28. kafli – Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis
Efnisyfirlit
28. Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis
Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis var stofnaður árið 1944. Stofnfé sjóðsins var 10.500 krónur og skiptist í 105 jafna hluti. Stofnfjárhafar voru fjörutíu talsins og fyrsti sparisjóðsstjórinn var Karl Hjálmarsson.1
Í samþykktum sparisjóðsins frá apríl 2011 segir í 3. grein að sparisjóðurinn sé sjálfseignarstofnun sem starfi samkvæmt gildandi lögum um fjármálafyrirtæki og stundi sparisjóðastarfsemi eins og hún er skilgreind í lögunum. Hlutverk sparisjóðsins sé að láta gott af sér leiða og standa vörð um og þróa atvinnulíf, mannlíf og velferð á starfssvæði sínu.2
Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis er með starfsstöðvar á þremur stöðum í Norður-Þingeyjarsýslu þar sem jafnframt er sinnt þjónustu fyrir Íslandspóst og umboði fyrir Vátryggingarfélag Íslands hf. Höfuðstöðvar sparisjóðsins eru að Fjarðarvegi 5 á Þórshöfn og útibú hans eru að Bakkagötu 8–10 á Kópaskeri og Aðalbraut 23 á Raufarhöfn. Útibúin á Kópaskeri og Raufarhöfn hafa verið starfrækt frá því í mars 2006 þegar sparisjóðurinn keypti húsnæði og rekstur útibúa Landsbanka Íslands á þessum stöðum.3 Sjóðurinn starfrækti jafnframt útibú á Bakkafirði á árunum 2004 til 2008, en útibúinu var lokað 1. maí 2008 vegna íbúafækkunar á Bakkafirði og lítilla umsvifa útibúsins.4
Á aðalfundi Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 4. júlí 2013 var samþykkt sameining við Sparisjóð Svarfdæla og starfa sparisjóðirnir undir nafninu Sparisjóður Norðurlands. Síðasti sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Þórshafnar var Ragnar Þorgeirsson, sem gegndi því starfi frá 22. september 2012. Íris Björnsdóttir var sparisjóðsstjóri frá 2010 en hún tók við af Guðna Erni Haukssyni sem hafði verið sparisjóðsstjóri frá því í nóvember 1998.
Stjórn Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis var síðast kjörin á aðalfundi 10. maí 2012 og var hún skipuð fimm stjórnarmönnum. Fjórir stjórnarmenn voru tilnefndir af Bankasýslu ríkisins, Hólmgeir Karlsson formaður, Auður Hörn Freysdóttir, Ragnar Þorgeirsson og Sigurður Skúli Bergsson.5 Fimmti stjórnarmaðurinn var Kristín Kristjánsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður.
Í árslok 2007, fyrir fall bankanna, voru stofnfjárhafar 88 og stofnfé í dreifðri eignaraðild. Heildareignir sjóðsins námu þá 2,9 milljörðum króna. Sparisjóðurinn var einn af minnstu sparisjóðunum hér á landi með um 0,5% af heildareignum sparisjóðanna. Samanlagðar eignir allra sparisjóða voru þá 614 milljarðar króna. Í árslok 2011 námu heildareignir Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2,6 milljörðum króna og voru þá 4,3% af samanlögðum eignum sparisjóðanna.
Árið 2007 gekk sparisjóðurinn til samstarfs við fimm aðra sparisjóði af landsbyggðinni um rekstur starfsstöðvar í Reykjavík undir nafninu Sp-ráðgjöf ehf. Samstarfið hafði nokkur áhrif á útlánasafn sjóðsins en þátttaka sparisjóðanna í verkefnum Sp-ráðgjafar ehf. leiddi yfirleitt til veikleika í útlánasafni þeirra.
Haustið 2007 hóf stjórn sparisjóðsins stefnumótunarvinnu sem lauk með kynningu á samrunaáætlun við Sparisjóðinn í Keflavík. Samrunaáætlunin var samþykkt formlega af báðum aðilum vorið 2008 en hún gerði ráð fyrir stofnfjáraukningu hjá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis um 400 milljónir króna. Stofnfjáraukningin gekk ekki eftir þar sem ekki tókst að selja nægt stofnfé í útboði. Þá höfðu aðstæður á fjármálamarkaði einnig breyst mikið frá því stofnfjáraukningin var samþykkt á fundi stjórnar sparisjóðsins 29. maí 2008. Stjórn sparisjóðsins taldi því forsendur fyrir samruna sparisjóðanna brostnar.
Hinn 27. apríl 2009 ákváðu stjórnir Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis og Sparisjóðs Suður-Þingeyinga að hefja formlegar viðræður um sameiningu sjóðanna. Viðræðunum var síðar slegið á frest vegna umsóknar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis um stofnfjárframlag úr ríkissjóði í samræmi við lög nr. 125/2008. Þegar ljóst var að eiginfjárframlag úr ríkissjóði eitt og sér væri ekki nægt til þess að koma eiginfjárhlutfalli í rétt horf hóf sparisjóðurinn samningaviðræður við Seðlabanka Íslands um erlend lán sem Sparisjóðabanki Íslands hf./Icebank hf. hafði veitt sparisjóðnum. Seðlabankinn var þá orðinn helsti kröfuhafi sparisjóðsins eftir að útlánum sparisjóðanna hafði verið ráðstafað til hans með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að taka yfir vald hluthafafundar Sparisjóðabanka Íslands hf. 21. mars 2009. Bankinn hafði fjármagnað útlán sparisjóðsins í erlendri mynt en um þau ríkti mikil lagaleg óvissa sem torveldaði samningana. Svo fór að 21. desember 2010 var undirritað samkomulag á milli Seðlabanka Íslands og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins. Í samkomulaginu fólst að afskrifaðar voru 802 milljónir króna af 917 milljóna króna kröfu Seðlabankans á hendur sparisjóðnum en 105 milljónum króna var breytt í stofnfé í sparisjóðnum og afganginum í víkjandi lán.
Í lok árs 2011 voru stofnfjárhafar 92 en meðal þeirra voru Bankasýsla ríkisins sem fór með 75,8% hlut fyrir hönd ríkissjóðs og Tryggingasjóður sparisjóða með 23,3% hlut.
Stjórnir Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis og Sparisjóðs Svarfdæla samþykktu í mars 2013 að sameina rekstur sparisjóðanna undir nafni Sparisjóðs Norðurlands hf. og gekk samruninn í gegn þann 4. júlí 2013 með samþykki Fjármálaeftirlitsins.6
28.1 Ársreikningar 2001–2011
Hér verður farið yfir þróun rekstrarreiknings og efnahagsreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, helstu liði þeirra og kennitölur á árunum frá 2001 til 2011. Umfjöllunin miðast við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram.7
28.1.1 Rekstrarreikningar
Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis var rekinn með hagnaði öll árin frá 2001 til 2007 en þá varð hagnaðurinn mestur eða 97 milljónir króna. Skipti þar mestu gengishagnaður af veltuhlutabréfum upp á rúmlega 200 milljónir króna. Viðsnúningur varð í rekstrinum á árinu 2008 þegar sparisjóðurinn tapaði 525 milljónum króna. Tapið mátti rekja til nærri 300 milljóna króna gengistaps af fjáreignum og 239 milljóna króna framlags í afskriftareikning útlána. Áframhaldandi tap varð af rekstri sparisjóðsins á árinu 2009 en þá nam gengistap af fjáreignum 155 milljónum króna og framlagið í afskriftareikning útlána tæplega 203 milljónum króna.
Árið 2010 batnaði afkoman vegna 735 milljóna króna tekjufærslu eftirgjafar á skuld við Seðlabanka Íslands, en sem liður í fjárhagslegri endurskipulagningu sjóðsins var hluta krafna Seðlabankans breytt í stofnfé og annað fellt niður. Tap varð á rekstri sjóðsins á árinu 2011 upp á 62 milljónir króna. Rekstrarkostnaður nam 142 milljónum króna og hafði farið lækkandi þrjú ár í röð vegna hagræðingar í rekstri. Opinberar álögur8 og önnur gjöld höfðu hins vegar hækkað verulega og námu 13,2 milljónum króna eða 9,4% af rekstrargjöldum ársins, en höfðu verið 4,9 milljónir króna eða 3,4% af rekstrargjöldum árið 2010. Framlag í afskriftareikning útlána árið 2011 nam 33 milljónum króna, þar af voru 18 milljónir vegna óvissu um réttaráhrif svo kallaðs gengislánadóms (dóms Hæstaréttar nr. 600/2011).9
Hreinar rekstrartekjur
Hreinar rekstrartekjur hækkuðu umtalsvert á árunum 2005 til 2007, þar af um 60% árið 2007. Gengishagnaður af fjáreignum átti þar stærstan hlut að máli. Mikið gengistap varð hins vegar af fjáreignum á árunum 2008 og 2009 sem leiddi til tapreksturs af sparisjóðnum. Myndin sýnir einnig að hreinar vaxtatekjur lækkuðu mikið árin 2007 og 2008. Þrátt fyrir það var fjárfestingarstarfsemi meginástæða hinna miklu breytinga á hreinum rekstrartekjum 2001 til 2011.
Gengishagnaðurinn árið 2007 stafaði fyrst og fremst af 204 milljóna króna gangvirðishækkun á hlutabréfum. Árið 2008 nam gengistap af fjáreignum 298 milljónum króna, af hlutabréfaeign 223 milljónum króna og af veltuskuldabréfum 50 milljónum króna. Stærstur hluti gengistapsins af hlutabréfum skýrðist af 148 milljóna króna niðurfærslu á eignarhlut sparisjóðsins í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. Áframhaldandi tap varð af fjáreignum á árinu 2009, bæði hlutabréfum og skuldabréfum. Á árinu 2011 varð enn gengistap af fjáreignum sem nam 27 milljónum króna og var stærstur hluti þeirrar fjárhæðar tap á hlutabréfaeign eða 26 milljónir króna.
Arðs- og hlutdeildartekjur vógu ekki þungt í rekstri Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis. Hæstar urðu þessar tekjur árið 2008 eða liðlega 12 milljónir króna og höfðu þá hækkað um 10% frá fyrra ári. Á árinu 2011 varð 4,6 milljóna króna tap á hlutdeildarfélögum. Í þeirri tölu var 12 milljóna króna tap á 21,8% eignarhlut í Fasteignafélaginu Borg ehf. á Hvammstanga.
Hreinar þjónustutekjur, sem meðal annars voru ráðgjafartekjur til fyrirtækja og annarra viðskiptamanna, námu 14 milljónum króna á árinu 2001 eða 24% af hreinum rekstrartekjum. Í árslok 2011 hafði þessi liður lítið breyst og vægi hans var þá 17% af hreinum rekstrartekjum. Hæstar urðu hreinar þjónustutekjur árið 2007 eða tæpar 28 milljónir króna.
Aðrar rekstrartekjur greindust í umboðslaun og aðrar tekjur. Á árinu 2007 nam þessi tekjuliður tæplega 17 milljónum króna sem jafngilti 6% af hreinum rekstrartekjum. Vægi annarra rekstrartekna af hreinum rekstrartekjum sveiflaðist nokkuð og var hæst 23% árið 2005 þegar tekjurnar voru 33 milljónir króna. Þar vó hæst 25 milljóna króna söluhagnaður af eignarhlut sparisjóðsins í Hraðfrystistöð Þórshafnar og í Alþjóða líftryggingafélaginu.
Hreinar vaxtatekjur lækkuðu umtalsvert á árinu 2007. Lækkunin nam ríflega 45 milljónum króna og skýrðist einkum af hækkun vaxtagjalda vegna almennra innlána. Vaxtatekjur stóðu hins vegar í stað á milli ára. Árið 2008 hækkuðu vaxtatekjur mikið umfram hækkun vaxtagjalda. Skýrðist það aðallega af gengishækkun á lánum viðskiptavina í erlendri mynt. Samhliða hækkun vaxtamunar hjá sparisjóðnum jukust hreinar rekstrartekjur að nýju á árunum 2009 til 2011.
Stærstur hluti vaxtatekna sparisjóðsins kom frá útlánum. Þær hækkuðu mikið árið 2008 eða um 69%. Vaxtatekjur af kröfum á lánastofnanir voru heldur vaxandi liður á tímabilinu og var vægi þeirra mest 23% af vaxtatekjum árið 2010 en minnst 4% árið 2004. Vægi þeirra lækkaði hins vegar í 12% árið 2011. Vaxtatekjur af skuldabréfaeign voru allt tímabilið innan við 12% vaxtatekna.
Nánast öll vaxtagjöld Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis á árunum 2001 til 2011 voru vegna almennra innlána. Á árinu 2005 tók sjóðurinn að fjármagna sig í auknum mæli með lántökum og voru vaxtagjöld vegna lántöku að meðaltali 15% heildarvaxtagjalda til 2009. Vaxtagjöld til lánastofnana fóru aldrei yfir 8% af vaxtagjöldum allt tímabilið.
Vaxtamunur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis þróaðist með svipuðum hætti og hjá sparisjóðunum í heild á árunum 2001 til 2011, en var þó alltaf hærri en hjá þeim allt tímabilið. Mestur var munurinn árið 2001 þegar vaxtamunur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis var 9,7% en einungis 3,7% hjá sparisjóðunum í heild. Á árinu 2011 var vaxtamunurinn 5,5% hjá sparisjóðunum í heild en 7,5% hjá Sparisjóði Þórshafnar.10
Rekstrargjöld
Rekstrargjöld Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis fóru vaxandi á árunum 2001 til 2009, meðal annars vegna fjölgunar útibúa, en lækkuðu á árunum 2010 og 2011. Framlag í afskriftareikning útlána átti mestan þátt í mikilli hækkun árin 2008 til 2010. Á tímabilinu 2001 til 2011 nam framlag í afskriftareikning útlána samtals rúmum 660 milljónum króna, þar af 580 milljónum króna á árunum 2008 til 2011.
Framlag í afskriftareikning útlána á árinu 2007 nam 11 milljónum króna. Árið eftir rúmlega tuttugufaldaðist framlagið frá fyrra ári og nam 239 milljónum króna. Framlagið var enn hátt árið 2009, eða 203 milljónir króna, en fór svo lækkandi eftir það. Samanlagt framlag í afskriftareikning útlána á árunum 2008 til 2010 nam 547 milljónum króna sem var 127 milljónum króna meira en bókfært virði eigin fjár sparisjóðsins í árslok 2007. Í árslok 2007 var niðurfærsluhlutfall útlána 5%. Til samanburðar var þetta hlutfall þá 1,6% hjá sparisjóðunum í heild. Í lok árs 2010 var niðurfærsluhlutfallið hjá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis orðið 20,1% en var á sama tíma 21,3% hjá sparisjóðunum í heild.
Almennur rekstrarkostnaður sparisjóðsins fór vaxandi á árunum 2001 til 2009, meðal annars vegna fjölgunar útibúa, en lækkaði á árunum 2010 og 2011. Mest var hækkunin 42% árið 2006 vegna opnunar útibús á Raufarhöfn en árið eftir hækkaði kostnaðurinn áfram um 22%. Eins og sjá má á mynd 3 var hlutfall rekstrarkostnaðar sjóðsins af meðaleignum talsvert hærra en hjá sparisjóðunum í heild. Að meðaltali var munurinn 2,3% á tímabilinu en mest bar á milli árið 2002 þegar hlutfallið var 7,3% hjá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis en 4,1% hjá sparisjóðunum í heild.
Launakostnaður Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis var á bilinu 41% til 51% af almennum rekstrarkostnaði árin 2001 til 2011. Fjöldi stöðugilda nær þrefaldaðist frá 2001 til 2007 og störfuðu 14 manns hjá sparisjóðnum í árslok 2007. Í árslok 2011 hafði stöðugildum fækkað um fjögur en þar af hafði fækkað um þrjú stöðugildi vegna póstafgreiðslu og vátryggingarþjónustu.
Meðallaunakostnaður á stöðugildi fór almennt hækkandi á tímabilinu en breytingar voru ekki miklar á milli ára. Tæplega fjórðungshækkun varð þó árið 2003, en mest hækkuðu meðallaun árið 2011 um 32% þegar stöðugildum fækkaði um fjögur. Laun sparisjóðsstjóra fóru hækkandi fram til 2008 en árið 2010 höfðu þau lækkað um 20% frá árslokum 2008. Á árinu 2008 var greiddur launaauki til sparisjóðsstjórans fyrir tímabilið 1. janúar 2006 til 31. desember 2007 að fjárhæð þrjár milljónir króna auk launatengdra gjalda.
Meðallaunakostnaður á stöðugildi hjá sparisjóðnum hækkaði umtalsvert minna árin 2004 til 2009 en hjá sparisjóðunum í heild. Hækkunin var þar að auki minni en hækkun almennrar launavísitölu. Á árinu 2010 lækkaði meðallaunakostnaður á stöðugildi hjá sparisjóðunum í heild en hækkaði á sama tíma hjá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis. Á árinu 2011 hækkaði meðallaunakostnaður á stöðugildi um ríflega 20% hjá sparisjóðnum og hafði þá hækkað um samtals 81% frá árinu 2001. Á sama tíma hafði meðallaunakostnaður á stöðugildi hækkað um 62% hjá sparisjóðunum í heild.11
Mánaðarleg þóknun stjórnarmanna fyrir setu í stjórn var ákveðin á aðalfundi hvert ár. Starfsmenn nutu ekki annarra fríðinda en þeirra almennu fríðinda sem tíðkuðust hjá sparisjóðunum.
Engar kaupaukagreiðslur voru inntar af hendi á árunum 2001 til 2011, að frátalinni áðurnefndri eingreiðslu til sparisjóðsstjóra á árinu 2008. Á því ári 2008 var gerður viðauki við gildandi ráðningarsamning Guðna Arnar Haukssonar sparisjóðsstjóra þar sem tilgreindur var níu mánaða gagnkvæmur uppsagnarfrestur. Guðni lét af störfum sparisjóðsstjóra í ágúst 2010 eftir að hafa verið í veikindafríi frá því í lok mars það sama ár. Starfslokagreiðslur voru samkvæmt gildandi ráðningarsamningi.
Kjarnarekstur
Hagnaður varð af kjarnarekstri sparisjóðsins árin 2001 og 2002 en upp frá því var tap af kjarnarekstri.12 Tapið skýrðist fyrst og fremst af háum rekstrargjöldum í samanburði við vaxta- og þjónustutekjur auk hás framlags í afskriftareikning útlána á árunum 2008 til 2011. Hagnaður sparisjóðsins frá 2002 til 2007 var því borinn uppi af fjáreignatekjum, en vaxta- og þjónustutekjur stóðu undir almennum rekstrarkostnaði árin 2001 til 2004. Meira en 100 milljónir króna vantaði upp á slíkt árið 2007 þegar hreinar vaxtatekjur drógust mikið saman og rekstrargjöld hækkuðu um 22%. Mest vantaði upp á árið 2008, eða nær 115 milljónir króna, en þá margfaldaðist framlag í afskriftareikning útlána og vaxtatekjurnar hækkuðu lítið frá fyrra ári. Tap af kjarnarekstri árið 2011 skýrði að mestu heildartap sparisjóðsins en þá var framlag í afskriftareikning enn hátt og rekstrargjöld umfram vaxta- og þjónustutekjur.
28.1.2 Efnahagsreikningar
Hér er fjallað um stærstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis í lok áranna 2001 til 2011 og þróunina á tímabilinu. Í viðauka C má sjá efnahagsreikning sparisjóðsins á árunum 2001 til 2011 á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi.
Eignir
Í árslok 2001 námu eignir Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 758 milljónum króna en í árslok 2011 voru þær 2,6 milljarðar króna. Ef miðað er við verðlag í árslok 2011 voru heildareignir sjóðsins í árslok 2001 1,3 milljarðar króna. Þannig hafði sjóðurinn tvöfaldast að stærð á þessum ellefu árum. Mynd 5 sýnir hvernig eignir sparisjóðsins í lok áranna 2001 til 2011 skiptust. Á myndinni sést greinilega hvernig útlán og hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum stuðluðu að miklum vexti frá 2001 til 2008. Vaxandi kröfur á lánastofnanir á árunum 2008 til 2011 unnu á móti samdrætti eigna á þessum árum eftir að útlán og hlutabréf drógust saman.
Útlán voru stærsti einstaki eignaliður sparisjóðsins á tímabilinu og var vægi þeirra af heildareignum að jafnaði 55%. Árið 2004 jukust útlán mest eða um 63% frá fyrra ári. Í lok árs 2007 námu útlán 1,5 milljörðum króna sem jafngilti 52% heildareigna. Árið 2008 jukust útlánin enn frekar og voru orðin 1,8 milljarðar króna í árslok eða 56% heildareigna. Fall krónunnar átti þar stóran hlut að máli. Hluti útlánaaukningarinnar voru lán til fyrirtækja fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf.13 Í árslok 2008 höfðu verið lánaðar samtals 413 milljónir króna fyrir tilstilli Sp-ráðgjafar ehf. en 199 milljónir króna verið færðar í afskriftareikning vegna sömu útlána.14 Í lok árs 2009 höfðu útlán dregist saman um 336 milljónir króna frá fyrra ári. Þá breytingu má annars vegar rekja til framlags í afskriftareikning sem kom til lækkunar útlánum og þess að Íbúðalánasjóður leysti til sín fasteignaveðbréf að baki þeirri fjármögnun sem hann hafði veitt sparisjóðnum á árunum 2004 og 2005.15 Lítils háttar lækkun varð á útlánum árin 2010 og 2011 og stóðu þau í 1,3 milljörðum króna í árslok 2011.
Útlán sjóðsins voru nær einvörðungu til einstaklinga og fyrirtækja og aðeins 3% heildarútlána voru að jafnaði til opinberra aðila. Skiptingin sveiflaðist nokkuð á milli ára. Þannig voru 62% af heildarútlánum til einstaklinga árið 2001 en árið 2008 var hlutfallið komið í 38%. Árið 2011 voru útlán til einstaklinga aftur orðin meiri hluti heildarútlána eða 63%. Lán til fyrirtækja, einkum í sjávarútvegi og þjónustustarfsemi, breyttust í samræmi við þessar sveiflur og voru 35% af heildarútlánum árið 2011.
Útlán sparisjóðsins voru jafnan í formi yfirdráttar eða skuldabréfa. Nokkur hluti lánanna var í erlendri mynt. Á árinu 2011 var öllum lánum sjóðsins í erlendri mynt breytt í íslenskar krónur, hvort sem lánin voru talin falla undir dóma um ólögmæt gengistryggð lán eða ekki.16 Í árslok 2011 voru skuldabréfalán 84% af heildarútlánum sparisjóðsins.
Staða á afskriftareikningi útlána hækkaði umtalsvert á árunum 2008 og 2009. Staðan í árslok 2007 nam rúmlega 80 milljónum króna eða 5% af heildarútlánum. Með umtalsverðum framlögum í afskriftareikning á árunum 2008 og 2009 hafði staðan fimmfaldast í árslok 2009 og nam þá 407 milljónum króna eða 21,5% af heildarútlánum.
Kröfur á lánastofnanir fjórfölduðust á árinu 2008 og námu 650 milljónum króna í árslok eða 20% af heildareignum. Þetta voru að mestu leyti innistæðubréf og aðrar innistæður í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf.17 Vægi krafna á lánastofnanir af heildareignum hélt áfram að vaxa á árunum 2009 til 2011 og námu þær 821 milljón króna eða 30% heildareigna árið 2010. Í árslok 2011 námu kröfur á lánastofnanir 803 milljónum króna. Sjóður og óbundnar innistæður í Seðlabanka voru óverulegur eignaliður hjá sparisjóðnum eða að jafnaði um 1,3% af heildareignum á tímabilinu.
Fjáreignir voru stækkandi eignaliður hjá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis á árunum 2001 til 2007. Bókfært virði fjáreigna sjöfaldaðist á árunum 2001 til 2007 og nam í árslok 2007 nærri 1,7 milljörðum króna. Á sama tíma fjórfölduðust heildareignir sparisjóðsins. Hlutfall fjáreigna af heildareignum sjóðsins hækkaði úr 24% í árslok 2001 í 40% í árslok 2007. Bókfært virði þeirra lækkaði hins vegar um tæpan helming árið 2008. Munaði þar mestu um 390 milljóna króna gangvirðislækkun hlutabréfa en þar að auki lækkuðu markaðsskuldabréf um 145 milljónir króna. Fjáreignir drógust enn frekar saman á árunum 2009 til 2011. Í lok árs 2011 nam bókfært virði þeirra 347 milljónum króna eða sem samsvaraði liðlega 13% af heildareignum. Til samanburðar má geta þess að hjá sparisjóðunum í heild var hlutfall fjáreigna af heildareignum 6,6% í árslok 2011.
Markaðsskuldabréf o.fl. með föstum tekjum voru stærsti fjáreignaliður sparisjóðsins í árslok 2001 og 2002 en eftir það sveiflaðist vægi þeirra töluvert. Árið 2005 nærri tvöfaldaðist skuldabréfaeign þegar veltuskuldabréf hækkuðu um 154 milljónir króna. Í árslok 2008 nam bókfært virði skuldabréfaeignar sparisjóðsins 161 milljón króna og hafði lækkað um tæpan helming frá fyrra ári. Meginástæða lækkunarinnar var niðurfærsla og virðisrýrnun á veltuskuldabréfum og verðbréfasjóðum.18 Árið 2009 nær þrefaldaðist þessi eignaliður og nam bókfært virði skuldabréfaeignar sparisjóðsins liðlega 421 milljón króna eða 15% heildareigna í árslok. Þar af voru 125 milljónir króna eign í skuldabréfum útgefnum af opinberum aðilum. Þessi eignaliður minnkaði aftur á árunum 2010 og 2011 og jafngilti tæplega 4% af heildareignum í árslok 2011.
Hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum voru vaxandi eignaliður á árunum 2001 til 2007. Í árslok 2006 námu hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum 348 milljónum króna eða 14% af heildareignum sjóðsins. Í árslok 2007 var bókfært virði þessa eignaliðar orðið 856 milljónir króna eða 29% af heildareignum. Þessi mikla aukning stafaði einkum af 132 milljóna króna gangvirðishækkun á eignarhlutanum í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. auk kaupa á hlutabréfum í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., Íslenskum verðbréfum hf. og stofnfjárbréfum í Sparisjóði Vestfirðinga, samtals fyrir 72 milljónir króna.19 Þá hækkaði virði verðbréfa í fjárvörslu hjá Íslenskum verðbréfum hf. um 135 milljónir króna.
Á árinu 2008 lækkaði gangvirði hlutabréfa umtalsvert og nam eign í hlutabréfum og öðrum verðbréfum 465 milljónum króna í lok árs. Stór hluti lækkunarinnar skýrðist af 148 milljóna króna niðurfærslu á eignarhlutnum í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. Í lok árs 2011 nam bókfært virði hlutabréfa og verðbréfa með breytilegum tekjum 235 milljónum króna eða 9% af heildareignum sjóðsins. Hlutur sparisjóðsins í hlutdeildarfyrirtækjum var óverulegur á ofangreindu tímabili, en nánar er fjallað um fjárfestingar sparisjóðsins hér aftar.
Liðurinn aðrar eignir greindust í rekstrarfjármuni, skattinneign og aðrar eignir. Rekstrarfjármunir voru stærsti hluta þessa liðar allt tímabilið nema árin 2008 og 2009. Aðrar eignir hækkuðu mikið á árunum 2008 og 2009 þegar tekjuskattsinneign myndaðist vegna tapreksturs sjóðsins. Í lok árs 2008 nam skattinneignin 77 milljónum króna og hækkaði í 125 milljónir króna í lok árs 2009 sem jafngilti 4,3% heildareigna. Í lok árs 2011 nam tekjuskattsinneign 22 milljónum króna eða innan við 1% heildareigna.
Skuldir
Innlán voru stærsti fjármögnunarþáttur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis frá 2001 til 2011. Innlán uxu jafnt og þétt frá 2001, en vöxturinn var þó minni undir lok tímabilsins. Samhliða aukinni lántöku minnkaði vægi innlána í fjármögnun sjóðsins á árunum 2004 til 2008 og voru innlán lægst 64% af heildarskuldum sparisjóðsins í árslok 2008. Þá var eigið fé sjóðsins orðið neikvætt og sjóðurinn því alfarið fjármagnaður með innlánum og lántöku. Hlutfall milli innlána og útlána sveiflaðist nokkuð en var samt alltaf yfir 100% hjá sparisjóðnum á tímabilinu. Lægst varð hlutfallið 108% í árslok 2004 en eftir 2008 hækkaði það mikið og var hæst 174% í lok árs 2011.
Lántökur sparisjóðsins voru eingöngu í formi lána frá lánastofnunum.20 Vert er því að skoða lántöku samhliða skuldum við lánastofnanir. Lántökur fóru fyrst að hafa áhrif á fjármögnun sjóðsins árið 2004. Hluti lántökunnar voru lán frá Íbúðalánasjóði sem notuð voru til að fjármagna íbúðalán en slíkt samstarf hófst árið 2004. Greiðsluflæði lánanna var selt til Íbúðalánasjóðs og áhættan sem þeim fylgdi þannig færð frá sparisjóðnum.21 Lántökur sparisjóðsins námu rúmum 516 milljónum króna í árslok 2007 en ríflega tvöfölduðust á árinu 2008 og námu rúmum milljarði króna í lok ársins. Hluta af hækkuninni, eða um 385 milljónir króna, mátti rekja til veikingar íslensku krónunnar en hluti lántökunnar var lánalína hjá Sparisjóðabankanum vegna útlána í erlendri mynt.22
Í árslok 2009 námu lántökur, þá flokkaðar sem skuldir við lánastofnanir, samtals 914 milljónum króna og var skuldareigandinn Seðlabanki Íslands. Á árinu 2010 var gert samkomulag við Seðlabankann um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins. Þá var hluti skuldarinnar, eða 735 milljónir króna, tekjufærður vegna skuldauppgjörsins í rekstrarreikningi. Eftir 2009 voru hvorki lántökur né skuldir við lánastofnanir færðar í bókum sparisjóðsins.
Aðrar skuldir greindust í reiknaðar skuldbindingar, víkjandi skuldir og aðrar skuldir. Liðurinn vó ekki þungt í heildarskuldum sparisjóðsins en fór þó hækkandi frá árinu 2006. Þá komu víkjandi lán fyrst inn í bækur sjóðsins upp á 60 milljónir króna. Sú fjárhæð óx til 2009 þegar hún náði hámarki í 133 milljónum króna. Um var að ræða lán frá Byggðastofnun. Víkjandi lán námu aldrei meira en 4% af heildarskuldum sparisjóðsins á tímabilinu. Reiknaðar skuldbindingar voru eingöngu til staðar frá 2005 til 2007 og voru að mestu óverulegar.
Eigið fé
Eigið fé Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis tók litlum breytingum frá 2001 til 2006. Árið 2007 hækkaði það hins vegar um 30% eftir 97 milljóna króna rekstrarhagnað og nam eigið fé 419 milljónum króna í árslok. Stofnfé hækkaði fyrst og fremst við endurmat milli ára. Eigið fé sparisjóðsins samanstóð nær algjörlega af varasjóði og var stofnfé einungis 0,4% af eigin fé að jafnaði frá 2001 til 2007. Í árslok 2007 var eiginfjárhlutfallið 14,3%. Mikill viðsnúningur varð hins vegar árið 2008 þegar sparisjóðurinn tapaði 525 milljónum króna. Eigið fé varð þá neikvætt um 105 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið neikvætt um 11,7%. Árið 2009 versnaði eiginfjárstaðan enn frekar með 373 milljóna króna tapi af rekstri sjóðsins. Eigið fé varð þá orðið neikvætt um 478 milljónir króna.
Skuldir sparisjóðsins voru endurskipulagðar árið 2010 en þá var gert samkomulag við Seðlabanka Íslands um uppgjör 915 milljóna króna skuldar sjóðsins við bankann. Hluta skuldarinnar, eða 105 milljónum króna, var breytt í stofnfé en 735 milljónir króna felldar niður og tekjufærðar. Mismunurinn, 75 milljónir króna, var andvirði íbúðalána sem sparisjóðurinn hafði lagt að veði hjá Sparisjóðabankanum og Seðlabankinn leysti til sín. Jafnframt fór fram uppgjör á 135 milljóna króna skuld sparisjóðsins við Byggðastofnun. Henni var allri breytt í stofnfé á genginu 1,5 krónur á hlut. Við það fóru 90 milljónir til hækkunar á stofnfé og 45 milljónir króna til hækkunar á varasjóði. Bankasýsla ríkisins tók við eignarhlut Seðlabankans og Byggðastofnunar og réð hún yfir 75,9% af stofnfé sjóðsins í árslok 2010. Tryggingarsjóður sparisjóða lagði auk þess til 60 milljónir króna sem nýtt stofnfé. Heildaraukning stofnfjár á árinu 2010 nam því samtals 255 milljónum króna.23
Hagnaður var af rekstri Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis á árinu 2010 upp á 511 milljónir króna. Meginskýringin á honum var fyrrnefnd tekjufærsla. Eigið fé í lok ársins nam tæplega 333 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið þá 16,4% eða rétt yfir því 16% lágmarki sem Fjármálaeftirlitið gerði að kröfu í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu. Árið 2011 var 62 milljóna króna tap á rekstri sjóðsins og í árslok nam eigið fé sjóðsins ríflega 285 milljónum króna en eiginfjárhlutfallið var 16,37%.
Útlán, útlánareglur og lánveitingar
Útlán Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis voru rúmlega helmingur eigna sparisjóðsins á árunum 2005–2011. Lægst var hlutfallið 50% árið 2010 en hæst 60% árið 2006. Útlán sparisjóðsins jukust jafnt og þétt á árunum 2005–2008. Mest var hækkunin um 16% á milli áranna 2007 og 2008, einkum vegna gengistryggðra lána. Útlánin fóru svo lækkandi frá árinu 2009 sökum þess að hærri framlög voru lögð í sérgreindan afskriftareikning vegna útlána.
Hlutfall gengisbundinna lána hjá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis fór ört vaxandi frá árinu 2005 og fór hæst í tæp 35% af heildarútlánum í lok árs 2008 og námu þau þá tæplega 740 milljónum króna samkvæmt skýrslum sjóðsins um útlán og vanskil.
Á árinu 2011 var öllum erlendum lánum sjóðsins breytt í lán í íslenskum krónum án tillits til þess hvort þau voru talin ólögleg eða ekki.24
Útlán gegn skuldabréfum voru algengasta útlánaform sparisjóðsins. Frá og með árinu 2008 voru gengistryggð skuldabréf flokkuð sér og voru þá önnur stærsta tegund útlána hjá sparisjóðnum. Þar á eftir komu yfirdráttarlán en aðrar útlánategundir voru fátíðar.
Einstaklingar voru stærsti hluti lántakenda á árunum 2005–2007. Hæst nam hlutfall einstaklinga 62% árið 2005 en lækkaði í rúm 50% 2006–2007. Árið 2008 breyttust hlutföll lántakenda töluvert og lækkaði hlutfall einstaklinga í 38% en hlutfall útlána til fyrirtækja hækkaði á móti. Fyrirtæki voru stærsti hluti lántakenda hjá sparisjóðnum á árunum 2008–2010 en á árinu 2011 hækkuðu lán til einstaklinga á ný og upp í 65% en lán til fyrirtækja lækkuðu að sama skapi niður í 35%. Af fyrirtækjum voru útlán til sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirtækja á sviði þjónustustarfsemi langstærst. Mjög lítill hluti útlána hjá sparisjóðnum var til landbúnaðar á árinu 2005, eða innan við 1%, en hlutur þeirrar atvinnugreinar jókst talsvert á árinu 2006 eða upp í 8% af útlánasafninu og enn frekar árið eftir. Hann hélst svo í kringum 12–14% fram til ársins 2010 þegar hlutfallið lækkaði niður í 5%.
Afskriftir námu aðeins um 5% af útlánasafni Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis á árunum 2005–2007. Árið 2008 námu afskriftir tæpum 15% af heildarútlánasafni sparisjóðsins en voru tæp 22% árið 2009 og 21% árið 2010. Samkvæmt endurskoðunarskýrslu ytri endurskoðanda sparisjóðsins vegna ársins 2010 voru færð framlög í afskriftareikning til að mæta hugsanlegu tapi sjóðsins vegna óvissu um lögmæti erlendra gengistryggðra lána. Á árinu 2011 hafði hlutfall afskrifta af útlánasafni sparisjóðsins lækkað í tæp 8%. Ástæða þess að afskriftareikningurinn lækkaði milli ára var sú að lán upp á 270 milljónir króna var afskrifað endanlega og fært úr bókum sjóðsins.25
28.2.1 Athugasemdir eftirlitsaðila
Á tímabilinu 2005 til 2011 var ekki unnin sérstök eftirlitsskýrsla um Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis af hálfu Fjármálaeftirlitsins.
Í skýrslu um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis fyrir árið 2005 var bent á mikilvægi þess að sjóðurinn aflaði fjárhagslegra upplýsinga frá viðskiptamönnum sínum en í nokkrum tilvikum höfðu slík gögn ekki legið fyrir. Einnig var bent á mikilvægi þess að forsvarsmenn sjóðsins öfluðu formlegra trygginga vegna skuldbindinga viðskiptamanna sinna þegar þess væri þörf.26 Þessi ábending var ítrekuð í skýrslum um innri endurskoðun árin 2006 til 2008. Við innri endurskoðun ársins 2007 var einnig bent á að mikilvægi þess að kanna raunvirði trygginga nokkurra stærstu viðskiptaaðila sparisjóðsins og afla viðbótartrygginga væri þess talin þörf. Í því sambandi voru tilteknir tveir af stærstu viðskiptaaðilum sjóðsins. Þá var einnig minnt á að skýrar verkalagsreglur um aðild sparisjóðsins að lánveitingum Sp-ráðgjafar ehf. þyrftu að vera til staðar.27 Í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2008 kom fram að ljóst væri að sjóðurinn hefði orðið fyrir umtalsverðu tapi vegna lána sem veitt voru að undirlagi Sp-ráðgjafar ehf. og að nokkuð hefði vantað upp á eftirlit með starfsemi þess. Auk þess var bent á að bæta þyrfti tryggingastöðu sparisjóðsins gagnvart stærstu viðskiptaaðilum sínum til að tryggja hagsmuni hans.28 Við skoðun ársins 2009 taldi innri endurskoðandi að kjör útlána endurspegluðu ekki áhættu sjóðsins við útlán, t.d. var einstaklingum í vanskilum veitt lán án trygginga. Var það álit innri endurskoðanda að gera þyrfti átak í innheimtumálum hjá sparisjóðnum svo hann yrði betur í stakk búinn til að taka ákvörðun um áframhaldandi innheimtuaðgerðir. Útbúa þyrfti reglur um innheimtu og skrá niður rök fyrir því ef vikið væri frá þeim.29 Í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2010 kom fram að mikill tími sparisjóðsstjóra hefði farið í innheimtu og að lögð hefði verið áhersla á mestu vanskil. Lagði innri endurskoðandi áherslu á að þeirri vinnu yrði haldið áfram og mikilvægt væri að halda vel utan um mál í innheimtu. Í innri endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2011 kom fram að vanskil virtust heldur vera að aukast hjá sjóðnum og væri það mál sem stjórnendur þyrftu að huga vel að.
Í endurskoðunarskýrslu sparisjóðsins fyrir árið 2005 kom fram að útlánaaukning ársins væri 269,2 milljónir króna. Þar af hefðu íbúðalán aukist um 151,6 milljónir króna og næmu 259,3 milljónum króna í árslok. Hafði sparisjóðurinn selt greiðsluflæði lána að eftirstöðvum 123,1 milljón króna til Íbúðalánasjóðs og áhættan um leið verið færð frá sparisjóðnum.30 Sama fyrirkomulag var til staðar árið 2006 en þá námu íbúðalán sparisjóðsins 292,4 milljónum króna. Í endurskoðunarskýrslu fyrir árið 2007 var bent á að vaxtamunur sjóðsins hefði lækkað verulega milli ára en hann var einungis 0,1%. Helsta skýring þess væri sú að tiltölulega hátt hlutfall útlána væri með föstum vöxtum sem væru á bilinu 4,15% til 5,0%. Á sama tíma væru innlán að aukast verulega og væri þar einkum um að ræða óverðtryggð innlán á háum vöxtum. Sögðu endurskoðendur sjóðsins að frá því að sjóðurinn hefði byrjað að veita íbúðalán á allt að 4,15% vöxtum árið 2005 hefðu þeir bent á þá hættu sem því fylgdi, þ.e. að sjóðurinn næði ekki að fjármagna sig á lægri kjörum vegna smæðar sinnar. Töldu endurskoðendur ekki líklegt að þessari þróun yrði snúið við á árinu 2008.31 Í endurskoðunarskýrslu ársins 2008 voru þessar ábendingar ítrekaðar. Þar kom fram að afskriftareikningur útlána í lok árs 2008 næmi 315,3 milljónum króna eða um 17,3% af útlánum og veittum ábyrgðum. Stærstu afskriftarframlögin væru vegna verkefna sem sparisjóðurinn hefði tekið þátt í með Sp-ráðgjöf eða um 199 milljónir króna. Mikil óvissa væri um stöðu margra þeirra útlána svo framlag í afskriftareikning vegna þeirra gæti orðið nokkurt á árinu 2009. Taldi ytri endurskoðandi sparisjóðsins mikilvægt að farið yrði varlega í slíkar lánveitingar, sérstaklega þar sem sparisjóðurinn þekkti ekki eins vel til þeirra viðskiptavina.32 Í endurskoðunarskýrslu ársins 2009 kom fram að framlag í afskriftareikning útlána væri 202,9 milljónir króna og að það skýrðist fyrst og fremst af auknum framlögum vegna lána í erlendri mynt utan heimasvæðis sparisjóðsins.33 Þar var um að ræða lán á vegum Sp-ráðgjafar ehf. Í endurskoðunarskýrslu ársins 2010 kom fram að ljóst væri að meiri óvissa væri um mat á útlánum en oftast áður. Greiðslugeta einstaklinga og fyrirtækja hefði almennt versnað á undanförnum árum; veruleg óvissa væri enn um lögmæti lána í erlendri mynt og áhrif samkomulags sem sjóðurinn átti aðild að sem ætlað var að leysa fjárhagsvanda einstaklinga og smærri fyrirtækja. Í endurskoðunarskýrslu ársins 2011 kom svo fram að enn væri óvissa um lögmæti lána sjóðsins í erlendri mynt og að sjóðurinn gæti orðið fyrir allt að 75 milljóna króna viðbótartapi ef þau reyndust öll ólögleg.
28.2.2 Útlánareglur
Stjórn Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis samþykkti útlánareglur sparisjóðsins 29. desember 2003. Reglurnar voru settar með vísan til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og þágildandi reglna nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Útlánareglurnar höfðu ekki að geyma ítarleg ákvæði um lánveitingar og heimildir. Samkvæmt reglunum bar útlánum að þjóna þeim meginmarkmiðum að eðlilegur tekjuafgangur yrði í rekstri sjóðsins og að traustri eigin- og lausafjárstöðu yrði viðhaldið. Jafnframt skyldi leitast við að veita þeim sem óskuðu eftir fyrirgreiðslu sem besta þjónustu á hverjum tíma.
Við ákvörðun um fyrirgreiðslu til viðskiptamanna bar að gæta þess að heildarfyrirgreiðsla viðkomandi aðila væri í hæfilegu hlutfalli af eigin fé sparisjóðsins34 með hliðsjón af tryggingum og fjárhag viðskiptaaðilans. Sama gilti um heildarfyrirgreiðslu til fleiri en eins aðila sem væru svo fjárhagslega tengdir að með tilliti til útlánaáhættu yrði að skoða skuldbindingar þeirra við sparisjóðinn í einu lagi. Heildarskuldbinding eins aðila eða fjárhagslega tengdra aðila mátti aldrei fara yfir 25% af eigin fé sparisjóðsins sem var sama hámark og fram kom í lögum um fjármálafyrirtæki.
Ekki voru nein ákvæði í útlánareglunum um lágmarkstryggingarþekju mismunandi veðandlaga (lágmarkstryggingarþekju) en samkvæmt reglunum bar að jafnaði að taka fullnægjandi tryggingar. Hjá sparisjóðnum voru í gildi leiðbeiningar um tryggingartöku fyrir útlánum og ábyrgðum frá árinu 1998 sem tilgreindu hvernig verðmati á tryggingarandlögum skyldi háttað og hver hámarksveðsetning væri vegna mismunandi tegunda trygginga. Til dæmis mátti hámarksveðsetning þegar um íbúðarhúsnæði var að ræða nema 65% af áætluðu verðmati en 50% þegar um aðrar fasteignir var að ræða. Ekki voru þó nein ákvæði í leiðbeiningunum um hámarksveðsetningarhlutfall hlutabréfa eða við hvaða aðstæður mætti beita undanþágu frá tryggingatöku. Samkvæmt útlánareglunum var heimilt að veita undanþágu frá tryggingatöku en gerð var krafa um fjárhagsupplýsingar og að fylgst væri með afkomu og fjárhag viðkomandi viðskiptamanns.
Sparisjóðsstjóri hafði heimild til að taka ákvörðun um lánveitingar ef heildarskuldbindingar viðkomandi viðskiptamanns og fjárhagslega tengdra aðila voru innan við 5% af eigin fé sparisjóðsins. Samþykki stjórnar þurfti til ef heildarskuldbindingin fór yfir 5%. Samkvæmt lánareglunum bar sparisjóðsstjórn, að fengnum tillögum sparisjóðsstjóra, að tilnefna staðgengil sparisjóðsstjóra til að annast lánveitingar og ábyrgðir í fjarveru hans.
Stjórn sparisjóðsins samþykkti auknar útlánaheimildir starfsmanna sparisjóðsins 18. júlí 2007 og var breytingin gerð með viðauka við útlánareglurnar frá árinu 2003. Samkvæmt viðaukanum hafði sparisjóðsstjóri áfram heimild til að samþykkja heildarfyrirgreiðslu viðskiptamanns eða fjárhagslega tengdra aðila sem nam allt að 5% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins en viðmiðunarfjárhæð hámarksfyrirgreiðslu var tilgreind sem 19 milljónir króna. Heimild staðgengils sparisjóðsstjóra var hækkuð úr 4 milljónum króna í 6 milljónir króna auk þess sem fulltrúar fengu útlánaheimildir.
Í reglum sparisjóðsins um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir útlána frá 200335 sagði í 4. gr. að almennum afskriftarframlögum væri ætlað að mæta tapi sem talið væri líklegt miðað við aðstæður á uppgjörsdegi vegna annarra skuldbindinga en þeirra sem metnar væru í sérstakri tapshættu. Samkvæmt 3. gr. reglnanna voru sérstök afskriftarframlög ætluð til að mæta áætluðu tapi vegna skuldbindinga lánþega sem á uppgjörsdegi voru metnir í sérstakri tapshættu. Þeir sem komu til skoðunar í því sambandi voru einkum þeir lánþegar sem a) hefðu verið í vanskilum í 3 mánuði eða lengur; b) væru komnir í greiðslustöðvun; c) gert hefði verið árangurslaust fjárnám hjá; d) væru gjaldþrota; e) hefðu lagt fram beiðni um nauðasamninga, eða f) aðrar aðstæður ættu við sem skertu gjaldþol eða greiðslugetu þeirra og gerðu það líklegt að ekki yrði staðið að fullu við lánasamninga.
Útlánareglur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis voru uppfærðar og endurútgefnar með samþykki stjórnar 11. apríl 2011. Nýju reglurnar voru settar á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar. Á sama tíma voru settar nýjar reglur um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra. Þá voru reglur sparisjóðsins um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir jafnframt endurnýjaðar í mars 2011.36
Nýju reglurnar fólu í sér ítarleg ákvæði um útlánastefnu sparisjóðsins, útlánaheimildir starfsmanna og viðmið við mat á greiðslugetu lántakenda. Í nýju reglunum var þó ekki frekar en í þeim gömlu að finna nein ákvæði um lágmarkstryggingarþekju mismunandi veðandlaga en samkvæmt reglunum bar að jafnaði að taka fullnægjandi tryggingar sem skyldu jafnan vera í auðseljanlegum eignum. Þó var sérstaklega tilgreint í útlánareglunum að raunmat á tryggingarandlögum skyldi fara fram og gögn því til staðfestingar skyldu skjalfest þegar um veð væri að ræða. Útlánaheimildir sparisjóðsstjóra voru hækkaðar í 10% af eiginfjárgrunni og heimild staðgengils hans í 10 milljónir króna. Heimild forstöðumanns á Kópaskeri og annarra starfsmanna sem sparisjóðsstjóri veitti útlánaheimild var takmörkuð við 5 milljónir króna.
28.2.3 Stærstu lántakendur
Útlán voru stærsta eign Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis og afskriftir af þeim höfðu teljanleg áhrif á rekstrarárangur sparisjóðsins. Rannsóknarnefndin valdi úrtak lántaka til sérstakrar skoðunar og greiningar. Markmiðið með skoðun á úrtakinu var að varpa ljósi á útlánastefnu sparisjóðsins, starfshætti útlánastarfsemi og ástæður afskrifta. Úrtakið var valið með hliðsjón af stærð áhættuskuldbindinga við sparisjóðinn auk þess sem skoðuð voru sérstaklega lán þar sem sparisjóðurinn færði háar afskriftir.37
Skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar samkvæmt reglum nr. 216/2007 er ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu.38 Úrtak rannsóknarnefndarinnar samanstóð af lántakendum sem voru tilgreindir sem stærstu áhættuskuldbindingar sparisjóðsins í ársfjórðungsskýrslum til Fjármálaeftirlitsins á árunum 2007 til 2011. Eiginfjárgrunnur sparisjóðsins var orðinn neikvæður í árslok 2008 og notaðist sparisjóðurinn því við eiginfjárgrunninn eins og hann var 30. júní 2008 í skýrslum sínum allt fram til ársins 2011 samkvæmt fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins.39
Til viðbótar við helstu áhættuskuldbindingar sjóðsins voru í úrtakinu lántakendur sem fært hafði verið sérgreint framlag í afskriftareikning vegna á árunum 2007 til 2011. Úrtakið nær til 12% til 18% útlánasafns og 0% til 63% af sérgreindum afskriftaframlögum eftir því til hvaða árs er litið. Ástæða þess að úrtakið sem er hér til umfjöllunar nemur ekki hærra hlutfalli af útlánasafni sparisjóðsins er dreifing útlánasafnsins en í því var fjöldi einstaklinga með íbúðalán sem ekki þótti ástæða til að fjalla um hér. Dreifing útlánasafns annars vegar og dreifing sérgreindra afskrifta hins vegar sýnir að fá lán hafa staðið undir meirihluta rekstrarvanda í tengslum við útlán.
Í úrtakinu eru níu lánahópar sem allt voru lögaðilar. Búið var að afskrifa endanlega stóran hluta af skuldbindingum lántakenda í úrtaki rannsóknarnefndarinnar fyrir árið 2011 og voru því nánast engar skuldbindingar eða sérgreindar afskriftir til staðar hjá umræddum aðilum í árslok 2011.
Einn lánahópurinn í úrtaki rannsóknarnefndarinnar starfaði á sviði fánaprentunar en hinir átta voru með skuldbindingar sem voru til komnar fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf.40 Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis var þátttakandi í Sp-ráðgjöf ehf. og var hlutur sparisjóðsins í heildarlánum vegna þeirra verkefna yfirleitt um 15%.41 Félögin sem fengu lán fyrir tilstuðlan Sp-ráðgjafar ehf. voru í flestum tilvikum nýstofnuð einkahlutafélög sem fengu lán í erlendri mynt til kaupa á öðru einkahlutafélagi í rekstri, s.s. heildverslunum með skrifstofuvörur, vinnufatnað og rafeindabúnað, veitingahúsi eða hótelrekstri. Oftast var um 100% fjármögnun að ræða og sameinuðust nýstofnuðu einkahlutafélögin keypta félaginu með öfugum samruna í kjölfar kaupanna. Til tryggingar lánunum voru ýmist veð í fasteignum eða veð í hlutabréfum yfirtekna félagsins (keypta félagsins) með 100% veðsetningarhlutfalli. Á árinu 2008 tvöfölduðust þessi lán vegna veikingar íslensku krónunnar. Mörg félaganna höfðu þá ekki nægjanlegt sjóðstreymi til að greiða af skuldum sínum. Allir þessir lántakendur urðu á endanum gjaldþrota og neyddist Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis til að afskrifa stóran hluta af lánunum.
Að sögn Guðna Arnar Haukssonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, tók sparisjóðurinn ákvörðun um að taka þátt í verkefnum á vegum Sp-ráðgjafar ehf. á árinu 2007 því útlánageta sparisjóðsins var töluverð en möguleikar til að auka útlán á eigin starfssvæði voru litlir. Sá sparisjóðurinn tækifæri í því að fara í þetta samstarf til að hagnast á þóknunartekjum og gengismun.42
Þátttaka sparisjóðsins í verkefnum frá Sp-ráðgjöf ehf. var einn helsti veikleikinn í útlánasafninu af úrtaki og skoðun rannsóknarnefndarinnar að dæma.43 Á árinu 2008 voru tæpar 199 milljónir króna færðar sem sérgreind framlög í afskriftareikning sparisjóðsins vegna lánanna eða sem nam 75% af sérgreindum niðurfærslum. Í skýrslu um innri endurskoðun sparisjóðsins vegna áranna 2007 og 2008 var lögð sérstök áhersla á að til staðar væru skýrar verklagsreglur um aðild sparisjóðsins að lánum Sp-ráðgjafar ehf. Í innri endurskoðunarskýrslu sparisjóðsins vegna ársins 2008 var tekið fram að ljóst væri að sjóðurinn hefði orðið fyrir umtalsverðu tjóni vegna lána fyrir tilstilli Sp-ráðgjafar ehf. og að vantað hefði upp á eftirlit með starfseminni.
Af öðrum lántakendum hjá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis sem ekki voru teknir til sérstakrar skoðunar af rannsóknarnefndinni voru útgerðarfélög áberandi á árunum 2008–2011. Samkvæmt skýrslum sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar á árunum 2008 voru skuldbindingar þessara aðila vel tryggðar, meðal annars með veðum í skipum og aflaheimildum.
Af úrtaki rannsóknarnefndar að dæma virðist almennt hafa verið farið að útlánareglum við lánveitingar hjá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis. Veðsetningarhlutföll á lánum sem veitt voru í tengslum við Sp-ráðgjöf ehf. voru hins vegar ekki í samræmi við það sem fram kom í útlánareglum sparisjóðsins og leiðbeiningum um tryggingartöku fyrir útlánum.
Lán í erlendum myntum hjá sparisjóðnum meira en tvöfölduðust á árinu 2008, fyrst og fremst vegna lækkunar á gengi íslensku krónunnar en á sama tíma rýrnaði eigið fé sparisjóðsins.44 Samkvæmt skýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar á árunum 2008–2011 var hins vegar enginn lántaki skráður með skuldbindingar yfir 25% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Eins og framar segir var eiginfjárgrunnur sparisjóðsins neikvæður frá haustinu 2008 og var í skýrsluskilum eftir það miðað við eiginfjárgrunninn eins og hann var 30. júní 2008. Stærstu skuldararnir voru auk þess flestir með sérgreinda niðurfærslu á afskriftareikningi sem lækkaði áhættuskuldbindingu þeirra gagnvart sparisjóðnum.
Rannsóknarnefndin taldi ástæðu til að gera frekari grein fyrir málum átta lánahópa, hvort unnið hafi verið í samræmi við lög og lánareglur sparisjóðsins og hvernig afskriftarfþörf var metin. Að öðru leyti gaf rannsókn á öðrum lánahópum í úrtakinu ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.
Hexa ehf.
Hexa ehf.45 var félag sem starfaði við innflutning og sölu á vinnufatnaði. Stærsti hluthafi félagsins var Guðmundur Sigþórsson með tæplega 44% eignarhlut.46 Sp-ráðgjöf ehf. hafði upphaflega haft milligöngu um fjármögnun við kaup á öllu hlutafé Hexa ehf. í maí 2007 fyrir 277 milljónir króna en Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis tók ekki þátt í þeirri fjármögnun.
Um mitt ár 2007 leitaði Hexa ehf. til Sp-ráðgjafar ehf. með beiðni um lán til kaupa á einkahlutafélaginu Kolti ehf. sem átti og rak vinnufataverslun undir nafninu Þjarkur á Smiðjuvegi 6 í Kópavogi. Heildarkaupverðið var 240 milljónir króna. Lagt var til að Protinus ehf., eignarhaldsfélag í eigu nokkurra sparisjóða,47 myndi til viðbótar lánveitingunni kaupa fasteign Kolts ehf. að Smiðjuvegi 6 í Kópavogi á 46 milljónir króna og leigja félaginu hana síðan þar til svigrúm gæfist til að kaupa fasteignina til baka.
Hinn 7. september 2007 fékk Hexa ehf. 240 milljóna króna lán fyrir tilstilli Sp-ráðgjafar ehf. Þar af voru 194 milljónir króna til kaupa á rekstri, lager og tækjum Kolts ehf., 30 milljónir króna til að endurfjármagna eldri skuldir Kolts ehf. og 16 milljónir króna til að greiða kostnað við lántöku og þóknun til Sp-ráðgjafar. Um var að ræða 100% fjármögnun og ekkert eiginfjárframlag af hálfu kaupanda. Fjármögnunin skiptist í þrjú lán í erlendum myntum. Til tryggingar lánunum var 1. veðréttur í öllum hlutum Hexa ehf. í Kolti ehf. og óútfyllt tryggingarvíxilform, útgefin af Hexa ehf.
Sparisjóður Bolungarvíkur var í forsvari fyrir verkefnið og í framhaldinu voru gerðir samningar milli Sparisjóðs Bolungarvíkur og annarra sparisjóða sem voru þátttakendur í Sp-ráðgjöf ehf. um aðild þeirra og fjármögnun. Hlutur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis var 14% í heildarfjármögnuninni eða 33,6 milljónir króna og fékk sparisjóðurinn hlutfallslega sama rétt til trygginga og annarra réttinda samkvæmt lánasamningunum. Lánveitingin var samþykkt af stjórn Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis á fundi 12. september 2007. Í töflu 14 má sjá skiptingu lánanna og hluta Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis í verkefninu.
Tæpum þremur mánuðum eftir undirritun lánasamninganna leitaði Hexa ehf. aftur til Sp-ráðgjafar ehf. með beiðni um 43 milljóna króna viðbótarlán að viðbættum kostnaði. Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis tók ekki þátt í þeirri fjármögnun.
Erlend lán Hexa ehf. hækkuðu talsvert á árinu 2008 sökum óhagstæðra gengisbreytinga og gat félagið ekki staðið við hækkaðar skuldbindingar sínar. Fram kom í skýrslu um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 11. desember 2008 að vanskil félagsins næmu um 7,5 milljónum króna og fyrir lægi að „afskrifa 56% af lánveitingunni og breyta 20% í hlutafé. [Það yrði] gert með því að færa eignir Hexa ehf. yfir í nýtt félag og skilja gamla félagið eftir sem þrotabú.“48
Í lok árs 2008 nam heildarskuldbinding félagsins hjá sparisjóðnum rúmum 75 milljónum króna sem jafngilti tæpum 22% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.49 Samkvæmt skýrslu sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar 31. desember 2008 var áætlað verðmæti trygginga Hexa ehf. 32,5 milljónir króna. Sökum tryggingaskorts voru lagðar rúmar 42 milljónir króna á sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga félagsins.
Ekki liggja fyrir upplýsingar úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra um það hvert eignir Hexa ehf., þar á meðal einkahlutafélagið Koltur ehf., voru seldar en samkvæmt skýrslu um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis vegna ársins 2009 var búið að selja allar eignir félagsins fyrir lok árs 2009 og ljóst að aðeins 8% yrðu greidd upp í lán félagsins. Hexa ehf. var úrskurðað gjaldþrota í september 2009 og í lok ársins nam heildarskuldbinding við sparisjóðinn rúmum 82 milljónum króna. Þá voru færðar tæpar 76 milljónir króna á sérgreindan afskriftareikning.
Krafa Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis á hendur Hexa ehf. var endanlega afskrifuð á árinu 2010 en hún nam þá rúmum 83 milljónum króna. Helsta eign Hexa ehf., Koltur ehf., var úrskurðað gjaldþrota í janúar 2010.
DGN ehf.
DGN ehf. var fasteignafélag í eigu Dagbjarts Bjarnasonar, Gísla Ingasonar og Nikulásar K. Jónssonar en sömu aðilar áttu einnig Hróa Hött ehf. sem rak veitingahúsakeðju. DGN ehf. var stofnað á árinu 2007 og útvegaði Sp-ráðgjöf ehf. fjármögnun vegna kaupa félagsins á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu sem síðan voru leigðar Hróa Hetti ehf.
DGN ehf. og Sparisjóður Bolungarvíkur undirrituðu lánasamning 26. september 2007 um lán í erlendum myntum að jafnvirði 160 milljónir króna til að kaupa fasteignirnar Smiðjuveg 4a í Kópavogi og Hjallahraun 13 í Hafnarfirði. Kaupverð fasteignanna nam samtals 161 milljón króna og var því nánast ekkert eigið fé lagt fram við kaupin. Síðan voru gerðir samningar milli Sparisjóðs Bolungarvíkur og annarra sparisjóða sem voru þátttakendur í Sp-ráðgjöf ehf. um aðild þeirra að verkefninu og fjármögnun þeirra í því. Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis fjármagnaði 15% hlut í verkefninu eða sem nam um 24 milljónum króna. Tryggingar fyrir heildarfjármögnuninni voru tryggingarbréf með 1. veðrétti í hinum keyptu fasteignum og fékk Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis hlutfallslega sama rétt til trygginga og annarra réttinda samkvæmt lánasamningi. Lánveitingin var samþykkt af stjórn sparisjóðsins á fundi 26. september 2007.
Erlent lán DGN ehf. hækkaði talsvert á árinu 2008 sökum óhagstæðra gengisbreytinga en í lok árs 2008 nam heildarskuldbinding félagsins hjá sparisjóðnum tæpum 58 milljónum króna sem var 16,8% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.50 Í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2008 kom fram að sparisjóðsstjóri teldi að tryggingar félagsins væru í góðum eignum en hækkunin á láninu hefði valdið tryggingarvöntun sem næmi um helmingi af heildarfyrirgreiðslunni. Því voru lagðar tæpar 33 milljónir króna sem sérgreint framlag í afskriftareikning í lok árs 2008 vegna skuldbindinga félagsins.
Í lok árs 2009 nam heildarskuldbinding DGN ehf. við sparisjóðinn rúmri 61 milljón króna og voru 46 milljónir króna lagðar sem sérgreint framlag í afskriftareikning vegna skuldbindinga félagsins. Samkvæmt skýrslu um innri endurskoðun sparisjóðsins vegna ársins 2009 lágu ekki fyrir fjárhagslegar upplýsingar um DGN ehf. og talið líklegt að afskrifa þyrfti 75% af láninu. Því hafi framlag í sérgreindan afskriftareikning á árinu numið um 11 milljónum króna.
Í árslok 2010 nam heildarskuldbinding DGN ehf. rúmum 66 milljónum króna og hélst 46 milljóna króna afskriftaframlagið óbreytt. Samkvæmt skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2010 vantaði enn talsvert upp á tryggingar vegna skuldbindinga félagsins.
DGN ehf. var á skýrslu sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar 30. september 2011 og nam þá heildarskuldbinding félagsins rúmum 75 milljónum króna. Eftir að tekið hafði verið tillit til tæplega 49 milljóna króna afskriftaframlags var áhættuskuldbindingin 8% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Fyrir árslok 2011 hafði lán DGN ehf. verið endurreiknað og breytt í íslenskar krónur. Rúmar 59 milljónir króna voru afskrifaðar við endurútreikninginn og nam heildarskuldbinding DGN ehf. tæpum 11 milljónum króna í árslok 2011. DGN ehf. var úrskurðað gjaldþrota í september 2012.
Kollafoss ehf.
Kollafoss ehf. var fjárfestingafélag sem stofnað var í nóvember 2007 af feðgunum Pétri Inga Arnarsyni og Erni Einarssyni. Mánuði síðar, í desember 2007, leitaði Kollafoss ehf. til Sp-ráðgjafar ehf. með beiðni um lán vegna kaupa á Akron ehf., félagi sem sérhæfði sig í framleiðslu á ýmsum plastvörum. Kaupverðið var 140 milljónir króna og fékk Kollafoss ehf. 130 milljónir króna lánaðar með milligöngu Sp-ráðgjafar ehf. vegna kaupanna.
Hinn 17. desember 2007 voru undirritaðir tveir lánasamningar í erlendum myntum milli Kollafoss ehf. og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda. Annars vegar um lán til 12 ára að jafnvirði 92 milljóna króna og hins vegar um lán til 3 ára að jafnvirði 38 milljóna króna. Til tryggingar var 106 milljóna króna tryggingarbréf með 1. veðrétti í fasteign að Síðumúla 31 í Reykjavík, og með 2. veðrétti í annarri fasteign að Síðumúla 31 á eftir 1 milljón króna frá Landsbanka Íslands hf. Þá var gefið út 44 milljóna króna tryggingarbréf með 1. veðrétti í öllum rekstrartækjum, vörubirgðum og vörureikningum sem Kollafoss ehf. átti eða kynni að eignast síðar. Þá var tekið handveð í öllum eignarhlutum Arnar og Péturs Inga í Kollafossi ehf. auk allra hluta Kollafoss ehf. í Akron ehf. Þar að auki voru handveð í tveimur bankareikningum í eigu Kollafoss ehf. hjá Sparisjóði Húnaþings og Stranda og veð í öllum almennum fjárkröfum Akron ehf. á hendur kreditkortafyrirtækjum. Þá gaf Kollafoss ehf. út tvo tryggingarvíxla til handa Sparisjóði Húnaþings og Stranda, þar sem félagið var greiðandi.
Síðan voru gerðir samningar milli Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og annarra sparisjóða sem voru þátttakendur í Sp-ráðgjöf ehf. um aðild þeirra að fjármögnun verkefnisins. Hlutur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis var 15% í heildarfjármögnuninni eða 19,5 milljónir króna, og fékk sparisjóðurinn sömu hlutdeild í tryggingum og öðrum réttindum samkvæmt lánasamningunum.
Umfjöllun um lánið til Kollafoss ehf. var ekki færð til bókar í fundargerðum stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis en fyrirgreiðslan rúmaðist innan lánaheimilda sparisjóðsstjóra samkvæmt viðauka við lánareglurnar frá júlí 2007.51
Vegna veikingar íslensku krónunnar á árinu 2008 hækkuðu lán Kollafoss ehf. talsvert. Í árslok nam heildarskuldbinding Kollafoss ehf. við sparisjóðinn rúmum 43 milljónum króna sem jafngilti 12,6% af eiginfjárgrunni sjóðsins.52 Fram kom í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2008 að áætlað verðmæti trygginga félagsins í fasteignum væri um 22 til 24 milljónir króna en óvíst væri um verðmæti handveðs í hlutabréfum Akron ehf. og Kollafoss ehf. Ekki var getið um verðmæti annarra veða. Innri endurskoðandi áætlaði að skortur væri á tryggingum sem næmi 13 til 15 milljónum króna og að gera þyrfti ráð fyrir framlagi í afskriftareikning vegna skulda félagsins.53 Það hafði ekki verið gert í árslok 2008.
Á miðju ári 2009 var öfugur samruni Kollafoss ehf. og Akron ehf. staðfestur og var Kollafossi ehf. slitið í kjölfarið. Í lok árs 2009 hafði heildarskuldbinding félagsins hækkað í rúmar 46 milljónir króna en eftir að tekið hafði verið tillit til 16,5 milljóna króna afskriftaframlags nam áhættuskuldbindingin 8,7% af eiginfjárgrunni sjóðsins. Akron ehf. var í vanskilum með tæpar 4 milljónir króna í árslok 2009. Fram kom í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2009 að gert væri ráð fyrir að endurheimtur sparisjóðsins vegna fyrirgreiðslunnar til félagsins yrðu 30% og því væri gert ráð fyrir viðbótarafskriftarframlagi sem næmi 15,5 milljónum króna. Samtals voru 32 milljónir króna færðar í afskriftareikning sparisjóðsins í lok árs 2009 vegna skuldbindinga félagsins.
Á fundi stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2. febrúar 2010 var fjallað um sölu á eignum plastframleiðslufélagsins til einkahlutafélags að nafni Formatlausnir ehf., sem einnig var í eigu feðganna, og segir um það í fundargerð:
Heildarskuld Akron ehf. er nú 360 milljónir/S.Þ.=47 milljónir. Eignir þess verða seldar á 120 m. til Formats en rest verður afskrifuð enda Akron ehf. þá eignalaust. Tillaga er því að afskrifa 33 milljónir en láta afgang lánsins fylgja sölunni […]. Tillagan samþykkt.
Nýtt skuldabréf að fjárhæð rúmar 14 milljónir króna var gefið út af Formatlausnum ehf. í apríl 2010 og rúmar 32 milljónir króna endanlega afskrifaðar af skuldbindingum Akron ehf. á sama ári. Formatlausnir ehf. var úrskurðað gjaldþrota í september 2012 og Akron ehf. í nóvember 2013.
Arnarmýri ehf.
Arnarmýri ehf. var stofnað í febrúar 2007 og var fjárfestingarfélag í eigu Magnúsar Jaroslavs Magnússonar og Karls Björgvins Brynjólfssonar.54 Þeir leituðu til Sp-ráðgjafar ehf. fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags með beiðni um lán til að kaupa heildverslunina Eico ehf.55 sem sérhæfði sig í sölu á ýmsum rafeindabúnaði. Kaupverðið var 57 milljónir króna auk yfirtöku á heildarskuldum Eico ehf., samtals um 90 milljónir króna. Samkomulag var undirritað 1. mars 2007 þar sem Sparisjóður Húnaþings og Stranda staðfesti að sjóðurinn myndi lána allt að 90 milljónum króna til kaupanna og var kaupsamningur undirritaður milli Arnarmýrar ehf. og seljanda Eico ehf. sama dag.
Þrír lánasamningar í erlendum myntum voru undirritaðir 27. mars 2007 milli Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og Arnarmýrar ehf., samtals að jafnvirði 95 milljóna króna eða 5 milljónum króna hærri fjárhæð en upphaflega hafði verið samþykkt. Fyrsta lánið var til sjö ára að jafnvirði 31 milljónar króna, annað til fimm ára að jafnvirði 31 milljónar króna og það þriðja var eingreiðslulán til þriggja ára að jafnvirði 33 milljóna króna. Til tryggingar voru gefin út handveð í tveimur reikningum í eigu Arnarmýrar ehf., handveð í öllum hlutum félagsins í Eico ehf. auk handveðs í öllum hlutum Karls Björgvins og Magnúsar Jaroslavs í Arnarmýri ehf. Þá voru afhentir tveir tryggingarvíxlar útgefnir af Arnarmýri ehf. auk þess sem Eico ehf. gaf út yfirlýsingu um kvöð (e. negative pledge) sem laut að því að allar almennar fjárkröfur, vörubirgðir og allt óskráð lausafé í eigu félagsins yrði ekki sett að veði fyrir skuldbindingum félagsins gagnvart öðrum en Sparisjóði Húnaþings og Stranda.
Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis var með 22% hlut í fjármögnuninni eða samtals tæpa 21 milljón króna. Gerðir voru aðildarsamningar á milli Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og annarra sparisjóða sem tóku þátt í verkefninu þar sem fram kom að þátttakendur ættu hlutfallslegan rétt samkvæmt lánasamningunum við Arnarmýri ehf., þar á meðal til trygginga. Í töflu 16 getur að líta yfirlit yfir lánasamninga Arnarmýrar ehf. og hlut sparisjóðsins í fjármögnuninni.
Lánið var kynnt á stjórnarfundi Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 28. febrúar 2007 og kom þar fram að málið væri í vinnslu. Stjórn sparisjóðsins fjallaði ekki um samþykki sitt fyrir lánveitingunni. Arnarmýri ehf. og Eico ehf. voru sameinuð með öfugum samruna undir nafni Eico ehf. samkvæmt samrunaáætlun sem dagsett var 2. maí 2007 í kjölfar skuldsettrar yfirtöku Arnarmýrar ehf. á Eico ehf., en Arnarmýri ehf. var afskráð í október 2007. Eico ehf. skilaði ekki inn ársreikningi allt frá árinu 2006.
Á árinu 2008 hækkuðu lán Eico ehf. talsvert sökum óhagstæðra gengisþróunar. Fjallað var um stöðu lána félagsins á fundi stjórnar 25. júlí 2008 og var tekið fram að hún væri „erfið“. Í lok árs 2008 nam heildarskuldbinding félagsins rúmum 43 milljónum króna sem var 12,6% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.56 Samkvæmt skýrslu sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar 31. desember 2008 voru tryggingar félagsins metnar á tæpar 5 milljónir króna og voru tæpar 34 milljónir króna færðar á sérgreindan afskriftareikning Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis.
Á fundi stjórnar 20. febrúar 2009 kom fram að búið væri að selja félagið, nýir aðilar hefðu tekið yfir reksturinn og að afskrifa þyrfti endanlega stóran hluta af lánum félagsins. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra í janúar 2009 hafði Kristján Hjelm hjá Sp-ráðgjöf ehf. tekið sæti í stjórn Eico ehf. og nafni félagsins hafði verið breytt í Steinsnef ehf.
Á árinu 2009 voru tæpar 44 milljónir króna endanlega afskrifaðar vegna lána til félagsins.57 Eico ehf. var úrskurðað gjaldþrota í maí 2010.
Fálkamýri ehf.
Fálkamýri ehf. var stofnað árið 2007 og var eignarhaldsfélag í eigu JK Fjárfestingar ehf. sem var í eigu Magnúsar Jaroslavs Magnússonar og Karls Björgvins Brynjólfssonar. Fálkamýri ehf. leitaði til Sp-ráðgjafar ehf. með beiðni um fjármögnun til kaupa á einkahlutafélaginu Tarra ehf. sem rak heildverslun og smásölu með ýmsar skrifstofuvörur og fleiri vörur. Tarra ehf. var þá í eigu Karls.58
Kristján Hjelm, starfsmaður Sp-ráðgjafar ehf., sendi tölvuskeyti til samstarfsaðila í Sp–ráðgjöf ehf. 8. maí 2007 og kynnti lánsbeiðnina fyrir sparisjóðsstjórum í þeim sjóðum sem voru þátttakendur í Sp-ráðgjöf ehf. en þar sagði meðal annars:
Strákarnir í Eico ætla að kaupa félag sem heitir Tarra ehf. […] Í sjálfu sér á þessi starfsemi ekki beint samleið með Eico nema í þeim skilningi að framkvæmdastjóri Eico (Karl) vann áður í samskonar fyrirtæki. Hagræðingin felst í starfsmannamálum t.d. verður sameiginlegt rými notað í birgðahald og starfsmannaaðstöðu. […] Félagið var með töluverðan fjármagnskostnað og var frekar illa fjármagnað.
Heildarfjármögnun verður um 96 m.kr. þ.a. kaupverð verður um 25 m.kr. Eiginfjárframlag verður um 20 m.kr. (Sparisjóðurinn (Protinus) með þ.a. 4 m.kr. exit eftir 24 mánuði með 2 m.kr. x gengið 5 og exit eftir 36 mánuði með 2 m.kr. með x gengið 6). Við lánum þeim fyrir eiginfjárframlaginu og þeir verða með krossveð hjá hvor öðrum (verður sett upp hluthafasamkomulag sem tekur t.d. á þessu).59
Kaupsamningur um allt hlutafé Tarra ehf. var undirritaður 1. júlí 2007 og var kaupverðið 25 milljónir króna en samtals fékk Fálkamýri ehf. 96 milljónir króna að láni fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf., meðal annars til að endurfjármagna eldri skuldir Tarra ehf. Til viðbótar var undirritaður kaupsamningur 2. júlí 2007 þar sem Protinus ehf., eignarhaldsfélag í eigu sparisjóðanna sem stóðu að Sp-ráðgjöf ehf., keypti 20% í Tarra ehf. af Fálkamýri ehf. á 1,2 milljónir króna.
Hinn 7. nóvember 2007 voru undirritaðir þrír lánasamningar í erlendum myntum milli Fálkamýrar ehf. og Sparisjóðs Strandamanna. Fyrsta lánið var að jafnvirði 56 milljóna króna til sjö ára, annað var eingreiðslulán til þriggja ára að jafnvirði 36 milljóna króna og það þriðja var eingreiðslulán til þriggja ára að jafnvirði 16 milljóna króna. Til tryggingar var handveðssamningur með veði í reikningi Fálkamýrar ehf. í Sparisjóði Húnaþings og Stranda, handveð í öllum hlutum Karls Björgvins og Magnúsar Jaroslavs í Fálkamýri ehf., tryggingarbréf með 1. veðrétti í öllum rekstrartækjum, vörubirgðum, vörureikningum og veði í sérgreindu lausafé Fálkamýrar ehf., og handveð í öllum hlutum Fálkamýrar í Tarra ehf. (80%).
Síðan voru gerðir aðildarsamningar á milli Sparisjóðs Strandamanna og annarra sparisjóða sem tóku þátt í verkefninu. Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis var með 15% hlut eða rúmar 16 milljónir króna. Þá var því lýst yfir í aðildarsamningnum að Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis fengi 15% hlutdeild í réttindum samkvæmt lánasamningum, þar á meðal tryggingum. Stjórn Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis fjallaði ekki um lánið til Fálkamýrar ehf. en lánsfjárhæðin var innan lánsheimildar sparisjóðsstjóra samkvæmt viðauka við útlánareglur sparisjóðsins frá júlí 2007.60
Á miðju ári 2008 voru Fálkamýri ehf., Arnarmýri ehf. og JK Fjárfesting ehf. komin í fjárhagsvandræði. Fjallað var um stöðu lána félaganna á fundi stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 25. júlí 2008 og var tekið fram að hún væri „erfið“. Fálkamýri ehf. skilaði ekki inn ársreikningi allt frá stofnun þess árið 2007. Móðurfélagið, JK Fjárfesting ehf., skilaði aðeins inn ársreikningi fyrir árið 2007 en ekki fyrir síðari ár.
Lán Fálkamýrar ehf. í erlendum myntum hækkuðu talsvert á árinu 2008 vegna óhagstæðrar gengisþróunar og í lok ársins nam heildarskuldbinding félagsins tæpum 37 milljónum króna og jafngilti áhættuskuldbindingin 10,7% af eiginfjárgrunni Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis.61 Samkvæmt skýrslu sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar 31. desember 2008 var áætlað verðmæti trygginga félagsins rúmar 3 milljónir króna. Var rúm 31 milljón króna eða 85% af heildarskuldbindingu félagsins færð sem sérgreint framlag í afskriftareikning sparisjóðsins. Á árinu 2009 voru rúmar 36 milljónir króna endanlega afskrifaðar vegna lána til Fálkamýrar ehf.
Tarra ehf. var úrskurðað gjaldþrota í maí 2010. Fálkamýri ehf. var afskráð af hlutafélagaskrá ríkisskattstjóra í janúar 2011 á grundvelli 83. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, en slíkri heimild er beitt ef hlutafélagaskrá telur sig hafa upplýsingar um það, m.a. frá ársreikningaskrá, að einkahlutafélag hafi hætt störfum, félagið sé án starfandi stjórnar, endurskoðanda eða skoðunarmanns eða það sinni ekki tilkynningaskyldu sinni til skráarinnar.
Hrói Höttur ehf.
Hrói Höttur ehf. var í eigu Dagbjarts Bjarnasonar, Gísla Ingasonar og Nikulásar K. Jónssonar og rak veitingahúsakeðju undir sama nafni. Þeir keyptu reksturinn í byrjun árs 2007 og hafði Sp-ráðgjöf ehf. milligöngu um fjármögnun kaupanna. Sömu aðilar og áttu Hróa Hött ehf. áttu einnig fasteignafélagið DGN ehf., sbr. umfjöllun hér framar.
Samtals fékk Hrói Höttur ehf. lánað jafnvirði 95 milljóna króna í erlendum myntum fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar vegna kaupanna, en kaupverðið var 125 milljónir króna. Fjármögnunin skiptist í þrjú lán í erlendum myntum og voru samningar um lánin gerðir við Sparisjóð Bolungarvíkur og undirritaðir 28. febrúar 2007. Síðan voru gerðir aðildarsamningar á milli Sparisjóðs Bolungarvíkur og annarra sparisjóða sem tóku þátt í verkefninu. Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis var með 15% hlut í fjármögnuninni eða sem nam rúmum 14 milljónum króna. Í töflu 18 má sjá skiptinguna.
Til tryggingar lánunum var 1. veðréttur í rekstrartækjum, vörubirgðum og vörureikningum félagsins, leigurétti Hróa Hattar ehf. í þremur fasteignum, 1. veðréttur í Toyota Aygo-bifreið ásamt þremur sjónvarpstækjum. Einnig var veð í vörumerki og léni Hróa Hattar, öllum hlutum í Hróa Hetti ehf. Þá var handveð í innstæðu tveggja reikninga félagsins þar sem Vífilfell hf. skuldbatt sig til að greiða inn viðskiptaafslátt mánaðarlega samkvæmt viðskiptasamningi við Hróa Hött ehf. á annan reikninginn en á hinn reikninginn skuldbatt Hrói Höttur ehf. sig til að leggja inn allar greiðslur frá innlendum greiðslukortafyrirtækjum. Þá voru einnig gefnir út tveir tryggingarvíxlar, óútfylltir að hluta. Lánveitingin til Hróa Hattar ehf. var samþykkt af stjórn Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis á fundi 28. febrúar 2007.
Lán Hróa Hattar ehf. hækkuðu mikið á árinu 2008 vegna veikingar íslensku krónunnar og í árslok nam heildarskuldbinding félagsins hjá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis tæpum 26 milljónum króna. Lagðar voru rúmar 14 milljónir króna á sérgreindan afskriftareikning 31. desember 2008 vegna skuldbindinga félagsins.
Í árslok 2009 nam heildarskuldbindingin tæpum 29 milljónum króna. Fram kom í skýrslu um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis vegna ársins 2009 að líklegt væri að afskrifa þyrfti allt að 75% af lánum félagsins, en þar sem félagið var í rekstri var talið hæfilegt að færa útlán félagsins niður um 50%.62
Heildarskuldbinding Hróa Hattar ehf. nam tæpri 31 milljón króna í árslok 2010 og var sérgreind niðurfærsla vegna skuldbindinga félagsins hækkuð í rúmar 23 milljónir króna á afskriftareikningi 31. desember 2010. Samkvæmt skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2010 var Sparisjóðurinn í Keflavík þá að vinna með lán Hróa Hattar ehf., þar á meðal að meta veð félagsins.
Hrói Höttur ehf. var á skýrslu Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis um stórar áhættuskuldbindingar 30. september 2011 og nam þá heildarskuldbinding félagsins tæpum 35 milljónum króna. Eftir að tekið hafði verið tillit til rúmlega 14 milljón króna afskriftaframlags var áhættuskuldbinding félagsins rúm 6% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Stuttu síðar var öllum lánum Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis í erlendum myntum breytt í lán í íslenskum krónum.63 Heildarskuldbinding Hróa Hattar ehf. var endurreiknuð og nam tæpum 3,5 milljónum króna að honum loknum í árslok 2011 en 29 milljónir króna voru afskrifaðar endanlega.64
Hrói Höttur ehf. var úrskurðað gjaldþrota í janúar 2012.
JK Fjárfesting ehf.
JK Fjárfesting ehf. var stofnað sem eignarhaldsfélag í apríl 2007 og var í eigu Magnúsar Jaroslavs Magnússonar og Karls Björgvins Brynjólfssonar. JK Fjárfesting ehf. átti meðal annars félögin Fálkamýri ehf. og Arnarmýri ehf. sem fjallað var um hér framar.
JK Fjárfesting ehf. leitaði til Sp-ráðgjafar ehf. á árinu 2007 með beiðni um lán vegna kaupa á öllum rekstri, lager og viðskiptasamböndum Odda skrifstofuvara ehf. Heildarkaupverð var 455 milljónir króna samkvæmt kaupsamningi sem dagsettur var 29. júní 2007. Samkomulag um lán fyrir allt að 395 milljónir króna til JK Fjárfestingar ehf. var undirritað 28. júní 2007 en fjármögnunin var síðar lækkuð úr 395 milljónum króna í 109 milljónir króna. Tveir lánasamningar voru undirritaðir 16. júlí 2007 milli Sparisjóðs Vestfirðinga og JK Fjárfestingar ehf., annars vegar um 85 milljóna króna lán til þriggja ára og hins vegar eingreiðslulán í erlendum myntum að jafnvirði 24 milljóna króna til þriggja ára. Til tryggingar voru settir „að handveði með 2. veðrétti“ eignarhlutir Karls Björgvins og Magnúsar Jaroslavs í JK Fjárfestingu ehf., á eftir Icebank hf. á 1. veðrétti,65 auk tveggja tryggingarvíxla að fjárhæð samtals 127 milljónir króna sem útgefnir voru af JK Fjárfestingu ehf. Í veðsamningunum kemur fram að hlutirnir hafi ekki verið gefnir út og væru því ekki í vörslum veðhafa.
Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis var með 15% hlut í fjármögnuninni eða samtals rúmar 16 milljónir króna. Gerðir voru aðildarsamningar milli Sparisjóðs Vestfirðinga og annarra sparisjóða sem tóku þátt í verkefninu þar sem fram kom að þátttakendur ættu hlutfallslegan rétt samkvæmt lánasamningunum við JK Fjárfestingu ehf., þar á meðal til trygginga. Stjórn sparisjóðsins samþykkti lánsumsóknina samhljóða á fundi 22. ágúst 2007.
Stuttu eftir að lánin voru veitt til JK Fjárfestingar ehf. seldi fyrirtækið hinn nýkeypta rekstur Odda skrifstofuvara ehf. til Skrifstofuvara ehf.,66 félags sem var í 100% eigu JK Fjárfestingar ehf., fyrir 455 milljónir króna.67 Lán JK Fjárfestingar ehf. voru þó ekki greidd upp eftir söluna til Skrifstofuvara ehf.
Á miðju ári 2008 var JK Fjárfesting ehf. komið í fjárhagsvandræði. Fjallað var um stöðu lána félagsins á fundi stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 25. júlí 2008 og var tekið fram að hún væri „erfið“ og lánin endanlega töpuð. Á fundi stjórnar 18. desember 2008 var ákveðið að afskrifa heildarskuldbindingu JK Fjárfestingar ehf. sem stóð þá í rúmum 25 milljónum króna. Samkvæmt yfirliti Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis yfir sértækar afskriftir nam heildarskuldbinding JK Fjárfestingar ehf. rúmum 26 milljónum króna sem færðar voru endanlega úr bókum sparisjóðsins á árinu 2009.
JK Fjárfesting ehf. var úrskurðað gjaldþrota í maí 2009.
28.2.4 Lán til stjórnarmanna og starfsmanna
Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki bar að fara með viðskipti starfsmanna sparisjóðsins eftir þeim reglum sem stjórn setti. Á hálfs árs fresti bar
sparisjóðum að skila skýrslu til Fjármálaeftirlitsins þar sem fram kæmu allar fyrirgreiðslur til venslaðra aðila, það er stjórnarmanna, maka þeirra og barna, og félaga sem þeim tengdust, yfir 10 milljónum króna. Í 25. gr. reglna Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra voru venslaðir aðilar skilgreindir sem stjórnarmenn (aðalmenn og varamenn), stjórnendur og lykilstarfsmenn sem teldust til fruminnherja sem og nánir fjölskyldumeðlimir þessara aðila, félög sem framangreindir aðilar ættu meira en 10% hlut í, störfuðu hjá eða gegndu stjórnarstörfum fyrir, hliðstæðir aðilar í dótturfélögum og tengdum félögum, og stofnfjáreigendur sem áttu 5% eignarhlut eða meira í sparisjóðnum. Samhljóða skilgreiningu á vensluðum aðilum var að finna í uppfærðum starfsreglum sparisjóðsins frá árinu 2011.
Samkvæmt leiðbeinandi tilmælum nr. 4/200668 um efni reglna samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga um fjármálafyrirtæki, átti sparisjóðurinn að leggja fyrir innri endurskoðanda að fara með reglubundnum hætti yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila, m.a. með tilliti til kjara, endursamninga og stöðu. Þá skyldi leggja fyrir ytri endurskoðanda að fara yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og bera þær saman við sambærileg viðskipti annarra viðskiptavina. Ennfremur sagði í 2. mgr. 25. gr. reglna um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra að innri endurskoðandi ætti að fara reglulega yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og greina frá niðurstöðum athugana sinna í skýrslu til stjórnar. Samkvæmt skýrslum innri endurskoðanda Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis var ekki farið yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila á árunum 2005–2008. Í skýrslum innri endurskoðanda vegna áranna 2009 og 2010 kom fram að farið hafi verið yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og starfsmanna og væri sú skoðun án athugasemda. Þá var einnig farið yfir viðskipti venslaðra aðila og starfsmanna í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2011 og var þess getið að fáir stjórnarmenn og starfsmenn væru með skuldbindingar hjá sparisjóðnum.
Rannsóknarnefndin kannaði hvort venslaðir aðilar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, það er stjórnarmenn í sparisjóðnum, makar þeirra, félög í eigu stjórnarmanna69 eða félög sem stjórnarmenn gegndu stjórnunarstöðum fyrir og stofnfjáreigendur sem áttu 5% eignarhlut eða meiri, hefðu notið óvenjulegrar lánafyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum. Athugunin var framkvæmd með þeim hætti að kennitölur umræddra aðila voru keyrðar saman við útlánagrunn sparisjóðsins.70 Alls voru ellefu venslaðir aðilar með útlán hjá sparisjóðnum á árunum 2005–2011 og gáfu niðurstöður athugunarinnar ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.
Í 17. gr. reglna um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra frá árinu 2007 sagði að sparisjóðsstjórn skyldi að fengnum tillögum sparisjóðsstjóra setja reglur um viðskipti starfsmanna sparisjóðsins við sparisjóðinn. Þá sagði einnig í ákvæðinu að starfsmönnum sparisjóðsins væri óheimilt að gerast umboðsmenn annarra gagnvart sparisjóðnum.
Í 4. gr. útlánareglna Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis sagði að sparisjóðsstjóra væri heimilt að veita starfsmönnum sparisjóðsins lán enda væri slík fyrirgreiðsla á engan hátt frábrugðin sambærilegri fyrirgreiðslu til annarra viðskiptamanna. Sparisjóðsstjóra bar þó að gera stjórn sjóðsins grein fyrir því ef heildarskuldbinding starfsmanns færi yfir 5 milljónir króna. Allar fyrirgreiðslur til stjórnarmanna umfram 5 milljónir króna voru háðar samþykki stjórnar og þurfti stjórn einnig að samþykkja allar lánveitingar til sparisjóðsstjóra.
Alls starfaði 41 starfsmaður hjá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis á árunum 2002–2011. Þar af voru 30 starfsmenn með lán í sparisjóðnum á árunum 2004–2011. Enginn starfsmaður var með háa skuldbindingu og aðeins einn starfsmaður var með skuldbindingu yfir 10 milljónir króna. Í töflu 20 má sjá heildarskuldbindingar starfsmanna sparisjóðsins á tímabilinu 2005–2011 og hlutfall skuldbindinganna af heildarútlánum. Rannsóknarnefndin sá ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir útlánum til starfsmanna sjóðsins.
28.3 Fjáreignir og fjárfestingar
Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis setti sér reglur um fjárfestingarstefnu í apríl 2011. Fyrir þann tíma voru ekki til sérstakar reglur um fjárfestingar sparisjóðsins en í reglum um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra frá því í febrúar 2007 var fjallað um mörk fjárfestingarheimilda. Þar kom fram að fjárfestingar í fasteignum skyldu bornar upp í stjórn, sem og önnur fjárfestingaráform sem telja mætti meiriháttar eða óvenjuleg.
Árið 2005 nam samanlögð verðbréfaeign allra litlu sparisjóðanna 157% af samanlögðu bókfærðu eigin fé þeirra en hún náði hámarki í árslok 2008 er hún nam 401% af eigin fé.71 Í árslok 2011 var verðbréfaeignin 100% af eigin fé. Verðbréfaeign Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis var mest 277% af eigin fé hans árið 2007 og minnst 122% árið 2011, ef frá eru talin árin 2008 og 2009 þegar eigið fé sjóðsins var neikvætt. Fjáreignir sparisjóðsins voru jafnframt mun hærra hlutfall af eignasafni hans en annarra minni sparisjóða.
Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis átti ekki hlutabréf í Kaupþingi banka hf., Exista hf. eða Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. á tímabilinu 2005–2011. Öll hlutabréf sparisjóðsins í Kaupþingi voru seld á árinu 2000 og nam hagnaður af sölunni tæpum 59 milljónum króna. Þá hafði sparisjóðurinn söluhagnað af Alþjóða líftryggingarfélaginu hf., 7,4 milljónir króna, og Hraðfrystistöð Þórshafnar hf., 17,3 milljónir króna, á árinu 2005. Frá árslokum 2005 til ársloka 2011 átti sparisjóðurinn töluverðar eignir í skuldabréfum og á árinu 2007 var eign í hlutabréfum og verðbréfum með breytilegum tekjum mun meiri en hún hafði nokkru sinni verið áður. Kom þar til aukinn hlutur í Sparisjóðabanka Íslands hf., fjárfesting í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. og fjármunir sem lagðir voru í fjárvörslu Íslenskra verðbréfa hf.
Líkt og margir aðrir minni sparisjóðir hafði Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis tekið þátt í sameiginlegum fjárfestingum á vettvangi sparisjóðanna, svo sem í Sparisjóðabanka Íslands hf., FSP hf., Tölvumiðstöð sparisjóðanna og Reiknistofu bankanna. Sparisjóðurinn hafði einnig komið til aðstoðar og lagt fram nýtt stofnfé í Sparisjóð Vestfirðinga þegar sá fór fram á aðstoð frá Tryggingasjóði sparisjóða, Sparisjóðabankanum og Sambandi íslenskra sparisjóða á árinu 2004.73
Eign Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis í Sparisjóðabanka Íslands hf. var ekki bókfærð með hlutdeildaraðferð og því jókst hún ekki með sama hætti og hjá ýmsum öðrum minni sparisjóðum með góðu gengi Sparisjóðabankans. Árið 2007 breytti sparisjóðurinn um matsaðferð og fór að meta hluti sína í bankanum miðað við áætlað markaðsverð. Árið 2005 var hver hlutur í Sparisjóðabankanum metinn á 3,56 krónur hjá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis og ári síðar var hver hlutur metinn á 3,71 krónu en á sama tíma mátu flestir aðrir sparisjóðir hvern hlut í bankanum á um 17 krónur. Árið 2007 mat Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis hlut í Sparisjóðabankanum á 20 krónur líkt og margir aðrir sparisjóðir, en mat annarra sparisjóða var á bilinu 11,94 til 28,06 krónur á hlut. Sparisjóðabankinn sýndi mikinn hagnað árin 2006 og 2007 og komu nýir eigendur að honum í lok árs 2007. Árið 2008 var hins vegar slæmt í rekstri bankans og færði sparisjóðurinn nær alla sína eign í honum niður í lok þess árs.
Sparisjóðurinn átti hlut í FSP hf. og tók þátt í hlutafjáraukningum í félaginu árin 2005 og 2006 að fengnu samþykki stjórnar sparisjóðsins. Árið 2007 sameinaðist FSP hf. VBS Fjárfestingarbanka hf. og við það eignaðist sparisjóðurinn hlut í honum. Á árinu 2007 notaði sparisjóðurinn sömu aðferð til að meta hlut sinn í VBS Fjárfestingarbanka hf. og beitt var við hlut í Sparisjóðabankanum og hækkaði virði félagsins á bókum sparisjóðsins vegna þess. Þessi matsaðferð varð einnig til þess að hækka virði Sparisjóðs Keflavíkur í bókum Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis en hann eignaðist hlut í honum við sameiningu Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðs Keflavíkur árið 2007. Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis tók þátt í stofnfjáraukningu í Sparisjóði Vestfirðinga árið 2007 og jók stofnfé sitt um tæpar 22 milljónir króna á árinu. Ekki var að sjá af fundargerðum að fjallað hefði verið um þessi stofnfjárkaup á stjórnarfundum sparisjóðsins.
Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis tók þátt í hlutafjáraukningum Íslenskra verðbréfa hf. á árinu 2006 og á stjórnarfundi í janúar var samþykkt að kaupa hlutafé fyrir um 20 milljónir króna. Í febrúar árið eftir samþykkti sparisjóðsstjórnin að kaupa hlutafé í Íslenskum verðbréfum hf. fyrir 18 milljónir króna. Í árslok 2009 samþykkti stjórnin að selja hlutabréf í Íslenskum verðbréfum fyrir 72 milljónir króna til Fræs ehf. en keypti þau síðan aftur í febrúar 2010.74
Stærsta nýfjárfesting Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis á tímabilinu var í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. en hún var samþykkt á stjórnarfundi í mars árið 2007. Á hlutahafafundi Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. 18. desember 2009 samþykktu hluthafar að afhenda allt hlutafé sitt í bankanum nýjum félögum, Hildu hf. og Sögu eignarhaldsfélagi hf., gegn því að fá afhenta hluti í sömu félögum. Greiðsla skyldi nema einni krónu nafnverðs í hvoru félagi fyrir hvern 100 krónu hlut í fjárfestingarbankanum.75 Eignin var að fullu færð niður á árinu 2011.
Af öllum fjáreignum Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis hafði hluturinn í Sparisjóðabankanum mest áhrif á afkomu sparisjóðsins. Hagnaður vegna breytinga á verðmatsaðferðum á árinu 2007 og slakt gengi bankans á árinu 2008 höfðu sveiflukennd áhrif á rekstrarniðurstöðu sparisjóðsins á þessum árum. Svipaða sögu er að segja af eignarhlutum í VBS Fjárfestingarbanka hf. og Sparisjóðnum í Keflavík, en áhrif þeirra voru sýnu minni en áhrif Sparisjóðabankans. Sparisjóðurinn tapaði einnig á fjárfestingum í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. og Protinus ehf. Frá 2005 til 2011 hagnaðist sparisjóðurinn um samtals 13 milljónir króna á eign sinni í Íslenskum verðbréfum hf. Þá tapaði hann um 11 milljónum króna á eign sinni í millilagslánasjóðnum Carta Capital sem margir minni sparisjóðir höfðu fjárfest í. Afkoma af veltuskuldabréfum sparisjóðsins árin 2005 og 2006 var rúmar 40 milljónir króna hvort ár en aðeins 14 milljónir króna árið 2007. Á árinu 2008 tapaði sparisjóðurinn um 90 milljónum króna á veltuskuldabréfum og um 58 milljónum króna árið 2009. Árið 2010 hafði sparisjóðurinn um 12 milljóna króna tekjur af skuldabréfum og 2 milljónir króna árið 2011.
Afkoma af fjáreignum hafði töluvert að segja fyrir rekstrarniðurstöðu áranna 2006–2009. Árið 2005 var hagnaður af rekstri sparisjóðsins borinn uppi af öðrum hreinum rekstrartekjum en af fjáreignum. Árið 2006 voru tekjur af fjáreignum og tekjur af öðrum liðum svipaðar en árið eftir varð umsnúningur tekjuöflun. Tekjur af fjáreignum jukust mikið, að mestu vegna breytinga á verðmatsaðferðum á eignarhlut sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum, en aðrar hreinar rekstrartekjur drógust saman. Afkoma ársins fyrir skatt nam 116 milljónum króna en tekjur af eignarhlut í Sparisjóðabankanum námu 132 milljónum króna á árinu. Tap af fjáreignum á árinu 2008 var rétt tæplega helmingur af tapi þess árs fyrir skatta og enn var það eignarhlutur í Sparisjóðabankanum sem hafði mest áhrif. Árið 2009 höfðu afskriftir útlána meira að segja í neikvæðri afkomu ársins en fjáreignir sem þó voru um 35% af tapi fyrir skatta. Árið 2010 sker sig úr en þá voru skuldir sparisjóðsins við Seðlabankann færðar niður sem hafði jákvæð áhrif á tekjur sjóðsins. Uppsafnaður hagnaður sparisjóðsins af verðbréfaeign á verðlagi ársins 2011 var um 550 milljónir króna frá 2001 til 2007 en samanlagt tap áranna 2008–2011 nam 540 milljónum króna á sama verðlagi.
Spurður um fjárfestingar sparisjóðsins, kvað fyrrum sparisjóðsstjóri enga sérstaka stefnu hafa legið þar til grundvallar. Sparisjóðurinn hefði gjarnan fjárfest á sameiginlegum vettvangi sparisjóðanna, til dæmis með því að eiga hlut í Sparisjóðabanka Íslands hf. og Tölvumiðstöð sparisjóðanna, en annars hefðu flestar fjárfestingar farið í gegnum Sparisjóðabankann eða Íslensk verðbréf hf. eða verið stýrt af þeim.76 Fyrrum stjórnarformaður sparisjóðsins staðfesti að Íslensk verðbréf hf. hefðu komið að umsjón verðbréfaviðskipta sparisjóðsins en annars hefðu þau verið í höndum sparisjóðsstjóra og ákvarðanir lagðar fyrir stjórn.77
28.4 Fjármögnun
Fjármögnun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis á árunum 2005 til 2011 var einkum í formi innlána. Þau voru 64–98% allra skulda sparisjóðsins að undanskildu eigin fé, hæst var hlutfallið árin 2010 og 2011 og lægst árið 2008.78 Hlutfall innlána af útlánum var á bilinu 109–272%. Aðrir skuldaliðir sem fjármögnuðu sparisjóðinn að einhverju ráði voru lántaka og víkjandi lán.
Bundin innlán voru að meðtaltali 33% innlána í sparisjóðnum 2005–2011, mest 49% í mars og apríl 2005 og minnst 25% í júlí 2011.79 Innlán heimila og einstaklinga voru að meðaltali 80% innlána og innlán fyrirtækja að meðaltali 13%.80
Skuldir Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis við fjármálafyrirtæki námu 915 milljónum króna í árslok 2009 en þá var stærstum hluta langtímaskulda sparisjóðsins breytt í skammtímaskuldir. Sparisjóðurinn hafði verið fjármagnaður til langs tíma af Sparisjóðabankanum en með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda bankans frá 21. mars 2009 var skuldum sparisjóðanna við Sparisjóðabankann ráðstafað til Seðlabanka Íslands. Þær skuldir voru færðar sem skuldir við fjármálafyrirtæki árið 2009 en voru gerðar upp á árinu 2010 með samkomulagi við Seðlabankann um umbreytingu á hluta skulda í stofnfé og niðurfellingu annars hluta.81
Lántaka Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis var að stærstum hluta vegna erlendrar lántöku hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. og voru fjármunirnir endurlánaðir til viðskiptavina sjóðsins.82 Þessi lán hækkuðu mjög í kjölfar gengislækkunar íslensku krónunnar á árinu 2008. Sparisjóðurinn fékk fjármögnun frá Íbúðalánasjóði vegna húsnæðislána sinna á árunum 2004 og 2005 og gerði tvo lánasamninga við Íbúðalánasjóð. Sá fyrri var gerður í desember 2004 og var upphafleg lánsfjárhæð rúmar 95 milljónir króna. Þetta lán var í formi skuldabréfs en að baki því stóðu tólf lán í eigu sparisjóðsins. Seinni lánasamningurinn, sem gerður var í apríl 2005, var í sama formi en þar var lánsfjárhæðin rúm 41 milljón króna og stóðu sex lán í eigu sparisjóðsins að baki honum.83
Sparisjóðurinn gaf út tvö víkjandi skuldabréf á þessum tíma, hið fyrra í nóvember 2006 að nafnverði 60 milljónir króna, en hið síðara í október 2007 að nafnverði 40 milljónir króna.84 Bæði bréfin voru verðtryggð til fimm ára, báru 7% ársvexti og voru keypt af Byggðastofnun. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni sögðu fyrrum stjórnarformaður og sparisjóðsstjóri tilgang þessarar lántöku hafa verið að bæta eiginfjárhlutfall sparisjóðsins. Þegar þeim var bent á að sparisjóðurinn hefði ekki átt í miklum vandræðum með að uppfylla lágmarksskilyrði eiginfjárhlutfalls án þeirra gáfu þau engar aðrar skýringar á lántökunni.85 Víkjandi skuldabréfunum var breytt í stofnfé við fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins. Árið 2010 gaf Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis síðan út víkjandi skuldabréf að nafnverði 19 milljónir króna í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins í Seðlabankanum, en það bréf var keypt af Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf.
28.5 Stofnfé og stofnfjáreigendur
Stofnfé Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis fjórfaldaðist frá árinu 2001 til ársins 2008. Að mestu leyti var aukningin til komin vegna endurmats á stofnfé í samræmi við verðlagsbreytingar og sérstaks endurmats með heimild í lögum um fjármálafyrirtæki, en lítillega vegna innborgaðs stofnfjár á árunum 2003–2004. Arður var þó stundum greiddur í formi stofnfjár.
Samkvæmt samþykktum sparisjóðsins frá 2002 skyldi stofnfé ekki vera lægra en 210.000 krónur og skiptast í ekki færri en 105 hluti. Ári síðar var fjárhæðin hækkuð í 600.000 krónur og skiptast í ekki færri en 105 jafnháa hluti. Stjórn sparisjóðsins skyldi sjá til þess að stofnfjáreigendur yrðu aldrei færri en 30. Breytingar voru gerðar á samþykktunum 2007 þannig að 600.000 króna lágmarksstofnfé skiptist í margfeldi einnar krónu. Skipting í aðrar einingar var þó heimil með samþykki aðalfundar, en stofnfé gat hækkað í samræmi við heimildir í lögum, þ.e. með endurmati í samræmi við verðlagsbreytingar og sérstöku endurmati. Stofnfjáreigendur höfðu atkvæðisrétt í réttu hlutfalli við stofnfjáreign sína, en engum var heimilt að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum, hvorki fyrir sína hönd né annarra, hvort sem byggt væri á beinni eða óbeinni hlutdeild í sparisjóðnum. Í samþykktum sparisjóðsins frá apríl 2011 voru gerðar ýmsar breytingar vegna aðkomu ríkisins að sparisjóðnum og í samræmi við lög nr. 76/2009, t.d. var ákvæði um hámark atkvæðamagns fellt niður og skyldi atkvæðisréttur stofnfjáreigenda haldast í hendur við stofnfjáreign, en í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar sjóðsins eignaðist ríkissjóður 75,8% stofnfjár í sjóðnum. Fram til þess tíma var stofnfé afar lítill hluti eigin fjár sparisjóðsins.
Í lok ársins 2005 var stofnfé sparisjóðsins 1,1 milljón króna og jókst það jafnt og þétt fram til ársins 2008 þegar það var orðið 2,1 milljón króna. Á árunum 2005–2011 voru stofnfjáreigendur á bilinu 83 til 92 talsins, aðallega einstaklingar, en einnig áttu fjórir til sjö lögaðilar stofnfé á þessum árum. Á árunum 2005–2009 var nokkuð jöfn dreifing á stofnfjárhlutunum og áttu flestir stofnfjáreigendur aðeins einn hlut. Í árslok 2005 og 2006 átti einn einstaklingur 4,76% hlut sem var stærsti eignarhluturinn á tímabilinu 2005–2009 eða fimm hlutir. Lítil viðskipti voru með stofnfé frá árinu 2001 og fram til þess að ríkissjóður kom að sjóðnum árið 2010. Alls voru 24 nafnbreytingar samþykktar á stofnfjáreign í sparisjóðnum frá árinu 2001 til 2010. Flest viðskiptin voru á árinu 2007 eða 11 talsins.86 Nokkur hluti viðskiptanna varð vegna hugmynda og umræðu um sameiningu sparisjóðsins við Sparisjóðinn í Keflavík.
28.5.1 Sameiningarhugmyndir og tilraunir til stofnfjáraukningar
Á fundi stjórnar sparisjóðsins 22. ágúst 2007 var fjallað um erindi frá Sparisjóðnum í Keflavík um framtíð sparisjóðanna þar sem bent var á þörf á nánara samstarfi þeirra eða jafnvel sameiningu. Jafnframt var óskað eftir viðræðum við sparisjóðinn um þessi mál. Stjórnin tók þessari málaleitan vel og fól sparisjóðsstjóra að fá mat á verðmæti sparisjóðsins. Rúmum mánuði síðar mætti Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, á fund stjórnar sparisjóðsins. Á fundinum kom m.a. fram að sameiningarviðræðurnar næðu einnig til Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og að allir starfsmenn Sparisjóðs Þórshafnar héldu vinnu sinni og rekstur sparisjóðsins héldist í sama horfi og áður, yrði af sameiningunni. Á sama fundi var tekið fyrir erindi frá stjórnarformönnum Sparisjóðs Höfðhverfinga og Sparisjóðs Norðfjarðar þar sem hugmynd um sameiningu sjóðanna auk Sparisjóðs Suður-Þingeyinga var kynnt og boðað til fundar um málið 11. október.87 Stjórn sparisjóðsins sló þær hugmyndir út af borðinu í lok október þegar ákveðið var að taka ekki frekari þátt í sameiningarviðræðum þessara fjögurra sparisjóða á Norðausturlandi.88 Hins vegar var samkomulag um sameiningu Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis og Sparisjóðsins í Keflavík ásamt samrunaáætlun samþykkt á fundi stjórnar 16. nóvember 2007.
Hinn 4. desember 2007 fundaði stjórn sparisjóðsins með sveitarstjórnum Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps vegna áforma um sameiningu Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis og Sparisjóðsins í Keflavík. Fundurinn var haldinn að ósk sveitarstjórnar Langanesbyggðar. Guðni Örn Hauksson sparisjóðsstjóri fjallaði um þær sameiningar sem orðið hefðu hjá sparisjóðunum. Minni sparisjóðir þyrftu að sameinast og sem ástæður fyrir því nefndi hann „minnkandi vaxtamun, hækkandi kostnað vegna tölvuþjónustu, erfiðari aðgang að fjármagni til þess að endurlána og fl.“.89 Þá fjallaði hann um kosti sparisjóðsins í sameiningarmálum og kynnti sérstaklega Sparisjóðinn í Keflavík, starfsemi hans og áherslur. Þá kom fram að sjóður til líknar- og menningarmála upp á 70 milljónir króna yrði til í heimabyggð, alfarið í umsjá heimamanna. Næsta skref yrði að óska eftir því að auka stofnfé um allt að 500 milljónir króna. Í umræðum á fundinum kom fram að sameiningarhugleiðingar væru brýnar og nauðsynlegar en skiptar skoðanir voru um málið. Sumir töldu heldur geyst farið af stað og voru nokkrar áhyggjur af því að sparisjóðurinn færi úr stjórn heimamanna. Samkvæmt fundargerð voru þó flestir á því máli að breytinga væri þörf. Stjórn sparisjóðsins fundaði að nýju 12. desember þar sem unnið var að undirbúningi stofnfjáreigendafundar 21. desember og var í því sambandi rætt um kynningu á samrunaáætlunum, breytingar á samþykktum sjóðsins og aukningu stofnfjár. Sparisjóðsstjóri lagði fram bréf um boðun fundarins sem stjórnin samþykkti og fylgdi það fundarboði til stofnfjáreigenda.90
Í upphafi stofnfjáreigendafundarins 21. desember kynnti Kristín Kristjánsdóttir, stjórnarformaður sparisjóðsins, hugmyndir um samruna sparisjóðsins við Sparisjóðinn í Keflavík og setti þær í samhengi við þær breytingar sem orðið hefðu á sparisjóðunum. Stjórn hefði verið einhuga um samþykkt samrunaáætlunarinnar og kvaðst Kristín þess fullviss að sú leið væri sú besta sem til boða stæði og að óbreytt ástand hefði verið óhugsandi. Hún tók það fram að fundurinn væri til kynningar á samrunatillögunni en ekki til að samþykkja hana. Hins vegar yrðu lagðar fyrir fundinn breytingartillögur á samþykktum sparisjóðsins sem nauðsynlegar þóttu til þess að af samrunanum gæti orðið, en á fundinum kom fram að það gæti orðið strax í janúarmánuði 2008. Tillögurnar fólu í sér breytingu á heildarstofnfé og skiptingu þess í margfeldi einnar krónu, eins og framar greinir, heimild til veðsetningar á stofnfé og heimild til stofnfjáraukningar.
Í umræðum um tillögurnar kom fram nokkur gagnrýni á það hvernig staðið hefði verið að samrunaáætluninni þar sem stjórnin virtist hafa verið búin að taka ákvörðun áður en hún yrði borin undir fund stofnfjáreigenda. Þá komu fram efasemdir um að staða Sparisjóðsins í Keflavík væri jafn sterk og af væri látið og ef til vill væri betri kostur að sameinast Sparisjóði Suður-Þingeyinga og Sparisjóði Norðfjarðar. Einn fundarmanna benti á að „markaðsvæðing“ sparisjóðsins gæti orðið til þess að stofnbréf yrðu seld „eftir að verðmiði [yrði] settur á þau og þá rofnar samstaðan um sparisjóðinn“. Hann bætti við: „Stofnfjárbréf á að vera atkvæðisréttur í sparisjóðnum en ekki féþúfa. Verði sparisjóðurinn lagður niður eiga eignir hans að renna til byggðarlagsins. Væri þá ekki betra að selja hann?“ Sparisjóðsstjóri svaraði athugasemdum meðal annars á þá leið að „flestir sparisjóðir væru búnir að gera umræddar breytingar og ekki ætti að vera neitt hættulegt að afgreiða þær núna“. Hann bætti því við að ef málinu yrði frestað myndi samrunaleiðin lokast. Þegar gengið var til atkvæða um tillögurnar voru tvær fyrstu tillögurnar samþykktar með afgerandi meiri hluta atkvæða en þriðja tillagan, um stofnfjáraukningu, var felld með einu atkvæði.91
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu voru hugmyndir um samruna við Sparisjóðinn í Keflavík ekki úr sögunni. Á stjórnarfundi 9. janúar 2008 tók stjórn sparisjóðsins fyrir beiðni frá hópi stofnfjáreigenda, sem áttu samtals 34,3% stofnfjár, um að taka samrunaáætlunina til afgreiðslu. Stjórninni var skylt samkvæmt samþykktum sparisjóðsins að verða við þeirri ósk innan 14 daga og boðaði hún til stofnfjáreigendafundar sem haldinn var 19. janúar. Á fundinum var lögð fram tillaga um að Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis sameinaðist Sparisjóðnum í Keflavík undir nafni hins síðarnefnda og tæki samruninn gildi 30. júní 2007. Yrði sú tillaga samþykkt var lagt til að hækka stofnfé Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis um allt að 400 milljónir króna að nafnvirði. Nokkrar umræður urðu á fundinum og skiptust menn á skoðunum. Meðal fundarmanna var Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, sem tók til máls, kynnti starfsemi og afkomu sparisjóðsins og svaraði fyrirspurnum fundarmanna. Hann taldi það „skyldu Sparisjóðsins í Keflavík að veita því forgöngu sem stærsti landsbyggðarsjóðurinn að reyna að þjappa sparisjóðunum á landsbyggðinni í einn öflugan sparisjóð með þétt net sparisjóða á landsbyggðinni“. Tillögurnar tvær sem lágu fyrir fundinum voru samþykktar með rúmlega ¾ hluta atkvæða.
Í maímánuði var farið að huga að stofnfjáraukningunni auk þess sem sparisjóðsstjóra var falið að hefja undirbúning að stofnun líknar- og menningarsjóðs sparisjóðsins.92 Á fundi stjórnar 29. maí 2008 ákvað stjórnin að nýta heimild stofnfjáreigendafundar til aukningar stofnfjár um 400 milljónir króna að fullu, en það var í samræmi við viðauka við samrunaáætlun sparisjóðsins og Sparisjóðsins í Keflavík frá 30. janúar 2008. Ákveðið var að áskriftartímabilið yrði 10.–18. júní 2008 og greiðslufrestur til 30. júní. Stofnfjárútboðið gekk ekki sem skyldi og á stjórnarfundi 25. júní kom fram að aðeins 46 af 86 stofnfjáreigendum hefðu skráð sig fyrir nýju stofnfé. Stjórnin ákvað því að framlengja áskriftartímabilið til 26. júlí 2008. Um sumarið framlengdi stjórnin síðan tímabilið tvívegis um mánuð í senn.93 Á fundi sínum 25. september 2008 ákvað stjórnin svo að falla frá stofnfjárútboðinu þar sem ekki hefði tekist að selja nægjanlega mikið stofnfé. Í fundargerð var jafnframt vísað til breyttra aðstæðna á fjármálamörkuðum frá því að ákveðið var að ráðast í stofnfjárútboðið. Í því ljósi taldi stjórnin forsendur fyrir samruna við Sparisjóðinn í Keflavík brostnar en veitti á hinn bóginn sparisjóðsstjóra og stjórnarformanni fullt umboð til viðræðna við aðra sparisjóði um samstarf. Þá er greint frá því í fundargerð að „viðræður hafa verið undanfarnar vikur milli óháðu sparisjóðanna um hvernig hátta skal samstarfi þeirra á milli og hefur því verið lýst yfir að aðkomu okkar að þeim yrði vel tekið“. Í skýrslu hjá rannsóknarnefndinni greindi Guðni Örn Hauksson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, frá rökum með og á móti því að sameinast Sparisjóðnum í Keflavík:
Menn held ég hafi verið í mjög erfiðri samkeppni við stóru bankana. Rekstrarkostnaður var orðinn hár í litlu sparisjóðunum, vaxtamunur var orðinn hverfandi lítill út af samkeppni og rekstrarhorfurnar ekkert of góðar. Einhverjir töldu líka hagnaðarvon í sambandi við möguleg viðskipti með stofnbréf, seinna, og mæltu með þessu út af því. Já, menn sáu öflugan landsbyggðarsparisjóð sem væri mótvægi við höfuðborgarsvæðið og svo þær fjármálastofnanir sem voru þar. Og á móti sáu menn bara að menn misstu áhrifin í heimabyggð til að hafa áhrif á reksturinn og ýmsir höfðu ekki mikla trú á Sparisjóðnum í Keflavík og hvernig efnahagsreikningurinn hjá þeim var uppbyggður, sérstaklega gagnvart eignarhaldi þeirra í Exista og þessu dóti öllu sem eigið féð var byggt upp á.94
Fall íslensku bankanna í október 2008 hafði sín áhrif á eiginfjárhlutfall sparisjóðsins enda féllu eignir sparisjóðsins í verði með tilheyrandi áhrifum á eiginfjárgrunn sjóðsins. Fjármálaeftirlitið sendi sparisjóðnum bréf 22. október 2008 þar sem vísað var til þess að samkvæmt gögnum um efnahagsliði og eiginfjárstöðu sparisjóðsins og að teknu tilliti til rýrnunar á verðbréfaeign og útlánum hans í október 2008 virtist sem eiginfjárhlutfallið væri undir því lágmarki sem kveðið væri á um í 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Því var óskað eftir reikningsuppgjöri, árituðu af endurskoðanda eigi síðar en 31. október með vísan til 2. mgr. 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Þá fór Fjármálaeftirlitið fram á að stjórn sparisjóðsins hugaði að því að grípa til þeirra ráðstafana sem getið væri í 3. mgr. 86. gr. laganna.95 Samkvæmt eiginfjárskýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins var eiginfjárhlutfallið 30. júní yfir 13% en í skýrslu sjóðsins um stöðuna 31. október 2008 var eiginfjárhlutfallið orðið neikvætt um rúm 6%. Fjármálaeftirlitið sendi sparisjóðnum bréf 7. nóvember 2008 þar sem bent var á að samkvæmt uppgjöri sparisjóðsins miðað við 30. september 2008 hefði eiginfjárhlutfallið þá verið neikvætt um 5,5%. Var því óskað eftir að stjórn sparisjóðsins gripi þegar til ráðstafana og skilaði greinargerð eigi síðar en 24. nóvember um það til hverra ráðstafna hún hygðist grípa. Þá var óskað upplýsinga um það hvort stjórnin hefði kannað hvort nýta mætti úrræði til fjárhagslegrar endurskipulagningar sjóðsins með vísan til 98. gr. laga um fjármálafyrirtæki.96 Þörfin á auknu eigin fé var því rík á þessum tíma og fékk hugmyndin um stofnfjáraukningu aukinn byr undir vængi.
Á stofnfjáreigendafundi 25. nóvember 2008 var samþykkt heimild til að auka stofnfé um allt að 500 milljónir króna. Á fundinum sagði Kristín Kristjánsdóttir, stjórnarformaður sparisjóðsins, að til að tryggja rekstur sparisjóðsins þyrfti að auka stofnfé um 200 milljónir króna. Það væri erfitt en stjórn sparisjóðsins mundi leita allra leiða til að auka stofnfé sem allra fyrst. Þá reifaði hún hugmynd um sameiningu við Sparisjóð Suður-Þingeyinga sem stæði „nokkuð vel sem stendur“. Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða, sat fundinn og flutti hugleiðingu um framtíð sparisjóðanna í ljósi þeirra umskipta sem orðið höfðu við fall bankanna. Guðjón kvað mörg tækifæri fyrir sparisjóðina felast í þessum nýju aðstæðum en miklu skipti að þeir stæðu saman: „Í neyðarlögum ríkisstjórnarinnar eru ákvæði þess efnis að heimildir eru fyrir því að sparisjóðunum verði veitt aðstoð þannig að pólitískur vilji er fyrir að styðja við bakið á sparisjóðunum.“ Sagði hann þá vinnu sem nú færi fram í stefnumótun sparisjóðanna miðast að nokkru við sameiningu þeirra með myndun „svæðasparisjóða þar sem hagsmunir og þarfir fólks á svæðunum eru hafðar að leiðarljósi“. Guðni Örn Hauksson sparisjóðsstjóri rakti mál sparisjóðsins og tók fram „að til að öðlast tiltrú Fjármálaeftirlitsins [væri skilyrði] að stofnfé [yrði] aukið og að stefnt [væri] að sameiningu við aðra sparisjóði“. Hann ræddi síðan um það „hvað hægt [væri] að gera til að auka stofnfé með það að markmiði að lifa af“. Síðar sagði hann „að Fjármálaeftirlitið [mundi] hafa mikið um það að segja hvort sparisjóður [væri] lífvænlegur. En krafa um sameiningu [lægi] fyrir“. Í umræðum á fundinum kom meðal annars fram sú skoðun að stofnfé yrði „opið öllum íbúum á svæðinu hér og í kringum Kópasker“ og var bent á að stofnfé stæði bæði einstaklingum og sveitarfélögum til boða. Tillagan um stofnfjárútboðið var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða á fundinum.97
Á stjórnarfundi strax í kjölfar stofnfjáreigendafundarins ákvað stjórnin að nýta heimildina aðeins að hluta og bjóða út nýtt stofnfé að nafnvirði 300 milljóna króna og skyldi áskriftartímabilinu ljúka 8. desember 2008. Á fundinum var jafnframt ákveðið að stofnfjárloforð yrðu ekki innheimt nema ríkissjóður legði til stofnfé98 og yrði greiðsluseðill ekki sendur út fyrr en ljóst yrði með hvaða hætti ríkið kæmi að málinu.99 Þremur dögum síðar kom fram á fundi stjórnar að bréf hefði verið sent til Tryggingasjóðs sparisjóðanna þar sem sótt hefði verið um 100 milljóna króna stofnfjárframlag úr sjóðnum. Þá var farið yfir efni bréfs til Fjármálaeftirlitsins um að unnið væri að því að hækka eiginfjárhlutfall sjóðsins.100
Stofnfjárútboðið stóð yfir dagana 28. nóvember til 8. desember 2008 og söfnuðust 22,8 milljónir króna í útboðinu eða tæp 7% af því sem í boði var. Tóku 32 af þeim 88 stofnfjáreigendum sem voru á lista þátt í stofnfjáraukningunni.101 Þar af voru sveitarfélögin Langanesbyggð og Svalbarðshreppur með stærstan hlut.102 Árangur stofnfjáraukningarinnar olli vonbrigðum en var ef til vill skiljanlegur í ljósi ástands á fjármálamörkuðum á þeim tíma.103 Áskriftir stofnfjáraukningarinnar voru ekki innheimtar og varð því ekkert af henni.
Hinn 9. desember 2008 barst sparisjóðnum bréf þar sem Fjármálaeftirlitið fór fram á að sparisjóðurinn gripi þegar til aðgerða til þess að auka eiginfjárgrunn sinn að lögbundnu lágmarki fyrir 12. janúar 2009. Í bréfinu kom fram að Fjármálaeftirlitið taldi fyrirætlanir sparisjóðsins eins og þær hefðu verið kynntar duga til þess innan tímafrestsins. Í bréfinu sagði: „Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að líði framangreindur frestur án þess að aðgerðir sparisjóðsins hafi borið tilskilinn árangur verður ekki annað séð en að eftirlitinu beri að afturkalla starfsleyfi sparisjóðsins, sbr. 9. gr. [laga um fjármálafyrirtæki] og að þá taki við slitameðferð skv. B. hluta XII. kafla laganna.“ Stóð sparisjóðurinn því frammi fyrir miklum vanda en ákveðið var að „vinna hörðum höndum áfram að því að auka stofnfé sjóðsins“.104 Þegar 12. janúar 2009 rann upp ákvað stjórn sparisjóðsins að sækja um lengri frest til Fjármálaeftirlitsins. Fulltrúar sparisjóðsins voru boðaðir á fund Fjármálaeftirlitsins 20. janúar en daginn áður var bókað á fundi stjórnar að hún væri sammála um að sækja um stofnfjárframlag úr ríkissjóði. Á stjórnarfundi 23. mars 2009 var farið yfir niðurstöður könnunar sem KPMG var fengið til að gera um eiginfjárstöðu sparisjóðsins og ljóst að auka þyrfti eigið fé. Þá var ákveðið á fundinum að fela formanni stjórnar og sparisjóðsstjóra að sækja um stofnfjárframlag til Fjársýslu ríkisins í samræmi við fyrirliggjandi uppkast.
Samhliða tilraunum til að bæta eiginfjárhlutfall sparisjóðsins var haldið áfram að vinna að sameiningu við aðra sparisjóði. Á stjórnarfundi 6. janúar 2009 var samþykkt að fela Kristínu Kristjánsdóttur stjórnarformanni að hefja viðræður við Ara Teitsson, stjórnarformann Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, um sameiningu sparisjóðanna. Á stjórnarfundi 20. febrúar 2009 var lagt fram bréf sem sent hafði verið daginn áður til stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga þar sem óskað var eftir formlegum sameiningarviðræðum. Í marsmánuði skiptust stjórnir sjóðanna á ársreikningum og 27. apríl var haldinn sameiginlegur stjórnarfundur sparisjóðanna tveggja. Í kjölfar þess var Guðna Erni Haukssyni, sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, sagt upp störfum en hann beðinn um að vinna áfram meðan uppsagnarfresturinn liði.105 Fyrir rannsóknarnefndinni greindi Guðni frá því að uppsögn hans hefði staðið í beinum tengslum við sameiningarviðræðurnar en þær drógust síðan á langinn.
Þetta dregst síðan allt saman varðandi það að klára þessa vinnu. Þetta var bara meira en menn héldu að taka til eftir hrunið og þetta voru alls konar flækjur varðandi eignarhlut ríkisins hjá okkur. Það var einhvern tímann í lok árs 2009, þá var ég kallaður á fund hjá stjórn og beðinn um að fresta uppsögninni og gerður samningur við mig um að fresta henni um 6 mánuði.106
Lítið bar til tíðinda af sameiningarviðræðum um sumarið og haustið. Þegar kom að aðalfundi sparisjóðsins 7. desember 2009 var Ari Teitsson viðstaddur og urðu líflegar umræður um stöðu sparisjóðsins og framhald sameiningarviðræðnanna. Hörð gagnrýni kom fram á stjórn sparisjóðsins hvað rekstur og starfsmannahald snerti. Fram komu þrjú framboð gegn sitjandi stjórn en svo fór þó að hún var endurkjörin í heild sinni. Meginþorri fundarmanna lýsti sig fylgjandi sameiningu við Sparisjóð Suður-Þingeyinga ef til sameiningar kæmi á annað borð. Ari Teitsson skýrði stöðu mála í sameiningarviðræðunum og segir um það í fundargerð:
Ari fór yfir upphaf sparisjóðanna og líkti því umhverfi sem þá var að sumu leyti við umhverfið í dag, þ.e.a.s. lítið um innstreymi erlends fjármagns og að barist verði um lánsfé á næstunni. Ari taldi að endurfjármögnun sparisjóðanna verði að koma frá fólkinu s.s. að menn verði að fylkja sér um sparisjóðina en ríkisframlag sé ekki framtíðarlausn. Ari velti upp hugmyndum um sameiningu sparisjóða á Norðurlandi og það bæði smáa og stóra sameiningu, en nefndi einnig þann möguleika að leggja starfsemina niður og semja við ótengdan aðila um bankastarfsemi á svæðinu, og virtist þyrma yfir fundarmenn við þau orð.107
Þrátt fyrir þann áhuga á sameiningu við Sparisjóð Suður-Þingeyinga sem fram kom á aðalfundinum bar sameiningarmál ekki á góma á stjórnarfundum Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis fyrr en 9. maí 2011 en þá var fært til bókar, í tilefni af umræðu um tillögur vinnuhóps um framtíð sparisjóðanna sem lagðar voru fram á fundinum, að „[f]yrstu hugmyndir“ stjórnar sparisjóðsins í sameiningarmálum væru að „leita aukins samstarfs eða sameiningar við Sparisjóð Höfðhverfinga, Sparisjóð S-Þingeyinga og Sparisjóð Norðfjarðar. Með því fengist öflug heild á stóru svæði“. Á næsta stjórnarfundi 3. júní 2011 var aftur á móti fært til bókar að „óformleg samtöl“ um sameiningu hefðu átt sér stað við fulltrúa Sparisjóðs Höfðhverfinga, Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og Sparisjóðs Svarfdæla. Nefnt hefði verið „hvort Sparisjóður Norðfjarðar kæmi að því borði, og jafnvel Vestmannaeyingar líka“. Á stjórnarfundi 21. júlí 2011 kom svo fram að Sparisjóður Svarfdæla hefði dregið sig út úr sameiningarviðræðum og ákveðið var að fresta viðræðum við Sparisjóð Suður-Þingeyinga „þar til 6 mánaða uppgjör [lægi] fyrir“.
Sameiningarhugmyndir héldu áfram og náðu hugmyndir um samruna við Sparisjóð Suður-Þingeyinga svo langt að undirrituð var samrunaáætlun sparisjóðanna 20. september 2012. Þegar til kom hafnaði Fjármálaeftirlitið samrunaáætluninni á þeirri forsendu að hún stæðist ekki lög.108 Á fundi stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 30. janúar 2013 var rætt um þessa niðurstöðu og fram kom að formlegt svar frá Fjármálaeftirlitinu hefði raunar ekki borist. Hins vegar greindi Hólmgeir Karlsson stjórnarformaður sparisjóðsins frá því að sent hefði verið tölvuskeyti til forsvarsmanna Sparisjóðs Svarfdæla þar sem óskað var eftir viðræðum um sameiningu. Svar hefði borist frá stjórnarformanni Sparisjóðs Svarfdæla þar sem m.a. kom fram að sameiningarviðræðum sparisjóðsins við Sparisjóð Höfðhverfinga hefði verið slitið og að áhugi væri fyrir viðræðum við Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis. Sameiningarviðræðurnar gengu hratt fyrir sig og á stjórnarfundi Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 20. mars 2013 kom fram að samrunaáætlun hefði verið undirrituð og send Bankasýslu ríkisins. Hinn 6. júlí 2013 var svo greint frá því í fjölmiðlum að sparisjóðirnir tveir hefðu sameinast undir nafninu Sparisjóður Norðlendinga.
28.6 Fjárhagsleg endurskipulagning
Í upphafi árs 2008 var staða Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis ágæt. Hagnaður af rekstri sjóðsins árið 2007 nam 97 milljónum króna, eigið fé sjóðsins nam rúmum 420 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var 12,4%. Engu að síður fór sjóðurinn ekki varhluta af þeirri þróun sem varð á fjármálamörkuðum á árinu 2008 og hafði fall íslensku viðskiptabankanna mikil áhrif á Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis sem og aðra sparisjóði í landinu. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 nam tap á rekstri sparisjóðsins tæpum 525 milljónum króna. Bókfært eigið fé sparisjóðsins í árslok 2008 var neikvætt um tæpar 105 milljónir króna og reiknað eiginfjárhlutfall neikvætt um 11,7%.
Í því skyni að kanna áhrif bankahrunsins á fjárhagsstöðu og eiginfjárhlutfall Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis fór Fjármálaeftirlitið fram á að sparisjóðurinn skilaði reikningsuppgjöri fyrir tímabilið 1. janúar til 30. september 2008 og skyldi tekið tilliti til hugsanlegrar rýrnunar á verðbréfaeign og útlánum sparisjóðsins í október 2008.109 Reikningsuppgjörið leiddi í ljós að eiginfjárstaða sparisjóðsins var slæm, en eiginfjárhlutfallið var neikvætt um 5,5% og því undir lögbundnu lágmarki. Hinn 7. nóvember óskaði Fjármálaeftirlitið eftir greinargerð frá sparisjóðnum um þær ráðstafanir sem hann hygðist grípa til af því tilefni.110
Í greinargerð sparisjóðsins 1. desember 2008 kom fram að tillögur endurskoðenda væru í fyrsta lagi að „auka stofnfé og þá einnig hugsanlega einnig víkjandi lán“, í öðru lagi að selja eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og í þriðja lagi að lækka áhættugrunn sparisjóðsins, til dæmis með því að selja Íbúðalánasjóði íbúðalán sparisjóðsins. Sambland þessara þriggja leiða var talið heppilegast. Sparisjóðurinn hafði þegar hafið undirbúning stofnfjáraukningar og kannað sölu á eignarhlutum sínum í fjármálafyrirtækjum en markaðir voru erfiðir. Á fundi stofnfjáreigenda 25. nóvember 2008 var samþykkt heimild til að auka stofnfé um allt að 500 milljónir króna að nafnverði og ákvað stjórn sparisjóðsins samdægurs að auka stofnfé um allt að 300 milljónir króna, en í stofnfjárútboðinu bárust aðeins loforð fyrir tæpum 23 milljónum króna að nafnverði. Þá var jafnframt ákveðið að stofnfjárloforð yrðu ekki innheimt nema ríkissjóður legði til stofnfé111 og yrði greiðsluseðill ekki sendur út fyrr en ljóst yrði með hvaða hætti ríkið kæmi að málinu.112 Þannig yrði tryggt að einstaklingar, sveitarfélög og fyrirtæki væru að kaupa stofnfé í sparisjóði sem væri yfir lögbundnum eiginfjármörkum og rekstrarhæfur. Jafnframt var leitað til Tryggingasjóðs sparisjóða og sótti sparisjóðurinn um 100 milljóna króna stofnfjárframlag. Í greinargerð sparisjóðsins var bent á þann möguleika að stórum hluta skuldar sparisjóðsins við Sparisjóðabanka Íslands hf. vegna ádráttarlínu erlendrar myntar yrði breytt í stofnfé eða afskrifað, annað- hvort með frjálsum samningi eða með formlegum nauðasamningi.113
28.6.1 Umsókn um 20% eiginfjárframlag
Hinn 25. mars 2009 sótti Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis um eiginfjárframlag á grundvelli laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Óskaði sparisjóðurinn eftir eiginfjárframlagi sem næmi allt að 20% af bókfærðu eigin fé eins og það var við árslok 2007, en bókfært eigið fé nam 420 milljónum króna á þeim tíma og var því óskað eftir 84 milljóna króna eiginfjárframlagi. Í umsókn sparisjóðsins kom fram að auk loforða um kaup á stofnfé sem bárust í stofnfjárútboði í desember 2008, 23 milljónir króna, hefði Tryggingasjóður sparisjóða samþykkt að kaupa stofnfé fyrir 40 milljónir króna og allt að 70 milljónum króna til þrautavara. Þá hefði Byggðastofnun samþykkt að kaupa stofnfé fyrir 70 milljónir króna og greiða fyrir það með hlutabréfum í Eignarhaldsfélagi Suðurnesja hf.114 Tilboðið var skilyrt því að fjárhagsleg endurskipulagning tækist. Sparisjóðurinn hafði óskað eftir því við Sparisjóðabankann að breyta hluta af ádráttarlínu í erlendri mynt í stofnfé, 50–80 milljónum króna, en svar bankans hafði ekki borist þegar hann féll 21. mars. Í umsókninni kom fram að alls væri um 213 milljóna króna nýtt stofnfé að ræða og legði ríkissjóður til 84 milljónir króna, yrði heildarstofnfé sparisjóðsins tæpar 300 milljónir króna.115
Í staðfestingu KPMG, endurskoðanda sparisjóðsins sem fylgdi umsókninni kom fram að miðað við stöðu sparisjóðsins þyrfti eiginfjárgrunnur hans að vera 400 milljónum króna hærri til þess að eiginfjárhlutfallið næði lögbundnu lágmarki, eða 8%. Í staðfestingunni sagði einnig:
Eigið fé sjóðsins í árslok 2008 var neikvætt um 83 millj. kr., eins og áður hefur komið fram, og var eiginfjárhlutfall sjóðsins á sama tíma neikvætt um 10,8%. Bókfærð staða víkjandi lána nemur 121 millj. kr. og nýtist sú fjárhæð ekkert við útreikning á eiginfjárhlutfalli í árslok. Stjórn sparisjóðsins hefur unnið að því að styrkja eiginfjárgrunn sinn og hefur í því sambandi fengið vilyrði fyrir nýju stofnfé samtals að fjárhæð 163 millj.kr.116 Jafnframt hefur verið samið við félag í eigu sveitarfélagsins Langanesbyggð um að veita sjóðnum sölurétt á eignarhlut sínum í Íslenskum verðbréfum hf. Það hefur þau áhrif að skerðing vegna eignarhluta í fjármálafyrirtækjum lækkar um 86,4 millj. kr. sem um leið styrkir eiginfjárgrunn sparisjóðsins. Þá hefur aukning á stofnfé og nýting á víkjandi láni þau áhrif að frádráttur lækkar um 12,1 millj.kr. en samtals nemur því lækkunin um 98,5 millj. kr. Að lokum er gert ráð fyrir framlagi frá ríkinu, samtals að fjárhæð 84 millj.kr. Samtals nemur því hækkun á eiginfjárgrunni um 333 millj. kr. en að teknu tilliti til víkjandi lána að fjárhæð 82 millj. kr. og lækkun á frádrætti vegna fjárfestinga í fjármálafyrirtækjum nemur hækkun eiginfjárgrunns samtals 440,4 millj.kr.
Þrátt fyrir þetta var ljóst að sparisjóðurinn uppfyllti ekki ákvæði í reglum um framlag til sparisjóða um 12% eiginfjárhlutfall, þar sem eiginfjárhlutfall hans færi aðeins upp í 9,92% við þessar aðgerðir. Engu að síður óskaði Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis eftir því að umsókn hans yrði tekin til afgreiðslu eins og fullgild umsókn.117
Beiðni sparisjóðsins var vísað til Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka til umsagnar 26. mars 2009. Yfirferð Fjármálaeftirlitsins á umsókn sparisjóðsins staðfesti að sparisjóðurinn uppfyllti ekki skilyrði um 12% lágmarkseiginfjárhlutfall að meðtöldu 20% eiginfjárframlagi ríkissjóðs. Í tölvupóstsamskiptum Ólafs Orrasonar, starfsmanns Fjármálaeftirlitsins, við Guðna Örn Hauksson sparisjóðsstjóra kom fram að unnið væri að því að sameina Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis Sparisjóði Suður-Þingeyinga, boðað hefði verið til fundar stjórna beggja sparisjóða og mikill vilji væri fyrir sameiningu. Taldi sparisjóðsstjórinn að eftir fundinn myndi liggja fyrir viljayfirlýsing um sameiningu og í kjölfarið myndi sameinaður sparisjóður sækja um 20% eiginfjárframlag. Óskað Guðni eftir því að Fjármálaeftirlitið biði með umsögn sína þar til eftir fundinn.118 Sameiningin kom þó ekki til framkvæmda og ekkert varð af því að Fjármálaeftirlitið veitti fjármálaráðuneytinu umsögn um umsókn Sparisjóðs Þórshafnar um 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði.
Seðlabanki Íslands sendi fjármálaráðuneytinu sameiginlega umsögn um umsóknir sparisjóðanna um eiginfjárframlag úr ríkissjóði 21. apríl 2009. Í umsögn sinni lagði Seðlabanki Íslands ríka áherslu á að breytingar yrðu gerðar á yfirstjórn viðkomandi fjármálafyrirtækja, þar sem það ætti við, að framtíðar arðgreiðslur yrðu takmörkunum háðar og að nýjar viðskiptaáætlanir myndu liggja fyrir. Þá lagði Seðlabankinn áherslu á að leitað yrði leiða til að fá fleiri aðila til að leggja sparisjóðunum til nýtt eigið fé, til að styrkja þá og dreifa eignarhaldi, og að tryggt yrði að fyrirliggjandi tap yrði borið af þáverandi eigendum áður en ríkið myndi leggja til nýtt eigið fé. Mikilvægt væri að Fjármálaeftirlitið og endurskoðendur sparisjóðanna myndu meta eigið fé þeirra og að það yrði fært niður eins og þörf væri á, áður en ríkissjóður legði til nýtt eigið fé.119
28.6.2 Aðdragandi fjárhagslegrar endurskipulagningar
Fjármálaráðuneytið fór fram á að sparisjóðir sem sóttu um eiginfjárframlag úr ríkissjóði fengju óháð endurskoðunarfyrirtæki til að yfirfara reikninga sína og verðmæti eigna. PricewaterhouseCoopers hf. var fengið til að gera fjárhagslega áreiðanleikakönnun á ákveðnum þáttum í efnahagsreikningi og starfsemi Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis og skilaði það skýrslu sinni 23. júní 2009. Helstu niðurstöður PricewaterhouseCoopers voru á þá leið að virðisrýrnun eigna væri meiri en sparisjóðurinn hefði gert ráð fyrir í ársreikningi fyrir árið 2008 sem nam 172 milljónum króna eða 156 milljónum króna að teknu tilliti til skattáhrifa. Eigið fé sparisjóðsins væri því neikvætt um 260 milljónir króna að teknu tilliti til skattáhrifa.120
Áhrif frekari niðurfærslu útlána voru þau að eiginfjárhlutfallið varð neikvætt um 17,2%. Til þess að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins næði lágmarksviðmiði reglna um framlag til sparisjóða, eða 12%, þyrfti eigið fé að hækka um 669 milljónir króna.121 Til frekari endurskipulagningar á fjárhag sparisjóðsins þurfti því að koma áður en hann gæti fengið eiginfjárframlag úr ríkissjóði.
Með bréfi 22. júní 2009 veitti Fjármálaeftirlitið Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis frest til 10. júlí 2009 til að auka við eiginfjárgrunn sinn. Í bréfinu var vísað til þess að samkvæmt ársuppgjöri fyrir árið 2008 var eiginfjárgrunnur sparisjóðsins neikvæður um 251 milljón króna og eiginfjárhlutfall sparisjóðsins neikvætt um 11,7%. Þá var vísað til eiginfjárskýrslu sparisjóðsins miðað við 31. mars 2009 þegar eiginfjárhlutfall sparisjóðsins var neikvætt um 7,4%. Í bréfinu vísaði Fjármálaeftirlitið til þegar fram lagðrar greinargerðar sparisjóðsins.122
Stjórnendur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis hófu þegar vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins og á stjórnarfundi 1. júlí 2009 kom fram að gengið hefði verið frá samningi um aðkomu Saga Capital Fjárfestingarbanka að þeirri vinnu. Í aðgerðaáætlun Saga Capital fyrir sparisjóðinn, sem lögð var fram á fundinum, kom fram að stefnt væri að því að eiginfjárgrunnur sparisjóðsins yrði 350 milljónir króna eða 550 milljónir króna með víkjandi lánum og eiginfjárhlutfallið nálægt 17% að teknu tilliti til niðurfærslna PricewaterhouseCoopers hf. Í áætluninni var ráðgert að semja við kröfuhafa, meðal annars um formbreytingu lána hjá Sparisjóðabanka Íslands hf.123 Þá yrði víkjandi láni Byggðastofnunar að fjárhæð 126 milljónir króna breytt í stofnfé. Fyrir lá að Byggðastofnun hafði samþykkt að kaupa stofnfé fyrir 70 milljónir króna sem greitt skyldi með hlutabréfum í Eignarhaldsfélagi Suðurnesja hf. en óljóst var hvort af þeim kaupum yrði ef víkjandi láni yrði breytt í stofnfé. Saga Capital skyldi finna fjárfesta fyrir 125 milljóna króna stofnfjáraukningu, en reiknað var með aðkomu Tryggingasjóðs sparisjóða og aðkomu þáverandi stofnfjárhafa. Þá gerði aðgerðaáætlunin ráð fyrir að ekki yrði farið fram á beint ríkisframlag.124
Hinn 8. júlí 2009 fór Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis fram á að Fjármálaeftirlitið framlengdi frest sparisjóðsins til að auka við eiginfjárgrunn sinn með vísan til aðgerðaáætlunar sparisjóðsins. Samþykkti Fjármálaeftirlitið að framlengja frest sparisjóðsins til 31. júlí en þá átti að liggja fyrir hvort lánardrottnar sparisjóðsins hefðu tekið jákvætt í þær hugmyndir sem raktar voru í áætluninni.125
Í bréfi Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis til Fjármálaeftirlitsins 30. júlí 2009 var enn óskað eftir framlengingu á fresti sparisjóðsins og vísað til þess að viðræður við kröfuhafa stæðu yfir. Í bréfinu segir:
Aðkoma Byggðastofnunar er hins vegar óljós þar sem ákvarðanir um mál Byggðastofnunar virðast nú liggja hjá Fjármálaráðuneytinu. Þrátt fyrir töluverða pressu um lausn mála, er enn ekki ljóst hvort krafa Sparisjóðabankans liggi hjá Seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu, eða færist aftur í Sparisjóðabankann.126
Með vísan til þess að ekki lá fyrir hvort lánardrottnar sparisjóðsins hefðu tekið jákvætt í þær hugmyndir sem raktar voru í áætlun sparisjóðsins og þess að ekki lægi fyrir hverjir færu með kröfu Sparisjóðabanka Íslands á hendur sparisjóðnum samþykkti Fjármálaeftirlitið að framlengja frest sparisjóðsins til 7. ágúst 2009.127 Fresturinn var síðar ítrekað framlengdur, síðast til 22. júní 2010.
Undir lok sumars 2009 tóku fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands, undir forystu bankans, upp nánari samvinnu um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóða, þegar ljóst var að sparisjóðirnir uppfylltu ekki allir skilyrði reglna um framlag til sparisjóða.128 Seðlabanki Íslands var helsti kröfuhafi sparisjóðanna á þessum tíma, eftir að hafa fengið framseldar kröfur Sparisjóðabankans á hendur sparisjóðunum, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars sama ár. Þar á meðal voru kröfur á hendur Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis, sem námu rúmum 874 milljónum króna.129 Í september 2009 sendi Seðlabanki Íslands, í samvinnu við fjármálaráðuneytið, sparisjóðunum tillögu um meðferð krafna á hendur sparisjóðunum og var unnið að frekari útfærslu hennar um veturinn. Hinn 1. febrúar 2010 sendi Seðlabankinn síðan sparisjóðunum bréf þar sem þeim var boðið að semja um uppgjör krafna með ákveðnum kjörum og skilyrðum.130 Viku síðar, 8. febrúar, kynnti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum kröfur sínar varðandi fjárhagslega endurskipulagningu með aðild ríkissjóðs á grundvelli laga nr. 125/2008 eða með aðild Seðlabanka Íslands á grundvelli samnings um uppgjör krafna. Fjármálaeftirlitið gerði þá meðal annars kröfu um að eiginfjárhlutfallið yrði að lágmarki 16% að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu.131
Sparisjóðurinn sendi Fjármálaeftirlitinu útreikninga vegna skilyrða þess um eigin- og lausafjárkröfur þess 17. mars 2010. Yfirferð Fjármálaeftirlitsins gaf ekki tilefni til annars en að álykta að sparisjóðurinn stæðist gerðar kröfur eftir fjárhagslega endurskipulagningu og samþykkti því, miðað við fyrirliggjandi gögn, að Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis gengi til endanlegra samninga við Seðlabanka Íslands og aðra kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu.132
28.6.3 Samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu
Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis lagði fram tillögu að fjárhagslegri endurskipulagningu 8. mars 2010. Tillaga sparisjóðsins fól í fyrsta lagi í sér að víkjandi láni Byggðastofnunar að fjárhæð 132,7 milljónir króna yrði breytt í stofnfé; í öðru lagi myndi Seðlabanki Íslands afskrifa 561 milljón króna og breyta síðan 250 milljónum króna af kröfu sinni í stofnfé og eftirstöðvum kröfunnar, eða 106 milljónum króna, í víkjandi lán. Að fjárhagslegri endurskipulagningu lokinni yrði eigið fé sparisjóðsins tæplega 341 milljón króna og eiginfjárhlutfallið 17,7%. Þá miðaðist tillagan við að Seðlabankinn gæfi eftir hluta stofnfjár þannig að stofnfjárhafar héldu 10% hlut af stofnfé. Til stuðnings tillögu sinni vísaði sparisjóðurinn til þess að ella ættu stofnfjárhafar aðeins um 0,6% hlut í sjóðnum að endurskipulagningu lokinni.133
Seðlabanki Íslands óskaði eftir þeirri breytingu á tilboði sparisjóðsins að stofnfjárhafar myndu, eftir fjárhagslega endurskipulagningu, ekki eiga meira en 5% af heildarstofnfé sparisjóðsins en samþykkti áætlunina að öðru leyti, þó með fyrirvara um samþykki annarra kröfuhafa og Fjármálaeftirlitsins.134 Áform ríkisins og Seðlabanka Íslands um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna voru einnig háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem samþykkti áformin 21. júní 2010.135
Í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, varðandi lögmæti lánsskuldbindinga í íslenskum krónum tengdra gengi erlendra gjaldmiðla, sendu Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fjármálafyrirtækjum tilmæli vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða hinn 30. júní 2010. Í kjölfarið var fjármálafyrirtækjum gert að endurmeta eiginfjárþörf sína í ljósi þeirra aðstæðna og tryggja að eigið fé yrði nægilegt til þess að mæta hugsanlegri rýrnun eigna umfram það sem endurreikningur hefði í för með sér.136
Í skýrslu KPMG hf., fyrir hönd sparisjóðsins, til Fjármálaeftirlitsins vegna fyrirspurnar um óvissu um bókfært virði gengisbundinna útlána kom fram að við mat á áhrifum dóma Hæstaréttar á eigið fé sparisjóðsins hefði verið miðað við áætlað eigið fé sparisjóðsins að teknu tilliti til samnings við Seðlabanka Íslands. Miðað við þær forsendur myndi eigið fé sparisjóðsins lækka um 78 til 153 milljónir króna eftir því við hvaða vaxtaforsendur væri miðað, og yrði eiginfjárhlutfallið þá á bilinu 14,5–18,4%. Væri miðað við sömu forsendur og í samningum við Seðlabanka Íslands um fjárhagslega endurskipulagningu, það er að eignarhlutir í öðrum fjármálafyrirtækjum væru dregnir frá að fullu, myndi eiginfjárhlutfallið lækka um 2% og yrði á bilinu 12,7–16,3%.137 Því þurfti að endurskoða fyrri áætlun sparisjóðsins um fjárhagslega endurskipulagningu.
Sparisjóðurinn lagði fram uppfærða áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu 16. desember 2010. Þar sagði að eigið fé sparisjóðsins væri neikvætt um tæplega 580 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið neikvætt um 48,5%. Endurskipulagningaráform sparisjóðsins fólu í sér, í fyrsta lagi að gjaldfæra yrði 41 milljón króna vegna ólögmætra erlendra lána sparisjóðsins; í öðru lagi að Byggðastofnun breytti 136,5 milljóna króna víkjandi láni í stofnfé; í þriðja lagi að Seðlabankinn afskrifaði rúmlega 751 milljón króna og breytti 105 milljónum króna af kröfu sinni í stofnfé; í fjórða lagi kæmi inn nýtt stofnfé frá Tryggingasjóði sparisjóða; og í fimmta lagi tæki sparisjóðurinn nýtt 19 milljóna króna víkjandi lán hjá Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. Að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu yrði eignarhald sparisjóðsins með þeim hætti að Seðlabanki Íslands ætti 40,67%, Byggðastofnun 35,25%, Tryggingarsjóður sparisjóða 23,24% og stofnfjáreigendur 0,83%.138
Fjármálaeftirlitið staðfesti 17. desember 2010 fyrra samþykki sitt frá 24. mars 2010 um að kröfum þess varðandi fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis hefði verið fullnægt en Fjármálaeftirlitið hafði farið fram á það 8. febrúar 2010 að sparisjóðurinn sýndi fram á að hann gæti uppfyllt skilyrði eftirlitsins um eiginfjárhlutfall næstu þrjú árin. Í endurnýjuðu samþykki Fjármálaeftirlitsins var þó bent á að lítið svigrúm væri í áætlunum sparisjóðsins:
Sparisjóðurinn stefnir á að skila hagnaði fyrir árið 2011. Sjóðurinn skilaði inn undirritaðri yfirlýsingu, dags. 15. desember 2010, þar sem staðfest er að áætlunin sé gerð eftir bestu vitund sjóðsins. Í yfirlýsingunni kemur fram hvaða þættir í rekstri sparisjóðsins horfi til batnaðar fyrir hann. Fjármálaeftirlitið telur raunhæft m.v. fyrirliggjandi upplýsingar að sparisjóðurinn nái markmiðum sínum en ljóst er að lítið má út af bera til þess að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins fari undir þau mörk sem eftirlitið setur.139
Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis og Seðlabanki Íslands undirrituðu síðan samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins 21. desember 2010 sem kom í stað eiginfjárframlags úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 125/2008. Samkomulagið tók til krafna samkvæmt „Rammasamningi um reikningslán milli Sparisjóðs Þórshafnar og nágr. og Sparisjóðabanka Íslands hf.“ frá 22. desember 2004 og til veðláns samkvæmt lánssamningi sem gerður var 18. mars 2009. Seðlabankinn hafði fengið kröfurnar framseldar frá Sparisjóðabanka Íslands hf. í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009. Kröfurnar námu á framsalsdegi annars vegar 798,3 milljónum króna og hins vegar 76,1 milljón króna, eða samtals 874,4 milljónum króna, og var samkomulagið takmarkað við þessar kröfur. Uppgjörið var háð því skilyrði að Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis drægi til baka umsókn sína um eiginfjárframlag úr ríkissjóði sem hann og gerði degi síðar.
Að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu varð hagnaður af rekstri Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis sem nam 510 milljónum króna á árinu 2010 en þá hafði niðurfelling á 735 milljóna króna skuld við Seðlabanka Íslands verið tekjufærð. Bókfært eigið fé í árslok 2010 nam 333 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið 16,4%.140 Á árinu 2011 var hins vegar 62,3 milljóna króna tap á rekstri sparisjóðsins og nam bókfært eigið fé hans í árslok 2011 285,5 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið 16,4%.141
28.7 Arður af stofnfjáreign
Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis greiddi stofnfjárhöfum lengst af arð af stofnfé þeirra. Á árunum 2001 til 2008 námu arðgreiðslur vegna næstliðinna rekstrarára samtals 1,2 milljónum króna. Þar af voru 340 þúsund krónur greiddar í formi innborgaðs stofnfjár. Arðgreiðsla vegna 2004 og 2006 var eingöngu í formi innborgaðs stofnfjár. Greiðsla arðs á þessum árum var nokkurn veginn í samræmi við reglur Tryggingasjóðs sparisjóða, en þó rétt umfram leyfilegt hámark vegna áranna 2005 og 2007.142 Reglur Tryggingasjóðs giltu til ársins 2009 þegar lögum var breytt og eftir það mátti greiða út arð sem næmi að hámarki 50% af hagnaði.143 Arðgreiðslur og forsendur þeirra eru tíundaðar í töflu 28.
Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.144 Árin 2005 til 2008 var stofnfé Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga um 593 þúsund krónur. Framkvæmdin var ekki fyllilega í samræmi við reglur því hækkun stofnfjár var lítillega umfram verðbólgu öll árin. Mestur var munurinn tæplega sex prósentustig árið 2006. Stofnfé var ekki verðbætt eftir 2008.
Í sömu lögum var jafnframt heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar stofnfjár með svokölluðu sérstöku endurmati.145 Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Á aðalfundum sparisjóðsins 2006 til 2008 var samþykkt að nýta heimild til sérstaks endurmats og hækka stofnfé í lok næstliðins árs. Alls var stofnfé þannig hækkað með sérstöku endurmati um 214 þúsund krónur. Þetta var í samræmi við lög, að undanskildu árinu 2006 þegar hækkun stofnfjár var 5,5% og því umfram 5% leyfilega hámarkshækkun.
Í töflu 28 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var hins vegar greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmdar. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.
28.8 Innra eftirlit
Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hafi verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis og áhrif þeirra á rekstur sparisjóðsins. Áhersla var lögð á tímabilið frá 2005 til 2011.
28.8.1 Innri endurskoðun
Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis starfrækti ekki eigin innri endurskoðunardeild á því tímabili sem til athugunar var, en Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum undanþágu frá rekstri eigin endurskoðunardeildar í kjölfar þess að sparisjóðurinn gerði samning um innri endurskoðun við KPMG hf. árið 2003. Sá KPMG um innri endurskoðun fyrir sparisjóðinn allt til ársins 2010 og tók PricewaterhouseCoopers við frá og með starfsárinu 2011. Fólst innri endurskoðun meðal annars í könnun á þáttum í innra eftirliti sparisjóðsins, hvort unnið hafi verið í samræmi við ákvarðanir stjórnar, hvort starfsreglur hafi verið virtar, sem og lög og aðrar viðmiðanir.146
Í skýrslu um innri endurskoðun fyrir árið 2005 var bent á mikilvægi þess að sparisjóðurinn aflaði fjárhagslegra upplýsinga frá viðskiptamönnum sínum, en í nokkrum tilvikum höfðu slík gögn ekki legið fyrir. Mikilvægt væri að forsvarsmenn sparisjóðsins öfluðu formlegra trygginga vegna skuldbindinga viðskiptamanna sinna þegar þess væri þörf og jafnframt var sett fram ábending til stjórnenda um að fylgjast grannt með þróun vanskila hjá sparisjóðnum.147 Voru þessar ábendingar ítrekaðar í skýrslum um innri endurskoðun árin 2006 til 2008. Í skýrslum um innri endurskoðun vegna áranna 2005 og 2006 voru jafnframt gerðar athugasemdir við tilvist tryggingarvíxla og kostnaðarreikninga, auk athugasemda við öryggismál og aðgangsheimildir. Í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2007 var bent á mikilvægi þess að kanna raunvirði trygginga nokkurra stærstu viðskiptaaðila sparisjóðsins og afla viðbótartrygginga væri þess talin þörf og var sú ábending ítrekuð í skýrslu vegna ársins 2008. Jafnframt var minnt á að skýrar verklagsreglur vegna þátttöku sparisjóðsins í lánveitingum Sp-ráðgjafar þyrftu að vera til staðar.148
Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2009 voru gerðar nokkrar athugasemdir við útlán og innheimtumál. Taldi innri endurskoðandi að kjör útlána endurspegluðu ekki áhættu sparisjóðsins við útlán, sem birtist meðal annars í því að einstaklingum í vanskilum væru veitt lán án trygginga. Leit innri endurskoðandi svo á að gera yrði átak í innheimtumálum sparisjóðsins svo hann yrði betur í stakk búinn til að taka ákvarðanir um áframhaldandi innheimtuaðgerðir. Þá yrði að útbúa reglur um innheimtu og skrá niður rök fyrir því að vikið væri frá þeim reglum.149
Sparisjóðsstjóri skilaði skriflegri athugasemd við skýrsluna og gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum og ástæðum þess að einstaklingum, sem voru í vanskilum, voru veitt lán án trygginga en um var að ræða skuldbreytingar.150 Sparisjóðsstjórinn gerði einnig grein fyrir stöðu innheimtumála en innri endurskoðandi hafði gert athugasemd við að þeim hefði ekki verið sinnt sem skyldi. Var hann ósammála tillögu innri endurskoðanda um að mánaðarlegar afborganir væru áhættuminni fyrir sjóðinn en í nokkrum tilvikum var gert ráð fyrir að greitt væri af lánum sjóðsins einu sinni á ári. Sparisjóðsstjóri áréttaði þó að hann teldi allar athugasemdir til góðs og að starfsmenn myndu reyna að bæta vinnubrögð í samræmi við þær.
Þegar KPMG vann að innri endurskoðun vegna ársins 2009 lá fyrir að sparisjóðsstjóri myndi láta af störfum um mitt ár 2010 og að annar starfsmaður sparisjóðsins myndi einnig láta af störfum innan tíðar. Taldi innri endurskoðandi ástæðu til að benda á í skýrslu sinni að hætta gæti fylgt því er fyrirséð væri að starfsmenn hyrfu á brott, að áhugi þeirra gæti dvínað auk þess sem hætta væri á að hagsmuna sparisjóðsins væri ekki gætt. Í nokkrum tilfellum hefðu umræddir aðilar vísað hvor á annan við öflun upplýsinga um stöðu félaga og því hefði upplýsingaöflun innri endurskoðanda orðið erfiðari.151
Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2010 kom fram að mikið af tíma sparisjóðsstjóra hefði farið í innheimtu og yfirferð vanskila. Lagði innri endurskoðandi til að þeirri vinnu yrði haldið áfram og taldi mikilvægt að halda vel utan um mál í innheimtu. Í skýrslu vegna ársins 2011 sagði að stjórnendur sparisjóðsins þyrftu að huga vel að vanskilum sem virtust heldur vera að aukast hjá sparisjóðnum.
1 . „Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis 50 ára“, Morgunblaðið 23. september 1994.
2 . Samþykktir Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, apríl 2011. Í eldri samþykktum voru sambærileg ákvæði um starfsemi sparisjóðsins, að því undanskildu að hlutverk sparisjóðsins var þar ekki skilgreint með sambærilegum hætti, sbr. m.a. samþykktir sparisjóðsins frá 11. apríl 2002 og 3. apríl 2003 með síðari breytingum.
3 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 15. mars 2006.
4 . Aðalfundur Sambands íslenskra sparisjóða, ágúst 2008.
5 . Í athugasemdum Ragnars Þorgeirssonar sparisjóðsstjóra og Kristínar Kristjánsdóttur stjórnarmanns til rannsóknarnefndarinnar 28. október 2013 kom fram að Ragnar Þorgeirsson hefði vikið sæti úr stjórn þegar hann tók við sem sparisjóðsstjóri síðar sama ár og varamaður komið inn í hans stað.
6 . „Samruni Sparisjóðs Svarfdæla við Sparisjóð Norðurlands ses. (áður Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis)“, fme.is 7. september 2013, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/1863.
7 . Nánar er fjallað um meðhöndlun ársreikninga og reikningsskilareglur í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.
8 . Framlag í Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta (TIF), árgjald til Fjármálaeftirlitsins, árgjald til umboðsmanns skuldara og svo nefndur bankaskattur.
9 . Skýrsla Bankasýslu ríkisins um starfsemi sína 2012.
10 . Útreikningur á vaxtamun er skýrður í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.
11 . Um launaþróun sparisjóðanna í heild er fjallað í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna. Þar má jafnframt lesa almennt um risnu og fríðindi starfsmanna sparisjóðanna.
12 . Útreikningur á kjarnarekstri er skýrður nánar í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.
13 . Nánar er greint frá Sp-ráðgjöf ehf. í 9. kafla, um útlán sparisjóðanna.
14 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2007, 28. mars 2008.
15 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2009, 30. mars 2010.
16 . Ársreikningur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2011.
17 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2008, 29. maí 2009.
18 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2008, 29. maí 2009.
19 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2007, 28. mars 2008.
20 . Ársreikningar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis.
21 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2007, 28. mars 2008.
22 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2008, 29. maí 2009.
23 . Skýrsla KPMG ehf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2010.
24 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2011, 19. mars 2012.
25 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2011, 19. mars 2012.
26 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2005, 3. janúar 2006.
27 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2007, 21. janúar 2008.
28 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2008, 11. desember 2008.
29 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2009, 3. febrúar 2010.
30 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2005, 29. mars 2006.
31 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2007, 28. mars 2008.
32 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2008, 29. maí 2009.
33 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2009, 30. mars 2010.
34 . Um skilgreiningu á eigin fé vísast til 84. gr. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
35 . Það eintak sem rannsóknarnefndinni var afhent var óundirritað afrit en þar stóð að reglurnar hefðu verið samþykktar á fundi stjórnar sparisjóðsins 29. desember 2003.
36 . Eintak rannsóknarnefndar var óundirritað en er dagsett 9. mars 2011. Stjórnarfundargerð frá sama degi sýnir samþykkt reglnanna.
37 . Nánari umfjöllun um aðferðarfræði, forsendur og gögn má finna í 9. kafla, um útlán sparisjóðanna.
38 . Reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar taka til lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta og veittra ábyrgða fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu og mats á áhættu vegna slíkra skuldbindinga. Reglurnar taka einnig til samstæðu fjármálafyrirtækis og móður- og dótturfyrirtækja. Það telst vera stór áhættuskuldbinding þegar viðskiptamaður eða fjárhagslega tengdir aðilar fá lán, ábyrgðir, gera framvirka samninga eða fá aðrar fyrirgreiðslur hjá fjármálafyrirtæki og slík skuldbinding fer yfir 10% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækisins. Áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila máttu ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni, sbr. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 er eiginfjárgrunnur reiknaður út samkvæmt 84.–85. gr. laga nr. 161/2002 og reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fyrirtækja.
39 . Skýrsla Ólafs Orrasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 10. júlí 2013.
40 . Sp-ráðgjöf ehf. var samstarfsverkefni fimm sparisjóða af landsbyggðinni og starfaði sem þjónustueining þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Sp-ráðgjöf ehf. var milligönguaðili sem veitti ekki útlán heldur voru lánin veitt af sparisjóðunum samkvæmt ákveðnu hlutfalli hverju sinni. Sjá nánari umfjöllun um Sp-ráðgjöf ehf. í 9. kafla.
41 . Í athugasemdum Ragnars Þorgeirssonar sparisjóðsstjóra og Kristínar Kristjánsdóttur stjórnarmanns til rannsóknarnefndarinnar 28. október 2013 kom fram að sparisjóðurinn hefði aldrei verið í forsvari fyrir útlán frá Sp-ráðgjöf. Ragnar Þorgeirsson hefði vikið sæti úr stjórn þegar hann tók við sem sparisjóðsstjóri síðar sama ár og varamaður komið inn í hans stað.
42 . Skýrsla Guðna Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.
43 . Í athugasemdum Ragnars Þorgeirssonar sparisjóðsstjóra og Kristínar Kristjánsdóttur stjórnarmanns til rannsóknarnefndarinnar 28. október 2013 kom fram að Kristján Hjelm, framkvæmdastjóri Sp-ráðgjafar ehf., hefði notið trausts stjórnar sparisjóðsins.
44 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2008, 29. maí 2009.
45 . Nafni félagsins var breytt í KK 1905 ehf. í maí 2009.
46 . Samkvæmt hlutafjármiðum RSK fyrir árið 2007 voru aðrir eigendur Byr sparisjóður (3,5%), Kontakt ehf. (2,8%), Sp-ráðgjöf ehf. (3,5%), Sigurður Guðjónsson (10,4%), Sigurlaug Kristín Sævarsdóttir (19%), Jón Baldvin Haraldsson (10,2%) og Ársæll Óskar Steinmóðsson (6,9%). Svipað eignarhald var árið 2008, en miðað er við eignarhaldið árið 2007 þegar lánveiting átti sér stað.
47 . Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, Sparisjóðs Vestfirðinga, Sparisjóðs Bolungarvíkur, Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis og Sparisjóðs Strandamanna.
48 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2008, 11. desember 2008.
49 . Eins og fyrr greinir var eiginfjárgrunnur sparisjóðsins neikvæður í árslok 2008 og samkvæmt fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins var miðað við stöðu eiginfjárgrunns um mitt ár 2008 við skýrsluskil.
50 . Eins og fyrr greinir var eiginfjárgrunnur sparisjóðsins neikvæður í árslok 2008 og samkvæmt fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins var miðað við stöðu eiginfjárgrunns um mitt ár 2008 við skýrsluskil.
51 . Hámarksfyrirgreiðsla sem sparisjóðsstjóri mátti veita samkvæmt viðauka við lánareglur frá 2007 var 19 milljónir króna eða 5% af eiginfjárgrunni. Eiginfjárgrunnur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 31. desember 2006 var 383,7 milljónir króna samkvæmt ársreikningi og hámarksheimild miðað við eiginfjárgrunn 19,2 milljónir króna.
52 . Eins og fyrr greinir var eiginfjárgrunnur sparisjóðsins neikvæður í árslok 2008 og samkvæmt fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins var miðað við stöðu eiginfjárgrunns um mitt ár 2008 við skýrsluskil.
53 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2008, 11. desember 2008.
54 . Arnarmýri ehf. var stofnað af Brynhildi Bergþórsdóttur, starfsmanni hjá Kontakt ehf., ráðgjafafyrirtæki sem kom að kaupum Arnarmýrar ehf. á Eico ehf. Aldrei var skilað inn hlutafjármiðum eða ársreikningum fyrir Arnarmýri ehf. Samkvæmt fundargerð stjórnar félagsins keyptu Karl og Magnús allt hlutafé í félaginu 1. mars 2007.
55 . Félag með sama heiti, Eico ehf., er einnig til. Félagið sem hér um ræðir er með kennitöluna 470879-0259.
56 . Eins og fyrr greinir var eiginfjárgrunnur sparisjóðsins neikvæður í árslok 2008 og samkvæmt fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins var miðað við stöðu eiginfjárgrunns um mitt ár 2008 við skýrsluskil.
57 . Stjórnarfundur 2. september 2009 bókaði að staða lána til Arnarmýrar ehf. næmi 43.556.340 krónum en í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2009 kemur fram að 42.829.000 krónur voru færðar út úr bókum sparisjóðsins að fullu.
58 . Ársreikningar Tarra ehf.
59 . Tölvuskeyti Kristjáns Hjelm til þátttakenda í Sp-ráðgjöf ehf. 8. maí 2007.
60 . Hámarksfyrirgreiðsla sem sparisjóðsstjóri mátti veita samkvæmt viðauka við lánareglur frá 2007 var 19 milljónir króna eða 5% af eiginfjárgrunni. Eiginfjárgrunnur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 31. desember 2006 var 383,7 milljónir króna samkvæmt ársreikningi og hámarksheimild miðað við eiginfjárgrunn 19,2 milljónir króna.
61 . Eins og fyrr greinir var eiginfjárgrunnur sparisjóðsins neikvæður í árslok 2008 og samkvæmt fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins var miðað við stöðu eiginfjárgrunns um mitt ár 2008 við skýrsluskil.
62 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2009, 3. febrúar 2010.
63 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2011, 19. mars 2012.
64 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis til rannsóknarnefndarinnar 23. janúar 2013.
65 . Áhvílandi fjárhæð á 1. veðrétti er ekki tilgreind í handveðssamningunum.
66 . Nafni Skrifstofuvara ehf. var breytt í JK-Trading ehf. í mars 2009 samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra sama dag.
67 . Kaupsamningur á milli JK Fjárfestingar ehf. og Skrifstofuvara ehf., 1. ágúst 2007.
68 . Síðar leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2010 um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, endurskoðun á leiðbeinandi tilmælum nr. 4/2006.
69 . Miðað var við 10% lágmarks eignarhlut, sbr. ákvæði í reglum um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra.
70 . Mögulegt er að ekki hafi öll útlán komið fram í útlánagrunni sparisjóðsins og eru upplýsingarnar því settar fram með þeim fyrirvara.
71 . Um það hverjir töldust til minni sparisjóða og hverjir til hinna stærri vísast til taflna 5, 9 og 10 í 8. kafla skýrslunnar.
72 . Byggt á sundurliðun frá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis sem afhent var rannsóknarnefndinni.
73 . Skýrsla Guðna Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013. Sjá umfjöllun um þessa aðstoð í 5. kafla, um samstarf sparisjóðanna.
74 . Viðskipti sem þessi, sem gerð eru yfir áramót, hafa áhrif á þá mynd af efnahagi og rekstri sjóðsins sem dregin er upp í ársreikningi, sem og skýrsluskil fyrir áramótastöðu. Mörg dæmi eru um slíkt meðal sparisjóðanna og annarra fjármálastofnana. Með þessum viðskiptum hefði Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis gert slíkt hið sama. Á eiginfjárskýrslum vegna loka árs 2008 er frádráttur vegna Íslenskra verðbréfa hf. um 86 milljónir króna en ári síðar var frádrátturinn um 10 milljónir króna. Enginn frádráttur er vegna félagsins á öðrum eiginfjárskýrslum ársins 2009, en þær eru gerðar ársfjórðungslega. Í fyrstu skýrslu ársins 2010 er frádráttur vegna Íslenskra verðbréfa 82 milljónir króna. Hér er miðað við skýrslur samkvæmt Basel I, þ.e. ekki Corep skýrslurnar.
75 . Bréf KPMG hf. til stjórnar Sögu eignarhaldsfélags hf. 22. janúar 2010.
76 . Skýrsla Guðna Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.
77 . Skýrsla Kristínar Kristjánsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 11. apríl 2013.
78 . Sjá nánari útskýringu í upphafi 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.
79 . Lausafjáryfirlit Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, skýrsla sparisjóðsins sem skilað var til Seðlabanka Íslands mánaðarlega frá janúar 2005 til desember 2011.
80 . Atvinnugreinaflokkun innlána sparisjóðsins sem skilað var mánaðarlega til Seðlabanka Íslands frá júlí 2007 til desember 2011.
81 . Bréf Seðlabanka Íslands til Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 8. mars 2010. Nánar er fjallað um fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins síðar í þessum kafla.
82 . Rammasamningur um lánsheimild í erlendum myntum milli Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis og Sparisjóðabanka Íslands hf., 22. desember 2004.
83 . Yfirlit lánasamninga Íbúðalánasjóðs við sparisjóði, útbúið af Íbúðalánasjóði, 3. júlí 2012. Nánar er fjallað um fjármögnun sparisjóðanna hjá Íbúðalánasjóði í 11. kafla.
84 . Í lok árs 2006 var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 17,2% en hefði verið 14,5% ef víkjandi lán hefðu ekki verið til staðar. Í lok árs 2007 var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 12,4% en hefði verið 8,4% ef víkjandi lán hefðu ekki verið til staðar.
85 . Skýrsla Kristínar Kristjánsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 11. apríl 2013; skýrsla Guðna Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.
86 . Samkvæmt listum yfir viðskipti með stofnfjárbréf frá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis.
87 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 26. september 2007.
88 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 31. október 2007.
89 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 4. desember 2007; fundargerð stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 21. desember 2007.
90 . Tölvuskeyti Ragnars Þorgeirssonar til rannsóknarnefndarinnar 14. júní 2013.
91 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 21. desember 2007. Til að breyta samþykktum sjóðsins þurfti aukinn meiri hluta (2/3 hluta greiddra atkvæða) á stofnfjáreigendafundi, auk þess sem hinn aukni meiri hluti færi með 2/3 hluti þess stofnfjár sem farið var með atkvæði fyrir á fundinum, sbr. þágildandi 38. gr. samþykkta sparisjóðsins. Atkvæði féllu þannig að 63 sögðu já við tillögu um stofnfjáraukningu en 33 sögðu nei. Af fundargerð má ráða að enginn hafi skilað auðu eða ógildu atkvæði.
92 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 6. maí 2008.
93 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 25. júlí 2008; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 28. ágúst 2008.
94 . Skýrsla Guðna Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.
95 . Í 3. mgr. 86. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki segir að komi fram í reikningsuppgjöri að eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis fullnægi ekki ákvæðum 84. gr. skuli stjórn þess án tafar boða til fundar hluthafa eða stofnfjáreigenda til ákvörðunar og afhenda síðan Fjármálaeftirlitinu greinargerð þar sem fram kemur til hverra ráðstafana hún hyggist grípa af þessu tilefni. Greinargerð þessi skal afhent innan frests sem Fjármálaeftirlitið tiltekur.
96 . Samkvæmt lokamálslið ákvæðisins er með endurskipulagningu fjárhags lánastofnunar með höfuðstöðvar á Íslandi átt við heimild til greiðslustöðvunar og heimild til að leita nauðasamnings samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
97 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 25. nóvember 2008.
98 . Í samræmi við 2. gr. laga nr. 125/2008 (neyðarlög). Á þessum tíma var stjórn sparisjóðsins ekki búin að taka formlega ákvörðun um að sækja um eiginfjárframlag á grundvelli ákvæðisins.
99 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 25. nóvember 2008.
100 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 28. nóvember 2008.
101 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 28. desember 2008.
102 . Bréf Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis til fjármálaráðuneytisins 25. mars 2009.
103 . Sjá m.a. beiðni Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 25. mars 2009 til fjármálaráðuneytisins um eiginfjárframlag í samræmi við 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.
104 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 18. desember 2008.
105 . Skýrsla Guðna Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.
106 . Skýrsla Guðna Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.
107 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 7. desember 2009.
108 . Sjá nánari umfjöllun um þessi atriði í 27. kafla, um Sparisjóð Suður-Þingeyinga.
109 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 22. október 2008.
110 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 7. nóvember 2008.
111 . Sbr. 2. gr. laga nr. 125/2008 (neyðarlög). Á þessum tíma var stjórn sparisjóðsins ekki búin að taka formlega ákvörðun um að sækja um eiginfjárframlag á grundvelli ákvæðisins.
112 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 25. nóvember 2008.
113 . Bréf Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis til Fjármálaeftirlitsins 1. desember 2008. Í athugasemdum Ragnars Þorgeirssonar sparisjóðsstjóra og Kristínar Kristjánsdóttur stjórnarmanns til rannsóknarnefndarinnar 28. október 2013 kom fram að þessi viðskipti hefðu ekki gengið eftir.
114 . Verð á Eignarhaldsfélagi Suðurnesja hf. var miðað við hluta Byggðastofnunar í eigin fé félagsins sem var 19,2% og reiknaðist því um 70 milljónir króna.
115 . Bréf Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis til fjármálaráðuneytisins 25. mars 2009.
116 . Sparisjóðurinn segir í umsókn sinni að um 213 milljóna króna nýtt stofnfé sé að ræða, en í staðfestingu endurskoðanda segir að fjárhæðin nemi 163 milljónum króna. Mismuninn viðist mega rekja til þess að endurskoðandi reikni ekki með hugsanlegri formbreytingu krafna Sparisjóðabanka Íslands hf.
117 . Bréf KPMG hf. til Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 25. mars 2009.
118 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytis 21. apríl 2009.
119 . Bréf Seðlabanka Íslands til fjármálaráðuneytisins 21. apríl 2009. Nánar er fjallað um umsögn Seðlabankans um umsóknir sparisjóðanna í 13. kafla.
120 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og rekstri Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 23. júní 2009.
121 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og rekstri Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 23. júní 2009.
122 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 22. júní 2009.
123 . Kröfur Sparisjóðabanka Íslands hf. á hendur Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis voru fluttar til Seðlabanka Íslands með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðabanka Íslands hf. 21. mars 2009.
124 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 1. júlí 2009; aðgerðaáætlun Saga Capital vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar sparisjóðsins, lögð fram á stjórnarfundi 1. júlí 2009.
125 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 13. júlí 2009.
126 . Bréf Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis til Fjármálaeftirlitsins 30. júlí 2009.
127 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 31. júlí 2009.
128 . Bréf Seðlabanka Íslands til sparisjóða 8. september 2009.
129 . Minnisblað Seðlabanka Íslands um vinnu með kröfur Seðlabanka Íslands á hendur sparisjóðunum, 21. ágúst 2009.
130 . Ákvörðun bankastjóra Seðlabanka Íslands nr. 1028, 1. febrúar 2010. Um bréf Seðlabanka Íslands, kjör hans og skilmála má lesa í 13. kafla.
131 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til sparisjóða 8. febrúar 2010. Frekari umfjöllun um kröfur Fjármálaeftirlitsins er í 13. kafla.
132 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 24. mars 2010.
133 . Áætlun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis um fjárhagslega endurskipulagningu, 8. mars 2010.
134 . Bréf Seðlabanka Íslands til Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 8. mars 2010.
135 . Nánari umfjöllun um ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA er í 13. kafla.
136 . „Tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða“, fme.is, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/650. Nánari umfjöllun er að finna í 13. kafla.
137 . Skýrsla KPMG hf. vegna óvissu um bókfært virði gengisbundinna útlána, ágúst 2010.
138 . Áætlun Sparisjóðs Þórshafnar um fjárhagslega endurskipulagningu, uppfærð áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins, 16. desember 2010.
139 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 17. desember 2010.
140 . Ársreikningur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2010.
141 . Ársreikningur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2011.
142 . Arðgreiðsla vegna ársins 2005 var 10,4% af stofnfé en leyfilegt hámark var þá 10%. Arðgreiðsla vegna ársins 2006 var 23% af stofnfé en leyfilegt hámark var þá 22,8%. Gerð er grein fyrir reglum um greiðslu arðs í 12. kafla.
143 . Lögum um fjármálafyrirtæki var breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.
144 . Þessi heimild hafði verið við lýði allt frá 1993. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.
145 . Sú heimild kom inn í lög 2001. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.
146 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2008, 11. desember 2008.
147 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2005, 3. janúar 2006.
148 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2007, 21. janúar 2008.
149 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2009, 3. febrúar 2010.
150 . Skrifleg athugasemd sparisjóðsstjóra við skýrslu um innri endurskoðun 2009 frá 3. febrúar 2010.
151 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 2009, 3. febrúar 2010.