leyti voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um raunverulega eigendur Dekhill eða hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins.

Ítarlega er fjallað um málavexti í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem gerð var opinber í dag. Hún er aðgengileg á vef rannsóknarnefnda Alþingis og í henni er meðal annars að finna tölvupóstsamskipti milli ofangreindra aðila. Þau sýna hvernig íslensk stjórnvöld voru blekkt og hvernig rangri mynd af viðskiptunum var haldið að fjölmiðlum og almenningi. Á hinn bóginn bendir ekkert til annars en að öðrum aðilum innan fjárfestahópsins sem keypti hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, S-hópsins svokallaða, hafi verið ókunnugt um leynisamningana og að þeir hafi staðið í þeirri trú að Hauck & Aufhäuser væri raunverulegur eigandi þess hlutar sem hann var skráður fyrir.

Nánari upplýsingar veitir:
Kjartan Bjarni Björgvinsson,
formaður rannsóknarnefndar Alþingis
í síma 853 0770