22. kafli – Sparisjóður Ólafsfjarðar
Efnisyfirlit
- 22.1 Ársreikningar 2001–2011
- 22.2 Útlán, útlánareglur og lánveitingar
- 22.3 Fjáreignir og fjárfestingar
- 22.4 Fjármögnun
- 22.5 Stofnfé og stofnfjáreigendur
- 22.6 Rekstur sparisjóðsins eftir fall viðskiptabankanna haustið 2008 og niðurfelling skulda hans hjá Arion banka hf.
- 22.7 Arður af stofnfjáreign
- 22.8 Innra eftirlit
22. Sparisjóður Ólafsfjarðar
Hinn 29. október 1913 mættu fimmtán menn á stofnfund Sparisjóðs Ólafsfjarðar í þinghúsinu við Standgötu 3. Á fundinum var kosin fyrsta stjórn sjóðsins, Helgi Árnason var kjörinn formaður, Þorsteinn Jónsson gjaldkeri og Þorvaldur Friðfinnsson ritari. Varamenn voru Jón Þórðarson og Stefán Sigurðsson og endurskoðendur voru þeir Páll Bergsson og Grímur Grímsson. Þessir menn voru, að Grími undanskildum, úr fimmtán manna hópi sem höfðu hver og einn ábyrgst 100 krónur og skuldbundið sig til að greiða þriðjung af því á fyrsta starfsdegi sjóðsins.
Nýársdagur 1914 var fyrsti rekstrardagur Sparisjóðs Ólafsfjarðar, en sjóðurinn var þó ekki opnaður fyrr en föstudaginn 2. janúar 1914. Sparisjóðurinn var þá til húsa við Strandgötu í húsi sem kallað var Helgahús. Starfsemi sparisjóðsins flutti nokkrum sinnum á næstu sjötíu árum en frá 31. janúar 1983 var Sparisjóðurinn til húsa að Aðalgötu 14 á Ólafsfirði.
Í 1. mgr. 1. gr. samþykkta sparisjóðsins sem settar voru við stofnun hans var stefnumarkandi ákvæði sem mælti fyrir um að sparisjóðurinn væri stofnaður til að geyma og ávaxta peninga og væri ætlað að greiða fyrir viðskiptum, sérstaklega fyrir íbúa Ólafsfjarðar.1 Í samþykktum sparisjóðsins frá 2003 og 2009 var hins vegar ekkert minnst á starfssvæði eða Ólafsfjörð þegar hlutverk og starfsemi hans voru skilgreind en vísað í lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.2 Hinn 3. júní 2010 tóku nýjar samþykktir gildi og var hlutverk sparisjóðsins skilgreint svo:
Hlutverk sparisjóðsins er að láta gott af sér leiða og standa vörð um og þróa atvinnulíf, mannlíf og velferð á sínu starfssvæði.
Á árunum 1995–1996 kom upp grunur um fjármálamisferli hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar vegna útlána og ábyrgða sem sparisjóðurinn hafði veitt. Bankaeftirlit ríkisins tók málið til athugunar og skýrsla eftirlitsins frá 1997 leiddi í ljós að þrír fjárhagslega tengdir aðilar voru með heildarskuldbindingu yfir 40% af eigin fé sjóðsins. Þorsteinn Þorvaldsson sparisjóðsstjóri sagði af sér vegna málsins og var síðar sakfelldur í héraðsdómi fyrir umboðssvik og bókhaldsbrot og að hafa veitt lán og ábyrgðir án heimildar.3 Þessir gerningar höfðu afgerandi áhrif á rekstur sparisjóðsins og 316 milljóna króna tap varð á rekstri hans árið 1997. Eiginfjárhlutfall hans var þar með komið undir lögbundið lágmark. Tryggingasjóður sparisjóða og nokkrir sparisjóðir hlupu undir bagga með sjóðnum og lögðu fram 200 milljónir króna í nýju stofnfé í sparisjóðnum og víkjandi lánum.
Á fundi stjórnar Sparisjóðs Ólafsfjarðar 7. júlí 2004 var formanni falið að kanna hvort „aðrir aðilar“ hefðu áhuga á að kaupa stofnfjárhlut Tryggingasjóðs sparisjóðanna í sparisjóðnum, en hann var í árslok 2003 rúmar 167 milljónir króna, en heildarstofnfé sparisjóðsins nam þá 245 milljónum króna. Sparisjóður Mýrasýslu lýsti strax yfir áhuga á að kaupa stofnféð, en ári áður hafði hann keypt allt stofnfé í Sparisjóði Siglufjarðar. Eftir nokkrar þreifingar var tilboði Sparisjóðs Mýrasýslu tekið upp á 225 milljónir króna fyrir allt stofnfé í Sparisjóði Ólafsfjarðar. Kaupin voru síðan samþykkt af stjórn, stofnfjáreigendum og loks Fjármálaeftirlitinu 12. apríl 2005. Við þetta varð Sparisjóður Ólafsfjarðar hluti af samstæðu Sparisjóðs Mýrasýslu sem átti þá nær allt stofnfé í sparisjóðnum. Stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu hafði uppi áform um að sameina Sparisjóð Ólafsfjarðar og Sparisjóð Siglufjarðar en ekkert varð úr þeim fyrirætlunum.
Magnús D. Brandsson var sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Ólafsfjarðar frá 1997 en sagði starfi sínu lausu í febrúar 2005. Jónas Björnsson var ráðinn í hans stað frá apríl 2005 og starfaði hjá sjóðnum í fimm ár. Helgi Jóhannsson tók við stöðu sparisjóðsstjóra 1. ágúst 2010.
Miklar breytingar urðu á stjórn Sparisjóðs Ólafsfjarðar á árunum 2001–2011. Þar sem Sparisjóður Mýrasýslu átti nær allt stofnféð komu margir stjórnarmenn þaðan, svo sem sparisjóðsstjóri og stjórnarformaður Sparisjóðs Mýrasýslu. Eftir að sparisjóðurinn varð hluti af Arion banka hf. komu aðilar á vegum bankans inn í stjórn sparisjóðsins.
Í lok árs 2007 námu heildareignir sparisjóðsins 3,5 milljörðum króna. Sjóðurinn var einn af minni sparisjóðunum í landinu með rúmlega hálft prósent af heildareignum þeirra, sem námu þá 614 milljörðum króna. Í árslok 2011 námu heildareignir sparisjóðsins þremur milljörðum króna og voru þá 5% af samanlögðum eignum sparisjóðanna. Í lok árs 2007 var eiginfjárhlutfall sjóðsins 18,1% en í árslok 2008–2011 var það neikvætt öll árin.
Sparisjóður Ólafsfjarðar var hluti af samstæðu Sparisjóðs Mýrasýslu frá og með 2005. Þegar Sparisjóður Mýrasýslu rann inn í Nýja Kaupþing banka hf. (síðar Arion banka hf.) í apríl 2009 eignaðist bankinn allt stofnfé í Sparisjóði Ólafsfjarðar. Arion banki hf. auglýsti sparisjóðinn til sölu á árinu 2011 en hætt var við söluna þar sem aðeins eitt tilboð barst og samningar náðust ekki milli aðila. Í ágúst 2012 samþykktu stjórnir Sparisjóðs Ólafsfjarðar og Arion banka hf. samrunaáætlun fyrir Sparisjóð Ólafsfjarðar og Arion banka. Fjármálaeftirlitið samþykkti samrunann 14. september 2012. Arion banki hf. tók þá við öllum réttindum og skyldum Sparisjóðs Ólafsfjarðar og voru félögin sameinuð undir nafni Arion banka hf. sem rekur nú útibú á Ólafsfirði.
22.1 Ársreikningar 2001–2011
Hér verður farið yfir þróun rekstrarreiknings og efnahagsreiknings Sparisjóðs Ólafsfjarðar, helstu liði þeirra og kennitölur á árunum 2001–2011. Umfjöllunin miðast við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram.4 Sparisjóðurinn tók upp reikningsskil samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilareglum (IFRS) árið 2007 og kallaði það á nokkrar tilfærslur í framsetningu hér til þess að reikningar yrðu samanburðarhæfir á milli ára. Upptaka nýrra reglna leiddi til hækkunar á eigin fé sparisjóðsins í ársbyrjun 2007 um rúmar 17 milljónir króna.
22.1.1 Rekstrarreikningar
Sparisjóður Ólafsfjarðar var rekinn með hagnaði öll árin frá 2001 til 2007, þótt lítill hafi verið fram til 2004. Árin 2004–2007 óx hagnaður jafnt og þétt. Skýrðist það einkum af gengishagnaði af fjáreignum og hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga. Á árinu 2008 varð hins vegar verulegt tap á rekstri sjóðsins. Tapið nam 439 milljónum króna og skýrðist af 185 milljóna króna tapi af fjáreignum og framlagi í afskriftareikning útlána upp á 260 milljónir króna. Einnig var tap á rekstri sjóðsins á árunum 2009–2011, sem skýrðist af framlagi í afskriftareikning útlána. Miðað við meðalverðlag ársins 2011 hagnaðist Sparisjóður Ólafsfjarðar um samanlagt 371 milljón króna frá 1998 til 2007, þ.e. á tíu árum, en tapaði samtals rúmlega einum milljarði króna á sama verðlagi á árunum 2008–2011.
Hreinar rekstrartekjur
Hreinar rekstrartekjur sveifluðust nokkuð á tímabilinu 2001−2011. Gengishagnaður af fjáreignum átti þar stærstan hlut að máli, en aðrar rekstrartekjur og hlutdeildartekjur höfðu einnig nokkur áhrif. Hreinar vaxta- og þjónustutekjur vógu mest í hreinum rekstrartekjum en breyttust ekki í sama mæli og fjáreignatekjurnar. Mikið gengistap varð af fjáreignum árið 2008 sem leiddi til hins mikla taps hjá sparisjóðnum. Afkoma af fjárfestingum hafði þannig mikil áhrif á tekjurnar en var samt sem áður ekki stór hluti hreinna rekstrartekna, að undanskildu árinu 2008.
Gengishagnaðurinn á árinu 2007 skýrðist að mestu af gangvirðishækkun á eignarhlut í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf., VBS Fjárfestingarbanka hf. og Alfesca hf. Árið 2008 nam gengistap af fjáreignum um 185 milljónum króna, einkum vegna niðurfærslu á hlutnum í Sparisjóðabankanum um 70 milljónir króna, VBS Fjárfestingarbanka um 43 milljónir króna og Alfesca um 6,5 milljónir króna, auk 42 milljóna króna lækkunar á skuldabréfum Exista hf. Gengishagnaður af fjáreignum nam 64 milljónum króna á árinu 2011 en það var jafnframt mesti gengishagnaður sjóðsins á þessu tímabili.
Arðs- og hlutdeildartekjur voru vart umtalsverðar í rekstri Sparisjóðs Ólafsfjarðar á tímabilinu ef árin 2005 og 2006 eru undanskilin. Þær meira en tvöfölduðust árið 2005 og námu 17,5 milljónum króna í árslok 2006. Munaði þar mestu um hlutdeild í hagnaði Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. Árið 2007 lækkuðu arðs- og hlutdeildartekjur frá fyrra ári þar sem eignarhlutur í Sparisjóðabankanum var þá færður með veltufjáreignum í stað þess að færa hann með hlutdeildaraðferð.
Aðrar rekstrartekjur voru óverulegar nema árin 2002 og 2006, en þá var aðallega um að ræða söluhagnað af eignarhlutum í félögum. Árið 2002 seldi sparisjóðurinn hluti sína í SP-Fjármögnun og Alþjóða líftryggingafélaginu og hafði 26 milljónir króna í söluhagnað af því.
Hreinar þjónustutekjur breyttust mjög lítið á tímabilinu og voru að jafnaði 10% til 20% af hreinum rekstrartekjum.
Hreinar vaxtatekjur 2001–2011 voru 44–76% af hreinum rekstrartekjum. Stærstur hluti vaxtatekna sparisjóðsins kom frá útlánum, eða 59–88%. Vaxtatekjur af kröfum á lánastofnanir fóru heldur vaxandi fram til 2007 þegar þær námu 36% af heildarvaxtatekjum en annars voru þær á bilinu 9–36%. Vaxtatekjur af skuldabréfum voru óverulegar og voru allt tímabilið innan við 7% vaxtatekna.
Vaxtagjöldin voru að stærstum hluta vegna almennra innlána, eða 81–93%. Vaxtagjöld vegna lántöku rúmlega tvöfölduðust milli áranna 2007 og 2008. Skýrðist það einkum af láni sem Sparisjóður Ólafsfjarðar tók hjá Sparisjóði Mýrasýslu, móðurfélagi sínu, upp á rúmar 800 milljónir króna, og hærri vöxtum almennt á fjármagnsmarkaði. Vaxtagjöld til lánastofnana og vegna víkjandi skulda voru óveruleg á tímabilinu. Ytri þættir, gengisfall krónunnar og aukin verðbólga á árinu 2008 höfðu veruleg áhrif til hækkunar vaxtatekna og vaxtagjalda.
Vaxtamunur var hærri hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar en hjá sparisjóðunum í heild allt tímabilið. Mestur varð vaxtamunurinn árið 2005 þegar hann var 6,3% hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar en 3,7% hjá sparisjóðunum í heild. Næstu ár á eftir lækkaði vaxtamunur almennt mikið. Á árinu 2011 nam vaxtamunurinn 6,5% hjá sparisjóðnum og hafði þá hækkað talsvert á tveimur árum.
Rekstrargjöld
Rekstrargjöld Sparisjóðs Ólafsfjarðar breyttust lítið árin 2001−2007. Árið 2008 hækkuðu þau hins vegar mikið þegar framlag í afskriftareikning útlána nærri tólffaldaðist. Framlag sparisjóðsins í afskriftareikning útlána nam samtals um 1,1 milljarði króna á tímabilinu 2001–2011, en þar af var framlag áranna 2008−2011 samtals 934 milljónir króna.
Framlag í afskriftareikning útlána á árinu 2002 var 43 milljónir króna og 53 milljónir króna árið 2005. Á árinu 2008 hækkaði framlag í afskriftarreikning útlána mikið og nam 260 milljónum króna og hélst framlagið síðan mjög hátt til 2011. Niðurfærsluhlutfall útlána hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar lá á bilinu 3,3–7,9% á árunum 2001–2007. Í árslok 2007 var niðurfærsluhlutfall af útlánum hjá sparisjóðnum 3,5% en var á sama tíma 1,6% hjá sparisjóðunum í heild. Niðurfærsluhlutfall útlána var svo á bilinu 13,4–27,3% í árslok 2008–2011 (sjá töflu 6) en á sama tíma var niðurfærsluhlutfall útlána hjá sparisjóðunum í heild á bilinu 14–24,6%.
Almennur rekstrarkostnaður hækkaði tiltölulega jafnt á tímabilinu. Árið 2008 hækkaði hann um 13%. Meginskýringin var 9 milljóna króna aukaframlag greitt til Tryggingasjóðs sparisjóða, en ýmis sérfræðiþjónusta hækkaði um 3 milljónir króna og markaðskostnaður um 4 milljónir króna. Hlutfall rekstrarkostnaðar sparisjóðsins af meðaleignum var töluvert hærra allt tímabilið en hjá sparisjóðunum í heild en þróun hlutfallsins var samt áþekk. Ekki varð þó viðlíka lækkun á hlutfallinu hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar og varð hjá sparisjóðunum í heild á árunum 2009 og 2010.
Launakostnaður hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar var að jafnaði 39–49% af almennum rekstrarkostnaði á tímabilinu 2001–2011. Í töflu 4 er yfirlit um launakostnað hjá sparisjóðnum og fjölda stöðugilda miðað við heilsdagsstörf í lok hvers reikningsárs 2001–2011.
Meðallaunakostnaður á stöðugildi hækkaði um 50% árið 2003 þegar stöðugildum fækkaði um tvö. Stöðugildum tók síðan að fjölga aftur. Kom það til af þjónustuverkefnum sem sparisjóðurinn tók að sér fyrir aðra aðila, einkum fyrir Creditinfo, sem hafa krafist þriggja starfsmanna.
Starfsmenn nutu ekki annarra fríðinda en þeirra sem almennt tíðkuðust hjá sparisjóðunum. Á tímabilinu voru ekki greiddar neinar árangurstengdar greiðslur eða hvatagreiðslur sem ekki féllu undir hefðbundnar launagreiðslur á tímabilinu. Þá voru ekki gerðir neinir starfslokasamningar sem fólu í sér réttindi umfram þau sem bundin voru í kjarasamninga.
Þróun launakostnaðar á hvert stöðugildi hjá sparisjóðnum var töluvert frábrugðin þróuninni hjá sparisjóðunum í heild. Laun hækkuðu almennt meira hjá sparisjóðunum í heild á tímabilinu að undanskildum árunum 2003 og 2004, auk 2010 að litlu leyti. Þróun launakostnaðar á stöðugildi hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar var einnig undir almennri launaþróun frá 2008.5
Kjarnarekstur
Tap var af kjarnarekstri Sparisjóðs Ólafsfjarðar allt tímabilið. Yfirleitt mátti rekja tapið til framlags í afskriftareikning útlána. Tekjur af fjáreignum og aðrar rekstrartekjur báru því uppi hagnað sparisjóðsins á árunum 2001–2007. Hreinar vaxta- og þjónustutekjur stóðu alltaf undir almennum rekstrarkostnaði að frátöldum árunum 2008 og 2009 þegar upp á vantaði 5,8 milljónir króna og 14,5 milljónir króna hvort árið um sig. Á árunum 2008–2011 var mikið tap af kjarnastarfsemi sparisjóðsins enda var framlagið í afskriftareikning þá margfalt á við árin áður.
22.1.2 Efnahagsreikningar
Hér er fjallað um stærstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðs Ólafsfjarðar í lok áranna 2001–2011 og þróunina á tímabilinu. Í viðauka C eru efnahagsreikningar sparisjóðsins 2001−2011 sýndir, bæði á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi.
Eignir
Í árslok 2001 námu eigir Sparisjóðs Ólafsfjarðar 1,4 milljörðum króna en í árslok 2011 voru þær þrír milljarðar króna á verðlagi hvors árs um sig. Ef miðað er við verðlag í árslok 2011 voru heildareignir sparisjóðsins í árslok 2001 2,5 milljarðar króna. Þannig hafði sjóðurinn stækkað um fimmtung á þessum ellefu árum. Mynd 5 sýnir skiptingu eigna sparisjóðsins í lok áranna 2001–2011. Á myndinni sést greinilega hvernig útlán og kröfur á lánastofnanir stuðluðu að jöfnum vexti eigna sjóðsins frá 2001 til 2008.
Útlánin voru stærsti eignaliður sparisjóðsins allt tímabilið og hljóp vægi þeirra af heildareignum á bilinu 47–71%. Útlánin uxu jafnt og þétt frá 2002 til 2006 en stóðu nánast í stað árið 2007, þegar hlutfall þeirra af heildareignum var einnig lægst. Í lok árs 2008 höfðu útlán hækkað mikið og námu þá 2,1 milljarði króna, eða 58% af eignum sjóðsins. Hlutfall þeirra af heildareignum stóð að mestu óbreytt í kjölfarið, þrátt fyrir að útlánin hefðu lækkað um 367 milljónir króna árið 2011 frá hápunkti tímabilsins árið 2008.
Stærstur hluti útlána sparisjóðsins var í formi skuldabréfa, eða 67–81%. Hluti gengisbundinna skuldabréfa fór ört vaxandi eftir 2005 og í árslok 2008 voru þau um 732 milljónir króna, en önnur skuldabréf 932 milljónir króna. Útlán sparisjóðsins voru að mestu til einstaklinga en eftir 2007 fóru útlán til fyrirtækja vaxandi.
Staðan á afskriftareikningi útlána hækkaði mikið á árunum 2008–2011. Í árslok 2007 nam staða hans rúmlega 61 milljón króna sem jafngilti þá 3,5% af heildarútlánum. Með gríðarháum framlögum í afskriftareikning á árunum 2008–2011 margfaldaðist hlutfallið. Í árslok 2010 var það hæst, 27,3% af heildarútlánum.
Sjóður og óbundnar innistæður í Seðlabankanum jukust til muna á árinu 2007 og námu í lok árs rúmlega 177 milljónum króna samanborið við 18 milljónir króna árið áður. Þessi aukning stafaði af tilfærslu við breytt reikningsskil úr eignaliðnum kröfur á lánastofnanir í sjóð og óbundnar innistæður. Í lok árs 2010 námu sjóður og óbundnar innistæður 392 milljónum króna, eða 13% af heildareignum, en þessi liður lækkaði um 22% ári síðar og nam 306 milljónum króna í lok árs 2011.
Kröfur á lánastofnanir lágu á bilinu 13–27% af heildareignum sparisjóðsins, nema árið 2008 þegar þær námu 1,1 milljarði króna, eða 32% af heildareignum. Þessi eignaliður átti stóran þátt í vexti eigna sparisjóðsins á tímabilinu. Árið 2003 hækkuðu þær um 65% og árið 2006 rúmlega tvöfölduðust þær og námu 811 milljónum króna í árslok. Aukningin var nær öll í skammtímakröfum. Í lok árs 2011 námu kröfur á lánastofnanir rúmum fjórðungi heildareigna.
Fjáreignir voru ekki stór eignaliður hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar á tímabilinu. Á árunum 2001–2004 voru þær 9–24% af heildareignum sjóðsins, en einungis 3–4% frá 2008 til 2011. Árið 2002 tvöfölduðust fjáreignir vegna hlutabréfa og verðbréfa með breytilegum tekjum og hið sama átti við um árið 2005. Í árslok 2007 nam bókfært virði fjáreigna 835 milljónum króna, sem var meira en tvöfalt virði ársins áður. Þar munaði mestu um þreföldun á markaðsskuldabréfum. Hlutfall fjáreigna af heildareignum lækkaði umtalsvert á árunum 2008–2011 þegar hluta- og skuldabréf drógust mjög saman. Í lok árs 2011 námu fjáreignirnar einungis 4% af heildareignum, eða 108 milljónum króna.
Hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum voru framan af tímabilinu stærsti liður fjáreigna. Frá 2001 til 2005 voru þau 53–77% af fjáreignum en vægi þeirra lækkaði svo niður í 26% árið 2007 vegna hinnar miklu aukningar á markaðsskuldabréfum. Frá 2008 til 2011 voru hlutabréfin á bilinu 47–60% af fjáreignum. Í árslok 2007 námu eignir í hlutabréfum og verðbréfum með breytilegum tekjum 221 milljón króna og var það næstum tvöföldun frá fyrra ári, sem skýrðist að mestu af gangvirðishækkun á eignarhlut sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum og VBS Fjárfestingarbanka hf. Mikil lækkun varð á gangvirði hlutabréfa og annarra verðbréfa á árunum 2008–2011 og námu þau 64 milljónum króna í lok árs 2011. Það var lækkun um 157 milljónir króna, eða 71%. Meginskýring þeirrar lækkunar lá í verðhruni eignarhlutanna í Sparisjóðabankanum og VBS Fjárfestingarbanka hf.
Markaðsskuldabréf voru næststærsti liður fjáreigna á tímabilinu, að undanskildum árunum 2006, 2007 og 2009 þegar þau voru 55%, 73% og 52% fjáreigna á hverju ári um sig. Árið 2007 námu eignir í markaðsskuldabréfum 614 milljónum króna og var það næstum þreföldun frá fyrra ári, sem skýrðist aðallega af fjárfestingu í peningamarkaðssjóði Íslenskra verðbréfa hf. fyrir 337 milljónir króna og kaupum á skuldabréfum Exista hf. upp á 74 milljónir króna. Lækkun varð á eign í markaðsskuldabréfum á árunum 2008–2011 og nam hún einungis 44 milljónum króna í lok árs 2011 og hafði því dregist saman um 571 milljón króna, eða 93%, frá árinu 2007.
Eign sparisjóðsins í hlutdeildarfyrirtækjum var lítil á þeim árum sem þau voru færð í bækur hans. Mest varð hún 38 milljónir króna í árslok 2006 og var helst í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. Í ársreikningi 2007 var eignarhluturinn tilgreindur sem fjáreign á gangvirði.
Aðrar eignir voru rekstrarfjármunir, skattinneign og ýmsar eignir. Rekstrarfjármunir voru eignfærðir á 37 milljónir króna í lok árs 2011. Skattinneign nam 32 milljónum króna og var hún óhreyfð allt frá því að hún birtist fyrst í bókum sjóðsins árið 2005.
Skuldir
Innlán voru stærsti fjármögnunarþátturinn hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar og hækkuðu þau tiltölulega jafnt og þétt á tímabilinu, að undanskildu árinu 2008 þegar þau drógust lítillega saman. Hlutfall innlána af skuldum í lok áranna 2001–2011 var á bilinu 65–93%. Hlutfall milli innlána og útlána var alltaf yfir 100% hjá sparisjóðnum. Hæst varð hlutfallið 168% árið 2011 en lægst 113% árið 2005. Útlán sparisjóðsins voru því fjármögnuð að fullu með innlánum á tímabilinu.
Lántökur voru annar meginþáttur fjármögnunar sparisjóðsins. Skuldavöxt hans 2005–2008 mátti að miklu leyti rekja til þeirra, en lántökur jukust úr 101 milljón króna í árslok 2004 í 1,1 milljarð króna í árslok 2008. Þá voru þær 29% af heildarskuldum sparisjóðsins eftir að hafa vaxið úr 6% heildarskulda árið 2004. Árið 2009 lækkuðu lántökur um 816 milljónir króna. Lækkunin skýrðist fyrst og fremst af skuldbreytingu á kröfum Arion banka hf., að fjárhæð 330 milljónir króna, í stofnfé, skuldajöfnun milli krafna og 190 milljóna króna lántöku og yfirteknum íbúðabréfum af Íbúðalánasjóði upp á 290 milljónir króna.6
Skuldir við lánastofnanir, víkjandi skuldir og aðrar skuldir voru óverulegur hluti heildarskulda sparisjóðsins á tímabilinu. Skuldir við lánastofnanir voru 1–3% heildarskulda,
víkjandi skuldir 3–5% og aðrar skuldir alltaf undir 2%. Skuldir við lánastofnanir þrefölduðust á árinu 2008 og námu 68 milljónum króna í lok þess árs. Þetta voru allt að þriggja mánaða innlán frá fjármálafyrirtækjum. Nánar er fjallað um fjármögnun sjóðsins hér aftar.
Eigið fé
Eigið fé Sparisjóðs Ólafsfjarðar tók litlum breytingum árin 2001–2007. Stofnfé var að mestu óbreytt frá 2001 til 2008 og myndaði stærstan hluta eigin fjár allt tímabilið 2001–2011. Varasjóður fór hægt vaxandi úr neikvæðri stöðu upp á 75 milljónir króna árið 2001 eftir mikið útlánatap rétt fyrir aldamótin, eins og fjallað er lauslega um fremst í kaflanum. Varasjóðurinn varð fyrst jákvæður árið 2006 og í árslok 2007 nam hann 21% af eigin fé, en það ár var eigið fé í ársbyrjun hækkað um 17 milljónir króna vegna upptöku alþjóðlegra reikningsskilareglna (IFRS). Árið 2007 greiddi sparisjóðurinn einnig nærri 66 milljóna króna arð til móðurfélagsins á grundvelli afkomu ársins 2006 og fyrrnefndrar hækkunar á eigin fé vegna upptöku nýrra reikningsskilareglna. Arðgreiðslan nam 26,1% af stofnfé í árslok 2007 og var 10,5 milljónum króna umfram leyfilegt hámark. Mikill viðsnúningur varð á rekstri sjóðsins ári síðar og þá þurrkaðist varasjóðurinn út og eigið fé varð neikvætt um 187 milljónir króna.
Sparisjóður Ólafsfjarðar uppfyllti þær lágmarkskröfur sem gerðar voru um eiginfjárhlutfall allt tímabilið 2001–2007. Á árunum 2008 og 2009 varð hins vegar mikið tap á rekstri sparisjóðsins og fjárhagsleg staða hans versnaði til mikilla muna. Erfiðleikar á árinu 2008 gengu verulega á eigið fé og í lok október 2008 sýndi ársfjórðungsleg skýrsla til Fjármálaeftirlitsins að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins væri 4,7% og bókfært eigið fé neikvætt um 187 milljónir króna. Skýrslan til Fjármálaeftirlitsins var byggð á bráðabirgðauppgjöri. Í árslok 2008 var eiginfjárhlutfallið orðið neikvætt um 8% og eigið fé áfram neikvætt um 187 milljónir króna. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 7. maí 2009 var ákveðið að auka stofnfé um 330 milljónir króna og var það gert. Bókfært eigið fé var neikvætt um 95 milljónir króna í lok árs 2009 og eiginfjárhlutfallið neikvætt um 3,1%. Stofnfé var svo aukið að nýju á árinu 2010 þegar Arion banki hf. ákvað að breyta 257 milljóna króna kröfu á hendur sparisjóðnum í stofnfé. Við það varð eigið fé sjóðsins jákvætt og nam 5,5 milljónum króna í lok árs 2010. Vegna 90 milljóna króna taps árið 2011 varð eigið fé sjóðsins neikvætt á nýjan leik og eiginfjárhlutfallið neikvætt um 5,3%.
22.2 Útlán, útlánareglur og lánveitingar
Útlán voru stærsti eignaliðurinn í ársreikningi Sparisjóðs Ólafsfjarðar árin 2005–2011. Að meðaltali námu útlán 57% af heildareignum sparisjóðsins. Lægst var hlutfallið 47% árið 2007 en hæst 65% árið 2005. Sparisjóður Ólafsfjarðar óx ekki mikið á árunum 2005–2010 og var ekki að merkja miklar sveiflur í útlánum sparisjóðsins, nema á árinu 2008, sem skýrist af hækkun á gengistryggðum lánum. Frá árinu 2008 fóru útlán hins vegar aftur lækkandi sökum mikilla afskrifta.
Hlutur gengisbundinna útlána í útlánasafni Sparisjóðs Ólafsfjarðar stækkaði frá seinni hluta árs 2006 og voru þau mest rúmlega þriðjungur af útlánasafni sjóðsins.
Sparisjóðurinn lánaði mest í formi skuldabréfa en þau drógust töluvert saman á árinu 2009 vegna niðurfærslu á gengistryggðum skuldabréfum. Yfirdráttarlán voru næststærsta tegund útlána hjá sjóðnum á tímabilinu en aðrar tegundir útlána en yfirdráttarlán og skuldabréf tíðkuðust ekki frá árinu 2009.
Í töflu 9 má sjá skiptingu útlána Sparisjóðs Ólafsfjarðar eftir lántakendum á árunum 2005 til 2011. Einstaklingar voru stærstur hluti lántakenda hjá sjóðnum á tímabilinu. Þar á eftir komu fyrirtæki á sviði þjónustustarfsemi og sjávarútvegs. Lántakendur á sviði landbúnaðar voru nánast engir hjá sparisjóðnum.
Afskriftir námu um 6% af útlánasafni Sparisjóðs Ólafsfjarðar árið 2005, en hlutfallið lækkaði í rúm 3% árin 2006 og 2007. Árið 2008 nam niðurfærsluhlutfallið 13,4% og í 24–27,3% árin 2009 og 2010. Samkvæmt endurskoðunarskýrslu Sparisjóðs Ólafsfjarðar vegna ársins 2009 voru 267 milljónir króna lagðar í sérgreindan afskriftareikning vegna 10 stærstu vanskilaaðila sjóðsins, eða sem nam um 11,2% af útlánum.7 Í endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2010 kom fram að dómar Hæstaréttar um endurútreikning gengislána myndu hafa umtalsverð áhrif á sparisjóðinn og jafnvel kalla á enn meiri afskriftaþörf á komandi árum.8
22.2.1 Útlánareglur
Árið 1998 samþykkti stjórn Sparisjóðs Ólafsfjarðar „reglur um lánveitingar og tryggingar vegna lánveitinga og ábyrgða“ sem settar voru á grundvelli þágildandi laga nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði, og í samræmi við reglugerð nr. 366/1994 um hámark lána og ábyrgða viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Lánareglurnar voru uppfærðar og endurútgefnar 29. desember 2003 á grundvelli laga nr. 161/2002 og í samræmi við reglur nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar. Samkvæmt lánareglunum báru sparisjóðsstjóri og forsvarsmenn þeirra sem önnuðust útlán ábyrgð á því að þeim væri framfylgt.9
Lánareglurnar áttu að þjóna þeim meginmarkmiðum að eðlilegur tekjuafgangur yrði í rekstri sjóðsins og að viðhaldið yrði traustri eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu. Jafnframt skyldi leitast við að veita þeim sem óskuðu eftir fyrirgreiðslu bestu þjónustu á hverjum tíma. Samkvæmt lánareglunum bar að gæta þess við ákvörðun um fyrirgreiðslu til eins viðskiptaaðila að heildarfjárhæðin væri í hæfilegu hlutfalli við eigið fé sparisjóðsins með hliðsjón af þeim tryggingum sem settar væru og fjárhag viðskiptamannsins. Með tilliti til útlánaáhættu bar að skoða heildarfyrirgreiðslu til fleiri en eins aðila sem væru fjárhagslega tengdir sem eina skuldbindingu og mátti heildarskuldbinding ekki fara fram úr 25% af eigin fé sparisjóðsins. Að jafnaði bar að taka fullnægjandi tryggingar en samkvæmt ákvæðum lánareglnanna bar að taka mið af styrk viðskiptamanns og tímalengd lánveitingar. Ekki voru nein ákvæði í lánareglunum frá árinu 2003 um lágmarks tryggingaþekju mismunandi veðandlaga.
Sparisjóðsstjóra bar að taka ákvörðun um lánveitingar ef heildarskuldbindingar viðkomandi viðskiptamanns eða tengdra aðila væru innan við 7,5% af eigin fé sparisjóðsins eins og það var skilgreint í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði nr. 43/1993. Fyrirgreiðslur umfram 7,5% af bókfærðu eigin fé bar að fara með fyrir sparisjóðsstjórn til samþykktar. Var því ákveðið misræmi milli heimilda sparisjóðsstjóra og stjórnar, þar sem annars vegar var vísað til 7,5% af bókfærðu eigin fé og hins vegar til eigin fjár samkvæmt fyrrnefndum lögum. Samkvæmt lánareglunum bar sparisjóðsstjórn, að fengnum tillögum sparisjóðsstjóra, að tilnefna staðgengil hans til að annast lánveitingar og ábyrgðir. Sparisjóðsstjóri hafði jafnframt heimild til að taka ákvörðun um skipulag lánveitinga og þeirra starfsmanna sem kæmu að útlánum með umboði frá honum. Í töflu 11 má sjá þær heimildir til lánveitinga sem lánareglur Sparisjóðs Ólafsfjarðar frá árinu 2003 tilgreindu:
Stjórn sparisjóðsins setti reglur um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra um leið og lánareglurnar í desember 2003, en samkvæmt þeim bar stjórn að fjalla um skuldbindingar stærstu viðskiptaaðila sparisjóðsins á þriggja mánaða fresti. Viðmiðið við mat á stærstu viðskiptaaðilum sparisjóðsins var að heildarskuldbinding næmi að minnsta kosti 2,5% af eigin fé sparisjóðsins.
Stjórn sparisjóðsins tók útlánareglurnar til umfjöllunar á fundi sínum 22. júlí 2005 og var sparisjóðsstjóra falið að gera drög að nýjum reglum og samræma þær lánareglum í samstæðunni.10 Lánareglurnar voru síðan uppfærðar aftur og endurútgefnar með smávægilegum viðbótum 9. febrúar 2006. Helstu breytingarnar voru þær að skipulag lánastarfseminnar og lánaheimildir voru skilgreindar nánar og bætt við ákvæði um tryggingar. Lágmarks veðsetningarhlutföll mismunandi veðandlaga eða trygginga voru þó ekki skilgreind í nýjum reglum. Fram kom að lánveitingar sem ekki væru tryggðar með veði skyldu almennt ekki vera til lengri tíma en átta ára. Veðsettar eignir skyldu metnar sem næst markaðsvirði ásamt uppreikningi á áhvílandi veðskuldum og skyldi sérstaklega gæta að tryggingum þegar um væri að ræða stöðutöku, t.d. í hlutabréfum og afleiðum, nema þegar í hlut ættu fjárhagslega mjög sterkir lögaðilar.
Heimildir starfsmanna til að samþykkja og afgreiða einstaka lán voru skilgreindar í lánareglunum og starfsreglum sparisjóðsins um útlánareglur starfsmanna í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra, sem jafnframt voru samþykktar af stjórn 9. febrúar 2006. Sparisjóðsstjóri fékk auknar heimildir, en viðmiðið um hlutfall heildarskuldbindinga af eigin fé sparisjóðsins var hækkað úr 7,5% í 10%.
Sparisjóðsstjóri hafði ekki heimild til að taka ákvörðun um lán þegar heildarskuldbinding eins eða fjárhagslega tengdra aðila gagnvart sparisjóðnum nam meira en 10% af eigin fé eða þegar lánveiting taldist óvenjuleg, svo sem vegna eðlis verkefnis eða þeirra trygginga sem um ræddi, viðskiptamanns sem ætti í hlut, áhættu sem sparisjóðurinn tæki, eða þegar lán tengdist máli sem væri mjög umdeilt í þjóðfélaginu.11 Þá hafði sparisjóðsstjóri heimild til að veita lán fyrir allt að 20% af eigin fé sparisjóðsins ef lánið hefði áhættuvægið 0,2 en ef lán hefði áhættuvægið 0 var heimild sparisjóðsstjóra án annarra takmarkana en þeirra er komu fram í reglum sparisjóðsins um áhættustýringu.
Starfsmenn „í framlínu“ höfðu heimild til að samþykkja og afgreiða einstök lán, þar á meðal skuldbreytingar, framlengingar og ábyrgðir fyrir allt að 800 þúsund krónur og hámarks heildarfyrirgreiðslu, þegar ekki var tekið tillit til íbúðalána, fyrir allt að 1,5 milljónir króna. Í reglunum kom þó ekki fram hvaða starfsmenn teldust vera í framlínu.
Í reglum Sparisjóðs Ólafsfjarðar um áhættustýringu, sem einnig voru samþykktar 9. febrúar 2006, var kveðið á um að samanlagðar skuldbindingar viðskiptamanna í sömu atvinnugrein skyldu ekki fara yfir 30% af heildarskuldbindingum sjóðsins, en að öðru leyti var vísað til reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar.
Í skýrslu um innri endurskoðun Sparisjóðs Ólafsfjarðar vegna ársins 2011 kom fram ábending um að stjórn sparisjóðsins þyrfti að leggja í vinnu við að uppfæra útlánareglurnar og setja skýr fyrirmæli um tryggingar, ábyrgðir og framkvæmd útlána hjá sparisjóðnum, einkum í ljósi þess að sparisjóðurinn væri starfandi með sérstakri undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu.
22.2.2 Stærstu lántakendur
Útlán voru stærsta eign sparisjóðsins á árunum 2005–2011 og afskriftir af þeim höfðu áhrif á rekstrarárangur hans. Rannsóknarnefndin valdi úrtak lántaka til sérstakrar skoðunar og greiningar. Markmiðið með skoðun á tilteknu úrtaki lántakenda var að varpa ljósi á útlánastefnu sparisjóðsins, starfshætti í útlánastarfsemi og ástæður afskrifta. Úrtakið var valið með hliðsjón af stærð áhættuskuldbindinga við sparisjóðinn auk þess sem skoðuð voru sérstaklega lán þar sem sparisjóðurinn færði háar afskriftir.12
Skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar samkvæmt reglum nr. 216/2007 var ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum slíkum skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu.13 Í úrtaki rannsóknarnefndar voru lántakendur sem birtust í ársfjórðungsskýrslum Sparisjóðs Ólafsfjarðar til Fjármálaeftirlitsins frá árslokum 2007 til 2011, sbr. reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar.
Til viðbótar við skoðun á stórum áhættuskuldbindingum voru í úrtakinu lántakendur sem voru með sérgreinda afskrift vegna skuldbindinga á árunum 2008–2011. Eins og sést í töflu 10 voru miklar afskriftir hjá sparisjóðnum á árunum 2008–2011 en ekki var talin ástæða til að fara lengra aftur í tímann til athugunar á stórum afskriftaframlögum. Úrtakið náði til 24–35% útlánasafns og 0–45% af sérgreindum afskriftaframlögum eftir því til hvaða árs er litið.
Í úrtakinu voru sjö lánahópar,14 þar var um að ræða verktakafyrirtæki, hótel, byggingarfélag, heildverslun og þrjú félög í sjávarútvegi. Í flestum tilvikum voru félögin með fyrirgreiðslur í formi skuldabréfa og yfirdráttarlána sem voru veitt til fjárfestinga í húsnæði, tækjum og til almenns rekstrar. Flest félögin í úrtakinu höfðu fengið lán í erlendum myntum frá sparisjóðnum. Þá fengu tveir lánahópar ábyrgðir, annars vegar fiskmarkaðsábyrgðir og hins vegar verkábyrgðir.
Útlán til stærstu skuldara Sparisjóðs Ólafsfjarðar tvöfölduðust á árinu 2008 vegna lækkunar á gengi íslensku krónunnar en á sama tíma rýrnaði eigið fé sparisjóðsins og skýrðist stór hluti afskriftareiknings á árunum 2008–2011 af efasemdum um lögmæti gengistryggðra lána. Útlán sparisjóðsins voru í nokkrum tilvikum ekki nógu vel tryggð og þurfti því að færa töluverðar fjárhæðir í sérgreindan afskriftareikning vegna þeirra. Stór hluti af lánum í úrtakinu var með ófullnægjandi tryggingar og töpuðust þau þegar lántakendurnir urðu ógjaldfærir.
Eitt útgerðarfélaganna í úrtaki rannsóknarnefndarinnar fékk lán í erlendum myntum hjá sparisjóðnum en framkvæmdastjóri þess, sem taldist til tengdra aðila félagsins, fékk yfirdráttarlán til að fjárfesta í hlutabréfum í búlgörsku fasteignafélagi. Það fasteignafélag fékk lán hjá sparisjóðnum á árinu 2009 og bættist þá í lánahóp útgerðarfélagsins hjá sjóðnum. Til tryggingar lánunum var sparisjóðurinn með veð í fasteignum og hlutabréfum. Lán til hópsins í erlendum myntum hækkuðu á árinu 2008 og í lok ársins námu skuldbindingar hópsins við sparisjóðinn tæpum 92 milljónum króna og áhættuskuldbindingin á skýrslu til Fjármálaeftirlitsins var rúm 24% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Við mat á stærð áhættuskuldbindingarinnar var tekið tillit til 39 milljóna króna ábyrgðar frá annarri lánastofnun á skuldbindingum lánahópsins. Í skýrslu endurskoðenda með endurskoðun ársreiknings var skuldbinding hópsins hins vegar sögð vera 163 milljónir króna og áhættuskuldbindingin 63,5% af eiginfjárgrunni, eftir að tekið hafði verið tillit til ábyrgðarinnar. Ekki hefði verið gerð grein fyrir skuldbindingum hópsins, heldur eingöngu útgerðarfélagsins, á skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar. Þetta var ekki í samræmi við skýrslur fyrri eða síðari ára.
Árið 2009 voru lán hópsins í vanskilum og kom fram í skýrslu um innri endurskoðun þess árs að sparisjóðurinn hefði litlar fjárhagslegar upplýsingar um félögin í lánahópnum. Þannig hefði útgerðarfélagið ekki skilað ársreikningi til ársreikningaskrár allt frá árinu 2006 og þeim ársreikningi hefði verið skilað í ágúst 2008. Í árslok 2009 var heildarskuldbinding lánahópsins 192 milljónir króna og áhættuskuldbindingin 103,5% af eiginfjárgrunni Sparisjóðs Ólafsfjarðar að frádregnu tæplega 80 milljóna króna afskriftaframlagi. Á árunum 2010 og 2011 var talsvert fjallað um lánahópinn á stjórnarfundum og reynt að afla frekari trygginga þar sem meira en helmingur skuldbindinga var ótryggður. Í lok árs 2011 höfðu engar endanlegar afskriftir verið gerðar vegna lána til aðila í þessum lánahópi. Mægðatengsl voru milli stjórnarmanns í sparisjóðnum og einstaklinga í lánahópnum og er það bókað í fundargerðum að stjórnarmaður hafi vikið af fundum þegar málefni hópsins voru rædd.
Lánveitingar til heildverslunar sem var með eina af stærstu áhættuskuldbindingum sparisjóðsins var tryggð með veði í fasteignum og sjálfskuldarábyrgðum eigenda. Eigendurnir, og annað félag í eigu þeirra, voru hluti af lánahópi tengdum heildversluninni hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar. Árið 2007 mælti innri endurskoðandi sparisjóðsins með því í skýrslu sinni að sjóðurinn aflaði sér frekari trygginga vegna fyrirgreiðslu við lánahópinn og fylgdist náið með fjárhagsstöðu þeirra aðila sem mynduðu hann. Ekki var þó gengið frá viðbótartryggingum vegna skuldbindinganna. Í lok árs 2008 námu skuldbindingar hópsins 25,3 milljónum króna sem var 24,8% af eigin fé sparisjóðsins. Ári síðar nam sérstakt afskriftaframlag vegna hópsins 47,5 milljónum og heildarskuldbindingar 61,8 milljónum króna. Þau tvö félög sem voru í lánahópnum voru úrskurðuð gjaldþrota á árinu 2010.
Næststærsti skuldari sparisjóðsins frá árinu 2010 var útgerðarfélag en á skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar til Fjármálaeftirlitsins í árslok 2008 voru ekki taldar til sama lánahóps skuldbindingar stjórnarformanns félagsins og meirihlutaeiganda (54% hlutur) við sparisjóðinn sem námu þá 23,5 milljónum króna en skuldbindingar félagsins sjálfs voru 116 milljónir króna. Að teknu tilliti til sérgreinds afskriftaframlags, sem var á þeim tíma 34,8 milljónir króna og ábyrgðar frá lánastofnun sem nam 27 milljónum króna var áhættuskuldbinding félagsins rétt undir leyfilegu hámarki skuldbindinga, sem var 24,8%. Hefði stjórnarformaður og meirihlutaeigandi talist til hópsins hefði skuldbindingin verið umfram mörk. Skýrslur ytri og innri endurskoðanda fjölluðu um heildarskuldbindingar félagsins og aðila tengdra því, þ.e. aðila sem ekki voru á skýrslum um sama hóp til Fjármálaeftirlitsins. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í byrjun árs 2010 og voru skuldir þess við Sparisjóð Ólafsfjarðar afskrifaðar.15
Í úrtakinu var eitt félag með eingreiðslulán en það var byggingarfélag sem átti jörð á höfuðborgarsvæðinu þar sem unnið var að skipulagningu íbúðarhverfis. Sparisjóður Ólafsfjarðar og Sparisjóður Mýrasýslu fjármögnuðu kaup á jörðinni. Í nóvember 2005 fékk félagið 50 milljóna króna verðtryggt eingreiðslulán til 20 ára með árlegum vaxtaafborgunum frá 24. nóvember 2011. Til tryggingar var sparisjóðurinn með veð í jörðinni. Fram kom í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2009 að lánið væri sérstakt því það væri eingreiðslulán til langs tíma og vaxtagjalddagar væru ekki innheimtir:
Afar sérstök ákvæði um greiðslur vaxta sem hefur orðið til þess að engar vaxtagreiðslur hafa verið innheimtar. Í samningnum segir að á fyrstu fimm árum lánstímans leggjast vextir ofan á höfuðstól á 12 mánaða fresti en undantekning frá þessu er þó að allar tekjur er hlunnindi jarðarinnar skila, hverju nafni sem þær nefnast þó að lágmarki 500 þús. kr. skulu notaðar til að greiða vexti af láninu. Þann 24. nóvember 2011 kemur til fullrar vaxtagreiðslu af láninu. Starfsmenn hafa ekki fjárhagslegar upplýsingar um félagið.16
Í lok árs 2008 voru skuldbindingar félagsins 67 milljónir króna og með 14 milljóna króna ábyrgð frá lánastofnun var skuldbindingin 24,2% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Ekki var fært sérgreint afskriftaframlag vegna þessarar lánveitingar fram til ársloka 2011 en heildarskuldbindingin nam þá 115,6 milljónum króna.
Sparisjóðurinn lánaði félagi í ferðaþjónustu jafnvirði um 63 milljóna króna í erlendum myntum á árinu 2006 vegna kaupa og endurbóta á húsnæði. Til tryggingar var sparisjóðurinn með veð í fasteigninni og var áætlað verðmæti hennar 100 milljónir króna. Rekstur félagsins gekk ekki sem skyldi og á haustmánuðum árið 2007 óskaði félagið eftir skuldbreytingu á lánum sínum og 5 milljóna króna viðbótarláni til að „halda rekstrinum gangandi yfir veturinn“.17 Vanskil urðu á lánunum og kom fram í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2009 að fasteignin var til sölu um nokkurn tíma. Áætlað mat eignarinnar upp á 100 milljónir króna væri allt of hátt og líklegt að það lægi nær 50 milljónum króna. Á sama tíma nam heildarskuldbinding félagsins tæpum 119 milljónum króna, eða talsvert umfram verðmæti tryggingarinnar. Gengið var frá lánamálum félagsins á árinu 2011 en fasteignin var boðin upp og fengust fyrir hana 73 milljónir króna, þar af fékk sparisjóðurinn um 62 milljónir króna. Aðrar veðsettar eignir, t.d. sumarbústaður eigandans, og lausafjármunir voru seld upp í skuldir en það sem út af stóð afskrifað endanlega.
Fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Ólafsfjarðar útskýrði stöðu sparisjóða á landsbyggðinni sem veita lán gegn veði í fasteignum í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni. Hann sagði sparisjóðinn hafa á árinu 2008 tekið veð í sumarbústað sem tryggingu fyrir skuldbindingum einstaklings. Fasteignasala mat virði bústaðarins á 11,4 milljónir króna. Tveimur árum síðar þurfti sparisjóðurinn að ganga að tryggingunni og voru fengnir tveir fasteignasalar til að meta bústaðinn. Niðurstaðan var að söluvirðið væri þrjár til þrjár og hálf milljón króna.18
Eftir fall bankanna og þær hræringar sem urðu á fjármálamarkaði haustið 2008 rýrnaði eignasafn Sparisjóðs Ólafsfjarðar og eigið fé lækkaði mikið. Útlánaáhætta, sem gjarnan er metin á skýrslum til Fjármálaeftirlitsins sem áhættuskuldbinding sem hlutfall af eiginfjárgrunni, jókst. Þar kom tvennt til, skuldbindingar í erlendum myntum hækkuðu eftir gengisfall krónunnar og eiginfjárgrunnur lækkaði. Í lok árs 2009 voru margir af stærstu skuldurum sparisjóðsins komnir yfir lögbundið 25% hámark áhættuskuldbindingar af eiginfjárgrunni. Ári síðar, í árslok 2010, var eigið fé sparisjóðsins orðið mjög lágt og hækkaði því hlutfall stórra áhættuskuldbindinga af eiginfjárgrunni talsvert. Hæsta áhættuskuldbindingin var hjá Siglunesi hf., um 1947% af eiginfjárgrunni 31. desember 2010. Í nokkrum tilvikum var gripið til þess ráðs að fá ábyrgð frá lánastofnun, þar á meðal frá móðurfélaginu, Sparisjóði Mýrasýslu, til að lækka hlutfallið niður fyrir 25% hámarkið. Í skýrslu um innri endurskoðun sparisjóðsins vegna ársins 2010 og í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2011 komu fram ábendingar um að margir lántakendur væru með skuldbindingar langt umfram 25% hámarkið af eiginfjárgrunni. Í nokkrum tilvikum gerði Sparisjóður Ólafsfjarðar ekki grein fyrir skuldbindingum fjárhagslega tengdra aðila eins og reglur um stórar áhættuskuldbindingar kváðu á um, svo sem fjallað var um í dæmum hér á undan. Innri endurskoðandi sparisjóðsins benti ítrekað á slík tilvik án þess að sparisjóðurinn brygðist við þeim ábendingum.
22.2.3 Lán til starfsmanna og stjórnarmanna
Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki bar að fara með viðskipti starfsmanna sparisjóðsins eftir reglum sem stjórn setti. Í 16. gr. reglna um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra frá desember 2003 sagði að stjórn skyldi, að fengnum tillögum sparisjóðsstjóra, setja reglur um viðskipti starfsmanna við sparisjóðinn. Þá sagði einnig að starfsmönnum sparisjóðsins væri óheimilt að gerast umboðsmenn annarra gagnvart sparisjóðnum. Í 4. gr. útlánareglna Sparisjóðs Ólafsfjarðar frá desember 2003 sagði að sparisjóðsstjóra væri heimilt að veita starfsmönnum sparisjóðsins lán enda væri slík fyrirgreiðsla á engan hátt frábrugðin sambærilegri fyrirgreiðslu til annarra viðskiptamanna. Sparisjóðsstjóra bar þá að gera stjórn sjóðsins grein fyrir fyrirgreiðslunni á fyrsta stjórnarfundi eftir að fyrirgreiðslan átti sér stað og skyldi hún færð í gerðabók. Ákvæði í 19. gr. reglna um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra kvað á um að allar fyrirgreiðslur til sparisjóðsstjóra eða maka væru háðar samþykki stjórnar.
Sparisjóðum bar að skila hálfsárslega til Fjármálaeftirlitsins skýrslu um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila þar sem fram kæmu allar fyrirgreiðslur til þeirra, það er stjórnarmanna, maka þeirra, barna og félaga tengdra þeim, yfir 10 milljónum króna. Í reglum Sparisjóðs Ólafsfjarðar um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra voru venslaðir aðilar skilgreindir sem stjórnarmenn (aðalmenn og varamenn), stjórnendur og lykilstarfsmenn sem teldust til fruminnherja, sem og nánir fjölskyldumeðlimir þessara aðila, félög sem framangreindir aðilar ættu meira en 10% hlut í, störfuðu hjá eða gegndu stjórnarstörfum fyrir, hliðstæðir aðilar í dótturfélögum og tengdum félögum, og stofnfjáreigendur sem áttu 5% eignarhlut eða stærri í sparisjóðnum.
Samkvæmt leiðbeinandi tilmælum nr. 4/2006,19 um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga um fjármálafyrirtæki, átti sparisjóðurinn að leggja fyrir innri endurskoðanda að fara með reglubundnum hætti yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila. Ennfremur sagði í 2. mgr. 25. gr. reglna um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra að innri endurskoðandi ætti að fara reglulega yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og greina frá niðurstöðum athugana sinna í skýrslu til stjórnar. Samkvæmt skýrslum innri endurskoðanda Sparisjóðs Ólafsfjarðar var ekki farið yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila á árunum 2005–2009. Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2010 kom fram að fenginn hefði verið listi yfir venslaða aðila sem voru með fyrirgreiðslu hjá sjóðnum en ekki hefði verið gerð könnun til þess að staðfesta samanburðarkjör, það yrði gert í tengslum við yfirferð á skýrsluskilum til Fjármálaeftirlitsins vegna venslaðra aðila. Í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2011 voru fyrirgreiðslur til venslaðra aðila kannaðar og athugað hvort kjör þeirra væru í samræmi við kjör almennra viðskiptamanna sparisjóðsins. Niðurstaðan var án frávika.
Samtals voru tólf starfsmenn hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar á árunum 2005–2011. Þar af voru, á sama tímabili, tíu starfsmenn með útlán hjá sparisjóðnum. Útlán til starfsmanna sparisjóðsins námu um 7,4–7,9 milljónum króna, eða aðeins um 0,4–0,5% af útlánum sparisjóðsins í árslok 2005–2008. Enginn starfsmaður Sparisjóðs Ólafsfjarðar var persónulega með óvenjulega fyrirgreiðslu eða háar skuldbindingar hjá sparisjóðnum á tímabilinu 2005–2011.
22.3 Fjáreignir og fjárfestingar
Sparisjóður Ólafsfjarðar setti sér ekki sérstakar reglur um fjárfestingar en í reglum sparisjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra var fjallað stuttlega um fjárfestingar og mörk fjárfestingaheimildar. Þar kom fram að fjárfestingar í öðrum fasteignum en fullnustueignum skyldi bera upp í stjórn, ásamt öðrum fjárfestingaráformum sem telja mætti meiriháttar eða óvenjuleg.
Fjáreignir námu mest 263% af eigin fé Sparisjóðs Ólafsfjarðar í árslok 2007, að undanskildu árinu 2010 þegar eigið fé var einungis um 5,5 milljónir króna. Árið 2007 var sama hlutfall 123% hjá minni sparisjóðum.20 Árin 2008, 2009 og 2011 var eigið fé Sparisjóðs Ólafsfjarðar neikvætt og hlutfall fjáreigna af eigin fé að sama skapi neikvætt. Þeim tölum er sleppt úr mynd 10. Á sama tíma dró úr vægi fjáreigna í eignasafni sparisjóðsins, í lok árs 2007 voru þær 24% eigna en 4% ári síðar og héldust svipaðar eftir það.
Fjáreignir Sparisjóðs Ólafsfjarðar voru miklar í árslok 2007. Þá hafði hlutur markaðsskuldabréfa aukist mikið, eða nær þrefaldast frá árinu áður. Hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum tvöfölduðust milli áranna 2006 og 2007 en voru þó ekki nema þriðjungur af skuldabréfaeign sparisjóðsins í lok árs 2007. Fjáreignir sparisjóðsins drógust svo stórlega saman á árinu 2008 og breyttust lítið eftir það. Mikla aukningu skuldabréfaliðarins á árinu 2007 má rekja til kaupa sparisjóðsins á hlutdeildarskírteinum í peningamarkaðssjóði Íslenskra verðbréfa hf. Skírteinin námu 336 milljónum króna í árslok 2007 en á sama tíma námu víxlar og skuldabréf útgefin af Exista hf. 74 milljónum króna.
Árið 2000 seldi Sparisjóður Ólafsfjarðar bréf í Kaupþingi hf. og hagnaðist um 163 milljónir króna á því. Tveimur árum síðar seldi sparisjóðurinn hlutabréf í SP-Fjármögnun hf. og Alþjóða líftryggingarfélaginu hf. og var söluhagnaður af því um 26 milljónir króna. Þá kom fram í skýrslu endurskoðanda vegna ársreiknings 2004 að vegna góðrar lausafjárstöðu sparisjóðsins á árinu hefði hann aukið verulega fjárfestingu sína í hlutabréfum, eða um 189 milljónir króna. Innlán sparisjóðsins nægðu yfirleitt vel til þess að fjármagna öll útlán hans. Þannig sagði fyrrum sparisjóðsstjóri fyrir rannsóknarnefndinni:
Sparisjóðurinn hefur um langa hríð verið nánast að fullu fjármagnaður af innlánum, þannig að við höfum þurft að reyna að koma innlánunum í verð og í vinnu, ein leiðin var að fjárfesta í markaðspappírum eins og skuldabréfum.21
Í lok árs 2005 var stærsta fjáreign Sparisjóðs Ólafsfjarðar eignarhluti í Þormóði ramma-Sæbergi hf. en hann var bókfærður á rúmar 35 milljónir króna í árslok 2005 og var óbreyttur í árslok 2011. Eign sparisjóðsins í Sparisjóðabanka Íslands hf. og VBS Fjárfestingarbanka hf. rúmlega fjórfaldaðist frá árslokum 2005 til ársloka 2007. Sparisjóðabankinn var færður sem hlutdeildarfélag í bækur sparisjóðsins til ársins 2006 og hækkaði bókfært virði hans þá með góðu gengi bankans. Árið 2007 tók sparisjóðurinn að færa fjáreignir á gangvirði í stað kostnaðarverðs og hækkaði þá virði margra fjáreigna, svo sem Sparisjóðabankans og VBS Fjárfestingarbanka hf.
Stjórn sparisjóðsins fjallaði ekki mikið um þessar tvær fjárfestingar. Á stjórnarfundi 9. júní 2005 samþykkti stjórnin að kaupa hlutafé í hlutafjárhækkun Fjárfestingafélags sparisjóðanna hf. fyrir um 6 milljónir króna en félagið (sem þá hafði fengið nafnið FSP hf.) sameinaðist VBS Fjárfestingarbanka hf. á árinu 2007. Á sama fundi samþykkti stjórn sparisjóðsins að kaupa 1,82% hlut í Sparisjóðabanka Íslands hf., að nafnverði um 11 milljónir króna, og endurselja Sparisjóði Mýrasýslu.
Sparisjóður Ólafsfjarðar tapaði um 125 milljónum króna á veltuhlutabréfum árið 2008 en þar vó þyngst tap vegna Sparisjóðabankans, sem nam um 69 milljónum króna, og VBS Fjárfestingarbanka hf., sem nam 42 milljónum króna. Þessi bréf höfðu verið bókfærð á gangvirði árið 2007 en með hruni fjármálamarkaðar á Íslandi á árinu 2008 urðu þau nær verðlaus. Sparisjóðurinn tapaði einnig á skuldabréfum á árinu 2008, mest vegna skuldabréfa Exista hf. sem lækkuðu um 42 milljónir króna og skuldabréfa Milestone ehf. sem lækkuðu um 23 milljónir króna.22 Árið 2009 var stærsta niðurfærsla á fjáreignum sparisjóðsins í FSP Holding ehf., félagi sem stofnað var í kjölfar sameiningar FSP hf. og VBS Fjárfestingarbanka hf. Árið 2010 voru tekjur sparisjóðsins af veltuhlutabréfum litlar, sem og arðstekjur, en árið 2011 seldi sjóðurinn hluti í Valitor Holding hf. og hagnaðist um 31 milljón króna á því.
Hreinar rekstrartekjur Sparisjóðs Ólafsfjarðar, að undanskildum tekjum af fjáreignum, stóðu nokkurn veginn undir rekstri hans 2005–2007. Á sama tíma var afkoma af fjáreignum meiri eða svipuð og hagnaður ársins fyrir skatt. Árið 2008 varð tap á fjáreignum töluvert, eða tæpar 200 milljónir króna, en tap ársins fyrir skatta var þá rúmlega 400 milljónir króna. Afskriftir útlána ollu sparisjóðnum miklu tapi 2008 og það sama má segja um árin 2009 og 2010. Árið 2009 skiluðu fjáreignir sparisjóðsins 58 milljóna króna hagnaði vegna ójafnvægis erlendra eigna og skulda. Með samningum við Arion banka hf. í lok árs 2009 var þessi skekkja lagfærð og því varð hagnaður vegna gengisbreytinga minni árið eftir, eða tæpar 19 milljónir króna. Framlög í afskriftareikning útlána héldust há frá árinu 2008 til ársins 2011 en það ár varð gengishagnaður af sölu sparisjóðsins á Valitor Holding hf. Frá 2001 til 2007 hagnaðist sparisjóðurinn um 191 milljón króna á fjáreignum á árslokaverðlagi ársins 2011, en tapaði 75 milljónum króna á sama verðlagi frá 2008 til 2011. Heildarhagnaður sparisjóðsins af fjáreignum frá 2001 til 2011 var 116 milljónir króna á verðlagi ársins 2011.
22.4 Fjármögnun
Efnahagur Sparisjóðs Ólafsjarðar óx um tæpan helming frá 2005 til 2011. Innlán fjármögnuðu starfsemi sparisjóðsins að mestu leyti á þessum tíma en lántaka var tæplega þrisvar sinnum meiri í árslok 2008 en hún var í árslok 2006. Innlán voru 65–93% af skuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé hans á tímabilinu.23
Einstaklingar áttu að meðaltali 74% innlána í Sparisjóði Ólafsfjarðar á árunum 2005–2011 og fyrirtæki 15%.24 Bundin innlán voru að meðaltali 42% innlána í sparisjóðnum, hæst var hlutfallið 54% í september 2005 og lægst 31% í nóvember 2010.25 Innlán voru 113–168% af útlánum sparisjóðsins á árunum 2005–2011, lægst var hlutfallið árið 2005 og hæst 2011.
Ólíkt því sem gerðist í mörgum öðrum sparisjóðum varð ekki mikil innlánaaukning í Sparisjóði Ólafsfjarðar eftir fall bankanna, og reyndar drógust innlánin saman á árinu 2008. Frá febrúar 2008 minnkuðu bundin innlán í sparisjóðnum um 300 milljónir króna og óbundin innlán jukust að sama skapi, og því héldust heildarinnlán í sparisjóðnum nokkuð svipuð. Þó drógust þau lítillega saman rétt eftir fall viðskiptabankanna haustið 2008 og á sama tíma fluttust mörg innlán hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar af óverðtryggðum reikningum yfir á verðtryggða.
Sparisjóðurinn fjármagnaði erlend lán sín með erlendum lántökum í Sparisjóðabanka Íslands hf. en sú lánalína fluttist til Sparisjóðs Mýrasýslu þegar hann eignaðist nær allt stofnfé í Sparisjóði Ólafsfjarðar árið 2005.26 Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Ólafsfjarðar sagði sjóðinn lengi vel hafa streist á móti því að veita erlend útlán:
Nei, í upphafi vorum við ekki með erlend lán til viðskiptavina sparisjóðsins, og það var ekki fyrr en viðskiptavinir fóru að hóta því að þeir myndu bara fara annað með sín viðskipti ef þeir ekki fengju, því að það voru allir að fá erlend lán og þetta var bara „draumur í dós“ að þeirra sögn. Þá þurftum við að fara að fjármagna erlendu lánin hjá okkur og það var gert með þessari lánalínu, erlendu lánalínu. 27
Nýi Kaupþing banki hf. (síðar Arion banki hf.) yfirtók lánveitingar Sparisjóðs Mýrasýslu til Sparisjóðs Ólafsfjarðar á fyrri hluta árs 2009. Áður en til þess kom breytti Sparisjóður Mýrasýslu hluta skulda Sparisjóðs Ólafsfjarðar í stofnfé. Við þá breytingu hækkaði stofnfé sparisjóðsins um 330 milljónir króna. Árið eftir breytti Nýi Kaupþing banki hf. skuldum sem námu 256 milljónum króna í stofnfé í sparisjóðnum. Á árinu 2009 lækkuðu skuldir sparisjóðsins einnig vegna skuldajöfnunar við sama banka sem nam 190 milljónum króna og yfirtöku Íbúðalánasjóðs á íbúðabréfum að fjárhæð 290 milljónir króna, sem Íbúðalánasjóður hafði fjármagnað hjá sparisjóðnum.
Skuld við Íbúðalánasjóð var til komin vegna samninga frá árunum 2004 og 2005. Margir sparisjóðir gerðu lánasamninga við Íbúðalánasjóð um fjármögnun á fasteignalánum í lok árs 2004 og um mitt ár 2005, en að baki lánasamningunum voru fasteignalán sparisjóðanna. Sparisjóður Ólafsfjarðar fjármagnaði þannig um 190 milljónir króna í fasteignalánum og að baki þeim samningum voru 20 fasteignalán. Í desember 2005 gaf Sparisjóðabanki Íslands hf. út skuldabréf til Íbúðalánasjóðs, en að baki því voru fasteignalán frá mörgum sparisjóðum. Hlutur Sparisjóðs Ólafsfjarðar í þessum samningi var um 68 milljónir króna og lánin 13 talsins.
Sparisjóðurinn tók 13 milljóna króna víkjandi lán árið 2004 til tíu ára. Að sögn fyrrum sparisjóðsstjóra fjármagnaði Sparisjóður Mýrasýslu lánið sem hækkaði með verðlagsbreytingum vegna verðtryggingar.28
22.5 Stofnfé og stofnfjáreigendur
Á árunum 2000 til 2004 var fjöldi stofnfjáreigenda í Sparisjóði Ólafsfjarðar á bilinu 77–81. Eignarhaldið breyttist síðar meir og varð að langmestu leyti í höndum Sparisjóðs Mýrasýslu og síðar Arion banka hf.
Samkvæmt samþykktum Sparisjóðs Ólafsfjarðar frá 7. september 1997 átti stofnfé sparisjóðsins að vera að lágmarki 201 milljón króna og skiptast í þrjátíu eða fleiri hluti. Nafnverð hvers stofnfjárhlutar var 15 þúsund krónur og áttu stofnfjáreigendur jafngilda stofnfjárhluti með atkvæðisrétt í réttu hlutfalli við stofnfjáreign. Einstökum stofnfjáreigendum var aldrei heimilt, fyrir sjálf sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum. Sparisjóðurinn mátti ekki eiga meira en 10% af eigin stofnfjárbréfum og voru þau bréf án atkvæðisréttar. Sala og annað framsal stofnfjárhluta var óheimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar en veðsetning var með öllu óheimil. Fundur stofnfjáreigenda gat ákveðið að auka stofnfé með áskrift nýrra stofnfjárhluta eða með endurmati á stofnfé. Verð nýrra stofnfjárhluta skyldi ekki vera lægra en nafnverð áður útgefinna hluta að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár. Stofnfjáreigendur nutu forkaupsréttar að nýju stofnfé. Nafnverð hvers einstaks stofnfjárhlutar var 18.514 krónur samkvæmt samþykktum sparisjóðsins frá 21. mars 2003.
Í samþykktum sparisjóðsins frá 20. febrúar 2009 var að finna heimild fyrir stjórn sparisjóðsins til að hækka stofnfé hans um allt að 500 milljónir eða um jafnmarga einnar krónu hluti. Stjórn sparisjóðsins var falið að ákveða nánari útfærslu á nýtingu hækkunarheimildarinnar sem gilti til septemberloka 2012. Þá var heimilað að veðsetja stofnfjárhluti með samþykki stjórnar sparisjóðsins. Stofnfé sparisjóðsins var 581.800.000 krónur samkvæmt samþykktum sparisjóðsins frá 3. júní 2010. Stjórn hafði enn heimild til að hækka stofnfé sparisjóðsins og var forkaupsréttur stofnfjáreigenda nánar útfærður. Þá var að finna heimild til lækkunar stofnfjár til jöfnunar taps sem ekki yrði jafnað á annan hátt. Aðalfundur sparisjóðsins gat ráðstafað allt að 50% hagnaðar hans til hækkunar á nafnverði stofnfjár og til arðgreiðslna.
Í lok árs 2000 var nafnverð stofnfjár Sparisjóðs Ólafsfjarðar 224 milljónir króna og hækkaði á hverju ári fram til 2004 vegna endurmats stofnfjár. Stofnfé lækkaði árið 2003 þegar sparisjóðurinn leysti til sín 10 milljóna nafnverðshlut frá Tryggingasjóði sparisjóðanna. Frá árinu 2004 til loka árs 2008 var nafnverð stofnfjár óbreytt, 251 milljón króna, en eftir stofnfjáraukningu á árinu 2009 nam stofnfé 582 milljónum króna í lok árs. Árið 2010 var stofnfé aftur aukið og hækkaði þá í 838 milljónir króna að nafnverði og var óbreytt ári síðar.
Á árunum 2000–2003 voru stofnfjáreigendur í Sparisjóði Ólafsfjarðar um 80 talsins, þar af voru 17 lögaðilar. Á árinu 1997 hafði sparisjóðurinn sótt um aðstoð frá Tryggingasjóði sparisjóðanna og sjóðurinn, ásamt ellefu sparisjóðum, lagði til nýtt stofnfé sem nam 200 milljónum króna.29 Tryggingasjóðurinn átti þar langstærstan hluta eða 140 milljónir króna að nafnverði og þar á eftir kom Sparisjóðabankinn með 25 milljónir króna. Ellefu sparisjóðir áttu stofnfé sem nam samtals 10 milljónum króna að nafnverði. Stærsti stofnfjáreigandinn á þessum tíma var Sparisjóðabanki Íslands hf. en hlutur hans var 12–14%.
Hinn 7. júlí 2004 fól stjórn Sparisjóðs Ólafsfjarðar stjórnarformanni að kanna hvort áhugi væri á því að kaupa stofnfjáreign Tryggingasjóðs sparisjóðanna í Sparisjóði Ólafsfjarðar. Á stjórnarfundi 2. september 2004 var rætt um bréf frá Sparisjóði Mýrasýslu 20. ágúst 2004 þar sem hann lýsti yfir áhuga sínum á að kaupa allt stofnfé í Sparisjóði Ólafsfjarðar með það fyrir augum að sameina sjóðina. Á fundinum samþykkti stjórn Sparisjóðs Ólafsfjarðar að eiga könnunarviðræður við Sparisjóð Mýrasýslu. Á stjórnarfundi 15. september 2004 var lagður fram listi yfir níu aðila af starfssvæði sparisjóðsins sem voru tilbúnir að kaupa stofnfjárhlut Tryggingasjóðsins og samþykkti stjórn sparisjóðsins kaup þeirra á hlutnum sem þá nam 130 milljónum króna.
Viðræður milli Sparisjóðs Ólafsfjarðar og Sparisjóðs Mýrasýslu stóðu yfir næstu mánuði. Á stjórnarfundi 16. desember 2004 kynnti sparisjóðsstjóri tilboð Sparisjóðs Mýrasýslu í allt stofnfé Sparisjóðs Ólafsfjarðar. Stjórn mælti með að stofnfjáreigendur tækju tilboðinu og var tilboðið sent til allra stofnfjáreigenda eftir stjórnarfund 29. desember 2004. Yfirtakan var samþykkt af Fjármálaeftirlitinu 12. apríl 2005 og þá varð Sparisjóður Ólafsfjarðar hluti af samstæðu Sparisjóðs Mýrasýslu. Sparisjóður Mýrasýslu átti nær allt stofnfé (99,98%) í Sparisjóði Ólafsfjarðar eftir þetta. Í samþykktum var kveðið á um að stofnfjáreigendur þyrftu að vera að lágmarki 30 og hinir 29 skiptu með sér 0,02% hlut.
Á árunum 2006 og 2007 var þó nokkuð rætt um sameiningu Sparisjóðs Ólafsfjarðar og Sparisjóðs Siglufjarðar í stjórn þess fyrrnefnda. Stjórnin lýsti yfir vilja til þess að taka þátt í sameiningarviðræðum við Sparisjóð Siglufjarðar á fundi sínum 24. nóvember 2006, en sparisjóðirnir voru báðir í meirihlutaeigu Sparisjóðs Mýrasýslu. Á stjórnarfundi Sparisjóðs Ólafsfjarðar 20. júlí 2007 var upplýst um framtíðarmarkmið samstæðu Sparisjóðs Mýrasýslu um að sameina Sparisjóð Ólafsfjarðar, Sparisjóð Siglufjarðar og Sparisjóð Skagafjarðar undir einni kennitölu á Norðurlandi með óbreyttum starfsstöðvum og reka Sparisjóð Mýrasýslu áfram á Vesturlandi. Ekkert varð af þessari sameiningu. Sparisjóður Siglufjarðar og Sparisjóður Skagafjarðar sameinuðust hinsvegar árið 2008 undir nafni Afls sparisjóðs. Á aðalfundi stofnfjáreigenda Sparisjóðs Ólafsfjarðar 26. maí 2009 lagði fráfarandi stjórn áherslu á að sameina Sparisjóð Ólafsfjarðar og Afl sparisjóð. Ný stjórn ræddi hugmyndina en henni var ekki hrundið í framkvæmd.
Í apríl 2009 breytti Sparisjóður Mýrasýslu kröfum á hendur Sparisjóði Ólafsfjarðar í stofnfé. Við það jókst stofnfé um 330 milljónir króna að nafnverði. Við samruna Sparisjóðs Mýrasýslu við Nýja Kaupþing banka hf. daginn eftir að þessi umbreyting krafna í stofnfé var ákveðin eignaðist bankinn allar kröfur Sparisjóðs Mýrasýslu á hendur Sparisjóði Ólafsfjarðar sem eftir stóðu. Stjórn Sparisjóðs Ólafsfjarðar samþykkti framsal stofnfjárbréfa til bankans á stjórnarfundi 7. maí 2009. Nýi Kaupþing banki hf. (sem þá hét Arion banki hf.) breytti kröfum sem námu rúmum 256 milljónum króna í stofnfé í Sparisjóði Ólafsfjarðar 17. maí 2010.30 Umbreytingar krafna aðaleigenda sparisjóðsins í stofnfé voru gerðar til þess að bæta eiginfjárhlutfall sparisjóðsins. Sparisjóður Ólafsfjarðar sameinaðist Arion banka hf. árið 2012 og miðaðist samruninn við 1. janúar 2012. Samruninn var samþykktur af Fjármálaeftirlitinu 14. september 2012.
22.5.1 Sparisjóður Ólafsfjarðar hf.
Hlutafélagið Sparisjóður Ólafsfjarðar hf. var stofnað 27. ágúst 2007. Í stofngögnum kom fram að tilgangur félagsins væri að yfirtaka eignir, skuldir og allan rekstur Sparisjóðs Ólafsfjarðar og starfa sem sparisjóður samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002. Stofnendur voru skráðir Sparisjóður Ólafsfjarðar og Sparisjóður Mýrasýslu, sem var eini stofnfjáreigandi Sparisjóðs Ólafsfjarðar á þeim tíma. Í stjórn voru Gísli Kjartansson, Bernhard Þór Bernhardsson, Sigurður Már Einarsson, Arnar Bjarnason og Bjarni Jónsson. Samkvæmt ársreikningum Sparisjóðs Ólafsfjarðar hf. var aldrei neinn rekstur í félaginu og aldrei kom til hlutafélagsvæðingar í samræmi við ákvæði laga nr. 161/2002 samkvæmt ársreikningum. Af stjórnar- og aðalfundargerðum í Sparisjóði Ólafsfjarðar og Sparisjóði Mýrasýslu er ekki að sjá að Sparisjóður Ólafsfjarðar hf. eða hlutafélagsvæðing sparisjóðsins hafi verið þar til umræðu. Að sögn Helga Jóhannssonar fyrrum sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Ólafsfjarðar var aldrei neitt gert með Sparisjóð Ólafsfjarðar hf. og hlutafélagsvæðing sparisjóðsins aldrei rædd af alvöru.31
22.6 Rekstur sparisjóðsins eftir fall viðskiptabankanna haustið 2008 og niðurfelling skulda hans hjá Arion banka hf.
Í upphafi árs 2008 var staða Sparisjóðs Ólafsfjarðar ágæt, hagnaður af rekstri sjóðsins árið 2007 nam rúmum 48 milljónum króna, eigið fé sjóðsins í árslok nam rúmum 317 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var 18,1%. Á þeim tíma var sparisjóðurinn dótturfélag Sparisjóðs Mýrasýslu sem átti 99,98% eignarhlut í sparisjóðnum.32 Fall viðskiptabankanna haustið 2008 og aðrar hræringar á fjármálamarkaði höfðu sín áhrif á rekstur sparisjóðsins. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 var tap á rekstri sjóðsins 438 milljónir króna, eigið fé sjóðsins neikvætt um 187 milljónir króna og eiginfjárhlutfall neikvætt um 8,2%.33
Gripið var til aðgerða til að hækka eiginfjárhlutfallið og samþykkti Sparisjóður Mýrasýslu 330 milljóna króna stofnfjáraukningu 2. apríl 2009. Stofnfjáraukningin gekk eftir og fól í sér að hluta krafna Sparisjóðs Mýrasýslu á hendur Sparisjóði Ólafsfjarðar var breytt í stofnfé og við það hækkaði eiginfjárhlutfall þess síðarnefnda upp fyrir lögbundið lágmark.34 Í tilkynningu Sparisjóðs Ólafsfjarðar um stofnfjáraukninguna kom fram að sparisjóðurinn gæti enn frekar styrkt stöðu sína með því að óska eftir 20% eiginfjárframlagi úr ríkissjóði.35 Sparisjóðurinn sótti þó aldrei um slíkt framlag.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 3. apríl 2009 var vald stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Mýrasýslu tekið yfir og gerðar ráðstafanir í samræmi við kaupsamning sparisjóðsins og Nýja Kaupþings banka hf. sama dag. Þannig komst eignarhlutur Sparisjóðs Mýrasýslu í Sparisjóði Ólafsfjarðar í hendur Nýja Kaupþings banka hf. Sparisjóður Ólafsfjarðar var þó rekinn áfram sem sjálfstæður sparisjóður.
Árið 2009 reyndist sparisjóðnum ekki síður erfitt en árið 2008, tap af rekstri nam rúmum 238 milljónum króna, eigið fé var neikvætt í árslok um 95 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið sömuleiðis neikvætt um 4,8%. Stofnfjáraukningin í aprílbyrjun 2009 hafði því ekki skilað tilætluðum árangri þó eiginfjárhlutfall sparisjóðsins hefði hækkað nokkuð.36
Hinn 1. desember 2009 fór Fjármálaeftirlitið fram á að sparisjóðurinn skilaði árituðu reikningsuppgjöri miðað við 30. nóvember 2009 þar sem fram hefði komið í árshlutauppgjöri og eiginfjárskýrslu að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins væri undir lögbundnu lágmarki.37 Uppgjörið barst 21. desember sama ár og benti stjórnarformaður sparisjóðsins á að „unnið væri að lausn á málefnum sjóðsins“.38 Í bréfi sparisjóðsstjóra til Fjármálaeftirlitsins 26. janúar 2010 var óskað eftir mánaðarfresti til að auka við eiginfjárgrunn sparisjóðsins.39 Hinn 28. janúar 2010 var Sparisjóði Ólafsfjarðar veittur frestur til að auka við eiginfjárgrunn sinn, en sparisjóðurinn hafði áður getið þess að fyrirhugaðar ráðstafanir til úrbóta byggðust einkum á aðkomu fjármálaráðuneytisins að málefnum sparisjóðsins.40 Stjórn Sparisjóðs Ólafsfjarðar hafði vitneskju um að fjármálaráðuneytið hefði óskað eftir viðræðum við Arion banka hf. um breytt eignarhald á sparisjóðnum sem og Afli sparisjóði í tengslum við endurskipulagningu sparisjóðakerfisins. Þótt viðræður milli aðila væru ekki hafnar, hafði Arion banki hf. tekið jákvætt í umleitanir fjármálaráðuneytisins.41 Í bréfi Sparisjóðs Ólafsfjarðar 8. apríl 2010 kom fram að viðræður milli fjármálaráðuneytisins og Arion banka væru ekki hafnar en aðrir möguleikar til að auka eiginfjárgrunninn væru til skoðunar, svo sem sameining Sparisjóðs Ólafsfjarðar og Afls sparisjóðs, sala sparisjóðanna til annarra fjárfesta eða sameining þeirra við útibúanet Arion banka.42 Sama dag framlengdi Fjármálaeftirlitið frest sparisjóðsins til að auka við eiginfjárgrunninn til 20. maí 2010.43 Áður en sá frestur rann út, samþykkti stjórn Arion banka stofnfjáraukningu í Sparisjóði Ólafsfjarðar 17. maí 2010. Samþykkt var að bankinn breytti allt að 257 milljóna króna kröfum á hendur sparisjóðnum í nýtt stofnfé en við það myndi eiginfjárhlutfall sparisjóðsins fara upp fyrir lögbundið lágmark., í 9,6%44 Í bréfi sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins 20. maí 2010 var getið um stofnfjáraukninguna en jafnframt bent á að enn stæðu yfir viðræður við stjórnvöld um hugsanlega breytingu á eignarhaldi, auk þess sem aðrir möguleikar væru enn til skoðunar.45 Í lok ársins var eiginfjárhlutfall Sparisjóðs Ólafsfjarðar orðið neikvætt um 1,4%. Tap af rekstri sjóðsins á árinu 2010 nam 155,8 milljónum króna og var eigið fé hans 5,5 milljónir króna.46
Fjármálaeftirlitið sendi sparisjóðnum bréf 4. febrúar 2011 og óskaði eftir endurskoðuðu reikningsuppgjöri þar sem eiginfjárhlutfall sparisjóðsins var orðið neikvætt um 1,17%.47 Reikningsuppgjör ásamt greinargerð sparisjóðsins barst Fjármálaeftirlitinu 18. mars, en þar kom fram að fulltrúar sparisjóðsins ættu í viðræðum við Arion banka um að styrkja eiginfjárgrunn hans.48 Á þeim grundvelli veitti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum frest til 2. ágúst 2011.49
Í mars 2011 var gert samkomulag milli Arion banka hf. og Afls sparisjóðs um að sá síðarnefndi keypti 99,99% stofnfjár í Sparisjóði Ólafsfjarðar af Arion banka. Samhliða því skuldbatt Afl sig til að auka stofnfé Sparisjóðs Ólafsfjarðar um 100 milljónir króna að lágmarki eða sameina rekstur sparisjóðanna í því skyni að tryggja að Sparisjóður Ólafsfjarðar uppfyllti kröfur um eiginfjárhlutfall. Samkomulagið var gert með fyrirvara um endanlegt samþykki stjórnar allra aðila, lögmætra stofnana Sparisjóðs Ólafsfjarðar, auk Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins. Að sögn Ólafs Jónssonar, sparisjóðsstjóra Afls sparisjóðs, féll Arion banki síðar frá þessum hugmyndum án þess að gefa á því nokkra skýringu.50
Á haustmánuðum 2011 voru stofnfjárhlutir Arion banka í Afli og Sparisjóði Ólafsfjarðar settir í söluferli og gert ráð fyrir að eignarhlutir bankans yrðu seldir í einu lagi, en ekki varð af þeirri sölu. Að sögn Helga Jóhannssonar, sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Ólafsfjarðar, var þetta fullreynt; sparisjóðurinn var auglýstur til sölu en ekki var hægt að ganga að þeim tilboðum sem bárust; næsta skref var því að sameina sparisjóðinn Arion banka hf.51
Sparisjóðurinn hafði starfað á undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu frá 30. júní 2011 til 29. júní 2012, en þann dag jók Arion banki stofnfjáreign sína í sparisjóðnum þannig að eiginfjárhlutfall sjóðsins fór yfir lögbundið lágmark.52 Í samstarfi við aðra sparisjóði hafði verið unnið að framtíðarskipulagi sparisjóðanna á árinu 2011, en í ljósi þess að hvorki lágu fyrir formlegar tillögur um slíka framtíðarskipan né aðkomu annarra aðila að rekstri sparisjóðsins, leitaði stjórn eftir viðræðum um sameiningu við Arion banka. Svo fór að lokum að Fjármálaeftirlitið samþykkti samrunann 14. september 2012 og tók Arion banki við öllum réttindum og skyldum sparisjóðsins. Voru félögin sameinuð undir nafni Arion banka hf. og lauk þar með sögu Sparisjóðs Ólafsfjarðar sem hófst árið 1914.
22.7 Arður af stofnfjáreign
Sparisjóður Ólafsfjarðar greiddi stofnfjárhöfum tvisvar sinnum arð af stofnfé á tímabilinu 2001–2011 vegna næstliðinna rekstrarára. Arðgreiðslurnar voru vegna áranna 2006 og 2007 og námu samtals 78,8 milljónum króna, þar af voru 65,6 milljónir króna greiddar vegna ársins 2007. Greiðsla arðs fyrir 2006 var í samræmi við reglur Tryggingasjóðs sparisjóða. Arðgreiðslan vegna ársins 2007 var hins vegar mun hærri en reglur Tryggingasjóðs leyfðu.53 Raunarðsemi eigin fjár á árinu 2007 var 11,25% og arðgreiðsla samkvæmt því hefði þá numið 28,3 milljónum króna. Við upptöku alþjóðlegra reikningsskilareglna (IFRS) var eigið fé í ársbyrjun hækkað um 17,4 milljónir króna og samkvæmt reglum Tryggingasjóðs mátti við útreikning arðsins taka tillit til þess arðs sem heimilt hefði verið að greiða vegna ársins 2006, hefði nefndri hækkun verið bætt við afkomuna þá. Þannig hefði verið heimilt að greiða 26,8 milljónum króna hærri arð vegna ársins 2006 en gert var. Arðgreiðslan vegna 2007 gat því numið samtals 55,1 milljón króna, en greidd fjárhæð var því 10,5 milljónum króna umfram það sem heimilt var. Útreikningur þessi er sýndur í töflu 18. Fyrst er sýnt hvernig sparisjóðurinn hefur reiknað út leyfilega arðgreiðslu og því næst hvernig þetta skyldi reiknað í samræmi við reglur Tryggingasjóðs.
Í skýrslu sparisjóðsstjóra fyrir rannsóknarnefndinni sagði hann um þessa arðgreiðslu:
En eitt veit ég sem ég ætla að nefna hérna að Jónas Björnsson, þáverandi sparisjóðsstjóri, var mjög ósáttur við að Sparisjóður Ólafsfjarðar fór að greiða arð til Sparisjóðs Mýrasýslu og að allavega önnur arðgreiðslan hafi verið í trássi við lög. Mig minnir að hann hafi fengið það staðfest hjá Tryggingasjóði sparisjóðanna, að svo hafi verið.54
Reglur Tryggingasjóðs giltu til ársins 2009 þegar lögum var breytt og eftir það mátti greiða út arð sem næmi að hámarki 50% af hagnaði.55 Arðgreiðslur og forsendur þeirra eru tíundaðar í töflu 19.
Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.56 Árin 2001–2004 var stofnféð endurmetið um samtals 37,8 milljónir króna. Það var þó talsvert minna en verðlagsbreytingar gáfu tilefni til. Sparisjóður Ólafsfjarðar nýtti ekki þessa heimild eftir 2004.
Í sömu lögum var jafnframt heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar stofnfjár með svokölluðu sérstöku endurmati.57 Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Sparisjóðurinn nýtti ekki þessa heimild.
Í töflu 19 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var hins vegar greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmda. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.
22.8 Innra eftirlit
Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hafi verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Sparisjóðs Ólafsfjarðar og áhrif þeirra á rekstur sparisjóðsins. Áhersla var lögð á tímabilið 2005 til 2011.
22.8.1 Innri endurskoðun
Sparisjóður Ólafsfjarðar starfrækti ekki eigin innri endurskoðunardeild á því tímabili sem til athugunar var, en Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum undanþágu frá starfrækslu slíkrar deildar í kjölfar þess að sparisjóðurinn gerði samning um innri endurskoðun við KPMG endurskoðun hf. í febrúar 2004. Á árinu 2006 gerði Sparisjóður Ólafsfjarðar samning um innri endurskoðun við innri endurskoðunardeild Sparisjóðs Mýrasýslu sem annaðist innri endurskoðun fram að falli Sparisjóðs Mýrasýslu 3. apríl 2009.58 Í september 2009 gerðu Sparisjóður Ólafsfjarðar og KPMG hf. með sér samning um innri endurskoðun sparisjóðsins og annaðist KPMG hf. því hana árin 2009 og 2010. Hinn 20. desember 2011 gerðu Sparisjóður Ólafsfjarðar og Deloitte hf. síðan með sér samning um innri endurskoðun vegna ársins 2011.
Innri endurskoðun vegna ársins 2006 leiddi í ljós að innra eftirlit Sparisjóðs Ólafsfjarðar kom almennt vel út í athugunum. Taldi innri endurskoðandi að sparisjóðurinn þyrfti að setja sér öryggisstefnu í samræmi við leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2005 um rekstur upplýsingakerfa eftirlitsskyldra aðila. Gerð var athugasemd við að ekki væri reglulega kallað eftir upplýsingum um fjárhagsstöðu stærstu viðskiptaaðila en KPMG hafði áður gert sömu athugasemd í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2005.59 Innri endurskoðandi ítrekaði athugasemd sína frá fyrra ári um skil á fjárhagsupplýsingum stærstu viðskiptaaðila sparisjóðsins í skýrslu sinni um innri endurskoðun vegna ársins 2007. Einnig benti innri endurskoðandi á að setja þyrfti skriflegar reglur um viðskipti starfsmanna.60 Ekki er að sjá að fram hafi farið innri endurskoðun vegna ársins 2008.61
Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2009 var lagt til að útlánareglur yrðu endurskoðaðar til að taka mið af breyttu efnahagsástandi. Bent var á að auka þyrfti framlag í sérgreindan afskriftasjóð, þar sem um verulega tapshættu væri að ræða í mörgum tilvikum, tryggingagat væri til staðar og óvissa um rekstur margra félaga. Bent var á að mistök hefðu verið gerð í skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar þar sem gleymst hafði að tilgreina skuldbindingar eins viðskiptavinar og var því lagt til að skýrslurnar væru yfirfarnar af öðrum en skýrsluhöfundi áður en þær væru sendar inn til eftirlitsaðila. Benti innri endurskoðandi á að vegna stöðu í efnahagsmálum væru reglur um áhættustýringu ekki að skila tilgangi sínum „þar sem ekki væri hægt að fara eftir þeim“ og lagði til að þær yrðu endurskoðaðar. Þá voru einnig gerðar athugasemdir við regluvörslu og að ekki væri til listi frá stjórnarmönnum yfir venslaða aðila eða innherja tengda stjórnarmönnum.62
Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2010 kom fram að mikilvægt væri að reglur um tryggingar yrðu yfirfarnar og að farið yrði fram á auknar tryggingar þegar þörf krefði. Í skýrslunni var bent á að engar formlegar reglur um afskriftir væru til en slíkar reglur ættu að vera hluti af útlánareglum.63 Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2011 var bent á að mikilvægt væri að fyrir hendi væru skýr fyrirmæli af hálfu stjórnar varðandi útlán, tryggingar og ábyrgðir sparisjóðsins, sérstaklega þegar sparisjóðurinn starfaði með sérstakri undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu. Vakin var athygli á að stórar áhættuskuldbindingar væru umfram heimil mörk. Bent var á nauðsyn þess að til væru skriflegar reglur um innheimtuferil sparisjóðsins og einnig að stjórnin þyrfti að setja fyrirmæli um afskriftir útlána hjá sparisjóðnum. Mikilvægt væri að tryggja aðgreiningu starfa í afskriftaferlinu. Varðandi skýrslugjöf til eftirlitsaðila var bent á mikilvægi þess að skýrslur til eftirlitsaðila væru ávallt yfirfarnar af öðrum starfsmanni en þeim er annaðist gerð þeirra og ennfremur áréttað mikilvægi þess að skýrslum til eftirlitsaðila væri skilað fyrir eindaga.64
1 . Friðrik G. Olgeirsson, Sparisjóður í 80 ár: Saga Sparisjóðs Ólafsfjarðar 1914–1994, Ólafsfirði 1994, bls. 35.
2 . Samþykktir frá 1997 minntust heldur ekki á starfssvæði eða Ólafsfjörð þegar hlutverk og starfsemi voru skilgreind. Um skilgreiningu á starfsemi sparisjóðsins var vísað til laga nr. 113/1996.
3 . Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. febrúar 2002 í máli nr. S-126/2001 var fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Ólafsfjarðar ákærður og sakfelldur fyrir umboðssvik, bókhaldsbrot og brot gegn lögum um ársreikninga. Í dóminum er sérstaklega vikið að brotum gegn ákvæðum reglugerða um hámark lána og ábyrgða viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana, sem settar voru á grundvelli heimildar í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, svo og lánareglum sparisjóðsins um áhættuskuldbindingar og tengingar aðila. Dóminum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
4 . Fjallað er um meðhöndlun ársreikninga og reikningsskilareglur í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.
5 . Um launaþróun sparisjóðanna í heild er fjallað í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.
6 . Skýrsla KPMG endurskoðunar hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2008.
7 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2009, 28. maí 2010.
8 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2010, 21. mars 2011.
9 . Ekki var nánar skilgreint hvaða starfsmenn væru forsvarsmenn þeirra sem önnuðust útlán en lánareglurnar vísuðu til þess að sparisjóðsstjóra bæri að halda skrá yfir útlánaheimildir starfsmanna.
10 . Hér vísast til móðurfélagsins, Sparisjóðs Mýrasýslu, og systurfélagsins Afls sparisjóðs/Sparisjóðs Siglufjarðar.
11 . Skilgreiningu á því hvað skyldi telja umdeild mál var ekki að finna í lánareglunum.
12 . Umfjöllun um aðferðarfræði, forsendur og gögn má finna í 9. kafla, um útlán sparisjóðanna.
13 . Reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar taka til lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta og veittra ábyrgða fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila, svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu, og mats á áhættu vegna slíkra skuldbindinga. Reglurnar taka einnig til samstæðu fjármálafyrirtækis og móður- og dótturfyrirtækja. Það telst vera stór áhættuskuldbinding þegar viðskiptamaður eða fjárhagslega tengdir aðilar fá lán, ábyrgðir, gera framvirka samninga eða fá aðrar fyrirgreiðslur hjá fjármálafyrirtæki og slík skuldbinding fer yfir 10% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækisins. Áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila máttu ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni, sbr. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 er eiginfjárgrunnur reiknaður út samkvæmt 84.–85. gr. laga nr. 161/2002 og reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fyrirtækja.
14 . Lánahópur samanstendur af tveimur eða fleiri viðskiptamönnum sem eru fjárhagslega tengdir í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
15 . Samkvæmt stjórnarfundargerð 19. apríl 2010 var greint frá gjaldþroti félagsins og að búið væri að halda uppboð á fasteignum þess. Sparisjóðurinn var með veð í birgðum og tækjum félagsins og kom fram að fyrirhugað væri að selja veðsettar eignir til nýstofnaðs einkahlutafélags í eigu tveggja minnihlutaeigenda í útgerðarfélaginu.
16 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2010.
17 . Beiðnin var samþykkt á fundi stjórnar Sparisjóðs Ólafsfjarðar 18. október 2007.
18 . Skýrsla Helga Jóhannssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013. Í athugasemd til rannsóknarnefndarinnarinnar dró Helgi Jóhannsson síðara verðmatið í efa og sagði það varla geta talist eðlilegt. Verðfallið hefði ekki verið í neinu samræmi við verðbreytingar eftir hrun á sambærilegum fasteignum á þessu svæði.
19 . Síðar leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2010 um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, endurskoðun á leiðbeinandi tilmælum nr. 4/2006.
20 . Um það hverjir töldust til minni sparisjóða og hverjir til hinna stærri vísast til taflna 5, 9 og 10 í 8. kafla skýrslunnar.
21 . Skýrsla Helga Jóhannssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.
22 . Skýrsla KPMG endurskoðunar hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2008.
23 . Sjá nánari útskýringu í upphafi 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.
24 . Atvinnugreinaflokkun innlána sparisjóðsins sem skilað var mánaðarlega til Seðlabanka Íslands frá júlí 2007 til desember 2011.
25 . Lausafjáryfirlit Sparisjóðs Ólafsfjarðar, skýrsla unnin af sparisjóðnum og skilað til Seðlabanka Íslands frá janúar 2005 til desember 2011.
26 . Skýrsla Helga Jóhannssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.
27 . Skýrsla Helga Jóhannssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.
28 . Skýrsla Helga Jóhannssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.
29 . „Uppstokkun í kjölfar rekstrartaps“, DV 11. september 1997.
30 . Aðalfundur Sparisjóðs Ólafsfjarðar, 3. júní 2010.
31 . Skýrsla Helga Jóhannssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.
32 . Ársreikningur Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2007.
33 . Ársreikningur Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2008.
34 . Ársreikningur Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2008.
35 . „Sparisjóður Ólafsfjarðar eykur stofnfé“, visir.is 2. apríl 2009, http://www.visir.is/sparisjodur-olafsfjardar-eykur-stofnfe/article/2009545499848.
36 . Samkvæmt eiginfjárskýrslum Sparisjóðs Ólafsfjarðar til Fjármálaeftirlitsins var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins undir lögbundnu lágmarki frá þriðja ársfjórðungi ársins 2008 til annars ársfjórðungs ársins 2010. Eiginfjárhlutfallið var svo aftur komið undir lögbundið lágmark á fjórða ársfjórðungi sama árs og til 29. júní 2012, er Arion banki jók við stofnfjáreign sína í sparisjóðnum þannig að eiginfjárhlutfall hans fór yfir lögbundið lágmark.
37 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Ólafsfjarðar 1. desember 2009.
38 . Bréf Sparisjóðs Ólafsfjarðar til Fjármálaeftirlitsins 21. desember 2009.
39 . Bréf Sparisjóðs Ólafsfjarðar til Fjármálaeftirlitsins 26. janúar 2010.
40 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Ólafsfjarðar 28. janúar 2010.
41 . Bréf Sparisjóðs Ólafsfjarðar til Fjármálaeftirlitsins 23. febrúar 2010.
42 . Bréf Sparisjóðs Ólafsfjarðar til Fjármálaeftirlitsins 8. apríl 2010.
43 . Bréf Fjármálaeftirlitsins og Sparisjóðs Ólafsfjarðar 8. apríl 2010.
44 . Ársreikningur Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2009.
45 . Bréf Sparisjóðs Ólafsfjarðar til Fjármálaeftirlitsins 20. maí 2010.
46 . Ársreikningur Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2010.
47 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Ólafsfjarðar 4. febrúar 2011.
48 . Bréf Sparisjóðs Ólafsfjarðar til Fjármálaeftirlitsins 18. mars 2011.
49 . Bréf Fjármálaeftirlitsins og Sparisjóðs Ólafsfjarðar 30. júní 2011.
50 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.
51 . Skýrsla Helga Jóhannssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.
52 . Minnisblað Fjármálaeftirlitsins vegna eiginfjárstöðu Sparisjóðs Ólafsfjarðar, 20. ágúst 2013.
53 . Gerð er grein fyrir reglum um greiðslu arðs í 12. kafla.
54 . Skýrsla Helga Jóhannssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.
55 . Lögum um fjármálafyrirtæki var breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.
56 . Þessi heimild hafði verið við lýði allt frá 1993. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.
57 . Sú heimild kom inn í lög 2001. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.
58 . Sjá nánari umfjöllun í 20. kafla, um Sparisjóð Mýrasýslu.
59 . Skýrsla innri endurskoðunar Sparisjóðs Mýrasýslu um innri endurskoðun Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2006.
60 . Skýrsla innri endurskoðanda Sparisjóðs Mýrasýslu um innri endurskoðun Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2007.
61 . Tölvupóstur Arion banka hf. til rannsóknarnefndarinnar 16. október 2012; tölvupóstur Arion banka hf. til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2012.
62 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2009.
63 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2010.
64 . Skýrsla Deloitte hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Ólafsfjarðar 2011.