8. kafli – Reikningsskil sparisjóðanna og skattlagning

8. Reikningsskil sparisjóðanna og skattlagning

8.1 Inngangur

Hér er fjallað um rekstur sparisjóðakerfisins í heild á árunum 2001–2011 út frá ársreikningum sparisjóðanna. Í kafla 8.2 er umfjöllun um fyrirmæli laga og reglna um reikningsskil og ársreikninga sparisjóða, en þar er um að ræða lög um ársreikninga, reglur settar af Fjármálaeftirlitinu (áður bankaeftirliti Seðlabankans) og reglur alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IFRS).1 Fjallað er um upptöku staðlanna og hverju hún breytti í kafla 8.3. Í kafla 8.4 eru almennar athugasemdir um ársreikninga sparisjóða, ábyrgð á þeim og fylgni þeirra við regluverkið. Gerð er grein fyrir meðhöndlun og framsetningu ársreikninga í skýrslunni í kafla 8.5. Þar eru einnig útskýrðar þær kennitölur sem við sögu koma. Í kafla 8.6, fjárhagsyfirlit, er ársreikningum allra sparisjóða 2001–2011 steypt saman í eina heild á samræmdu formi og þróun helstu liða rakin. Ýmsir rekstrarþættir eru greindir og vísað til dæma úr rekstri einstakra sparisjóða eftir því sem tilefni gefast. Hugað er að efnahag þeirra á tímabilinu og þróun helstu eignaliða og fjármögnun þeirra skoðuð. Í því sambandi er gerð grein fyrir hvernig eigin fé sparisjóðanna hefur reitt af.

Allar fjárhæðir í kaflanum eru á verðlagi hvers árs nema annað sé tekið fram. Allar töflur og myndir eru unnar upp úr ársreikningum sparisjóðanna, nema annað sé tekið fram.

8.2 Lagareglur um reikningsskil sparisjóða

Lög nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði

Við setningu laga nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði var höfð hliðsjón af til­skipun 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana. Í 56. gr. laganna var meðal annars kveðið á um skyldu sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra til að semja ársreikning fyrir hvert almanaksár og um skyldu sömu aðila til að árita reikninginn. Með 1. mgr. 57. gr. var tilgangurinn markaður þannig að ársreikningur skyldi gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu viðskiptabanka eða sparisjóðs og vera gerður í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju og innihalda meðal annars rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar og upplýsingar um liði utan efnahagsreiknings. Í 2. mgr. 57. gr. var vísað til hugtaksins góð reikningsskilavenja, en þar sagði að bankaeftirlitið skyldi sjá til þess í samráði við reikningsskilaráð að á hverjum tíma lægi fyrir skilgreining á góðri reikningsskilavenju við gerð ársreiknings og árshlutareiknings viðskiptabanka og sparisjóða. Loks sagði í 3. mgr. 57. gr. að almennar leiðbeinandi reglur um uppsetningu ársreiknings, innihald einstakra liða rekstrar- og efnahagsreiknings og liða utan efnahagsreiknings og skýringar og mat á einstökum liðum skyldu liggja fyrir á aðgengilegan hátt. Ákvæði um innihald skýrslu stjórnar sem ásamt ársreikningi mynda eina heild var síðan að finna í 58. gr. en þar skyldu veittar upplýsingar um atriði sem væru mikilvæg við mat á fjárhagslegri stöðu hlutaðeigandi stofnunar og afkomu hennar á reikningsárinu sem kæmu ekki fram annars staðar í ársreikningum. Í skýrslu stjórnar skyldi enn fremur upplýst um atburði eftir uppgjörsdag sem hefðu verulega þýðingu, um væntanlega þróun stofnunarinnar og aðgerðir sem hefðu þýðingu fyrir framtíðarþróun hennar.

Við endurútgáfu laganna sem lög nr. 113/1996 var gerð hinna almennu leiðbeinandi reglna formlega sett á könnu bankaeftirlitsins og reikningsskilaráðs. Þá var því jafnframt bætt við að ársreikningur skyldi innihalda kafla um fjárstreymisyfirlit. Þetta var gert til samræmis við 3. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga. Í þeim lögum var ekki tekin afstaða til þess hvers konar fjárstreymisyfirlit skyldi birt í ársreikningi.2

Lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki

Lagaákvæðum um ársreikninga sparisjóða var nær ekkert breytt með setningu laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þar voru 87.–89. gr. efnislega samhljóða 56.–58. gr. í eldri lögum, að því undanskildu að fellt var brott úr 1. mgr. 87. gr. að ársreikningur skyldi innihalda upplýsingar um liði utan efnahagsreiknings og nú skyldi Fjármálaeftirlitið að höfðu samráði við reikningsskilaráð setja reglur um uppsetningu ársreiknings og annað þess háttar. Síðan hefur sú ein breyting verið gerð á þessum ákvæðum að með breytingarlögum nr. 75/2010 var þriðju málsgreininni bætt við 87. gr.: „Í ársreikningi skal tilgreina upplýsingar um launagreiðslur og hvers konar greiðslur eða hlunnindi félagsins til hvers og eins stjórnarmanns og framkvæmdastjóra. Jafnframt skal í ársreikningi tilgreina upplýsingar um heildargreiðslur og hlunnindi lykilstarfsmanna auk upplýsinga um fjölda þeirra.“ Fjárstreymisyfirlitið stendur enn óhaggað í 1. mgr. 87. gr. þrátt fyrir að skylt sé samkvæmt öðrum skyldum lagafyrirmælum að semja sjóðstreymi.

Reglur bankaeftirlits Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins

Reglurnar sem lögin kváðu á um að skyldu settar hafa komið út í þremur útgáfum, auk nokkurra breytinga. Hér verður gerð stutt grein fyrir tilkomu þessara reglna og nokkurra ákvæða þeirra getið.

Með tilvísun til laga nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði gaf bankaeftirlitið út reglur nr. 554/1994 um gerð ársreiknings viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Þær tóku gildi frá og með reikningsárinu 1995. Þarna var fest í sessi sú framsetning á ársreikningi sparisjóða sem hefur í grundvallaratriðum gilt óbreytt til dagsins í dag fyrir þá sparisjóði sem ekki hafa tekið upp reikningsskil í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS/IAS). Smávægilegar breytingar voru gerðar á þessu regluverki með reglum nr. 624/1994 og nr. 717/1995. Fjármálaeftirlitið gerði svo síðustu breytinguna á því með reglum nr. 92/2001. Sú breyting gerði sjóðstreymi að skyldubundnum kafla í ársreikningi lánastofnana og tók hún gildi frá og með reikningsárinu 2001, tveimur árum áður en lög um ársreikninga kváðu á um slíkt. Einnig var þar sett fram skilgreining á óvaxtaberandi útlánum og gerð krafa um sundurliðun á óskráðum veltuhlutabréfum.

Fjármálaeftirlitið gaf regluverkið aftur út 10. september 2001 sem reglur nr. 692/2001 um ársreikninga lánastofnana. Engin efnisleg breyting var gerð, en heiti reglnanna var breytt, tilvísanir til laga uppfærðar og vísað til Fjármálaeftirlitsins í stað bankaeftirlits. Þeim var svo breytt með reglum nr. 51/2002, en þá var skerpt á ákvæðum um hvaða lánþegar skyldu koma til skoðunar við mat á sérstökum afskriftaframlögum og í því sambandi var meðal annars gert ráð fyrir styttingu á vanskilaviðmiðun úr sex mánuðum í þrjá mánuði. Enn fremur var sérstaklega kveðið á um að lánþegar sem samið hefðu um breytingar á lánskjörum vegna vanskila skyldu metnir sérstaklega með tilliti til tapshættu. Nokkru síðar var reglunum breytt á ný með reglum nr. 755/2002 þar sem verðbólgureikningsskil voru afnumin og kveðið á um að endurmatsreikningur samkvæmt slíkum reikningsskilum skyldi leystur upp og færður með óráðstöfuðu eigin fé, þ.e.a.s. í varasjóð, í reikningsskilum fyrir árið 2002.

Fjármálaeftirlitið sendi frá sér reglur nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana, sem tóku gildi 3. nóvember 2003. Þær komu í stað reglna um ársreikninga lánastofnana nr. 692/2001 og reglna um árshlutauppgjör lánastofnana nr. 691/2001 og eru enn í gildi. Með þeim voru meðal annars gerðar breytingar sem vörðuðu í fyrsta lagi aukna upplýsingagjöf um laun stjórnar og framkvæmdastjóra, í öðru lagi upplýsingagjöf um þóknanir til ytri endurskoðanda og í þriðja lagi hertar afskriftareglur með hliðsjón af alþjóðlegum reikningsskilastaðli, IAS 39.

Reglurnar eru í ellefu köflum ásamt fjórum viðaukum. I. kaflinn greinir frá gildissviði þeirra og skilgreiningum á hugtökum. Næstu tveir kaflar hafa að geyma yfirlit yfir efnahagsliði og liði utan efnahagsreiknings og yfir liði rekstrarreiknings, sem eru í rauninni fyrirmæli um form ársreiknings. Í IV. kafla eru almenn ákvæði um efnahagsreikning, rekstrarreikning, sjóðstreymi og liði utan efnahagsreiknings, þ.e. grunnforsendur reikningsskilanna: áframhaldandi rekstrarhæfi, samkvæmni milli ára, tilhlýðilega varkárni, gjöld og tekjur á rekstrargrunni, að óheimilt sé að jafna út eignir á móti skuldum eða tekjur á móti gjöldum nema slíkt sé sérstaklega leyft. Í V. og VI. kafla eru sérstök ákvæði um einstaka liði í efnahagsreikningi og liði utan efnahagsreiknings og um einstaka liði í rekstarreikningnum. Þar er greint frá hvað færa má og færa skuli á þessa liði. Í VII. kafla eru matsreglur; fyrst ákvæði um mat á fastafjármunum, síðan um mat á veltuverðbréfum og loks um mat á útlánum og lífeyrisskuldbindingum. Kostnaðarverðsreglan er lögð til grundvallar, þ.e. kostnaðarverð eða raunvirði (markaðsverð) ef það er lægra. Einu frávikin frá því eru skráð veltuverðbréf sem skulu færð á opinberu gengi á uppgjörsdegi og hlutdeildarskírteini sem skulu færð á markaðsverði á uppgjörsdegi, jafnvel þótt það sé hærra en kaupverð bréfanna. Um skýringar í reikningsskilum er fjallað í VIII. kafla og eru ákvæðin um hverju þar skuli greina frá ítarleg. Í IX. kafla eru ákvæði um samstæðureikningsskil. Þetta eru almenn atriði en í 87. gr. reglnanna er vísað til ákvæða VI. kafla laga nr. 144/1994, um ársreikninga, sem gilda að öðru leyti en fram kemur í reglunum um samstæðureikningsskil þeirra félaga sem reglurnar taka til. Ákvæði um árshlutareikning eru í X. kafla, en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglnanna skulu lánastofnanir með heildareignir yfir 2 milljörðum króna semja árshlutareikning miðað við 30. júní ár hvert. Síðasti kaflinn, sá XI., geymir svo ákvæði um birtingu ársreiknings og árshlutareiknings og gildistökuákvæði.

Í viðauka I eru nánari ákvæði um mat á afskriftaþörf útlána og annarra skuldbindinga og framsetningu afskriftareiknings útlána. Framlög í afskriftareikning útlána skulu samanstanda af sérstökum og almennum framlögum í afskriftareikning útlána og skulu færast til frádráttar viðeigandi lið í efnahagsreikningi. Sérstöku framlögin eru færð til að mæta áætluðu tapi vegna skuldbindinga lánþega sem á uppgjörsdegi eru metnir í sérstakri tapshættu, þ.e. þeirra sem hafa verið í vanskilum í þrjá mánuði eða lengur, eru í greiðslustöðvun eða gjaldþrota, eða í öðrum þeim aðstæðum sem skerða gjaldþol eða greiðslugetu og gera það líklegt að ekki verði staðið að fullu við lánasamninga. Í viðaukanum segir einnig að sérhvert fyrirtæki skuli setja sér innri starfsreglur til að fara eftir við mat á sérstökum og almennum framlögum og mat á fullnustueignum, svo og innri starfsreglur um hvernig skuli staðið að færslu á endanlegum afskriftum útlána. Orðrétt segir að í þessum innri starfsreglum skuli koma fram hvernig staðið skuli að:

 • skoðun á einstökum útlánum og útlánaflokkum með tilliti til hvaða útlán séu í sér­stakri tapshættu,
 • mati á almennu framlagi í afskriftareikning útlána,
 • vaxtafrystingu útlána og bakfærslu vaxta,
 • skuldbreytingum útlána,
 • mati á tryggingaandlögum og fullnustueignum, og
 • endanlegum afskriftum útlána.

Viðauki II hefur að geyma nánari ákvæði um lífeyrisskuldbindingar, sbr. 60. gr. reglnanna. Viðauki III birtir nokkurs konar sniðmát fyrir upplýsingar og sundurliðanir sem skylt er að sýna í skýringum. Loks greinir viðauki IV nánar frá sjóðstreymi. Þar eru taldir upp þeir liðir sem gera má ráð fyrir að koma þurfi fram í sjóðstreyminu og er skipt í rekstrarhreyfingar, fjárfestingarhreyfingar og fjármögnunarhreyfingar, svo sem venja er til. Þarna er heimilað „að draga saman liði eða auka við liðum ef það er til þess fallið að gefa skýrari mynd af sjóðstreyminu“. Í 6. gr. reglnanna eru tilgreind skilyrði fyrir samdrætti eða sameiningu liða í ársreikningi, þar á meðal í sjóðstreyminu:

 • að slík sameining hafi ekki áhrif á að reikningsskilin gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu og afkomu fyrirtækis, og
 • að slík sameining liða varpi skýrara ljósi á reikningsskilin.

Í köflunum um fjárfestingarhreyfingar og fjármögnunarhreyfingar er beinlínis gefið til kynna að jafna megi út inngreiðslur og útgreiðslur í einstökum liðum, því aftan við heiti þeirra er skeytt orðinu „breyting“, t.d. veltuhlutabréf, breyting. Þetta er ekki í samræmi við 1. mgr. 28. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga þar sem segir að í yfirliti um sjóðstreymi skuli færa inn- og útgreiðslur á árinu. Ekki er þar heimilt að jafna þær út. Þetta er heldur ekki í samræmi við alþjóðlegu reikningsskilastaðlana, en þar fjallar staðall IAS 7 um sjóðstreymi og er lögð áhersla á að sýna inn- og útgreiðslur hverjar fyrir sig.3

Lög um ársreikninga

Lög nr. 3/2006 um ársreikninga leystu af hólmi eldri lög um sama efni, nr. 144/1994, en samkvæmt lögum nr. 135/2005 voru lög nr. 144/1994 endurútgefin með breytingum sem ný lög, nr. 3/2006. Þótt ekki hafi verið minnst á sparisjóði í lögunum við endurútgáfu, þá var þeim bætt þar við með breytingarlögum nr. 171/2007. Ársreikningalögin hafa því óumdeilanlega gilt um sparisjóði frá og með rekstrarárinu 2007 samhliða reglum Fjármálaeftirlitsins. Fyrir þann tíma var þó jafnan litið svo á að lög um ársreikninga giltu einnig um sparisjóði, enda var jafnan vísað til þeirra í ársreikningum.

Þrjár breytingar á ársreikningalögunum frá 1994 er ástæða til að nefna hér. Sú fyrsta var afnám verðbólguleiðréttinga í reikningsskilum, sem gerð var með með lögum nr. 133/2001. Reiknuð gjöld (eða tekjur) vegna verðlagsbreytinga komu því ekki fyrir í ársreikningum sparisjóða eftir 2001. Önnur breytingin sem hér er getið var innleiðing gangvirðis í reikningsskilum með lögum nr. 28/2004. Með henni varð heimilt að meta fjármálagerninga til gangvirðis ef þeirra hafði verið aflað í þeim tilgangi að selja aftur eða til að hagnast á skammtímaverðbreytingum. Það þýddi með öðrum orðum að öll verðbréf í veltubók mátti nú færa á gangvirði, hvort sem þau voru skráð eða óskráð. Mat til gangvirðis skyldi vera í samræmi við alþjóðlegar reikningsskilareglur og einungis heimilt ef það byggði á áreiðanlegum upplýsingum um gangvirði. Ef gangvirðismat væri notað var skylt að veita tilteknar upplýsingar um það í skýringum. Þriðja breytingin var sú að með lögum nr. 45/2005 var nýjum kafla bætt við lögin á eftir 56. gr. E um alþjóðlega reikningsskilastaðla með átta nýjum greinum. Þar var lögfest beiting alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IAS/IFRS, yfirleitt kallaðir IFRS; sjá nánar hér aftar) á Íslandi.

Í gildandi lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, er þessi kafli nr. VIII og telur nú tíu greinar, 88.–95. gr. Samkvæmt 1. mgr. 88. gr. skulu ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Lögin tiltaka síðan hvaða félög falla undir þetta ákvæði. Þar með varð mörgum sparisjóðum skylt að semja reikningsskil sín í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Þessi skylda var þó frá og með 2005 bundin við fyrirtæki sem skráð voru í kauphöll og sömdu samstæðuuppgjör. En frá og með 2007 átti hún einnig við félög sem voru með verðbréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, svo og dótturfélög sem voru innifalin í samstæðureikningsskilum þeirra. Félag skal tilkynna ársreikningaskrá fyrir upphaf viðkomandi reikningsárs ákvörðun sína um að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðu og skal beita þeim í fimm ár samfleytt hið minnsta.

Ársreikningaskrá birtir reglulega með rafrænum og aðgengilegum hætti lista yfir félög sem skyld eru til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eða nýta sér heimild samkvæmt þessari grein. Slíkan lista fyrir hvert ár frá 2005 er að finna á heimasíðu ríkisskattstjóra.4 Þessir listar eru ekki tæmandi hvað sparisjóði varðar, því fleiri sparisjóðir hafa skilað IFRS-ársreikningi en þar kemur fram. Ársreikningarnir sjálfir, með yfirlýsingu stjórnar um að reikningsskilin séu gerð í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, eru vitanlega besta heimildin um þetta.

Drög að nýjum reglum Fjármálaeftirlits

Fjármálaeftirlitið kynnti 16. júní 2005, með umræðuskjali nr. 2/2005, drög að reglum um reikningsskil lánastofnana. Þetta voru drög að breyttum reglum sem ætlunin var að leystu af hólmi gildandi reglur nr. 834/2003. Við samningu þeirra var höfð hliðsjón af alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, til þess að draga úr misræmi sem ella yrði í framsetningu og mati í ársreikningum milli lánastofnana sem skylt var að fara eftir stöðlunum og þeirra sem ekki var það skylt eða kusu að fara ekki eftir þeim. Í drögunum var leitast við að breyta almennum reglum um reikningsskil lánastofnana til samræmis við alþjóðlegu staðlana, einkum hvað varðaði framsetningu og matsákvæði. Gert var ráð fyrir að breyttar reglur tækju gildi frá og með reikningsárinu 2006. Af því varð þó ekki.

Tvær meginástæður kunna að vera fyrir því að ekki var lokið við að gefa út endurskoðaðar reglur eins og áformað var. Annars vegar forgangsröðun starfskrafta til að ljúka verkinu og hins vegar að fljótlega eftir gildistöku alþjóðlegra reikningsskilastaðla kom í ljós að flestar lánastofnanir ákváðu að semja reikningsskil samkvæmt stöðlunum. Það voru nær eingöngu minnstu lánastofnanirnar sem ákváðu að fara áfram eftir reglum nr. 834/2003. Þar af leiðandi var ekki talin knýjandi nauðsyn á að leggja vinnu í að ljúka við regludrögin og gefa út nýjar reglur sem hefðu komið í stað reglna nr. 834/2003.5

Þrátt fyrir að umrædd drög að breyttum reglum hafi ekki tekið gildi með formlegum hætti sem reglur um reikningsskil lánastofnana, tóku margir sparisjóðir að haga reikningsskilum sínum fyrir árið 2007 samkvæmt þeim, eins og greint verður frá hér aftar.

8.3 Upptaka alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IFRS)

Reikningsskil í samræmi við alþjóðlegu reikningsskilastaðlana IFRS voru talsvert frábrugðin reikningsskilum samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins. Augljósasta breytingin lá í framsetningunni. Rekstrar- og efnahagsreikningur samkvæmt IFRS voru ekki eins mikið sundurliðaðir og áður; efnahagsreikningurinn var til að mynda á einni síðu í stað tveggja áður. Nýr kafli, Eiginfjáryfirlit, bættist við á milli efnahagsreiknings og sjóðstreymis og skýringakaflinn lengdist verulega. Mest munaði þar um langa greinargerð um reikningsskilaaðferðir sem beitt er, upp á 8–12 síður í stað 2–3 áður. Greinargerð um áhættustýringu, upp á 5–8 síður, bættist einnig við skýringakaflann og starfsþáttayfirlit ef við átti. Sundurliðanir margra liða voru ítarlegri en áður og upplýst um fleiri atriði; þó var ekki lengur sýnt hvernig fjárfestingarhlutabréf greindust eftir einstökum félögum.

Önnur veigamikil breyting, en ekki eins sýnileg, varðaði matsreglur og þá fyrst og fremst fjármálagerninga, þ.e. fjáreigna og -skulda. Samkvæmt IFRS er mat til gangvirðis (e. fair value) heimilt í miklu ríkara mæli en reglur Fjármálaeftirlitsins leyfa. IFRS heimilar færslu allra veltuverðbréfa á gangvirði og að matsbreytingar á þeim fari í gegnum rekstur. Fleiri verðbréf er einnig heimilt að færa á gangvirði, en matsbreytingar á þeim fara þá ýmist í gegnum rekstur eða á sérstakan gangvirðisreikning meðal eigin fjár. Sem fyrr segir var þessi heimild innleidd í lög um ársreikninga árið 2004. Samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins skulu nær allar tegundir verðbréfaeignar færðar á kostnaðarverði, þó skulu þær færðar á markaðsverði ef það er lægra en bókfært verð. Einu frávikin frá þeirri meginreglu eru hlutdeildarskírteini og skráð veltuverðbréf sem skulu bókfærð á opinberu gengi á uppgjörsdegi.6 IFRS hefur að geyma strangari reglur um niðurfærslu útlána en eldri reglur. Metið skal á reikningsskiladegi hvort vísbendingar séu um að útlán hafi orðið fyrir virðisrýrnun. Ef þær eru fyrir hendi skal framkvæmt á þeim virðisrýrnunarpróf eftir sérstakri forskrift og útlánin síðan færð niður á grundvelli þess. Sama er að segja um óefnislegar eignir, svo sem viðskiptavild. Á henni skal framkvæmt virðisrýrnunarpróf og hún síðan færð niður ef prófið leiðir í ljós að endurheimtanlegt virði sé metið lægra en bókfært verð, í stað þess að afskrifa hana á 5–10 árum eins og eldri reglur gera ráð fyrir. IFRS heimilar færslu tiltekinna fjárskulda (e. financial liabilities) á gangvirði gegnum rekstur, þ.e. þeirra fjárskulda sem stofnað er til við kaup fjáreigna sem færðar eru á gangvirði. IFRS gerir ekki kröfu um að móðurfélagsreikningur sé saminn þegar samstæðureikningur er gerður. Ótalmargt fleira ber á milli með þessum tveimur reikningsskilaregluverkum og hér hefur aðeins helstu atriða verið getið.

Fyrstur íslenskra sparisjóða til þess að gera reikningsskil sín samkvæmt IFRS var Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis fyrir árið 2005. Honum var það skylt samkvæmt lögum. Árið eftir bættust svo við Byr sparisjóður og Sparisjóður Kópavogs, auk Sparisjóðabanka Íslands hf. Frá og með árinu 2007 var sparisjóðunum í sjálfsvald sett hvort þeir semdu reikningsskil sín samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins eða IFRS ef þeir voru ekki með verðbréf skráð á verðbréfamarkaði. Árið 2007 voru auk framangreindra með ársreikning í samræmi við IFRS: Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Bolungarvíkur. Fleiri sparisjóðir bættust ekki í þennan hóp. Árin 2010 og 2011 voru það aðeins Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Bolungarvíkur sem lögðu fram endurskoðaðan ársreikning í samræmi við IFRS. Hinir átta gerðu þá upp samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins og lögum um ársreikninga.

Í skýrslu og áritun stjórnar og í áritun óháðra endurskoðenda skal koma fram eftir hvaða regluverki ársreikningurinn er saminn. Þessum tveimur regluverkum var þó blandað saman í einhverjum mæli. Afl sparisjóður, Sparisjóður Ólafsfjarðar og Sparisjóður Strandamanna löguðu til dæmis framsetningu ársreiknings að kröfum IFRS og tóku upp matsreglur staðlanna að nokkru leyti, þótt í áritunum stjórnar og endurskoðenda væri staðhæft að reikningsskilin væru í samræmi við ársreikningalög og reglur Fjármálaeftirlitsins um reikningsskil lánastofnana. Þeir tveir fyrrnefndu voru hluti af samstæðu Sparisjóðs Mýrasýslu sem gerði sín reikningsskil samkvæmt IFRS. Ekki verður séð hvað knúði Sparisjóð Strandamanna til að breyta um reikningsskilaaðferð, nema þar hafi ársreikningurinn verið talinn gefa gleggri og betri mynd af afkomu og efnahag með því móti.7 Margir sparisjóðir hófu að færa óskráð veltuhlutabréf á gangvirði á árinu 2007 þrátt fyrir að hafa ekki tekið upp reikningsskil samkvæmt IFRS. Það var í raun orðið heimilt samkvæmt lögum um ársreikninga.8

Félag sem innleiðir alþjóðlega reikningsskilastaðla við reikningsskil sín skal gera og birta opnunarefnahagsreikning miðað við upphaf samanburðarársins, þar sem efnahagsliðir eru metnir samkvæmt matsreglum IFRS. Í ljósi þess sem sagt var hér framar verður óhjákvæmilega einhver breyting frá síðasta efnahagsreikningi sem miðaðist við 31. desember. Þetta veldur því að í fyrsta ársreikningi félagsins samkvæmt IFRS verða margar samanburðarstærðir frá fyrra ári frábrugðnar tölunum í síðasta ársreikningi sem gerður var samkvæmt eldri reglum. Helst er um að ræða mismun á verðbréfaeign og útlánum, sem leiðir svo aftur til þess að millisummur og niðurstöðufjárhæðir breytast. Í töflu 1 er tilgreint hvaða áhrif matsbreytingarnar höfðu á efnahagsreikning í ársbyrjun hjá þeim sparisjóðum sem tóku upp reikningsskil í samræmi við IFRS, þ.e. á heildareignir þeirra, heildarskuldir og síðast en ekki síst eigið fé.

Þegar á heildina er litið varð upptaka staðlanna til þess að eigið fé sparisjóðanna hækkaði um nærri 3 milljarða króna, fyrst og fremst vegna matsbreytinga á fjáreignum. Hjá Sparisjóði Mýrasýslu hækkaði eigið fé langmest, en þar voru matsbreytingar mjög miklar. Sparisjóðurinn í Keflavík sker sig mjög úr í töflunni, því þótt eigið fé hans hafi hækkað mikið, lækkuðu bæði heildareignir og heildarskuldir verulega. Þetta skýrðist af breyttri meðhöndlun íbúðalána í samstarfi við Íbúðalánasjóð, þ.e. hjá sparisjóðnum voru þessi lán færð út úr eignasafninu og fjármögnun þeirra frá Íbúðalánasjóði færð út úr skuldunum eins og greint er frá síðar í kaflanum.9 Mikil matshækkun eigna var hjá Sparisjóði Vestfirðinga, Sparisjóði Bolungarvíkur og Sparisjóði Strandamanna, sé litið til stærðar þessara sjóða.

8.4 Almennar athugasemdir um ársreikninga sparisjóðanna

8.4.1 Um ábyrgð á ársreikningum

Ábyrgð á ársreikningi sparisjóðs og gerð hans er fortakslaust hjá stjórn sparisjóðsins og sparisjóðsstjóra.10 Þótt lögin kveði á um að þessir aðilar skuli semja ársreikninginn hefur það ekki verið skilið bókstaflega. Þeir skulu hins vegar sjá til þess að verkið sé unnið og fela það öðrum, en setja sig þó nægilega vel inn í reikningsskilin til þess að geta lagt nafn sitt við þau. Endanleg ákvörðun um mat á tilteknum atriðum hvílir á stjórn og sparisjóðsstjóra. Á það fyrst og fremst við um niðurfærslu á útlánum og einnig um gangvirðismat hlutabréfa. Minni sparisjóðir bjuggu síður yfir þeim mannauði sem til þurfti til að ganga frá reikningsskilum og semja ársreikning og leituðu því út fyrir sparisjóðina eftir aðstoð við það.

Rannsóknarnefndin kannaði í hve miklum mæli slíkt var gert. Flestir sparisjóðirnir keyptu aðstoð við gerð ársreikningsins að meira eða minna leyti: allt frá því að hann væri saminn af utanaðkomandi aðila til þess að fengin væri aðstoð við lokafrágang. Þessi þjónusta var þá keypt af endurskoðunarfyrirtækinu sem annaðist endurskoðun ársreikningsins.11 Fyrir rannsóknarnefndinni kom fram hjá mörgum stjórnendum minni sparisjóðanna, að þáttur endurskoðandans í gerð ársreiknings hefði verið mikill; starfsmenn sparisjóðsins hefðu stemmt bókhaldið af og endurskoðandinn síðan komið og farið yfir hlutina en svo tekið bókhaldið með sér og samið ársreikninginn. Þetta vekur spurningar um óhæði endurskoðandans.12 Fjallað er nánar um það í 7. kafla, um endurskoðun ársreikninga sparisjóðanna. Sú tilhögun leysti stjórn sparisjóðs og sparisjóðsstjóra samt ekki undan ábyrgð þeirra á ársreikningnum og innihaldi hans.

Þegar stjórn og sparisjóðsstjóri eru ekki fyllilega dómbær á það hvort reikningurinn er saminn í samræmi við reikningsskilastaðla og hafa útvistað verkefninu til endurskoðanda þá kemur ábyrgð hans á þeim verkþætti til álita. Þá ábyrgð ber hann gagnvart yfirstjórn sparisjóðsins en ábyrgð gagnvart þriðja aðila liggur hjá stjórn sparisjóðsins samkvæmt lögum. Endurskoðandinn á að vekja athygli á því við endurskoðunina ef ársreikningur uppfyllir ekki kröfur þeirra staðla sem fullyrt er að hann sé gerður eftir. Hafi endurskoðandinn samið ársreikninginn, endurskoðar hann sín eigin verk.

8.4.2 Fylgni ársreikninga við regluverkið

Ársreikningar sparisjóða hafa tvö mismunandi form, svo sem frá hefur verið greint. Reikningarnir voru allir samdir eftir reglum Fjármálaeftirlitsins þar til innleiðing IFRS hófst hjá nokkrum sparisjóðum (sjá töflu 1). Þeir sem gerðir voru í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins voru mjög áþekkir að forminu til og voru 15–20 síður að stærð að forsíðu, efnisyfirliti, skýrslu stjórnar og áritun óháðs endurskoðanda meðtöldum.

Samkvæmt reglum nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana teljast fjárfestingarverðbréf þau bréf sem tekin hefur verið formleg ákvörðun um að eiga til lengri tíma en eins árs, en önnur verðbréf eru flokkuð sem veltuverðbréf. Almennt gildir sú regla að eignfæra hlutabréf á markaðsvirði eða upprunalegu kaupverði, eftir því hvort verðið er lægra á uppgjörsdegi. Þó skal færa skráð veltuverðbréf á opinberu gengi á uppgjörsdegi. Þetta eru einu verðbréfin sem heimilt er að eignfæra á hærra verði en kostnaðarverði.13 Reglurnar kveða á um að í skýringum með ársreikningi skuli öll fjárfestingarhlutabréf, skráð sem óskráð, sundurliðuð eftir fyrirtækjum og auk þess tilgreindur eignarhlutur, nafnverð, markaðsverð og bókfært verð viðkomandi hlutar. Óskráð veltuhlutabréf skulu einnig sundurliðuð eftir fyrirtækjum ef eignarhluturinn nemur 20% eða meira og ef bókfært verð hans nemur meira en 2% af bókfærðu eigin fé sparisjóðsins. Tilgreina skal eignarhlutinn og nafnverð hans. Þetta virðist almennt hafa verið gert.

Samkvæmt IFRS er ekki gerð krafa um að sundurliða hlutabréfeign sparisjóðs eftir fyrirtækjum, nema um hlutdeildarfyrirtæki sé að ræða og dótturfélög í ársreikningi móðurfélags. Frá sjónarhóli lesanda ársreiknings eru því minni upplýsingar um þessi atriði birtar í ársreikningi samkvæmt IFRS en voru samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins.

Þessar matsreglur eru áréttaðar hér, meðal annars vegna þess að í ársreikningi Sparisjóðsins í Keflavík fyrir árið 2005 var farið með hluta af bréfum sparisjóðsins í Exista hf. sem skráð veltuhlutabréf og þau eignfærð á markaðsverði, þótt Exista hafi ekki verið skráð á markað fyrr en í september 2006.14 Í textaskýringu í reikningnum stóð: „Skráð veltuverðbréf eru eignfærð á markaðsvirði í lok árs. Óskráð veltuhlutabréf eru færð á kostnaðarverði eða áætluðu markaðsvirði ef það er lægra.“15 Erfitt var fyrir lesanda ársreikningsins að átta sig á þessu, því veltuhlutabréfin voru ekki sundurliðuð eftir fyrirtækjum, heldur sagt að skráð bréf væru samtals að bókfærðu virði 501 milljón króna og óskráð bréf samtals tæpir 2,3 milljarðar króna. Hins vegar kom fram í umfjöllun endurskoðandans í endurskoðunarskýrslu um afkomu sjóðsins:

Hagnaður af rekstri Sparisjóðsins árið 2005 er 1.150,2 milljónir samanborið við 408,6 milljónir árið 2004. Þennan mikla afkomubata má að mestu skýra með gengisbreytingum og þá aðallega af hækkun á virði hlutabréfa sjóðsins í Exista en sú eign er að hluta til í veltubók og hefur hækkað um 1.084,7 milljónir á árinu.16

Skýringar í ársreikningi sjóðsins voru því villandi hvað þetta varðar og meðferð bréfanna ekki í samræmi við þær reikningsskilaaðferðir sem lýst var yfir að beitt hefði verið við gerð ársreikningsins.

Frá og með árinu 2007 fóru sumir þeirra sparisjóða sem ekki tóku upp IFRS að fylgja formi IFRS-ársreiknings að nokkru leyti, nema hvað skýringarnar voru ekki eins ítarlegar og IFRS-reglurnar kváðu á um. Þeir fóru jafnframt að færa eignarhluti í óskráðum félögum á gangvirði í stað kostnaðarverðs og mátu niðurfærslu vegna útlána með öðrum hætti en áður. Þeir sparisjóðir sem ekki breyttu um reikningsskilaaðferð að neinu leyti árið 2007 og héldu sig áfram við reglur Fjármálaeftirlitsins voru Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis og Sparisjóður Svarfdæla. Tveir þeir fyrstnefndu hafa síðan haldið sig við sömu reglur í einu og öllu.

Sparisjóður Svarfdæla breytti um matsreglu árið 2008 í sambandi við tilteknar fjáreignir. Í skýringarlið nr. 9 í ársreikningi sjóðsins 2008 sagði:

Skuldabréf með föstum tekjum eru færð á gangvirði. Hlutabréf og hlutdeildarskírteini eru eignfærð á gangvirði. Þegar um óskráð hlutabréf er að ræða er leitast við að áætla gangvirðið. Breytingar á gangvirði skuldabréfa og hlutabréfa eru færðar í gegnum rekstrarreikning.

Þó var ekki gerð grein fyrir því hvernig gangvirðismatinu var beitt og í skýrslu og áritun stjórnenda á ársreikninginn sagði að hann væri „gerður eftir sömu reikningsskilaaðferðum og ársreikningur sparisjóðsins árið á undan“.

Sparisjóður Norðfjarðar og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis studdust að mestu við óbreyttar reglur þar til í ársreikningi 2010, en þá tóku þeir upp gangvirðismat á fjáreignum. Skýringarnar lengdust þá einnig og grein var gerð fyrir beitingu gangvirðismats. Hins vegar sagði í skýrslu og áritun stjórnar og sparisjóðsstjóra á ársreikning beggja sjóðanna 2010: „Ársreikningurinn er gerður eftir sömu reikningsskilaaðferðum og á síðasta ári.“ Þarna gætti nokkurrar ónákvæmni.

Við upptöku IFRS voru gerðar ríkari kröfur til skýringa í ársreikningi. Af þeim sökum voru ársreikningar sem gerðir voru samkvæmt IFRS mun meiri að vöxtum en þeir sem gerðir voru samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins. Lengd þeirra var 40–50 síður, að forsíðu, efnisyfirliti, skýrslu stjórnar og áritun óháðs endurskoðanda meðtöldum. Almennt má þó segja um þessa ársreikninga að talsvert skorti á að upplýsingar í skýringum fullnægðu kröfum staðlanna. Fjármálafyrirtæki sem gerir ársreikning sinn í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla ber að fylgja þeim. Það gildir jafnt um efni og form.17 Hér verður þó að hafa í huga að staðlarnir gera ekki kröfu um að ítrasta formi þeirra sé fylgt nema slíkt þjóni tilgangi, þ.e. gengið skal út frá forsendunni um mikilvægi (e. materiality) upplýsinga.18 Ársreikningur lítils sparisjóðs þarf ekki að vera jafn ítarlegur og ársreikningur stórs banka, svo dæmi sé tekið. Draga má í efa að nægileg þekking á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum hafi verið fyrir hendi innan allra þeirra sparisjóða sem tóku upp reikningsskil í samræmi við staðlana. Kann það að skýra hvers vegna stjórnendur leituðu utanaðkomandi aðstoðar við gerð ársreikningsins. Á hinn bóginn er ekki ljóst hvers vegna sumir sparisjóðanna kusu að taka upp alþjóðlegar reikningsskilareglur þegar þeim bar ekki skylda til þess.

8.4.2.1 Mat á útlánasafni

Í ársreikningum sem gerðir voru samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana voru útlán færð til eignar með áföllnum vöxtum, verðbótum og gengismun í árslok. Afskriftareikningur útlána var myndaður til að mæta þeirri áhættu sem fylgdi útlánastarfseminni en ekki var um endanlega afskrift að ræða. Lagt var í afskriftareikninginn með hliðsjón af metinni útlánaáhættu hverju sinni. Annars vegar var um að ræða framlag vegna skuldbindinga lánþega sem á uppgjörsdegi voru metnar í sérstakri tapshættu og hins vegar framlag til að mæta almennri útlánaáhættu. Ekki voru tekjufærðir vextir af útlánum sem voru metin í sérstakri tapshættu. Afskriftareikningurinn var dreginn frá útlánum í efnahagsreikningi, að undanskildu framlagi vegna veittra ábyrgða sem var fært meðal annarra skulda í efnahagsreikningi.

Skráning og mat útlána var með nokkuð öðrum hætti í ársreikningum gerðum samkvæmt IFRS. Var þar fylgt stöðlunum IAS 32, Fjármálagerningar: Framsetning, og IAS 39, Fjármálagerningar: Skráning og mat,19 sem giltu báðir um reikningsskilatímabil sem hófst 1. janúar 2005 og síðar. Upphafleg skráning útlána var á gangvirði, sem var lánsfjárhæðin auk alls kostnaðar vegna viðskiptanna, en í árslok voru þau metin á afskrifuðu kostnaðarverði sem fundið var með útreikningi samkvæmt aðferð um virka vexti. Áfallnir vextir í árslok voru færðir sem hluti af bókfærðu verði útlána.

Matið á niðurfærslu útlánanna breyttist einnig við upptöku IFRS. Ef fyrir lágu upplýsingar og hlutlægar vísbendingar um að einstök útlán yrðu ekki innheimt að fullu var framkvæmt svokallað virðisrýrnunarpróf. Vænt sjóðsflæði viðkomandi lána var þá núvirt til reikningsskiladags og virðisrýrnun fundin með þeim hætti færð á afskriftareikning útlána. Afskriftareikningnum var skipt upp annars vegar í sérgreindan afskriftareikning, þar sem færð var virðisrýrnun einstakra útlána, og hins vegar almennan afskriftareikning, þar sem útlánasafnið í heild var virðisrýrt í ljósi sögulegrar tapsreynslu. Samkvæmt IFRS felast svonefndar hlutlægar vísbendingar (e. objective evidence) um virðisrýrnun í upplýsingum um eftirfarandi atvik eða aðstæður:

 • umtalsverðir fjárhagslegir erfiðleikar lántakanda,
 • samningsrof, svo sem vanskil á afborgunum eða vöxtum,
 • skilmálabreytingar sökum fjárhagslegra erfiðleika lántakanda,
 • verulegar líkur á gjaldþroti lántakanda eða fjárhagslegri endurskipulagningu,
 • veruleg rýrnun trygginga eða virkur markaður ekki lengur til staðar fyrir þær,
 • greinileg gögn sem benda til mælanlegrar lækkunar á áætluðu framtíðarsjóðsflæði frá lánaflokki, þótt lækkun verði enn ekki greind á einstakar fjáreignir í flokknum, þar á meðal:
 • óhagstæðar breytingar á greiðslustöðu lántakenda í flokknum, eða
 • almennar þjóðfélagslegar eða staðbundnar efnahagsaðstæður sem tengjast eignum í flokknum.20

Fram kemur í reikningsskilastaðlinum að miðað skuli við stöðu einstakra lántakenda eða hóps þeirra á reikningsskiladegi, þ.e. við greiningu á ástandi á þeim tímapunkti, en ekki byggja á væntingum eða framtíðarspá um það hvað muni hugsanlega gerast. Áætlað tap vegna óorðinna atburða, án tillits til líkinda á þeim, var sem sagt ekki fært.21 Eftir erfiðleikana sem dundu yfir fjármálamarkaði víða um heim árið 2008 fór í gang mikil umræða um þessa reikningsskilaaðferð, sem hefur gengið undir nafninu „incurred loss approach“. Margir töldu hana ástæðu þess að fjármálafyrirtæki færðu útlán sín yfirleitt lítið niður þótt fjármálakreppa blasti við. Við gildistöku staðalsins IAS 39 árið 2005 lækkaði framlag á afskriftareikning útlána almennt hjá fjármálafyrirtækjum í Evrópu. Fyrri aðferðafræði tók í mörgum löndum tillit til mats á framtíðartapi við ákvörðun framlags á afskriftareikninginn. Hér á landi var slíkt heimilt samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 834/2003.22 Þeirri aðferðafræði svipar að vissu leyti til þeirrar nálgunar sem kölluð hefur verið „expected loss approach“. Alþjóðareikningsskilaráðið hefur allt frá árinu 2009 unnið að endurskoðun á staðli IAS 39 en það starf hefur sóst seint af ýmsum ástæðum. Það hillir loks undir að eitthvað komi út úr þeirri endurskoðun og stendur þá til að gefa kost á síðari nálguninni.23 Samkvæmt henni skulu lánafyrirtæki stöðugt meta líkur á innheimtu lánanna í því skyni að bregðast fyrr við útlánatöpum með niðurfærslu. Þessari nálgun er ætlað að stuðla að raunhæfara mati á fjáreignum. Hún er meira efnahagsreikningsmiðuð (e. balance sheet oriented) en núverandi nálgun sem á hinn bóginn verður að teljast rekstrarreikningsmiðuð (e. income statement oriented). Í Bandaríkjunum hefur framvinda mála í þessum efnum verið með áþekkum hætti.24

Það er algengt að sjá lækkandi vanskilahlutföll hjá bönkum sem eru með hraðan útlánavöxt vegna þess að stærstur hluti útlánanna er nýr. Það hefur hins vegar verið sýnt fram á það í mörgum rannsóknum að hraður útlánavöxtur veldur auknum afskriftum í framtíðinni.25 Ein af ástæðum þess að hraður útlánavöxtur er varhugaverður er að hinir nýju lántakendur eru oftar en ekki hrakval (e. adverse selection) annarra lánastofnana. Það er ekki sjálfgefið að vanskil rati beint í sérgreindan afskriftareikning, en vissulega er samband þarna á milli.

Vandasamt er að meta niðurfærslu eða virðisrýrnun útlána. Það er augljóst að við beitingu umrædds staðals vegast á klausurnar „áætlað tap vegna óorðinna atburð“, sem ekki skal fært, og „hlutlægar vísbendingar um virðisrýrnun“. Sumir telja að seinni klausan komi í veg fyrir það að sjónum sé beint að því sem gerist eftir reikningsskiladag.26 Rannsóknarnefnd Alþingis sem rannsakaði fall bankanna haustið 2008 taldi að sá skilningur hafi ráðið mestu um að útlán þeirra sex fjármálafyrirtækja sem til skoðunar voru, voru færð jafn lítið niður og raun bar vitni. Nefndin komst að þessari niðurstöðu um niðurfærsluna:

Það ber því allt að sama brunni að stjórnendum fjármálafyrirtækjanna hafi mátt vera ljóst að borið hafi að færa í sérstakar niðurfærslur útlán vegna mun fleiri aðila en gert var í reikningsskilum fyrirtækjanna árið 2007 og í hálfsársuppgjöri árið 2008.27

Jafnframt átaldi rannsóknarnefndin endurskoðendur þessara sömu fyrirtækja fyrir að hafa ekki gert athugasemdir um þetta:

[…] virðist ljóst að endurskoðendur fjármálafyrirtækjanna töldu mat fyrirtækjanna á þörf á niðurfærslu útlána á árinu 2007 í meginatriðum rétt þar sem engin umtalsverð frávik hafa komið í ljós.
[…] Ennfremur er boðað af hálfu endurskoðunarfyrirtækjanna að við endurskoðun ársuppgjörs fyrir árið 2008 verði lögð sérstök áhersla á skoðun útlána. Ekki er að finna athugasemdir af hálfu endurskoðendanna sem lúta að því að framlög til niðurfærslu við hálfsársuppgjör 2008 séu ekki í heild sinni nægjanleg.28

Þegar upp koma tilvik þar sem reynir á túlkun reikningsskilastaðlanna ber að líta til hugtakagrunnsins sem þeir eru byggðir á. Alþjóðareikningsskilaráðið innleiddi árið 2001 sem eins konar inngang að staðlasafni sínu Hugtakaramma um gerð og framsetningu reikningsskila.29 Þar eru skilgreind grundvallarmarkmið reikningsskila, grunnforsendur þeirra og þau einkenni sem gera upplýsingar í reikningsskilum gagnlegar. Markmiðið er að leggja notendum reikningsskila til upplýsingar sem gagnast þeim við fjárhagslegar ákvarðanir. Gagnsemin felst ekki hvað síst í að upplýsingarnar séu mikilvægar (e. relevant) og áreiðanlegar (e. reliable). Til þess að tryggja áreiðanleikann skal andi þeirra tekinn fram yfir formið (e. substance over form), upplýsingarnar skulu vera hlutlausar (e. neutral), sýna heildarmyndina (e. completeness) og beitt skal tilhlýðilegri varúð við matskennd atriði (e. prudence). Grundvallarforsenda reikningsskila er svo að viðkomandi fyrirtæki sé talið rekstrarhæft (e. going concern) að minnsta kosti út næsta reikningstímabil.

Með þetta í huga kann að vera eðlilegra að leggja eftirfarandi skilning í klausuna um hlutlægar vísbendingar: Spá um atburði í framtíð verður að vera studd hlutlægum vísbendingum og þá skal tekið tillit til hennar, en ef mögulegir atburðir í framtíð eru óstuddir sönnunargögnum þá skal ekki taka tillit til þeirra. Þannig gerir IAS 39 greinarmun á fyrirsjáanlegum atburðum, sem eru studdir hlutlægum vísbendingum, og atburðum sem kunna að gerast og eru hreinn spádómur. Tap kann að vera fyrirsjáanlegt vegna orðinna atburða eða ríkjandi ástands sem er þekkt, annars er það ekki fyrirsjáanlegt heldur aðeins spádómur.

Mikilvægt er að lesa allan texta reikningsskilastaðalsins í heild og leggja út af honum sem heildstæðu regluverki, en ekki taka út einstakar setningar og túlka þær sérstaklega. Aftar í sama staðli er ótvírætt mælt fyrir um að færa skuli niður tilgreindar eignir, útlán og kröfur, ef verðrýrnun þeirra stafar af þegar orðnum eða fyrirsjáanlegum atburðum (e. incurred).30

Þessi grundvallarsjónarmið sem matsreglur staðlanna eru reistar á er nauðsynlegt að hafa í huga þegar skoðað er hvernig sparisjóðirnir mátu framlagið í afskriftareikning útlána, þ.e. virðisrýrnun útlánanna, í árslok 2007 og 2008. Erfitt er að halda því fram að engar hlutlægar vísbendingar hafi verið komnar fram um og eftir áramótin 2007–2008 sem kölluðu á frekari niðurfærslu útlána.31 Þótt framlagið í afskriftareikninginn hafi verið hækkað hjá öllum sparisjóðunum í árslok 2008 þá gefa niðurfærslur síðari ára tilefni til að ætla að framlagið 2008 hafi ekki verið nógu mikið eða að útlánasafn sumra sparisjóðanna hafi verið ofmetið. Þó verður að taka tillit til þeirrar óvissu sem uppi var við gerð ársreiknings 2008, svo og þeirra áhrifa sem síðar gætti með dómum um gildi lána sem bundin voru gengi erlendra mynta.32 Þetta átti fyrst og fremst við um Byr sparisjóð, Sparisjóðinn í Keflavík, Sparisjóð Bolungarvíkur, Sparisjóð Strandamanna og Sparisjóð Vestmannaeyja.

Þess var fyrr getið að þeim ársreikningum sparisjóða sem gerðir voru samkvæmt IFRS var áfátt í ýmsum atriðum hvað skýringarnar snerti. Lítil athygli var til dæmis vakin á áhættu í tengslum við útlánasafn einstakra sparisjóða. Alþjóðlegur reikningsskilastaðall IFRS 7, Fjármálagerningar: Skýringar,33 gilti fyrir reikningsskilatímabil frá og með 1. janúar 2007. Staðallinn tilgreinir þær skýringar sem gefa lesendum ársreikninga möguleika á að meta mikilvægi fjármálagerninga, eðli og umfang áhættu þeim tengdum og hvernig þeirri áhættu er stjórnað. Birtar skulu bæði eigindlegar (e. qualitative) skýringar um hvern áhættuflokk og hvernig áhættunni er stjórnað, og megindlegar (e. quantitative) skýringar um hvern áhættuflokk, flokkaðar eftir útlána-, lausafjár- og markaðsáhættu. Án þessara upplýsinga eru ársreikningar taldir ófullnægjandi eða jafnvel villandi um áhættu sem fylgir fjármálagerningum. Eftirfarandi skýringar eiga að koma fram í ársreikningum til að aðstoða lesendur þeirra við að átta sig á gæðum útlánasafns:

Lán í skilum:
 • fjárhæð hámarksútlánaáhættu í árslok,
 • upplýsingar um tryggingar að baki útlánum,
 • upplýsingar um gæði þeirra útlána sem eru hvorki í vanskilum né sérstaklega virðisrýrð,
 • fjárhæð útlána sem væru í vanskilum ef ekki hefðu komið til skilmálabreytingar.
Vanskil:
 • aldursgreining útlána í vanskilum, en sem eru ekki virðisrýrð,
 • greining á virðisrýrðum útlánum,
 • upplýsingar um tryggingar að baki lánum í vanskilum og virðisrýrð útlán.
Markaðsáhætta:
 • greining á áhrifum gjaldmiðlaáhættu á tryggingar að baki útlánasafninu (eigna­­-
  verðsáhætta),
 • greining á áhrifum markaðsgengisáhættu á tryggingar að baki útlánasafninu(eigna­­-
  verðsáhætta),
 • greining á áhrifum samþjöppunaráhættu á útlánasafnið.
8. 4.2.1.1 Útlán í samstarfi við Íbúðalánasjóð 2004 og 2005

Sparisjóðirnir gerðu samninga við Íbúðalánasjóð um fjármögnun þess síðarnefnda á tilteknum íbúðalánum gegn því að greiðsluflæðið af þessum sömu lánum rynni til Íbúðalánasjóðs. Samkvæmt samningunum færðist ávinningurinn og áhættan af lánunum yfir til Íbúðalánasjóðs. Þjónusta við lántakendur og innheimta lánanna var í höndum sparisjóðanna. Íbúðalánasjóður skyldi greiða sparisjóðunum 0,3% í umsýsluþóknun af heildarfjárhæð hvers láns sem þeir höfðu milligöngu um. Íbúðalánasjóður gat hvenær sem var sótt lánin til sín og annast alla umsýslu sjálfur. Frá því í desember 2004 til ársloka 2005 voru gerðir slíkir samningar um liðlega 4500 lán upp á samtals tæpa 42 milljarða króna.34

Þetta voru óvenjulegir samningar á fjármagnsmarkaði hérlendis og því erfitt að benda á reglur um hvernig með skyldi farið í ársreikningi. Í reikningshaldslegu tilliti skipti höfuðmáli hvort sparisjóðirnir voru að selja lánin frá sér og Íbúðalánasjóður að kaupa þau og því væri um nokkurs konar þjónustu- og vörslusamninga að ræða, eða hvort þarna væri um lánasamninga að ræða þar sem lánin skyldu endurgreidd með endurheimtum undirliggjandi íbúðalána. Í fyrra tilvikinu hefðu íbúðalánin átt að eignfærast hjá Íbúðalánasjóði og sparisjóðirnir átt að eignfæra handbært fé í stað þeirra. Í síðara tilvikinu skyldu íbúðalánin haldast á efnahagsreikningi sparisjóðanna en skuldamegin yrði færð lántaka og um leið færði Íbúðalánasjóður hana sem kröfur á sparisjóðina. Áhrifin í rekstrarreikningi sparisjóðanna urðu hins vegar þau sömu hvor leiðin sem farin var, þ.e. aðeins umsýsluþóknunin var tekjufærð en engar vaxtatekjur.

Í ársreikningum sparisjóðanna 2004 var síðari leiðin farin. Það leiddi til þess að efnahagsreikningur sparisjóðanna varð stærri en ella án þess að það hefði áhrif á eigið fé. Íbúðalánin voru metin áhættulaus við útreikning eiginfjárhlutfalls og kunna því að hafa haft þensluhvetjandi áhrif á sparisjóðina. Hins vegar drógu þau vaxtamun þeirra niður því þau skiluðu þeim óverulegum og jafnvel engum vaxtatekjum.

Ekki var minnst á samningana í ársreikningum sparisjóðanna, enda þótt þar væri um mikilvægar upplýsingar að ræða fyrir lesendur ársreikninganna. Endurskoðendur virtust nokkuð samstíga í því hvernig tekið skyldi á þessum samningum í tengslum við endurskoðun á ársreikningum sparisjóðanna. Þeir fjölluðu flestir um samningana í endurskoðunarskýrslunni. Minnt skal á að hún kemur þó aðeins fyrir sjónir stjórnar, sparisjóðsstjóra og Fjármálaeftirlitsins þannig að upplýsingagildið fyrir almennan lesanda er ekkert. Í endurskoðunarskýrslu KPMG um ársreikning Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2004 sagði m.a. í kafla um íbúðalán:

Þar sem aðdragandi að samkeppni um íbúðarlán var mjög hröð lá endanleg niðurstaða á fjármögnun íbúðalána ekki fyrir þegar farið var út í að veita þau. Sparisjóðurinn þarf að gæta vel að fjármögnun þessara lána þar sem vextir lánanna eru farnir að nálgast fjármagnskostnað sjóðsins.

Ekki var gerð nein grein fyrir samningunum og ekki færð rök fyrir því að hafa íbúðalánin áfram meðal eigna sparisjóðsins. Sömu endurskoðendur sögðu í endurskoðunarskýrslu um ársreikning Sparisjóðs Hafnarfjarðar 2004:

Í árslok var gerður lánssamningur milli SPH og Íbúðalánasjóðs þar sem Íbúðalánasjóður veitir sparisjóðnum lán að fjárhæð 3.430 millj. kr. á móti tilteknum íbúðalánum sparisjóðsins. Endurgreiðsla lánsins er háð greiðsluflæði undirliggjandi íbúðalána en Íbúðalánasjóður ber útlánaáhættuna. Með þessu móti hefur áhættan verið færð frá sparisjóðnum og eru íbúðalánin sem hafa verið fjármögnuð með láni frá Íbúðalánasjóði því með áhættumat 0,0 í útreikningi á eiginfjárhlutfalli sparisjóðsins. Sparisjóðurinn hefur af þessum viðskiptum vaxtamun sem er um 0,1% og innleysast þær tekjur á líftíma samningsins.

Sömu eða svipaða athugasemd var að finna í endurskoðunarskýrslum um ársreikninga flestra annarra sparisjóða sem KPMG endurskoðaði fyrir 2004.

Í endurskoðunarskýrslu Deloitte hf. um ársreikning Sparisjóðsins í Keflavík 2004 var eftirfarandi sagt um þetta:

Lántaka sjóðsins hækkar um 2.216 milljónir að stærstum hluta vegna lánsfjármögnunar frá Íbúðalánasjóði 1.627 milljónir króna. Lántakan frá Íbúðalánasjóði kemur til lækkunar á áhættugrunni í útreikningi á eiginfjárhlutfalli.

Íbúðalánin sem samningarnir tóku til hafa því staðið áfram meðal útlána sparisjóðsins í ársreikningnum. Þarna var vísað til þess að áhættuvog þessara lána lækkaði úr 0,5 niður í 0,0 við það að áhættan af þeim var öll færð yfir til Íbúðalánasjóðs. Lækkun áhættugrunnsins leiddi síðan til þess að eiginfjárhlutfallið varð hærra en ella.

Samningar Íbúðalánasjóðs um fjármögnun á útlánum sparisjóðanna breyttust eftir mitt ár 2005. Í stað lánasamninga gáfu sparisjóðirnir út skuldabréf með breytirétti sem fólst í því að Íbúðalánasjóður gat einhliða breytt samningssambandinu í lánssamning. Þetta reyndi enn á túlkun á reikningsskilareglum. Samkvæmt reikningsskilastaðli IAS 39, Fjármálagerningar: skráning og mat, voru tilgreind skilyrði um hvenær bæri að afskrá fjáreignir og fjárskuldir. Afskráning fjáreignar var óheimil þegar afsalsgjafi bar enn áhættuna eða ávinninginn af eigninni eða hluta eignarinnar, eða hafði yfirráð yfir eigninni eða hluta eignarinnar og hafði ekki yfirfært áhættuna eða ávinninginn.35 Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis tók upp reikningsskil í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla 2005. Í endurskoðunarskýrslu KPMG um ársreikning Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fyrir það ár var nokkur umfjöllun um þennan túlkunarvanda í tengslum við slíka samninga:

Ýmsar aðrar fjármálastofnanir hafa gert hliðstæða samninga við ÍLS. Ekki er samræmi á milli fjármálastofnana um meðferð þessara samninga í reikningsskilunum en ekki er að finna leiðbeiningar um meðferð svona samninga í núgildandi reglum um gerð ársreikninga lánastofnana.
Að okkar mati ber að færa þann gengishagnað sem af þessum samningum hlýst sem gengishagnað sem ber að tekjufæra við gerð samningsins. Jafnframt skal hætta að færa þau lán sem samningurinn tekur til sem eign hjá sparisjóðnum en hins vegar skal geta um þau í skýringum.
Stjórnendur SPRON hafa lýst sig sammála skoðun okkar um meðferð á gengishagnaði af samningunum. Hins vegar hafa þeir lýst ákveðnum efasemdum um að færa lánin út úr bókum sparisjóðsins. Í því sambandi er meðal annars bent á að lögformlegt eignarhald er enn hjá SPRON og meðan reikningsskil viðkomandi stofnana hafa ekki verið samræmd gæti það leitt til þess að íbúðalán að fjárhæð um 80 milljarðar væri ekki að finna í efnahagsreikningi neinna lánveitenda. Meðan reikningsskilin hafa ekki verið samræmd er þessi hætta fyrir hendi. Í ljósi þess sem að framan greinir teljum við ásættanlegt að í reikningsskilum SPRON 31. desember 2005 verði gengishagnaður af samningunum færður til tekna en lánin verði samt sem áður í bókum SPRON.

Sama athugasemd var gerð í endurskoðunarskýrslu KPMG um ársreikning Frjálsa fjárfestingarbankans hf. sama ár. Höfðu menn áhyggjur af því að lánin yrðu hugsanlega hvergi færð til bókar og horfðu til þess hvernig Landsbankinn fór með samsvarandi samninga í ársreikningnum 2005.36 Sú skýring er afar hæpin, enda skal sérhvert fyrirtæki kappkosta að hafi sín eigin reikningsskil rétt, en ber alls ekki að sjá til þess að önnur fyrirtæki geri slíkt hið sama. Ekki verður séð að hættan á að lánin kæmu hvergi fram á bókum hafi verið meiri en hættan á að þau væru eignfærð hjá öllum hlutaðeigandi. Tiltölulega auðvelt hefði verið að samræma það, hvernig lánin yrðu færðar til bókar.

Þessi nýja skoðun á meðferð viðkomandi íbúðalána var ekki viðruð í öðrum endurskoðunarskýrslum en vegna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fyrir 2005. Í skýrslum vegna nokkurra annarra sparisjóða var óbreytt athugasemd frá árinu áður, þ.e. vakin athygli á áhættuvæginu 0,0 í útreikningi á eiginfjárhlutfallinu.

Byr sparisjóður tók upp reikningsskil í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla árið 2006. Þá kom þetta álitamál upp við reikningsskilin fyrir það ár. Ekkert hafði verið minnst á þessa lánasamninga í endurskoðunarskýrslum um ársreikning Sparisjóðs vélstjóra fyrir 2004 og 2005. Það hafði hins vegar verið gert í endurskoðunarskýrslum um ársreikning Sparisjóðs Hafnarfjarðar, eins og fyrr var getið. Hjá sameinuðum sparisjóði námu þessir samningar samtals tæpum 8,7 milljörðum króna í árslok 2005. Í endurskoðunarskýrslu PricewaterhouseCoopers hf. um ársreikning Byrs sparisjóðs 2006 var greint frá samningunum við Íbúðalánasjóð árin 2004 og 2005 og eftirfarandi sagt um þá:

Í þessum samningum var ávinningur og áhætta af lánasafninu flutt frá Byr sparisjóði yfir til Íbúðalánasjóðs. Yfirráð yfir safninu fluttust hins vegar ekki frá sparisjóðnum. Reikningshaldsleg meðhöndlun á þessum samningum er í samræmi við reglur í IAS 39 um útskráningu fjáreigna. Um er að ræða nokkuð flókið atriði í reikningsskilum en niðurstaðan var sú að útskrá ekki lánasafnið heldur færa það áfram á kostnaðarverði og á móti færð lántaka við Íbúðalánasjóð. Mismunur lántökunnar hjá Íbúðarlánasjóði og kostnaðarverði lánasafnsins var skilgreind sem sjálfstæð afleiða. Innlausn mismunarins sem tekjufærður var á árunum 2004 og 2005, var því ekki bakfærð við upptöku IFRS.

Þetta var önnur niðurstaða en endurskoðendur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis komust að ári fyrr. Ekki var minnst á samningana í öðrum endurskoðunarskýrslum fyrir 2006 nema hjá Sparisjóði Svarfdæla, en það var sama athugasemd og var í flestum endurskoðunarskýrslum frá endurskoðendum KPMG fyrir árið 2005.

Sparisjóðurinn í Keflavík innleiddi alþjóðlega reikningsskilastaðla í ársreikningi sínum fyrir árið 2007. Við það þurfti að endurmeta eigna- og skuldaliði við gerð opnunarefnahagsreiknings miðað við ársbyrjun 2007. Þá var tekin ákvörðun um að færa íbúðalánin sem samningarnir við Íbúðalánasjóð náðu til út úr eignasafninu og lántökuna í tengslum við þau út úr skuldunum. Um var að ræða tæpa 3,2 milljarða króna á hvorri hlið efnahagsreikningsins. Þetta mátti sjá aftast í ársreikningnum í talnayfirliti sem sýndi breytingar á samstæðuefnahagsreikningi 31. desember 2006 og var þetta hvort tveggja fært í dálki sem bar yfirskriftina „breytingar á framsetningu“. Engar skýringar fylgdu þó með þessu til þess að lesandi ársreikningsins gæti áttað sig á hvað þarna var á ferðinni. Ekkert var heldur á þetta minnst í endurskoðunarskýrslu Deloitte hf. um endurskoðun ársreikningsins. Endurskoðandi sparisjóðsins gaf rannsóknarnefndinni eftirfarandi skýringu á þessari lækkun:

Við upptöku á IFRS var farið yfir alla liði efnahagsreikningsins og fundinn rökstuðningur fyrir flokkun liðanna í stöðlunum. Þegar kom að þessum lið mátti sjá að samningarnir við ÍLS höfðu ekki þau skilyrði til að bera til að vera flokkuð brúttó, þ.e. eign og skuld á efnahagsreikningi aðallega vegna þess að skilyrði til eignfærslu í samræmi við IFRS voru ekki fyrir hendi. Bréfin og þessi viðskipti voru ekki færð út úr bókum sparisjóðsins, enda um lögmæt viðskipti að ræða. Þau voru hins vegar sett fram í reikningsskilum líkt og um „vörsluþjónustu“ væri að ræða (nettó). Átti það bæði við um rekstrarreikning og efnahagsreikning.37

Nettófjárhæðin sem þarna var minnst á var um 20 milljónir króna. Sama aðferð var viðhöfð hjá Sparisjóði Vestmannaeyja við upptöku alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna í ársreikningi 2007. Þar var sami endurskoðandi og hjá Sparisjóðnum í Keflavík.

Hefðu allir sparisjóðirnir farið þessa leið í reikningsskilum sínum, hefðu efnahagsreikningar þeirra samanlagt verið rúmum 40 milljörðum króna lægri. Sú fjárhæð var nærri fimmtungur af útlánasafni allra sparisjóðanna í árslok 2005. Hin endanlega ákvörðun um hvernig farið var með umrædda lánasamninga í reikningsskilum sparisjóðanna var tekin af stjórnendum þeirra og féllust endurskoðendur á hana þrátt fyrir að hafa bent á aðra aðferð sem þeir töldu betur viðeigandi.38

8.4.2.2 Mat á virði óskráðra verðbréfa

Í ársreikningum sem gerðir voru samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana skiptu sparisjóðirnir verðbréfaeign sinni í þrjá meginflokka:

 • markaðsskuldabréf og önnur verðbréf með föstum tekjum,
 • hlutabréf og önnur verðbréf með breytilegum tekjum, og
 • hluti í hlutdeildarfyrirtækjum.

Hér verður sjónum einkum beint að hlutabréfaeigninni. Samkvæmt þessum reglum skiptu sparisjóðirnir hlutabréfaeign sinni í veltuhlutabréf og fjárfestingarhlutabréf. Fjárfestingarhlutabréf voru þau sem tekin var ákvörðun um að eiga lengur en í eitt ár en önnur voru flokkuð sem veltuhlutabréf. Fjárfestingarhlutabréf voru færð á kostnaðarverði eða markaðsverði, hvort sem lægra reyndist, sem sagt aldrei á hærra verði en kostnaðarverði. Veltuhlutabréfin sættu ólíkri meðferð eftir því hvort þau voru skráð, en þá voru þau eignfærð á markaðsverði, eða óskráð, en þá voru þau eignfærð á kostnaðarverði eða raunvirði (markaðsverði), hvort sem lægra reyndist. Þessar reglur voru skýrar og álitamál tengd mati á hlutabréfum voru ekki mörg.

Hlutir í hlutdeildarfyrirtækjum voru lengst af bundnir við fyrirtæki í sameiginlegri eigu sparisjóðanna, svo sem Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf., Tölvumiðstöð sparisjóðanna/Teris og Fjárfestingarfélag sparisjóðanna hf. Sparisjóðirnir færðu einnig eignarhlut sinn í Reiknistofu bankanna í þennan flokk. Í 2. gr. reglna nr. 834/2003 eru hugtök skýrð og þar segir að hlutdeildarfyrirtæki sé „fyrirtæki, þó ekki dótturfyrirtæki, sem annað félag og dótturfyrirtæki þess eiga eignarhluta í og hafa veruleg áhrif á eða beinn og óbeinn eignarhlutur nemur 20% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti“. Skilyrðið um 20% eignarhlutinn var þó sjaldnast uppfyllt. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis átti nær fjórðungshlut í Sparisjóðabankanum allt þar til í árslok 2006 og í Tölvumiðstöð sparisjóðanna/Teris, þar til sparisjóðurinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu, og auk þess hátt í helmingshlut í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. frá árslokum 2006. Sparisjóður vélstjóra átti rúman fjórðungshlut í Sparisjóðabankanum í árslok 2006 og rúmlega 20% hlut í Fjárfestingarfélagi sparisjóðanna hf./FSP hf. í árslok 2004–2006. Sparisjóðurinn í Keflavík átti einnig rúm 20% í sama félagi á sama tíma. Að auki jók hann eignarhlut sinn í Sparisjóðabankanum á árunum 2007 og 2008 úr rúmum 11% í tæp 20%. Loks átti hann 28% hlut í Kistu í árslok 2006 en með samruna við aðra sparisjóði fór hlutur hans í rúm 34%. Þetta voru einu tilvikin þar sem eignarhluturinn náði 20% markinu. Skilyrðið um veruleg áhrif á stjórn viðkomandi félags var hins vegar uppfyllt í miklu fleiri tilvikum því stjórnir umræddra félaga voru eingöngu skipaðar fulltrúum sparisjóða, oftast sparisjóðsstjórum. Sparisjóðir sem ekki áttu stjórnarmenn í félögunum áttu strangt til tekið ekki að færa eignarhlut sinn í þeim með hlutdeildaraðferð. Þetta viðgekkst samt því sparisjóðirnir höfðu sameiginleg yfirráð og eignarhald yfir þessum félögum í gegnum sparisjóðasamstarfið. Þegar eignarhaldið á Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. var útvíkkað árið 2007 og aðilar utan sparisjóðakerfisins eignuðust þar hluti var hann ekki lengur færður sem hlutdeildarfélag í ársreikningum sparisjóðanna.

Við upptöku IFRS breyttist bæði mat og framsetning á verðbréfaeign. Þá var tekið að flokka nær öll verðbréf sem fjáreignir og voru þau metin á gangvirði, hvort sem um var að ræða skráð eða óskráð bréf. Þetta hafði í för með sér talsverðar breytingar á bókfærðu verði óskráðra bréfa, eins og sjá má í töflu 2. Bent skal á að tölurnar fyrir Afl sparisjóð og Sparisjóð Ólafsfjarðar eru meðtaldar í tölunum fyrir Sparisjóð Mýrasýslu.

Heildarbreytingin var mest í ársreikningum 2007, eða hækkun upp á rúma 3,6 milljarða króna. Fyrir rannsóknarnefndinni báru margir sparisjóðsstjórar að endurskoðendur viðkomandi sparisjóða hefðu eindregið ráðlagt þeim að færa öll hlutabréf á gangvirði því slíkt skilaði meira viðeigandi upplýsingum.

Eins og greint hefur verið frá hér framar varð heimilt frá árinu 2004 samkvæmt lögum um ársreikninga að færa verðbréf í veltubók á gangvirði, jafnt óskráð sem skráð.39 Tekið skal fram að það var og er ekki enn skylt. Beiting gangvirðis skyldi vera í samræmi við alþjóðlegar reikningsskilareglur og er einungis heimilt að beita slíku mati ef það byggist á áreiðanlegum upplýsingum um gangvirði.40 Þegar fjármálagerningar eru metnir til gangvirðis er skylt að veita tilteknar upplýsingar í skýringum með ársreikningnum, hvort heldur sem hann er gerður í samræmi við IFRS eða reglur Fjármálaeftirlitsins og lög um ársreikninga. Í ársreikningalögunum er þess krafist að eftirfarandi upplýsingar séu veittar:

1. helstu forsendur sem liggja að baki matslíkönum og matsaðferðum þegar gangvirði er ákvarðað skv. 3. tölul. 2. mgr. 37. gr.,

2. breytingar á virði fyrir hvern flokk fjármálagerninga hvort sem breytingin hefur verið færð á rekstrarreikning eða á gangvirðisreikning,

3. umfang og eðli hvers flokks afleiðusamninga, þ.m.t. mikilvægi skilmála og skilyrði sem gætu haft áhrif á fjárhæð, tímasetningu og áreiðanleika framtíðarfjárstreymis, og

4. hreyfingar á gangvirðisreikningi á árinu.41

Kröfur um upplýsingar um fjármálagerninga í skýringum með ársreikningum sem samdir eru í samræmi við IFRS, einkum IFRS 7, Fjármálagerningar: Skýringar, voru tilgreindar hér framar.

8.5 Meðhöndlun ársreikninga í skýrslunni

8.5.1 Almenn atriði

Í köflunum um einstaka sparisjóði er almenna reglan sú að fjallað er um rekstrarárin 2005–2011. Í innganginum að hverjum sparisjóðskafla nær umfjöllunin aftur á móti yfir tímabilið 2001–2011 og svo er einnig í þessum kafla. Sumir sparisjóðir voru ekki í rekstri við lok ársins 2011 og ársreikningar þeirra ná því vitanlega ekki svo langt, til að mynda voru síðustu ársreikningar Sparisjóðs Mýrasýslu og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. fyrir árið 2008. Hjá þeim síðarnefnda var reikningurinn fullsaminn en ekki undirritaður af stjórn. Síðustu ársreikningar sem samdir voru fyrir Byr sparisjóð og Sparisjóðinn í Keflavík voru fyrir árið 2009 og þar var í báðum tilvikum um að ræða óundirritaðan reikning, en fullsaminn.

Margir sparisjóðir luku tilvist sinni með því að renna saman við annan sparisjóð og lauk þar með gerð sjálfstæðs ársreiknings af þeirra hálfu. Í slíkum tilvikum nær rekstrarreikningur sparisjóðs sem hættir að starfa sjálfstætt til þess dags sem bókhaldslegur samruni átti sér stað, en frá þeim degi varð rekstur hans hluti af hinum sameinaða sparisjóði. Eignir, skuldir og eigið fé hins yfirtekna sparisjóðs koma hins vegar fram að fullu í efnahagsreikningi hins sameinaða sparisjóðs í árslok. Dæmi um þetta er Sparisjóður Hornafjarðar sem Sparisjóður Vestmannaeyja yfirtók á miðju ári 2006. Í rekstrarreikningi Sparisjóðs Vestmannaeyja fyrir árið 2006 gætir því áhrifanna af sameiningunni frá 1. júlí, en efnahagsreikningurinn sýnir áhrifin að fullu í árslok, á meðan samanburðartölur frá fyrra ári sýna aðeins eignir og skuldir Sparisjóðs Vestmannaeyja.

Umfjöllunin byggir undantekningarlítið á samstæðureikningi. Sparisjóður Mýrasýslu var eini sparisjóðurinn sem átti aðra sparisjóði sem reknir voru áfram undir eigin nafni, þ.e. Sparisjóð Ólafsfjarðar og Sparisjóð Siglufjarðar/Afl sparisjóð, og er fjallað sérstaklega um þá í skýrslunni. Þess vegna er oft og einatt litið til ársreiknings móðurfélags Sparisjóðs Mýrasýslu, þegar starfsemi þess út af fyrir sig er skoðuð. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis átti reyndar nb.is-sparisjóð hf., en í þeim sjóði var ekki um að ræða eiginlega sparisjóðsstarfsemi og því er ekki fjallað um hann sérstaklega. Margir sparisjóðir áttu dótturfélög sem ekki voru sparisjóðir en höfðu með höndum annars konar starfsemi, þótt oftast nær væri um einhvers konar fjármálastarfsemi að ræða. Það átti til dæmis við um Frjálsa fjárfestingarbankann hf. sem var einnig í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Í skýrslunni er fjallað um slík dótturfélög undir samstæðunni.

Til þess að skoða rekstur og efnahag sparisjóðs á ákveðnu tímabili í samfellu þarf að stilla ársreikningum hans upp í tímaröð og í skýrslunni eru þeir sýndir á verðlagi hvers árs. Í viðauka C eru reikningarnir einnig sýndir á föstu verðlagi, þ.e. verðlagi ársins 2011, því ekki er fjallað um yngri ársreikninga í skýrslunni. Við framreikning til fasts verðlags er þeirri venju fylgt að styðjast við meðalvísitölur þegar fjárhæðir í rekstrarreikningi eru framreiknaðar, en við árslokavísitölur (þ.e. janúarvísitölu næsta árs) þegar efnahagsreikningsstærðir eru framreiknaðar. Í skýrslunni er samt almennt fjallað um fjárhæðir á verðlagi hvers árs. Annað hefði skapað margháttuð vandkvæði við að velja tímaviðmið og ljóst að eitt tímaviðmið hefði ekki gengið fyrir alla sparisjóði. Vissulega breyttist verðlag umtalsvert á tímabilinu 2001–2011, vísitala neysluverðs til verðtryggingar hækkaði um 78,0% miðað við ársmeðaltöl en 75,2% miðað við árslokatölur. Samsvarandi hækkun á tímabilinu 2005–2011, sem umfjöllun um einstaka sparisjóði tekur oftast til, var 54,3% og 54,5%.42

Forsenda þess að unnt sé að fjalla um sparisjóðina sem eina heild er að upplýsingar séu samanburðarhæfar. Þar flækir málið að ársreikningar einstakra sparisjóða eru ýmist samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins eða IFRS þar sem framsetning er með nokkuð öðrum hætti. Það sem helst torveldar samanburð milli þessara mismunandi gerða lýtur að verðbréfaeignum og tekjum af þeim, öðrum en vaxtatekjum. Með því að rýna í viðkomandi liði og samræma framsetninguna er unnt að viðhafa ásættanlegan samanburð, annað hvort með því að laga eldra formið að IFRS, eða öfugt. Hér var seinni kosturinn valinn, því með þeirri aðferð þarf ekki að aðlaga eins marga reikninga. Að auki hefði fyrri kosturinn útheimt upplýsingar sem torvelt er að fá og jafnvel ómögulegt. Það skal áréttað að hér er það aðeins flokkun eigna sem hefur fengið þessa meðferð. Verðmatið er hins vegar ólíkt eins og fram kemur í töflu 3 og hefur ekki verið leiðrétt, enda skortir allar forsendur til að það sé unnt. Nú skal því stuttlega lýst hvernig þessi samræming fór fram.

Samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins eru verðbréfaeignir fyrst flokkaðar eftir formi, í skuldabréf og hlutabréf, og síðan eftir því hvort þær eru skammtímaeign eða langtímaeign. Samkvæmt IFRS eru þær fyrst flokkaðar eftir tímaviðmiði eignarhaldsins, í veltufjáreignir til skamms tíma og fjárfestingar til gjalddaga. Þar á milli eru tveir flokkar með fljótandi tímaviðmið: fjáreignir á gangvirði og fjáreignir til sölu. Innan hvers flokks er fjáreignum síðan skipt eftir formi, þ.e. í skuldabréf eða hlutabréf. Þetta er sett fram í töflu 3 þar sem efri hlutinn sýnir framsetninguna samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins en neðri hlutinn samkvæmt IFRS. Jafnframt er tilgreind meginreglan sem viðhöfð skal við mat á hverri tegund eignar fyrir sig. Eignarhlutir í hlutdeildarfélögum eru sýndir með sama hætti samkvæmt báðum regluverkunum og því óþarft að hafa þá með í töflunni.

Litirnir framan við einstakar tegundir verðbréfa sýna hvaða bréf eru sama eðlis. Skuldabréf í IFRS-ársreikningi, hvort sem þau tilheyrðu veltufjáreignum eða fjáreignum á gangvirði, voru sett í flokk með markaðsskuldabréfum og öðrum verðbréfum með föstum tekjum. Hlutabréf í IFRS-ársreikningi voru sett í flokk hlutabréfa og verðbréfa með breytilegum tekjum. Afleiðusamningar voru einnig fluttir í þann flokk, til einföldunar.

8.5.2 Afkoma af kjarnarekstri

Þegar skoðað er hvernig afkoma sparisjóða varð til er áhugavert að líta á afkomu af kjarnarekstri, hagnað eða tap. Fjármálaeftirlitið dró þessa stærð fram í ársreikningaskýrslum sínum og skilgreindi hana svo:

Hagnaður f. skatta af kjarnastarfsemi eru hreinar vaxta- og þóknanatekjur að frádregnum rekstrargjöldum og virðisrýrnun útlána. Ekki hefur verið tekið tillit til áhrifa af vaxtakostnaði vegna fjármögnunar á hluta- og markaðsskuldabréfum. Hagnaðurinn kann því að vera vanmetinn að einhverju leyti.43

Það sem ekki fellur undir kjarnarekstur er þá fjárfestingarstarfsemi af ýmsum toga, svo sem tekjur og gjöld af verðbréfaeign og -sölu, auk gjaldeyristekna/-gjalda. Bankasýsla ríkisins hefur beitt svipaðri nálgun þar sem með kjarnarekstri er átt við

rekstur sparisjóðs að frádregnum áhrifum af endurmati eigna, gjaldeyrissveiflum og eftir atvikum áhrifum af rekstri dótturfélaga í óskyldum rekstri. Þar með kemur fram sá grunnrekstur sem eigendur og stjórnendur þurfa að hafa í huga við mótun framtíðarrekstrar.44

Rannsóknarnefndin kaus að fylgja skilgreiningu Fjármálaeftirlitsins. Afkoma af kjarnarekstri er því reiknuð eins og sýnt er í töflu 4.

Þetta er reyndar gróf nálgun því vaxtakostnaður vegna fjármögnunar á fjárfestingum er meðtalinn í hreinum vaxtatekjum. Það er vissulega óheppilegt í þeim tilvikum þar sem óvaxtaberandi eignir voru miklar. Hafa verður þó í huga að útlánin voru um og yfir 70% af eignum sparisjóðanna í heild allt tímabilið sem hér er til umfjöllunar. Þó er litið fram hjá stöðunni á afskriftareikningi útlána, sem þýðir að hlutur útlána af heildareignum var eitthvað stærri. Vaxtatekjur af fjárfestingarskuldabréfum eru meðtaldar í hreinum vaxtatekjum. Óvaxtaberandi eignir voru í þessu samhengi aðeins hlutabréfin. Hlutur þeirra var hjá sparisjóðunum samtals í kringum 10% af heildareignum, hjá sumum eitthvað hærri árin 2006 og 2007, en þó langt innan við 20%. Einhver hluti launakostnaðar og annars rekstrarkostnaðar hlýtur að vera vegna fjárfestingarstarfseminnar. Það voru þó aðeins stærstu sparisjóðirnir sem héldu úti sérstökum fjárfestingararmi, í dótturfyrirtæki eða deild. Þar kann launakostnaður og annar tilheyrandi kostnaður að vega þungt í almennum rekstrarkostnaði í reiknireglunni hér að ofan og lækka þar með afkomu af kjarnarekstri.

Greining eftir þessari aðferð á samt að gefa ásættanlega mynd af hagnaði af kjarnarekstri. Í kaflanum um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis eru talsverðar vangaveltur um hvað telja ber til kjarnareksturs. Þar er jafnframt litið til svonefnds starfsþáttayfirlits sem birt var í ársreikningi sparisjóðsins og fleiri gögnum honum tengdum um tveggja til þriggja ára skeið. Umtalsverður munur er á niðurstöðum eftir því hvort sjónarhornið er valið. Sparisjóðurinn í Keflavík birti einnig starfsþáttayfirlit í sínum ársreikningi þrisvar sinnum og fá þau umfjöllun í kaflanum um sparisjóðinn.

Afkoma af kjarnarekstri fyrir skatt er borin saman við hagnað fyrir skatta, samkvæmt rekstrarreikningnum sjálfum. Þannig fæst vísbending um það hvort kjarnareksturinn hafi staðið undir sparisjóðnum eða hvort sparisjóðurinn hefur þurft að reiða sig á eitthvað annað, svo sem fjárfestingarstarfsemi.

8.5.3 Kennitölur

Við greiningu ársreikninga er iðulega gripið til ýmissa kennitalna. Kennitölur eru hlutföll tiltekinna stærða í ársreikningi og geta verið gagnlegar við samanburð milli ára og á milli fyrirtækja. Þær eru þó lítils virði ef ekki liggur ljóst fyrir hvað þeim er ætlað að mæla og hvernig þær eru reiknaðar. Hér er því gerð grein fyrir þeim kennitölum sem notaðar eru í skýrslunni.

8.5.3.1 Kennitölur tengdar rekstri

Arðsemi svarar nokkurn veginn til hugtaksins ávöxtun. Henni er ætlað að sýna hvernig tilteknar eignir hafa ávaxtast á árinu. Algengast er að reikna arðsemi heildareigna, þ.e ávöxtun þeirra eigna sem eru bundnar í rekstrinum, án tillits til fjármögnunar þeirra, og arðsemi eigin fjár sem ætlað er að segja til um ávöxtun þess fjármagns sem eigendur eiga tilkall til og sem bundið er í rekstrinum. Í tilfelli sparisjóðs eiga stofnfjáreigendur reyndar ekki tilkall til varasjóðsins en hann er þó talinn með í eigin fé. Arðsemin er reiknuð sem hér segir:

Arðsemi heildareigna: Hagnaður ársins deilt með meðalstöðu eigna (meðaltali eigna í upphafi og lok ársins).

Heildararðsemi eigin fjár: Hagnaður ársins deilt með meðaltalinu af eigin fé í upphafi og lok árs, eftir að hagnaður ársins hefur verið dreginn frá árslokastöðunni. Réttara væri að miða við vegið meðaltal eigin fjár, þ.e. að taka tillit til breytinga sem orðið hafa á eigin fé á árinu og hvenær þær áttu sér stað. Þar sem ekki eru alltaf tiltækar upplýsingar um hvenær útgreiðslur og inngreiðslur áttu sér stað er fyrrnefnda aðferðin oftast notuð í samræmingarskyni.

Raunarðsemi eigin fjár: Reiknuð samkvæmt eftirfarandi formúlu:

þar sem r táknar raunarðsemi, i táknar heildararðsemi eigin fjár, sbr. hér að ofan, og j táknar hækkun vísitölu á árinu.

Vaxtamunur er lykilstærð hjá lánastofnunum og því iðulega tilgreindur í fjárhagsskýrslum þeirra. Kjarnareksturinn er í raun borinn uppi af honum. Vaxtamunur er oft reiknaður sem hreinar vaxtatekjur deilt með meðalstöðu eigna. Þessi aðferð er gjarnan notuð við samanburð á vaxtamun milli landa. Þetta er þó fremur ógagnsæ kennitala og hlutfall óvaxtaberandi eigna hefur mikil áhrif á niðurstöðuna. Mun skiljanlegra er að horfa á muninn á meðalútlánsvöxtum og meðalinnlánsvöxtum. Meðalútlánsvextir (ú) eru vaxtatekjur ársins af útlánum til viðskiptavina deilt með meðalstöðu útlána á árinu. Meðalinnlánsvextir (i) eru reiknaðir á samsvarandi hátt, þ.e. vaxtagjöld ársins af almennum
innlánum deilt með meðalstöðu almennra innlána. Vaxtamunur er loks reiknaður
sem ... Þetta er réttari aðferð en að nota mismuninn úi, þótt ekki skakki miklu. Þegar rætt verður um vaxtamun í skýrslunni er reiknað með þessari aðferð, nema annað sé tekið fram.

Rekstrarkostnaður tekur til launa og launatengdra gjalda og annars rekstrarkostnaðar, auk afskrifta rekstrarfjármuna, þ.e. almenns rekstrarkostnaðar. Í tengslum við hann eru notaðar eftirfarandi kennitölur:

Kostnaður sem hlutfall af heildareignum: Rekstrarkostnaður ársins deilt með meðaltali heildareigna í upphafi og lok árs. Þessi kennitala er stundum nefnd kostnaðarhlutfall.

Meðallaunakostnaður: Laun og launatengd gjöld deilt með fjölda stöðugilda í árslok. Betra hefði verið að geta stuðst við vegið meðaltal stöðugilda á árinu, en slíkar upplýsingar liggja sjaldnast fyrir. Í ársreikningum er oft tilgreindur meðalstarfsmannafjöldi á árinu, en þar er yfirleitt ekki umreiknað til stöðugilda.

Laun og þóknanir til yfirstjórnar sem hlutfall af kjarnatekjum: Laun og launatengd gjöld sparisjóðsstjóra, stjórnarmanna, auk starfslokasamninga við sparisjóðsstjóra. Þessi summa er síðan sýnd sem hlutfall af hreinum vaxtatekjum og hreinum þjónustutekjum.

Þóknun til endurskoðenda sem hlutfall af heildareignum: Heildarþóknun, þ.e. fyrir endurskoðun ársreiknings og árshlutareiknings og fyrir önnur störf, s.s. innri endurskoðun. Þessi summa er síðan sýnd sem hlutfall af heildareignum í ársbyrjun, þ.e. lok næstliðins árs, því greiðslur lenda almennt á næsta ári á eftir því sem endurskoðunin tekur til.

8.5.3.2 Kennitölur tengdar efnahag

Útlánin eru langstærsti eignaliðurinn og eftirfarandi kennitölur eru notaðar í tengslum við þau:

Útlán sem hlutfall af heildareignum: Þessi kennitala skýrir sig sjálf.

Hlutfall milli innlána og útlána: Þessi kennitala gefur vísbendingu um hvernig sparisjóður fjármagnar útlán sín. Sé hlutfallið undir 100% eru útlánin fjármögnuð með einhverju fleiru en innlánum; í flestum tilvikum með lántöku. Þegar hlutfallið er yfir 100% er ljóst að fjármagnið sem fæst með innlánum er ekki allt lánað út og þá kallar það á annars konar fjárfestingu en útlán.

Afskriftareikningur útlána: Þessi reikningur er eins konar mótreikningur við útlánin og á hann skal færa framlög til að mæta töpum vegna skuldbindinga þeirra lánþega sem metnir eru í sérstakri tapshættu. Hún getur verið vegna verulegra eða langvarandi vanskila, greiðslustöðvunar eða annarra aðstæðna þar sem gjaldþol eða greiðslugeta hefur rýrnað umtalsvert. Ákvæði um afskriftareikning útlána eru í 57. og 58. gr. reglna nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana og einnig í viðauka I með reglunum. Framlag á afskriftareikninginn er bæði sérstakt og almennt. Sérstakt (eða sérgreint) framlag er vegna tiltekinna skuldara en almennt framlag er varúðarfærsla sem gerð er yfir allt lánasafnið í ljósi almennra aðstæðna á fjármálamarkaði hverju sinni. Stundum er afskriftaframlagið nefnt ­-„niðurfærsla“ vegna þess að staðan á afskriftareikningnum er dregin frá heildartölu útlána til viðskiptavina áður en hún er sýnd í ársreikningi. Þar er því sýnd nettóstaða útlánanna. Brúttóstaðan sést þá með því að leggja stöðu afskriftareikningsins við nettóstöðuna. Með kennitölunni niðurfærsluhlutfall útlána er átt við stöðu afskriftareiknings í árslok deilt með brúttóstöðu útlána til viðskiptamanna, líka í árslok. Ekki má rugla framlaginu (niðurfærslunni, varúðarfærslunni) saman við afskrift útlána. Þar er um að ræða útlánakröfur sem strikaðar eru út úr bókum sparisjóðs á grundvelli gjaldþrots, fjárnáms, nauðasamninga eða samkomulags skuldara við sparisjóðinn. Slík (endanleg) afskrift er færð til frádráttar á stöðu afskriftareikningsins og til lækkunar á útlánum en ekki í gegnum rekstrarreikning.

Fjárfestingar: Kennitölur eru gagnlegar við að skoða þróun einstakra fjárfestingarliða milli ára, svo og til að bera saman fjárfestingar einstakra sparisjóða. Þær sýna hver um sig hlutfallslegt vægi tiltekinna fjárfestingarliða í efnahagsreikningnum, þ.e. sem hlutfall af heildareignum. Þannig er hægt að reikna, auk hlutfalls útlána af heildareignum, sem áður var búið að nefna, markaðsskuldabréf/heildareignir, hlutabréfaeign/heildareignir, hlutdeildarfyrirtæki/heildareignir og kennitöluna sem hér er mest notuð í þessu sambandi, fjáreignir/heildareignir. Með fjáreignum er þá átt við summuna af markaðsskuldabréfum, hlutabréfaeign og eignarhlutum í hlutdeildarfélögum.

Fjármögnun: Á sama hátt er áhugavert að skoða hlut einstakra liða á fjármagnshlið efnahagsreikningsins og þróun þeirra, svo sem innlán/heildareignir, lántökur/heildareignir, víkjandi lán/heildareignir og eigið fé/heildareignir. Það gildir einu hvort nefnarinn er heildareignir eða skuldir og eigið fé, því fjárhæðin er ávallt sú sama.

Eigið fé er sá efnahagsliður hjá fjármálafyrirtækjum sem augu manna beinast oftast að. Eigið fé er einfaldlega mismunur eigna og skulda og segir þá til um hvað eignir mega rýrna mikið áður en það fer að bitna á lánardrottnum og kröfuhöfum. Nokkrar kennitölur eru notaðar í tengslum við eigið fé:

Eiginfjárhlutfall (CAD-hlutfall):45 Eiginfjárgrunnur deilt með áhættugrunni. Eiginfjárgrunnur er í stuttu máli bókfært eigið fé að viðbættum víkjandi lánum en að frádregnum eignarhlutum í öðrum fjármálafyrirtækjum. Áhættugrunnur er fundinn með því að áhættumeta öll útlán og fjárfestingar í fjármálagerningum eftir tilteknum reglum. Fjármálaeftirlitið setti um þetta reglur nr. 530/2003 um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja með vísan til 84. gr. laga nr. 161/2002. Með lögum nr. 170/2006 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki voru innleidd ákvæði Basel-II staðalsins. Fjármálaeftirlitið gaf í framhaldi af því út reglur nr. 215/2007 um eiginfjárhlutfall og áhættugrunn fjármálafyrirtækja. Samkvæmt þeim er eigið fé fjármálafyrirtækja byggt á nákvæmari viðmiðum en áður. Eiginfjárkrafan byggir á heildaráhættumynd fjármálafyrirtækisins og er áhættuþáttunum skipt í þrjá þætti: Útlánaáhættu (e. credit risk), markaðsáhættu (e. market risk) og rekstraráhættu (e. operational risk).46 Munur kann að vera á eiginfjárhlutfalli eftir því hvorum reglunum er beitt. Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 skal eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis, eins og hann er skilgreindur í 4. mgr. 84. gr., á hverjum tíma nema minnst 8% af áhættugrunni. Reglurnar um lágmarks eigið fé fjármálafyrirtækja hafa bein áhrif á möguleika þeirra til að taka áhættu, því að öll útlán og stöðutaka í fjármálagerningum mynda áhættu sem hækkar áhættugrunn fjármálafyrirtækja og lækkar þar með eiginfjárhlutfall þeirra ef eiginfjárgrunnur er ekki hækkaður samhliða.

Eiginfjárhlutfall (bókfært eiginfjárhlutfall): Bókfært eigið fé deilt með heildareignum (heildarfjármagni). Þetta er hin hefðbundna útgáfa af eiginfjárhlutfalli eins og það er almennt reiknað hjá hlutafélögum.

Stofnfé/eigið fé: Kennitalan skýrir sig sjálf og sýnir vægi stofnfjár í eigin fé sparisjóðsins. Annað eigið fé er þá varasjóðurinn, nema í tilfelli Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis eftir að hann varð hlutafélag, en þá kemur óráðstafað eigið fé í stað varasjóðs. Frá og með 2007 kemur einnig fyrir eiginfjárliðurinn gangvirðisreikningur (endurmat) sem geymir matsbreytingar á svokölluðum fjáreignum til sölu sem ekki er heimilt að færa í rekstrarreikning.

Víkjandi lán/eigið fé: Tilgangurinn með víkjandi lántöku er yfirleitt að styrkja eigið fé og hækka þannig eiginfjárhlutfallið, sbr. 1. tölul. 6. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002. Víkjandi lán eru þau lán nefnd sem ekki fást endurgreidd fyrr en á eftir öllum öðrum kröfum á hendur sparisjóðnum að frátalinni endurgreiðslu stofnfjár við gjaldþrot eða slit. Víkjandi lán bera eðli máls samkvæmt háa vexti. Þau þurfa að vera til að minnsta kosti fimm ára til þess að telja megi þau með í eiginfjárgrunni; styttri lán með sérstökum skilyrðum.

8.5.4 Um heildartöflurnar

Í skýrslunni er fjallað um stóru línurnar í rekstri sparisjóðanna samanlagt út frá ársreikningum þeirra á ellefu ára tímabili, árunum 2001–2011. Fjöldi sparisjóða breyttist mikið á þessu tímabili. Sumir voru sameinaðir eða yfirteknir af öðrum og nokkrir lögðu upp laupana. Við samantekt taflnanna í þessum kafla voru lagðir saman ársreikningar starfandi sparisjóða í lok hvers árs. Jafnframt voru teknir með í þessar samtölur rekstrarreikningar yfirtekinna sparisjóða á yfirtökuári til þess dags er reikningshaldslegur samruni átti sér stað. Efnahagsreikningar þeirra við þann tímapunkt runnu hins vegar inn í efnahagsreikninga yfirtökusjóðanna. Tvo slíka „rekstrarreikningsbúta“ hefur rannsóknarnefndin ekki getað útvegað, en það eru fjögurra mánaða rekstrarreikningur Sparisjóðs Hafnarfjarðar fyrir árið 200647 og þriggja mánaða rekstrarreikningur Sparisjóðs Norðlendinga 2008.48 Aðrir rekstrarreikningsbútar eru teknir með í þessum heildartöflum. Ársreikningar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fyrir 2008 og Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík fyrir 2009 voru ekki áritaðir af endurskoðanda en voru nær fullbúnir. Þeir eru teknir hér með. Upplýsingar um tímaramma einstakra sparisjóða í reikningshaldslegu tilliti eru teknar saman í töflu 5.

Við samruna sparisjóða á reikningstímabili geta þær kennitölur í heildartöflum tengdum rekstri sem styðjast við ársmeðaltöl orðið skakkar vegna þess að rekstrarreikningsbútur yfirtekins sparisjóðs fram að samruna er tekinn með í fjárhæðunum. Því þurfti að fjarlægja áhrif yfirtekinna sparisjóða í ársmeðaltölum. Áhrif af þessu eru þó óveruleg.

8.6 Fjárhagsyfirlit sparisjóða samanlagt

Hér er farið yfir samanlagðan rekstrar- og efnahagsreikning allra sparisjóðanna. Fjallað er um helstu fjárhagsstærðir og kennitölur á tímabilinu 2001–2011 eftir því sem tilefni þykir til. Markmiðið er að veita yfirsýn yfir fjárhagslega þróun og stöðu sparisjóðakerfisins í heild á þessu tímabili. Við lestur kaflans er nauðsynlegt að hafa í huga að afkoma fjögurra stærstu sparisjóðanna á því ári sem þeir hver um sig var yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu er ekki meðtalin í rekstrarfjárhæðum fyrir viðkomandi ár. Um er að ræða afkomu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og Sparisjóðs Mýrasýslu á árinu 2009 og afkomu Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík á árinu 2010. Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu liggja ekki fyrir reikningsskil fyrir sjóðina frá upphafi viðkomandi rekstrarárs fram að yfirtöku þeirra.49 Gerð er grein fyrir hvaða reikningsskil liggja til grundvallar samantekt fjárhæða fyrir alla sparisjóðina í töflu 5.

Spkef sparisjóður, sem stofnaður var 22. apríl 2010 við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Sparisjóðnum í Keflavík, skilaði ekki ársreikningi þá rúmlega tíu mánuði sem hann starfaði. Saminn var samstæðuársreikningur fyrir tímabilið frá 22. apríl til 31. desember 2010 en hann var aldrei undirritaður af stjórn og framkvæmdastjóra, enda var samningu hans ekki lokið fyrr en nokkrum mánuðum eftir að Spkef sparisjóður var yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu 5. mars 2011. Fljótlega eftir að sjóðurinn tók til starfa komu fram vísbendingar um að eignasafn Sparisjóðsins í Keflavík hefði verið ofmetið. Nokkur verðmöt voru framkvæmd á hinum stutta starfstíma Spkef sparisjóðs og eftir að hann rann inn í NBI hf. (Landsbankann), svo sem rakið er í kaflanum um Sparisjóðinn í Keflavík. Þótt niðurstöður þeirra væru mismunandi þá gáfu þau öll til kynna mun lakari eiginfjárstöðu en lagt hafði verið upp með við stofnun Spkef sparisjóðs. Rannsóknarnefnd Alþingis ákvað að taka fyrrnefndan ársreikning Spkef sparisjóðs ekki með í heildartöflur um sparisjóðina í þessum kafla vegna þess hve mikil óvissa ríkti um fjárhæðir í reikningnum. Þetta þarf að hafa í huga við lestur skýrslunnar. Þegar vísað er til stærðar sparisjóðakerfisins í árslok 2010 eru þar ekki meðtaldar heildareignir Spkef upp á 75,4 milljarða króna (þar af námu útlán 43 milljörðum króna og krafa á ríkissjóð 12,1 milljarði króna). Innlán sparisjóðsins námu 59,7 milljörðum króna, en eigið fé var neikvætt um tæpan hálfan milljarð króna.

Fyrir og um aldamótin stóðu sparisjóðirnir og önnur fjármálafyrirtæki frammi fyrir miklum breytingum á fjármálamarkaði samhliða verulegum vexti. Á árunum fyrir fall bankanna hafði sparisjóðum fækkað umtalsvert vegna sameiningar þeirra og samþjöppunar á markaði. Í skýrslu sem Samtök fjármálafyrirtækja gáfu út á árinu 2007 kemur fram að þessi samþjöppun hafi í raun verið eðlilegur hluti þróunar fjármálamarkaðarins og í samræmi við það sem gerst hafði víða annars staðar. Bent var á að margir sparisjóðanna hefðu verið smáir í sniðum, sem hefði haft sína kosti og galla, en tilhneigingin á fjármálamörkuðum heimsins hefði frekar stefnt í átt að stækkun eininga til að leita eftir aukinni rekstrarhagkvæmni.50

Skörð voru höggvin í raðir sparisjóðanna með falli fjögurra stærstu sjóðanna og Sparisjóðabanka Íslands hf. á árunum 2009 og 2010. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. og Sparisjóðabanki Íslands hf./Icebank hf. féllu í mars 2009 og Sparisjóður Mýrasýslu í apríl 2009. Í apríl 2010 féllu Byr sparisjóður og Sparisjóðurinn í Keflavík. Spkef sparisjóður var stofnaður á grunni Sparisjóðsins í Keflavík og starfaði hann til 3. mars 2011. Byr hf. var stofnaður á grunni Byrs sparisjóðs og var banki en ekki sparisjóður. Byr hf. er ekki til umfjöllunar í þessari skýrslu.

Í lok árs 2008 námu heildareignir allra sparisjóða um 667 milljörðum króna. Eftir fall fjögurra þeirra stærstu minnkuðu heildareignir sparisjóðakerfisins verulega og námu um 60 milljörðum króna í lok árs 2011. Í árslok 2008 ráku sparisjóðirnir 59 afgreiðslustaði og stöðugildi við þá voru 802. Í lok árs 2011 hafði stöðugildum fækkað umtalsvert og voru ekki nema 150. Afgreiðslustöðum hafði fækkað um meira en helming frá 2008 og voru 23 í lok árs 2011.

Umtalsverður munur var á stærð einstakra sparisjóða. Í lok árs 2008 námu heildareignir fjögurra stærstu sparisjóðanna 92,5% af samanlögðum heildareignum allra sparisjóða í landinu. Þessir sjóðir voru Byr sparisjóður (38%), Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis (33%), Sparisjóðurinn í Keflavík (15%) og Sparisjóður Mýrasýslu (6,8%). Aðrir sparisjóðir áttu hver um sig minna en 3% af heildareignum sparsjóðakerfisins. Mynd 1 sýnir skiptingu heildareigna sparisjóðanna í lok árs 2008.

Vegna þess hve stóru sparisjóðirnir vega þungt er umfjöllun um rekstur og efnahag sparisjóðanna í sumum tilfellum skipt upp þannig að annars vegar er fjallað um stóra sparisjóði og aðra sparisjóði hins vegar. Þeir sparisjóðir sem skilgreindir eru sem stórir í skýrslunni eru Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóður frá 2006 (en til þess tíma Sparisjóður vélstjóra og Sparisjóður Hafnarfjarðar), Sparisjóðurinn í Keflavík og loks Sparisjóður Mýrasýslu. Í tilfelli þess síðastnefnda eru Sparisjóður Siglufjarðar, Sparisjóður Skagafjarðar, Afl sparisjóður og Sparisjóður Ólafsfjarðar meðtaldir þau ár sem þeir voru hluti af samstæðu hans.

Fjallað er um einstaka sparisjóði í sérköflum. Í töflu 6 má sjá í hvaða kafla skýrslunnar er fjallað um hvern sparisjóð fyrir sig. Fjallað er um alla sparisjóði sem störfuðu undir eigin nafni í árslok 2008 í sérstökum kafla, en umfjöllun um þá sem sameinast höfðu öðrum sparisjóði fyrir þann tíma er að finna í köflum um sparisjóðina sem yfirtóku þá.

Sparisjóðakerfið borið saman við viðskiptabankana

Til þess að varpa ljósi á umfang sparisjóðakerfisins í samanburði við viðskiptabankakerfið í heild verður litið á heildareignir sparisjóða og viðskiptabanka á árunum 2001–2011. Í þessum samanburði var kosið að taka Sparisjóðabankann með í reikninginn ásamt sparisjóðunum, því þótt hann væri viðskiptabanki en ekki sparisjóður, tilheyrði hann sparisjóðakerfinu. Það hefur samt í för með sér nokkra tvítalningu eigna og skulda, því bæði áttu sparisjóðirnir kröfur á Sparisjóðabankann og skulduðu honum. Þetta á einkum við um fyrstu ár umrædds tímabils en þegar komið var fram á árið 2005 voru stóru sparisjóðirnir að mestu hættir að fjármagna sig fyrir milligöngu Sparisjóðabankans, auk þess sem bankinn var sjálfur farinn að ástunda viðskipti sem voru sparisjóðunum óviðkomandi. Nauðsynlegt er að nefna það að Sparisjóðabankinn var færður sem hlutdeildarfélag í ársreikningum allra sparisjóðanna til og með 2006 og meðan svo háttaði til voru allar breytingar á eigin fé bankans innifaldar í eigin fé sparisjóðanna. Frá og með árinu 2007 tóku flestir sparisjóðir að færa eignarhlut sinn í bankanum á gangvirði og rofnuðu þar með fyrrnefnd tengsl í gegnum eigið fé.

Heildareignir sparisjóðakerfisins námu um 21% af samanlögðum heildareignum viðskiptabanka og sparisjóða í árslok 2001. Hlutfallið fór síðan lækkandi og á árunum fyrir fall bankanna, 2005–2007, nam það á bilinu 6–7%. Við fall bankanna þriggja 2008 jókst hlutdeild sparisjóða að nýju, en minnkaði aftur 2009 og 2010 þegar stóru sparisjóðirnir lögðu upp laupana. Sparisjóðabankinn féll í mars 2009. Hlutur sparisjóðakerfisins hefur síðan haldið áfram að dragast saman og nam einungis 2% í lok árs 2011 (var 5% í árslok 2010 ef Spkef hefði verið tekinn með).

Stærðarmunur var og er á viðskiptabönkunum og sparisjóðakerfinu. Mynd 3 sýnir heildareignir fjögurra viðskiptabanka annars vegar, borið saman við heildareignir sparisjóðakerfisins í lok árs 2007 og 2011. Sparisjóðakerfið samsvaraði tæpum 30% af stærð Glitnis fyrir fall hans, að Sparisjóðabankanum meðtöldum, en ekki nema 7% af stærð Íslandsbanka í árslok 2011 og var þá ívið stærra en minnsti bankinn, MP Banki.

Hafa þarf í huga við þennan samanburð að fjárhæðir í lok árs 2007 taka mið af Landsbanka Íslands hf., Kaupþingi banka hf. og Glitni hf., en í lok árs 2011 er um að ræða nýju bankana þrjá sem stofnaðir voru eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á þessum þremur. Jafnframt þarf að hafa í huga að í lok árs 2011 höfðu fjórir stærstu sparisjóðirnir hætt starfsemi og var hluti eigna þeirra og skulda á efnahagsreikningi nýju bankanna.

8. 6. 1 Rekstrarreikningar

Hér er að finna upplýsingar um samanlagðan rekstur allra starfandi sparisjóða á hverjum tíma og er þeim ætlað er að varpa ljósi á helstu atriði í rekstri sparisjóðanna og þróunina á tímabilinu 2001–2011.51 Sparisjóðabankinn er ekki tekinn með í þessa umfjöllun. Afkoma hans kom samt fram í afkomutölum sparisjóðanna, að minnsta kosti til og með árinu 2006 meðan þeir fóru með eignarhlut sinn í bankanum samkvæmt hlutdeildaraðferð.

Öll umfjöllun í skýrslunni er miðuð við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram. Í töflu 8 eru þó til glöggvunar sömu rekstrarreikningar sýndir á föstu verðlagi, þ.e. meðalverðlagi ársins 2011.52

Framan af umræddu tímabili fór samanlögð afkoma sparisjóða stöðugt batnandi og náði hámarki árið 2006. Verulegt tap varð hins vegar af rekstri þeirra á árunum 2008 og 2009. Tap ársins 2008 var nærri 143 milljarðar króna og nam rúmum 23% af heildareignum sparisjóðanna samkvæmt efnahagsreikningum þeirra í árslok 2007. Lætur nærri að á árinu 2008 einu hafi þeir tapað nærri tvöföldum samanlögðum hagnaði næstliðinna tíu ára, umreiknuðum til meðalverðlags 2008. Árið 2009 nam samanlagt rekstrartap 61 milljarði króna. Sparisjóðirnir töpuðu því á þessum tveimur árum rúmum 203 milljörðum króna.

Samanburður á tapi sparisjóðanna við bankakerfið á þessu tímabili er háður ýmsum takmörkunum. Til að mynda liggja ekki fyrir upplýsingar um afkomu fjögurra stærstu sparisjóðanna á þeim rekstrarárum sem þeir voru yfirteknir af Fjármálaeftirlitinu. Afkoma Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðs Mýrasýslu er því ekki meðtalin í 143 milljarða króna tapi sparisjóðanna á árinu 2009. Sömuleiðis er afkoma Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík ekki meðtalin í 61 milljarðs króna tapi sparisjóðanna árið 2010. Þá þarf að hafa í huga að eignamat í ársreikningi byggir á áframhaldandi rekstrarhæfi, en almennt má gera ráð fyrir að annað og líklega lægra eignamat eigi við ef rekstrarhæfi er ekki til staðar. Því til viðbótar liggja ekki fyrir upplýsingar um tap gömlu viðskiptabankanna þriggja á árinu 2008. Fjármálaeftirlitið áætlaði að samanlagt tap þeirra á árinu 2008 hafi numið um 7.000 milljörðum króna.53 Sú áætlun var byggð á mati á eignasafni viðskiptabankanna þriggja sem fór fram í tengslum við uppskiptingu þeirra í kjölfar yfirtöku Fjármálaeftirlitsins.

Svo sem fyrr var getið vóg umfang stóru sparisjóðanna mjög þungt í sparisjóðakerfinu í heild. Samanlagður hagnaður þeirra á árinu 2007 nam 87% af heildarhagnaði allra sparisjóða og eignirnar námu 90% af heildareignum sparisjóða í lok árs 2007. Mynd 4 sýnir samanlagðan hagnað (tap) allra sparisjóða á árunum 2001–2010 og hvernig hann skiptist milli stórra sparisjóða og annarra. (Tap Spkef sparisjóðs árið 2010 upp á 1.468 milljónir króna er ekki tekið með.)

Hlutur stóru sparisjóðanna í heildarhagnaði áranna 2006 og 2007 var 83% og 87%, en þeir áttu hins vegar 95% þátt í heildartapi sparisjóða árið 2008.

Í töflu 9 er sýndur hagnaður (tap) stóru sparisjóðanna á árunum 2001–2010 ásamt samanlögðum heildareignum þeirra í lok hvers árs og arðsemi heildareigna. Tap Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á árinu 2008 nam um 30% af heildareignum hans í upphafi árs. Sama ár nam tap Sparisjóðs Mýrasýslu um 44% af heildareignum hans í upphafi árs. Tap Byrs sparisjóðs nam um 16% af heildareignum hans í ársbyrjun og tap Sparisjóðsins í Keflavík um 18% af heildareignum í upphafi árs. Byr sparisjóður og Sparisjóðurinn í Keflavík töpuðu enn meira á árinu 2009. Spkef sparisjóður er ekki tekinn með, en hann tapaði tæpum 1,5 milljörðum króna þá átta mánuði sem hann var rekinn árið 2010.

Tap stóru sjóðanna árið 2008 skýrðist fyrst og fremst af framlagi í afskriftareikning útlána sem nam samtals 85 milljörðum króna, gengistapi af fjáreignum, samtals 38 milljarðar króna, og virðisrýrnun viðskiptavildar og annarra fjárfestinga, samtals 5,9 milljarðar króna. Framlag í afskriftareikning útlána upp á 55 milljarða króna og 9,2 milljarða króna gengistap af fjáreignum skýrir tap ársins 2009 hjá Byr sparisjóði og Sparisjóðnum í Keflavík.

Umtalsvert tap var einnig á starfsemi annarra sparisjóða á árinu 2008, en tap þeirra var þó umfangsminna en hjá stóru sjóðunum, bæði í krónum talið og í hlutfalli við starfsemi þeirra. Í töflu 10 getur að líta sambærilegt yfirlit um þá.

Tap annarra sparisjóða á árinu 2008 nam 7,2 milljörðum króna eða nærri fjórfaldri þeirri fjárhæð sem þeir skiluðu í hagnað árið 2007. Tapið nam um 11% af samanlögðum efnahagsreikningi þeirra í upphafi ársins. Á árinu 2009 nam tap þessara sjóða 4,6 milljörðum króna. Samanlagt tap þeirra á árunum 2008 og 2009 var því um 11,8 milljarðar króna. Tap minni sparisjóðanna þessi tvö ár skýrðist að mestu leyti af framlagi í afskriftareikning útlána upp á 6,9 milljarða króna og 7,2 milljarða króna gengistapi af fjáreignum.

Ef horft er á einstaka sparisjóði sést að tap Sparisjóðs Svarfdæla árið 2008 nam 34% af heildareignum hans í ársbyrjun. Tap Sparisjóðs Bolungarvíkur á árinu 2008 nam 17% af heildareignum í upphafi árs. Enn meira tap varð svo af rekstri hans árið 2009. Tap Sparisjóðs Vestmannaeyja á árinu 2008 nam 12% af heildareignum hans í ársbyrjun. Umtalsvert tap var einnig af rekstri hans árið 2009.

Afkoma hvers einstaks sparisjóðs á tímabilinu 2001–2011 er sýnd í viðauka B.

8.6.1.1  Hreinar rekstrartekjur

Hreinar rekstrartekjur sparisjóða jukust umtalsvert á árunum 2005 og 2006 og náðu hæst 2006. Þá voru þær um þrisvar sinnum hærri en þremur árum fyrr, árið 2003. Þær lækkuðu nokkuð árið 2007 og námu hreinar rekstrartekjur sjóðanna allra þá 36 milljörðum króna. Árið 2008 voru þær hins vegar neikvæðar um 47 milljarða króna. Á árinu 2009 voru þær jákvæðar hjá minni sparisjóðunum en neikvæðar hjá þeim stóru, en til þeirra töldust þá aðeins Byr sparisjóður og Sparisjóðurinn í Keflavík. Þetta sést glöggt á mynd 5.

Hreinar rekstrartekjur eru samtala nokkurra rekstrarliða. Mynd 6 sýnir samsetningu þeirra hjá sparisjóðunum í heild á árunum 2001–2011. Þar sést glöggt að hrunið í rekstrartekjunum á árinu 2008 stafaði fyrst og fremst af gengistapi af fjáreignum og hlutdeild í tapi hlutdeildarfélaga. Neikvæðar rekstrartekjur á árinu 2009 skýrðust enn af gengistapi af fjáreignum.

Af myndinni er auðvelt að sjá að árið 2005 voru fjáreignatekjur orðnar stærri þáttur í tekjumynduninni en hreinar vaxta- og þjónustutekjur, hinar eiginlegu kjarnatekjur sparisjóðanna. Árið eftir hækkuðu fjáreignatekjurnar, bæði gengishagnaður verðbréfa og hlutdeildartekjur. Samsetning hreinna rekstrartekna breyttist talsvert árið 2007 þegar flestir sparisjóðir fluttu eignarhlut sinn í Sparisjóðabankanum í veltubók og hættu þar með að færa hlutdeildartekjur af honum en fóru að færa hann á gangvirði. Einnig tóku sömu sparisjóðir þá að færa óskráð verðbréf í veltubók á gangvirði, sem studdi mjög við gengishagnað af fjáreignum. Hlutdeildartekjurnar urðu hins vegar neikvæðar þetta sama ár, fyrst og fremst vegna taps af Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Á því ári bólgnaði liðurinn aðrar rekstrartekjur meira en nokkru sinni fyrr. Meginskýringin á því var söluhagnaður Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis af sölu á eignarhlut þeirra í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf.

Á árinu 2008 tapaðist nær allur eignarhlutur sparisjóðanna í Kistu sem skýrir að mestu neikvæðar hlutdeildartekjur það ár en Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðurinn í Keflavík færðu eignarhlut sinn í félaginu með hlutdeildaraðferð. Gengistap af fjáreignum það sama ár nam 45 milljörðum króna. Af því tilheyrðu 38 milljarðar króna stóru sparisjóðunum og nær helmingur þeirrar fjárhæðar Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Árið 2009 nam gengistap af fjáreignum tæpum 10 milljörðum króna, mest allt hjá Byr sparisjóði og Sparisjóðnum í Keflavík.54

Hreinar vaxtatekjur

Liðurinn hreinar vaxtatekjur sýnir nettótölu margra liða, bæði vaxtatekna og vaxtagjalda. Tafla 11 sýnir samsetningu þeirra á árunum 2001–2011. Eðlilega kom verulegur hluti vaxtateknanna frá útlánum. Árin 2007 og 2008 voru einnig umtalsverðar vaxtatekjur af markaðsskuldabréfum og árin 2008 og 2009 af kröfum á lánastofnanir. Vaxtagjöldin voru einkum vegna innlána, en 2005 og enn frekar 2006 hækkuðu vaxtagjöld vegna lántöku og skulda við lánastofnanir. Frá og með 2009 urðu vaxtagjöld af innlánum á ný uppistaðan í vaxtagjöldunum. Hreinar vaxtatekjur héldu engan veginn í við þann mikla útlánavöxt sem átti sér stað á árunum 2005–2008. Það átti ekki síst við um íbúðalán. Samstarf sparisjóðanna við Íbúðalánasjóð, sem hófst í desember 2004 og stóð yfir árið 2005, hafði í för með sér að hreinar vaxtatekjur sparisjóða af íbúðalánum upp á um það bil 45 milljarða króna voru óverulegar.55

Hlutfallið milli heildarinnlána og heildarútlána varð lægst á árunum 2005–2007, eða í kringum 60%. Útlán voru því í miklum mæli fjármögnuð með lántöku á sama tíma og samkeppni fjármálafyrirtækja um vaxtakjör var hörð.

Vaxtamunur hjá sparisjóðunum dró vissulega dám af þessari þróun, enda fóru vextir á fjármagnsmörkuðum mjög lækkandi á árunum 2005–2007, en hækkuðu svo hratt aftur 2008 vegna lausafjárskorts sem þá varð almennur og alvarlegur. Vaxtamunur sparisjóðanna þróaðist eins og sýnt er í töflu 12. Þar sést að á árinu 2007 var hann orðinn óverulegur og því ljóst að inn- og útlánastarfsemi stóð ekki undir rekstri sparisjóðanna. Þetta ástand varði í þrjú ár og var langtum verst hjá stóru sparisjóðunum. Hjá Sparisjóðnum í Keflavík var vaxtamunur til dæmis neikvæður árin 2008–2009 um 1,7% og 2,2%.

Vaxtamunur er í þessari skýrslu reiknaður sem mismunur meðalvaxta af útlánum og meðalvaxta af innlánum, svo sem gerð er grein fyrir í kafla 8.5.3.1. Þetta er ekki sama aðferð og oft er notuð í opinberri umfjöllun og ber að hafa það í huga við samanburð. Í samantekt Fjármálaeftirlitsins um stöðu og horfur viðskiptabankanna er vaxtamunur reiknaður sem hreinar vaxtatekjur deilt með meðalstöðu eigna.56 Þar kemur fram að þannig reiknaður vaxtamunur Arion banka hf. á árinu 2011 hafi numið 3%, Íslandsbanka hf. 4,5% og Landsbankans hf. 2,9%. Í töflu 12 er slíkur útreikningur fyrir sparisjóðina sýndur í neðstu línu. Ef vaxtamunur sparisjóða er reiknaður með sambærilegum hætti og í samantekt Fjármálaeftirlitsins, hefur hann verið 3,3% á árinu 2011. Sparisjóðirnir voru því með heldur hærri vaxtamun á því ári en Arion banki og Landsbankinn en talsvert lægri en Íslandsbanki. Vaxtamunur erlendra banka í umræddri samantekt var mun lægri en íslensku bankanna og var á bilinu 0,4% til 1,3%.

Yfirlit yfir vaxtamun hjá einstökum sparisjóðum á árunum 2001–2011 er í viðauka B.

8.6.1.2 Rekstrargjöld

Almennur rekstrarkostnaður hækkaði óslitið hjá sparisjóðunum á tímabilinu 2001–2008. Á árunum 2009 og 2010 lækkaði hann verulega sem skýrist einkum af því að á árinu 2009 eru tveir af fjórum stóru sparisjóðunum ekki lengur meðtaldir, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóður Mýrasýslu. Árið 2010 eru hinir tveir stóru, Byr sparisjóður og Sparisjóðurinn í Keflavík, einnig úr sögunni.

Almennur rekstrarkostnaður stóru sparisjóðanna á árunum 2001 til 2008 hækkaði í takt við vöxt þeirra á tímabilinu, en lækkaði þó sem hlutfall af heildareignum.57 Rekstrarkostnaður hélst svipaður allt tímabilið hjá minni sparisjóðum, hækkaði nokkuð árin 2006 og 2007 en lækkaði síðan aftur.

Rekstrarkostnaður stóru sparisjóðanna sem hlutfall af meðaleignum var á bilinu 1,6% á árinu 2009 þegar hlutfallið var lægst, upp í 4,0% þegar það var hæst á árinu 2002.

Hjá minni sparisjóðunum var þetta hlutfall hærra og lá á bilinu 2,8% á árinu 2008 þegar hlutfallið var lægst, upp í 4,4%, þegar það var hæst á árinu 2002. Árið 2011 reiknaðist þetta hlutfall 3,7% sem var heldur hærra en sambærilegt hlutfall hjá bönkunum,58 en hjá þeim var það 3,1% það ár. Sambærilegt hlutfall hjá erlendum bönkum í samanburði Fjármálaeftirlitsins var undir 1%.59

Í umfjöllun um hálfsársuppgjör viðskiptabankanna frá 2011 sagði Fjármálaeftirlitið að kostnaður bankakerfisins væri enn of hár og að gera mætti ráð fyrir að raunverulegur viðsnúningur í lækkun kostnaðar næðist ekki fyrr en endurskipulagningu útlána yrði að mestu lokið. Fjármálaeftirlitið hafði áður látið þá skoðun í ljósi að smæð íslensks markaðar gerði bönkunum erfitt fyrir að ná fram stærðarhagkvæmni nema enn frekari sameiningar ættu sér stað.60

8. 6.1.2.1 Launakostnaður

Hér er greint frá launakostnaði á tímabilinu 2001–2011 hjá sparisjóðunum í heild. Umfjöllun um laun, hvatakerfi og starfslokasamninga hjá einstökum sparisjóðum er að finna í köflunum um hvern þeirra um sig.

Í árslok 2001 voru samtals 699 stöðugildi hjá sparisjóðunum. Þeim fjölgaði næstu ár og voru 845 í lok árs 2007 þegar þau urðu flest. Í lok árs 2011 voru stöðugildi hjá sparisjóðunum ekki nema 138, sem var um 84% fækkun frá árinu 2007. Hjá aðildarfélögum Samtaka fjármálafyrirtækja voru 4.550 stöðugildi í lok árs 2011 og var hlutur sparisjóðanna því um 3% af starfsmannafjölda fjármálafyrirtækja á landinu.61

Í ársriti Samtaka fjármálafyrirtækja frá árinu 2007 kemur fram að í árslok 2006 hafi 8.300 starfsmenn starfað hjá fjármálafyrirtækjum á Íslandi. Þar kemur einnig fram að samkvæmt tölum frá Hagstofunni hafi starfsfólki í fjármálageiranum fjölgað meira en tvöfalt hraðar en í öðrum atvinnugreinum síðustu ár þar á undan. Fjölgun starfa í fjármálageiranum frá 1998 til 2005 nam 28% en á sama tíma fjölgaði störfum á almennum vinnumarkaði um 13%. Í árslok 2006 voru 795 stöðugildi hjá sparisjóðum, eða um 10% stöðugilda á fjármálamarkaði á þeim tíma. Rétt er að hafa í huga að starfsmenn eru venjulega ívið fleiri en stöðugildi, en þó skakkar ekki miklu.

Tafla 13 sýnir fjölda stöðugilda hjá sparisjóðunum í lok hvers reikningsárs, heildarlaunakostnað á árinu ásamt meðallaunakostnaði á stöðugildi. Í töflunni er einnig yfirlit yfir laun og þóknanir til stjórna sparisjóðanna og sparisjóðsstjóra. Meðallaunakostnaður fór hækkandi hjá sparisjóðunum í heild á tímabilinu 2001–2008 en lækkaði afgerandi eftir það. Þess ber að geta að fjárhæðirnar eru hér sýndar á verðlagi hvers árs.62

Árið 2004 var meðallaunakostnaður á hvern starfsmann sparisjóðanna um 478 þúsund krónur á mánuði, en árið 2007 hafði hann hækkað í 657 þúsund krónur á mánuði. Til samanburðar var meðallaunakostnaður á hvern starfsmann hjá viðskiptabönkunum þremur á árinu 2007 á bilinu 1,0 til 1,2 milljónir króna á mánuði. Árið 2011 hafði þessi kostnaður lækkað bæði hjá sparisjóðum og viðskiptabönkum. Hjá sparisjóðunum nam hann um 568 þúsund krónum á mánuði og á bilinu 600 til 810 þúsund krónum á mánuði hjá bönkunum þremur. Samkvæmt þessu var launakostnaður sparisjóða lægri að meðaltali en hjá stóru viðskiptabönkunum. Talsvert hafði þó dregið úr þessum mun á árinu 2011, eins og sést glögglega á mynd 8.

Samanburður á launaþróun hjá sparisjóðunum við almenna launaþróun í landinu leiðir í ljós að launakostnaður sparisjóðanna hækkaði hlutfallslega meira en laun í landinu gerðu almennt á árunum 2001–2009. Breyting varð á þessu á árunum 2010 og 2011 þegar almenn launavísitala hækkaði meira en meðallaunakostnaður hjá sparisjóðunum. Lækkun meðallaunakostnaðar hjá sparisjóðunum eftir 2008 skýrðist fyrst og fremst af því að stóru sparisjóðirnir týndu tölunni, en þeir höfðu verið með hlutfallslega miklu fleiri hátt launaða starfsmenn en smærri sjóðirnir.

Hvatakerfi

Árið 2006 voru lögfest ákvæði sem skylduðu stjórnir endurskoðunarskyldra hlutafélaga til að samþykkja starfskjarastefnu varðandi laun og aðrar greiðslur til forstjóra og annarra æðstu stjórnenda félagsins, svo og stjórnarmanna þess. Í starfskjarastefnunni skyldu koma fram grundvallaratriði varðandi starfskjör stjórnenda og stjórnarmanna og stefnu félags varðandi samninga við stjórnendur og stjórnarmenn. Jafnframt skyldi koma þar fram hvort og þá við hvaða aðstæður og innan hvaða ramma væri heimilt að greiða eða umbuna stjórnendum og stjórnarmönnum til viðbótar grunnlaunum.63 Tilgreind voru nokkur form slíkrar umbunar: afhending hluta, árangurstengdar greiðslur, kaup- og söluréttur hlutabréfa, lánasamningar (þar undir sérstök lánskjör), lífeyrissamningar og starfslokasamningar. Í ákvæðunum sagði enn fremur að starfskjarastefnan væri bindandi fyrir félagsstjórnina að því er varðaði kaup- og sölurétt hlutabréfa, en að öðru leyti væri starfskjarastefnan leiðbeinandi fyrir félagsstjórnina nema ákveðið hefði verið í samþykktum félagsins að hún skuli vera bindandi. Félagsstjórnin skyldi birta hana í tengslum við aðalfund félagsins og jafnframt upplýsa viðsemjendur sína um það hvað fælist í henni, þar á meðal að hvaða leyti hún væri bindandi. Starfskjarastefnan skyldi samþykkt á aðalfundi félagsins, þar sem félagsstjórnin skyldi jafnframt gera grein fyrir kjörum stjórnenda og stjórnarmanna félagsins og áætluðum kostnaði vegna kaupréttaráætlana og skýra frá framkvæmd áður samþykktrar starfskjarastefnu.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna sagði:

Til upplýsinga um kjör stjórnenda og stjórnarmanna í þessu sambandi teljast m.a. upplýsingar um heildarfjárhæð greiddra launa á árinu, greiðslur frá öðrum félögum í sömu fyrirtækjasamsteypu, fjárhæð árangurstengdra greiðslna, starfslokagreiðslur til þeirra sem látið hafa af störfum á reikningsárinu auk heildarfjárhæðar annarra greiðslna. Undir ákvæðið fellur enn fremur skylda til að gera grein fyrir greiðslum til einstakra stjórnenda og stjórnarmanna í formi hlutabréfa, kaupréttar, forkaupsréttar og annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu eða þróun verðs á hlutabréfum í félaginu.64

Tilgangurinn með þessu var að auka minnihlutavernd í hlutafélögum. Frá árinu 2009 gilda þessi ákvæði einnig um sparisjóði.65

Í júní 2010 var gerð breyting á lögum um fjármálafyrirtæki þar sem inn komu ákvæði um kaupaukakerfi og starfslokasamninga.66 Á grundvelli nýrra ákvæða gaf Fjármálaeftirlitið út reglur um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja nr. 700/2011, sem tóku gildi 30. júní 2011. Fram að þeim tíma höfðu ekki gilt sérstakar reglur um slík hvatakerfi. Í reglunum er kaupauki skilgreindur sem greiðslur og hlunnindi til starfsmanns, m.a. reiðufé, sérstakar lífeyrisgreiðslur og kaupréttir, venjulega skilgreint með tilliti til árangurs, sem ekki eru þættir í föstum starfskjörum starfsmanns, þar sem endanleg fjárhæð eða umfang greiðslu liggur ekki fyrir með nákvæmum hætti fyrirfram.

Eins og framar sagði, varð sparisjóðum skylt að upplýsa sérstaklega um laun og þóknanir til stjórnar og sparisjóðsstjóra með reglum nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana. Upplýsingar þar um liggja því fyrir frá og með árinu 2003. Þremur til fjórum árum síðar var einnig almennt farið að tilgreina stofnfjáreign þessara sömu aðila í ársreikningi. Hins vegar hafa sparisjóðirnir almennt ekki birt upplýsingar um starfskjarastefnu sína, að Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis frátöldum en hann varð hlutafélag, einn sparisjóða, 1. apríl 2007.

Rannsóknarnefndin kallaði eftir upplýsingum um kaupaukagreiðslur, hvatakerfi, sérstök hlunnindi og starfslokasamninga frá öllum sparisjóðum. Algengt var árin 2005–2007 að sparisjóðir greiddu öllum starfsmönnum sínum kaupauka í formi eingreiðslu í árslok eða í tengslum við birtingu ársuppgjörs. Nær alltaf var um að ræða sömu greiðslu fyrir alla í fullu starfi og ekki var um háar fjárhæðir að ræða, langt innan við algengustu mánaðarlaun. Fáeinir sparisjóðir gerðu afkomutengda kaupaukasamninga við sparisjóðsstjóra og lykilstarfsmenn. Þar var um töluvert hærri fjárhæðir að ræða. Nánar er fjallað um það í köflum um einstaka sparisjóði.

Risna og fríðindi

Hvorki liggja fyrir skriflegar verklagsreglur um veitingu og eftirlit með fríðindum yfirstjórnar og starfsmanna sjóðanna né var þeirra almennt getið í samþykktum sparisjóðanna. Eftirfarandi þætti má telja til risnu og fríðinda sem voru veitt starfsmönnum sparisjóðanna eftir eðli starfs þeirra:

Bifreiðahlunnindi/ökutækjastyrkir: Í flestum tilfellum voru sparisjóðsstjórar með bifreið í eigu sparisjóðsins í sinni umsjá og hjá fjórum stærstu sparisjóðunum átti sama við um framkvæmdastjóra, þó með einhverjum undantekningum.

Fartölvur: Þær voru fengnar starfsmönnum eftir eðli starfs þeirra, t.d. eftir því hvort starfsmaður þurfti að ferðast mikið í tengslum við vinnu eða ef starfið krafðist þess að hann væri ávallt til taks og þyrfti að vinna heima utan hefðbundins vinnutíma.

Farsímar og nettengingar: Veitt starfsmönnum eftir eðli starfs þeirra. Venjulega var um að ræða ákveðið viðmið eða þak á greiðslum. Ef notkun fór yfir viðmiðunarmörk greiddi starfsmaður mismuninn.

Tryggingar: Í nokkrum tilvikum greiddu sparisjóðir fyrir persónulegar tryggingar æðstu stjórnenda til viðbótar þeim sem getið er í kjarasamningum.

Húsnæði: Almennt höfðu starfsmenn ekki afnot af húsnæði í eigu sparisjóðanna. Þó fundust undantekningar frá þeirri reglu, t.d. í tengslum við frístundahús.

Almennt má segja að rannsókn á risnu og fríðindum hjá sparisjóðunum hafi ekki gefið tilefni til sérstakrar umfjöllunar í þessari skýrslu. Einstakar undantekningar voru á þessu og er um þær fjallað í köflum um viðeigandi sparisjóði.

Starfslokasamningar

Í lögum um fjármálafyrirtæki voru engin ákvæði um starfslokasamninga fyrr en um mitt ár 2010.67 Með lögum nr. 75/2010 var nýrri 57. gr. b. bætt við lögin sem fjallar um starfslokasamninga. Þar segir í 1. mgr.:

Fjármálafyrirtæki er óheimilt að gera starfslokasamning við framkvæmdastjóra eða lykilstarfsmann nema hagnaður hafi verið af rekstri fyrirtækisins samfellt síðustu þrjú ár starfstíma hans. Með starfslokasamningi í grein þessari er átt við hvers konar samninga sem gerðir eru á milli framkvæmdastjóra eða lykilstarfsmanns annars vegar og fjármálafyrirtækis hins vegar og kunna að færa þeim sem lætur af störfum hlunnindi eða réttindi umfram hefðbundnar launagreiðslur í uppsagnarfresti.

Í 3. mgr. greinarinnar segir síðan meðal annars að sérstaklega skuli gera grein fyrir slíkum samningum í skýringum með ársreikningi.

Í 3. tölul. 2. mgr. 79. gr. a. laga um hlutafélög nr. 2/1995 kemur fram að við gerð starfskjarastefnu skuli miða við að starfslokagreiðslur fari ekki fram úr ákveðinni fjárhæð og ekki miðast við meira en tveggja ára laun. Þær skuli heldur ekki fara fram ef starfslok verða vegna ófullnægjandi árangurs.68

Nokkur starfslokauppgjör fá sérstaka umfjöllun nefndarinnar í viðkomandi köflum um hvern sparisjóð um sig. Slík uppgjör voru gerð í Sparisjóði Hafnarfjarðar, Sparisjóði Mýrasýslu, Sparisjóðnum í Keflavík og Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis.

8.6.1.3  Önnur rekstrargjöld

Umtalsverð fjárhæð var gjaldfærð undir önnur rekstrargjöld á árinu 2008, eða 5,9 milljarðar króna, eins og sjá má í töflu 7 hér framar. Þessi fjárhæð skýrist að mestu leyti af virðisrýrnun viðskiptavildar og annarra eigna, einkum óefnislegra, hjá þremur af stóru sparisjóðunum. Samtals færðu Byr sparisjóður, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóður Mýrasýslu 5 milljarða króna virðisrýrnun viðskiptavildar á árinu 2008. Sama ár færði Byr virðisrýrnun á eignarhlutum upp á 423 milljónir króna og Sparisjóður Mýrasýslu færði 187 milljóna króna virðisrýrnun á fjárfestingareignum.

8.6.1.4  Framlag í afskriftareikning útlána o.fl.

Undir þennan lið falla fyrst og fremst framlög í afskriftareikning útlána, en í nokkrum tilvikum hafa sparisjóðirnir fært niðurfærslu vegna annarra eigna undir þennan lið. Tafla 14 sýnir sundurliðun á þessum lið í ársreikningum sparisjóðanna eftir því hvort um var að ræða framlag í afskriftarreikning útlána eða aðrar niðurfærslur.

Eins og fram kemur í töflunni var yfirgnæfandi meirihluti þeirrar fjárhæðar sem færð var á þennan lið til kominn vegna framlags í afskriftareikning útlána. Á árinu 2008 var fært 1,8 milljarða króna framlag vegna annarra niðurfærslna. Stærstur hluti þeirrar fjárhæðar var hjá Byr sparisjóði vegna 1,1 milljarðs króna varúðarniðurfærslu á kröfu á hendur Glitni banka. Framlagið í afskriftareikning útlána hækkaði gríðarlega árið 2008 og var áfram mjög hátt 2009. Samanlagt nam framlagið þessi tvö ár um 145 milljörðum króna. Fall íslensku krónunnar átti stóran þátt í þessu mati á endurheimt útlánanna. Niðurfærsla útlána var mismunandi milli sparisjóða á tímabilinu. Fyrir 2008 var hún almennt minni hjá stóru sparisjóðunum, en í lok þess árs varð niðurfærslan miklu meiri hjá þeim.69

8.6.1.5  Kjarnarekstur

Umfjöllun um kjarnarekstur er hér sett fram til þess að draga fram afkomu hefðbundinnar viðskiptabankastarfsemi sparisjóðanna, þ.e. að undanskildum áhrifum af fjárfestingarstarfsemi, að því marki sem mögulegt er. Í kafla 8.5.2 er gerð grein fyrir því hvernig afkoma af kjarnarekstri er reiknuð. Eins og þar kemur fram er um grófa nálgun að ræða, en ásættanlega, nema ef til vill helst í tengslum við stærstu sparisjóðina, Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóð, sem báðir höfðu töluverð umsvif í kringum fjárfestingar sínar. Þar er þessi stærð að líkindum sýnd lægri en raun var, því umtalsverður rekstrarkostnaður gat skrifast á fjárfestingarstarfsemi þeirra þótt hann væri ekki sérgreindur í ársreikningi. Sama er að segja um vaxtagjöldin, því hluti þeirra var vegna lántöku í tengslum við fjárfestingar. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis birti í ársreikningi sínum 2007 og 2008 starfsþáttayfirlit þar sem leitast var við að greina þessa tvo þætti starfseminnar að; og Sparisjóðurinn í Keflavík birti einnig slíkt starfsþáttayfirlit með ársreikningum sínum 2007, 2008 og 2009. Um það vísast til umfjöllunar um kjarnarekstur í köflunum um sparisjóðina, hvorn um sig.

Miðað við gefnar forsendur hefur afkoma af kjarnarekstri sparisjóðanna fyrir skatt verið neikvæð um alllangt skeið. Tafla 15 sýnir afkomu af kjarnarekstri fyrir skatt á tímabilinu 2001–2011 og til samanburðar er hagnaður (tap) ársins fyrir skatta. Þar kemur fram að afkoma af kjarnarekstri hjá sparisjóðunum í heild var neikvæð öll árin sem um ræðir, allt frá árinu 2001. Hagnaður þeirra virðist því hafa verið borinn uppi af tekjum af fjárfestingarstarfsemi.

Við skoðun á afkomu af kjarnarekstri verður að setja fyrirvara, meðal annars vegna þeirra annmarka sem nefndir eru hér að framan. Þess skal getið að Fjármálaeftirlitið hefur ekki tekið saman upplýsingar um afkomu af kjarnarekstri viðskiptabanka og sparisjóða frá og með árinu 2010.

Ef litið er til einstakra sparisjóða kemur í ljós að afkoma þeirra af kjarnarekstri var í langflestum tilfellum neikvæð á tímabilinu. Helstu undantekningar frá þessu voru Sparisjóður vélstjóra, sem var með jákvæða afkomu af kjarnarekstri allt til ársins 2007 er hann og Sparisjóður Hafnarfjarðar sameinuðust og Byr sparisjóður varð til; Sparisjóður SuðurÞingeyinga, þar sem hagnaður var af kjarnarekstri öll árin nema 2005–2007; og, Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Strandamanna og Sparisjóður Höfðhverfinga sem voru með jákvæða afkomu af kjarnarekstri fyrstu þrjú til fjögur árin af nefndu tímabili.70

8.6.1.6  Samantekt um reksturinn

Helstu skýringar á rekstrartapi sparisjóðanna á árunum 2008 og 2009 eru útlánatöp og virðisrýrnun fjárfestinga. Umtalsverðar niðurfærslur vegna útlána voru stærsti þátturinn í rekstrarerfiðleikum sparisjóðanna þessi ár. Framlög í afskriftareikning útlána námu samanlagt 145 milljörðum króna. Gengistap af fjáreignum nam samanlagt 55 milljörðum króna.

Árið 2010 nam samanlagður hagnaður starfandi sparisjóða um 1,3 milljörðum króna.71 Þessi hagnaður stafaði alfarið af áhrifum fjárhagslegrar endurskipulagningar sem hafði í för með sér samtals 5,5 milljarða króna tekjufærslu. Ef horft er framhjá áhrifum tekjufærslu vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar hefði samanlagt tap sparisjóðanna fyrir skatt numið 3,4 milljörðum króna.

Á árinu 2011 nam samanlagður hagnaður starfandi sparisjóða um 1,7 milljörðum króna. Hann skýrðist einnig af tekjufærslu vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar sem nam alls 2,8 milljörðum króna. Ef horft er framhjá henni hefði samanlagt tap sparisjóðanna fyrir skatt numið 938 milljónum króna.

8.6.2 Efnahagsreikningar

Hér er fjallað um samanlagða efnahagsreikninga allra starfandi sparisjóða í árslok 2001 til 2011. Umfjölluninni er ætlað að varpa ljósi á helstu efnahagsliði og þróunina á tímabilinu.72 Reikningar Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. eru ekki teknir með í þessa samlagningu, en bent skal á að bankinn var að fullu í eigu sparisjóðanna þar til á árinu 2007 þegar nokkrir aðilar utan sparisjóðakerfisins keyptu hlut í honum. Bankinn er af þeim sökum hluti af efnahag einstakra sparisjóða, lengst af undir liðnum hlutir í hlutdeildarfyrirtækjum.

Í allri umfjöllun í skýrslunni er miðað við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram. Til glöggvunar eru sömu efnahagsreikningar sýndir á árslokaverðlagi 2011 í töflu 17.73

Vöxtur sparisjóðanna var umtalsverður á árunum 2005–2008. Í lok árs 2008 voru heildareignir þeirra orðnar tvöfalt meiri en þær voru í árslok 2005, þremur árum áður. Mynd 10 sýnir þróun heildareigna sparisjóðanna á árunum 2001–2011, skipt eftir stórum sparisjóðum og minni sparisjóðum.

Vöxtur stærstu sparisjóðanna var umtalsvert meiri en hinna, bæði í krónum talið og hlutfallslega. Það skýrist að hluta til af því að á árunum 2006 og 2007 áttu sér stað sameiningar í sparisjóðakerfinu þar sem minni sparisjóðir sameinuðust þeim stærri.74

Vöxtur viðskiptabankanna var hlutfallslega mun meiri en sparisjóðanna á tímabilinu 2001–2007.75 Heildareignir viðskiptabanka í þessum samanburði, á föstu verðlagi, voru ellefu sinnum meiri í lok árs 2007 en í árslok 2001, sex árum fyrr. Á sama tíma höfðu heildareignir sparisjóða þrefaldast. Þetta sést vel á mynd 11.

Við þennan samanburð þarf að hafa í huga að á árinu 2007 fjölgaði bönkum með stofnun Straums-Burðaráss og á árinu 2008 þegar MP Fjárfestingarbanki hf. varð viðskiptabanki. Einnig skal bent á að erlend dótturfélög bankanna eru innifalin í fjárhæðum. Minni samdráttur hjá bönkunum en sparisjóðunum frá árinu 2008 skýrist að miklu leyti af því að nýir bankar voru stofnaðir á grunni þeirra sem féllu á árinu 2008 en einnig fluttist starfsemi stóru sparisjóðanna fjögurra eftir fall þeirra á árunum 2009 og 2010 yfir í viðskiptabankana.

Mynd 12 sýnir hvernig heildareignir sparisjóðanna í árslok 2001–2011 skiptust eftir tegundum. Útlánin voru allan tímann stærsta eignin og sú sem jókst mest til 2008 en vöxtur í fjáreignum, þ.e. skulda- og hlutabréfum, var ekki minni hlutfallslega á sama tíma.

8.6.2.1  Útlán

Vöxtur sparisjóðakerfisins á árunum 2005–2008 var að stórum hluta til vegna aukinna útlána. Þetta var í takt við almenna þróun á íslenskum fjármálamarkaði, eins og meðal annars var gerð grein fyrir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. Í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins 2005 var yfirlit um útlánaaukningu á markaðinum. Þar kom fram að 12 mánaða aukning útlána miðað við lok júní 2005 hjá móðurfélögum viðskiptabanka og hjá sparisjóðunum hefði verið 64% samanborið við 31% í lok júní 2004. Hröð útlánaaukning var sögð áhyggjuefni enda sýndi reynslan að hún gæti verið undanfari erfiðleika í fjármálakerfinu. Mikilvægt væri því fyrir bankana að viðhalda þeirri sterku eiginfjárstöðu sem þeir hefðu haft.76

Staða útlána sem birt er í efnahagsreikningi er í rauninni heildarútlán að frádreginni stöðunni á afskriftareikningi útlána. Til þess að skoða útlánavöxt er því eðlilegra að líta til heildarútlána. Heildarútlán jukust umtalsvert á árunum 2004–2008. Vöxturinn á árinu 2004 nam 27%, 42% árið 2005, 35% árið 2006, 30% árið 2007 og 44% árið 2008, sem þýddi að heildarútlán nær fjórfölduðust á þessum fimm árum. Þó verður að hafa í huga að hækkun útlána á árinu 2008 stafaði að verulegu leyti af gengisfalli krónunnar og verðbólgu. Ef tekið er mið af stöðunni í lok árs 2007, þegar áhrif slíkra þátta voru óveruleg, námu heildarútlán um 420 milljörðum króna og voru rúmlega þrisvar sinnum hærri en þau voru í lok árs 2003, fjórum árum fyrr.

Lengi vel hélt árlegt framlag í afskriftareikning hvergi nærri í við útlánavöxtinn og varð það til þess að niðurfærsluhlutfallið lækkaði verulega allt til ársloka 2007. Vegna áfalla sem dundu yfir fjármálamarkað á árinu 2008 urðu mikil töp á útlánum frá þeim tíma. Niðurfærsluhlutfallið hélst því hátt frá og með 2008 en heildarútlán hafa lækkað verulega; fyrst og fremst vegna falls stóru sparisjóðanna árin 2009 og 2010 og einnig vegna þess að sparisjóðirnir sem eftir stóðu hafa afskrifað hluta útlána sinna endanlega.

8.6.2.2  Fjáreignir

Á árunum 2006 og 2007 jókst fjárfesting sparisjóða í fjáreignum mikið, eins og sjá má á mynd 14. Hún sýnir eign þeirra í skuldabréfum, hlutabréfum og öðrum fjármálagerningum ásamt eign þeirra í hlutdeildarfélögum og tengdum félögum í lok áranna 2001–2011.

Vöxtur hlutabréfa árin 2005–2007 var 66,4 milljarðar króna. Ekki var þó um að ræða nýfjárfestingu nema að litlu leyti, heldur lá meginskýringin í matsbreytingu á verðbréfaeign sem skráð var á markaði og hækkun sem varð á mati á eignarhlutum við það að viðkomandi félög voru skráð á markað, svo sem Exista hf. árið 2005. Með upptöku alþjóðlegra reikningsskilastaðla, IFRS, var farið að færa öll hlutabréf, skráð sem óskráð, á gangvirði. Bókfært virði óskráðra hlutabréfa hækkaði mikið við þetta. Innleiðing IFRS tók þó ekki til allra sparisjóða og hún gerðist ekki öll sama árið, eins og fram kemur í kafla 8.3. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis reið á vaðið 2005, Byr sparisjóður og Sparisjóður Kópavogs komu í kjölfarið ári síðar og fjórir sparisjóðir til viðbótar tóku upp IFRS-reikningsskil 2007. Það sama ár tóku flestir hinna að færa öll hlutabréf á gangvirði, enda þótt þeir innleiddu ekki IFRS að öðru leyti. Bókfærður gengishagnaður sparisjóðanna af fjáreignum 2005, 2006 og 2007 nam 8,7 milljörðum, 20,3 milljörðum og 18,0 milljörðum króna.

Eignarhlutur sparisjóðanna í Sparisjóðabankanum var færður með hlutdeildaraðferð fram til ársins 2007. Kista – fjárfestingarfélag ehf., sem keypti hluta eignar sparisjóðanna í Exista hf., var fært sem hlutdeildarfélag Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá árinu 2006 og Sparisjóðsins í Keflavík frá 2007. Árið 2006 hækkuðu hlutdeildarfélög sparisjóðanna um 133%, fyrst og fremst af tvennu: methagnaði Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. upp á 5,7 milljarða króna, en hann færðist nær allur sem hlutdeildartekjur hjá sparisjóðunum, og einnig vegna Kistu –fjárfestingarfélags ehf. Eign sparisjóðanna í Exista hf. hafði hækkað mikið í bókum þeirra allt frá 2001 vegna góðrar afkomu félagsins og vegna hlutafjárframlaga nokkurra sparisjóða. Exista hf. var skráð á markað í september 2006 og myndaðist þá markaðsverð á hlutunum. Exista-hlutir í eigu sparisjóða, bæði beint og í gegnum Kistu, voru bókfærðir á samtals 33 milljarða króna í lok árs 2006.

Árið 2007 hættu flestir sparisjóðanna að færa eign sína í Sparisjóðabankanum sem hlutdeildareign og færðu hana þess í stað í veltubók á gangvirði. Lætur nærri að sú breyting ein hafi hækkað verðmæti Sparisjóðabankans í bókum sparisjóðanna um 30%. Hlutabréf bankans voru óskráð og matsverð þeirra var mismunandi eftir sparisjóðum. Þetta sama ár héldu sparisjóðirnir sem stóðu að Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. áfram að flytja Exista-bréf sín inn í Kistu, ýmist sem hlutafjárframlag eða að þeir seldu félaginu hluti. Gengið á Exista hf. lækkaði um 10% frá ársbyrjun til ársloka 2007, en það náði hámarki um mitt árið þannig að bréf sem flutt voru til Kistu um mitt ár lækkuðu í raun mun meira. Bréf sem seld voru Kistu á þeim tíma skiluðu sparisjóðunum reyndar umtalsverðum söluhagnaði, en þar sem Kista – fjárfestingarfélag ehf. átti nánast engar aðrar eignir en hluti í Exista hf., bitnaði verðlækkun Exista á verðmæti Kistu í bókum viðkomandi sparisjóða. Af þessum sökum lækkaði verðmæti Kistu í bókum sparisjóðanna samtals um rúma 7 milljarða króna á árinu 2007.

Hlutabréfaverð hrundi á árinu 2008 og fóru sparisjóðirnir ekki varhluta af því og má segja að gengishagnaður þeirra af fjáreignum á næstliðnum þremur árum hafi allur þurrkast út. Í ársreikningum sparisjóðanna voru gjaldfærðir um 27,5 milljarðar króna vegna Kistu -– fjárfestingarfélags ehf. og Exista hf. og 15 milljarðar króna vegna Sparisjóðabankans árið 2008. Stórar breytingar á verðbréfaeign frá árinu 2008 má rekja til þess að starfsemi stærstu sparisjóða var tekin yfir af Fjármálaeftirlitinu.

Skuldabréfaeign sparisjóðanna óx líka umtalsvert árin 2006 og 2007, þó ekki í líkingu við hlutabréfaeignina, en þau lækkuðu ekki nærri eins mikið og hlutabréfin árin 2008 og 2009. Stærstur hluti skuldabréfaeignarinnar var í ríkisskuldabréfum og íbúðabréfum, en lækkunin varð fyrst og fremst á eign í skuldabréfum íslenskra fyrirtækja sem urðu flest hver verðlaus við fall bankanna. Skuldabréf voru stærsti hluti fjáreigna þeirra sparisjóða sem eftir stóð eftir fall bankanna.77

8.6.2.3  Fjármögnun

Fjármagnshlið efnahagsreiknings lánastofnana samanstendur eðli máls samkvæmt af innlánum, lántökum og eigin fé. Aðrar tegundir fjármögnunar vega yfirleitt mun minna. Þar er um að ræða skammtímaskuldir við aðrar lánastofnanir, aðrar skammtímaskuldir og víkjandi lántökur.

Innlán hafa frá upphafi verið veigamesti fjármögnunarþáttur sparisjóða. Vægi innlána í heildarfjármögnun sjóðanna fór dvínandi á tíunda áratug síðustu aldar. Í árslok 2001 var hlutur þeirra kominn í 49% en hafði til að mynda numið 61% fjórum árum fyrr. Hlutur innlána réttist aftur næstu tvö ár, en síðan dró stöðugt úr vægi þeirra í heildarfjármögnun sjóðanna og varð það minnst í árslok 2007 eða tæp 40%. Hlutfall innlána og útlána segir til um að hve miklu leyti útlán eru fjármögnuð með innlánum. Árin 2005–2007 spiluðu innlánin minnsta rullu hjá sparisjóðunum í fjármögnun útlána en þau voru þó alltaf stærra hlutfall af útlánum en hjá viðskiptabönkunum. Eftir að innlán fengu forgang sem kröfur í þrotabú fjármálafyrirtækja og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um tryggingu innistæðna jókst eftirspurn eftir innlánum. Eftir endurskipulagningu þeirra sparisjóða sem enn störfuðu árið 2010 voru skuldir færðar niður og hlutfall innlána í heildarfjármögnun sparisjóðanna hækkaði.

Þeir sparisjóðir sem í lok árs 2008 voru með lægst hlutfall innlána af heildarfjármögnun voru Sparisjóður Bolungarvíkur 34%, Sparisjóður Strandamanna 40%, Sparisjóður Mýrasýslu 41% og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis 43%. Hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga var hlutfall innlána af heildarfjármögnun 89% í lok árs 2008. Hlutfall innlána af heildarfjármögnun nam á bilinu 57–66% hjá öðrum sparisjóðum í lok árs 2008.

Mikið framboð erlends fjármagns á lágum vöxtum leiddi til þess að stærri sparisjóðirnir fjármögnuðu sig í æ meiri mæli með lántökum. Þetta hélst í hendur við aukna eftirspurn viðskiptavina eftir lánum í erlendri mynt og vaxandi stöðutöku sparisjóðanna sjálfra í fjárfestingum. Lántökur voru um 20% af fjármögnun sparisjóðanna framan af fyrsta áratug aldarinnar en hækkuðu mjög 2005 og urðu um og yfir 30% af heildarfjármögnun sparisjóða fram til falls bankanna 2008 og eftir það. Lántaka sparisjóðanna jókst vegna samninga sem gerðir voru við Íbúðalánasjóð um kaup á greiðsluflæði fasteignalána og skuldabréfum með veði í fasteignalánasöfnum 2004 og 2005.

Undir skuldir við lánastofnanir falla ýmsar skammtímaskuldir, svo sem innlán, millibankalán og aðrar skuldir við lánastofnanir sem ekki voru í formi skuldabréfalána eða annarra framseljanlegra verðbréfa. Jafnframt falla þar undir gjaldkræfar skuldir við lánastofnanir og skuldir við lánastofnanir með umsömdum binditíma eða uppsagnarfresti, að undanskildum lántökum og víkjandi skuldum. Undir þennan lið falla einnig endurhverf viðskipti við Seðlabanka Íslands sem voru umtalsverð í árslok 2008.

Lögum samkvæmt má víkjandi lántaka, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, teljast með í eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækja þegar eiginfjárhlutfall er reiknað út. Slík lántaka er almennt dýrari en önnur, en sparisjóðirnir gripu þó til hennar í vaxandi mæli á árunum 2005–2008, einkum þegar hraður vöxtur fjárfestinga tók að íþyngja eiginfjárhlutfalli þeirra. Vægi víkjandi lána í heildarfjármögnun sparisjóðanna varð þó aldrei verulegt; það var á bilinu 2,2–3,2% á árunum 2001–2011.78

8.6.2.3.1 Eigið fé

Eigið fé setur vexti sparisjóða takmörk og vaxtarhugmyndir kalla jafnan á aukið eigið fé. Undir aldamótin var umræða orðin hávær um að sparisjóðunum væri nauðsynlegt að auka eigið fé sitt ef þeir ættu að geta haldið sínum hlut fyrir bönkunum. Eigið fé varð þó ekki aukið nema eftir tveimur leiðum: með stækkun varasjóðs með rekstrarafgangi eða með nýju stofnfé. Breytingin sem gerð var á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði árið 2001, þar sem meðal annars var heimilað að breyta sparisjóðum í hlutafélög, var gerð í þeim tilgangi að auðvelda sparisjóðum að auka eigið fé sitt.79 Enda þótt minna yrði úr hlutafjárvæðingu sparisjóða en vonir margra stóðu til, kom það ekki í veg fyrir að sparisjóðum tækist að auka stofnfé sitt.

Frá árinu 2001 til 2007 jókst eigið fé sparisjóðanna um 110 milljarða króna. Árin 2007 og 2008 var óráðstafað eigið fé meðal þeirra liða sem mynduðu eigið fé sparisjóðanna. Það tilheyrði Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sem varð hlutafélag frá og með 1. apríl 2007 og þessi tvö ár var því um að ræða hlutafé í stað stofnfjár hjá honum.80 Stofnfjáraukningar færðust verulega í aukana árin 2005–2007 og jafnframt náði hagnaður sparisjóðanna áður óþekktum hæðum þau hin sömu ár sem skilaði sér í vexti varasjóðsins. Arðgreiðslur jukust á tímabilinu og námu mest 18,7 milljörðum króna á árinu 2008, vegna ársins 2007.

Það voru stærri sparisjóðirnir sem stóðu undir þessari miklu stofnfjáraukningu á tímabilinu. Árin 2001–2007 tæplega þrefaldaðist eigið fé minni sparisjóða en það tífaldaðist hjá þeim stærri. Samanlagt eigið fé smærri sparisjóða varð aldrei neikvætt, en hjá þeim stóru varð það neikvætt um tugi milljarða króna í árslok 2008 og 2009. Hér er rætt um bókfært eigið fé en ekki svonefndan eiginfjárgrunn sem eiginfjárhlutfall (CAD-hlutfall) er reiknað út frá.

Sparisjóðirnir juku eigið fé sitt í hlutfalli við heildareignir svo til samfellt frá árslokum 2001 til loka ársins 2007. Fyrir árið 2005 skýrist vöxtur eigin fjár einkum af hagnaði samfara litlum arðgreiðslum en eftir þann tíma höfðu stofnfjáraukningar mun meira um vöxt eigin fjár að segja en áður. Mestu stofnfjáraukningarnar voru hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis árin 2005 og 2006 um 3,3 og 14,7 milljarða króna, hjá Sparisjóðnum í Keflavík árin 2006 og 2007 um 1,0 og 7,0 milljarða króna, hjá Sparisjóði Vestfirðinga og Sparisjóði Húnaþings og Stranda um 1,8 og 2,0 milljarða króna árið 2007 (tengt samrunanum við Sparisjóðinn í Keflavík), hjá Byr sparisjóði 2007 og 2008 um 26,3 og 0,4 milljarða króna, Sparisjóði Norðlendinga árið 2007 um 2,7 milljarða króna (tengt samrunanum við Byr sparisjóð) og loks juku Sparisjóður Bolungarvíkur og Sparisjóður Svarfdæla stofnféð um hálfan milljarð króna hvor árið 2007. Hér voru aðeins nefndar þær stofnfjáraukningar sem námu meira en hálfum milljarði króna en Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóður Strandamanna og Sparisjóður Norðfjarðar juku einnig stofnfé sitt talsvert á árinu 2007. Nær allar þessar stofnfjáraukningar áttu sér stað í lok viðkomandi ára.

Frá árslokum 2001 var eiginfjárhlutfall (CAD) sparisjóðanna í heild yfir lögboðnu lágmarki, sem var 8%, allt þar til í árslok 2008 og gilti það jafnt um stóru sparisjóðina og þá minni.81 Á árinu 2008 fór eiginfjárhlutfall flestra sparisjóða undir 8% markið. Sparisjóður Mýrasýslu fór fyrstur undir markið í skýrslu til Fjármálaeftirlitsins í lok annars ársfjórðungs 2008. Eiginfjárhlutfall hans var þá neikvætt um 0,45%. Í lok þriðja ársfjórðungs fóru þrír aðrir sparisjóðir undir lágmarkið og í lok ársins voru aðeins fjórir sparisjóðir yfir 8% markinu, en það voru Byr sparisjóður, Sparisjóður Strandamanna, Sparisjóður Höfðhverfinga og Sparisjóður Suður-Þingeyinga. Eiginfjárhlutfallið hjá Byr sparisjóði varð neikvætt á öðrum ársfjórðungi 2009, en hinir þrír hafa haldist yfir lágmarkinu allar götur síðan, nema hvað það var 7,2% hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga á öðrum ársfjórðungi 2011. Þessir þrír sparisjóðir eru þeir einu sem ekki hafa þurft á aðkomu ríkissjóðs að halda með stofnfé. Í árslok 2011 var krafa um eiginfjárhlutfall þessara þriggja sparisjóða óbreytt, 8%. Hærri eiginfjárkrafa var gerð til þeirra sparisjóða sem þurftu á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda og nutu aðstoðar ríkisins við að lagfæra eiginfjárþörf sína, en frá og með árinu 2010 var gerð krafa um 16% eiginfjárhlutfall hjá þeim.82

Eigið fé eykst þegar hagnaður ársins er lagður í varasjóð. Ef hagnaði er varið til annars, til að mynda til greiðslu arðs, þá vex eigið fé ekki jafnmikið og það hefði ella gert. Arður var ákveðinn sem tiltekið hlutfall af endurmetnu stofnfé í lok árs. Hámark þessa hlutfalls fram til ársins 2008 réðst af arðsemi83 eigin fjár á rekstrarárinu.84 Raunarðsemi eigin fjár hækkaði mikið frá árinu 2002 og náði áður óþekktum hæðum árið 2005 og hækkaði enn frekar á næsta ári. Arðsemi eigin fjár er í stuttu máli hagnaður ársins deilt með veginni meðalstöðu eigin fjár á árinu. Stofnfjáraukning hækkar nefnarann í hlutfallinu og dregur þar með úr arðseminni. Eigi stofnfjáraukning sér hins vegar stað undir lok árs vegur hún lítið í þessum útreikningi meðan arðgreiðslan er reiknuð af stöðu stofnfjár í lok árs, þ.e. með stofnfjáraukningunni meðtalinni að fullu. Með því að leggja fram nýtt stofnfé í lok árs fengu stofnfjáreigendur ávöxtun heils árs á fé sem einungis hafði verið bundið í fjárfestingunni í fáeina daga eða vikur. Þá voru þess dæmi að arðgreiðslur færu fram úr leyfilegu hámarki.85 Í töflu 20 sést hvernig arðgreiðslurnar hækkuðu árið 2006 og urðu svo margfalt hærri árin 2007 og 2008. Taflan sýnir hvenær útborganirnar áttu sér stað en þær voru ákvarðaðar út frá afkomu næstliðins árs.

Auk arðgreiðslna varð heimilt frá og með 2002 að verja allt að 10% af hagnaði næstliðins árs til hækkunar á stofnfé með svokölluðu sérstöku endurmati, þó þannig að stofnfé hækkaði ekki um meira en 5% hverju sinni.86 Þetta hafði ekki áhrif á eigið fé því um var að ræða tilfærslu fjár frá varasjóði til stofnfjár. Sparisjóðirnir nýttu sér þessa heimild með fáum undantekningum.87

8.6.2.4  Samantekt

Þegar ársreikningar sparisjóðanna eru lagðir saman yfir tímabilið 2001–2011 blasir við hve vöxtur þeirra varð mikill og hraður árin 2005–2007. Afkoman liðlega tvöfaldaðist frá fyrra ári árið 2005 sem og 2006, en dróst nokkuð saman árið 2007 þótt góð væri. Þessi mikli afkomubati skýrðist alfarið af tekjum af fjáreignum, því hreinar vaxtatekjur breyttust sáralítið yfir margra ára skeið. Efnahagsreikningur sparisjóðanna í heild stækkaði líka mikið árin 2005–2007. Þótt útlánin væru ávallt langstærsti eignaliðurinn, uxu fjáreignir hlutfallslega meira þessi sömu ár. Á fjármögnunarhliðinni jukust lántökur mun hraðar en innlán, enda fór hlutfall innlána af útlánum mjög lækkandi á árunum 2003–2007. Þetta sýnir gjörbreyttar áherslur í rekstri sparisjóðanna á þessum árum og raunar alveg frá aldamótum. Tap var af kjarnarekstri sparisjóðanna í heild frá því fyrir aldamót og fór það sívaxandi og var orðið verulegt strax árið 2006. Stjórnendur flestra sparisjóðanna voru farnir að beina sjónum sínum að fjárfestingum í verðbréfum því þær höfðu almennt gefið vel af sér frá því fyrir aldamót. Þátttaka þeirra í hröðum vexti Kaupþings hafði skilað sparisjóðunum umtalsverðum tekjum. Sumir sparisjóðir innleystu þessar tekjur um og eftir aldamótin með því að selja sinn hlut í Kaupþingi og félaginu sem þeir höfðu stofnað til að halda utan um eign sína í Kaupþingi.88 Aðrir settu traust sitt á áframhaldandi vöxt og stofnuðu fjárfestingarfélagið Kistu utan um eignarhluti sína í Exista. Aðgengi að ódýru erlendu fjármagni, mikil hækkun hlutabréfa eftir einkavæðingu ríkisbankanna og aðstæður á fjármálamarkaði kyntu undir þessa þróun.

Um mitt ár 2007 var hápunktinum náð á hlutabréfamörkuðum og lækkunarferli hófst. Tekjur sparisjóðanna af fjáreignum drógust þá nokkuð saman, en afkoman í heild varð þó sú næstbesta frá upphafi. Árið 2008 hrundi hlutabréfamarkaðurinn og gengi krónunnar lækkaði um helming. Þetta kallaði mikla erfiðleika yfir sparisjóðina. Hlutabréfaeign þeirra í lok árs var ekki nema fjórðungur þess sem hún var ári fyrr og erlendar skuldir þeirra hækkuðu umtalsvert. Þrátt fyrir þetta jukust heildareignir sparisjóðanna þar sem útlánin hækkuðu verulega. Þar átti fall krónunnar mestan hlut að máli því sparisjóðirnir höfðu lánað í sívaxandi mæli í erlendri mynt, enda þótt tryggingar og tekjur lántakendanna væru í íslenskum krónum. Endurheimt útlánanna var af þessum sökum óviss og urðu sparisjóðirnir því að færa gríðarhátt framlag í afskriftareikning útlána 2008. Afkoma þeirra í heild hrundi því gersamlega. Samanlagt töpuðu þeir á árinu 2008 nærri tvöföldum samanlögðum hagnaði næstliðinna tíu ára, umreiknuðum til sama verðlags.

Sparisjóðirnir urðu einnig fyrir miklum búsifjum af sama toga árin 2009 og 2010. Sparisjóðabankinn féll árið 2009 og töpuðu sparisjóðirnir þá því sem eftir var af eignarhlut sínum í honum. Stóru sparisjóðirnir fjórir liðu þá allir undir lok. Einn sparisjóður (Spkef sparisjóður) og einn banki (Byr hf.) voru reyndar reistir á þeirra grunni. Flestir minni sparisjóðirnir þurftu á aðkomu Seðlabankans að halda við fjárhagslega endurskipulagningu svo þeir mættu halda lífi. Spkef féll síðan snemma árs 2011. Í árslok 2011 voru heildareignir starfandi sparisjóða innan við tíundi hluti heildareigna sparisjóðanna þremur árum fyrr og rekstrarhorfur þeirra ekki bjartar.

Árin 2005–2007 var stofnfé sparisjóðanna aukið um samtals 57 milljarða króna. Stofnfjáreigendur fengu þó meira en helming þeirrar fjárhæðar, eða rúmlega 29 milljarða króna, til baka í formi arðs á næsta ári eftir að þeir lögðu fram stofnféð. Varasjóður sparisjóðanna, sem samanlagt nam rúmum 53 milljörðum króna í árslok 2007 auk 22 milljarða króna óráðstafaðs eigin fjár Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., þurrkaðist út árið 2008 og enduðu þessar tvær stærðir samanlagt sem mínus 88 milljarðar króna í árslok 2008. Samanlagt stofnfé og hlutafé var í sömu árslok 55 milljarðar króna.89 Eigið fé var þannig neikvætt um rúma 33 milljarða króna og ári síðar um nærri 37 milljarða króna. Í árslok 2011 nam samanlagt eigið fé starfandi sparisjóða tæpum 4 milljörðum króna, en varasjóðurinn var þá enn neikvæður.

8.7 Skattlagning sparisjóða

Sparisjóðir þurftu ekki að greiða tekjuskatt og eignarskatt fyrr en 1983. Strax í fyrstu lögunum um sparisjóði var skattfrelsi þeirra tiltekið sérstaklega:

Sparisjóðir þeir, sem engan arð greiða stofnendum sínum, eða ábyrgðarmönnum, eru undanþegnir tekjuskatti og sömuleiðis útsvari, enda sje ekki heimilt, samkvæmt lögum eða reglugjörð sparisjóðsins, að verja fje úr varasjóði til annars en að bæta tjón það, er sjóðurinn kann að bíða, eða til nytsemdarfyrirtækja í almenningsþarfir.90

Sparisjóðalögin frá 1941 voru afdráttarlaus um skattfrelsið:

Sparisjóðir eru undanþegnir tekjuskatti, eignarskatti og útsvari.91

Á þessu fyrirkomulagi varð breyting með sérstakri lagasetningu um skattskyldu innlánsstofnana á vorþingi 1982.92 Þau lög eru enn í gildi en með nokkrum breytingum í gegnum tíðina. Lögin tóku upphaflega til viðskiptabanka, sparisjóða og Söfnunarsjóðs Íslands. Samkvæmt þeim lögum sem giltu fyrir setningu þeirra laga voru þær stofnanir sem féllu undir framangreinda upptalningu undanþegnar skattskyldu með ákvæðum í skattalögum og ýmsum sérlögum.93 Nú urðu þessar stofnanir skyldar til þess að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra var aflað, og eignarskatt af öllum eignum sínum, hvar sem þær voru, í samræmi við ákvæði laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Í athugasemdum við frumvarpið að lögunum sagði: „Eðlilegt þykir að starfsemi þessara sé skattskyld með sama hætti og starfsemi annarra atvinnufyrirtækja í landinu. Starfsemi banka og sparisjóða mun víðast hvar skattskyld í nágrannalöndum okkar.“94

Ákvæði laganna voru sambærileg öðrum ákvæðum í lögum um skattlagningu annarra lögaðila en lánastofnana, nema að í 3. gr. þeirra var ákvæði um að innlánsstofnunum væri ekki heimilt að færa niður „útistandandi viðskiptaskuldir“ um 5% sem öðrum lögaðilum var heimilt. Þarna var átt við viðskiptakröfur, því í athugasemdum með frumvarpinu var rætt um „útistandandi skuldir sem stofnast [hefðu] vegna sölu á vörum og þjónustu og [féllu] í gjalddaga innan eins árs frá því að til þeirra var stofnað. Ákvæði þetta gildir almennt ekki um kröfur þær sem aðilar eiga á aðra vegna lánastarfsemi.“95 Lögin tóku gildi 19. maí 1982 en komu ekki til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts fyrr en á árinu 1984 vegna tekna á árinu 1983 og eigna í lok þess árs.

Helstu breytingar sem gerðar hafa verið á lögum um skattskyldu innlánsstofnana og snertu sparisjóði verða hér nefndar í meginatriðum:

 • Við álagningu á árinu 1984 vegna tekna 1983 og eigna í lok þess árs varð skattskyldum aðilum samkvæmt umræddum lögum heimilt að færa fjárhæð til gjalda í sérstakan afskriftareikning útlána sem næmi 1% af aukningu útlána og veittra ábyrgða á rekstrarárinu. Heildarfjárhæð afskriftareiknings útlána skyldi þó aldrei nema hærri fjárhæð en 1% af heildarfjárhæð útlána og veittra ábyrgða í árslok. Færi afskriftareikningurinn eitthvert ár fram úr þessum mörkum skyldi mismunurinn teljast til tekna.96 Þessari breytingu var ætlað, hvað skattlagningu varðaði, að viðurkenna þörf innlánsstofnana á því að mynda afskriftareikning vegna útlánaáhættu.
 • Næsta breyting sem gerð var á lögunum og snerti sparisjóði tóku gildi 1. janúar 1995 og komu til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1996 vegna tekjuársins 1995. Nú varð heimilt að draga frá tekjum þeirra aðila sem lögin tóku til þau almennu og sérstöku framlög í afskriftareikning útlána sem gjaldfærð voru í rekstrarreikningi í samræmi við gildandi reglur um ársreikning þessara aðila.97 Staða afskriftareiknings útlána í árslok skyldi dregin frá við uppgjör á eignarskattsstofni. Færslu á tillögum í afskriftareikning innan eigin fjár var hins vegar ekki heimilt að draga frá tekjum og slíkur eiginfjárreikningur skyldi ekki dreginn frá við uppgjör á eignarskattsstofni. Einnig var sett í 6. gr. ákvæði um að lánastofnanir skyldu undanþegnar stimpilgjaldi af fjárskuldbindingum sem þær kynnu að taka á sig. Loks var heiti laganna breytt og tóku þau til skattskyldu lánastofnana í stað innlánsstofnana áður.
 • Eignarskattur var felldur brott úr umræddum lögum með breytingu á skattalögum þar sem eignarskatturinn var afnuminn með öllu.98 Lögin tóku gildi 1. janúar 2005 og var eignarskattur því síðast lagður á vegna eigna í árslok 2004.

Nokkrar fleiri breytingar voru gerðar á umræddum lögum, en þær snertu ekki sparisjóði á nokkurn hátt.

Eftir fall viðskiptabankanna og hremmingarnar á fjármálamarkaði sem fylgdu í kjölfarið voru sett lög nr. 155/2010 um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, sem í daglegu tali er nefndur bankaskattur. Í 1. gr. laganna segir:

Markmið þessara laga er tvíþætt, annars vegar að afla ríkinu tekna til að mæta þeim mikla kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna hruns íslenska fjármálakerfisins, hins vegar að draga úr áhættusækni fjármálafyrirtækja með því að leggja sérstakan skatt á skuldir þeirra vegna þeirrar kerfisáhættu með tilheyrandi kostnaði sem áhættusöm starfsemi þeirra getur haft í för með sér fyrir þjóðarbúið.

Í almennum athugasemdum með lagafrumvarpinu var tilurð laganna rakin og litið út fyrir landsteinana í því efni:

Meðal ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) hefur farið fram mikil umræða um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og hafa mörg aðildarríkjanna ýmist þegar tekið upp sérstaka skatta eða gjöld á fjármálafyrirtæki eða tilkynnt að slíkt muni verða gert á næstu missirum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig bent á að rökrétt sé að auka skattbyrði fjármálakerfisins vegna þess kostnaðar sem endurreisn þess hefur lagt á ríkissjóði aðildarríkjanna.
Svíar hafa þegar tekið upp svokallað stöðugleikagjald (s. stabilitetsavgift) sem er lagt á heildarskuldir fjármálafyrirtækja. Þeir eru fyrsta Evrópuþjóðin til að taka upp sérstakt gjald eða skatt á fjármálafyrirtæki í kjölfar fjármálakreppunnar. Margar aðrar Evrópuþjóðir, t.d. Frakkar, Bretar og Þjóðverjar, hafa lýst því yfir að þær ætli að fara að fordæmi Svía og leggja á fjármálafyrirtæki sérstakt gjald eða sérstakan skatt sem taki mið af efnahagsreikningi viðkomandi fjármálafyrirtækis. Ísland hefur ekki farið varhluta af þessari umræðu enda hafa áhrif fjármálakreppunnar hér á landi verið meiri en víðast hvar annars staðar.99

Stofn til þessa sérstaka skatts á fjármálafyrirtæki skyldi heildarskuldir skattskylds aðila. Gjaldhlutfallið var ákveðið 0,041%. Skatturinn skyldi ekki talinn rekstrarkostnaður samkvæmt 31. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Lögin tóku strax gildi og komu til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2011 vegna tekjuársins 2010 og skulda í lok þess árs.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á lögunum. Aðeins ein þeirra snerti sparisjóði, en það var ákvæði til bráðabirgða, sem sagði að við álagningu opinberra gjalda árið 2012 skyldi til viðbótar við sérstakan skatt samkvæmt lögunum greiða 0,0875% af skattstofni. Gjalddagi viðbótarskattsins var 1. nóvember 2012. Greitt skyldi fyrir fram upp í álagðan viðbótarskatt 1. nóvember 2011 og miðaðist sú greiðsla við skattstofninn eins og hann var í árslok 2010.100 Gildistími þessa bráðabirgðaákvæðis var síðan framlengdur um eitt ár með lagabreytingu ári síðar.101 Aðrar breytingar á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki snerta ekki sparisjóði.

Nýr skattur á fjármálafyrirtæki og fleiri aðila, fjársýsluskattur, var innleiddur með lagasetningu undir lok árs 2011.102 Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði meðal annars:

Á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) er m.a. verið að skoða nokkra möguleika á skattlagningu fjármálafyrirtækja sem framtíðartekjustofns fyrir sambandið sjálft. Þrenns konar skattar hafa aðallega verið þar til skoðunar. Í fyrsta lagi svokallaður FAT (Financial Activities Tax) sem leggst á laun og hagnað fjármálafyrirtækja eftir ákveðnum reglum sem eins konar ígildi virðisaukaskatts. Rökin fyrir þessari skattlagningu eru þau að þessi atvinnugrein er undanþegin virðisaukaskatti sem gerir hana betur setta skattalega séð heldur en virðisaukaskattsskyldar atvinnugreinar. Í öðru lagi er verið að skoða svokallaðan FTT (e. Financial Transaction Tax), þar sem skattstofninn er viðskipti fjármálafyrirtækjanna. Þar er ýmist verið að skoða tiltölulega breiðan skattstofn (viðskipti af hvers kyns tagi) eða tiltekna gjaldtöku á einstök viðskipti, t.d. lánasamninga sem líkist þá einna helst stimpilgjaldi eins og lagt er á hérlendis. FTT-skatturinn er í raun eins og hver annar veltu- eða neysluskattur sem einungis er innheimtur af fjármálastofnunum. Í þriðja lagi hefur ESB skoðað sérstakan skatt eða gjald á fjármálafyrirtæki (e. bank levies), sambærilegan þeim sem lögfestur var hér á landi á árinu 2010.
Tillaga þessa frumvarps er sem fyrr segir sú að tekin verði upp FAT eða fjársýsluskattur hér á landi. Lagður er til skattur með svipuðu sniði og verið hefur í Danmörku þar sem launaskattur er lagður á þau fyrirtæki sem undanþegin eru virðisaukaskatti, þ.m.t. banka, tryggingafélög og lífeyrissjóði (d. Lov om afgift af lønsum). Í tilviki fjármálafyrirtækja er skattstofninn í Danmörku heildarlaunagreiðslur og skatthlutfallið árið 2011 er 10,5% en á árunum 2000 til 2010 nam þessi skattur 9,13%.103

Stofn til fjársýsluskatts er allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Undanþegnar eru greiðslur skattskyldra aðila á eftirlaunum og lífeyri, greiðslur vegna fæðingarorlofs sem fara ekki umfram þann hluta sem fæst endurgreiddur úr Fæðingarorlofssjóði, og greiðslur vegna þess hluta starfsemi þeirra sem er virðisaukaskattsskyldur. Fjársýsluskattur er 10,5% af skattstofni. Lögin tóku þegar gildi og komu til framkvæmda í staðgreiðslu vegna launagreiðslna frá og með 1. janúar 2012.

Auk þeirra skatta sem hér hefur verið greint frá má nefna sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem innleiddur var með lögum 21. desember 1978 og kom til framkvæmdar við álagningu á árinu 1979.104 Þessi skattur tók til allra eigenda slíks húsnæðis, þar á meðal sparisjóða. Skatturinn nam upphaflega 1,4% af fasteignamatsverði þess húsnæðis sem nýtt var til skrifstofu- eða verslunarrekstrar ásamt tilheyrandi lóð, enda þótt um leigulóð væri að ræða. Margar smábreytingar voru gerðar á þessum lögum, einkum álagningarhlutfallinu, ýmist upp eða niður, en það féll niður á árinu 1993 eftir að skattur af svipuðum toga bættist við tekjustofna sveitarfélaga.105

Hér fylgir að lokum samantekt á nokkrum lykilstærðum hvað skattlagningu sparisjóða varðar vegna áranna 2001 til 2011.

Til viðbótar við framangreinda skatta til ríkissjóðs hafa sparisjóðir greitt eftirlitsgjald sem rennur beint til reksturs Fjármálaeftirlitsins og er innheimt af Fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögum nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Álagning gjaldsins fer fram eigi síðar en 15. janúar ár hvert. Viðskiptabankar og sparisjóðir greiða tiltekið hlutfall af eignum eins og þær voru í árslok rúmu ári fyrir álagningu. Álagningarhlutfallið hefur tekið breytingum á hverju ári frá setningu laganna. Í töflu 22 eru álagningarhlutföllin tilfærð, auk upplýsinga um hvað sparisjóðirnir og Sparisjóðabankinn greiddu á árunum 2001–2011. Þar sem svo lág hlutföll eru erfið aflestrar er búið að umreikna hlutfallið fyrir sparisjóði þannig að það sýni hvert eftirlitsgjaldið var í krónum fyrir hverja milljón króna í eignum. Eftirlitsgjaldið lækkaði mikið hlutfallslega frá því um aldamótin og til bankahrunsins. Af þeim sökum stækkaði Fjármálaeftirlitið hvergi nærri í takt við stækkun eftirlitsskyldra aðila.

Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta var stofnaður með setningu laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sem öðluðust gildi 1. janúar 2000. Sjóðurinn yfirtók þá eignir og skuldir Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og innstæðudeildar Tryggingarsjóðs sparisjóða sem lagðir voru niður frá sama tíma. Þetta var í tengslum við tilskipun Evrópusambandsins um tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 97/9/EC. Sú tilskipun kveður á um samræmdar reglur um lágmarksvernd fyrir fjárfesta sem eiga kröfu á hendur fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og lánastofnanir í tengslum við viðskipti með verðbréf gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis.

Samkvæmt lögunum var stefnt að því að heildareign innstæðudeildar sjóðsins skyldi ávallt nema að minnsta kosti 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Næði heildareign ekki þessu lágmarki skyldu allir viðskiptabankar og sparisjóðir greiða gjald til sjóðsins sem næmi 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði á næstliðnu ári. Auk þess skyldi hver viðskiptabanki og sparisjóður leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu um að hann myndi inna af hendi tiltekna greiðslu til deildarinnar næði heildareign hennar ekki tilskildu lágmarki.

Með lögum nr. 55/2011 bættist ákvæði til bráðabirgða við fyrrnefnd lög. Almennt iðgjald skyldi nema sem svarar 0,3% á ári af öllum innstæðum hjá viðkomandi innlánsstofnun. Auk slíks iðgjalds skyldi hver innlánsstofnun greiða breytilegt iðgjald í samræmi við áhættustuðul sem Fjármálaeftirlitið gæfi hverri innlánsstofnun. Einnig varð sjóðnum heimilt að innheimta viðbótariðgjöld til að standa straum af kostnaði, afborgunum og greiðslum vaxta af lánum. Slíkt iðgjald skyldi þó aldrei vera hærra en sem næmi 0,6% af tryggðum innstæðum hjá viðkomandi innlánsstofnun. Lögin tóku gildi 31. maí 2011.

Í töflu 23 má sjá framlag sparisjóðanna og Sparisjóðabankans til innstæðudeildar sjóðsins á árunum 2006–2011. Ekki var unnt að afla upplýsinga um framlagið 2001–2005. Til og með 2010 voru greiðslurnar vegna næstliðins árs, en frá 2011 var um samtímainnheimtu að ræða.

Auk þessara greiðslna greiddu sparisjóðirnir og Sparisjóðabankinn samtals tæpar 1,6 milljónir króna til verðbréfadeildar sjóðsins árið 2006.

8.8 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis um reikningsskil sparisjóðanna

Allir sparisjóðirnir gerðu reikningsskil sín í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins og lög um ársreikninga þar til margir þeirra tóku upp reikningsskil í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) á árunum 2005–2007. Ársreikningar samdir eftir reglum Fjármálaeftirlitsins og ársreikningalögum voru undantekningarlítið í fullu samræmi við reglurnar.

Árið 2004 var sú breyting gerð á lögum um ársreikninga að heimilt varð að meta til gangvirðis óskráð hlutabréf sem færð voru í veltubók. Breyting þessi var gerð í samræmi við ákvæði tilskipunar 2001/51/EB. Nokkrir sparisjóðir tóku að fylgja þessari reglu í ársreikningi sínum 2005 og mátu tilteknar óskráðar fjáreignir upp í bókum sínum og gátu með því bókfært umtalsverðan gengishagnað. Þetta gerðu þeir án þess að hlíta þeim skilyrðum sem gangvirðismatið skyldi byggt á samkvæmt lögunum, þ.e. að greina skilmerkilega frá því í skýringum á hverju matið var byggt. Sem dæmi um þetta má nefna Sparisjóðinn í Keflavík sem í ársreikningi 2005 tekjufærði rúmlega milljarðs króna hækkun á mati eignarhluta síns í Exista hf. Var það nær allur hagnaður sparisjóðsins það ár og voru 12% hans greidd út sem arður til stofnfjáreigenda.

Lán til íbúðakaupa sem veitt voru í samstarfi við Íbúðalánasjóð á árunum 2004 og 2005 voru bókfærð sem eign sparisjóðanna enda þótt ávinningur og áhætta af þessum lánum hefði flust yfir til Íbúðalánasjóðs. Að vísu var fjármögnun þeirra frá Íbúðalánasjóði skuld á móti. Efnahagsreikningur sparisjóðanna í heild var 42 milljörðum króna stærri fyrir vikið, án þess að umrædd útlán skiluðu vaxtamun. Þessi reikningshaldslega meðferð er umdeilanleg að mati rannsóknarnefndarinnar og gat haft þensluhvetjandi áhrif á sparisjóðina. Þau rök að sparisjóðirnir héldu lánunum á efnahagsreikningi sínum til að koma í veg fyrir hættu á að þau yrðu hvergi eignfærð, vegna óvissu þeirra um reikningshaldslega meðferð Íbúðalánasjóðs á lánunum, standast ekki skoðun.

Við upptöku IFRS voru gerðar strangari kröfur um skýringar í ársreikningi. Almennt má segja um ársreikninga sparisjóðanna að það skorti á að upplýsingar í skýringum fullnægðu kröfum staðlanna, misjafnlega mikið þó. Hjá minni sparisjóðunum sem tóku upp IFRS var skýringunum verulega áfátt. Nægileg þekking á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum var ekki fyrir hendi innan allra þeirra sparisjóða sem tóku upp reikningsskil í samræmi við staðlana. Stjórnendur þeirra leituðu því utanaðkomandi aðstoðar við gerð ársreikningsins. Ekki verður fullyrt um hvers vegna sumir sparisjóðanna kusu að taka upp alþjóðlegar reikningsskilareglur þegar þeim bar ekki skylda til þess, því slíkt hafði í för með sér umtalsverðan kostnaðarauka fyrir þá.

Í öllum þeim tilvikum sem utanaðkomandi aðstoð við reikningsskilin var keypt var leitað til sama endurskoðunarfyrirtækis og endurskoðaði ársreikninginn. Þetta bauð heim óhæðisvanda. Hafi endurskoðandinn samið ársreikninginn endurskoðar hann sín eigin verk. Endurskoðendur bera þó ekki ábyrgð á ársreikningnum, heldur stjórn og sparisjóðsstjóri.

Hjá flestum þeirra sparisjóða sem ekki tóku upp reikningsskil í samræmi við IFRS var ýmislegt aðfinnsluvert við reikningshaldslegt mat, einkum á útlánum, sem nefndin telur að tilefni hafi verið til að færa enn frekar niður í árslok 2007 og 2008 en gert var.

Stundum var reglum IFRS beitt við mat á útlánum og verðbréfum en fullyrt í skýrslu stjórnar að reikningurinn væri gerður í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins. Textaskýringar í reikningunum voru villandi hvað þetta varðaði. Þetta kann að eiga rætur að rekja til þess að Fjármálaeftirlitið sendi frá sér á árinu 2005 umræðuskjal með drögum að breyttum reglum um reikningsskil lánastofnana, sem ætlunin var að leystu af hólmi gildandi reglur. Í drögunum var leitast við að breyta almennum reglum um reikningsskil lánastofnana til samræmis við alþjóðlegu staðlana, einkum hvað varðaði framsetningu og matsákvæði. Gert var ráð fyrir að breyttar reglur tækju gildi frá og með reikningsárinu 2006. Af því varð þó ekki, en margir sparisjóðir tóku að haga reikningsskilum sínum fyrir árið 2007 samkvæmt þeim.

 


 

1 . IFRS er skammstöfun fyrir International Financial Reporting Standards sem eru alþjóðlegir reikningsskilastaðlar og eru settir af alþjóðareikningsskilaráðinu (International Accounting Standards Board – IASB). Ráðið tók árið 2001 við starfi alþjóðareikningsskilanefndarinnar (IASC) sem hafði sett og gefið út reikningsskilastaðla frá 1973 sem báru heitið IAS (International Accounting Standards). Þeir hafa smám saman vikið fyrir nýjum stöðlum með heitið IFRS og er nýjasta útgáfa þeirra sú þrettánda í röðinni. Sjá nánar á vefsíðu IFRS-stofnunarinnar, www.ifrs.org.

2 . Á þessum tíma voru tvær gerðir fjárstreymisyfirlita að ryðja sér til rúms, sjóðstreymi og fjármagnsstreymi. Sjóðstreymið varð síðan ofan á og var lögfest með lögum nr. 56/2003 um breyting á lögum um ársreikninga.

3 . Rétt er þó að taka fram að sjóðstreymi í ársreikningi fjármálafyrirtækis er ekki jafn gagnlegt og í ársreikningum hefðbundinna rekstrarfélaga. Sérstaklega á það við um rekstrarhreyfingakaflann, því eðli fjármálastarfsemi er talsvert annað en hjá annars konar fyrirtækjum. Af þeim sökum verður stærðin handbært fé frá rekstri, sem oft er litið til, vandtúlkuð og nær marklaus í ársreikningi fjármálafyrirtækis.

4 . Sjá vefsíðu ríkisskattstjóra, www.rsk.is.

5 . Úr svari Fjármálaeftirlitsins 4. október 2012 við fyrirspurn rannsóknarnefndarinnar.

6 . Sbr. 53.–56. gr. reglna nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana.

7 . Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga segir: „Ef ákvæði laga nægja ekki til að gefa glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé skal vikið frá þeim í undantekningartilvikum til þess að reikningurinn gefi glögga mynd í skilningi 1. mgr. Í skýringum með ársreikningi skal greina frá slíkum frávikum ásamt ástæðum fyrir þeim og hvaða áhrif þau hafa á afkomu og efnahag.“

8 . Heimildin er í 36. gr. laga nr. 3/2006 og tekur til fjármálagerninga sem hefur verið aflað í þeim tilgangi að selja aftur eða til að hagnast á skammtímaverðbreytingum. Þetta heimildarákvæði kom fyrst inn í ársreikningalögin með breytingalögum nr. 28/2004, sem sett voru til að innleiða ákvæði tilskipunar 2001/51/EB.

9 . Einnig er fjallað um þetta í kaflanum um Sparisjóðinn í Keflavík og í 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

10 . Í 1. mgr. 87. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki segir að stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skuli semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Í 2. mgr. 87. gr. segir síðan að ársreikningur skuli undirritaður af stjórn og framkvæmdastjórum fjármálafyrirtækja. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.

11 . Þetta má ráða af reikningum endurskoðenda til sparisjóðanna. Ársreikningarnir höfðu auk þess yfirleitt samræmt útlit, sem kom frá endurskoðunarstofunum. Sjá nánari umfjöllun hér aftar í kaflanum og í 7. kafla.

12 . Í reglum Fjármálaeftirlitsins um endurskoðun fjármálafyrirtækja, nr. 532/2003, segir m.a. í 3. gr.: „Endurskoðanda fjármálafyrirtækis er […] óheimilt að starfa í þágu þess að verkefnum sem skert geta óhæði hans gagnvart fyrirtækinu. Jafnframt skal endurskoðandi forðast að vera beinn þátttakandi í mikilvægum útlána- og rekstrarákvörðunum fjármálafyrirtækis eða koma með fyrstu tillögur að verðmætamati eigna eða skuldbindinga fyrirtækisins, einkum ef í slíku mati felst annað en aðstoð við tæknilega útreikninga út frá gefnum forsendum.“ Óhæði endurskoðanda var ekki skýrt nánar í reglunum. Í lögum nr. 79/2008 um endurskoðendur, er tóku gildi 1. janúar 2009, segir í 1. mgr. 19. gr.: „Í endurskoðunarverkefnum skal endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki vera óháð viðskiptavini sínum, bæði í reynd og ásýnd.“ Jafnframt segir í 2. mgr. 8. gr. sömu laga: „Endurskoðandi skal fylgja siðareglum sem settar hafa verið af Félagi löggiltra endurskoðenda.“ Siðareglurnar tóku ekki formlega gildi fyrr en 29. september 2010. Í þeim er ekki tekið með beinum hætti á því sem hér er til umræðu. Það var fyrst með lögum nr. 75/2010 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki sem blátt bann var lagt við því að endurskoðendur gegndu öðrum störfum fyrir viðkomandi fjármálafyrirtæki en endurskoðun ársreiknings.

13 . Þess var fyrr getið að með lögum nr. 28/2004 um breyting á lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, með síðari breytingum, var heimilað að færa öll veltuverðbréf á gangvirði að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

14 . Heimilt var orðið að færa óskráð veltuverðbréf á gangvirði, sbr. lög nr. 28/2004, en mat til gangvirðis skyldi vera í samræmi við alþjóðlegar reikningsskilareglur og einungis heimilt ef það byggði á áreiðanlegum upplýsingum um gangvirði. Væri gangvirðismat notað var skylt að veita tilteknar upplýsingar um það í skýringum.

15 . Ársreikningur Sparisjóðsins í Keflavík 2005.

16 . Sjá endurskoðunarskýrslu Deloitte hf. um ársreikning Sparisjóðsins í Keflavík 2005.

17 . Sbr. IAS 1, Framsetning reikningsskila (Presentation of Financial Statements), greinar 15 og 16.

18 . Í alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum er hugtakið mikilvægi skilgreint svo: „Obmissions or misstatements of items are material if they could, individually or collectively, influence the economic decisions that users make on the basis of financial statements. Materiality depends on the size and nature of the omission or misstatement judged in the surrounding circumstances. The size or nature of the item, or a combination of both, could be the determining factor.“ (IAS 1, grein 7, og IAS 8, grein 5) Enn fremur: „At a general level, applying the concept of materiality means that a specific disclosure required by an IFRS need not to be provided if the information is not material.“ (IAS 1, grein 31)

19 . IAS 32, Financial Instruments: Presentation, og IAS 39, Financial Instruments: Recognition and Measurement.

20 . Sbr. IAS 39, greinar 58 og 59.

21 . Í sömu heimild er þetta orðað svo: „Losses expected as a result of future events, no matter how likely, are not recognised.“

22 . Nokkra umfjöllun um þetta getur að líta í 3. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, bls. 136–137.

23 . Alþjóðareikningsskilaráðið, IASB, sendi frá sér umræðuskjal 7. mars 2013, „Exposure Draft ED/2013/3 Financial Instruments: Expected Credit Losses“, þar sem gefinn var frestur til að gera athugasemdir til 5. júlí 2013. Ráðið gaf út 19. nóvember 2013 uppfærslu á staðlinum IFRS 9 – Fjármálagerningar (Financial Instruments), sem það gaf út að hluta í því skyni að bregðast við fjármálakreppunni. Þessum staðli er ætlað að leysa IAS 39 af hólmi, en hann er enn ekki fullbúinn. Sjá um þetta t.d. vef Deloitte, „IAS Plus: Financial Instruments – Impairment“, sótt 24. júlí 2013 af www.iasplus.com/en/projects/fi-impairment; og einnig vef Alþjóðlegu reikningsskilastofnunarinnar: www.ifrs.org/Alerts/ProjectUpdate/Pages/IASB-completes-important-steps-in-reform-of-financial-instruments-accounting-November-2013.aspx.

24 . Bandaríska reikningsskilaráðið, FASB, gaf út tillögur sínar í þessa veru 20. desember 2012 og gaf frest til að skila athugasemdum til 31. maí 2013. Sjá t.d. grein frá fræðiteymi hjá Grant Thornton: „Accounting For Credit Impairment – FASB Proposes An Expected Loss Model.“ Sótt 24. júlí 2013 af www.mondaq.com/unitedstates/x/235224/Accounting+Standards/Accounting+for+credit+impairment.

25 . Sjá skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 2010, 2. bindi, bls. 87–88.

26 . Ekki má þó horfa fram hjá því að frá 1. janúar 2005 gilti staðallinn IAS 10, Events after the Balance Sheet Date, og frá 1. janúar 2009 endurskoðuð gerð hans, IAS 10, Events after the Reporting Period. Þessi staðall tilgreinir hvenær félög eiga að aðlaga reikningsskil sín vegna atburða sem gerast eftir lok reikningsskiladags og til þess dags þegar heimild til birtingar ársreiknings liggur fyrir; venjulega þegar stjórn og framkvæmdastjóri árita reikninginn.

27 . Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 2010,
3. bindi, bls. 139.

28 . Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 2010,
3. bindi, bls. 141.

29 . Framework for the Preparation and Presentations of Financial Statements, apríl 2001. Hann var upphaflega samþykktur af forvera ráðsins, alþjóðlegu reikningsskilanefndinni IASC, í apríl 1989. Hugtakaramminn er nú í endurskoðun. Fyrsti áfangi þeirrar endurskoðunar var gefinn út af ráðinu í september 2010 og nefnist hugtakaramminn nú Conceptual Framework for Financial Reporting. Endurskoðunin er hluti af sameiginlegu verkefni alþjóðareikningsskilaráðsins, IASB, og Bandaríska reikningsskilaráðsins, FASB, um að samræma alþjóðleg reikningsskil.

30 . Grein 63 í IAS 39 ber yfirskriftina „Financial assets carried at amortised cost“ og hljóðar svo: „If there is objective evidence that an impairment loss on loans and receivables or held-to-maturity investments carried at amortised cost has been incurred, the amount of the loss is measured as the difference between the asset’s carrying amount and the present value of estimated future cash flows (excluding future credit losses that have not been incurred) discounted at the financial asset’s original effective interest rate (i.e., the effective interest rate computed at initial recognition). The carrying amount of the asset shall be reduced either directly or through use of an allowance account. The amount of the loss shall be recognised in profit or loss.“

31 . Til dæmis höfðu vanskil aukist, endurfjármögnun lána var umtalsverð, auk þess sem lausafjárskortur var farinn að hrjá allt fjármálakerfið þegar á árinu 2007. Sjá meðal annars umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls bankanna 2008 og tengda atburði, 3. bindi, bls. 137 o.áfr.

32 . Fleiri atriði geta komið hér til álita, t.d. lækkandi fasteignaverð, „110%-leiðin“ sem bauð upp á lækkun fasteignalána niður í 110% af markaðsvirði fasteignar, greiðsluaðlögun umboðsmanns skuldara og aðrar skuldaleiðréttingar sem boðið var upp á af hálfu fjármálafyrirtækja á árunum strax eftir fall bankanna 2008.

33 . IFRS 7 Financial Instruments: Disclosures.

34 . Nánar er fjallað um þessa samninga og áhrif þeirra í 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

35 . Í staðlinum IAS 39, Financial Instruments: Recognition and Measurement, er fjallað um afskráningu fjáreigna (e. derecognition) í 15.–37. grein og í viðaukum AG39.36–AG39.63. Hafi áhættan og ávinningurinn af fjáreigninni verð færð frá aðila skal hann afskrá eignina, nema hann hafi enn yfirráð yfir henni (20. grein). Um það hvort aðili telst enn hafa yfirráðin segir staðallinn m.a. að ef samningurinn um fjáreignina heimilar ekki að hún sé seld eða veðsett þá séu ekki til staðar yfirráð yfir eigninni. Í samningum sparisjóðanna og Íbúðalánasjóðs var svohljóðandi ákvæði: „Samningsaðilum er óheimilt að framselja réttindi sín eða skuldbindingar samkvæmt samningi þessum.“ Sparisjóðirnir gátu breytt skilmálum íbúðalánanna, s.s. vöxtum eða lánstíma, og samþykkt veðflutning eða skuldskeytingu, allt innan tiltekinna marka og með skaðleysi Íbúðalánasjóðs. Slíkt urðu vart talin yfirráð heldur voru þessi atriði liður í því að skuldararnir yrðu ekki fyrir neinum óþægindum vegna samninganna og sparisjóðirnir gætu áfram veitt þeim eðlilega þjónustu.

36 . Skýrsla Sigurðar Jónssonar endurskoðanda fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 24. janúar 2014. Landsbankinn gerði sambærilega samninga við Íbúðalánasjóð frá desember 2004 til ársloka 2005 upp á samtals 48,3 milljarða króna .

37 . Tölvuskeyti Páls Grétars Steingrímssonar til rannsóknarnefndar Alþingis 19. nóvember 2013.

38 . Sjá nánari umfjöllun í 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna, einkum kafla 11.3.4.

39 . Sbr. 1. gr. laga nr. 28/2004 um breyting á lögum um ársreikninga nr. 144/1994, með síðari breytingum.

40 . Sbr. 37. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga.

41 . Sbr. 45. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga.

42 . Upplýsingar frá Hagstofu Íslands.

43 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um heildarniðurstöðu ársreikninga fjármálafyrirtækja og verðbréfa- og fjárfestingarsjóða 2008.

44 . Skýrsla Bankasýslu ríkisins um starfsemi sína 2011.

45 . Hugtakið er notað með sérstökum hætti um fjármálafyrirtæki og ekki í hefðbundinni merkingu og hjá almennum félögum. Það er skilgreint í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Skammstöfunin CAD merkir Capital Adequacy Directive. Hugtökin eiginfjárhlutfall og CAD-hlutfall merkja í raun það sama og er oft vísað til CAD-hlutfalls til að taka af tvímæli um að átt sé við eiginfjárhlutfall í skilningi laga um fjármálafyrirtæki en ekki hefðbundið eiginfjárhlutfall annarra félaga sem er vel þekkt í reikningshaldi. Það er oft kallað bókfært eiginfjárhlutfall til aðgreiningar.

46 . Þessi ákvæði tóku hér gildi 1. janúar 2007, en þó höfðu sparisjóðirnir val um að fresta því um eitt ár að fara eftir þeim. Fjármálafyrirtækjum er skylt að senda Fjármálaeftirlitinu ársfjórðungslega svokallaða eiginfjárskýrslu. Skýrslan sem samin er eftir reglum nr. 215/2007 er gjarnan nefnd COREP-skýrsla. Árið 2007 skiluðu sjö sparisjóðir (þeir fjórir stóru ásamt dótturfélögum þeirra) COREP-skýrslu, en frá og með 2008 skiluðu allir COREP-skýrslu. Margir sparisjóðir héldu áfram að skila samhliða COREP-skýrslunni eiginfjárskýrslu samkvæmt eldri reglum, en á árinu 2011 voru þeir allir hættir því.

47 . Í skýringarlið nr. 28 í ársreikningi Byrs sparisjóðs fyrir árið 2006 segir: „Ef samruninn [Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra] hefði verið framkvæmdur með samlegðaraðferð hefði rekstrarhagnaður orðið 213 milljónum króna hærri í sameinuðum sjóði í samanburði við ársreikning BYR-sparisjóðs eins og hann er samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.“ Þetta gefur vísbendingu um hver afkoman hefur verið af Sparisjóði Hafnarfjarðar fyrstu fjóra mánuði ársins, en þess ber þó að gæta að þarna er átt við rekstrarhagnað en ekki hagnað, þ.e. eftir er að taka tillit til áhrifa tekjuskatts. Tekjuskattshlutfall á árinu 2006 var 18%.

48 . Í skýringarlið nr. 70 í samstæðuársreikningi Byrs sparisjóðs 2008 segir: „Hefði Sparisjóður Norðlendinga verið yfirtekinn í ársbyrjun 2008 væri afkoman 95 millj. kr. hærri.“

49 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar 12. október 2012.

50 . Skýrsla Samtaka fjármálafyrirtækja, „Sókn á öllum sviðum“, gefin út í tilefni af fyrsta aðalfundi samtakanna 26. apríl 2007.

51 . Við samanburð milli ára ber að hafa í huga að á árinu 2009 hættu Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóður Mýrasýslu starfsemi og eru því ekki meðtaldir í afkomutölum ársins. Á árinu 2010 var starfsemi Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík stöðvuð í sinni fyrri mynd og eru þeir því ekki meðtaldir í afkomutölum ársins. SpKef er heldur ekki tekinn með 2010, en tap hans á rúmum átta mánuðum nam samkvæmt óendurskoðuðum ársreikningi 1,5 milljörðum króna.

52 . Forsendur umreiknings yfir á fast verðlag er að finna aftar í kaflanum.

53 . Áætlun Fjármálaeftirlitsins byggir á tiltækum upplýsingum um eigið fé viðskiptabankanna þriggja í lok júní 2008 samkvæmt árshlutauppgjörum þeirra og eigin fé í lok árs 2008.

54 . Sjá nánar um fjárfestingar sparisjóðanna í 10. kafla og köflunum um umrædda sparisjóði.

55 . Nánar er fjallað um þetta hér aftar, þar sem greinir frá fjármögnun.

56 . Kynning Fjármálaeftirlitsins fyrir fjölmiðla um stöðu og horfur viðskiptabanka, 10. maí 2012.

57 . Rekstrarkostnaður ársins deilt með meðaltali heildareigna í upphafi og lok ársins.

58 . Íslandsbanki hf., Landsbankinn hf., Arion banki hf. og MP banki hf.

59 . Kynning Fjármálaeftirlitsins fyrir fjölmiðla um stöðu og horfur viðskiptabanka, 10. maí 2012.

60 . Kynning Fjármálaeftirlitsins á hálfsársuppgjöri viðskiptabankanna, „Margt áunnist – mörgu ólokið“, 20. október 2011.

61 . Sterkt fjármálakerfi – öflugt atvinnulíf. Ársrit Samtaka fjármálafyrirtækja, 2011.

62 . Meðallaunakostnaður samanstendur af launum, launatengdum gjöldum, þar með talið breytingu á lífeyrisskuldbindingu, og öðrum starfsmannatengdum kostnaði, þ.e. eins og kostnaðurinn kemur fram í ársreikningum viðkomandi sparisjóða og viðskiptabanka.

63 . Sbr. 3. gr. laga nr. 89/2006 um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög. Þá var ákvæðinu bætt við með nýrri 79. gr. a.

64 . Alþingistíðindi, 2005-2006, A-deild, bls. 2665.

65 . Sbr. 4. gr. laga nr. 76/2009 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Þar segir: „Að því leyti sem ekki er kveðið á um annað í lögum þessum skal beita ákvæðum laga um hlutafélög, nr. 2/1995, um sparisjóði, eftir því sem við getur átt.“

66 . Sbr. 42.–43. gr. laga nr. 75/2010 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, með síðari breytingum.

67 . Sbr. 43. gr. laga nr. 75/2010 um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

68 . Þetta ákvæði kom ekki inn fyrr en um mitt ár 2010 með 7. gr. laga nr. 68/2010 um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga (minnihlutavernd o.fl.).

69 . Yfirlit yfir hlutfall afskriftareiknings útlána af heildarútlánum á tímabilinu 2001–2011 hjá einstökum sparisjóðum má sjá í viðauka B. Umfjöllun er um útlán einstakra sparisjóða í köflunum um þá hvern fyrir sig.

70 . Sjá má afkomu einstakra sparisjóða af kjarnarekstri á tímabilinu 2001–2011 í viðauka B.

71 . Yfirlit um hvaða sparisjóðir voru starfandi á hverjum tíma má sjá í töflu 5 og töflu 6. Á árunum 2010 og 2011 voru tíu sparisjóðir starfandi. Fjórir stærstu sparisjóðirnir höfðu þá verið yfirteknir af Fjármálaeftirlitinu.

72 . Efnahagsreikningur Spkef sparisjóðs í árslok 2010 er ekki tekinn með í umfjöllunina, svo sem gerð er grein fyrir í upphafi kaflans. Heildareignir sparisjóðsins námu samkvæmt reikningnum rúmum 75 milljörðum króna, sem var töluvert meira en samanlagðar eignir annarra sparisjóða.

73 . Forsendur útreiknings á föstu verðlagi er að finna framar í kaflanum.

74 . Yfirlit yfir heildareignir einstakra sparisjóða í lok áranna 2001–2011 er að finna í viðauka B.

75 . Skýrslur Fjármálaeftirlitsins um heildarniðurstöður ársreikninga fjármálafyrirtækja og verðbréfa- og fjárfestingarsjóða 2001–2011.

76 . Ársskýrsla Fjármálaeftirlitsins 2005.

77 . Nánar er fjallað um fjáreignir sparisjóðanna í 10. kafla.

78 . Nánar er fjallað um fjármögnun sparisjóðanna í 11. kafla.

79 . Lög nr. 71/2001 um breytingu á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

80 . Hér er átt við reikningshaldsleg skil. Fjármálaeftirlitið samþykkti 19. september 2007 að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis uppfyllti öll lögformleg skilyrði til breytingar í hlutafélag frá og með 1. apríl 2007. Hlutabréf sparisjóðsins voru skráð á markað í október 2007.

81 . Hér er um vegið eiginfjárhlutfall (CAD) að ræða, þ.e. samanlagður eiginfjárgrunnur sparisjóðanna deilt með samanlögðum áhættugrunni þeirra.

82 . Um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna er fjallað í 13. kafla og um eigið fé einstakra sparisjóða í köflunum um hvern þeirra fyrir sig.

83 . Frá árinu 2004 var miðað við raunarðsemi. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

84 . Með lögum nr. 76/2009 var ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki breytt, þannig að arðgreiðsluhlutfallið miðaðist ekki lengur við raunarðsemi eigin fjár. Þá tók við sú regla að ekki mátti ráðstafa meira en 50% hagnaðar í arð.

85 . Um stofnfé og arðgreiðslur er fjallað nánar í 12. kafla og einnig í köflunum um einstaka sparisjóði.

86 . Sbr. 2. tölulið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 71/2001 um breytingu á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

87 . Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla og köflum um hvern sparisjóð fyrir sig.

88 . Félagið hét upphaflega SP-eignarhaldsfélag, síðan Meiður og loks Exista.

89 . Skýringin á því að samtala stofnfjár og hlutafjár var ekki hærri en þetta liggur í því að stofnfé í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis nam 20,5 milljörðum króna þegar honum var breytt í hlutafélag 31. mars 2007. Heildarhlutafé í sjóðnum eftir breytinguna nam hins vegar 5 milljörðum króna á nafnverði.

90 . Sbr. 24. gr. laga nr. 44/1915 um sparisjóði.

91 . Sbr. 27. gr. laga nr. 69/1941 um sparisjóði.

92 . Lög nr. 65/1982 um skattskyldu innlánsstofnana.

93 . Annars vegar var 4. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt sem undanþágu ríkisstofnanir, og hins vegar ákvæði í ýmsum sérlögum sem undanþágu einstakar stofnanir af þessu tagi opinberum gjöldum og sköttum, svo sem. 27. gr. laga nr. 69/1941 um sparisjóði.

94 . Alþingistíðindi, 1981–1982, A-deild, bls. 1682.

95 . Alþingistíðindi, 1981–1982, A-deild, bls. 1683.

96 . Sbr. 2. gr. laga nr. 51/1984 um breyting á lögum nr. 65/1982 um skattskyldu innlánsstofnana, sem breytti 3. gr. laganna.

97 . Enn var það 3. gr. laga nr. 65/1982 um skattskyldu innlánsstofnana sem var breytt, nú með 2. gr. laga nr. 56/1994 um breyting á lögum nr. 65/1982 um skattskyldu innlánsstofnana, með síðari breytingum.

98 . Lög nr. 129/2004 um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og fleiri lögum.

99 . Þskj. 213, 139. löggjafarþing 2010-2011 (enn óbirt í A-deild Alþingistíðinda).

100 . Sbr. lög nr. 73/2011 um ráðstafanir í ríkisfjármálum (í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga o.fl.).

101 . Sbr. lög nr. 164/2011 um ráðstafanir í ríkisfjármálum (aðgerðir í skattamálum, verðlagsbreytingar o.fl.).

102 . Lög nr. 165/2011 um fjársýsluskatt.

103 . Þskj. 198, 140. löggjafarþing 2011-2012 (enn óbirt í A-deild Alþingistíðinda).

104 . Lög nr. 112/1978 um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.

105 . Sbr. lög nr. 124/1993 um breyting á lögum nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Lög nr. 90/1990 voru endurútgefin í samræmi við lög nr. 124/1993 sem lög nr. 4/1995.