Æaviágrip nefndarmanna

Páll Hreinsson er fæddur í Reykjavík 20. febrúar 1963.

Menntun: Cand. jur. frá Háskóla Íslands í júní 1988. Stundaði framhaldsnám í stjórnsýslurétti og stjórnsýslufræðum við Hafnarháskóla 1990-1991. Dr. juris frá Háskóla Íslands í febrúar 2005.

Starfsferill: Fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík frá 1988-1991. Aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis frá 1991-1997. Dósent í lögum við lagadeild Háskóla Íslands 1. september 1997. Prófessor í lögum við lagadeild Háskóla Íslands 15. ágúst 1999 þar af varadeildarforseti frá 1. júlí 2002 til 30. júní 2005 og deildarforseti frá 1. júlí 2005 til 1. september 2007. Hæstaréttardómari frá 1. september 2007.

Fræðistörf: Hefur skrifað nokkur fræðirit auk fjölmargra ritrýndra fræðiritgerða svo og álitsgerðir á sviði lögfræði.

Önnur störf að stjórnsýslu: Hefur átt sæti í fjölda nefnda á vegum Háskóla Íslands svo og nefndum á vegum stjórnarráðs eða Alþingis sem haft hafa það hlutverk að semja lagafrumvörp. Umfangsmest af þessum störfum var seta í stjórnarfarsnefnd sem skipuð var af forsætisráðherra og starfaði frá árinu 1992 til 1995 og samdi frumvarp til stjórnsýslulaga og upplýsingalaga.Var jafnframt skipaður formaður tölvunefndar frá 1. september 1999 til 1. júní 2000 en þá skipaður formaður stjórnar Persónuverndar. Formaður úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 1. janúar 2005 til 1. september 2008. Skipaður formaður nefndar til að annast skoðun gagna, sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945-1991 í vörslu opinberra aðila og ákveða frjálsan aðgang fræðimanna að þeim. Skipaður af dóms- og kirkjumálaráðherra formaður sérstakrar rannsóknarnefndar til að kanna sjálfsvíg þriggja fanga á Litla-Hrauni árið 1999.

Upplýsingar um hlutabréfaeign, starfsleg tengsl o.fl. skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 142/2008: Páll Hreinsson hefur hvorki átt hlutabréf í fjármálafyrirtækjum né félögum sem átt hafa hlut í þeim. Viðskiptabanki hans er Glitnir og fékk hann fasteignaveðlán hjá honum 26. október 2004 og eru eftirstöðvar þess með verðbótum um 6.400.000 krónur. Ein af þeim lögfræðilegu álitsgerðum sem Páll hefur ritað var fyrir KB rekstrarfélag um fagfjárfestasjóði á árinu 2004. Fyrrverandi maki Páls, Lára Sverrisdóttir (þau skildu í ágúst 2005), vann árin 2005 til 2007 hjá Kaupþing Banka hf. og stjórnaði þróun og innleiðingu lánshæfismats og áhættumatskerfa jafnframt sem hún átti sæti í þremur lánanefndum bankans. Hún vann árin 1999 til 2004 hjá Glitni hf. fyrst sem viðskiptastjóri útbús í Lækjargötu og síðan sem lánastjóri í höfuðstöðvum bankans. Komi til þess að einhver þáttur rannsóknarinnar lúti að fyrrnefndum störfum Páls, fyrrverandi maka hans eða öðrum honum nákomnum mun hann víkja sæti í samræmi við reglu 3. gr. laga nr. 142/2008, sbr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Tryggvi Gunnarsson er fæddur í Reykjavík 10. júní 1955.

Menntun: Cand. jur. frá lagadeild Háskóla Íslands 1982. Stundaði framhaldsnám í eignarétti við háskólann í Osló 1986-1987. Réttindi héraðsdómslögmanns 14. júní 1984 og hæstaréttarlögmanns 14. febrúar 1990.

Starfsferill: Blaðamaður við Morgunblaðið frá júní 1976 til september 1977 og einnig samhliða námi og á sumrin 1975-80. Starfaði sem fulltrúi og deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu 1982-1984, aðstoðarmaður hæstaréttardómara 1984-1986, fulltrúi sérstaks ríkissaksóknara í Hafskips- og Útvegsbankamálinu frá 1. september 1987 til 14. mars 1988. Settur borgardómari í Reykjavík frá 15. mars til 31. desember 1988 og aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis árið 1989. Rak lögmannsstofu í Reykjavík í félagi við aðra á árunum 1990 til október 1998, síðast A&P Lögmenn. Var settur umboðsmaður Alþingis frá 1. nóvember 1998 til 31. desember 1999 en hefur frá 1. janúar 2000 verið kjörinn af Alþingi sem umboðsmaður Alþingis. Stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands, einkum í fjármunarétti, frá 1985 til 1998.

Fræðistörf: Hefur skrifað greinar um lögfræðileg málefni og um starf umboðsmanns Alþingis.

Önnur störf að stjórnsýslu: Áður en Tryggvi tók við starfi umboðsmanns Alþingis hafði hann setið í ýmsum nefndum, unnið að undirbúningi lagafrumvarpa og veitt stjórnvöldum og nefndum Alþingis ráðgjöf. Eftir að Tryggvi tók við starfi umboðsmanns Alþingis hefur hann ekki sinnt neinum störfum í þágu stjórnsýslunnar eða annarra enda umboðsmanni óheimilt samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkafyrirtækja nema með samþykki forseta Alþingis. Slíkt leyfi hefur aðeins verið veitt vegna kennslu á stuttum námskeiðum um stjórnsýslurétt og málefni stjórnsýslunnar.

Upplýsingar um hlutabréfaeign, starfsleg tengsl o.fl. skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 142/2008: Tryggvi Gunnarsson hefur hvorki átt hlutabréf í fjármálafyrirtækjum né félögum sem átt hafa hlut í þeim. Þá hefur hann ekki skuldað fjármálafyrirtækjum sem aðgerðir stjórnvalda samkvæmt lögum nr. 125/2008 hafa tekið til yfir 5 milljónir kr. á síðustu fimm árum. Viðskiptabanki hans er SPRON. Meðal verkefna sem Tryggvi sinnti sem lögmaður á árunum 1990 til 1998 voru lögfræðistörf í þágu Landsbanka Íslands og þá sérstaklega vegna uppgjörs skulda og sölu áður eigna Sambands íslenskra samvinnufélaga og dótturfélaga. Sonur Tryggva, Gunnar Smári, starfaði sem verðbréfamiðlari hjá Landsbanka Íslands hf. 2007 til 2008 og sambýliskona Gunnars Smára, Íris Björk Hreinsdóttir, starfaði hjá Fjármálaeftirlitinu frá maí 2006 til september 2009. Komi til þess að einhver þáttur rannsóknarinnar lúti að fyrrnefndum störfum Tryggva, þeirra sem nefndir eru hér eða öðrum honum nákomnum mun hann víkja sæti í samræmi við reglu 3. gr. laga nr. 142/2008, sbr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sigríður Benediktsdóttir er fædd í Hafnarfirði 26. apríl 1972.

Menntun: Ph.D. í hagfræði frá Yale-háskóla í maí 2005, BS í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands í júní 1998 og BS í hagfræði frá Háskóla Íslands í október 1995.

Starfsferill: Kennari og aðstoðarmaður skorarformanns (associate chair) við hagfræðideild Yale Háskóla júlí 2007 þar til nú. Hagfræðingur hjá Bankastjórn Seðlabanka Bandaríkjanna frá ágúst 2005 til júlí 2007, hjá alþjóðafjármáladeild.

Fræðistörf: Hefur skrifað fræðiritgerðir á sviði hagfræði, mest með áherslu á fjármálamarkaði og notkun hátíðnigagna.

Upplýsingar um hlutabréfaeign, starfsleg tengsl o.fl. skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 142/2008: Sigríður Benediktsdóttir hefur hvorki átt hlutabréf í fjármálafyrirtækjum né félögum sem átt hafa hlut í þeim. Sigríður hefur heldur ekki fengið lán hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum. Faðir, Benedikt Guðbjartsson, var forstöðumaður í lögfræðideild Landsbanka Íslands þar til á árinu 2003. Komi til þess að einhver þáttur rannsóknarinnar lúti að störfum eða hagsmunum einstaklings henni nákominni mun hún víkja sæti í samræmi við reglu 3. gr. laga nr. 142/2008, sbr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.