8. Samningar Íbúðalánasjóðs við Fjárvaka um innheimtu og viðskiptahugbúnað

Samantekt

Í ágúst 1999 stóð Íbúðalánasjóður að útboði á innheimtu og viðskiptahugbúnaði fyrir sjóðinn. Lægsta tilboðið átti Fjárvaki ehf., nýstofnað fyrirtæki í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, sem bauð FlexCube-hugbúnaðarlausnina og var í kjölfarið undirritaður samningur við fyrirtækið. Fjárvaki var m.a. í samstarfi við Sparisjóð Hólahrepps sem tryggði aðgang Íbúðalánasjóðs að Reiknistofu bankanna.

Hinn 18. janúar 2002 var hins vegar gert samkomulag um að hætta innleiðingu á FlexCube-hugbúnaðinum vegna tæknilegra vandamála. Þá voru liðnir 17 mánuðir frá útboðinu. Íbúðalánasjóður og Fjárvaki gerðu þá samning sem fól í sér eingreiðslu Íbúðalánasjóðs til Fjárvaka vegna þessa að upphæð 12,875 milljónir króna.

Sama dag var skrifað undir tvo samninga við Sparisjóð Hólahrepps. Sá fyrri tryggði Íbúðalánasjóði samsvarandi aðgang að Reiknistofu bankanna í gegnum sparisjóðinn líkt og verið hafði og greiddi Íbúðalánasjóður 9 milljónir króna á ári fyrir samninginn.

Síðari samningurinn var samkomulag um ávöxtun á 300 milljóna króna öryggissjóði Íbúðalánasjóðs. Sá samningur fól í sér óþarfa áhættu fyrir Íbúðalánasjóð þar sem Sparisjóður Hólahrepps var mjög lítill. Sparisjóðsstjóri undirritaði ekki samningana fyrir hönd sparisjóðsins heldur Sigurjón Rúnar Rafnsson, stjórnarmaður í Sparisjóði Hólahrepps sem einnig var aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga og stjórnarformaður og fyrrum framkvæmdastjóri Fjárvaka.

Sama dag og samningarnir þrír voru undirritaðir samþykkti Íbúðalánasjóður einnig reikning frá Sparisjóði Hólahrepps vegna reiknistofukostnaðar fyrir tímabilið 15. mars 2000 – 31. desember 2001 upp á 16,125 milljónir króna.

Lok samningsins um innleiðingu á FlexCube sem og aðrir samningar sem undirritaðir voru þann 18. janúar 2002 vekja upp spurningar um stjórnsýslu Íbúðalánasjóðs og tengsl hans við þá aðila sem að málinu komu.

8.1 Innheimta fyrir Húsnæðisstofnun og Íbúðalánasjóð áður en samið var um hana við Fjárvaka

Veðdeild Landsbanka Íslands (LÍ) sá um innheimtu fyrir Húsnæðisstofnun. Innheimtan fólst í því að senda greiðsluseðla til allra lántaka Húsnæðisstofnunar, annaðhvort mánaðarlega eða ársfjórðungslega. Auk þessarar innheimtu sá Veðdeildin um einhverja aðra minni þætti á sviði bankaþjónustu fyrir stofnunina. Innan Húsnæðisstofnunar var samningurinn við Veðdeild LÍ talinn óhagstæður en stofnunin þurfti að greiða LÍ um 100 milljónir króna árlega fyrir þjónustuna. Einhverjir gengu svo langt að segja að þetta væri enginn eiginlegur samningur, Veðdeildin fengi einfaldlega það sem hún vildi fyrir sína þjónustu.

Íbúðalánasjóður tók við hlutverki Húsnæðisstofnunar 1. janúar 1999. Við stofnun Íbúðalánasjóðs var mikil áhersla lögð á að fá hagstæðari kjör á innheimtunni en Húsnæðisstofnun naut, annaðhvort hjá Landsbankanum eða öðrum. Það endaði þannig að samið var við Búnaðarbankann og hafði hann innheimtu hinnar nýju stofnunar, Íbúðalánasjóðs, með höndum frá 1. janúar 1999.

Íbúðalánasjóður reyndi að fá aðild að Reiknistofu bankanna (RB) en þá hefði hann getað séð um innheimtuna sjálfur og ekki þurft á aðstoð fjármálafyrirtækis að halda. Það gekk ekki og því þurfti sjóðurinn að semja við fjármálafyrirtæki sem hafði aðild að Reiknistofunni. Fljótlega þróuðust mál svo að Íbúðalánasjóði þótti rétt að bjóða þjónustuna út og það strax á fyrsta ári sjóðsins árið 1999.

8.2 Útboð á innheimtu og viðskiptahugbúnaði 1999

Tildrög þess að ákveðið var að bjóða út innheimtu og viðskiptahugbúnað hjá Íbúðalánasjóði voru þau að Landsbanki Íslands kærði samning sem Íbúðalánasjóður hafði gert við Búnaðarbanka Íslands til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Sá samningur fól í sér að Búnaðarbankinn myndi veita Íbúðalánasjóði aðgang að skuldabréfa- og bókhaldskerfi Reiknistofu bankanna auk þess að sinna innheimtuþjónustu fyrir sjóðinn. ESA komst að þeirri niðurstöðu að samningurinn væri útboðsskyldur.

Ákveðið var að bjóða ekki einungis út innheimtuna fyrir Íbúðalánasjóð heldur einnig tengdan viðskiptahugbúnað (bókhalds- og upplýsingakerfi). Ennfremur var ákveðið að þetta skyldi boðið út saman í einum pakka. Útboðið hét „Innheimta og tengd þjónusta fyrir Íbúðalánasjóð, útboð nr. 12229“ og var birt í Morgunblaðinu1 15. ágúst 1999. Ekki er ljóst af hverju ákveðið var að bjóða þessa tvo þætti út saman. Þeir voru ekki mjög háðir hvor öðrum eins og síðar kom í ljós. Annars vegar voru líklegir bjóðendur þau fjármálafyrirtæki sem höfðu aðgang að Reiknistofu bankanna og hins vegar fyrirtæki sem sérhæfðu sig í tölvukerfum fyrir fjármálastarfsemi. Ekki lá í augum uppi að fyrirtæki væru almennt með starfsemi í báðum þessum greinum. Vera kann að ÍLS hefði fengið hagstæðara verð ef sjóðurinn hefði ekki skyldað bjóðendur að bjóða í hvort tveggja í einu.

Mjög fáir innan Íbúðalánasjóðs virðast hafa vitað af því að til stæði að bjóða út þessa þætti. Allt bendir til að það hafi fyrst og fremst verið stjórn ÍLS sem hafi haft frumkvæði að og tekið ákvörðun um að fara í útboðið. Árni Gunnarsson, sem sat í stjórninni, var fenginn til að annast vinnuna við útboðið af hálfu stjórnar. Árni hafði verið aðstoðarmaður Páls Péturssonar félagsmálaráðherra til ársloka 1998 þegar Gunnar Bragi Sveinsson tók við því starfi. Í alþingiskosningunum vorið 1999 var Árni Gunnarsson í öðru sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra en Páll Pétursson var í fyrsta sæti. Árni var úr Skagafirði en Páll var bóndi á Höllustöðum í Austur-Húnavatnssýslu. Árni missti afar naumlega af því að verða þingmaður í þessum kosningum en var orðinn varaþingmaður. Árni sagði við skýrslutöku2 að Gunnar S. Björnsson, stjórnarformaður ÍLS, hefði beinlínis beðið sig um að taka að sér verkið þar sem Gunnar hefði mikið að gera. Spyrja má hvort starfsmenn sjóðsins hefðu ekki verið betur til þess fallnir að vinna að útboðinu frekar en stjórnarmaður, þeir þekktu hina daglegu starfsemi sjóðsins mun betur en stjórnarmenn. Ráðgjafafyrirtækið VSÓ var fengið til að vinna útboðs- og verklýsingu auk tilboðsskrár en umsjónaraðili útboðsins var Ríkiskaup.

Útboðsgögn voru lögð fram 18. ágúst 1999 og lauk útboðinu þann 8. október sama ár. Alls bárust 7 tilboð og var mikill munur á hæsta og lægsta tilboði. Lægsta tilboðið átti Fjárvaki ehf., 61,7 milljónir króna, en næstlægsta tilboð átti Þróun hf., 91,5 milljónir króna. Hæsta tilboðið átti Kögun upp á 177,4 milljónir króna3.

Íbúðalánasjóður tilnefndi Guðmund Bjarnason, framkvæmdastjóra sjóðsins, og Gunnar S. Björnsson, stjórnarformann, til að yfirfara tilboðin og leggja mat á þau. Eins og fyrr segir var ákveðið að taka tilboði Fjárvaka og var samningur um innheimtu og tengda þjónustu milli Íbúðalánasjóðs og Fjárvaka undirritaður 28. október 1999.

Í skýrslutöku4 sagðist Árni Gunnarsson fyrst og fremst hafa komið að útboðinu sem tengiliður við þá aðila sem unnu útboðsgögnin sem og við að koma sjónarmiðum stjórnar Íbúðalánasjóðs á framfæri í þeirri vinnu. Aðspurður hvort starfsfólk Íbúðalánasjóðs hefði aðstoðað við undirbúninginn svaraði hann að svo hlyti að vera og nefndi hann Sigurð Geirsson og Ástu H. Bragadóttur sérstaklega. Stangast það á við það sem fram kom í máli Sigurðar Geirssonar í skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni.5 Hann sagði að starfsfólk sjóðsins hefði komið af fjöllum þegar útboðið var auglýst í fjölmiðlum. Samkvæmt Sigurði höfðu hvorki hann né sviðsstjóri tölvusviðs frétt af útboðinu fyrr en búið var að útbúa útboðsgögnin og auglýsa útboðið. Afhenda átti útboðsgögnin daginn eftir auglýsinguna og fékk starfsfólk sjóðsins einn dag til að fara yfir útboðsgögnin og lagfæra þau áður en þau voru afhent.

Sigurður Geirsson, sem var forstöðumaður fjárstýringarsviðs á þessum tíma, sagði við skýrslutöku6 að hann hefði ekki séð þörf á nýjum viðskiptahugbúnaði/tölvukerfi fyrir sjóðinn, það kerfi sem fyrir var hafi gengið vel og verið hægt að fá úr því allar helstu upplýsingar sem þurfti. Krafan um nýtt kerfi hafi því ekki verið frá starfsmönnum sjóðsins komin.

Ennfremur sagði Sigurður Geirsson að í útboðsgögnunum sem bárust starfsmönnunum í hendur hefði átt að útvista meiru en raun varð á eftir athugasemdir starfsmanna.

8.3 Samningur við Fjárvaka ehf. um viðskiptahugbúnað

8.3.1 Ákvæði samnings og greiðslur

Samningur Íbúðalánasjóðs og Fjárvaka fól í sér eftirfarandi verkefni:

  • Móttaka upplýsinga um fasteignaveðbréf Íbúðalánasjóðs í skuldabréfakerfi, uppreikningur þeirra og innheimtuþjónusta.
  • Móttaka upplýsinga um fjármögnunarbréf Íbúðalánasjóðs í skuldabréfakerfi og uppreikningur þeirra.
  • Aðgangur að kerfum Reiknistofu bankanna (RB), eða annarra sambærilegra kerfa.
  • Skil á færslum í fjárhagsbókhald Íbúðalánasjóðs.

Samningstíminn var 10 ár og var miðað við að hann myndi hefjast 1. mars 2000 og gilda til og með 28. febrúar 2010. Þrátt fyrir að í samningnum sé talað um fasteignaverðbréf verður að ætla að átt sé við fasteignaveðbréf og verður það orð notað hér í framhaldinu.

Greiðslur til verksala miðuðu við fjóra verkþætti: fasteignaveðbréf, fjármögnunarbréf, bókhald og tölvukerfi/viðskiptahugbúnað. Fyrir þrjá fyrstnefndu þættina átti að greiða í samræmi við einingarverð og raunverulegt magn. Fyrir tölvukerfi/viðskiptahugbúnað átti að greiða jafnar mánaðarlegar greiðslur.

Greiðslutilhögun verkþátta var eftirfarandi (allar upphæðir eru án virðisaukaskatts):

Fasteignaveðbréf:
Þjónustuaðili átti að sjá um alla innheimtuþjónustu og uppreikninga á fasteignaveðbréfum í eigu Íbúðalánasjóðs og alla nauðsynlega skráningu vegna þeirra. Greiða átti fyrir hvern útsendan greiðsluseðil. Samkvæmt samningi átti Fjárvaki að fá 66,5 kr. fyrir hvern útsendan greiðsluseðil. Í útboðsgögnum var viðmiðunarfjöldi 800.000 seðlar á ári sem gera 53.200.000 kr. á ári miðað við einingarverð Fjárvaka.

Fjármögnunarbréf:
Þjónustuaðili átti að sjá um að uppreikna gengi fjármögnunarbréfa í rauntíma ásamt því að sjá um alla umsjón með þeim og alla nauðsynlega skráningu vegna þeirra. Greiða átti fast einingarverð árlega fyrir hvert fjármögnunarbréf Íbúðalánasjóðs. Tilboð Fjárvaka hljóðaði upp á 66,5 kr. á hvert bréf sem gera 864.500 kr. á ári miðað við viðmiðunarmagntölu í tilboðsskrá.

Bókhald:
Þjónustuaðili átti að sjá um allar sjálfvirkar skráningar í bókhaldskerfi úr öðrum kerfum ásamt því að leggja fram nauðsynlegan hugbúnað svo samskipti kerfa gætu átt sér stað í rauntíma. Greiða átti fyrir hverja færslu úr bókhaldskerfi yfir í fjárhagsbókhald Íbúðalánasjóðs. Fjárvaki bauð 5 kr. í hverja færslu en í tilboðsskrá var miðað við 130.000 færslur á ári sem gera 650.000 kr.

Tölvukerfi/viðskiptahugbúnaður:
Greiða átti fasta greiðslu á ári fyrir tölvukerfi og hugbúnað, þ.m.t. skuldabréfa- og innheimtukerfi. Sú greiðsla átti að miðast við stofnkostnað, viðhald og rekstur tölvu- og hugbúnaðarkerfa. Sérstaklega var tekið fram að verð fyrir hina verkþættina þrjá, þ.e. fasteignaveðbréf, fjármögnunarbréf og bókhald, ætti ekki að innifela kostnað vegna tölvu- og hugbúnaðarkerfa. Samningur Íbúðalánasjóðs og Fjárvaka kvað á um greiðslu 7.000.000 króna á ári og að 1/12 hennar yrði greiddur mánaðarlega.

8.3.2 Fjárvaki og Sparisjóður Hólahrepps

Fjárvaki ehf., kt. 600398-2029, var í fullri eigu Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki og var í samstarfi við fyrirtækin: Opin kerfi, Sparisjóð Hólahrepps, Sparisjóð Norðlendinga og Element. Skrifað var undir samning Fjárvaka og ÍLS í október 1999 og tók hann gildi í ársbyrjun 2000. Fjárvaki gerði síðan samning við Sparisjóð Hólahrepps um innheimtu og þjónustu við Íbúðalánasjóð og var skrifað undir hann 25. maí 2000.

Samkvæmt samningnum átti sparisjóðurinn að annast innheimtu á öllum fasteigna-veðbréfum Íbúðalánasjóðs fyrir Fjárvaka ehf. ásamt því að annast afstemmingar, villuathuganir, millifærslur og aðra bankastarfsemi sem verkefninu fylgdi. Fjárvaki sá hins vegar um prentun greiðsluseðla og póstlagningu þeirra til viðskiptavina Íbúðalánasjóðs. Fyrir samstarfið lagði Fjárvaki sparisjóðnum til skrifstofuaðstöðu í húsnæði Kaupfélags Skagfirðinga við Ártorg 1 á Sauðárkróki ásamt tölvu- og skrifstofubúnaði. Fjárvaki greiddi húsnæðiskostnað, kostnað vegna tölvukerfis og launakostnað þann sem féll til vegna verkefnisins. Jafnframt átti Fjárvaki að greiða sparisjóðnum allan kostnað sem félli til vegna verkefnisins hjá Tölvumiðstöð sparisjóðanna og Reiknistofu bankanna auk kostnaðar vegna millibankagjalda. Þá átti sparisjóðurinn að fá 2 kr. fyrir hverja útsenda greiðslutilkynningu.

Sparisjóður Hólahrepps var á þessum tíma mjög lítill sparisjóður með 0,3 stöðugildi og efnahagsreikningurinn var um 20 milljónir króna að sögn fyrrverandi sparisjóðsstjóra.7 Til að vinna að þessu samstarfi við Fjárvaka var ráðinn nýr sparisjóðsstjóri, Kristján Valtýr K. Hjelm, sem byrjaði í janúar 2000. Kristján Hjelm starfaði við Sparisjóð Norðurlands þegar hann var ráðinn til Sparisjóðs Hólahrepps.

8.3.3 Innleiðing tölvukerfis og viðskiptahugbúnaðar

Samningur Íbúðalánasjóðs og Fjárvaka kom nokkrum sinnum til umræðu í stjórn Íbúðalánasjóðs. Á 38. fundi stjórnar þann 7. september árið 2000 var eftirfarandi bókað:

Nokkrar umræður urðu um málið og m.a. rifjaður upp aðdragandi útboðsins, tilboð sem bárust og verð þeirra. Einnig kom fram að innleiðing hins nýja tölvukerfis gengur vel og er gert ráð fyrir því að innleiðingu verði lokið í byrjun nóvember.8

Á 44. fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs þann 4. janúar 2001 var lagður fram viðaukasamningur milli Íbúðalánasjóðs og Fjárvaka. Þar kemur m.a. fram:

Framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs skýrði frá því að hann hefði haft samráð við formann stjórnar um opinber innkaup og ríkisendurskoðanda um form þessa viðaukasamnings.9

Viðaukasamningurinn átti að taka gildi um leið og upplýsingakerfið væri tekið í notkun. Þær viðbætur sem samningurinn tók til voru:

  • Securities Module FlexCube hugbúnaðarins fyrir húsbréf, húsnæðisbréf og verðbréfakaup (5 samtímanotendur)
  • Utanumhald sögulegra gagna úr húsbréfakerfi
  • Uppfærsla vaxtabóta í skuldabréfakerfi

Fyrir viðaukasamninginn átti Íbúðalánasjóður að greiða Fjárvaka 17 milljónir króna á ári sem er athyglisvert í ljósi þess að upphaflegi samningurinn við Fjárvaka gerði ráð fyrir 7 milljónum á ári fyrir stofnkostnað, rekstur og viðhald á tölvukerfi og hugbúnaði sem sinna átti þeim verkefnum sem nefnd voru fyrr í kaflanum.

Það var síðan á 47. fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs þann 8. mars 2001 sem framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs kynnti að:

Nokkur seinkun hefur orðið á gangsetningu nýs tölvukerfis frá því sem áður hafði verið ákveðið en innleiðing verkefnisins er nú á lokastigi. Hann lagði til upplýsingar fram minnisblað Orra Hlöðverssonar, framkvæmdastjóra Fjárvaka, um málið. Þar eru raktar helstu ástæður seinkunarinnar sem eru helstar þessar:10

  • Í greiningarvinnu kom í ljós töluverður fjöldi lána sem var með sérstakar útreikningsreglur. Þetta hefur kostað mun meiri forritunarvinnu við innleiðingu en gert var ráð fyrir í upphafi verkefnis.
  • Fjarvera lykilstarfsmanna verkefnisins í janúar og febrúar.
  • Önnur upplýsingaöflun í ytra umhverfi sem tengist verkefninu.

Miðað við fundargerð 47. fundar virðist hafa verið stefnt að því að hefja lokaatlögu að innleiðingu á FlexCube-kerfinu. Á 53. fundi, sem haldinn var 31. maí 2001, kom fram að „haldinn hefði verið fundur með forsvarsmönnum Fjárvaka um stöðu mála við innleiðingu Flexcube“. Átti að fjalla um þann fund á stjórnarfundinum og leggja fram nýja framkvæmdaáætlun en vegna forfalla tókst það ekki.11 Það var síðan á 54. stjórnarfundi 7. júní 2001 sem Ásta H. Bragadóttir, sviðsstjóri rekstrar og starfsmannahalds Íbúðalánasjóðs, lagði fram skýrslu um innleiðinguna og Páll Kolbeinsson frá Fjárvaka lagði fram minnisblað þar sem kom fram að kerfið ætti að vera tilbúið í byrjun júlí og þá tæki við tveggja mánaða samkeyrsla.12 Í lokaorðum í skýrslu Ástu er eftirfarandi tekið fram varðandi samninga við Fjárvaka:

Samningur Íbúðalánasjóðs við Fjárvaka ehf. er þannig að greiðslur til Fjárvaka ehf. hefjast ekki fyrr en kerfið hefur verið gangsett. Þó Íbúðalánasjóður sjái sér hag í því að koma kerfinu sem fyrst í gang, einkum með það að markmiði að geta dregið úr rekstrarkostnaði tölvukerfa sjóðsins, eru hagsmunir sjóðsins miklu meiri í því að rekstur FlexCube virki eins og til er ætlast.“13

Í lokaorðum skýrslunnar leggur Ásta mikla áherslu á að það verði að tryggja rekstraröryggi umfram allt annað. Ekki megi fara af stað með kerfi sem sé ekki 100% öruggt í rekstri. Einnig tekur Ásta fram í lokaorðum að ákvörðunin sem var tekin hafi verið að bjóða út víðtækara kerfi en hafði verið í notkun hjá Íbúðalánasjóði:

Þar skipti auðvitað mestu máli að sá tímafrestur sem okkur [Íbúðalánasjóði] var gefinn til útboðsins var naumur, en í stað þess að bjóða einungis út á þeim tímapunkti sambærilegan samning og í gildi var við Búnaðarbanka Íslands, var tekin sú ákvörðun að bjóða út nýtt og heilstætt skuldabréfakerfi.“14

Þarna, um mitt ár 2001, virtust bæði forstöðumenn Íbúðalánasjóðs og Fjárvaka vera búnir að átta sig á að það væru tæknileg atriði vegna „sérstakra“ lána sem krefðust meiri aðlögunar kerfisins. Þrátt fyrir varnaðarorð Ástu H. Bragadóttur virtust samningsaðilar vera sáttir við nýja framkvæmdaáætlun sem kom fram í minnisblaðinu frá Fjárvaka 7. júní 2001 þar sem stefnt var að því að samkeyrslu lyki í september 2001.15

Næst kom mál Fjárvaka á dagskrá stjórnar Íbúðalánasjóðs á 66. fundi hennar hinn 4. janúar 2002, þá um þremur mánuðum eftir að innleiðslu hafði átt að ljúka miðað við bókunina á 54. fundi stjórnar ÍLS hinn 7. júní þar sem kom fram að samkvæmt nýrri framkvæmdaáætlun ætti kerfið að verða innleitt í lok september 2001. Á 66. fundinum var bókað eftirfarandi:

Lögð fram fréttatilkynning dagsett 3.1.2002 um seinkun á afhendingu nýs viðskiptahugbúnaðar Íbúðalánasjóðs sem send var út í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um málið.16

Í umfjöllun í Morgunblaðinu 8. janúar 2002 kom fram að það stæðu yfir viðræður um framhald málsins þar sem FlexCube hefði ekki ráðið við séríslenskar aðstæður.

Á 68. fundi17 stjórnar Íbúðalánasjóðs þann 21. janúar 2002 var síðan lagt fram samkomulag milli Íbúðalánasjóðs og Fjárvaka ehf. um að hætta við innleiðingu á FlexCube-viðskiptahugbúnaði. Það var samþykkt. Ástæðurnar voru samkvæmt fundargerð eftirfarandi:

Ljóst er að viðskiptahugbúnaðurinn getur ekki leyst ákveðin sértæk mál Íbúða-lánasjóðs án viðamikilla breytinga á stöðlum FlexCube og án þess að veikja heildarhugbúnaðarlausnina. Því séu það sameiginlegir hagsmunir þessara aðila að hætta við innleiðingu.

Í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði þann 21. janúar 2002 kom eftirfarandi fram:

Íbúðalánasjóður og Fjárvaki eru sammála um að atriði sem snerta mjög sértæka vinnslu ákveðinna skuldabréfaflokka Íbúðalánasjóðs og eru tilkomin vegna sérstöðu sjóðsins verði ekki leyst án veigamikilla breytinga á stöðlum Flexcube hugbúnaðarins án þess að veikja heildarhugbúnaðarlausnina.

Þau atriði sem ekki er unnt að leysa án grundvallarbreytinga á hugbúnaði eru:

  1. Greiðslujöfnunarlán, en í þeim eru greiðslujöfnunarákvæði vegna misgengis láns og launavísitalna peningalána Íbúðalánasjóðs. Þessi lán vinna með tvær vísitölur en tilgangur þeirra er að tryggja að breytingar á greiðslubyrði lánanna haldist í hendur við almenna launabreytingu í landinu. Þetta er lítill hluti af lánum sjóðsins og á ekki við í húsbréfakerfinu.
  2. Sérstaða vanskilainnheimtu sjóðsins. Reglur sjóðsins gera ráð fyrir því að innheimtukostnaður taki ekki mið af fjölda skuldabréfa heldur takmarkast innheimtukostnaður af fjölda lánshluta í vanskilum á tilteknum gjalddaga.18

Við samningsslitin greiddi Íbúðalánasjóður 12.875.000 krónur til Fjárvaka ehf. Líkt og áður hefur verið minnst á stóð til að Íbúðalánasjóður myndi greiða Fjárvaka 7 milljónir króna á ári fyrir fullbúið kerfi í notkun. Greiðslan við samningslokin var sambærileg þessu, þ.e. 7 milljónir á ári í 22 mánuði og 3 daga (15. mars 2000 til 18. janúar 2002) nema greitt var fyrir kerfi sem virkaði ekki. Að sögn Ástu H. Bragadóttur, þáverandi yfirmanns rekstrardeildar sem heyrði undir aðstoðarframkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, var það sameiginleg niðurstaða að hætta innleiðslu FlexCube.19 Ástæðurnar sem hún taldi fram voru m.a.:

Þeir voru auðvitað búnir að leggja gífurlega vinnu í verkefnið varðandi greiningu og það má kannski segja þeim til varnar að þegar menn fóru út í verkefnið í byrjun, þá var hvorki nægileg þekking til innan Íbúðalánasjóðs til að skilgreina verkefnið til enda né hjá þeim […] Það var ekki bara aðilum Fjárvaka um að kenna að illa fór, það var klárlega líka þekkingarleysi innan sjóðsins.

Niðurstaða þessara mála vekur upp spurningar um hvort útboðið í upphafi hafi verið nægjanlega skýrt og þessi „séríslensku“ atriði vel skilgreind í því eða hvort verktaki hafi ekki uppfyllt samning sinn. Af orðum Ástu hér framar má ráða að þessi atriði hafi ekki verið nægilega skilgreind. Á tímabilinu sem unnið er að innleiðingu virðast bæði verksali og verkkaupi telja að þeir séu að komast á lokastig og innleiðing gangi upp. Það er svo ekki fyrr en í árslok 2001 sem ljóst virðist að það takist ekki og því virðist hafa verið sameiginleg niðurstaða að ekki hafi verið næg þekking innan Íbúðalánasjóðs á þessum atriðum og því hafi þau ekki verið dregin nægilega skýrt fram í útboðsgögnum. Það var því hagur beggja aðila að slíta þessu samstarfi. Sátt virðist hafa verið um þessa niðurstöðu og hún ekki hlotið mikla gagnrýni eða umræðu. Það verður þó einnig að skoða hér að þótt FlexCube hafi verið þekktur hugbúnaður hafði Fjárvaki enga reynslu í þróun og rekstri á hugbúnaði enda félagið stofnað gagngert til að gera tilboð í verkefnið og annast það. Það sem vekur upp spurningar um framkvæmd á þessu máli er t.d. að hvergi er að sjá í gögnum stjórnar Íbúðalánasjóðs yfirlit yfir heildarkostnað við innleiðslu á FlexCube eða úttekt á því af hverju fór sem fór. Samkvæmt rekstrarúttekt sem gerð var á sjóðnum og er fjallað um í 5. viðauka var kostnaður vegna FlexCube árið 2001 15,4 milljónir króna en kostnaður vegna 1999 og 2001 var ekki skoðaður í rekstrarúttektinni af bókhaldstæknilegum ástæðum. Spyrja má hvort eðlilegt hefði verið að fá utanaðkomandi aðila til að leggja mat á hvort staðið hafi verið við samninga eða tilboð hafi verið skýrt og hvort Fjárvaki hafi staðið við sinn hlut samninganna. Ríkiskaup sáu um útboðið en síðan virðist aðkoma þeirra engin að málinu þegar gerður var samningur um verklok.

Eins og fram kemur í rammagrein 8.2 voru Ríkiskaup gagnrýnd hvað varðaði útboð á hugbúnaði.

8.4 Samningur um áframhaldandi innheimtu Sparisjóðs Hólahrepps

Hinn 18. janúar 2002, sama dag og skrifað var undir slit á samstarfi um innleiðingu tölvukerfis og viðskiptahugbúnaðar, var skrifað undir samning við Sparisjóð Hólahrepps „um aðgang Íbúðalánasjóðs að Reiknistofu Bankanna“. Samningurinn20 er eftirfarandi:

Sparisjóður Hólahrepps, kt 610269-5679, hér eftir nefndur SH, og Íbúðalánasjóður, kt. 661198-3629, hér eftir nefndur ÍLS, gera með sér svohljóðandi samning.

1. gr.

SH tryggir ÍLS samsvarandi aðgang að kerfum Reiknistofu Bankanna og verið hefur frá 15.03.2000, samkvæmt 5. gr. samnings þar um frá 28.10.1999. Í því felst m.a. að greiðsluseðlar ÍLS eru sendir út í nafni SH. ÍLS heldur áfram fullri vinnslu á sínum bankanúmerum á meðan ekki liggur fyrir ákvörðun um annað frá hendi ÍLS.

2. gr.

ÍLS mun áfram greiða beint til RB allan kostnað sem þar fellur til vegna starfsemi ÍLS þ.m.t. millibankagjöld. Kostnaður sem kann að falla til hjá RB vegna breytinga eða niðurfellingar á samningi þessum mun ÍLS greiða.

3. gr.

Fyrir samning þennan greiðir ÍLS sparisjóðnum kr. 9 milljónir á ári frá og með 01.01.2002.

4. gr.

Samningur þessi er gerður í tveimur eintökum, einu fyrir hvorn aðila.

Eins og sjá má er hvorki tiltekið hvenær samningurinn renni út né kveðið á um uppsagnarákvæði. Undir samninginn skrifuðu Guðmundur Bjarnason með fyrirvara um samþykki stjórnar ÍLS og Sigurjón R. Rafnsson með fyrirvara um samþykki stjórnar Sparisjóðs Hólahrepps. Sigurjón var stjórnarmaður í sparisjóðnum og hafði ekki prókúru og mátti því ekki skrifa undir samninga fyrir hans hönd. Um það verður fjallað hér aftar en fleiri samningar voru nefnilega gerðir þennan dag sem vert er að fjalla um.

Undirritun ofangreinds samnings vekur nokkra athygli. Ef sá sem bauð best í útboðinu gat ekki staðið við samning sinn hefði þá ekki verið eðlilegast að bjóða þjónustuna út að nýju? Sér í lagi þar sem upphaflega var farið í útboðið þar sem ESA krafðist þess að Íbúðalánasjóður byði út innheimtuþjónustuna, þ.e. þá þjónustu sem varð eftir í Sparisjóði Hólahrepps eftir að samningnum við Fjárvaka var rift. Jafnframt var í upphaflega útboðinu sett það skilyrði að Íbúðalánasjóður myndi eignast skuldabréfakerfið sem notað yrði við innheimtuna að samningstíma loknum. Má gera ráð fyrir því að það ákvæði hafi vegið þungt, bæði í innsendum tilboðum sem og um það hvort áhugasamir aðilar buðu yfirhöfuð í verkið. Samkvæmt Helga H. Steingrímssyni, forstjóra Reiknistofu bankanna, gátu bankar og sparisjóðir ekki undirgengist það skilyrði hvað varðar vinnslukerfi Reiknistofunnar.21 Samningur Íbúðalánasjóðs og Sparisjóðs Hólahrepps byggðist hins vegar á vinnslukerfi Reiknistofunnar sem skilyrði útboðsins útilokaði. Því má segja að forsendur samningsins sem gerður var árið 2002 hafi verið allt aðrar en þær sem lágu að baki innheimtuhluta útboðsins 1999. Guðmundur Bjarnason, þáverandi framkvæmdastjóri, var spurður í skýrslutöku af hverju haldið hefði verið áfram með samninginn um innheimtuna. Hann svaraði22 á eftirfarandi hátt:

Samningurinn var […] náttúrulega í eðli sínu og eðli málsins samkvæmt dálítið, og kannski alveg tvískiptur. Þó að ég muni nú ekkert um útboðsgögn eða samningsgerð í því efni en þá eru þetta náttúrulega tvö mjög ólík verkefni.

Miðað við þessi orð er umhugsunarvert af hverju þetta tvennt var yfirhöfuð boðið út saman. Guðmundur sagði jafnframt þegar hann var spurður af hverju ekki hefði verið boðið út aftur:

[…] en allavega var það talið að það væri ekkert sem að kæmi í veg fyrir það að við héldum því áfram og sá hluti samningsins stæði.

Sama dag, 18. janúar 2002, gaf Sparisjóður Hólahrepps út reikning á Íbúðalánasjóð sem bar yfirskriftina: „Innheimta Sparisjóðs Hólahrepps fyrir Íbúðalánasjóð vegna Reiknistofukostnaðar. 15. mars 2000 – 31. desember 2001“. Reikningurinn var að fjárhæð 16.125.000 krónur. Upphæðin samsvarar 9 milljónum á ári eins og í samningnum sem átti að gilda frá og með 1. janúar 2002. Um greiðslur aftur í tímann stóð ekki í samningnum og því var þessi greiðsla ekki samkvæmt honum. Ekki er ljóst hvort greiðslan var vegna kostnaðar sem sparisjóðurinn hafði á þessu tímabili sjálfur þurft að greiða Reiknistofunni eða hvort ÍLS hafði einnig greitt þann kostnað.

Þann 24. janúar greiddi Íbúðalánasjóður fjárhæðina inn á reikning í eigu Sparisjóðs Hólahrepps en fjárhæðin var svo millifærð sama dag á reikning í eigu Fjárvaka. Samkvæmt Kristjáni Hjelm23 hafði Sigurjón Rúnar Rafnsson hringt í hann og sagt Fjárvaka eiga peninga inni á reikningi sparisjóðsins og krafðist þess að fá þá millifærða. Kristján segist hafa mótmælt í fyrstu en þess í stað boðist til þess að bakfæra peningana aftur til Íbúðalánasjóðs sem hefði þá getað lagt fjárhæðina beint inn á reikning Fjárvaka. Kristján sagði Sigurjón ekki hafa tekið það í mál og Kristján lét að lokum undan kröfum hans. Kristján lýsti ástæðu þess að hann varð við kröfum Sigurjóns á eftirfarandi hátt:

Mér var hótað brottrekstri, maður var minntur á ýmislegt og ekki í fyrsta og eina skiptið sem maður var minntur á hver réði […] Afl kaupfélagsins var svo gífurlegt, allsráðandi, að maður varð að millifæra þessa peninga.

Erfitt er að segja til um ástæður greiðslunnar og af hverju Íbúðalánasjóður lagði þessa peninga inn á reikning Sparisjóðs Hólahrepps. Sérstakur reikningur frá Sparisjóði Hólahrepps vegna reiknistofukostnaðar og greiðsla af hálfu Íbúðalánasjóðs sem endaði inni á reikningi Fjárvaka kemur skringilega fyrir sjónir. Þegar óskað var eftir útskýringu á greiðslunni frá Íbúðalánasjóði bárust þau svör að sjóðurinn hefði verið að framfylgja upprunalega samningnum við Fjárvaka og var vísað til þess að í samningnum kæmi fram að Sparisjóður Hólahrepps hefði verið samstarfsaðili þess samnings og að Reiknistofa bankanna hefði séð um skuldabréfakerfið og skil á færslum í bókhald Íbúðalánasjóðs.24 Sú útskýring Íbúðalánasjóðs varpar þó ekki fyllilega ljósi á ástæður greiðslunnar. Vera kann að forsvarsmenn Fjárvaka hafi litið svo á að fyrirtækið ætti rétt á greiðslu fyrir þann hluta upprunalega samningsins sem staðið var við og talið að rétt væri að miða við þá fjárhæð sem kom fram í samningi Íbúðalánasjóðs og Sparisjóðs Hólahrepps um áframhald á þeirri þjónustu. Við það er hins vegar tvennt að athuga. Fyrst ber að nefna þá einföldu staðreynd að reikningurinn var gefinn út í nafni Sparisjóðs Hólahrepps en ekki Fjárvaka. Svo ber að nefna orðalagið á reikningnum en þar er gefin útskýringin: „Innheimta Sparisjóðs Hólahrepps fyrir Íbúðalánasjóð vegna Reiknistofukostnaðar“.

Þess ber einnig að geta að greiðslurnar frá ÍLS voru ekki eini ávinningurinn sem Sparisjóður Hólahrepps hafði af innheimtu fyrir Íbúðalánasjóð. Sparisjóðurinn fékk hluta af hagnaði RB í samræmi við umfang. Það umfang breyttist úr því að vera nánast ekkert í mjög mikið.

8.5 Samningur um ávöxtun öryggissjóðs

Hinn 18. janúar 2002 skrifaði framkvæmda-stjóri Íbúðalánasjóðs undir samning við Sparisjóð Hólahrepps um ávöxtun á 300 milljóna króna öryggissjóði Íbúðalánasjóðs. Samkvæmt samningnum skyldu vextir á öryggissjóðnun vera á hverjum tíma 0,20% hærri en vextir viðskiptareikninga lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands. Undir þennan samning skrifaði fyrir hönd Sparisjóðs Hólahrepps Sigurjón Rúnar Rafnsson, stjórnarmaður í Sparisjóði Hólahrepps og stjórnarformaður Fjárvaka ehf. Sigurjón var (og er enn þegar þetta er skrifað) jafnframt aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga. Sigurjón hafði ekki prókúru fyrir sparisjóðinn né samþykki stjórnar en skrifaði undir með fyrirvara um samþykki stjórnar. Athyglisvert er að þetta gerðist á sama tíma og Sigurjón var að semja um að Fjárvaki hætti innleiðingu FlexCube-hugbúnaðarins hjá ÍLS og um endurgreiðslu vegna þess verkefnis. Þetta er jafnframt sama dag og ÍLS samdi við Sparisjóð Hólahrepps um aðgang að Reiknistofu bankanna. Hér er því um þriðja samninginn að ræða þennan dag sem undirritaður var af framkvæmdastjóra ÍLS annars vegar og aðstoðarkaupfélagsstjóra KS eða framkvæmdastjóra Fjárvaka (dótturfélags kaupfélagsins) hins vegar.

Í skýrslutöku af Gunnari S. Björnssyni, þáverandi formanni stjórnar Íbúðalánasjóðs, svaraði hann, aðspurður um öryggissjóð, að enginn slíkur sjóður hefði verið til. Árni Gunnarsson, sem einnig var í stjórn á þessum tíma, kannaðist ekki heldur við sjóðinn.25 Þegar Gunnar S. Björnsson var upplýstur um að þessi öryggissjóður hefði verið til kannaðist hann ekki við að samningur um hann hefði verið samþykktur af stjórn.26 Ekki fannst bókun í fundargerðum um að þessi samningur hefði verið lagður fyrir stjórn Íbúðalánasjóðs. Í fundargerðum stjórnar Sparisjóðs Hólahrepps árið 2002 er ekki að sjá að stjórninni sé tilkynnt um tilvist samningsins, hvað þá að hann hafi verið borinn undir stjórnina til samþykktar. Hins vegar er í fundargerð27 stjórnarfundar 27. mars 2002 fjallað um 300 milljóna króna innlán frá ÍLS og verklag og vinnureglur varðandi umsýslu þess fjár. Jafnframt kemur fram í bréfi endurskoðanda sparisjóðsins til stjórnar hans sem dagsett er 7. apríl 2004 að á þeim tíma hafði stjórnin ekki samþykkt samninginn.28

Líta má á öryggissjóðinn sem lið í lausafjárstýringu Íbúðalánasjóðs. Markmið lausafjár-stýringar er yfirleitt að tryggja að nægt laust fé sé aðgengilegt svo hægt sé að standa við skuldbindingar til skamms tíma á gjalddaga. Lausafé þarf þar af leiðandi að geyma á tryggum stað svo hægt sé að ganga að því þegar þörf krefur. Tilgangur lausafjárstýringar er því ekki ávöxtun fjármagns heldur tryggt aðgengi að fjármagni. Í raun fylgir lausafjárstýringu oft kostnaður, þ.e. kerfisbundið tap, vegna þess að ávöxtun lausafjár er gjarnan lægri en vextir á skuldum. Sá kostnaður getur þó talist ásættanlegur vegna minni lausafjáráhættu. Varðveisla öryggissjóðs hjá Sparisjóði Hólahrepps, einni minnstu fjármálastofnun landsins, fól í sér óþarfa áhættu fyrir Íbúðalánasjóð og stangast því á við markmið lausafjárstýringar. Samningnum fylgdi töluvert meiri mótaðilaáhætta (sjá kafla 11) fyrir Íbúðalánasjóð heldur en ef samningur við burðugri fjármálastofnun hefði verið gerður.

Sigurður Geirsson var sviðsstjóri fjárstýringarsviðs ÍLS á þessum tíma en fjárstýringarsvið sá um ávöxtun lausafjár. „Öryggissjóður“ hefði því átt að vera ávaxtaður að hans undirlagi. Svo var ekki. Sigurður sagði við skýrslutöku29 að þessi samningur hefði hvorki verið gerður með hans vilja né samþykki. Honum hafi einfaldlega verið sagt að búið væri að samþykkja þetta. Milljónirnar 300 hefðu síðan verið færðar á reikning Sparisjóðs Hólahrepps af rekstrarsviði Íbúðalánasjóðs og verið í gjörgæslu alla tíð síðan vegna smæðar sparisjóðsins. Sigurður taldi að Sparisjóður Hólahrepps hefði einfaldlega verið allt of lítill til að geyma þessa upphæð:

Í mínum huga þá þurftu fjármálastofnanir að vera að ákveðinni stærðargráðu til þess að ég færi að gera við þá einhverja hundruð milljóna króna samninga og þessi sparisjóður var það ekki.

Þáverandi framkvæmdastjóri ÍLS, Guðmundur Bjarnason, var spurður ítarlega um öryggissjóðinn í skýrslutöku30 en hann mundi ekki eftir honum. Jafnframt gat hann ekki skýrt af hverju svo örsmár sparisjóður var valinn til að geyma þetta fé að öðru leyti en því að líklega hafi Sparisjóður Hólahrepps boðið góð kjör og hann hafi verið „ákveðinn viðskiptaaðili“ Íbúðalánasjóðs.

Guðmundur var einnig spurður í sömu skýrslutöku hvort það hefði verið eðlilegt að Sigurjón skrifaði undir samninginn án umboðs og sagði Guðmundur að það hefði verið mjög óeðlilegt. „Af einhverjum ástæðum hlýt ég að hafa talið það að hann hefði til þess fullt umboð, og þá gert með fyrirvara.“ Guðmundur sagði einnig að það kæmi sér mjög á óvart að ekkert fyndist í fundargerðum stjórnar ÍLS um að samningurinn hefði verið lagður þar fyrir.

Sparisjóður Hólahrepps var einhver minnsta fjármálastofnun landsins á þessum tíma eins áður hefur verið drepið á og hafði takmarkaða möguleika á að ávaxta féð sjálfur. Ekki var um annað að ræða en fá aðra stofnun til að ávaxta féð og lagði sparisjóðurinn það m.a. inn í Sparisjóðabankann þar sem hann fékk lítið eitt hærri vexti en hann þurfti að greiða ÍLS. Samkvæmt vitnisburði Kristjáns Hjelms var þetta furðulegur samningur að því leyti að Sparisjóður Hólahrepps var eingöngu milliliður sem tók vaxtamun en Íbúðalánasjóður hefði getað gert samning beint við Sparisjóðabankann.31 Staðfesting fékkst á því að Íbúðalánasjóður hefði getað snúið sér beint til Sparisjóðabankans til að varðveita féð. Þetta vekur spurningar um hvað vakti fyrir Íbúðalánasjóði við gerð þessa samnings við Sparisjóð Hólahrepps. Samningurinn virðist ekki hafa verið gerður með hagsmuni Íbúðalánasjóðs í huga. Engir slíkir samningar voru gerðir við aðra aðila og virðist hugtakið „öryggissjóður“ einungis hafa verið til varðandi þennan eina samning. Alla jafna var ekkert innan Íbúðalánasjóðs sem kallað var öryggissjóður.

Í umræddum samningi kom fram að upphæðin sem Sparisjóður Hólahrepps tæki að sér að ávaxta gæti orðið enn hærri en 300 milljónir eða allt að 600 milljónir. Í 2. grein samningsins stóð:

Íbúðalánasjóður mun bjóða Sparisjóði Hólahrepps á árinu 2002 að ávaxta allt að kr. 300 milljónir til viðbótar enda bjóði Sparisjóðurinn sömu vexti á það fjármagn og Íbúðalánasjóði býðst hjá öðrum lánastofnunum.

Sigurður Geirsson sagði við fyrrgreinda skýrslutöku að hann hefði komið í veg fyrir að meira fé væri lagt inn í sparisjóðinn í samræmi við þetta ákvæði.

Aukinheldur sagði Sigurður Geirsson frá því að framkvæmdastjóri ÍLS, Guðmundur Bjarnason, hefði beint því til sín hvort Íbúðalánasjóður gæti átt meiri viðskipti við Sparisjóð Hólahrepps. Það hafi hins vegar ekki komið til greina í huga Sigurðar, hann hafi ekki einu sinni beðið starfsfólk sitt að afla tilboða frá sparisjóðnum því hann hafi talið áhættuna of mikla að geyma þar fé vegna smæðar hans. Hann ætlaði ekki að taka ábyrgðina á því að geyma þar fjármuni. Sigurður sagði að reyndar hefði honum fundist sem það væri ekki hjartans mál Guðmundar að auka viðskiptin við sparisjóðinn, einhver annar hafi haft þann áhuga. Tilfinning sín hafi verið að Guðmundi fyndist það ekki slæmt í sjálfu sér að hann setti sig upp á móti þessum viðskiptum.

Í 3. grein samningsins var kveðið á um að ÍLS legði allt að helmingi söluandvirðis við sölu húsnæðisbréfa inn á Sparisjóð Hólahrepps til geymslu í a.m.k. einn sólarhring. Enginn innan sjóðsins kunni nokkra skýringu á þessu ákvæði þegar eftir því var innt í skýrslutökum. Hvað lá að baki greininni er því óútskýrt og ekki auðséð hver hafði hagsmuni af því að þetta yrði gert. Greinin er meira skuldbindandi fyrir sparisjóðinn heldur en Íbúðalánasjóð. „Allt að helming“ felur ekki í sér neitt lágmark, Íbúðalánasjóður var því ekki að brjóta samninginn þótt hann legði ekkert af þessu söluandvirði inn í sparisjóðinn.

Við skýrslutöku rannsóknarnefndarinnar sagði Kristján Hjelm frá því að Sigurjón Rúnar Rafnsson hefði krafðist þess að Fjárvaki fengi hluta af vaxtamuninum sem sparisjóðurinn fékk með því að ávaxta öryggissjóðinn hjá Sparisjóðabankanum. Kristján Hjelm þáverandi sparisjóðsstjóri kvaðst hafa þráast við að verða við þessum kröfum og hefði verið látinn fara frá sparisjóðnum sumarið 2004 vegna þessa.

Kristján Hjelm kvaðst hafa fagnað því að fá svona gott innlán í sparisjóðinn en þegar leið að áramótum hafi komið fram að Fjárvaki vildi fá greidd umboðslaun fyrir að útvega þetta innlán. Hann kvað allt hafa farið í háaloft er hann neitaði að verða við kröfunni. „Á endanum beygðum við okkur undir það eins og alltaf. Þá átti að reka mig.“ Hann nefndi einnig atbeina endurskoðanda svo og starfsmanns Íbúðalánasjóðs að þessu leyti. Þá nefndi hann tvo stjórnarmenn í sparisjóðnum sem vitundaraðila að þessu.

Ekki er ljóst hversu mikill þessi vaxtamunur var og Kristján Hjelm fyrrverandi sparisjóðsstjóri sagðist ekki muna það nægilega vel en sagði aðspurður um upphæðina í skýrslutöku:

Nei, ég man það ekki. Við vorum kannski að ná út úr þessu 2%, ég þori ekki að fara með það hvað þetta var, þetta voru einhverjar milljónir og það munaði pínulítinn sparisjóð um.

Hér fyrir ofan má sjá hluta af bréfi Sigurðar Jónssonar, endurskoðanda hjá KPMG, til stjórnar Sparisjóðs Hólahrepps þar sem hann staðhæfir að það hafi verið gert ráð fyrir því að Fjárvaki nyti hluta ávinnings sem félli sparisjóðnum í skaut vegna samnings hans við Íbúðalánasjóð um öryggissjóðinn. Ekki hefur tekist að fá bréfið í heild sinni frá KPMG þar sem bréfinu hefur verið fargað þar.

Hvergi í samningnum kemur fram að Fjárvaki eigi að njóta ávinnings af ávöxtun sparisjóðsins. Guðmundur Bjarnason neitaði því í skýrslutöku að hafa gert slíkt samkomulag við Sigurjón við undirritun samningsins enda mundi hann ekki eftir gerð hans.

Þar af leiðandi er eftirfarandi orðalag í bréfi Sigurðar Jónssonar til stjórnar sparisjóðsins nokkuð sérstakt:

Þá var gert ráð fyrir að Fjárvaki nyti hluta þess fjárhagslega ávinnings sem af þessum samningi hlytist.

Sá samningur sem hér hefur verið fjallað um vekur furðu rannsóknarnefndarinnar fyrir nokkurra hluta sakir. Fyrir það fyrsta virðist hann ekki hafa þjónað hagsmunum sjóðsins heldur þvert á móti falið í sér óþarfa áhættu án nokkurs sýnilegs tilgangs. Að auki vakna spurningar í tengslum við aðkomu Fjárvaka að málinu. Guðmundur Bjarnason gerði samninginn við mann sem hafði ekki umboð til að skrifa undir samninga fyrir hönd sparisjóðsins en hafði verið tengiliður Fjárvaka við Íbúðalánasjóð í tengslum við FlexCube-verkefnið. Ef Íbúðalánasjóður ætlaði Fjárvaka hlutdeild í ávinningi sparisjóðsins er hér um dulda greiðslu til Fjárvaka að ræða sem er ámælisvert.

8.6 KS sækist til áhrifa innan Sparisjóðs Hólahrepps

Það er ljóst af skýrslutökum af Kristjáni Hjelm og samtali við Sverri Magnússon ásamt umfjöllun í fjölmiðlum að á sama tíma og Fjárvaki hóf viðskipti sín við Íbúðalánasjóð hófst valdabarátta um Sparisjóð Hólahrepps. Fjárvaki keypti í mars 2000 tíu stofnfjárbréf í sparisjóðnum og komst þannig til áhrifa innan hans. Á sama tíma keyptu tveir lykilstjórnendur hjá KS einnig stofnfjárbréf í sjóðnum. Það voru þeir Sigurjón Rúnar Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri, og Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar Skagfirðings. Í næsta kassa er blaðafrétt sem fjallar um átökin um sparisjóðinn og sýnir að þau komu til kasta Fjármálaeftirlitsins.

Valdabarátta þessi kom m.a. fram í því að Sigurjón Rafnsson skrifaði undir báða framangreinda samninga sem Sparisjóður Hólahrepps gerði við Íbúðalánasjóð án umboðs stjórnar Sparisjóðs Hólahrepps. Auk þess virðist sem samningarnir hafi ekki verið samþykktir af stjórn sparisjóðsins, a.m.k. er þeirra ekki getið í fundargerðum stjórnarfunda hans árið 2002. Saga þessarar valdabaráttu verður ekki rakin hér en ljóst er af því sem undan er komið að margt í þeirri sögu er verðugt rannsóknar.

Þess má geta að þannig vildi til að margir forstöðumenn þeirra aðila/stofnana sem komu hér við sögu tengdust Framsóknarflokknum náið. Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga (KS), var og er áhrifamaður innan Framsóknarflokksins. Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri ÍLS, var varaformaður Framsóknarflokksins áður en hann hætti þingmennsku og hóf störf í ÍLS. Félagsmálaráðherra á þessum tíma var Páll Pétursson Framsóknarflokki og sonur hans, Páll Gunnar Pálsson, var forstjóri Fjármálaeftirlitsins þegar eldri stofnfjáreigendur í Sparisjóði Hólahrepps reyndu að standa gegn auknum áhrifum KS í Sparisjóði Hólahrepps og málið kom til kasta eftirlitsins.

Við þessa sögu er því að bæta að í árslok 2006 lá fyrir að þáverandi félagsmálaráðherra, Magnús Stefánsson, skipaði nýja stjórn Íbúðalánasjóðs. Rannsóknarnefndin hefur fyrir því traustar heimildir að Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, hafi sóst eftir því nokkuð fast að komast í stjórn Íbúðalánasjóðs á þeim tíma. Ekki einungis hafi hann sóst eftir því að sitja í stjórninni heldur hafi hann sóst eftir að verða stjórnarformaður. Félagsmálaráðherra varð þó ekki við þessum óskum heldur skipaði óbreytta stjórn áfram fyrir utan það að Kristín Ástgeirsdóttir gekk úr stjórninni og inn kom Jóhann Ársælsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Innan stjórnarinnar urðu einnig þau hlutverkaskipti að Hákon Hákonarson varð formaður hennar en Gunnar S. Björnsson varaformaður.


1. Morgunblaðið, „Innheimta og tengd þjónusta fyrir Íbúðalánasjóð Útboð nr. 12229“, 15. ágúst 1999. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1942837

2. Skýrsla Árna Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

3. Morgunblaðið, „Íbúðalánasjóður semur við Fjárvaka“, 6. nóvember 1999. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/501762/?item_num=200&dags=1999-11-06

4. Skýrsla Árna Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

5. Skýrsla Sigurðar Geirssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

6. Sama heimild.

7. Skýrsla Kristjáns Hjelm fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

8. Fundargerð stjórnar Íbúðalánasjóðs 7. september 2000.

9. Fundargerð stjórnar Íbúðalánasjóðs 4. janúar 2001.

10. Fundargerð stjórnar Íbúðalánasjóðs 8. mars 2001.

11. Fundargerð stjórnar Íbúðalánasjóðs 31. maí 2001.

12. Fundargerð stjórnar Íbúðalánasjóðs 7. júní 2001.

13. Ásta H. Bragadóttir, Innleiðing Flexcube skuldabréfa- og verðbréfakerfis fyrir Íbúðalánasjóð.

14. Sama heimild.

15. Minnisblað Páls Kolbeinssonar um tíma- og verkáætlun fyrir lokafrágang á innleiðingu Flexcube fyrir Íbúðalánasjóð, 7. júní 2001.

16. Fundargerð stjórnar Íbúðalánasjóðs 4. janúar 2002.

17. Fundargerð stjórnar Íbúðalánasjóðs 21. janúar 2002.

18. Fréttatilkynning Íbúðalánasjóðs 21. janúar 2002.

19. Skýrsla Ástu H. Bragadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

20. Samningur á milli Íbúðalánasjóðs og Sparisjóðs Hólahrepps um aðgang Íbúðalánasjóðs að Reiknistofu bankanna.

21. Morgunblaðið, „Forstjóri Reiknistofu bankanna segir Íbúðalánasjóð ekki hættan viðskiptum“, 4. apríl 2001. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3393113

22. Skýrsla Guðmundar Bjarnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

23. Skýrsla Kristjáns Valtýs K. Hjelm fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

24. Tölvupóstur frá Herdísi Einarsdóttur til rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl., 26. apríl 2013.

25. Skýrsla Árna Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

26. Skýrsla Gunnars S. Björnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

27. Fundargerð stjórnar Íbúðalánasjóðs 27. mars 2002.

28. Bréf til stjórnar Sparisjóðs Hólahrepps frá Sigurði Jónssyni, 7. apríl 2004.

29. Skýrsla Sigurðar Geirssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

30. Skýrsla Guðmundar Bjarnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

31. Skýrsla Kristjáns Hjelm fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.