22. kafli Tilkynningar á grundvelli 14. gr. laga nr. 142/2008

22.1 Inngangur

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 142/2008 tilkynnir rannsóknarnefnd Alþingis ríkissaksóknara ef grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað og tekur hann ákvörðun um hvort rannsaka beri málið í samræmi við lög um meðferð sakamála. Í athugasemdum við 14. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 142/2008 segir að það sé ekki hlutverk nefndarinnar að rannsaka hugsanlega refsiverða háttsemi. Hins vegar kunni að koma fram upplýsingar við rannsóknina sem geti vakið grunsemdir um að brot hafi verið framið. Í slíkum tilvikum sé lögð tilkynningarskylda á nefndina enda teljist brotið að mati hennar alvarlegt. Jafnframt segir að þessi fyrirvari sé settur til að auðvelda nefndinni að ná markmiðum laganna á tilsettum tíma. Grunsemdir um refsiverða háttsemi geti vaknað við skoðun á gögnum frá fjármálafyrirtækjunum og einnig við rannsókn á stjórnvöldum.Tilkynningu af þessu tagi skuli beint til ríkissaksóknara sem síðan ákveði í hvaða farveg málið skuli lagt.

Meginatriði rannsókna nefndarinnar lúta að aðdraganda að falli bankanna haustið 2008 og orsökum þess.Við þá rannsókn og lýsingu á atburðum komu í ljós ýmsir samningar og ákvarðanir sem teknar höfðu verið hjá bönkunum þar sem grunur gat leikið á að settum reglum, sem viðurlög liggja við ef brotnar eru, hefði ekki verið fylgt. Þar sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki á hendi sakamálarannsókn hefur hún ekki fylgt slíkum málum eftir með slíkri rannsókn.Tilgangur ákvæða fyrrnefndrar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 142/2008 er að rannsóknarnefndin veki athygli á slíkri háttsemi. Að öðru leyti verður það að vera hlutverk ríkissaksóknara að fara yfir umfjöllun nefndarinnar í skýrslunni og meta hvar ástæða er til að fylgja málum eftir með rannsókn í samræmi við lög um meðferð sakamála.

Skömmu eftir að rannsóknarnefnd Alþingis hóf störf á árinu 2009 fékk hún aðgang að endurskoðunarskýrslum sem teknar höfðu verið saman að tilhlutan Fjármálaeftirlitsins um þá banka sem féllu í október 2008 og lutu að starfsemi þeirra síðustu misserin fyrir fall þeirra. Í þeim voru tíunduð ýmis tilvik sem að mati nefndarinnar gátu verið tilefni til opinberrar rannsóknar. Nefndin reyndi að stuðla að því fyrir sitt leyti að þessi mál bærust sem fyrst til sérstaks saksóknara en rannsókn á þeim hafði þá verið hafin hjá Fjármálaeftirlitinu. Af hálfu rannsóknarnefndar er litið svo á að þau mál sem koma fram í fyrrnefndum endurskoðunarskýrslum séu nú þegar til rannsóknar í eðlilegum farvegi og tekur nefndin þau því ekki upp í tilkynningu sína.

Í samræmi við áðurnefnda lagaskyldu hefur rannsóknarnefnd Alþingis séð ástæðu til að vekja athygli ríkissaksóknara á þeim atriðum sem talin eru upp hér á eftir.

22.2 Stjórnir og framkvæmdastjórar þeirra fjármálafyrirtækja sem rannsókn nefndarinnar tók til

Samkvæmt 50. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gilda ákvæði laga um hlutafélög um stjórn fjármálafyrirtækis sé ekki á annan veg mælt fyrir í lögum. Samkvæmt 1. og 3. mgr. 68. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 fer félagsstjórn með málefni félagsins og skal annast um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Félagsstjórn og framkvæmdastjóri fara með stjórn félagsins. Félagsstjórn skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana félagsstjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilvikum skal félagsstjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina, sbr. 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Brot á þessum starfsskyldum geta varðað stjórnendur og framkvæmdastjóra bæði bótaskyldu og refsiábyrgð, sbr. XV. og XVIII. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

Í samþykktum fjármálafyrirtækis skal kveðið á um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra sem skal taka mið af ákvæðum hlutafélagalaga. Stjórn skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa hennar. Í reglum þessum skal fjallað sérstaklega um heimildir stjórnar til að taka ákvarðanir um einstök viðskipti, framkvæmd reglna um sérstakt hæfi stjórnarmanna, meðferð stjórnar á upplýsingum um einstaka viðskiptamenn, setu stjórnarmanna í stjórnum dótturfyrirtækja og hlutdeildarfélaga, og framkvæmd reglna um meðferð viðskiptaerinda stjórnarmanna. Reglur þessar skal senda til Fjármálaeftirlitsins, sbr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Stjórn fjármálafyrirtækis skal ekki taka þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti nema umfang þeirra sé verulegt miðað við stærð fyrirtækisins. Einstakir stjórnarmenn skulu ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 161/2002. Þá skulu stjórnarmenn ekki taka þátt í meðferð máls ef það varðar þá sjálfa eða aðra þá aðila sem nánar eru taldir upp í 2. mgr. 55. gr. laganna. Framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis er óheimilt að sitja í stjórn atvinnufyrirtækis og taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti. Stjórn fyrirtækis getur veitt heimild til slíks á grundvelli reglna sem hún setur og Fjármálaeftirlitið staðfestir. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri, nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórnun þess, sbr. 56. gr. sömu laga. Samningur fjármálafyrirtækis um lán, ábyrgðir, kauprétt eða sambærileg viðskipti við framkvæmdastjóra er háður samþykki stjórnar fyrirtækisins. Ákvörðun um slíkt skal bókuð. Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um maka framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis, sbr. 57. gr. sömu laga.

Stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Ársreikningur skal undirritaður af stjórn og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni. Þá skal stjórn semja skýrslu sem ásamt ársreikningi mynda eina heild, sbr. 87. gr. sömu laga. Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit yfir starfsemi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu hlutaðeigandi fyrirtækis og afkomu þess á reikningsárinu er ekki koma fram í ársreikningnum, sbr. 1. mgr. 89. gr. sömu laga. Brot á ákvæðum 2. mgr. 54. gr., 2. mgr. 55. gr., 56., 57., 87. og 89. gr. varða stjórnvaldssektum, sbr. 110. gr. laga nr. 161/2002. Brot á fimm síðast nefndu ákvæðunum varða hins vegar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef þau eru meiri háttar, sbr. 112. gr. b. sömu laga.

Í XII. kafla laga nr. 3/2006 um ársreikninga er m.a. mælt fyrir um refsingar stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, en fjármálafyrirtæki falla undir þau lög, sbr. 1. gr. þeirra. Hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn ákvæðum laganna á þann hátt sem lýst er í 122.–125. gr. skal sæta fésektum, en brot gegn 121. gr. og önnur meiri háttar brot gegn 122. og 123. gr. varða fangelsi allt að sex árum skv. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga eða fésektum ef málsbætur eru miklar, sbr. 120. gr. laga nr. 3/2006. Þannig varðar það fangelsi allt að sex árum ef stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri rangfærir ársreikning, samstæðureikning eða einstaka hluta þeirra, byggir ekki samningu þeirra á niðurstöðu bókhalds eða lætur rangar eða villandi skýringar fylgja, enda varði brotið ekki við 158. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. mgr. 121. gr. laganna.

Eins og vikið er að í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 142/2008 sinnir rannsóknarnefnd ekki rannsóknum sakamála.Af hálfu nefndarinnar hefur því ekki verið rannsakað hvort refsiskilyrði framangreindra ákvæða eru uppfyllt.Við rannsókn nefndarinnar hefur hins vegar komið í ljós að reglum um starfsemi bankanna hefur ekki verið fylgt í öllum tilvikum og því telur nefndin tilefni til þess að rannsakað verði hvort stjórn og framkvæmdastjórar þeirra fjármálafyrirtækja, sem féllu haustið 2008 og í upphafi árs 2009, hafi brotið starfsskyldur sínar við stjórnun og eftirlit þannig að refsingu varði. Í þessu sambandi skal bent á að í skýrslunni eru rakin dæmi um annmarka á reikningsskilum fjármálafyrirtækjanna í köflum 7, 10 og 11. Þá eru rakin tilvik í köflum 22.3–22.7 hér á eftir sem varða háttsemi sem höfð var uppi í starfsemi fjármálafyrirtækjanna og þörf er á að rannsaka nánar.

22.3 Fjármögnun bankanna

Í kafla 7 er farið yfir fjármögnun bankanna. Í kafla 7.3.6.4 er fjallað um skuldatryggingakaup Icebank hf. af viðskiptavinum sínum. Þar er vikið að dæmi um að Icebank hf. hafi keypt skuldatryggingu fyrir skuldabréf að fjárhæð 8.000 milljónir króna af fyrirtæki sem var með eigið fé er nam 105 milljónum króna í árslok 2007. Líkurnar á því að fyrirtækið gæti bætt Icebank 8.000 milljónir króna voru því nánast engar. Icebank hf. gat hins vegar notað slíka samninga í bækur sínar með þeim hætti að ekki var lengur litið á umrætt skuldabréf sem markaðsáhættu Icebank hf. en það hafði aftur áhrif á útreikning á eiginfjárhlutfalli bankans. Rannsóknarnefnd telur tilefni til rannsóknar á því hvort málamyndagerningar hafi verið notaðir til þess að tryggja að Icebank hf. uppfyllti lágmarkskröfur laga um eiginfjárhlutfall.

Einnig telur rannsóknarnefndin ástæðu til að benda á háttsemi Kaupþings sem milliliðar og lánveitanda við sölu á skuldatryggingum á sjálfan sig í september. Útgefandi lánshæfistengda skuldabréfsins var erlendur banki (þ.e. kaupandi skuldatryggingar), en kaupendur skuldabréfsins og þar með seljendur skuldatryggingarinnar voru stórir viðskiptavinir Kaupþings. Eins og fram kemur í kafla 7.3.6.3. gátu viðskiptavinir Kaupþings aðeins grætt á viðkomandi viðskiptum á meðan áhættan lá alfarið hjá bankanum. Rannsóknarnefnd telur tilefni til að þessi viðskipti verði rannsökuð nánar í ljósi þess hvort vera kunni að um auðgunarbrot sé að ræða.

22.4 Útlán íslensku bankanna

Í kafla 8 er leitast við að gefa mynd af útlánum stóru bankanna þriggja, Glitnis banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf., fyrir fall þeirra. Í kafla 8.12 eru birtar niðurstöður úr sjálfstæðri úttekt sem unnin var á vegum rannsóknarnefndarinnar, undir stjórn löggiltra endurskoðenda sem störfuðu hjá nefndinni, um þróun lánveitinga og fyrirgreiðslu til nokkurra af stærstu viðskiptavinum fjármálafyrirtækjanna á tímabilinu frá 1. janúar 2007 til október 2008.

Fyrir koma dæmi um lánveitingar til fyrirtækja, sem erfitt er að sjá hvernig standa eigi undir greiðslum á lánunum, til kaupa á hlutabréfum á tímamarki þar sem það virðist hafa verið hagsmunamál fyrir bankann að halda uppi verði umræddra hlutabréfa. Þannig leikur grunur á að um markaðsmisnotkun kunni að hafa verið að ræða. Í þessu sambandi má nefna lán Kaupþings til Desulo Trading Ltd. til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi sem vikið er að í köflum 8.9 og 12. Hér má einnig nefna lán Kaupþings til Caramba í september 2008 til kaupa á hlutum í Exista sem vikið er að í kafla 8.11.

Í ljósi ákvæða 55. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995, sbr. 2. mgr. 153. gr., vekur rannsóknarnefnd Alþingis athygli á umfjöllun í kafla 8.5.6 þar sem ráða má að Glitnir banki hf., Kaupþing banki hf. og Landsbanki Íslands hf. hafi á árinu 2008 verið komnir með veð í eigin bréfum langt umfram 10% hámarkið sem sett er fram í 55. gr. hlutafélagalaga. Í lok september 2008 má sem dæmi nefna að verðmæti veða Kaupþings í eigin bréfum voru 214 milljarðar sem nam tæpum 42% af öllum hlutabréfum bankans.Að mati rannsóknarnefndar er þörf á frekari rannsókn á því hvort með þessari háttsemi hafi fjármálafyrirtækin farið út fyrir þær undantekningarreglur sem um getur í 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Þá vekur rannsóknarnefnd athygli á rammagrein um fyrirtækið 1998 í kafla 8.7 og bendir á að af þeim gögnum sem hún hefur kynnt sér verði ekki annað séð en að sú aðferð sem þar var viðhöfð við kaup Baugs á eigin hlutabréfum hafi verið til þess fallin að rýra hagsmuni og stöðu annarra fjármálafyrirtækja en Kaupþings banka hf. sem áttu kröfur á Baug og rannsókn nefndarinnar tekur til.

Í kafla 8.9.3.1. kemur fram að fyrirtækin Glúx ehf. og Consensus ehf. hafi verið með framvirka samninga um skuldabréf útgefin af FL Group. Samningurinn við Glúx ehf. nam 2 milljörðum króna, en félagið er hvorki með eignir né skuldir í lok árs 2007 samkvæmt rekstrarframtali félagsins sem skilað var til ríkisskattstjóra. Samkvæmt veðtöflu Glitnis voru veð sem námu 140 milljónum króna veitt sem trygging fyrir viðskiptunum. Samningur Consensus ehf. nam 8 milljörðum króna, en það félag er skráð án eigna og með 117 þúsund króna skuldir í lok árs 2007 samkvæmt rekstrarframtali. Samkvæmt veðtöflu Glitnis lagði Consensus fram 580 milljörðum króna víxil útgefinn af Icebank til tryggingar viðskiptunum. Þar með er eiginfjárframlagið lán frá Icebank. Rannsóknarnefndin hefur gögn um það að starfsmenn Icebank hafi verið sér þess meðvitaðir. Rannsóknarnefndin telur grun leika á að þessi viðskipti hafi farið fram með það að markmiði að lána FL Group 10 milljarða króna án þess að telja það til áhættu Glitnis banka hf.Til þess að áhættan væri hins vegar sannarlega ekki Glitnis hefðu þessi félög þurft að vera nógu sterk til þess að þola greiðslufall FL Group.

Þegar unnið var úr þeim upplýsingum sem fram koma í kafla 8.12 um útlán til 46 samstæðna komu í ljós dæmi um það að við lánveitingar hefðu fjármálafyrirtækin ekki fylgt reglum sínum um áhættumat, innri verkferlum, þ.m.t. umfjöllun lánanefnda, svo og viðmiðum um tryggingar. Í mörgum tilvikum áttu þá í hlut stærstu eigendur bankanna. Þá var viðmiðum um veðköll heldur ekki alltaf fylgt þegar um stóra eigendur bankanna var að ræða. Ennfremur voru gríðarlegar fjárhæðir lánaðar eignarhaldsfélögum sem oft áttu ekki meira eigið fé en 500 þúsund krónur sem lagðar höfðu verið fram við stofnun einkahlutafélagsins. Engu að síður var oft látið nægja að taka veð í þeim hlutabréfum sem slíkum félögum hafði verið lánað til kaupa á.Var aðstaðan þá oft sú að yrði um greiðslufall að ræða og verðmæti hlutabréfanna hrökk ekki fyrir skuldinni hafði bankinn ekki möguleika til að ganga að öðrum eignum til efnda á greiðslu lánsins. Í nokkrum tilvikum voru aðstæður við lánveitingu þannig að fyrirsjáanlega voru litlar líkur á skilvísum efndum af hálfu lántaka, hvað þá að takast mætti að innheimta skuldina vegna haldlítilla trygginga og bágrar eignastöðu lántaka. Loks eru dæmi um að við lánveitingar hafi fjármálafyrirtækin brotið reglur um stórar áhættur.

22.5 Atriði sem tengjast hvatakerfum bankanna

Í kafla 10 er fjallað um hvatakerfi bankanna og hvaða kerfi voru notuð við árangurstengingu launa. Rannsóknarnefnd Alþingis telur ástæðu til að rannsakað verði hvort samningum um kauprétti við starfsmenn og framkvæmd þeirra hafi verið hagað með þeim hætti að markaðsmisnotkun hafi átt sér stað. Eins og nánar er vikið að í kafla 10.4 má t.d. leiða að því líkur að sú ráðstöfun Landsbanka Íslands hf. að verða ekki við innlausn kaupréttarsamninga starfsmanna sem voru á innlausn 1. desember 2007 og næstu 90 daga þar á eftir kunni að hafa komið í veg fyrir lækkun á verði hlutabréfa Landsbankans á markaði. Með ráðstöfunum sínum kom Landsbankinn í veg fyrir að starfsmenn fengju að kaupa hlutabréfin á umsömdu verði en slíkt hefði fyrirsjáanlega myndað söluþrýsting á verð hlutabréfa í bankanum ef starfsmenn innleystu hagnað sinn vegna þeirra.

Í lok kafla 10 er gerð grein fyrir rannsókn nefndarinnar sem gerð var á lánum til félaga í eigu stjórnenda fjármálafyrirtækja til kaupa á hlutabréfum í hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki. Ekki reyndist unnt að gera slíka rannsókn á SPRON þar sem skilanefnd og slitastjórn báru við tímaskorti og tæknilegum vandkvæðum á því að afhenda gögnin. Þessi svör bárust nefndinni svo seint að henni reyndist ekki unnt að senda starfsmenn sína til þess að vinna að úttekt á þessum upplýsingum og staðreyna að svörin væru byggð á málefnalegum ástæðum. Af þeim sökum telur rannsóknarnefnd ástæðu til að vekja athygli á því í tilkynningu sinni til ríkissaksóknara að sambærileg rannsókn liggur ekki fyrir á lánum til félaga í eigu stjórnenda SPRON til kaupa á hlutabréfum í SPRON.

22.6 Veltubókarviðskipti stóru bankanna þriggja með eigin bréf

Rannsóknir nefndarinnar sem birtar eru í kafla 12 gefa nefndinni tilefni til þess að tilkynna ríkissaksóknara að ástæða sé til að tekið verði til opinberrar rannsóknar hvort deildir eigin viðskipta hjá stóru bönkunum þremur hafi tryggt óeðlilegt verð á hlutabréfum í hlutaðeigandi banka eða hvort viðskiptahættir bankanna hafi á einhvern annan hátt stuðlað að því að rangar eða misvísandi upplýsingar væru gefnar um framboð, eftirspurn eða verð hlutabréfanna. Í því sambandi er rétt að taka fram að margar af þeim lánveitingum til hlutabréfakaupa í bönkunum sjálfum sem áttu sér stað síðla árs 2007 og allt árið 2008 virðast hafa verið til þess fallnar að auka svigrúm veltubóka bankanna til frekari hlutabréfakaupa og það vekur athygli að þess var ekki gætt í öllum tilfellum að koma í veg fyrir að bankinn bæri alla áhættuna af verðbreytingum bréfanna.

22.7 Gjaldeyrisviðskipti

Allir stóru bankarnir þrír tóku að verja eiginfjárhlutfall sitt gagnvart gengisbreytingum íslensku krónunnar í auknum mæli síðustu tvö árin fyrir fall bankanna enda var æ stærri hluti af bæði eignum og skuldum þeirra í erlendum gjaldmiðlum. Í þeirri rannsókn sem gerð er grein fyrir í kafla 13 vakti það sérstaka athygli rannsóknarnefndarinnar að á því tæpa tveggja ára tímabili sem hér var til skoðunar var Kaupþing stór nettó kaupandi gjaldeyris á millibankamarkaði á meðan Landsbanki Íslands veitti miklu magni gjaldeyris út á markaðinn. Eins og fram kemur í kaflanum var Kaupþing ekki eingöngu að kaupa fyrir eigin reikning heldur einnig í miklum mæli fyrir hönd stærstu viðskiptavina sinna. Frá því í nóvember 2007 og fram í janúar 2008 keyptu þannig fimm innlend fyrirtæki, það er Exista, Kjalar, Baugur og tvö félög tengd Baugi, 1.392 milljónir evra í framvirkum samningum og stundarviðskiptum við íslensku bankana. Meiri hluta þess gjaldeyris keyptu þau af Kaupþingi. Þar sem þessi viðskipti voru mjög umfangsmikil miðað við fyrri viðskipti flestra þessara fyrirtækja telur rannsóknarnefnd ástæðu til að tilkynna þetta til ríkissaksóknara þar sem grunur leikur á að um markaðsmisnotkun hafi verið að ræða.

22.8 Löggiltir endurskoðendur þeirra fjármálafyrirtækja sem rannsókn nefndarinnar tók til

Samkvæmt 90. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki skal ársreikningur fjármálafyrirtækis endurskoðaður af endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi sem kjörið skal á aðalfundi fjármálafyrirtækis til eins árs í senn. Samkvæmt 93. gr. sömu laga skal Fjármálaeftirlitið sjá til þess í samráði við Félag löggiltra endurskoðenda og aðra hlutaðeigandi aðila að á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri endurskoðunarvenju við endurskoðun hjá fjármálafyrirtækjum. Þá skal Fjármálaeftirlitið setja reglur um endurskoðun fjármálafyrirtækja. Að öðru leyti en fram kemur í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gilda um endurskoðun þeirra ákvæði IX. kafla laga nr. 3/2006 um ársreikninga.

Á framangreindum grundvelli hefur Fjármálaeftirlitið sett reglur nr. 532/2003 um endurskoðun fjármálafyrirtækja. Í 2. mgr. 1. gr. þeirra kemur fram að reglurnar séu skilgreining á meginatriðum í góðri endurskoðunarvenju hjá fjármálafyrirtækjum á grundvelli 93. gr. laga nr. 161/2002 sem áður var minnst á. Þá séu reglurnar einnig leiðbeinandi hvað varðar skipulagningu, framkvæmd og áritun um könnun á árshlutareikningum fjármálafyrirtækja. Samkvæmt 1. gr. reglnanna gilda þær um endurskoðun fjármálafyrirtækja, þ.e. viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, rafeyrisfyrirtækja, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana og rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Nánari grein er gerð fyrir þessum reglum í kafla 11.2.2.

Verði endurskoðandi var við verulega ágalla á rekstri eða atriði er varða innra eftirlit, greiðslutryggingar útlána, önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu hlutaðeigandi fyrirtækis eða atriði sem leiða til þess að hann myndi synja um áritun eða gera fyrirvara svo og ef endurskoðandi hefur ástæðu til að ætla að lög, reglugerðir eða reglur, sem gilda um fyrirtækið, hafi verið brotnar, skal hann gera stjórn þess og Fjármálaeftirlitinu viðvart. Þetta á einnig við um sambærileg atriði sem endurskoðandi fær vitneskju um og varða fyrirtæki í nánum tengslum við hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki, sbr. 9. gr. reglna 532/2003. Þetta ákvæði reglnanna er nánast samhljóða 92. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 104. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga skulu endurskoðendur að lokinni endurskoðun árita ársreikning og einnig samstæðureikning ef hann er saminn og skal áritunin fylgja ársreikningnum. Í árituninni skal koma fram að ársreikningurinn eða samstæðureikningurinn hafi verið endurskoðaður. Þá skal koma fram álit endurskoðenda á því hvort ársreikningurinn eða samstæðureikningurinn sé saminn í samræmi við ákvæði laga og settar reikningsskilareglur, svo og greinargerð um niðurstöðu endurskoðunarinnar að öðru leyti. Ef endurskoðendur telja að ekki beri að samþykkja ársreikninginn skulu þeir taka það fram sérstaklega. Nánast samhljóða reglur koma fram í 1. mgr. 12. gr. reglna nr. 532/2003 um endurskoðun fjármálafyrirtækja.

Áritun löggilts endurskoðanda á reikningsskil er almennt talin fela efnislega í sér, nema annað sé tekið fram með árituninni, að reikningsskilin hafi verið endurskoðuð af honum og í 8. gr. laga nr. 18/1997 um endurskoðendur sagði að áritunin þýddi, nema annað kæmi fram af henni, að reikningsskilin hefðu verið endurskoðuð af viðkomandi endurskoðanda "í samræmi við góða endurskoðunarvenju og að reikningsskilin [gæfu] að hans mati glögga mynd af hag og afkomu aðila í samræmi við góða reikningsskilavenju".

Samkvæmt 123. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga geta endurskoðendur gerst sekir um refsiverð brot gegn þeim lögum með athöfnum eða athafnaleysi:

1. Ef þeir taka að sér að framkvæma endurskoðun án þess að uppfylla hæfisskilyrði laganna.

2. Ef þeir haga störfum sínum andstætt ákvæðum laga nr. 3/2006 um reikningsskil eða í ósamræmi við góða endurskoðunarvenju.

3. Ef þeir með áritun sinni gefa rangar eða villandi upplýsingar eða láta hjá líða að geta um mikilsverð atriði er snerta rekstrarafkomu eða efnahag félagsins.

Hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn þessum ákvæðum skal sæta fésektum, en meiri háttar brot varða fangelsi allt að sex árum skv. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga eða fésektum ef málsbætur eru miklar, sbr. 120. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga.

Brot gegn lögum nr. 79/2008 um endurskoðendur og reglum sem settar verða samkvæmt þeim varða sektum til ríkissjóðs, niðurfellingu réttinda eða fangelsi allt að 2 árum, nema þyngri hegning liggi við samkvæmt öðrum lögum hvort sem brotin eru framin af ásetningi eða gáleysi.

Brot gegn ákvæði 92. gr. laga nr. 161/2002 um tilkynningarskyldu endurskoðenda til Fjármálaeftirlitsins varðar stjórnvaldssektum, sbr. 110. gr. nefndra laga en sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef þau eru meiri háttar, sbr. 112. gr. b. sömu laga.

Eins og vikið er að í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 142/2008 sinnir rannsóknarnefnd ekki rannsóknum sakamála.Af hálfu nefndarinnar hefur því ekki verið rannsakað hvort refsiskilyrði framangreindra ákvæða eru uppfyllt.Við rannsókn sína hefur nefndin hins vegar séð ástæðu til að gera athugasemdir við ákveðna þætti í vinnu endurskoðenda fjármálafyrirtækjanna eins og vikið er að í kafla 11.2. og köflum 7 og 10.

Það er álit rannsóknarnefndarinnar að skort hafi á að endurskoðendur sinntu nægilega skyldum sínum við endurskoðun reikningsskila fjármálafyrirtækjanna árið 2007 og við hálfsársuppgjör 2008, að því er varðar rannsókn þeirra og mat á virði útlána til stærstu viðskiptaaðila fyrirtækjanna, meðferð á hlutabréfaeign starfsmanna og fyrirgreiðslu fjármálafyrirtækja til kaupa á hlutabréfum í sjálfum sér. Í þessu sambandi verður að árétta að aðstæður höfðu á þessum tíma þróast með þeim hætti að tilefni var til þess að gefa þessum atriðum sérstakan gaum.

Þá virðast athuganir endurskoðenda að öðru leyti ekki hafa verið nægilega markvissar. Hér má sem dæmi nefna, eins og vikið er að í kafla 10, að rekstrarkostnaður útibús Kaupþings í Lundúnum, sem virðist aðallega hafa verið starfrækt utan um stjórnarformanninn, Sigurð Einarsson, virðist hvorki hafa verið undir eftirliti innri eða ytri endurskoðenda Kaupþings banka hf.

Rannsóknarnefnd Alþingis telur tilefni til þess að rannsakað verði hvort endurskoðendur þeirra fjármálafyrirtækja sem féllu haustið 2008 og í upphafi árs 2009 hafi brotið starfsskyldur sínar við endurskoðun þessara fjármálafyrirtækja þannig að refsingu varði.

22.9 Verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir

Eins og nánar er vikið að í kafla 14 eru fjárfestingarsjóðir og verðbréfasjóðir sjóðir sem taka við fé frá almenningi, fyrirtækjum og fagfjárfestum til sameiginlegrar fjárfestingar. Sjóðunum er ætlað að fjárfesta í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrirfram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Fyrirkomulagið er í meginatriðum þannig að sérstakt rekstrarfélag sér um rekstur sjóðanna en félagið gefur út hlutdeildarskírteini til eigenda að sjóðunum.

Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn áttu allir rekstrarfélög sem voru dótturfélög þeirra, þ.e. Glitnir sjóðir hf., Rekstrarfélag Kaupþings banka hf. og Landsvaki hf. Við fall bankanna voru verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir rekstrarfélaganna þriggja samtals 94. Um starfsemi þessara sjóða giltu lög nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.Við brotum á ákvæðum laganna eru lögð viðurlög í V. kafla laganna. Af hálfu nefndarinnar hefur ekki verið rannsakað hvort refsiskilyrði framangreindra ákvæða eru uppfyllt enda fellur það ekki undir verkefni nefndarinnar. Eins og nánar er að vikið í kafla 14 telur rannsóknarnefnd Alþingis á hinn bóginn tilefni til að gagnrýna ýmis atriði í starfsemi þeirra sjóða sem teknir voru til rannsóknar. Því telur nefndin ástæðu til að rannsakað verði hvort stjórn og framkvæmdastjórar og lykilstarfsmenn rekstrarfélaga sjóðanna hafi brotið starfsskyldur sínar við stjórnun og eftirlit þannig að refsingu varði. Nefndin vekur í því sambandi sérstaka athygli á því hvernig reglum um að rekstrarfélög séu óháð móðurfélagi sínu var fylgt. Þá telur rannsóknarnefndin að fullt tilefni sé til að rannsaka viðskipti milli sjóða sömu rekstrarfélaga sem vikið var að í kafla 14.5. Jafnframt telur nefndin að rannsaka þurfi hvort áhættustýring sjóðanna hafi brotið í bága við ákvæði 33. gr. laga nr. 30/2003 og hvort kynning á sjóðunum hafi farið í bága við ákvæði 51. gr. sömu laga þannig að refsingu varði. Loks telur nefndin einnig sérstakt tilefni til þess að rannsaka hvort sjóðsfélagar, sem höfðu innherjaupplýsingar og tóku út úr sjóðunum skömmu fyrir lokun þeirra, hafi með því bakað sér refsiábyrgð.Við rannsókn nefndarinnar kom í ljós að töluverður fjöldi innherja tók eign sína út úr sjóðunum skömmu fyrir lokun þeirra.