10. kafli – Fjárfestingar sparisjóðanna

10. Fjárfestingar sparisjóðanna

Fjárfestingar urðu sífellt stærri þáttur í rekstri sparisjóðanna og höfðu vaxandi áhrif á afkomu þeirra og endurspeglaði það þróunina hjá öðrum íslenskum og erlendum lánastofnunum á sama tíma. Nokkrar stórar fjárfestingar hafa sett mark sitt á sparisjóðakerfið í heild sinni og má þar nefna Kaupþing hf. og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Þá mynduðu nokkrir sparisjóðir eignarhaldsfélag utan um eign sína í Kaupþingi hf. sem síðar varð þekkt undir nafninu Exista hf. Þó fæstir sparisjóðanna hafi átt hlut í Exista hf., var þetta stærsta verðbréfaeign þriggja af fjórum stærstu sparisjóðunum og hafði þar af leiðandi áhrif á þá heildarmynd sem dregin er upp í þessum kafla.

Fjárfestingar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Byrs sparisjóðs, Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðs Mýrasýslu voru umfangsmeiri en annarra sparisjóða. Í þessari skýrslu er gjarnan vísað til þessara fjögurra sparisjóða sem stærri sparisjóða og annarra sem minni. Vegna þess hve fjárfestingar sparisjóðanna voru mismunandi að umfangi, var eftirlit og umsjón með þeim með ólíkum hætti innan sparisjóðanna. Reglur flestra minni sparisjóðanna náðu til að mynda ekki til fjárfestinga í verðbréfum nema með mjög almennum hætti. Stærri sparisjóðir settu sér yfirleitt ítarlegar reglur um fjárfestingar og áhættustýringu og þar sinntu ákveðnir starfsmenn skilgreindum hlutverkum hvað þetta varðaði.

Á þeim árum þegar virði fjármálafyrirtækja í eigu sparisjóðanna jókst hratt, voru áhrif þeirra á eiginfjárhlutfall töluverð. Eignarhlutur í fjármálafyrirtækjum kemur til frádráttar frá eigin fé við útreikning eiginfjárhlutfalls og ef virði hans eykst hraðar en eigið fé sparisjóðs vex, getur eiginfjárhlutfall lækkað. Innan sparisjóðakerfisins varð mönnum tíðrætt um hvað væri til ráða til þess að draga úr þessum áhrifum.

Frá 2001 til 2007 höfðu sparisjóðirnir miklar tekjur af fjáreignum og voru þær gjarnan meiri en afkoma sparisjóðanna fyrir skatt. Árið 2008 varð síðan mikið tap af fjáreignum og árið eftir kom frekara tap í ljós. Á árunum 2010 og 2011 var svo lítilsháttar hagnaður af fjáreignum. Á tímabilinu 2001–2011 var heildarhagnaður sparisjóðakerfisins af fjárfestingum, án tillits til söluhagnaðar, 7,5 milljarðar króna á verðlagi ársins 2011.

10.1 Fjárfestingarheimildir sparisjóðanna

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 44/1915 var nokkurs konar bindiskylda lögð á sparisjóði sem höfðu innistæður upp á 50.000 krónur eða meira. Þeim var skylt að eiga að minnsta kosti 3% af innistæðufénu, eins og það var í lok liðins árs, innistandandi í Landsbankanum, sem þá var ríkisbanki, eða að hafa í vörslum sínum ríkisskuldabréf, bankavaxtabréf eða önnur jafntrygg verðbréf sem auðvelt var að koma í peninga, fyrir sömu upphæð. Þessi fjárhæð var umfram varasjóð sparisjóðanna. Að öðru leyti skyldi varasjóður sparisjóða vera í tryggum og auðseldum verðbréfum eða í inneign hjá Landsbankanum, að minnsta kosti 5% innistæðufjárhæðarinnar í lok liðins árs. Þyrfti sparisjóður að grípa til fjár sem lagt var til hliðar með þessum hætti skyldi koma því í samt lag aftur svo fljótt sem verða mætti. Heimildir sparisjóða til fjárfestingar í verðbréfum höfðu verið nokkuð umdeildar, eins og fram kom þegar fyrri frumvörp til laga um sparisjóði voru lögð fyrir Alþingi 1913 og 1914.1 Megináhersla var lögð á að tryggja rétt innlánseigenda og að sparisjóðurinn festi ekki innlánsféð í eignum sem yrði ekki auðveldlega komið í peninga. Engu að síður voru verðbréfakaup heimiluð í lögunum 1915, en í 4. mgr. 13. gr. sagði að verðbréfaforða sparisjóðs mætti því aðeins skerða að meiri hluti sparisjóðsstjórnar samþykkti. Með lögunum var einnig lagt bann við því að sparisjóður tæki lán til annars en að fullnægja skuldbindingum sínum gagnvart innstæðueigendum nema samþykki allrar sparisjóðsstjórnarinnar lægi fyrir, en annars var samþykki meiri hluta stjórnar áskilið til lántöku sparisjóða, sbr. 14. gr. laganna. Óheimilt var því að stofna til verðbréfakaupa fyrir lánsfé.

Það sjónarmið að innlánseigendur ættu að geta fengið fé sitt örugglega til baka og með skömmum fyrirvara endurspeglaðist vel í lögum nr. 69/1941 um sparisjóði. Með lögunum voru sett viðmið og takmarkanir um útlán sparisjóða, hömlur á fjárfestingar þeirra og sett var ákvæði um lágmarksfjárhæð sem sparisjóðunum var skylt að eiga handbæra. Samkvæmt 16. gr. laganna skyldu sparisjóðirnir eiga minnst 1/10 hluta af innlánsfénu í sjóði, innstæðu í banka sem ríkið ábyrgðist og í tryggum og auðseljanlegum bréfum. Hins vegar voru takmarkanir á því í hvers konar bréfum sparisjóðunum var almennt heimilað að fjárfesta. Þá skyldu minnst 7% innlánsfjárins jafnan vera í sjóði eða sem bankainnstæða. Ef gengið yrði á þessa sjóði vegna fyrirsjáanlegra útborgana, bar sparisjóðsstjórninni að koma því í samt lag aftur svo fljótt sem verða mátti og tilkynna sparisjóðseftirlitinu ella ef það væri ekki gert innan tveggja mánaða.

Það var í höndum sparisjóðseftirlitsins að ákveða hver þau tryggu verðbréf væru sem vísað var til í 16. gr. laga nr. 69/1941 og sparisjóðunum var heimilað að kaupa. Í athugasemdum við 17. gr. frumvarpsins, sem síðar var samþykkt sem 16. gr. laganna, sagði:

Vegna þess, hve hér er erfitt að selja verðbréf, þó þau séu trygg, telur nefndin ekki fært að leggja til, að það sem teljast mega peningar (sjóður og bankainnstæða) megi nema minna en 7% af innlánsfénu samanlögðu. Einnig virðist rétt, að bankaeftirlitsmaður, en ekki sparisjóðsstjórnir, ákveði, hvaða verðbréf geti talizt svo „auðseljanleg“, að sparisjóðir megi eiga þau til þess að fullnægja ákvæðum þessarar greinar. Hann verður og að geta fylgzt með því, að sparisjóðir hafi ávallt þetta fé handbært, eftir því sem þeim er unnt, og því er stjórnum sjóðanna gert að skyldu að tilkynna bankaeftirlitsmanni, hafi þær þurft að grípa til þess og ekki getað lagfært það strax.2

Í 20. gr. laganna var lagt bann við því að sparisjóður ætti hlutabréf eða fasteignir aðrar en þær sem nauðsynlegar væru vegna rekstrar hans. Sparisjóðunum var þó heimilað að yfirtaka fasteignir eða hlutabréf sem honum hefðu verið veðsett, til þess að innheimta kröfu sína, en þá skyldi eignin seld strax og sparisjóðirnir fá kröfu sína greidda þannig. Sama ákvæði meinaði einnig sparisjóðum að ganga í ábyrgð fyrir aðra.

Í upphaflegu frumvarpi hafði ætlunin verið að heimila sparisjóðum að eiga allt að 15% af eigin fé sínu í hlutabréfum, og var þar hvergi minnst á ábyrgðir. Þessum breytingum var komið að við 2. umræðu frumvarpsins í efri deild Alþingis. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði um ákvæðið:

[Lagt er til], að ákvæðið sé í lögum, að sparisjóður megi ekki eiga aðrar fasteignir en hann þarf vegna rekstrar síns. Á það að tryggja það, að sjóðirnir lendi ekki út á þá braut að eiga fasteignir í gróðabrallsskyni. Þó verða þeir að geta tekið við eignum, sem þeim hafa verið veðsettar, til þess að ná inn skuldum. En nefndin telur rétt að skylda sparisjóðina til að losa sig sem fyrst við slíkar eignir aftur, til þess að fyrirbyggja, að þeir fari að eiga þær vegna vonar um verðhækkun og þar af leiðandi gróða síðar. — Einnig virðist rétt að takmarka það, hvað sparisjóðir mega eiga af hlutabréfum. Er töluverð ásókn á sparisjóði um að kaupa hluti í hinum og öðrum fyrirtækjum. Er það vafalaust stundum gert í því skyni, að þá verði greiðara um að fá lán til fyrirtækjanna, og ekki hættulaust, ef langt er farið í því efni. Stundum eru hlutakaupin raunverulega beinn styrkur til fyrirtækjanna, og þó að það sé oftast um að ræða þarfafyrirtæki, má ekki ganga of langt inn á þá braut heldur. Verður því að setja einhver takmörk fyrir þessu, og virðist þá réttast, eins og gert er í tillögum nefndarinnar, að miða við eigið fé sjóðanna, hvað festa megi í hlutabréfakaupum.3

Löggjafinn taldi nauðsynlegt að gæta að því að sparisjóðirnir yrðu ekki notaðir „í gróðabrallsskyni“ og takmarkaði því fjárfestingarheimildir þeirra. Á endanum var svo samþykkt að hömlurnar tækju ekki aðeins til fasteigna, heldur og hlutabréfa og ábyrgða. Sé þetta sett í samhengi við ákvæði laganna um skilyrði fyrir lántökum sparisjóðanna, sem verið hafði við lýði frá 1915, þá vinna ákvæðin saman að því að takmarka áhættusama fjárfestingu af hálfu sparisjóða; útlán þeirra og heimilar fjárfestingar skyldu fjármagnaðar með hreinni sparisjóðsstarfsemi og varasjóði í samræmi við tilgang þeirra.

Við samningu frumvarps sem varð að lögum nr. 87/1985 um sparisjóði hafði verið litið til samsvarandi frumvarps sem lá fyrir á Alþingi og varð síðar að lögum nr. 86/1985 um viðskiptabanka. Með frumvarpinu var leitast við að færa löggjöf um sparisjóði í nútímalegra horf og var tilgangur þess sagður tvíþættur: Annars vegar að treysta almennt stöðu sparisjóðanna meðal innlánsstofnana og veita þeim hliðstæðar starfsheimildir og viðskiptabönkum; hins vegar að auka aðhald og öryggi í rekstri þeirra í samræmi við kröfur tímans.4

Með lögunum var losað um takmarkanir á fjárfestingarheimildum sparisjóðanna, einkum hvað hlutabréf varðaði. Samkvæmt 32. gr. laganna var sparisjóðum heimilt að eiga hlut í félögum eða stofnunum með takmarkaðri ábyrgð sem rækju sparisjóðsstarfssemi, skylda starfsemi eða starfsemi í eðlilegum tengslum við hana. Skyldi bókfært virði á hlut sparisjóðs í slíku félagi og lánum sparisjóðs til félagsins ekki nema hærri fjárhæð en 20% af eigin fé sparisjóðsins miðað við upphaf reikningsárs. Samkvæmt þessu ákvæði laganna mátti bókfært heildarvirði sparisjóðs í félögum ekki nema hærri fjárhæð en svaraði 60% af eigin fé sparisjóðsins, að lánum sparisjóðsins til félaganna meðtöldum. Sparisjóðum var meinað að eiga hlut í öðrum félögum og með aðra starfsemi, nema um væri að ræða hlutafélög með 200 hluthafa eða fleiri.5 Bókfært virði á hlut sparisjóðs í slíku hlutafélagi og lánum hans til félagsins mátti þó ekki nema hærri fjárhæð en sem svaraði 2% af eigin fé sparisjóðsins miðað við upphaf reikningsárs. Aukinheldur mátti heildarvirði hluta sparisjóðs í slíkum félögum ekki nema hærri fjárhæð en svaraði 15% af eigin fé sparisjóðsins. Að öðru leyti var sparisjóðum ekki heimilt að bera ábyrgð sem þátttakandi eða meðeigandi í rekstri annarra félaga, nema það væri í tengslum við fasteignir sem nauðsynlegar væru vegna starfsemi sparisjóðanna, svo sem vegna eigin rekstrar eða vegna yfirtöku til að tryggja fullnustu kröfu, en þá var sem fyrr gerður sá áskilnaður að eignirnar skyldu seldar strax og það væri talið hagkvæmt að mati sparisjóðsstjórnar, sbr. 33. gr. laganna. Um ákvæði 32. gr. sagði í athugasemdum með frumvarpi til laganna:

Í gildandi lögum um sparisjóði er ákvæði er lýtur að heimild sparisjóða til að eiga eignarhlut í öðrum félögum eða stofnunum. Í 20. gr. gildandi laga er tekið fram að sparisjóðir megi ekki eiga hlutabréf.
Um aðild sparisjóðs að sameignarfélögum er hins vegar ekkert sagt. Mismunandi ákvæði eru um þetta efni í lögum bankanna. Með þessu ákvæði er reynt að eyða því ósamræmi og óvissu sem nú ríkir á þessu sviði bankamála.
Í 1. mgr. er fjallað um félög (stofnanir) sem reka sparisjóðsstarfsemi, aðra skylda starfsemi eða starfsemi sem er í eðlilegum tengslum við sparisjóðsstarfsemi. Þátttaka sparisjóða í þessum félögum er bundin því skilyrði að hér sé eingöngu um að ræða félög sem sparisjóðir beri takmarkaða ábyrgð á, þ.e.a.s. einungis með framlagi sínu til félaganna. Óeðlilegt þykir að sparisjóðir eigi aðild að félögum með ótakmarkaðri ábyrgð þar sem allar eignir sparisjóðsins standa til tryggingar skuldbindingum félaganna. Þá þykir rétt að framlag sparisjóðs til félags samkvæmt þessari málsgrein geti einungis numið hluta af eigin fé sparisjóðsins. Er þetta gert til að tryggja áhættudreifinguna hjá sparisjóðunum. Að sama marki miðar niðurlag þessarar málsgreinar þar sem mælt er fyrir um að bókfært heildarvirði á hlutum sparisjóðs í þessum félögum og lánum, sem hann hefur veitt þeim, megi ekki vera meira en sem nemur 60% af eigin fé sparisjóðsins. Málsgrein þessi tekur ekki til samruna sparisjóða enda er samruni háður leyfi ráðherra samkvæmt 65. gr.
Eins og málum háttar nú eiga sparisjóðir aðild að félögum og stofnunum sem reka skylda starfsemi. Má hér geta aðildar sparisjóðanna að Reiknistofu bankanna, sem rekin er sem sameignarfélag, og samstarf sparisjóða á sviði greiðslukortastarfsemi í gegnum fyrirtækin VISA ÍSLAND og KREDITKORT S/F sem bæði eru sameignarfélög. Verði þessi málsgrein samþykkt óbreytt er ljóst að breyta þarf um félagsform fyrirtækja þessara.
Í 2. mgr. er að finna það nýmæli að sparisjóðum verður heimilt innan mjög þröngra marka að leggja fyrirtækjum lið við öflun áhættufjár með kaupum á hlutafé. Þau fyrirtæki sem hér koma til greina eru einungis hlutafélög sem óheimilt er samkvæmt 3. ml. 18. gr. hlutafélagalaga að leggja hömlur á viðskipti með hluti.
Að öðru leyti en að framan greinir er þátttaka eða eignaraðild sparisjóða að félögum eða stofnunum bönnuð.6

Fjárfestingarheimildir sparisjóðanna höfðu því tekið töluverðum breytingum, auk þess sem sjóðirnir gátu nú sjálfir ákveðið hvenær hagkvæmt teldist að selja fullnustueignir.7 Í lögunum sagði í 1. mgr. 33. gr. að sparisjóði væri ekki heimilt að eiga aðrar fasteignir en þær sem nauðsynlegar væru vegna starfsemi sjóðsins. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna var vísað til þess að ekki væri talið æskilegt að sparisjóður festi laust fé sitt að öðru leyti í fasteignum, enda gæti féð að meginhluta verið fengið með innlánum til skamms tíma. Löggjafinn hefur því ekki ætlast til þess að sparisjóðirnir byndu innlánsfé sitt til skamms tíma í eignum sem ekki yrði auðvelt og fljótlegt að koma í verð. Um þetta ákvæði sagði enn fremur í athugasemdum með frumvarpinu:

Á hinn bóginn má ekki skýra orðalag greinarinnar „sem nauðsynlegar eru vegna starfsemi sparisjóðs“ svo þröngt að það taki einungis til þeirra fasteigna sem sparisjóður notar á hverjum tíma. Sparisjóði er samkvæmt greininni heimilt að festa kaup á fasteignum sem hann hyggst nota í næstu framtíð þótt hann leigi þær út til annarra aðila um skamma hríð.8

Sá tilgangur með lögunum að sparisjóðir færu varlega í að binda fé sitt í eignum og fjárfestingum var undirstrikaður í 39. gr. laganna, þar sem sagði að sparisjóðir skyldu kappkosta að hafa ætíð yfir að ráða nægilegu lausu fé til að geta innt af hendi úttektir á innlánsfé og aðrar greiðslur sem starfssemi sparisjóðs fylgja. Með lausu fé var átt við peninga í sjóði, óbundin nettóinnlán í innlendum og erlendum bönkum, sparisjóðum og Lánastofnun sparisjóðanna, ríkisvíxla og sambærilegar eignir. Þetta kallaðist á við ákvæði eldri laga þar sem mælt var fyrir um að sparisjóðir skyldu eiga ákveðið hlutfall innlánsfjár í auðseljanlegum eignum og að sjóður og bankainnstæða mætti aldrei vera minna en 7% af innlánsfénu.9 Í athugasemdum með frumvarpi til laganna var vísað til þess í umfjöllun um ákvæði 39. gr. að aðstæður á peninga- og lánsfjármarkaði gætu breyst mjög á tiltölulega skömmum tíma og því þætti óraunhæft að setja í lög nákvæmar og ófrávíkjanlegar reglur um lágmark á lausu fé sparisjóða og annarra innlánsstofnana. Var því valin sú leið að skilgreina frekar laust fé sparisjóða og kveða svo á um að þeim bæri að kappkosta að hafa yfir nægilegu lausu fé að ráða til að geta innt af hendi úttektir á innlánsfé og aðrar nauðsynlegar greiðslur.10

Hvað varðar eign sparisjóðs á fasteignum og búnaði til starfseminnar, var sett þak á heimilað bókfært virði þeirra í 2. mgr. 40. gr., og mátti það ekki vera hærra en sem næmi 65% af eigin fé sparisjóðsins.

Eins og framar greinir voru miklar breytingar gerðar á starfs- og lagaumhverfi sparisjóðanna með lögum nr. 87/1985. Í 2. mgr. 1. gr. laganna sagði að hlutverk sparisjóðs væri að hafa á hendi hvers konar sparisjóðsstarfsemi eins og hún væri nánar skilgreind í lögunum, einkum 30. gr., og væri önnur starfsemi þeim óheimil. Sparisjóðunum voru þó veittar þröngar heimildir til að eiga aðild að annarri starfsemi í 32. gr. laganna. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði um ákvæði 2. mgr. 1. gr.:

Engu að síður er það meginstefna frumvarpsins að sparisjóðir reki eingöngu sparisjóðsstarfsemi. Stefna þessi er í samræmi við ákvæði gildandi laga um sparisjóði og byggist á því að tryggja öryggi í rekstri sparisjóða og þar með hagsmuni sparifjáreigenda. Öðrum aðilum en sparisjóðum er samkvæmt frumvarpinu óheimilt að reka sparisjóðs-
starfsemi. Þeim er hins vegar heimilt að hafa með höndum starfsemi sem felur í sér ákveðna þætti sparisjóðsstarfsemi eða er hliðstæð slíkri starfsemi. Í þessu sambandi má t.d. nefna verðbréfaviðskipti og afborgunarkaup. Starfsemi af þessu tagi eru þó ákveðin takmörk sett, sbr. 2. mgr. 30. gr., þar sem gert er ráð fyrir að einungis sparisjóðir og aðrir, sem til þess hafa sérstaka heimild í lögum geti auglýst eða boðist til með öðrum hætti að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.11

Hér var því búið að auka við hugtakið sparisjóðsstarfsemi samkvæmt eldri skilningi, en í 30. gr. laganna var starfsemi sparisjóðs skilgreind þannig að hún væri fólgin í geymslu og ávöxtun fjár, miðlun á peningum og annarri þjónustustarfsemi sem væri í eðlilegum tengslum við slík viðskipti. Þannig voru verðbréfaviðskiptin talin falla undir þjónustustarfsemi sem væri í eðlilegum tengslum við hina hefðbundnu sparisjóðsstarfsemi. Sparisjóðum var þar með orðið fært að stunda verðbréfaviðskipti og fjárfesta í verðbréfum, þó með þeim takmörkunum sem enn voru í lögum, sbr. 32. gr. laganna.

Á árinu 1992 voru gerðar breytingar bæði á lögum um viðskiptabanka nr. 86/1985 og lögum um sparisjóði nr. 87/1985, þegar ákvæði þessara laga var aðlagað að alþjóðlegum reglum Basel-nefndarinnar um lágmark og útreikning eigin fjár innlánsstofnana.12 Var hvorum lögum um sig breytt, annars vegar lögum um viðskiptabanka með lögum nr. 7/1992, og lögum um sparisjóði með lögum nr. 8/1992. Reglur um lágmark eigin fjár sparisjóða höfðu þó verið í lögum frá 1941.

Með lögum nr. 43/1993 var lögum um sparisjóði og viðskiptabanka steypt saman í einn lagabálk. Í samræmi við þann tilgang laga nr. 87/1985 að færa starfsheimildir og starfsumhverfi sparisjóðanna nær því sem gilti um viðskiptabankana, voru ein lög látin gilda um þessar stofnanir með lögunum frá 1993, enda væri enginn munur á starfsheimildum þeirra, eins og sagði í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna.13

Heimildir sparisjóða til að fjárfesta í ótengdum atvinnurekstri voru auknar með lögum nr. 43/1993. Nú varð heimilt að fjárfesta í öðrum félögum en hlutafélögum og ekki var lengur áskilið að hlutafélög hefðu 200 hluthafa eða fleiri. Þá var sparisjóðum heimilað að fara yfir áður gildandi viðmið um hlutfall fjárfestingar af eigin fé (2% af eigin fé í eitt einstakt félag og 15% af heildarfjárfestingum) en fjárfesting yfir 15% af eigin fé skyldi dragast frá eigin fé sjóðsins.14

Í 1. mgr. 44. gr. laganna var starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða sögð vera fólgin í geymslu og ávöxtun fjár, miðlun á peningum, verðbréfaviðskiptum og annarri þjónustustarfsemi sem væri í eðlilegum tengslum við slík viðskipti. Þá voru í ákvæðinu taldar upp í 14 liðum þær starfsheimildir sem viðskiptabankar og sparisjóðir voru almennt taldir njóta, og var þar um að ræða verulega rýmkun á starfsheimildum frá fyrri lögum. Meðal þeirra starfsheimilda sem finna mátti í ákvæðinu voru fjármögnunarleiga, greiðslumiðlun, útgáfa og umsýsla greiðslumiðla, veiting ábyrgða og trygginga og fleira. Þá var sérstaklega getið starfsheimilda sem tengdust verðbréfaviðskiptum, svo sem viðskipti fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með greiðsluskjöl á peningamarkaði, erlendan gjaldeyri, framvirka samninga, gengisbundin bréf og verðbréf; þátttaka í útboðum verðbréfa og þjónusta við þau; ráðgjöf til fyrirtækja, m.a. varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim; ráðgjöf um samval verðbréfa og varsla og ávöxtun verðbréfa. Í 2. mgr. sagði svo að um verðbréfaviðskiptin giltu ákvæði laga um verðbréfaviðskipti eftir því sem við ætti. Þá var viðskiptabönkum og sparisjóðum veittar heimildir til annarrar starfsemi, svo sem vátryggingarstarfsemi í dótturfyrirtæki og annarrar hliðarstarfsemi sem væri í eðlilegu framhaldi af viðskiptabanka- eða sparisjóðsstarfsemi, enda þótt hún væri ekki upp talin í 1. mgr., svo lengi sem samþykki bankaeftirlitsins fengist fyrir henni.15 Eldri heimildir til yfirtöku eigna til að tryggja fullnustu kröfu og ráðstöfunar þegar það teldist hagkvæmt héldust í lögum, en heimilað var sérstaklega að stunda tímabundið aðra starfsemi en getið var í lögunum ef það var í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum fyrirtækja við viðkomandi banka eða sparisjóð, eða væri liður í endurskipulagningu á starfsemi viðskiptaaðilans, sbr. 45. gr. laganna.

Í 46. gr. sagði að viðskiptabankar og sparisjóðir mættu ekki eiga eða taka að veði eignarhluti í einstökum fyrirtækjum sem stunduðu aðra starfsemi en viðskiptabanka- og sparisjóðastarfsemi eins og hennar var getið í 44. gr., og næmu hærri fjárhæð en 15% af eigin fé.16 Annars skyldu eignarhlutir í félagi og heildarskuldbindingar þess gagnvart viðkomandi banka eða sparisjóð takmarkast af reglum sem ráðherra setti um hámark lána og ábyrgða til einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila.17 Ætti sparisjóður virka eignarhluti í félögum, mátti samtala þeirra ekki nema hærri fjárhæð en 60% af eigin fé sparisjóðsins.18 Færu eignarhlutir sparisjóða í félögum umfram þessi mörk, skyldi draga það sem út af stæði frá eigin fé sparisjóðsins við útreikning eigin fjár, sbr. 55. gr. laganna, einkum 4. mgr. 55. gr.19 Bókfært virði samanlagðra eignarhluta sparisjóðs, hvort sem hann eignaðist þá með fjárfestingu eða yfirtöku, mátti þó ekki nema hærri fjárhæð en 100% af eigin fé sparisjóðsins. Þannig kölluðust fjárfestingarheimildir fjármálafyrirtækja á við reglur um stórar áhættur og útreikning á eigin fé þeirra.20

Með ákvæðunum var heimild sparisjóðanna til fjárfestinga rýmkuð til muna frá því sem áður var (2%) og ekki lengur bundin við félög með takmarkaðri ábyrgð. Á hinn bóginn var gert ráð fyrir því að heildarskuldbindingar viðkomandi félags gagnvart sparisjóði, að viðbættum eignarhlut sparisjóðsins í félaginu eða veðum í eignum þess, færu ekki fram úr hámarki sem sett yrði í sérstökum reglum um hámark lána og ábyrgða.21

Með 51. gr. laganna var svo rýmkuð heimild sparisjóðanna til að eiga fasteignir eða hluti í félögum um fasteignir. Þeir máttu nú fjárfesta í slíkum eignum fyrir fjárhæð sem næmi allt 20% af eigin fé sparisjóðsins. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði að ákvæðið væri sett til samræmis við það sem þekktist erlendis. Þá gerði breytingin sparisjóðunum kleift að aðstoða við uppbyggingu atvinnustarfsemi, til dæmis með útleigu fasteigna til þeirra sem ekki hefðu bolmagn til slíkra fjárfestinga.22 Þar með var horfið frá því sjónarmiði eldri laga að takmarka áhættu sparisjóða þannig að laust fé þeirra, sem gæti að meginhluta verið fjármagnað með innlánum til skamms tíma, yrði ekki fest í fasteignum.

Lögin frá 1993 voru endurútgefin sem lög nr. 113/1996, sbr. lög nr. 39/1996.23 Með þeim var gerð smávægileg breyting á 3. mgr. 46. gr. en Eftirlitsstofnun EFTA hafði gert athugasemd við að þetta ákvæði laganna væri ekki fyllilega í samræmi við tilskipunina sem það byggði á. Breytingin kvað upp úr með að við eiginfjárútreikning sparisjóðs skyldi draga þá fjárhæð frá sem var hærri, ef samtímis væri farið fram úr hámarkshlutföllum sem takmarka áttu eignarhluti og veð í eignarhlutum einstakra fyrirtækja sem stunduðu ólíka starfsemi, þ.e. annars vegar hámarkseign í einstökum félögum (15% af eigin fé), og hins vegar hámark samtölu virkra eignarhluta sparisjóðs (60% af eigin fé).

Með lögum nr. 161/2002 var steypt saman lögum nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði, lögum nr. 123/1993 um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, lögum nr. 37/2002 um rafeyrisfyrirtæki og ákvæðum um stofnun og starfsemi verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana í lögum nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Þannig voru mynduð ein heildarlög um fjármálafyrirtæki í því skyni að einfalda löggjöf á fjármálamarkaði og gera hana skýrari.24 Hugtakið fjármálafyrirtæki var þá nýmæli í íslenskum rétti, en með því er átt við þau fyrirtæki sem starfa samkvæmt þeim starfsleyfum sem talin eru upp í 4. gr. laganna, svo sem viðskiptabanka, sparisjóð, lánafyrirtæki og verðbréfafyrirtæki.25 Í 3. gr. laganna er hins vegar talin upp sú starfsemi sem er starfsleyfisskyld samkvæmt lögunum. Það kom í hlut Fjármálaeftirlitsins, í stað ráðherra áður, að veita og afturkalla þessi starfsleyfi sem veita fyrirtækjunum síðan ákveðnar starfsheimildir. Um starfsheimildir einstakra fjármálafyrirtækja er svo fjallað í IV. kafla laganna.26 Þar segir í 1. mgr. 20. gr. um starfsheimildir viðskiptabanka og sparisjóða að starfsemi þeirra geti tekið til þeirra þátta sem þar er getið. Um var að ræða ákvæði sambærilegt 44. gr. eldri laga, en þar sagði þó að starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða væri fólgin í geymslu fjár og ávöxtun, miðlun á peningum, verðbréfaviðskiptum og annarri þjónustustarfsemi sem væri í eðlilegum tengslum við slík viðskipti. Þá var tekið fram í 2. mgr. 44. gr. laganna að um verðbréfaviðskipti viðskiptabanka og sparisjóða giltu eftir því sem við ættu ákvæði laga um verðbréfaviðskipti. Í lögum nr. 161/2002 var tekið fram að viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki hefðu heimildir til viðskipta með verðbréf samkvæmt 25. gr. laganna þar sem nánar er fjallað um starfsheimildir verðbréfafyrirtækja. Enda þótt að í 1. mgr. 3. gr. laganna segi að viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti sé leyfisskyld starfsemi, þá eru viðskipti fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini ein af þeim starfsheimildum viðskiptabanka og sparisjóða sem talin eru upp í 20. gr. laganna. Í athugasemdum við fyrrgreint ákvæði 3. gr., sem fylgdu frumvarpi til laganna, sagði að viðskipti fyrir eigin reikning væru mikilvægur hluti starfsemi hverrar lánastofnunar og verðbréfafyrirtækis, en gæti ekki verið starfsleyfisskyldur, enda hverjum einstaklingi og lögaðila frjálst að stunda verðbréfaviðskipti fyrir eigin reikning.27 Þannig var lánastofnunum heimilt með lögunum að stunda verðbréfaviðskipti fyrir þriðja aðila og tiltekið í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna að öllum væri í raun frjálst að stunda verðbréfaviðskipti fyrir eigin reikning.

Í 21. gr. laganna voru viðskiptabönkum og sparisjóðum veittar heimildir til að sinna annarri þjónustustarfsemi sem væri í eðlilegum tengslum við starfsheimildir þeirra. Ákvæðið tekur því fyrst og fremst til starfsemi sem ekki telst til fjármálaþjónustu samkvæmt lögunum. Þá var þeim jafnframt veitt heimild til að stunda hliðarstarfsemi sem væri í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu fyrirtækisins. Sambærilegar reglur var að finna í 44. gr. eldri laga. Tekið er fram í 21. gr. að ákvæðið gildi einnig um það þegar fjármálafyrirtæki á eignarhlut í eða er þátttakandi í annarri atvinnustarfsemi. Um ákvæði 21. gr. sagði í athugasemdum með frumvarpi til laganna:

Með því að heimila aðra þjónustustarfsemi og hliðarstarfsemi er leitast við að tryggja að starfsemi lánastofnana geti þróast með eðlilegum hætti án þess að löggjöfin setji henni óeðlilegar skorður. Hins vegar er talið eðlilegt að setja starfsemi lánastofnana ákveðnar skorður. Ástæðan er sú að sérfræðiþekking lánastofnana beinist að fjármálaþjónustu en ekki eðlisólíkum rekstri sem getur, verði tap á þeirri starfsemi, leitt til rekstraráhættu fyrir fyrirtækið og því stefnt heilbrigði þess í hættu. Tilgangurinn er því að tryggja heilbrigði lánastofnana og vernda hagsmuni viðskiptavina þeirra.28

Í 22. gr. laganna er kveðið á um heimild til að stunda tímabundið aðra starfsemi í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum eða til að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila. Þá er einnig kveðið á um heimild til yfirtöku eigna til að tryggja fullnustu kröfu, líkt og í 45. gr. eldri laga, og skulu eignir seldar aftur jafnskjótt og hagkvæmt er. Um ákvæði 22. gr. sagði í athugasemdum með frumvarpi til laganna:

Greinin er hliðstæð 45. gr. núgildandi laga. Talsverð reynsla er fengin af beitingu þessa ákvæðis, en núgildandi ákvæði er samkvæmt lögskýringargögnum einskorðað við starfsemi og eignir viðskiptamanna sem ratað hafa í erfiðleika þar sem atbeina viðskiptabanka er þörf til að bæta úr. Með orðunum „að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila“ er hins vegar einnig átt við svokallaða fjárfestingarbankastarfsemi, þ.e. þær heimildir fjármálafyrirtækja til að kaupa verðbréf/hlutabréf í fyrirtækjum í því skyni að sameina annarri starfsemi, skrá viðkomandi verðbréf og selja þau almenningi.29

Verðbréfaviðskiptum sparisjóða fyrir eigin reikning voru því lengi vel litlar skorður settar, sbr. það sem framar segir. Um verðbréfaviðskipti þeirra fyrir eigin reikning giltu lög um verðbréfaviðskipti, en þar eru litlar hömlur lagðar á eigin verðbréfaviðskipti, sbr. lög nr. 108/2007 og eldri lög nr. 33/2003. Enda þótt einstaklingum og lögaðilum séu verðbréfaviðskipti fyrir eigin reikning almennt frjáls, þá kann þeim að vera takmörk sett með öðrum hætti. Þannig eru fjárfestingum fjármálafyrirtækja, hvað þessi efni varðar, settar skorður með ákvæðum laga um stórar áhættur og með þeim ákvæðum laga sem tilgreina með hvaða hætti eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækja og áhættugrunnur þeirra skuli reiknaður.

Í 28.–30. gr. laga nr. 161/2002 eru ákvæði sem taka til eignarhluta fjármálafyrirtækja í fyrirtækjum, þar á meðal eigin hluta, auk reglna um takmarkanir á stórum áhættum. Um hámark virkra eignarhluta er fjallað í 28. gr., en þar er að finna reglur um eignarhluti fjármálafyrirtækja í öðrum fyrirtækjum sem ekki eru fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki tengd fjármálasviði. Ákvæðið er að megninu til byggt á 46. gr. eldri laga, þar sem kveðið var á um að viðskiptabankar og sparisjóðir mættu ekki eiga eða taka að veði eignarhluti í öðrum fyrirtækjum en viðskiptabönkum og sparisjóðum, sem næmi hærri fjárhæð en 15% af eigin fé. Í ákvæði nýrri laga nr. 161/2002 er mælt fyrir um sama hámark virkra eignarhluta, og skal sú fjárhæð sem er umfram mörkin dragast frá við útreikning á eigin fé, sbr. 5. mgr. 85. gr. laganna. Þá má samtala slíkra virkra eignarhluta, sem fyrr, ekki nema hærri fjárhæð en 60% af eigin fé fjármálafyrirtækis, annars skal á sama hátt draga umframfjárhæðina frá við útreikning á eigin fé. Sömu reglur og í eldri lögum gilda um bókfært virði samanlagðra eignarhluta sem fjármálafyrirtæki hefur eignast, en það má ekki fara fram úr eigin fé þess.

Með 28. gr. var aukið við lögin skilgreiningu á fyrirtæki tengdu fjármálasviði, en með því er átt við fyrirtæki sem ekki er lánastofnun og starfar einkum að öflun eignarhluta eða hefur ákveðnar starfsheimildir, sambærilegar viðskiptabanka og sparisjóða samkvæmt 20. gr. laganna, en hefur þó ekki heimild til móttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði meðal annars um ákvæðið:

Í þessu felst sú efnisbreyting að nú koma til frádráttar eignarhlutir og víkjandi kröfur í félögum sem teljast til fjármálafyrirtækja eða fyrirtækja tengdra fjármálasviði en samkvæmt gildandi lögum getur verið um að ræða eignarhluti og víkjandi kröfur í félögum sem ekki mundu falla undir fyrrnefndu skilgreininguna. Eftir breytinguna er ákvæðið í betra samræmi við ákvæði 12. og 13. tölul. 2. mgr. 34. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB. Þessi breyting er talin hafa óveruleg áhrif á eiginfjárútreikning en er til bóta varðandi afmörkun á þeim félögum sem falla eiga undir þetta ákvæði. […] Nauðsynlegt er að árétta að með orðunum „öflun eignarhluta“ er ekki átt við að hlutabréfa- eða áhættufjármagnssjóðir geti verið fyrirtæki tengd fjármálasviði. Hér er ekki átt við fjárfestingar í almennum atvinnufyrirtækjum heldur fyrst og fremst öflun eignarhluta í lánastofnunum og öðrum fyrirtækjum tengdum fjármálasviði.30

Þarna er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 85. gr. skal draga bókfært virði eignarhluta og víkjandi krafna í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði frá eigin fé við útreikning á því samkvæmt 84. gr. laganna. Þó var sá fyrirvari á því að þegar um er að ræða eignarhluti sem ekki teljast virkir, þ.e. minni en 10% hlutur í fyrirtæki, skal við útreikning eigin fjár einungis draga frá þá fjárhæð sem er umfram 10% af eigin fé fjármálafyrirtækis, þegar samtala víkjandi krafna og heildarfjárhæð eignarhluta í slíkum félögum er hærri en sem því nemur. Fjármálaeftirlitið gat þó veitt undanþágu ef um var að ræða bráðabirgðaráðstöfun sem ætluð var sem fjárhagsaðstoð við endurskipulagningu eða til bjargar hlutaðeigandi fyrirtæki. Í 5. mgr. 85. gr. er svo mælt fyrir um þann frádrátt frá eigin fé, nú eiginfjárgrunni, eins og segir í 28. gr. laganna.

Hvað eigin hluti fjármálafyrirtækja varðar, sagði í 1. mgr. 29. gr. að fjármálafyrirtæki mætti ekki án samþykkis Fjármálaeftirlitsins eiga eða taka að veði eigin hlutabréf sem næmi hærri fjárhæð en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins, en skyldi selja það að settu marki innan þriggja mánaða, ef fyrirtækið eignaðist meira af hlutafénu, svo sem með kaupum eða fyrir annað framsal. Í ákvæði 1. mgr. var hvergi minnst á stofnfé og í athugasemdum með frumvarpi til laganna var aðeins á það minnst um 1. mgr., að ákvæðið væri hliðstætt 13. gr. eldri laga, sem framar er gerð grein fyrir.31 Í 2. mgr. sagði síðan að ef fjármálafyrirtæki veitti lán í tengslum við hlutafjárútboð til kaupa á eigin hlutabréfum eða stofnfjárhlutum fyrir hærri fjárhæð en 5% af nafnverði heildarhlutafjár eða stofnfjár hlutaðeigandi fyrirtækis, skyldu settar traustar tryggingar fyrir lánum sem væru umfram það hlutfall. Enda þótt ákvæðið byggði á 5. mgr. 46. gr. eldri laga, þá var með nýju lögunum bætt inn orðalaginu „í tengslum við hlutafjárútboð“ sem þótti „eðlilegra með hliðsjón af upphaflegum tilgangi ákvæðisins“ eins og sagði í athugasemdum með frumvarpinu um ákvæðið.32 Ákvæði 5. mgr. 46. gr. eldri laga var lögfest með lögum nr. 43/1993 og hélst á sínum stað í lögunum við endurútgáfu þeirra sem lög nr. 113/1996. Við setningu laga nr. 43/1993 var hvergi minnst á hlutafjárútboð í athugasemdum með frumvarpinu hvað þetta atriði varðaði, heldur aðeins að um væri að ræða nýtt ákvæði sem varðaði lán viðskiptabanka eða sparisjóðs vegna kaupa á eigin hlutabréfum eða stofnfjárbréfum, og að samsvarandi ákvæði væri í dönskum lögum. Ákvæðið skýrði sig að öðru leyti efnislega sjálft.33 Í dönskum lögum hefur lengi verið sambærilegt ákvæði sem tekur til lána vegna útboðs á eða áskrifta að hlutafé, stofnfé eða ábyrgðarfé í fjármálafyrirtækjum (150. gr. danskra laga um fjármálafyrirtæki).34 Við setningu laga nr. 161/2002 var þó ekki hugað að öðru útboði en hlutafjárútboði.35

Með lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 voru í 30. gr. lögfestar reglur um hámark áhættu vegna einstaks eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna sem hlutfall af eigin fé fjármálafyrirtækis.36 Að mestu leyti var byggt á samhljóða ákvæðum í reglum nr. 34/2002 um hámark lána og ábyrgða lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, sem ráðherra setti meðal annars á grundvelli 46. gr. eldri laga, sbr. það sem framar segir. Með áhættu er átt við lánveitingar, verðbréfaeign, eignarhluta og veittar ábyrgðir fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila, svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu. Ef farið er yfir sett mörk, hvílir tilkynningarskylda á fjármálafyrirtækjum til Fjármálaeftirlitsins, sem getur veitt þeim frest til að koma skuldbindingum sínum í lögmætt horf. Þannig tekur ákvæðið ekki aðeins til lánveitinga og ábyrgða viðskiptabanka eða sparisjóða til viðskiptamanna sinna, heldur einnig fjárfestinga, verðbréfaeignar og eignarhluta í fyrirtækjum. Því eru fjárfestingum fjármálafyrirtækja aðeins sett þau mörk sem er að finna í reglum um útreikning eigin fjár, eða eiginfjárgrunns, sbr. 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002, og svo í ákvæði 30. gr. um takmarkanir á stórum áhættum. Að öðru leyti er þeim frjálst að fjárfesta og stunda verðbréfaviðskipti fyrir eigin reikning, eins og framar segir.37

Á árinu 2012 var lagt fram frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sem tók sérstaklega á málefnum sparisjóða. Í upphaflegu frumvarpi til laganna var gert ráð fyrir því að sparisjóðir hefðu ekki lengur starfsheimildir til viðskipta með fjármálagerninga fyrir eigin reikning eða viðskiptavini, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Átti þannig að skilja milli hefðbundinnar sparisjóðsstarfsemi sem felst í inn- og útlánastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Við umfjöllun um þetta atriði frumvarpsins í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis komu fram ólíkar skoðanir og var því meðal annars hreyft að með þessu væri verið að þrengja óeðlilega að starfsheimildum sparisjóðanna. Nefndin lagði því til að frumvarpinu yrði breytt þannig að þessi skerðing á starfsheimildum ætti aðeins við um sparisjóði sem störfuðu á afmörkuðu starfssvæði. Í áliti meiri hluta nefndarinnar sagði meðal annars:

Sparisjóðum ber skv. 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki að hafa með höndum inn- og útlánastarfsemi en jafnframt geta þeir fengið starfsleyfi sem tekur til eignaleigu, útgáfu rafeyris og viðskipta og þjónustu með fjármálagerninga en undir síðastnefnda flokkinn fellur m.a. eignastýring. Ekki er gerður greinarmunur á heimildum sparisjóða og viðskiptabanka og eru þær nánar útlistaðar í IV. kafla umræddra laga. Frumvarpið gerir aftur á móti ráð fyrir að sjóðirnir takmarki starfsemi sína við hefðbundna viðskiptabankastarfsemi til aðgreiningar frá fjárfestingarstarfsemi og má um það vísa til 1. gr. og b-liðar 2. gr. Starfsheimildir sjóðanna eiga samkvæmt því að taka til inn- og útlánastarfsemi og útgáfu rafeyris en ekki eignaleigu og viðskipta og þjónustu með fjármálagerninga auk þess sem sjóðunum verður heimilt að eiga með sér samstarf um tiltekin verkefni á almennum viðskiptalegum forsendum, sbr. 4. gr. e.
Skiptar skoðanir komu fram um það hvort ákvæði frumvarpsins þrengdu óeðlilega að starfsheimildum sjóðanna með tilliti til samkeppnisstöðu og möguleika til tekjuöflunar. Flestir telja það jákvætt að heimildir þeirra verði takmarkaðar við að sinna hefðbundinni viðskiptabankaþjónustu. Í ljósi reynslu telja þeir að sérstaða sjóðanna í samkeppnislegu tilliti hafi byggst á skilningi sjóðanna á þörfum og innviðum þess samfélags sem þeir starfa í. […]
Í sameiginlegri umsögn Akureyrarbæjar, Grýtubakkahrepps, KEA svf. og Sparisjóðs Höfðhverfinga er talið að frumvarpið muni að óbreyttu standa í vegi fyrir því að sjóðirnir geti haft eignastýringu með höndum og girði þannig fyrir að þeir geti boðið einstaklingum heildstæða þjónustu. Fyrir vikið séu þeir ekki jafn fýsilegur fjárfestingarkostur og ella væri. Gegn þessum sjónarmiðum var bent á að ekki væri kunnugt um neinn sparisjóð sem stundaði slíka starfsemi í dag auk þess sem lágmarkshlutafé/stofnfé sparisjóðs þyrfti þá að vera 5 milljónir evra, sbr. 2. mgr. 14. gr., 3. mgr. 20. gr. og 25. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt frumvarpinu þurfa sparisjóðir sem starfa á afmörkuðum, staðbundnum markaði einungis að vera með lágmarkshlutafé/stofnfé að fjárhæð 1 milljón evra og er þá miðað við að starfsheimildir þeirra takmarkist við hefðbundna viðskiptabankastarfsemi, sbr. 3. mgr. 14. gr. umræddra laga.
Að höfðu samráði við efnahags- og viðskiptaráðuneyti leggur meiri hlutinn til þá breytingu á frumvarpinu að sparisjóðum verði heimilt að afla sér starfsheimilda verðbréfafyrirtækis kjósi þeir svo en þurfi þá að uppfylla sömu öryggiskröfur og önnur fjármálafyrirtæki sem veita sambærilega þjónustu, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Á sama tíma eigi tillagan að tryggja að sparisjóðir, sem vilja einbeita sér að inn- og útlánastarfsemi og annarri grunnþjónustu fyrir sitt nærsamfélag, geti gert það án þess að þurfa að vera með fullt viðskiptabankaleyfi.
Í annan stað hefur athygli meiri hlutans verið vakin á því að sparisjóður með 1 milljón evra stofnfé/hlutafé/eiginfjárgrunn gæti átt dótturfélag sem stundar eignastýringu, að viðeigandi skilyrðum uppfylltum, m.a. þeim að félagið fengi starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki og sparisjóðurinn yrði metinn hæfur sem virkur eigandi í því fyrirtæki. Í þeim tilvikum yrði litið á eignarhlut sparisjóðsins sem hliðarstarfsemi hans skv. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 161/ 2002, um fjármálafyrirtæki.
Í umsögn Fjármálaeftirlitsins er vakin athygli á því að verði frumvarpið samþykkt óbreytt geti sparisjóður ekki átt viðskipti fyrir eigin reikning og fyrir viðskiptavini með gjaldeyri og greiðsluskjöl á peningamarkaði, sbr. a- og b-lið 7. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Í minnisblaði efnahags- og viðskiptaráðuneytisins frá 24. maí sl. er á það bent að af 9. tölul. 4. gr. e frumvarpsins leiði að sjóðirnir hafi heimild til að eiga með sér samstarf, þ.m.t. um innlenda og erlenda greiðslumiðlun og þjónustu við erlend viðskipti, og geti á þeim grundvelli samið við aðila sem hafi slíkar heimildir í umboði þeirra.

Nokkuð almenn sátt náðist um þessa niðurstöðu nefndarinnar á Alþingi og urðu ekki miklar umræður um þetta atriði. Voru lögin samþykkt með þeirri breytingu sem efnahags- og viðskiptanefnd hafði lagt til um starfsheimildir sparisjóða sem störfuðu á afmörkuðu, staðbundnu starfssvæði, sem lög nr. 77/2012.38 Þeir sparisjóðir sem uppfylla kröfur laganna um 5 milljóna evra stofn- eða hlutafé hafa hins vegar fullar starfsheimildir til viðskipta með fjármálagerninga fyrir eigin reikning eða viðskiptavini samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Þeir geta því enn stundað svo kallaða fjárfestingarbankastarfsemi.39

10.2 Upphaf verðbréfaviðskipta sparisjóðanna

Umhverfi fjárfestinga fyrir alþjóðlega markaði og möguleika stofnana eins og sparisjóða til að vera virkir þátttakendur í fjárfestingum verðbréfa mótaðist nokkuð árið 1907. Þá var fjármálakreppa sem leiddi til samdráttar í bandarísku efnahagslífi. Undirrót kreppunnar voru áhættusamar fjárfestingar en lausafjárþurrð jók á vandann. Bankar lentu í vandræðum með að greiða innistæðueigendum sem margir hverjir biðu í röðum til að nálgast innistæður sínar og urðu margir hverjir gjaldþrota vegna lausafjárskorts. Talið var að lánveitandi til þrautavara hefði getað breytt nokkru um það og var Seðlabanki Bandaríkjanna settur á fót 1913 til að koma í veg fyrir að sagan endurtæki sig. Þrautavaralán Seðlabanka Bandaríkjanna dugði ekki til að halda bönkum gangandi eftir hrun á gengi hlutabréfa 1929–1932 og kreppuna miklu og yfir reið önnur hrina bankagjaldþrota. Þá voru sett Glass-Steagall lögin, sem áttu að fyrirbyggja að áhættusamar fjárfestingar banka gætu stefnt efnahagslífi landsins í hættu. Þó bankar gætu áfram fjárfest að ákveðnu marki í hluta- og skuldabréfum settu lögin skýr mörk milli hefðbundinnar bankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi og var ætlað að koma í veg fyrir frekari fjármálakreppur.40 Samhliða setningu laganna var innistæðutryggingarkerfi komið á fót í Bandaríkjunum til að draga úr líkum á áhlaupi innistæðueigenda á banka.41 Viðskiptabankar sem tóku á móti innistæðum einstaklinga og fyrirtækja, lutu ströngum reglum og áttu að vera ólíklegri til að falla en fjárfestingarbankar sem tóku þátt í fjármögnun fyrirtækja og viðskiptum með verðbréf þeirra.42 Hefðbundin inn- og útlánastarfsemi kann að vera áhættulítil og skilar takmörkuðum hagnaði; fjárfestingabankastarfsemi getur á hinn bóginn skilað betri ávöxtun en jafnframt verið mun áhættusamari. Eðlilegt þótti að ríkisstjórnir styddu við þá starfsemi sem væri að jafnaði áhættulítil en nauðsynleg fyrir hagkerfið. Fjárfestingarbankastarfsemi getur þó verið jafnnauðsynleg hagkerfinu; fyrirtæki geta almennt aukið vöxt sinn með lántökum, skuldabréfaútgáfum og ráðstöfun hagnaðar til eigin vaxtar í stað arðgreiðslna til hluthafa.43

Þessi lög eru talin hafa haft mikil áhrif á að bankakerfi Bandaríkjanna var afar stöðugt næstu áratugina.44 Lokun banka vegna gjaldþrota eða lausafjárskorts var mjög sjaldgæf í Bandaríkjunum næstu áratugina en það breytist þegar regluverk var rýmkað. Árið 1999 voru Glass-Steagall lögin frá 1933 afnumin að mestu.45 Bankaþjónusta, sem áratugum saman hafði fyrst og fremst falist í inn- og útlánastarfsemi, breyttist ört í lok síðustu aldar og upphafi þessarar, í framhaldi af afnámi Glass-Steagall laganna og algengara varð að bankar sinntu bæði hefðbundinni inn- og útlánastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi.

Þessar breytingar á einhverjum stærsta fjármálamarkaði heimsins höfðu áhrif víða og þar var Ísland ekki undanskilið. Upp úr 1980 fór íslenskur fjármálamarkaður að stíga sín fyrstu skref úr viðjum hafta, sem höfðu einkennt íslenskt fjármálalíf allt frá falli Íslandsbanka hins eldri árið 1930. Frá 1933 voru hámarksvextir 8% en vaxtaákvarðanir banka voru í höndum Seðlabanka Íslands í samráði við ríkisstjórn. Vaxtakjör á óverðtryggðum lánum árin 1973–1983 voru oftast nær 10–20 prósentustigum lægri en verðbólga en árið 1984 varð til fyrsti vísir í áraraðir um vaxtafrelsi á íslenskum bankamarkaði.46 Þáttur ríkisins í íslensku bankakerfi var svipaður og annars staðar á Norðurlöndunum en stjórnvöld reyndu eftir megni að stýra lánsfjármagni í þágu efnahagslífsins.47 Á níunda áratugnum dró úr haftastefnunni hérlendis og var það í takt við þróunina á Norðurlöndum.48 Afnám hafta á fjármagnsflutningum hófst árið 1990 og með aðild Íslands að EES-samningnum
1994 voru langtíma fjármagnshreyfingar gefnar frjálsar og skammtíma fjármagns-
hreyfingar árið eftir. Sama ár voru erlendar fjárfestingar heimilaðar í samræmi við EES-samninginn.49

Íslensk fjármálafyrirtæki einbeittu sér lengi vel að ákveðnum atvinnugreinum eða stéttum eins nöfn þeirra báru með sér, til að mynda Iðnaðarbankinn, Búnaðarbanki Íslands, Verzlunarbanki Íslands og Alþýðubankinn, og meðal sparisjóða má nefna Sparisjóð vélstjóra. Sparisjóðir kenndu sig þó frekar við tiltekin svæði þar sem þeir stunduðu stærstan hluta viðskipta sinna.50 Með afnámi hafta breyttist bankaumhverfið og samkeppni lánastofnana snerist æ meira um að bjóða lægsta verðið og ná sem mestri markaðshlutdeild. Áður hafði verið lögð áhersla á þjónustu og nálægð við viðskiptavini sem birtist meðal annars í þéttu útibúaneti og miklum fjölda bankastarfsmanna á landinu. Sambærileg þróun átti sér einnig stað á Norðurlöndunum á níunda áratug síðustu aldar.51 Þessar áherslur leiddu meðal annars til þess að vaxtamunur snarminnkaði frá 1999 og allt fram að falli viðskiptabankanna haustið 2008.

Samkeppnin harðnaði eftir því sem leið á fyrsta áratug aldarinnar og saman dró með vaxtamun banka og sparisjóða, en vaxtamunur sparisjóðanna hafði verið töluvert meiri en bankanna. Með aukinni samkeppni á íbúðalánamarkaði frá haustinu 2004 dró enn úr vaxtamun. Margir sparisjóðanna seldu greiðsluflæði af fasteignaveðlánum sínum eða skuldabréf með veði í sams konar lánum til Íbúðalánasjóðs og höfðu af því litlar eða jafnvel neikvæðar vaxtatekjur.52

Um leið og samkeppnin harðnaði og vaxtamunur minnkaði hófu lánastofnanir að nýta rýmri starfsheimildir til þess að bjóða upp á fjölbreyttari þjónustu en áður, ekki síst verðbréfaþjónustu, og var það í samræmi við alþjóðlega þróun. Einstaklingar sýndu verðbréfakaupum sífellt meiri áhuga og bankar og verðbréfafyrirtæki þróuðu þjónustu og búnað til að fást við aukin verðbréfaviðskipti í minni einingum.53 Með tilkomu veraldarvefsins urðu verðbréfaviðskipti aðgengilegri og ódýrari en áður hafði þekkst. Bankarnir stofnuðu allir sérstök svið til að sinna verðbréfaþjónustu en árið 1986 settu sparisjóðirnir upp sinn verðbréfaarm með kaupum á 49% hlut í Kaupþingi hf. fyrir 4,9 milljónir króna. Árið 1990 seldi Pétur H. Blöndal, einn stofnenda Kaupþings hf., 51% hlut sinn til Búnaðarbanka Íslands fyrir 115 milljónir króna, sem sparisjóðirnir keyptu svo af bankanum síðla árs 1996 fyrir 180 milljónir króna og urðu þannig einu eigendur Kaupþings um tíma. Nokkrum mánuðum eftir að kaupin gengu í gegn varð ljóst að rekstrarhagnaður Kaupþings fyrir árið 1996 var um 150 milljónir króna, eða sem nam rúmlega 80% kaupverðs hlutarins.54

Árið 2000 settu sparisjóðirnir Kaupþing hf. á markað og var virði þess, miðað við útboðsgengi, tæpir 10 milljarðar króna.55 Bókfærður hagnaður sparisjóðanna af Kaupþingi hf. á þessu fjögurra ára tímabili var því mikill. Margir sparisjóðir seldu eignarhlut sinn í Kaupþingi eftir að það var skráð, meðal annars vegna þeirra áhrifa sem gengishækkun hlutabréfanna hafði á eiginfjárhlutfall þeirra. Flestir þeirra sparisjóða sem héldu eignarhlut sínum í Kaupþingi eftir skráningu mynduðu síðar hóp sem þekktur var sem „Exista-sparisjóðirnir“.

Um svipað leyti áttu sparisjóðirnir í samstarfi við Kaupþing hf. um viðskipti með stóran hlut í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. sem skóp töluverðan innleystan hagnað á stuttu tímabili. Síðla árs 1998 seldi ríkissjóður 49% hlut sinn í bankanum á útboðsgenginu 1,40. Skömmu eftir þetta útboð keyptu sparisjóðir hlut í félaginu, meðal annars af Kaupþingi hf. Í desember sama ár juku sparisjóðirnir við hlut sinn þegar Viðskiptastofa Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, fyrir hönd sex sparisjóða og Sparisjóðabankans, keypti 9% af heildarhlutafé fjárfestingarbankans af Búnaðarbanka Íslands hf. og viðskiptavinum hans á genginu 1,88. Eftir þetta nam hlutur sparisjóðanna og Kaupþings hf. í fjárfestingarbankanum 18% en Kaupþing hf. réði auk þess yfir 5% atkvæðarétti fyrir aðra hluthafa.56 Í árslok voru þessir hlutir seldir til dótturfélags í eigu sparisjóðanna og Kaupþings hf., Scandinavian Holding S.A.57 Scandinavian Holding seldi allan hlut sinn í fjárfestingarbankanum 3. ágúst 1999 til hóps fjárfesta innan félags sem hét Orca S.A.58 Áætlaður hagnaður Scandinavian Holding af þessum viðskiptum var um 1,5 milljarðar króna, sem féll að hluta til í skaut sparisjóðanna.59

Þessi viðskipti, sem sparisjóðirnir stóðu að í sameiningu, voru mjög arðbær fyrir þá. Samstarf þeirra um fjárfestingar hélt áfram, ýmist á vegum þeirra allra eða afmarkaðs hóps. Má þar til að mynda nefna fjárfestingar í félögum eins og SP-fjármögnun hf., Fjárfestingarfélagi sparisjóðanna hf. og síðar VBS Fjárfestingarbanka hf., Alþjóða líftryggingarfélaginu hf., Exista hf. og Kistu – fjárfestingarfélagi ehf.

10.3 Fjáreignir og fjárfestingar

Umfjöllun um fjárfestingar sparisjóðanna er tvískipt. Annars vegar er litið til uppbyggingar regluverks og áhættustýringar hvað fjárfestingar varðaði, en hins vegar þær fjárfestingar sem ráðist var í og hvaða fjárhagslegu áhrif þær höfðu fyrir sparisjóðina í heild. Þá er sjónum beint að áhrifum einstakra félaga á afkomu sparisjóða, og þá fyrst og fremst áhrif eignar í Exista hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf. Almennt er litið til áranna 2001–2011 varðandi heildarumfang og áhrif fjárfestinga sparisjóðanna. Hér verður vikið að nokkrum hugtökum sem stuðst er við í umfjölluninni.

  • Fjáreignir: Hlutir í hlutdeildarfélögum, hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum, og markaðsskuldabréf og önnur skuldabréf með föstum tekjum.
  • Eignarhlutir: Fjáreignir að undanskildum markaðsskuldabréfum og öðrum skuldabréfum með föstum tekjum.
  • Afkoma af fjáreignum: Bókfærður hagnaður eða tap af fjáreignum eins og þau birtast í ársreikningi. Um er að ræða gengishagnað vegna eignarhluta, verðbreytingar skuldabréfa, hlutdeild í afkomu hlutdeildarfyrirtækja og arðstekjur. Vaxtatekjur af skuldabréfum teljast ekki til tekna af fjáreignum og færast með öðrum vaxtatekjum.
  • Ávöxtun: Tekjur af fjáreignum á einu ári sem hlutfall af meðalstöðu eignarhluta á árinu.
  • Veltubók: Þar er haldið utan um fjárfestingar til skamms tíma. Hagnaður er uppfærður árlega miðað við gengisbreytingar undirliggjandi verðbréfa.
  • Fjárfestingabók: Þar er haldið utan um fjárfestingar til lengri tíma. Hagnaður helst óinnleystur í bókhaldi þangað til eign er seld eða er endurskilgreind sem eign í veltubók.

10.3.1 Skipulag og reglur

Fjárfestingarstefna fjármálafyrirtækis tekur mið af því hve mikla áhættu fyrirtækið er tilbúið að taka til að ná ásættanlegri ávöxtun. Með henni er meðal annars ákveðið í hverju á að fjárfesta og til hversu langs tíma. Hún kveður á um samsetningu eignasafns og þar er jafnan sett fram til viðmiðunar hversu hátt hlutfall af eignasafni fyrirtækisins megi nota til fjárfestingar í einstökum eignaflokkum. Sparisjóðum er ekki lagalega skylt að marka sér fjárfestingarstefnu.60 Stjórnir sparisjóðanna settu reglur um störf stjórnar og sparisjóðsstjóra í samræmi við 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra. Sparisjóðabanki Íslands hf. tók að sér að semja fyrirmynd að reglum sem margir sparisjóðanna nýttu. Þeir sparisjóðir sem urðu nógu umsvifamiklir til að reka sínar stoðdeildir sömdu eigin reglur en minni sparisjóðirnir studdust flestir við reglur samdar af Sparisjóðabankanum.

Í starfsreglum stjórnar og sparisjóðsstjóra var ábyrgðarhlutverk hvors um sig skilgreint. Þar kom fram að stjórn bæri að setja markmið varðandi áhættur í starfseminni, ákveða mörk áhættutöku og byggja upp eftirlit með áhættum í rekstrinum. Áhættumarkmiðin skyldu meðal annars taka til útlánastefnu, fjárfestingarstefnu og rekstraráhættustefnu. Sparisjóðsstjóri bar ábyrgð á daglegum rekstri sparisjóðsins og fór með ákvörðunarvald í öllum málefnum sparisjóðsins sem ekki voru falin öðrum samkvæmt lögum nr. 161/2002 eða samþykktum sparisjóðsins. Hann skyldi standa fyrir rekstri sparisjóðsins í samræmi við reglur eða ákvarðanir stjórnar, samkvæmt samþykktum hans og lögum. Hann bar ábyrgð á að greina, mæla, fylgjast með og hafa eftirlit með áhættu sem starfseminni fylgdi.

Eina grein reglnanna sem náði til fjárfestinga í litlum sparisjóðum fjallaði um mörk fjárfestingarheimilda. Þar sagði oftast eitthvað á þessa leið:

Fjárfesting í fasteignum skal borin upp í stjórn, sem og önnur þau fjárfestingaráform sem telja má meiriháttar eða óvenjuleg. Sem dæmi má nefna kaup á meiriháttar tölvubúnaði og fyrirhuguð opnun afgreiðslustaða.

Í reglum sumra minni sparisjóðanna kom einnig fram að setja ætti sérstakar reglur um mörk heimilda sparisjóðsstjóra. Í reglum eins tiltekins sparisjóðs stóð til að mynda:

Um mörk heimilda sparisjóðsstjóra til fjárfestingar í verðbréfum fer samkvæmt reglum stjórnar sparisjóðsins um áhættustýringu. Um mörk heimilda sparisjóðsstjóra til fjárfestingar í verðbréfum fer samkvæmt ákvörðun stjórnar sparisjóðsins hverju sinni.

Þegar innt var eftir reglum um áhættustýringu í þessum sparisjóði kom í ljós að ekki höfðu verið settar aðrar reglur um áhættustýringu en þær sem sneru að útlánum. Hjá minni sparisjóðum voru fjárfestingar iðulega á borði sparisjóðsstjóra.

Í stærri sparisjóðum voru reglur um fjárfestingar og áhættustýringu verðbréfaeignar með ýmsu móti. Starfsreglum stjórnar og sparisjóðsstjóra stærri sparisjóðanna svipaði í meginatriðum til þeirra sem fjallað var um hér að ofan, en þar voru ítarlegri ákvæði og fleiri er sneru að fjárfestingum. Auk þess settu stærri sparisjóðir oftast sérstakar reglur um áhættustýringu þar sem meðal annars var fjallað um áhættu vegna fjárfestinga.

Í stærri sparisjóðum höfðu ákveðnir starfsmenn það hlutverk að fjárfesta eða hafa eftirlit með fjárfestingum. Í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis var umsjón með fjárfestingum til skemmri tíma, eða veltubókinni, útvistað til SPRON-Verðbréfa hf. Fjárfestingar til lengri tíma voru þó í höndum sparisjóðsins sjálfs, þar með talið eign í Exista hf., sem var langstærsta verðbréfaeign sparisjóðsins. Hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sinnti ákveðinn starfsmaður áhættustýringu og hafði eftirlit með hlutabréfaáhættu. Þar starfaði einnig áhættustýringarhópur, skipaður nokkrum af æðstu stjórnendum sparisjóðsins. Áhættustýringarhópurinn bar meðal annars stöðu verðbréfa saman við áhættuviðmið sparisjóðsins. Þess voru dæmi að þegar staðan var komin umfram sett viðmið, væri brugðist við með því að óska eftir að stjórn hækkaði viðmiðin, en ekki með því að finna leiðir til að minnka áhættuna.61

Í Byr sparisjóði sá markaðsviðskiptadeild um viðskipti með skráð íslensk hluta- og skuldabréf. Þær óskráðu eignir sem sparisjóðurinn tapaði mest á voru eignir sem höfðu verið teknar upp í skuldir lántakenda. Þá var þátttaka í fasteignaverkefnum heima og erlendis ákvörðun stjórnar. Hjá sparisjóðnum var áhættustýringardeild sem starfaði eftir reglum um áhættustýringu og fylgdist meðal annars með áhættu tengdri fjárfestingum. Fyrrverandi forstöðumaður þeirrar deildar sagði áhættu vegna fjárfestinga hafa verið hlutfallslega litla miðað við aðra áhættuþætti í rekstri sparisjóðsins.62 Í athugun sinni á áhættu í Byr sparisjóði frá 17. apríl 2008 var það mat Fjármálaeftirlitsins að efla þyrfti áhættustýringu hans.

Í Sparisjóði Mýrasýslu voru settar sérstakar starfs- og áhættureglur vegna eigin verðbréfaviðskipta árið 1999. Þar voru sett fjárhæðamörk fyrir fjárfestingar og mörkuð stefna um þær. Ákveðnir starfsmenn sinntu veltubók en um fjárfestingabókina sagði að stjórn sparisjóðsins skyldi að öllu jöfnu vera upplýst um hver staða hennar væri. Misbrestir voru í áhættustýringu sparisjóðsins eins og kom fram í skýrslu fyrrverandi stjórnarformanns sparisjóðsins fyrir rannsóknarnefndinni og alvarlegum athugasemdum Fjármálaeftirlitsins í skýrslu þess um athugun á útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirliti með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu frá 30. júlí 2008.63

Hjá Sparisjóðnum í Keflavík var deild sem var kölluð viðskiptastofa og sá meðal annars um eigin viðskipti sparisjóðsins. Að sögn forstöðumanns viðskiptastofu voru eigin viðskipti sparisjóðsins fyrir tilstilli stofunnar ekki umsvifamikil; ákvarðanir um stórar fjárfestingar eins og Exista hf. voru teknar af stjórn og sparisjóðsstjóra.64 Árið 2004 var stofnuð áhættustýringardeild hjá sparisjóðnum. Forstöðumaður hennar sagðist hafa fengið þau skilaboð að meginhlutverk hans væri að greina lánasafn sparisjóðsins, fjárfestingar væru í höndum stjórnarinnar.65 Sparisjóðurinn setti ekki sérstakar reglur um áhættustýringu fyrr en síðla árs 2008, í kjölfar gagnrýni Fjármálaeftirlitsins eftir skoðun þess á útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirliti með peningaþvætti um mitt ár 2008. Gögn og skýrslur í fórum rannsóknarnefndarinnar sýna að stjórn hafi ekki fylgst vel með áhættum tengdum fjárfestingum en sparisjóðsstjóri verið meðvitaður um þær.66

Í minni sparisjóðum sýna fundargerðir stjórnar yfirleitt að sparisjóðsstjóri og stjórn hafi rætt um fjárfestingar sparisjóðsins, sérstaklega hvort kaupa ætti hlutafé, auka við hlut eða selja. Tillögur sparisjóðsstjóra voru nær undantekningarlaust samþykktar. Í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis var töluverð umræða um fjárfestingar á stjórnarfundum og hækkun á áhættumörkum borin undir stjórn. Starfsmenn sparisjóðsins voru sammála um það í skýrslum sínum fyrir rannsóknarnefndinni að sparisjóðsstjóri hafi séð um stærstu fjárfestingar sparisjóðsins og fátt verið ákveðið í þeim efnum nema með þátttöku hans. Gögn rannsóknarnefndarinnar benda til þess að bæði í Sparisjóðnum í Keflavík og Sparisjóði Mýrasýslu hafi stjórn haft litla yfirsýn yfir áhættu sjóðsins af fjárfestingum. Lítil umræða er í stjórnarfundargerðum um fjárfestingar, fjárfestingarstefnu og áhættu af fjárfestingum. Fyrrverandi stjórnarformaður Sparisjóðs Mýrasýslu sagði í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni að hann hefði komið á framfæri áhyggjum af stöðunni í Exista hf. en sparisjóðsstjóri ekki viljað selja. Aðrir hjá þessum sparisjóði tóku einnig undir það að sparisjóðsstjóri hafi tekið allar ákvarðanir um þessa stærstu eign sparisjóðsins.67 Í Sparisjóðnum í Keflavík voru atriði varðandi fjárfestingar lögð fyrir stjórn en fyrrverandi stjórnarformaður sparisjóðsins gat aðspurður ekki lýst fjárfestingum sparisjóðsins, áhættuþáttum þeirra eða umræðum stjórnar um þær fyrir rannsóknarnefndinni.68

Í Byr sparisjóði var málum öðruvísi háttað en í hinum stærri sparisjóðunum, hann var til að mynda sá eini þeirra sem ekki átti stóran hlut í Exista hf. Talsverð umræða var um fjárfestingar í stjórn, einkum um fasteignaverkefni erlendis. Í sparisjóðnum störfuðu lengst af tveir sparisjóðsstjórar og er ekki að sjá að annar þeirra hafi haft meiri áhrif á fjárfestingar en hinn. Umsvif fjárfestinga í veltubók voru töluverð og í höndum starfsmanna sjóðsins, en hækkun áhættuviðmiða og fjárfestingarheimilda veltubókar var tekin fyrir í stjórn. Fjárfestingar sparisjóðsins og eftirlit með þeim skiptust milli stjórnar, sparisjóðsstjóra og starfsmanna með öðrum og skipulagðari hætti en í hinum stærri sparisjóðunum.

10.3.2 Eignir og afkoma

Fjáreignir sparisjóðanna rúmlega þrefölduðust frá árslokum 2004 til 2007. Markaðsskuldabréf voru hlutfallslega mikilvæg á árunum 2001–2004 en eignarhlutir, einkum hlutabréf og önnur verðbréf með breytilegar tekjur, voru undirstaða vaxtar áranna 2005–2007 og samdráttar árin 2008–2009. Breytingar á fjáreignum eftir þann tíma endurspegla minni umsvif sparisjóðakerfisins, þar sem Fjármálaeftirlitið hafði tekið yfir vald hluthafa- og stofnfjáreigendafunda þeirra stærstu þegar kom að uppgjöri í árslok 2010. Fjáreignir voru um 130% af eigin fé sparisjóðanna frá 2002 til 2006 en 90% í árslok 2007, þrátt fyrir að fjáreignir hafi aukist milli ára. Hlutfall fjáreigna lækkaði þar sem eigið fé jókst meira en fjáreignir á árinu 2007, meðal annars vegna hærri stofnfjáraukninga en áður höfðu þekkst.

Vöxtur fjáreigna frá árinu 2003 stafaði fremur af gengisbreytingum hlutabréfa en af nýjum fjárfestingum. Sparisjóðirnir keyptu í Kaupþingi hf. 1986 og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. árið 1998. Þeir seldu síðan fjárfestingarbankann árið 2000 og sumir þeirra seldu eignarhlut sinn í SP-fjármögnun hf. til Landsbanka Íslands hf. árið 2002. Sumir sparisjóðanna seldu bréf sín í Kaupþingi hf. eftir að þau höfðu verið skráð á markað. Þá stofnuðu nokkrir sparisjóðir eignarhaldsfélag, sem síðar varð þekkt undir nafninu Exista hf., utan um eign sína í Kaupþingi hf. árið 2001. Hlutabréf Exista hf. voru síðar skráð á markað, eða í september 2006. Gengishækkanir bréfa í Kaupþingi banka hf. og Exista hf. voru mikill drifkraftur að baki stækkunar fjáreignasafns sparisjóðanna og þegar farið var að færa Sparisjóðabankann á gangvirði árið 2007 jókst virði verðbréfaeignar sparisjóðakerfisins enn meira. Frá árslokum 2001 til ársloka 2007 jukust fjáreignir sparisjóðanna úr 26 milljörðum króna í 114 milljarða króna, eða sem nam 88 milljörðum króna. Þar af voru 64 milljarðar króna vegna gengishækkana en 27 milljarðar króna vegna nýrra fjárfestinga.

Stórar nýfjárfestingar frá árinu 2005 tengdust því að fyrirtæki sem sparisjóðirnir áttu hlut í sameinuðust öðrum. Til að mynda sameinuðust FSP hf. og VBS Fjárfestingarbanki hf. á árinu 2007. Í lok sama árs sameinuðust Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Vestfirðinga og Sparisjóður Húnaþings og Stranda en margir sparisjóðir áttu hlut í Sparisjóði Vestfirðinga eftir að Tryggingasjóður sparisjóða og sparisjóðirnir lögðu honum til stofnfé árið 2004.

Þegar Exista hf. var skráð á markað haustið 2006 og virði þess hækkaði mikið, var tekist á um það innan margra sparisjóða sem áttu hlutabréf í félaginu hvort, og þá hvenær, væri heppilegt að selja þau. Bréf í Kaupþingi banka hf. og Exista hf. höfðu skilað sparisjóðunum miklum tekjum, að mestu bókfærðan óinnleystan hagnaðan, en minni sparisjóðir höfðu margir hagnast á sölu hlutabréfa í þessum félögum. Uppi voru sjónarmið um hvort enn væri hægt að fá meiri ávöxtun af eigninni með því að eiga hana lengur eða hvort betra væri að selja hluti strax. Ákveðnir aðilar innan sparisjóðakerfisins töldu nauðsynlegt að skila mjög góðri ávöxtun til stofnfjárhafa sparisjóðsanna og þar léku tekjur af verðbréfaeign stórt hlutverk:

Stefnan var fyrst og fremst varðandi þessar tvær fjárfestingar en hún var sú að það væri ekki tímabært að selja í Exista og þar með er Kista inni í því máli og hins vegar síðan sú stefna að efla Sparisjóðabankann. Stjórnin mat það þannig [að það væri ekki tímabært að selja í Exista]. […] Við komum þá aftur inn á það sem við töluðum um þegar þetta var orðinn stofnfjársjóður og stofnfjáreigendur vildu fá hagnað, ekki fengu þeir hagnað af stofnfjárbréfunum út úr reglulegri starfsemi [Sparisjóðsins í Keflavík].69

Lengi vel höfðu sparisjóðirnir tiltölulega litlar tekjur af fjáreignum. Árin 2000–2002 einkenndust af lækkunum á gengi hlutabréfa, bæði á Íslandi og erlendis, en hlutabréf féllu í verði frá því í mars 2000 fram að fyrsta ársfjórðungi ársins 2003. Árið 2001 féllu nær allar tekjur sparisjóðanna undir aðra liði en þá sem tengjast fjáreignum. Aðallega var þar um að ræða hreinar vaxtatekjur en einnig hreinar þóknanatekjur. Sama ár var rekstrarniðurstaða sparisjóðanna lítilsháttar tap. Árið eftir var mun meiri hagnaður af rekstri sparisjóðanna en árið áður, fyrst og fremst vegna stóraukinna tekna af fjáreignum. Á árunum 2003–2007 var afkoma af fjáreignum sparisjóðanna betri en af öðrum rekstrarþáttum þeirra fyrir skatt.70 Ekki verður þó fullyrt að rekstur sparisjóðanna hefði ekki skilað neinum hagnaði ef tekjur af fjáreignum hefðu ekki komið til. Sparisjóðirnir hefðu getað nýtt fjármagnið sem bundið var í fjáreignum til annarra fjárfestinga, til dæmis frekari útlána. Hins vegar skiluðu fáar, ef nokkrar, aðrar eignir sparisjóðanna jafngóðri ávöxtun og fjáreignir á árunum 2001–2007.

Á mynd 5 er annars vegar horft til annarra hreinna rekstrartekna og afkomu af fjáreignum hins vegar. Þær eru bornar saman við afkomu sparisjóðsins fyrir skatt, þ.e. samtölu annarra hreinna rekstrartekna og afkomu af fjáreignum, sem mynda hreinar rekstrartekjur, að frádregnum rekstrargjöldum (sjá mynd á spássíu).

Á mynd 5 er hreinum tekjuliðum því skipt upp í tvo hópa og áhrif þeirra á afkomu fyrir skatt borin saman. Ekki er áætlað hver hlutur hvors tekjuflokks um sig var í rekstrargjöldunum. Aðrar hreinar rekstrartekjur samanstanda af hreinum vaxta- og þóknanatekjum og öðrum tekjum. Afkoma af fjáreignum er samanlagt tap og hagnaður af fjáreignum þess árs. Sá hluti vaxtagjalda sem fellur til vegna lána sem fjármagna fjárfestingar er óþekktur og hann telst til almennra vaxtagjalda. Eru hreinar vaxtatekjur lægri og afkoma af fjáreignum hærri sem því nemur. Þá fellur söluhagnaður af fjáreignum yfirleitt undir aðrar hreinar rekstrartekjur í ársreikningum sparisjóðanna, með nokkrum undantekningum, og eru aðrar hreinar rekstrartekjur því hærri og afkoma af fjáreignum lægri en sem því nemur. Upplýsingar um söluhagnað af verðbréfum sparisjóða eru takmarkaðar, en þær koma fram í köflunum um hvern sparisjóð (17.–30. kafla). Eins og fjallað er um hér aftar var meiri hluti söluhagnaðar af verðbréfum endurfjárfestur í öðrum verðbréfum vegna skattalegs hagræðis og því jókst verðbréfaeign iðulega sem nam söluhagnaði. Rannsóknarnefndin hefur ekki metið óbeinan kostnað við verðbréfaeign, svo sem fórnarkostnað.

Fjáreignir minni sparisjóða voru um fjórðungur af fjárfestingum sparisjóðakerfisins 2001–2005, 18% í árslok 2006 og 15% í árslok 2007. Hlutfall fjáreigna af heildareignum var áþekkt hjá minni og stærri sparisjóðum, iðulega á bilinu 12–20% í árslok 2001–2006. Í árslok 2007 voru fjáreignir hins vegar orðnar 26% af heildareignum minni sparisjóða og 18% af heildareignum þeirra stærri. Þar hafði mest vægi sala Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Byrs sparisjóðs á eignarhlut þeirra í Sparisjóðabankanum á árinu 2007. Kaupendur voru flestir utan sparisjóðakerfisins en nokkrir sparisjóðir juku við hlut sinn, bæði stærri og minni sparisjóðir.

Á árunum 2001–2006 reiddu stærri sparisjóðir sig hlutfallslega meira á afkomu af fjáreignum en minni sparisjóðir. Þetta breyttist árið 2007 þegar afkoma af fjáreignum minni sparisjóða varð 22% af hreinum rekstrartekjum meðan hún var 14% hjá þeim stærri. Áhrif Kistu – fjárfestingarfélags ehf. á stærri sparisjóði hafði þar mikil áhrif til lækkunar, en töluvert tap varð af rekstri fjárfestingarfélagsins á árinu. Gengishagnaður verðbréfa var einnig minni vegna sölu á eignarhlutum í Sparisjóðabankanum og aðrar tekjur meiri en áður vegna söluhagnaðar tveggja stærstu sparisjóðanna af þeirri eign, en hann nam 7,3 milljörðum króna.71

Hlutfallslega lítil áhrif fjáreigna á afkomu minni sparisjóða má meðal annars rekja til þess að margir þeirra seldu hluti sína í Kaupþingi hf., Exista hf. og öðrum fjármálafyrirtækjum á árunum 2000–2004. Gengishækkanir þessara bréfa í Kauphöllinni höfðu því minni áhrif á þá en stærri sparisjóðina. Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Sparisjóður Siglufjarðar og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis seldu hluti sína í Kaupþingi hf. og Sparisjóður Vestmannaeyja hluta eignar sinnar í sama banka. Sparisjóður Svarfdæla seldi hluti í Kaupþingi hf., Frjálsa fjárfestingarbankanum og í SP-Fjármögnun hf.; Sparisjóður Ólafsfjarðar seldi í Kaupþingi hf., SP-Fjármögnun hf. og Alþjóða líftryggingarfélaginu hf.; Sparisjóður Norðfjarðar seldi hluta af eign sinni í Kaupþingi banka hf., öll hlutabréf sín í Alþjóða líftryggingarfélaginu hf. og í Scandinavian Holding S.A.; Sparisjóður Höfðhverfinga seldi hluti sína í SP-Fjármögnun hf., Scandinavian Holding S.A., Alþjóða líftryggingarfélaginu hf. og Kaupþingi banka hf.; og, Sparisjóður Bolungarvíkur seldi hluti sína í Scandinavian Holding S.A. og Kaupþingi hf.

Árið 2005 eignaðist Kaupþing banki hf. nær alla hluti í Alþjóða líftryggingarfélaginu og keypti þá meðal annars af Sparisjóði Vestfirðinga, Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis, Sparisjóðnum í Keflavík, Sparisjóði Svarfdæla, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóði Mýrasýslu, Sparisjóði Vestmannaeyja, Sparisjóði Húnaþings og Stranda, Sparisjóði Bolungarvíkur, Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis, nb.is-sparisjóði og Sparisjóðabankanum.

Í júní 2001 var SP-eignarhaldsfélag ehf. stofnað til þess að halda utan um hluta af eignarhlut eigenda þess í Kaupþingi banka hf., en þeir voru Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður Húnaþings og Stranda, Sparisjóður Siglufjarðar, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Vestfirðinga og Sparisjóðabanki Íslands hf. SP-eignarhaldsfélag ehf. varð síðar Meiður ehf. og svo Exista hf. og mynduðu þessir sparisjóðir, að undanskildum Sparisjóði Siglufjarðar sem seldi eignarhlut sinn í félaginu á árinu 2005, hóp sem gjarnan var kallaður „Exista-sparisjóðirnir“ og síðar „Kistu-sparisjóðirnir“.

Söluhagnaður af sölu fjáreigna á árunum 2001–2005 bætti eiginfjárstöðu margra sparisjóða. Eignarhlutir voru gjarnan færðir í fjárfestingarbók og endurspeglaði bókfært virði þeirra kaupverð hlutanna en ekki markaðsvirði þeirra. Við sölu eignarhlutanna innleystu sparisjóðirnir töluverðan hagnað umfram bókfært virði eignanna og við það stækkaði efnahagsreikningur þeirra. Reyndar færðu margir sparisjóðir hluta af verðbréfum sínum úr fjárfestingarbók yfir í veltubók, en við þá breytingu voru eignarhlutirnir færðir á markaðsvirði í stað kaupverðs. Þannig var hægt að tekjufæra uppsafnaðan hagnað, þ.e. mismun milli kaupverðs og markaðsverðs, með tilflutningi eigna í bókhaldi. Má þar til að mynda nefna að Sparisjóðurinn í Keflavík færði eignarhlut sinn í Kaupþingi banka hf. úr fjárfestingarbók í veltubók árið 2001. Þá færðu Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Mýrasýslu hluta eignar sinnar í Meiði ehf. í veltubók á árinu 2003. Sparisjóður Svarfdæla færði hlut sinn í sama félagi úr fjárfestingarbók í veltubók á árunum 2004 og 2005. Með lögum nr. 28/2004 varð heimilt að færa óskráð bréf á gangvirði, væru þau færð í veltubók.

Áhrif þess að selja bréf úr fjárfestingarbók eða flytja þau yfir í veltubók voru þau sömu ef markaðsvirði var hærra en bókfært virði, þ.e. hækkun eigin fjár. Sala bréfa innleysti raunverulegan hagnað en færsla milli fjárfestingar- og veltubókar var bókfærð uppfærsla eigna. Sparisjóðir gátu nýtt söluhagnað af hlutabréfum til þess að auka útlán sín, kaupa skuldabréf eða ráðast í enn frekari fjárfestingar. Raunin varð sú, vegna ákvæða skattalaga, að margir sparisjóðir kusu að endurfjárfesta söluhagnað af verðbréfum í öðrum verðbréfum. Verðbréfaeign sparisjóða sem seldu hlutabréf á árunum 2001–2005 og tóku ekki þátt í fjárfestingum Exista-sparisjóðanna minnkuðu ekki að umfangi þrátt fyrir sölur. Einhverjir sparisjóðir fjárfestu í fjárfestingarsjóðum, aðrir í skuldabréfum og enn aðrir í öðrum eignarhlutum. Í raun voru fæstar þessar fjárfestingar öruggar þegar íslensku viðskiptabankarnir féllu haustið 2008. Þá töpuðu eigendur skuldabréfa jafnt sem hlutabréfa og tap varð af íslenskum eignum sem erlendum. Tapið var þó mismikið og samsetning eignasafns gat haft mikið að segja.

Áhættustýring miðar gjarnan að því að dreifa eignum með tilliti til eðlis þeirra, líftíma, áhættu og ávöxtunar, mynta, o.fl. Áhættustýringu er ekki endilega ætlað að minnka áhættu, heldur skilgreina áhættumarkmið sem endurspegla þá ávöxtun sem sóst er eftir og halda áhættu innan þeirra marka. Almennt er samhengi milli meiri áhættu og hærri ávöxtunar. Í sparisjóðakerfinu voru nokkrar stórar fjárfestingar veigamestar í góðri afkomu þess fram til ársins 2007 og tap af þeim árið 2008 önnur aðalástæða þess mikla taps sem varð í sparisjóðakerfinu það árið.

Eins og fram hefur komið í þessum kafla, höfðu sparisjóðirnir tekjur af Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. (Scandinavian Holding S.A.) og Kaupþingi banka hf. um og upp úr aldamótum. Sala á stórum eignarhlut í SP-Fjármögnun hf. og Alþjóða líftryggingafélaginu hf. skilaði mörgum sparisjóðum einnig ágætum söluhagnaði stuttu síðar.

Á árunum 2005–2008 höfðu VBS Fjárfestingarbanki hf., Saga Capital Fjárfestingarbanki hf., Sparisjóðabanki Íslands hf. (Icebank hf.), Exista hf. og Kista – fjárfestingarfélag ehf. mest áhrif á rekstur og efnahag sparisjóðakerfisins en mismikil þó milli sparisjóða. Í árslok 2007 voru eignarhlutir í þessum fimm félögum 46% af eignarhlutum allra sparisjóða, en afkoma vegna þeirra var 46–77% af afkomu vegna eignarhluta sparisjóðanna á árunum 2005–2008.72

Á árunum 2005–2007 myndaði eign sparisjóðanna í fyrrnefndum fimm félögum 46–58% eignarhluta þeirra. Eignarhlutur í Exista hf. var þar langstærstur árin 2005 og 2006 þegar hann einn nam tæpum 40%. Þegar eignarhlutir fimm sparisjóða í Exista hf. komust í eigu Kistu – fjárfestingarfélags ehf. á árinu 2007 minnkaði hlutur Exista hf. en hlutur Kistu – fjárfestingarfélags ehf. jókst. Virði Sparisjóðabankans (Icebank hf.) hækkaði á árinu þegar farið var að færa hann með gangvirðisaðferð í stað hlutdeildaraðferðar. Við það varð hann 17% af eignarhlutum sparisjóðanna. Eign minni sparisjóðanna í þessum fimm fyrirtækjum var hlutfallslega minni en eign allra sparisjóðanna í sömu fyrirtækjum í árslok 2005. Hins vegar var hlutur þeirra orðinn meiri í árslok 2006 og 2007. Í árslok 2007 voru eignarhlutir í félögunum fimm 72% af eignarhlutum minni sparisjóða en 46% af eignarhlutum allra sparisjóðanna.

Í umfjöllun um fjárfestingar í köflum um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóðinn í Keflavík og Sparisjóð Mýrasýslu er vikið að beinni og óbeinni eign þessara sparisjóða í Exista hf. Er það gert til þess að varpa betra ljósi á það hversu mikil verðbréfaáhætta sparisjóðanna var af þessari eign, en óbeint eignarhald á hlutunum í gegnum Kistu – fjárfestingarfélag ehf. gerir myndina af heildaráhættunni óskýrari.73 Þá var stór hluti fjárfestinga Sparisjóðabankans bundið í Exista hf. og það hafði áhrif á virði Sparisjóðabankans á bókum sparisjóðanna.74

Á mynd 9 er reiknað markaðsvirði eignarhluta sparisjóðanna í Exista hf. í beinni eign og óbeinni eign í gegnum Sparisjóðabankann og Kistu – fjárfestingarfélag ehf.75 Í árslok 2005 var hlutfall Exista-eignarinnar 50% af eigin fé sparisjóðanna en hækkaði í 57% ári síðar með skráningu félagsins á markað og þeim gengishækkunum sem urðu í kjölfarið. Í lok árs 2007 var eignin í Exista sem hlutfall af eigin fé ekki nema helmingur af því sem hún var árið áður. Kom þar til minni hlutdeild sparisjóðanna í Exista-bréfum Sparisjóðabankans og mun sterkari eiginfjárstaða sparisjóðanna en áður, meðal annars vegna stofnfjáraukninga.

Fjárfestingar sparisjóðakerfisins voru að miklu leyti bundnar í fáum fjárfestingum og meiri hluti þeirra í einni, Exista hf. Því skal þó haldið til haga að ekki áttu allir sparisjóðir hlutabréf í Exista hf. og var meiri hluti bréfanna í höndum þriggja stærstu sparisjóðanna. Hins vegar var áhættudreifing minni sparisjóða í eignarhlutum síst meiri en hjá þeim stærri, því hlutfall fimm stærstu eignanna var töluvert hærra hjá minni sjóðunum á árunum 2006 og 2007. Almennt er áhætta minni ef eignasafn er dreifðara.

Umfang og samsetning fjárfestinga sparisjóðanna hafði mikil áhrif á hvernig þeir voru í stakk búnir til að takast á við áföll sem dundu yfir fjármálamarkaðinn haustið 2008 og síðan efnahagslífið allt. Í kjölfar þeirra færðu allir sparisjóðir útlán sín umtalsvert meira niður en áður hafði verið gert og flestir töpuðu meira á fjárfestingum en áður. Heildartap sparisjóða af fjáreignum var 88,8 milljarðar króna en niðurfærsla útlána 180,8 milljarðar króna á árunum 2008–2011. Tap sparisjóðanna fyrir skatta á þessum sama tíma var 241,5 milljarðar króna. Fjáreignir í árslok 2007 námu 133,6 milljörðum króna en útlánin á sama tíma 566,2 milljörðum króna.76 Þegar upp var staðið töpuðust 66% af fjáreignum eins og þær voru í árslok 2007 á árunum 2008–2011 af tapi fyrir skatta en tap af útlánum á sama tíma var 32% af útlánasafninu eins og það var í árslok 2007.

Afl sparisjóður var eini sjóðurinn sem tapaði ekki á fjáreignum á þessum tíma, enda voru fjárfestingar hans litlar. Í flestum sparisjóðum var tap af fjáreignum lægra hlutfall af tapi fyrir skatta en tap af útlánum. Því var þó öfugt farið hjá Sparisjóði Svarfdæla, Sparisjóði Höfðhverfinga. Sparisjóði Norðfjarðar og Sparisjóði Suður-Þingeyinga. Samanburður taps af útlánum við tap af fjáreignum segir ekki eingöngu til um áhættu af fjáreignum. Skýring hærri niðurfærslu fjáreigna en útlána gæti allt eins legið í því að útlánasafn viðkomandi sparisjóðs hafi verið tiltölulega traust. Á árunum 2008–2011 tapaðist sparisjóðirnir samtals 60% af verðbréfaeign eins og hún var metin í lok ársins 2007. Exista-sparisjóðirnir töpuðu 61% en aðrir 58%.77

Á tímabilinu 2001–2007 voru tekjur sparisjóðanna af fjáreignum 94,6 milljarðar króna á verðlagi ársins 2011 en aðrar hreinar rekstrartekjur 127 milljarðar króna, þar af voru hreinar vaxtatekjur 81,7 milljarðar króna. Á þessum tíma voru útlán að meðaltali 71% eigna sparisjóðakerfisins en fjáreignir 16%. Ávöxtun fjáreigna var því umtalsvert meiri en af útlánum. Góð ávöxtun hlutabréfaeignar sparisjóðanna á árunum 2001–2007 fylgdi að mestu leyti almennri þróun hlutabréfaverðs.

Á árunum 2002–2005 var ávöxtun sparisjóðanna af fjáreignum lakari en ávöxtun íslensku úrvalsvísitölunnar. Þetta kemur til vegna samsetningar eignasafns þeirra, þar sem örfáar eignir í safninu vógu mikið og settu mark sitt á afkomu sparisjóðanna af öllum fjáreignum. Þá voru í eignasafni sparisjóðanna margar óskráðar eignir sem hækkuðu ekki jafnt á við skráðar. Árin 2006 og 2007 var ávöxtun sparisjóðanna af fjáreignum hins vegar betri en úrvalsvísitölunnar. Kemur þar til mikil hækkun bréfa í Exista hf. árið 2006 þegar þau voru skráð á markað, og virðisbreyting á óskráðum bréfum í Sparisjóðabankanum sem voru í fyrsta sinn færð á gangvirði í ársreikningum flestra sparisjóða árið 2007. Í Kauphöllinni urðu mikil umskipti í gengisþróun hlutabréfa árið 2007 en það ár féll vísitalan um 1%. Ári síðar féll hún um 94% og fór verðbréfaeign sparisjóðanna ekki varhluta af almennri lækkun verðbréfa á markaði á því ári.

10.4 Áhrif fjárfestinga á eiginfjárgrunn

Í 6. kafla þessarar skýrslu er fjallað um lög sem varða skýrslur fjármálafyrirtækja um eiginfjárhlutfall og stórar áhættuskuldbindingar og reglur þar um. Slíkar skýrslur eru ásamt öðrum upplýsingum nýttar til að varpa ljósi á áhættu í rekstri fjármálafyrirtækja.

Í tengslum við fjárfestingar er í þessari skýrslu gjarnan vísað til þess að fjárfestingar hafi áhrif á útreikning eiginfjárhlutfalls. Eiginfjárhlutfall er, í sinni einföldustu mynd, hlutfall eigin fjár af eignum. Það gefur til kynna hversu mikið eigið fé er upp á að hlaupa ef fyrirtæki lendir í fjárhagserfiðleikum. Mjög skuldsett fyrirtæki eru með lágt eiginfjárhlutfall og eru því viðkvæmari fyrir áföllum. Eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja er hlutfall svokallaðs eiginfjárgrunns af áhættugrunni, en hugtökin eru skilgreind í 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Eiginfjárgrunnur, sem raunar var nefndur eigið fé í lögum um fjármálafyrirtæki fram að setningu laga nr. 170/2006, er að því leyti frábrugðinn eigin fé í skilningi ársreikningalaga að frá bókfærðu eigin fé eru dregnir ákveðnir liðir í ársreikningi en öðrum bætt við. Frádráttarliðirnir eru skýrðir í 85. gr. laga nr. 161/2002. Áhættugrunnur er vegin staða eigna og fer vægi þeirra eftir áhættunni sem talin er tengjast eignunum. Þeim mun meiri sem áhættan er talin, þeim mun hærra vægi fá eignirnar. Hærri áhættugrunnur leiðir til lægra eiginfjárhlutfalls, að öðru óbreyttu.

Eiginfjárgrunnur samanstendur meðal annars af bókfærðu eigin fé fjármálafyrirtækis og víkjandi lánum upp að ákveðnu hámarki, að frádregnum eigin bréfum og viðskiptavild. Frá eiginfjárgrunni eru svo dregnir ákveðnir liðir, meðal annars eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum og fyrirtækjum tengdum fjármálasviði. Frádrættinum er beitt til að koma í veg fyrir að sama eigið fé sé notað oftar en einu sinni sem eigið fé í fjármálastarfsemi.78 Þar sem frádrátturinn lækkar eiginfjárgrunninn, verður eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis sem á hluti í öðrum fjármálafyrirtækjum lægra en ef fjárfest væri í útlánum til að mynda, ef aðrir þættir í útreikningi héldust óbreyttir.

Fjárfestingar í fjármálafyrirtækjum hafa ólík áhrif eftir því hvort gengishækkanir fjármálafyrirtækjanna á bókum sparisjóðanna eru meiri eða minni en hagnaður ársins eftir skatt. Í dæmi 1 á mynd 11 er sýnt hvaða áhrif fjárfestingar í fjármálafyrirtækinu X myndu hafa á ímyndaðan sparisjóð. Í lok árs 1 var bókfært eigið fé 1.300 en að frádregnum eignarhlut í fjármálafyrirtækinu var eiginfjárgrunnur 1.000. Ekki er gert ráð fyrir arðgreiðslum til stofnfjárhafa í sparisjóðnum vegna reksturs á ári 2 og því bætist hagnaður eftir skatta að fullu við bókfært eigið fé. Þá er heldur ekki gert ráð fyrir kaupum á frekari eignarhlut í félaginu X á ári 2 og hækkun á virði félagsins á bókum sparisjóðsins er því eingöngu vegna gengishækkana. Bókfært eigið fé sparisjóðsins hækkar um 82 frá fyrra ári, eða 6,3%, en eiginfjárgrunnur hækkar ekki um nema 32 því frá honum eru dregnar 50 til viðbótar þeim 300 sem dregnar voru frá áður. Eiginfjárgrunnur hækkar því ekki um nema 3,2% milli ára.

Sé gengishækkun eignarhlutar í fjármálafyrirtæki minni en hagnaður ársins eftir skatt, hækkar eiginfjárgrunnurinn hlutfallslega minna en bókfært eigið fé. Dæmi 2 á mynd 11 er lítið breytt frá dæmi 1, að öðru leyti en því að gengishækkun eignarhlutarins í fjármálafyrirtæki X er meiri en hagnaður eftir skatta. Þegar svo er, hækkar bókfært eigið fé milli ára en eiginfjárgrunnur lækkar. Fjölmörg dæmi eru um það í sparisjóðunum að gengishagnaður hafi verið meiri en hagnaður sjóðsins eftir skatta, til að mynda eftir skráningu Exista hf. í Kauphöllina á árinu 2006.

Áhrif gengishækkana fjármálafyrirtækja á eiginfjárgrunn og eiginfjárhlutfall sparisjóðanna voru mikið rædd á stjórnarfundum og sameiginlegum vettvangi sparisjóðanna, þar sem þau höfðu töluverða þýðingu fyrir rekstur þeirra. Á árinu 1998 stofnuðu sparisjóðirnir, Sparisjóðabankinn og Kaupþing hf. eignarhaldsfélag utan um eign sína í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og nefndist það Scandinavian Holding S.A. Útreikningur á eiginfjárgrunni og eiginfjárhlutfalli með tilliti til frádráttar vegna fjárfestingarbankans breyttist með stofnun þessa félags. Með vísan til fréttar Morgunblaðsins frá 29. desember 1998 um stofnun Scandinavian Holding S.A. í Lúxemborg óskaði Fjármálaeftirlitið eftir upplýsingum um félagið með bréfi 5. janúar 1999. Í kjölfarið áttu sér stað bréfaskipti og fundahöld milli hluthafa félagsins og Fjármálaeftirlitsins.

Með bréfi 28. maí 1999 gerði Fjármálaeftirlitið athugasemd við frádrátt eigenda Scandinavian Holding S.A. á eignarhlut þeirra í félaginu frá eiginfjárgrunni þeirra. Eigið fé félagsins væri 200 milljónir, eigendur þess hefðu lánað því 2.000 milljónir og félagið hefði keypt 17% eignarhlut í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. fyrir 2.200 milljónir króna. Eigendur Scandinavian Holding S.A. væru jafnframt einu lánveitendur þess. Þá sagði:

Við útreikning á eigin fé og eiginfjárhlutfalli í samræmi við eiginfjárákvæði laga í árslok 1998 hjá fyrrgreindum hluthöfum í Scandinavian Holding S.A. voru eignarhlutarnir, samtals 200 m.kr., dregnir frá eigin fé viðkomandi stofnana eins og um væri að ræða eignarhlut í lánastofnun eða fjármálafyrirtæki í skilningi 55. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. ennfremur IV. kafla laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.
Tilgangurinn með ákvæði 55. gr. laga nr. 113/1996, sbr. 66. gr. sömu laga, er sá að koma í veg fyrir að sama eigið fé sé notað oftar en einu sinni sem eigið fé í fjármálastarfsemi. Með því að nota fyrrnefnt eignarhaldsfélag sem millilið til að halda utan um eignarhlutana í FBA hf. og draga einungis hlutafé í eignarhaldsfélaginu frá er ljóst að tilgangi tilvitnaðs lagaákvæðis er ekki náð. Ákvæði 9. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. ennfremur IV. laga [svo] nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, er m.a. ætlað að taka á tilvikum eins og þeim sem lýst er hér á undan.
Með vísan til síðastnefndra lagaákvæða telur Fjármálaeftirlitið eðlilegt að við útreikning á eigin fé og eiginfjárhlutfalli einstakra stofnana samkvæmt 54. og 55. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. IV. kafla laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, verði byggt á hlutfallslegum samstæðureikningsskilum viðkomandi stofnana og Scandinavian Holding S.A.79

Eigendum Scandinavian Holding S.A. var boðið að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um álitið. Þeir töldu meðferð eignarhlutanna vera fyllilega í samræmi við lög nr. 113/1996, en 54. og 55. gr. þeirra var sambærileg 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002. Eigendurnir töldu að í 55. gr. laga nr. 113/1996 kæmi skýrt fram að draga ætti frá eigin fé bókfært virði á eignarhlutum og víkjandi lán. Orðalag ákvæðisins væri afgerandi og meðferð hluthafa í Scandinavian Holding S.A. í samræmi við þessi fyrirmæli. Lán eigenda Scandinavian Holding S.A. til félagsins kæmu ekki til frádráttar frá eigin fé, en væru í áhættugrunni og kæmu þar til lækkunar eiginfjárhlutfallsins.80 Þetta má skýra með dæmi þar sem sparisjóðir eiga í fjármálafyrirtækinu X og stofna utan um það eignarhaldsfélagið Y. Í upphafi á Y hluti í X sem nema 2.200 en þau kaup voru fjármögnuð með eiginfjárframlagi sparisjóða að fjárhæð 200 og lánum fyrir 2.000. Eigið fé í Y er því 200 og er það í 100% eigu sparisjóða. Á ári 2 eykst virði bréfa í X um 220 en lán til Y, sem er vaxta- og afborganalaust í þessu dæmi, er enn 2.000. Eigið fé félagsins Y er því 420 í lok árs 2.81

Á mynd 13 er sýnt hvaða áhrif það hefur á eiginfjárhlutfall sparisjóðanna ef haldið er utan um eignina í X beint á bókum sparisjóðanna (dæmi 3) eða í gegnum eignarhaldsfélagið Y (dæmi 4). Í dæmi 3 er eigið fé sparisjóðanna 4.000 í lok árs 1, eign þeirra í fjármálafyrirtæki X er 2.200 og dregst hún frá eiginfjárgrunninum. Virðisaukning á X er sú sama og í dæminu hér á undan, 220, en hagnaður af rekstri sparisjóðanna á árinu 2 er 200. Með tilliti til skatta hækkar bókfært eigið fé um 164 en eiginfjárgrunnur lækkar um 66 á árinu. Í lok árs 2 er verðbréfaeignin 2.420, útlán sparisjóðanna eru samtals 10.000 og áhættugrunnur þeirra 12.420. Til einföldunar eru öll útlán sparisjóðanna látin hafa sama áhættuvægi og verðbréf í útreikningi áhættugrunns, eða 1, og aðrir þættir sem gætu haft áhrif á eiginfjárútreikninga ekki taldir með. Eiginfjárhlutfall er rúm 14%.

Í dæmi 4 er farið yfir sama tímabil en litið til þess hvernig sama gengishækkun á X hefur áhrif á sparisjóðina ef eignarhaldsfélagið Y, sem er í 100% eigu sparisjóðanna, heldur utan um hlut þeirra í X og þeir færa eingöngu hlutdeild sína í eigin fé Y til frádráttar á eiginfjárgrunni. Sparisjóðirnir fjármagna eignarhaldsfélagið Y en þau lán teljast til eignar sparisjóðsins og því breytist bókfært eigið fé ekki milli dæma 3 og 4. Í stað verðbréfaeignar í X er komið útlán til Y sem nemur 2.000. Verðbréfaeignin, sem nú er eingöngu hlutdeild í eignarhaldsfélaginu Y, er 200 í upphafi árs 1. Virðisaukning á X skilar sér að fullu til sparisjóðanna í gegnum Y og er 220 eftir sem áður og hagnaður af rekstri sparisjóðanna 200. Í lok árs 2 er eiginfjárgrunnur mun hærri en í dæmi 3, því frá bókfærðu eigin fé er einungis dregin hlutdeild sparisjóðanna í Y. Lán til Y skal ekki draga frá eiginfjárgrunni. Áhættugrunnurinn breytist ekki, því eignir færast milli liða, 2.000 eru nú útlán en ekki verðbréfaeign eins og í dæmi 3. Eiginfjárhlutfall er því 30%. Þessi dæmi byggja á lýsingum Fjármálaeftirlitsins og eigenda Scandinavian Holding S.A. á eiginfjárútreikningum eigendanna með tilliti til eignarhluta í Scandinavian Holding S.A. og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.82

Sumarið 1999 seldi Scandinavian Holding S.A. eignarhluti sína í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Þá hætti Fjármálaeftirlitið athugun á áhrifum eignarhluta í fjárfestingarbankanum á eiginfjárhlutfall eigenda Scandinavian Holding S.A., því reyndi ekki á lagaákvæði um eiginfjárútreikning eftir söluna, en hélt áfram skoðun sinni á uppbyggingu Scandinavian Holding S.A. og áhrifum félaga af því tagi á efnahag eigendanna í víðara samhengi en gert var í bréfinu frá 28. maí sama ár.83 Fjármálaeftirlitið taldi nauðsynlegt að einstakir hluthafar teldu hlutdeild sína í efnahag slíkra félaga með eigin efnahag við útreikninga á því hvort hinar ýmsu varúðarreglur sem giltu um fjármálastofnanir væru virtar. Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins var rökstudd með eftirfarandi hætti:

Þegar um er að ræða félag, sem að meirihluta til er beint eða óbeint í eigu leyfisskyldra fjármálafyrirtækja, þurfa þær varúðarreglur sem gilda um hin eftirlitsskyldu fyrirtæki einnig að ná til þeirrar starfsemi sem fram fer í hlutdeildarfélaginu. Að öðrum kosti ná varúðarreglurnar ekki tilgangi sínum. Sé slíkt félag leyfisskylt fjármálafyrirtæki, og þar með háð þeim varúðarreglum sem um þau gilda, er yfirleitt nægilegt að draga hlutdeild í eigin fé hlutdeildarfélagsins frá eigin fé eigendanna eða, þegar um meirihlutaeiganda er að ræða, að beita samstæðureikningsskilum. Hafi slíkt félag hins vegar ekki stöðu sem leyfisskylt fjármálafyrirtæki og er auk þess ekki í meirihlutaeign eins aðila getur verið nauðsynlegt að beita hlutfallslegum samstæðureikningsskilum til að fella starfsemi hlutdeildarfélagsins undir varúðarreglur þær sem gilda um eigendurna.
Með hliðsjón af framansögðu og með tilvísun til 9. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. ennfremur IV. kafla laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, hyggst Fjármálaeftirlitið ákveða að frá og með 30. nóvember 1999 gildi ákvæði 7. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996, sbr. ennfremur IV. kafla laga nr. 123/1993, einnig fyrir hlutfallsleg samstæðuuppgjör einstakra hluthafa í Scandinavian Holding S.A. annars vegar og Scandinavian Holding S.A. hins vegar. Þessi ákvörðun á einnig við þegar um er að ræða önnur félög í meirihlutaeigu sparisjóðanna og tengdra félaga og falla undir þá skilgreiningu sem lýst er í [málsgreininni hér á undan]. Samkvæmt framangreindu munu hinar ýmsu varúðarreglur í V. og VI. kafla laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, einnig gilda um hlutfallsleg samstæðuuppgjör einstakra sparisjóða og tengdra félaga.84

Fjármálaeftirlitið taldi að ef sparisjóðir og tengd félög væru meirihlutaeigendur eignarhaldsfélags utan um verðbréf ætti áhætta vegna verðbréfaeignarinnar ekki að breytast hvort sem hún væri í eigu sparisjóðanna eða eignarhaldsfélagsins, að öðru óbreyttu. Er sérstaklega áréttað í bréfi Fjármálaeftirlitsins að þessi ákvörðun ætti einnig við þegar um væri að ræða önnur félög í eigu sparisjóðanna og tengdra félaga. Í samstæðuuppgjörum eru lán milli móðurfélags og dótturfélags nettuð út og ef sparisjóðirnir hefðu fært Scandinavian Holding S.A. með hlutfallslegu samstæðuuppgjöri hefðu þeir þurft að færa hlutfallslegan eignarhlut í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. á sínar bækur. Niðurstaðan úr útreikningi eiginfjárhlutfalls hefðu þá orðið hin sama og ef þeir hefðu áfram átt hluti í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

Dæmi 3 er hér endurtekið og sýnir eftir sem áður þau áhrif sem bein eign sparisjóðanna í fjármálafyrirtækinu X hefur á eiginfjárhlutfall en dæmi 5 sýnir hlutfallsleg samstæðureikningsskil sparisjóðanna og eignarhaldsfélagsins Y, sem er fjármagnað af sparisjóðunum. Það sem hefur breyst úr dæmi 4 er að lán sparisjóðanna til Y eru nettuð út í samstæðuuppgjöri (sjá neðst á mynd 14) og útlán sparisjóðanna lækka þess vegna. Bókfært eigið fé breytist ekki, því eign Y í X er færð í bækur sparisjóðanna og því hækkar verðbréfaeign þeirra. Eignin í eignarhaldsfélaginu er sú sama og gengishækkunin líka. Í dæmi 3 og 5 er eiginfjárhlutfallið hið sama. Sú leið sem Fjármálaeftirlitið beindi sparisjóðunum að fara endurspeglar óbreytt eiginfjárhlutfall þótt eignarhlutir í fjármálafyrirtæki séu færðir yfir í eignarhaldsfélag.

Að fengnum sjónarmiðum eigenda Scandinavian Holding S.A.85 ákvað Fjármálaeftirlitið eftirfarandi:

Þegar um er að ræða félag, sem að meirihluta til er beint eða óbeint í eigu sparisjóðanna og dótturfélaga þeirra skulu þau varúðarákvæði, sem vitnað er til í 7. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. ennfremur IV. kafla laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, einnig gilda fyrir hlutfallsleg samstæðuuppgjör einstakra hluthafa og viðkomandi hlutdeildarfélags. Framangreint gildir óháð því hvernig fjármögnun hlutdeildarfélagsins er háttað af hálfu hluthafanna. Ákvörðun þessi gildir frá og með 31. desember 1999.86

Sparisjóðirnir stofnuðu tvö önnur eignarhaldsfélög utan um hluti í fjármálafyrirtækjum, SP-eignarhaldsfélag ehf. árið 2001 og Kistu – fjárfestingarfélag ehf. árið 2006. SP-eignarhaldsfélag ehf. var stofnað til þess að halda utan um eign nokkurra sparisjóða í Kaupþingi hf. Í minnisblaði Fjármálaeftirlitsins 29. maí 2001 eftir fund með Kristjáni Þorbergssyni, lögmanni á vegum sparisjóðanna, og Sigurði Jónssyni, endurskoðanda, um möguleika á stofnun eignarhaldsfélags til að halda utan um hluta eignarhluta sparisjóðanna í Kaupþingi hf. komu fram þrír punktar sem hafa skyldi til hliðsjónar við mat á hvort eignatengsl væru með þeim hætti að nauðsynlegt væri að beita hlutfallslegum samstæðureikningsskilum:

Hvort með kaupum á hlutum í gegnum eignarhaldsfélagið væri stofnað til sambærilegrar áhættu og ef um beina eignaraðild væri að ræða
Hvort hætta væri á “double gearing”, þ.e. að sama eigið fé væri notað oftar en einu sinni í fjármálastarfsemi
Hvort eignarhaldsfélagið væri svo nátengt sparisjóðunum að þeir teldu sig knúna til að koma því til bjargar ef illa færi jafnvel þó að um hlutafélag væri að ræða. Verndun orðstírs.87

Þá kom fram í lok minnisblaðsins að ef fyrir lægi að sparisjóðirnir bæru á engan hátt bakábyrgð á því láni sem Landsbanki Íslands hf. hygðist veita eignarhaldsfélaginu, virtist ljóst að ekki væri um sambærilega áhættu að ræða og ef um beina eignaraðild væri að ræða.

Eigendur SP-eignarhaldsfélags ehf. sóttu um heimild til Fjármálaeftirlitsins til tímabundinnar undanþágu frá því að beita hlutfallslegum samstæðureikningsskilum við eiginfjárútreikninga. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins frá 30. maí 2001 var vísað í fundinn frá því fimm dögum áður, en síðan sagði í bréfinu:

Þann 6. desember 1999 ákvað Fjármálaeftirlitið með vísan til þessa lagaákvæðis [9. mgr. 66. gr. þágildandi laga nr. 113/1996] að beita skyldi hlutfallslegu samstæðuuppgjöri um tengsl sparisjóðanna og dótturfélaga þeirra við Scandinavian Holding SA. Jafnframt var í ákvörðun þessari gefin sú almenna viðmiðun að þegar um er að ræða félög, sem að meirihluta til eru beint eða óbeint í eigu sparisjóðanna og dótturfélaga þeirra skulu þau varúðarákvæði, sem vitnað er til í 7. mgr. 66. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði einnig gilda fyrir hlutfallsleg samstæðuuppgjör einstakra hluthafa og viðkomandi hlutdeildarfélags. Þá þótti ástæða til að taka sérstaklega fram að þetta gilti óháð því hvernig fjármögnun hlutdeildarfélagsins er háttað af hálfu hluthafanna.88

Þar sem verkefnið væri afmarkað, þ.e. kaupa ætti hluti í Kaupþingi hf. og eiga þá í stuttan tíma, og ætlaður stuttur líftími ásamt því að fjármögnun félagsins kæmi að öllu leyti frá einum aðila væri veitt tímabundin undanþága frá hlutfallslegu samstæðureikningsuppgjöri á SP-eignarhaldsfélagi ehf. að nokkrum skilyrðum uppfylltum:

1. Að tryggt væri að um bráðabirgðaráðstöfun væri að ræða til ekki lengri tíma en sex mánaða.

2. Að starfsemi eignarhaldsfélagsins yrði afmörkuð við eignarhald á þeim hlut sem félagið eignaðist í tengslum við þátttöku í hlutafjáraukningu Kaupþings hf.

3. Að í samningnum við fjármögnunaraðila eignarhaldsfélagsins, Landsbanka Íslands hf., yrði gerð grein fyrir að eignarhaldsfélagið starfaði án bakábyrgðar sparisjóðanna og ekki myndi koma til þess að sparisjóðirnir aðstoðuðu eignarhaldsfélagið lenti það í fjárhagslegum erfiðleikum.

4. Eignarhlutur sparisjóðanna í SP-eignarhaldsfélagi kæmi til frádráttar á eigin fé.

Heimildin gilti til desember sama árs og var framlengd að beiðni eigenda SP-eignarhaldsfélags til ársloka. Í árslok 2002 voru sparisjóðirnir ekki lengur einu eigendur SP-eignarhaldsfélags því á árinu höfðu hlutir í félaginu verið seldir Kaupþingi hf. og Bakkabræðrum Holding s.a.r.l.89 Í lok árs 2002 drógu Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóðabankinn eignarhluti í félaginu frá eigin fé sínu við útreikning á eiginfjárgrunni samkvæmt skýrslum um eiginfjárhlutföll. Hinir sex sparisjóðirnir sem áttu hlut í félaginu þá gerðu það ekki. Félagið skipti nokkrum sinnum um nafn og hét meðal annars Meiður og síðar Exista. Á árinu 2003 var eignarhlutur sparisjóðanna og Sparisjóðabankans í Meið ehf. 21,8%, og var stærsti hlutinn, 7,9%, í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Var þá farið fram á heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að færa félagið ekki í bækur sparisjóðanna og Sparisjóðabankans með hlutfallslegum samstæðureikningsskilum, þar sem félagið væri ekki lengur í meirihlutaeign sparisjóðanna. Í svarbréfi 16. september 2003 gerði Fjármálaeftirlitið ekki athugasemd við það að fallið yrði frá samstæðureikningsskilum fyrir Meið ehf., eftir að hafa tekið til skoðunar hvort breytt eignarhald og breytt eignasamsetning hefði áhrif á það hvort hluthafar skyldu beita hlutfallslegum samstæðureikningsskilum við eiginfjárútreikning.90

Eignarhlutir sem ekki koma til frádráttar frá eigin fé við útreikning eiginfjárgrunns teljast almennt til stórra áhættuskuldbindinga, svo lengi sem eignarhluturinn er yfir ákveðnu hlutfalli af eigin fé. Í upphafi árs 2004 tilkynntu Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðabanki Íslands hf. Fjármálaeftirlitinu að eignarhlutur þeirra í Meiði ehf. væri umfram 25% af eigin fé félaganna. Virði félagsins á bókum þeirra hefði hækkað eftir að bréfin voru færð úr fjárfestingarbók í veltubók og var sótt um leyfi fyrir umframáhættunni. Fjármálaeftirlitið óskaði eftir frekari upplýsingum um áform sparisjóðsins um lengd þess tíma sem umframáhættan myndi vara, samningum sem tryggja myndu sparisjóðnum tiltekið verð á eignarhlutnum, en hann var forsenda þess að bréfin voru færð í veltubók með tilheyrandi gengishagnaði og verðhækkun, sem og upplýsingum um efnahag Meiðs ehf. Þeirri fyrirspurn var svarað í apríl 2004. Í kjölfarið sendi Fjármálaeftirlitið samhljóða bréf 29. júní 2004 á alla sparisjóði sem áttu í Meiði, auk Sparisjóðabankans, þ.e. Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóð Húnaþings og Stranda, Sparisjóð Mýrasýslu, Sparisjóð Siglufjarðar, Sparisjóð Svarfdæla, Sparisjóð Vestfirðinga og Sparisjóðinn í Keflavík. Þar var þeim tilkynnt um hvernig haga skyldi meðferð eignarhluta í Meiði ehf.:

Fjármálaeftirlitið hefur undanfarið haft til skoðunar hvernig fara skuli með eignarhluti sparisjóðanna í félaginu og hefur af því tilefni aflað sér upplýsinga og gagna. Fjármálaeftirlitið hefur m.a. haft til skoðunar hvort starfsemi Meiðs ehf. sé þess eðlis að félagið teljist vera fyrirtæki tengt fjármálasviði, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Í ákvæðinu kemur fram að með fyrirtæki tengdu fjármálasviði sé átt við fyrirtæki sem ekki er lánastofnun og starfar einkum að öflun eignarhluta eða stundar einhverja þá starfsemi sem um getur í 2.–12. tl. 1. mgr. 20. gr. […] Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum verður að telja að meginstarfsemi félagsins felist í öflun eignarhluta í framangreindum skilningi, þar sem stærsti hluti eigna þess er eignarhluti í lánastofnun. Þessa niðurstöðu verður einnig að skoða í samhengi við 1. mgr. 85. gr. sömu laga, en skv. því ákvæði ber fjármálafyrirtæki að draga frá eigin fé, bókfært virði á eignarhlutum og víkjandi kröfum í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði. Með hliðsjón af framansögðu er það mat Fjármálaeftirlitsins að Meiður ehf. sé fyrirtæki tengt fjármálasviði og því skuli beita 1. mgr. 85. gr. laga nr. 161/2002, um eignarhlut [sparisjóðsins] í félaginu.91

Fjármálaeftirlitið gaf sparisjóðunum og Sparisjóðabankanum kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi þessa niðurstöðu og þá um sumarið áttu sér stað bréfaskipti milli KPMG endurskoðunar hf., fyrir hönd sparisjóðanna og Sparisjóðabankans, og Fjármálaeftirlitsins. Í september 2006 ítrekaði Fjármálaeftirlitið niðurstöðu sína frá júní 2004.92 Eignarhlutir í Meiði ehf., síðar Exista ehf. og loks Exista hf., voru því frádráttarliðir við útreikning eiginfjárgrunns en félagið ekki fært með hlutfallslegum samstæðureikningsskilum við útreikning eiginfjárgrunns. Fyrirtæki tengt fjármálasviði var fyrst skilgreint í lögum nr. 161/2002 sem tóku gildi í upphafi árs 2003 en í eldri lögum voru eignarhlutir í þeim ekki meðal frádráttarliða frá eigin fé við útreikning eiginfjárgrunns.93

Þegar hlutabréf í Exista hf. hækkuðu mikið í virði, sérstaklega eftir skráningu þeirra í kauphöllina í september 2006, fóru sparisjóðirnir sem áttu í Exista hf. að huga að því að koma eignarhlutum í félaginu yfir í nýtt eignarhaldsfélag sem fékk nafnið Kista – fjárfestingarfélag ehf. Það félag keypti eignarhluti í Exista hf. af eigendum sínum, og greiddi fyrir með lánsfé og hlutabréfum í sjálfu sér. Kista – fjárfestingarfélag var meðal annars stofnað til þess að minnka áhrif fjárfestingarinnar í Exista hf. á eiginfjárhlutfall sparisjóðanna og auðvelda eiginfjárútreikninga, að því er fram kom í viðtali við Guðmund Örn Hauksson, sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, í Markaðinum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, 22. desember 2007.

Fjármálaeftirlitið innti hann frekari skýringa á þessum orðum og í bréfi 13. mars 2007 útskýrði Guðmundur:

[H]elstu eignir Kistu – fjárfestingarfélags ehf. [eru] hlutabréf í Exista hf. Þessi hlutabréf hafa við eiginfjárútreikninga verið dregin frá eiginfjárstofni þeirra fjármálafyrirtækja sem þau eiga, samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Við sölu á hluta af hlutabréfum sínum í Exista hf. hafa viðkomandi fjármálafyrirtæki minnkað ofangreindan frádrátt frá eiginfjárstofni. […]
Kista – fjárfestingarfélag ehf. fjármagnaði kaup sín á hlutabréfum í Exista hf. að hálfu með hlutafjárframlögum og að hálfu með lántökum frá utanaðkomandi aðilum. Við eiginfjárútreikninga viðkomandi fjármálafyrirtækja er eignarhluti þeirra í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. dreginn frá eiginfjárgrunni vegna [ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um að skilgreina Exista hf. sem fyrirtæki tengt fjármálasviði]. Frádráttur frá eiginfjárstofni nemur hluta hvers fjármálafyrirtækis í eigin fé Kistu – fjárfestingarfélags ehf. og hann minnkar því frá því sem áður var um sem nemur þeim hluta sem fjármagnaður er af utanaðkomandi aðila, enda liggur áhættan á þeim hluta hjá óháðu fjármálafyrirtæki.94

Fjármálaeftirlitið gerði ekki athugasemdir við bréfið og voru eiginfjárútreikningar með tilliti til Kistu – fjárfestingarfélags ehf. eins og lýst var í bréfinu. Þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi ákveðið sjö árum áður að eiginfjárútreikningur félags sem væri í meirihlutaeigu sparisjóðanna skyldi taka mið af hlutfallslegu samstæðuuppgjöri, óháð því hvernig fjármögnun félagsins væri háttað af hálfu eigendanna, var Kista – fjárfestingarfélag ehf. ekki færð með þeim hætti í bækur eigenda sinna. Í svari Fjármáleftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar frá 26. nóvember 2013 vegna þessa sagði:

[Vakin er athygli á] bréfasamskiptum Fjármálaeftirlitsins við Kistu fjárfestingarfélag ehf., dags. 27. febrúar, 13. mars, 20. mars og 27. mars 2007, þar sem Fjármálaeftirlitið óskaði upplýsinga um m.a. hluthafa félagsins og samsetningu eigna og skulda. Tilgangur þessarar gagnaöflunar Fjármálaeftirlitsins var að afla upplýsinga um hvort hluthafar í Kistu fjárfestingarfélagi ehf. væru jafnframt lánveitendur eða ábyrgðaraðilar á skuldum félagsins en svo reyndist ekki vera samkvæmt þeim upplýsingum sem bárust með tilvitnuðum bréfum.95

Í raun var lítill munur á uppsetningu Kistu – fjárfestingarfélags ehf. (dæmi 6) og Scandinavian Holding S.A. (dæmi 4) þegar kom að eiginfjárútreikningum, að því gefnu að laust fé sem fékkst fyrir bréf í Exista hf. hafi verið nýtt til kaupa á eignum sem ekki komu til frádráttar frá eiginfjárgrunni. Í svari Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar, þegar innt var eftir því hvers vegna ekki hefði verið farið fram á sams konar eiginfjárútreikninga fyrir Kistu og Scandinavian Holding, kom fram að í ákvörðun stofnunarinnar árið 1999 hefðu verið lögð ákveðin viðmið sem líta þyrfti til hverju sinni við mat á því hvort beita skyldi ákvæði um hlutfallslegt samstæðuuppgjör. Var í því tilliti vísað til bréfs frá 30. maí 2001 og minnisblaðs frá 29. maí sem getið er hér framar. Um Kistu sagði:

Í tilviki Kistu virðist það hafa verið mat þeirra starfsmanna og stjórnenda sem störfuðu hjá stofnunninni á þeim tíma [2006 og 2007] að ekki hafi verið nauðsynlegt að taka ákvörðun um hlutfallslegt samstæðuuppgjör sparisjóðanna og dótturfélaga þeirra vegna eignarhalds þeirra í Kistu.96

Rannsóknarnefndin kannaði hvort Fjármálaeftirlitið teldi að sömu reglur og vísað væri til í ákvörðuninni frá 6. desember 1999 hefðu átt að gilda um uppgjör Kistu – fjárfestingarfélags ehf. hjá þeim sparisjóðum sem áttu í félaginu, þ.e. að eiginfjárútreikningar hefðu átt að taka tillit til hlutfallslegs samstæðuuppgjörs. Í svarinu kom fram:

Á meðan áhætta einstakra sparisjóða á Kistu var eingöngu bundin við eignarhald á hlutafé í félaginu var ekki nauðsynlegt að krefjast hlutfallslegra samstæðureikningsskila til að koma í veg fyrir að sama eigið fé væri notað oftar en einu sinni. […] [H]eimild Fjármálaeftirlitsins til að krefjast hlutfallslegra samstæðureikningsskila [væri] byggð á matskenndu ákvæði sem einungis [væri] beitt þegar það [teldist] nauðsynlegt og að aðgættum ákvæðum stjórnsýslulaga.97

Af dæmunum hér á undan má sjá að áhrif þess að reikna út eiginfjárhlutfall sparisjóðanna með og án hlutfallslegs samstæðuuppgjörs fyrir Scandinavian Holding S.A. voru ólík. Án hlutfallslegs samstæðuuppgjörs hækkaði eiginfjárhlutfallið, þar sem skuldir félagsins voru þá ekki teknar með í útreikningana. Fjármálaeftirlitið ákvað árið 1999 að eigendur félagsins skyldu beita þessari aðferð, þar sem að öðrum kosti kæmi áhættan sem fólst í eignarhlutum í eigu Scandinavian Holding hvergi fram, eða eins og sagði í einu bréfi Fjármálaeftirlitsins að „þær varúðarreglur sem [giltu] um hin eftirlitsskyldu fyrirtæki [þyrftu] einnig að ná til þeirrar starfsemi sem fram [færi] í hlutdeildarfélaginu. Að öðrum kosti [næðu] varúðarreglurnar ekki tilgangi sínum“.98 Ekki skipti máli hvernig fjármögnun hluthafanna væri háttað við mat á því hvort beita ætti hlutfallslegum samstæðureikningsskilum.

Þegar sambærilegt félag, SP-eignarhaldsfélag ehf., og eiginfjárútreikningar sparisjóðanna með tilliti til þess, komu til skoðunar Fjármálaeftirlitsins 2001 var lögð minni áhersla á það sjónarmið að varúðarreglurnar ættu að ná til hlutdeildarfélagsins en meiri áhersla á að eigið fé væri ekki nýtt oftar en einu sinni í fjármálastarfsemi. Sparisjóðirnir fengu tímabundna undanþágu frá því að draga eignarhlutinn í SP-eignarhaldsfélagi ehf. frá eigin fé, meðal annars vegna þess að félagið var fjármagnað af öðrum en eigendum og án ábyrgðar eigendanna. Svipuð sjónarmið voru höfð til hliðsjónar við mat á því hvernig beita ætti eiginfjárútreikningum vegna Kistu – fjárfestingarfélags ehf. sex árum síðar. Við þá útreikninga var gengið úr skugga um að eigið fé væri ekki nýtt oftar en einu sinni svo sem áhersla var lögð á árið 2001 og mögulegt tap eigendanna af félaginu átti ekki að geta orðið meira en bókfærð eign þeirra. Af dæmum 4 og 6 hér á undan má þó ráða að áhrif þessarar leiðar á eiginfjárhlutfallið sjálft hafi verið svipuð og Fjármálaeftirlitið lagðist gegn vegna Scandinavian Holding S.A.

10.5 Exista hf. og Kista – fjárfestingarfélag ehf.

Um aðdraganda stofnunar Exista hf. er fjallað hér framar, en árið 2001 stofnuðu nokkrir sparisjóðir SP-eignarhaldsfélag ehf. til þess að halda utan um eignarhlut í Kaupþingi hf., sem þá var verðbréfafyrirtæki, og draga úr áhrifum eignarhlutarins á eiginfjárhlutfall. Fljótlega eftir stofnun SP-eignarhaldsfélags ehf. komu nýir eigendur inn í félagið og sparisjóðir áttu ekki lengur meirihluta í því. Félagið stækkaði hratt og fjárfesti á Íslandi, í Finnlandi og í Noregi í fjármálafyrirtækjum.99 Vöxturinn var að miklu leyti fjármagnaður með lánsfé. Þegar hlutabréfaverð lækkaði svo á árinu 2008 töpuðust mikil verðmæti í eigu félagsins og gengi hlutabréfa Exista hf. féll skarpt. Eins og áður er rakið, höfðu gengishækkanir verðbréfa, einkum hlutabréfa í Exista hf., mikil áhrif á rekstur og efnahag sparisjóðakerfisins í heild, en þó mismikil milli sparisjóða. Sparisjóðabanki Íslands hf., sem allir sparisjóðir áttu hlut í, var stór hluthafi í Exista hf. og hafði eignarhluturinn umtalsverð áhrif á afkomu bankans, eins og rakið er í 31. kafla skýrslunnar. Þannig hafði gengi Exista hf. bein eða óbein áhrif á afkomu allra sparisjóðanna.

10.5.1 Exista hf.

Kaupþing hf. var stofnað árið 1982. Í október 1986 keyptu Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Kópavogs og Sparisjóður Hafnarfjarðar samtals 49% hlutafjár í Kaupþingi hf. fyrir 4,9 milljónir króna af Pétri H. Blöndal, sem þá var eini eigandi og framkvæmdastjóri félagsins. Árið 1990 keypti Búnaðarbanki Íslands 50% hlut Péturs H. Blöndal í Kaupþingi hf. fyrir 116 milljónir króna, og Lánastofnun sparisjóða hf., sem síðar varð Sparisjóðabanki Íslands hf., keypti 1% hlut. Á þessum tíma var Kaupþing hf. því í jafnri eigu Búnaðarbankans hf. og sparisjóðanna, en þá voru níu stærstu sparisjóðirnir í eigendahópi Kaupþings hf. Kaupþing hf. komst að fullu í eigu sparisjóðanna árið 1996 með kaupum þeirra á 50% eignarhlut Búnaðarbankans hf. fyrir um 185 milljónir króna.100 Sama ár var Guðmundur Hauksson ráðinn sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, en hann hafði verið forstjóri Kaupþings hf. frá 1991 til 1996. Hann var formaður stjórnar Kaupþings hf. 1996–2003.

Í október 2000 efndi Kaupþing hf. til almenns hlutafjárútboðs að nafnverði 180 milljóna króna, sem jafngilti rúmum 1,8 milljörðum króna að söluvirði.101 Þátttaka í útboðinu var mikil og skráðu tæplega 18 þúsund aðilar sig fyrir hlutum í félaginu. Hlutabréf Kaupþings hf. voru skráð á aðallista Verðbréfaþings Íslands hf. 26. október 2000. Skráð hlutafé var 968 milljónir króna að nafnverði og útboðsgengið var 10,25 krónur á hlut.102 Í lok fyrsta viðskiptadags, 30. október sama ár, var gengið 15 krónur á hlut og virði fyrirtækisins því um 15 milljarðar króna. Við opinbera skráningu hlutabréfanna myndaðist um leið markaðsverð á eign sparisjóðanna í Kaupþingi hf.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis stofnaði SP-eignarhaldsfélag ehf. 19. júní 2001 og var hlutafé félagsins 500 þúsund krónur. Í 3. gr. samþykkta félagsins var tilgangur þess sagður vera kaup og sala á hlutum í Kaupþingi hf. og umsýsla tengd þeim viðskiptum. Í framhaldinu eignuðust Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður Húnaþings og Stranda, Sparisjóður Siglufjarðar, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Vestfirðinga og Sparisjóðabanki Íslands hf. hluti í SP-eignarhaldsfélagi ehf.

Í júní 2001 eignaðist SP-eignarhaldsfélag ehf. 11,11% hlut í Kaupþingi hf.,103 með kaupum á hlutum sem eigendur félagsins áttu tilkall til við hlutafjáraukningu Kaupþings á sama tíma.104 Kaupverðið var 1,8 milljarðar króna. Hlutafé SP-eignarhaldsfélags ehf. var aukið úr 500 þúsund krónum í 514 milljónir króna 2. júlí 2001 og lögðu hluthafar fram aukninguna með hlutum í Kaupþingi hf.105 Þá tók félagið 1,4 milljarða króna lán til að fjármagna kaupin.106 Gengi bréfa í Kaupþingi hf. lækkaði frá sumri til loka árs 2001 og varð því 134 milljóna króna gengistap af verðbréfaeign SP-eignarhaldsfélags ehf. Eigið fé var 317 milljónir króna og bókfært eiginfjárhlutfall 18% í árslok 2001.

Auk eignarhlutar SP-eignarhaldsfélags í Kaupþingi banka áttu sparisjóðirnir sjálfir beina eignaraðild að bankanum. Því voru SP-eignarhaldsfélag og eigendur þess áberandi í hópi stærstu hluthafa Kaupþings og nam samanlagður eignarhlutur þeirra 35,7% í maí 2002. Gengi hlutabréfa í Kaupþingi var 12,40 við lok viðskipta 13. maí 2002, fjöldi bréfa í félaginu var tæplega 1.627 milljónir og því var markaðsvirði fyrirtækisins um 20,2 milljarðar króna.107 Verðmæti hlutabréfa sparisjóðanna sem stóðu að SP-eignarhaldsfélagi og félaga þeim tengdum í Kaupþingi var þá um 7,2 milljarðar króna.108

SP-eignarhaldsfélag ehf. breytti um nafn og hét Meiður ehf. frá 19. júní 2002 og var hlutafé þess jafnframt hækkað um 385 milljónir króna.109 Á stjórnarfundi í Meiði 10. október 2002 var ákveðið að nýta heimild í samþykktum félagsins til hækkunar á hlutafé þess og auka það um 700 milljónir króna. Eftir hækkunina nam hlutafé Meiðs um 1,6 milljörðum króna.110

Hinn 11. október 2002 seldi Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis allan eignarhlut sinn, 12,57%, í Kaupþingi banka hf. fyrir um 2,7 milljarða króna.111 Kaupandinn var Kaupþing banki hf., sem áframseldi hlutina strax til Meiðs ehf. á sama verði. Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, var þá stjórnarformaður Kaupþings banka hf. og jafnframt stjórnarformaður Meiðs ehf.112 Í skýrslutöku benti Guðmundur á að öllum hlutaðeigandi hefði verið það ljóst, en þarna hefðu verðmæti einfaldlega skipt um hendur á eðlilegu markaðsvirði.113

Meiður ehf. greiddi fyrir hluti í Kaupþingi banka hf. með eigin bréfum og átti bankinn eftir það um 44% hlut í Meiði ehf. Meiður átti á þessum tíma 20,8% eignarhlut í bankanum og Kaupþing banki hf. því óbeint 9,2% í sjálfum sér. Fjallað var um viðskiptin í Morgunblaðinu og meðal annars vitnað í orð Sigurðar Einarssonar, forstjóra Kaupþings banka hf.:

Sigurður segir að […] legið [hafi] fyrir að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafi viljað selja bréf sín í Kaupþingi og með hluthafana í huga hafi verið talið óheppilegt að of mikið framboð yrði af bréfum í félaginu. Menn hafi því orðið ásáttir um þessa lausn, sem hann sagðist álíta ágæta. Spurður að því hvort þetta tengdist því að sumir hefðu einnig talið hættu á of miklu framboði bréfa í Kaupþingi vegna fyrirhugaðrar sameiningar við Auðlind og fjárfestingar í Svíþjóð sagðist Sigurður telja að menn ofmætu framboðið sem yrði vegna þeirra viðskipta. Sigurður segir gott að kominn sé nokkuð stór og afgerandi fjárfestir inn í Kaupþing.114

Í viðauka við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna er bent á að með þessu hafi Kaupþing banki hf. tekið þá ákvörðun „að kaup á eigin bréfum eða hlutabréfum náskyldra félaga til að halda uppi gengi eigin bréfa væri eðlilegur hluti fjárfestingarstefnu bankans“.115

Hinn 27. desember 2002 keypti eignarhaldsfélag Ágústs og Lýðs Guðmundssona, Bakkabræður Holding s.a.r.l., 55% hlutafjár í Meiði ehf. af Kaupþingi banka hf. og sparisjóðunum.116 Í frétt um kaupin í Morgunblaðinu er haft eftir Lýði að kaupverðið hafi verið í réttu hlutfalli við eignarhlut Meiðs ehf. í Kaupþingi hf. Samkvæmt útreikningum blaðsins var kaupverðið þá um 2,4 milljarðar króna.117 Í lok árs átti Meiður ehf. bréf í Kaupþingi hf. að markaðsvirði 4,5 milljarða króna og 55% af því var í kringum uppgefið kaupverð í greininni. Kaupverð samkvæmt samningi var hins vegar 879.450.000 krónur fyrir jafnmarga hluti. Skýrt kom fram að kaupverðið væri ein króna á hlut. Hlutafé Meiðs ehf. nam 1.599.000.000 krónum fyrir kaupin og samsvaraði 55% hluti þess kaupverðinu í samningnum.118

Fram kom í viðauka hluthafasamkomulags í tengslum við kaup Bakkabræðra Holding s.a.r.l. í Meiði ehf. að 65% af upphæðinni yrði staðgreitt og 35% greidd sex mánuðum síðar. Í sama viðauka sést að Bakkabræður Holding s.a.r.l. myndu taka staðgreiðsluhlutann að láni og var þeirri fjárhæð, 571,6 milljónum króna, skipt upp í fjögur lán í hlutföllunum 40%, 35%, 15% og 10%. Af þeim eintökum af viðaukanum sem rannsóknarnefndin hafði undir höndum var ekki hægt að ráða hverjir lánveitendur áttu að vera. Skýrslutökur rannsóknarnefndar af þeim sem að málinu komu vörpuðu heldur ekki ljósi á það.

Það var einnig hluti af samkomulaginu að Meiður ehf. keypti Scandinavian Holding S.A. af eigendunum, sjö sparisjóðum, Kaupþingi banka og Sparisjóðabankanum, og skyldi félagið renna saman við Meið. Af þessu varð þó ekki fyrr en í ágúst 2003. Á sama tíma sameinuðust Bakkabræður s.a.r.l. Meiði, en í samkomulaginu frá því í desember var kveðið á um að Meiður keypti félagið af móðurfélagi sínu, Bakkabræður Holding s.a.r.l., en Bakkabræður s.a.r.l. var stærsti hluthafinn í Bakkavör Group hf. með 28,96% hlut í félaginu.119 Þannig lagði Bakkabræður Holding s.a.r.l. félagið Bakkabræður s.a.r.l. inn í Meið ehf. Meiður ehf. greiddi 2 milljarða króna fyrir Scandinavian Holding S.A., þar af 1.750 milljónir króna með hlutafé í sjálfu sér og það sem eftir stóð með peningum.120

Uppgjörið við Bakkabræður Holding s.a.r.l. var þeim hætti að Meiður ehf. greiddi fyrir Bakkabræður s.a.r.l. með útgáfu nýs hlutafjár til handa móðurfélaginu, að andvirði 2.690.550.000 króna, en þá hafði þegar verið dregin af kaupverðinu sú fjárhæð sem Bakkabræður Holding s.a.r.l. skyldi greiða fyrir hlutinn í Meiði ehf., 879.450.000 krónur.121 Því hefur ekki þurft að koma til sérstakrar lánveitingar vegna kaupa Bakkabræðra Holding s.a.r.l. á 55% eignarhluta í Meiði ehf., en líta verður þó til þess tíma sem leið milli þessara tveggja gerninga. Það er því ekki útilokað að af lánveitingunni hafi orðið, en rannsóknarnefndinni tókst ekki að hafa uppi á neinum gögnum eða upplýsingum sem varpað gætu betra ljósi á það.

Meiður ehf. keypti 8,88% hlutafjár í Búnaðarbanka Íslands hf. 23. maí 2003.122 Kaupverð bréfanna var ekki tilkynnt opinberlega en var áætlað rúmir 2,5 milljarðar króna.123 Þremur dögum síðar sameinuðust Búnaðarbanki Íslands hf. og Kaupþing banki hf. undir nafninu Kaupþing Búnaðarbanki hf.124 Stærstu hluthafar hins sameinaða banka voru Meiður ehf., með 14% hlut, og Egla ehf., sem átti 9%.

Við það að Bakkabraedur s.a.r.l. var lagt inn í félagið eignaðist Meiður ehf. tæplega 30% hlut í Bakkavör Group hf. Meiður var á þessum tíma stærsti hluthafi í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. með um 16% eignarhlut.125 Í lok árs 2003 námu eignir Meiðs ehf. 23,3 milljörðum króna en þar af voru 22,3 milljarðar áhættufjármunir og langtímakröfur.126 Skuldir höfðu aukist töluvert frá fyrra ári, eða úr 3,1 milljarði króna í árslok 2002 í 11,5 milljarða króna ári síðar. Eigið fé félagsins var meira en árið áður, meðal annars vegna góðrar afkomu sem byggði að mestu leyti á gengishagnaði hlutabréfa og hins vegar nýju hlutafé. Eiginfjárhlutfall Meiðs ehf. var 51% í lok árs 2003.

Hinn 2. mars 2004 keypti Meiður ehf. alla hlutafjáreign Bakkabræðra sf. í Kaupþingi Búnaðarbanka hf., eða 2,73% af heildarhlutafé í bankanum, fyrir 3,5 milljarða króna. Bakkabræður sf. voru þá í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona, sem báðir sátu í stjórn Meiðs ehf. Eftir viðskiptin nam eignarhluti Meiðs ehf. í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. 16,8%.127

Kaupþing Búnaðarbanki hf. hélt auk þess tvö hlutafjárútboð árið 2004 í byrjun ágúst og um miðjan október, og voru 110 milljón hlutir boðnir út í hvort skipti.128 Hlutafé bankans var 440,5 milljónir hluta í upphafi árs og nam hlutafjáraukningin því tæpum 50%. Hlutafé Meiðs ehf. í bankanum jókst á þessum tíma um 51,4%. Félagið keypti hlutabréf í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. fyrir rúmlega 19 milljarða króna árið 2004 og átti í lok ársins rúmlega 61 milljarð króna í verðbréfum, en þar af námu hlutabréf í Kaupþingi Búnaðarbanka tæpum 50 milljörðum króna og í Bakkavör Group um 11 milljörðum króna. Meiður tók ný lán sem námu 22,3 milljörðum króna árið 2004 og var eiginfjárhlutfall félagsins 43% í árslok.

Í september 2004 var Erlendur Hjaltason ráðinn forstjóri Meiðs ehf. en stjórnarformaður Meiðs, Lýður Guðmundsson, sagði ráðninguna til komna meðal annars vegna verkefna erlendis og fyrirhugaðs vaxtar.129 Árið 2004 jókst hagnaður Meiðs ehf. eftir skatta um 146% og nam 15,1 milljarði króna. Helsta ástæða hagnaðarins voru gengishækkanir á hlutabréfum í eigu félagsins, en bréf í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. hækkuðu úr 224,5 krónum í 442 krónur á hlut á árinu og gengi hlutabréfa Bakkavarar Group hf. úr 18,3 krónum í 24,2 krónur á hlut.130 Sparisjóðirnir sem áttu hlut í Meiði ehf. fóru ekki varhluta af hækkunum á gengi hlutabréfa í eigu félagsins.

Í árslok 2004 var Meiður ehf. stærsti hluthafinn í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. (17%) og Bakkavör Group hf. (27%). Sparisjóðirnir áttu þá 21% hlut í Meiði ehf. en stærsti eigandi Meiðs var Bakkabræður Holding s.a.r.l. með 59% hlut. Þar á eftir kom Kaupþing Búnaðarbanki hf. með 19% hlut. Meiður ehf. átti síðan 17% hlut í Kaupþingi hf.

Á hluthafafundi 6. maí 2005 var samþykkt að breyta nafni Meiðs ehf. í Exista ehf. og fækka stjórnarmönnum úr fimm í þrjá. Stjórnarmenn Exista voru allir fyrrverandi stjórnarmenn í Meiði en þeir voru: Lýður Guðmundsson, formaður, og Ágúst Guðmundsson, báðir frá Bakkavör Group hf., og Guðmundur Hauksson frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Lýður og Ágúst komu inn í stjórn Meiðs árið 2003 en Guðmundur Hauksson var eini stjórnarmaðurinn sem hafði setið í stjórn allt frá stofnun SP-eignarhaldsfélags árið 2001.

Exista ehf. var meðal stofnenda sérstaks félags, Skipta ehf., 12. júlí 2005 sem var ætlað að halda utan um gerð tilboðs í Landssíma Íslands hf. sem ríkissjóður hugðist selja. Var opnað fyrir tilboð 28. júlí 2005. Þrjú bindandi tilboð bárust og reyndist tilboð Skipta hæst, en það hljóðaði upp á 66,7 milljarða króna. Fjármálaráðherra ákvað, að tillögu einkavæðingarnefndar, að gengið yrði að tilboði Skipta ehf.131 Bókfært virði eignarhlutarins í Skiptum í ársreikningi Exista ehf. árið 2005 var 13,5 milljarðar króna. Stefnt var að því að skrá Skipti ehf. á aðallista Kauphallar Íslands fyrir árslok 2007 en í kaupsamningnum um Landssímann voru ákvæði um að selja ætti 30% af Skiptum ehf. fyrir árslok 2007.132 Sá hlutur var þó ekki boðinn til sölu fyrr en í mars 2008 og seldust aðeins 7,49% af heildarhlutafé félagsins.133 Viðskipti hófust með hlutabréfin í Kauphöll Íslands 19. mars sama ár en voru stöðvuð eftir að Exista hf. gerði öðrum hluthöfum yfirtökutilboð.134 Vegna yfirtökutilboðsins var heimiluð hækkun á hlutafé Exista hf. um 2.814 milljónir króna sem skiptist í jafnmarga hluti.135

Árið 2005 keypti Exista ehf. einnig tæplega 20% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf. sem var bókfærður á 6,4 milljarða króna í árslok 2005. Heildareignir vátryggingarfélagsins meira en tvöfölduðust á því ári, meðal annars vegna kaupa á Lýsingu hf. af Kaupþingi Búnaðarbanka hf. í febrúar sama ár. Þá jók Exista eignarhlut sinn í Bakkavör Group hf. úr 27,3% í 29,1% á árinu 2005, en eignarhlutinn átti félagið fyrir tilstilli Bakkavarar s.a.r.l. Félagið keypti 28 milljón hluti í Kaupþingi banka hf. og var langstærsti hluthafi í bankanum í árslok með 21,1% eignarhlut í árslok 2005.

Gengishagnaður Exista ehf. árið 2005 nam 49,9 milljörðum króna þegar gengi Kaupþings banka hf. hækkaði um 69%, en 70% eignasafns félagsins voru þá hlutir í bankanum. Gengi bréfa í Bakkavör Group hf., sem voru 16% af eignasafninu, hækkaði um 110%. Nýtt innborgað hlutafé á árinu nam 20 milljörðum króna og ný lán 6,3 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfallið var 62% í árslok.

Árið eftir keypti Exista ehf. 80% hlutafjár í Vátryggingafélagi Íslands hf. fyrir 53,2 milljarða króna. Greitt var fyrir hlutinn með með hlutabréfum í Exista ehf. Við kaupin bættust meðal annars eignarhaldsfélögin Hesteyri og Samvinnutryggingar í eigendahóp Exista ehf., en auk þess jókst hlutur Kaupþings banka hf. í Exista hf. tímabundið úr 19% í 21% þar sem Kaupþing átti fyrir 24,7% hlutafjár í vátryggingarfélaginu.136 Vátryggingafélag Íslands hf. átti 30,1 milljón hluti í Kaupþingi hf. í árslok 2004 og 28,4 milljónir hluta í árslok 2005 sem þá voru metnir á um 21,2 milljarða króna.137 Auk þess átti vátryggingarfélagið hlutabréf í Bakkavör Group hf. sem námu að markaðsvirði 1,8 milljörðum króna í árslok 2005. Samtals námu þessir eignarhlutir 24 milljörðum króna en heildarfjáreignir félagsins voru þá 36,6 milljarðar króna.138 Exista aflaði 57 milljarða með útgáfu nýs hlutafjár og fékk ný lán fyrir sem nam 41 milljarði króna árið 2006.

Frá 2001 til 2006 var stærstur hluti eigna Exista ehf. í Kaupþingi banka hf. og fram til ársins 2005 var hann að minnsta kosti 2/3 eignarhluta í eigu félagsins. Hlutfallslegt vægi eignarinnar minnkaði þegar aðrar eignir voru keyptar, en ekki vegna sölu á bréfum í Kaupþingi banka hf. Afkoma Exista hf. var því alla tíð mjög tengd gengisbreytingum á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. en einnig Bakkavarar Group hf. sem var önnur stór eign í eignasafni félagsins. Kaup félagsins á árinu 2007 breyttu eignasafninu þó hvað mest.

Snemma á árinu 2007 keypti Exista hf. 90,1 milljón hluti í finnska tryggingarfélaginu Sampo Group og átti eftir það 15,48% hlut.139 Meðalverð í viðskiptunum nam 20,5 evrum á hlut og var markaðsvirði eignarhluta Exista hf. í Sampo Group um það bil 170 milljarðar króna. Rúmlega helmingur hlutanna var keyptur af Exafin B.V., en árið áður hafði Kaupþing banki komið að fjármögnun kaupa á félaginu.140 Þá fjárfesti Exista hf. í 8,69% hlut í norska líftryggingarfélaginu Storebrand ASA, sem í árslok 2007 var metinn á 2,2 milljarða norskra króna, eða 25,4 milljarða íslenskra króna. Kaup Exista hf. voru meðal annars fjármögnuð með útgáfu nýs hlutafjár fyrir 522 milljónir króna að nafnvirði eða um 13 milljarða króna.

Vöxtur Exista hf. og kaup á öðrum félögum var að hluta til drifinn áfram af nýju hlutafé en að mestu leyti með lántökum. Í árslok 2003 námu skuldir félagsins 11,5 milljörðum króna en þremur árum síðar námu þær 236 milljörðum króna. Þrátt fyrir töluverðan hagnað af rekstri félagsins fór bókfært eiginfjárhlutfall lækkandi vegna skuldsetningarinnar en það var rétt tæp 30% í árslok 2007. Það ár jukust eignir félagsins um 82% en eigið fé aðeins um tæplega 25%. Nýjar lántökur á árinu námu tæpum 124 milljörðum króna.141 Til samanburðar má nefna að sænska fjárfestingarfélagið Investor AB, sem er sambærilegt Exista hf. að starfsemi og fjárfestir að mestu í skráðum eignum, hefur undanfarin 10 ár haft bókfært eiginfjárhlutfall að meðaltali í kringum 85%.142

Þá skal bent á að Exista hf. tók upp nýja reikningsskilaaðferð árið 2007 og hóf að færa eignir sem það átti meira en 15% í með hlutdeildaraðferð í stað þess að færa þau með gangvirðisaðferð eins og gert hafði verið. Þetta var öfugt við það sem gerðist í flestum sparisjóðum á sama tíma, þar sem eignarhlutir sem áður höfðu verið færðir með hlutdeildaraðferð voru færðir á gangvirði. Í ársskýrslu Exista hf. fyrir árið 2007 kemur fram að bókfært virði Kaupþings banka hf. og Sampo Group á bókum félagsins hafi verið 4,7 milljarðar evra en markaðsvirði þeirra var 3,7 milljarðar evra í árslok. Bókfært virði þessara eigna var því 993 milljónum evra (90,5 milljörðum króna) hærra en markaðsvirði félaganna í árslok 2007 og eigið fé Exista hf. hærra sem því nam.143

Snemma árs 2008 vakti eiginfjárhlutfall Exista hf. athygli greiningardeildar sænska bankans Skandinaviska Enskilda (SEB) í greiningu hans á Sampo Group. Þar var talið að félli virði eigna Exista hf. um 5–10%, mætti reikna með að félaginu yrði sá einn kostur nauðugur að selja eignir félagsins í Storebrand ASA og Sampo Group. Í greiningunni vísaði bankinn í breytingar á reikningsskilaaðferðum og áhrif þeirra á eigið fé Exista hf. Þá benti bankinn á að auk áhrifa skuldaaukningar félagsins á eigið fé þess, væru vaxtagreiðslur og annar kostnaður í tengslum við lánin íþyngjandi.144 Glitnir hf. taldi SEB ofáætla tap Exista hf. af eignunum en eiginfjárhlutfall félagsins væri þó orðið lágt. Verulega hefði þrengt að félaginu og ljóst að það þyldi illa frekari gengislækkanir á kjarnaeignum þess. Framkvæmdastjóri samskiptasviðs Exista hf. sagði aftur á móti álit sænska bankans dæma sig sjálft enda væri það illa unnið og rangfærslur væru augljósar.145

Tap varð af rekstri Exista hf. árin 2001 og 2002. Árið eftir varð 6,1 milljarðs króna hagnaður af félaginu en gengi hlutabréfa í Kaupþingi banka hf., sem þá var langstærsta eign félagsins, hækkaði um 74% á árinu og gengi Bakkavarar Group hf. um 60%. Þá varð 15,1 milljarðs króna hagnaður af rekstri félagsins 2004 en árið 2005 nam hagnaðurinn 50,3 milljörðum króna. Gengi bréfa í Kaupþingi hækkaði þá um 68% eða 302 krónur á hlut. Meðalstaða hlutabréfa í eigu Exista hf. á árinu voru 126 milljónir hluta og stór hluti hagnaðarins því sprottinn af þessari gengishækkun. Árið 2006 nam hagnaður félagsins 37,4 milljörðum króna en árið eftir var hann 52,3 milljarðar króna. Eigið fé í árslok 2007 var um 216 milljarðar króna en félagið tapaði 275 milljörðum króna árið 2008. Eigið fé í árslok 2008 var þó tæpir 34 milljarðar króna vegna hlutafjáraukningar um 50 milljarða króna í lok ársins.146

10.5.2 Kista – fjárfestingarfélag ehf.

Virði eignar sparisjóðanna og Sparisjóðabanka Íslands hf. í Exista hf. jókst mikið frá árinu 2003 og gengi bréfa í Exista hf. hækkaði töluvert frá skráningu félagsins í kauphöllina í september 2006 til miðs árs 2007. Virðisaukningin hafði jákvæð áhrif á afkomu sparisjóðanna en var íþyngjandi í eiginfjárútreikningum þeirra og Sparisjóðabankans, eins og framar greinir. Sama dag og Exista var opinberlega skráð í Kauphöllina, 15. september 2006, skrifaði Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Sparisjóðabanka Íslands hf., minnisblað til bankaráðs um áhrif eignarhlutarins í Exista á hagnað og eiginfjáruppbyggingu bankans. Í niðurlagi bréfsins lagði hann til að bankaráð gripi til aðgerða til að bæta eiginfjárstöðuna. Það væri hægt að gera með því að selja að minnsta kosti 2 til 3 milljarða króna af eignarhlutnum í Exista til öflugra kaupenda innan eða utan sparisjóðakerfisins eða selja hlutina til alhliða fjárfestingarfélags sem bankinn gæti átt hlut í á móti öðrum. Að öðrum kosti yrði að auka eigið fé bankans um 2 til 3 milljarða króna með hlutafjárhækkun.147 Á bankaráðsfundi þar sem minnisblaðið var lagt fyrir var „rætt um sölu á hlutum í eigu bankans í Exista nú þegar félagið hefur verið skráð í Kauphöll Íslands og ákveðið að bankinn myndi beita sér fyrir því að kalla saman „Exista-sparisjóðina“ til að ræða það mál. Þá var ákveðið að fela endurskoðanda bankans að taka saman minnisblað um eiginfjáruppbyggingu bankans.“148

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Sparisjóðabankans, sendi bankaráðsmönnunum Geirmundi Kristinssyni og Guðmundi Haukssyni eftirfarandi tölvuskeyti 31. október 2006:

Hef rætt við RZG [Ragnar Z. Guðjónsson sparisjóðsstjóra Sparisjóðs vélstjóra, sem sat í bankaráði Sparisjóðabankans] um Exista-mál. Hann rifjaði upp að hann hafi stutt að bankinn losaði sig við Exista-hluti að einhverju marki til að innleysa hagnað og draga úr áhættu sem fylgir þessum stóra hlut. Þessi afstaða hans er óbreytt. Varðandi það að „selja án þess að selja“, þ.e. koma Exista hlutum fyrir í öðru félagi sem væri alfarið eða að stærstum hluta í eigu sparisjóða, þá væri hann neikvæður fremur en jákvæður. Ástæðurnar væru tvær. Annars vegar að fyrir sparisjóðakerfið í heild er samsöfnuð Exista-staða nokkuð stór og þar með áhættusöm. Hins vegar að ef SPV (sérstakt fjárfestingarfélag) hefði áhuga á að taka stöðu í Exista, þá myndi sparisjóðurinn miklu fremur gera það upp á eigin spýtur fremur en að vera bundinn í eignarhaldsfélagi um þá hluti með öðrum sparisjóðum.

Þó ljóst sé af þessu að ekki hafi öllum bankaráðsmönnum hugnast að setja saman sérstakt félag til að kaupa hlutina í Exista hf. af Sparisjóðabankanum, var unnið áfram með slíkar hugmyndir. Hinn 1. nóvember 2006 barst Guðmundi Haukssyni, sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og bankaráðsmanni í Sparisjóðabankanum, tölvuskeyti frá Sigurði Jónssyni hjá KPMG hf., endurskoðanda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðabanka Íslands hf., um stofnun félags utan um eignarhlutann í Exista hf.:

Forsendur sem ég gef mér eru eftirfarandi:
Allt bókfært verð Exista kemur til frádráttar eigin fé, bæði hjá SPB og sparisjóðunum.
Lánsfé í nýju félagi kemur frá öðrum aðilum en hluthöfum.
Kaupverð á Exista bréfum verða 50% fjármögnuð með lánum.
Tilflutningur á bréfum í Exista leiðir hvorki til tekjufærslu hjá þeim sem bréfin eiga né til skattgreiðslna.
Nýja félagið verður skilgreint af FME eins og Exista þannig að hlutafé í félaginu verður dregið frá eigin fé.
SPB flytur bréfin sín í Exista, að hluta eða öllu leyti, í nýtt félag, Newco (sérstakt fjárfestingarfélag) og fær greitt að hálfu með hlutabréfum í Newco og að hálfu með peningum. Einhverjir sparisjóðir leggja eignarhluti sína, að hluta eða öllu leyti inní Newco með sömu skilmálum og SPB, þ.e. fá helming greiddan með hlutafé og helming í peningum. Tryggja verður að enginn einn aðili fari með meirihluta í félaginu því þá þarf að gera samstæðuuppgjör.
Miðað við framangreint þarf í raun ekki að huga að þeim sparisjóðum sem ekki eiga í Exista utan þess að þeir kynnu að hafa skoðun á því hvort SPB ætti að selja Exista hlutinn, að hluta eða að öllu leyti og á hvaða tíma. Hins vegar þarf að tryggja að enginn aðili þurfi að taka Newco í samstæðu.
Sé þessi leið farin er slitið á milli þeirra sparisjóða sem eiga í Exista og hinna. Jafnframt kemur inn lánsfé frá aðilum sem eru ekki hluthafar og nýtist lánsféð til lækkunar á frádrætti frá eigin fé hjá núverandi hluthöfum. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að Newco fari í einhverjar aðrar fjárfestingar.
Þessi leið er afar einföld og fljótleg og býður uppá sveigjanleika í framhaldinu. SPB stendur í raun óbreyttur á eftir að því er varðar hluthafahópinn og eiginfjárstöðu og þarf því ekki að fara í flóknar útskýringar með lánardrottnum. Hins vegar er því markmiði náð að CAD eigið fé styrkist sem nemur helmingi þess sem selt er af Exista eignarhlutnum.
Ítrekað er að gert er ráð fyrir að FME breyti ekki skilgreiningu sinni á Exista og Newco falli undir sömu skilgreiningu. Verði breyting á þessari afstöðu FME breytast forsendur þar sem fjárfesting í Exista/Newco félli þá undir stórar áhættuskuldbindingar.149

Í bréfi Sigurðar var gert ráð fyrir að sparisjóðirnir fengju greitt fyrir bréf sín í Exista hf. að hálfu leyti í hlutabréfum í hinu nýja félagi og að hálfu leyti í reiðufé. Exista hf. var skilgreint sem félag tengt fjármálasviði og var dregið frá eigin fé við útreikning eiginfjárhlutfalls sparisjóða.150

Tilgangur Kistu – fjárfestingarfélags ehf., sem í bréfinu er kallað Newco, var því meðal annars sá að styrkja eiginfjárgrunn sparisjóðanna, auk þess sem sparisjóðirnir gátu innleyst hluta af þeim bókhaldslega hagnaði sem myndast hafði með hærra gengi Exista hf.151 Peningagreiðslurnar fyrir hlutabréf í Exista yrðu fjármagnaðar með láni sem nýja félagið tæki hjá aðila sem ekki væri hluthafi í því. Af samskiptum bankastjóra við bankaráðsmenn í nóvember 2006 má ljóst vera að haft var samráð við Lýð og Ágúst Guðmundssyni um eignarhluti sparisjóðanna í Exista hf. en Bakkabræður Holding s.a.r.l. átti á þessum tíma um 59% í Exista hf.152

Lyktir máls lágu fyrir stuttu síðar en í minnisblaði frá bankastjóra Sparisjóðabankans til bankaráðs 17. nóvember 2006 segir meðal annars:

Meðal Exista-sparisjóða hefur myndast góð samstaða um leið sem miðar að því að minnka eiginfjárfrádrátt sem fylgir Exista-hlutunum og bæta lausafjárstöðu þessara aðila. […] Leiðin felst í því að stofnað verður eignarhaldsfélag (hér eftir nefnt SP-Exista til einföldunar). SP-Exista kaupir 25% af Exista-hlutum hvers sparisjóðs. Fyrir hlutina er að hálfu greitt með hlutum í SP-Exista og að hálfu með reiðufé sem SP-Exista tekur að láni í banka. Í þessu felst að eiginfjárfrádráttur vegna Exista-hlutanna minnkar um helming í Exista-sparisjóðunum.
Frá þeirri almennu lausn sem lýst er hér að framan yrðu tvær undantekningar:
Annars vegar er SPRON í þeirri stöðu að þurfa ekki/vilja ekki selja Exista-hluti.
Hins vegar er mikilvægt fyrir fyrirhugaða sókn Sparisjóðabankans að CAD-eigið fé hans aukist að ráði.
Því hefur verið um það rætt að Sparisjóðabankinn fái Exista-hlutina greidda alfarið með reiðufé og að bankinn eignist því ekki hluti í SP-Exista. Á móti kaupi SPRON þá hluti í SP-Exista sem ella hefðu komið í hlut bankans án þess að SPRON leggi Exista-hluti inn í félagið. Fyrir hlutina greiðir SPRON því með reiðufé. […]
Lagt er til að bankaráð samþykki að Sparisjóðabankinn selji 125.064.535 kr. að nafnverði af hlutum í Exista til eignarhaldsfélagsins SP-Exista (nafn hefur ekki verið ákveðið) á skráðu markaðsgengi þegar viðskiptin fara fram. Fyrir hlutina verði greitt með reiðufé, u.þ.b. 2,7 ma.kr. miðað við núverandi markaðsgengi.153

Á fundi bankaráðs Sparisjóðabankans 21. nóvember 2006 var rætt um fyrirhugaða sölu á um 125 milljónum hluta í Exista hf. fyrir um 2,7 milljarða króna og áform um stofnun eignarhaldsfélags. Bankastjóri fékk heimild til að selja hluti bankans í Exista hf. en Ragnar Z. Guðjónsson sat hjá við afgreiðslu málsins, einn bankaráðsmanna.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis stofnaði Kistu – fjárfestingarfélag ehf. 12. desember 2006. Samkvæmt samþykktum félagsins frá 21. desember 2006 var tilgangur þess „fjárfesting í verðbréfum og önnur sú starfsemi sem rekin verður í eðlilegum tengslum við slíka fjárfestingarstarfsemi“. Hlutafé félagsins var 500 þúsund krónur og allt í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Á hluthafafundi Kistu – fjárfestingarfélags ehf. þann sama dag var ákveðið að auka hlutafé um 1,67 milljarða að nafnverði og var hver hlutur 2 krónur. Fimm aðrir sparisjóðir gerðust þá hluthafar: Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Vestfirðinga og Sparisjóður Húnaþings og Stranda. Hlutabréfaeign Sparisjóðs Vestfirðinga í Exista hf. var skráð í dótturfélagi sparisjóðsins sem hét Eyraeldi ehf. og sömuleiðis var eign Sparisjóðs Húnaþings og Stranda í Exista skráð í dótturfélaginu Þrælsfelli ehf.

Allir sparisjóðirnir sem ákváðu að gerast hluthafar greiddu hlutafjárframlag sitt með hlutabréfum í Exista hf., samtals tæpar 88 milljónir hluta, nema Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis sem greiddi sitt framlag í reiðufé, eða um 1,4 milljarða króna. Virði hlutabréfanna í Exista hf. var 1,9 milljarðar króna miðað við gengi bréfanna 20. desember 2006.

Í Markaðinum, fylgiblaði Fréttablaðsins, birtist 22. desember 2006 frétt um stofnun Kistu – fjárfestingarfélags ehf. þar sem meðal annars var haft eftir Guðmundi Haukssyni sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis að skráning Exista hf. á markað hefði haft mikil áhrif á afkomu þeirra sparisjóða sem ættu hlut í Kistu – fjárfestingarfélags ehf.:

Hins vegar taka verðmætari eignarhlutir í við útreikninga eiginfjárhlutfalla (CAD) sparisjóðanna sem dregur þar með úr slagkrafti þeirra, einkum hjá þeim minni. Með því að stofna hlutdeildarfélag utan um hluta bréfanna í Existu ættu eiginfjárútreikningar hjá sumum sparisjóðanna að verða auðveldari.154

Fjármálaeftirlitið skrifaði Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. bréf 27. febrúar 2007 þar sem óskað var eftir almennum upplýsingum um félagið, svo sem um eigendur, efnahagsreikning, markmið og tilgang félagsins og samþykktir þess. Í lok bréfsins var vísað til viðtalsins við Guðmund Hauksson í Markaðinum og óskað eftir nánari skýringum á orðum hans um útreikning eiginfjárahlutfalla sparisjóðanna. Í kjölfarið áttu sér stað bréfaskipti og frekari gagnaöflun af hálfu Fjármálaeftirlitsins en engar athugasemdir voru gerðar við uppsetningu félagsins eða meðhöndlun eignarhluta í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. við útreikning á eiginfjárgrunni.155

Á hluthafafundi Kistu – fjárfestingarfélags ehf. 21. desember 2006 var samþykkt að fjölga stjórnarmönnum í sex og áttu þá allir hluthafar félagsins fulltrúa í stjórn. Það voru jafnan sparisjóðsstjórar viðkomandi sparisjóða sem sátu í stjórn Kistu – fjárfestingarfélags ehf. meðan eignarhald þeirra varði. Á sama fundi var ákveðið að taka lán til að kaupa hlutabréf í Exista af Sparisjóðabankanum og sparisjóðunum sem voru eigendur Kistu, að Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóði Svarfdæla undanskildum. Kaupþing banki veitti félaginu 3,1 milljarðs króna lán til kaupanna sem skyldi endurgreiðast 21. mars 2007. Til tryggingar láninu voru settir að handveði rúmar 277 milljónir hluta í Exista hf. Tryggingarþekja skyldi vera að minnsta kosti 170% af höfuðstól lánsins og færi markaðsverðmæti trygginga niður fyrir 135% af eftirstöðvum lánsins skyldi lántaki greiða niður skuldina eða leggja fram fullnægjandi viðbótartryggingar þannig að tryggingarþekjan færi aftur upp í 170%. Kaup Kistu á hlutunum fóru fram á genginu 22,20 og var heildarkaupverð hlutabréfanna tæpir 4,5 milljarðar króna. Eftir hlutafjáraukninguna og kaup á hlutabréfum í Exista hf., átti fjárfestingarfélagið tæplega 290 milljónir hluta í Exista sem námu 6,4 milljörðum króna að markaðsvirði.

Kista – fjárfestingarfélag ehf. átti samtals rúmlega 289 milljón hluti í Exista hf. eftir hluta­fjárframlag sparisjóða og kaup félagsins á bréfum nokkurra sparisjóða 21. desember 2006. Markaðsvirði hlutabréfanna var 6,4 milljarðar króna. Fjármögnunin var framlag sparisjóðanna sem nam 3,3 milljörðum króna og lán frá Kaupþingi banka upp á 3,1 milljarð króna.

Í árslok 2006 áttu „Kistu-sparisjóðirnir“ samtals 13,5% í Exista hf. Þeir áttu bæði beinan eignarhlut í Exista og óbeinan í gegnum Kistu sem metinn var samtals á um 33 milljarða króna. Markaðsvirði Exista hf. þá var tæpir 244 milljarðar króna. Í ársreikningi Kistu – fjárfestingarfélags ehf. fyrir árið 2006 kom fram að á þeim stutta tíma sem liðinn var frá stofnun félagsins hefði gengishagnaður hlutabréfa félagsins í Exista hf. numið 87 milljónum króna. Kista hafði keypt hlutabréfin á genginu 22,20 en í árslok 2006 var gengið 22,50. Hagnaður ársins eftir skatta var því 53 milljónir króna. Kista – fjárfestingarfélag átti hluti í Exista hf. sem námu 6,4 milljörðum króna í árslok 2006 en eiginfjárhlutfallið var rétt rúmlega 52%. Eiginfjárhlutfall Exista hf. var á þessum tíma 43%.

Á tveimur fyrstu mánuðum ársins 2007 hækkuðu hlutabréf í Exista hf. um 27,6%. Í minnisblaði sem Guðmundur Örn Hauksson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, skrifaði til stjórnar Kistu 8. mars 2007 kom fram að eigið fé félagsins hefði hækkað um tæpa 2 milljarða króna frá því félagið var stofnað og næmi um 5,2 milljörðum króna. Sagði hann Icebank hf. hafa hug á að selja allt að 25% af hlutabréfaeign sinni í Exista og varpaði því fram hvort hluthafar í Kistu væru tilbúnir fyrir hönd félagsins að kaupa hlut Icebank hf. og selja jafnframt af sínum hlutum í Exista til Kistu. Icebank fengi greitt fyrir Exista-bréfin í reiðufé, en hluthafar í Kistu fengju greitt að hálfu leyti í reiðufé og að hálfu leyti í hlutbréfum í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Gert var ráð fyrir að Kista keypti bréf að andvirði 11,2 milljarðar króna og til að fjármagna kaupin yrði tekið 7 milljarða króna lán. Lánsloforð lægju fyrir bæði frá Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. og Kaupþingi banka. Lánið frá Straumi-Burðarási átti að vera til 12 mánaða en lánið frá Kaupþingi til ársloka 2007. Kaupþing banki hefði þá þegar samþykkt að framlengja lánið sem Kista tók í desember 2006 til ársloka 2007. Guðmundur lagði áherslu á að ef þessi viðskipti gengju eftir þyrfti að ljúka þeim fyrir lok mars.156

Á hluthafafundi í Kistu 22. mars 2007 var samþykkt tillaga stjórnar um heimild til að hækka hlutafé um allt að 5 milljarða króna að nafnverði með áskrift nýrra hluta. Heimildin gilti til febrúarloka 2012. Síðar sama dag ákvað stjórn félagsins að nýta þessa nýfengnu heimild til að hækka hlutafé Kistu um 1,4 milljarða króna að nafnverði og varð hlutafé félagsins eftir það rúmir 3 milljarðar króna. Hið nýja hlutafé skyldi að öllu leyti greiðast með hlutabréfum í Exista. Gengi hlutanna í Exista hf. var 28,00 og gengi hluta í Kistu ákveðið 2,99. Nýtt hlutafé nam því 4,2 milljörðum króna. Kista keypti hluti í Exista hf. fyrir 10,9 milljarða króna á genginu 28,00 af eigendum sínum og Sparisjóðabanka Íslands hf. 30. mars 2007.

Félagið fékk 6,1 milljarðs króna lán hjá Kaupþingi banka hf. 28. mars 2007 til að greiða upp eldra lán hjá bankanum frá því í desember 2006 en 3 milljarðar af lánsfjárhæðinni voru nýttir til kaupa á bréfunum í Exista. Lánið var í íslenskum krónum og skyldi endurgreiðast með einni greiðslu 15. desember 2007. Ákvæði um tryggingarþekju og veðköll voru þau sömu og í lánssamningnum frá desember 2006. Sama dag fékk félagið 4,3 milljarða króna lán frá Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. Það var í íslenskum krónum og skyldi endurgreiðast með einni greiðslu 30. mars 2008. Til tryggingar láninu voru settir að handveði 232 milljónir hluta í Exista hf. og skyldi tryggingarþekja vera að minnsta kosti 150% af uppreiknuðum höfuðstól lánsins. Færi markaðsverðmæti trygginga niður fyrir 130% af uppreiknuðum eftirstöðvum lánsins skyldi lántaki greiða niður skuldina eða leggja fram fullnægjandi viðbótartryggingar þannig að tryggingarþekjan færi aftur upp í 150%. Eins og framar er getið fékk Icebank greitt fyrir hlutabréfin í Exista í reiðufé en hluthafar í Kistu fengu að hálfu greitt í reiðufé og að hálfu í bréfum í Kistu sjálfri. Samtals voru því greiddir um 6,6 milljarðar króna í reiðufé og um 4,2 milljarðar króna í hlutabréfum í Kistu fyrir bréfin í Exista hf.

Í minnisblaði Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 13. júní 2007 til annarra hluthafa í Kistu voru lögð til frekari kaup félagsins á hlutabréfum í Exista af hluthöfum sínum. Gengi bréfa í Exista hf. var þá 33,5 og hafði hækkað um 19,6% frá hlutabréfakaupunum í mars sama ár og um 48,9% frá ársbyrjun. Lagt var til að keypt yrði fyrir 11,4 milljarða króna og greitt að hálfu fyrir með hlutabréfum í Kistu og að hálfu í reiðufé. Gengju kaupin eftir yrði eignarhlutur Kistu í Exista 8,94%. Sparisjóðabankinn hafði ekki hug á að selja frekari hluti í Exista hf. á þeim tíma.157 Tillagan var samþykkt af eigendum og stjórn félagsins.

Kista – fjárfestingarfélag ehf. tók 6 milljarða króna að láni hjá Glitni banka hf. 19. júní 2007. Lánið var í íslenskum krónum og skyldi endurgreiðast með einni greiðslu sex mánuðum eftir útborgun þess. Til tryggingar láninu voru settir að handveði tæplega 269 milljón hlutir í Exista ásamt tilteknum bankareikningi og innistæðunni sem á honum var á hverjum tíma. Tryggingarþekja skyldi vera að minnsta kosti 150% af uppreiknuðum eftirstöðvum lánsins og færi markaðsverðmæti trygginga niður fyrir 125% af uppreiknuðum eftirstöðvum lánsins skyldi lántaki færa tryggingarhlutfallið aftur upp í 150%. Á stjórnarfundi í Kistu 25. júní 2007 var samþykkt að nýta að hluta þá heimild sem stjórn hafði samkvæmt samþykktum til að hækka hlutafé í félaginu. Hlutaféð var hækkað um 1,4 milljarða króna að nafnverði og var hlutaféð þá orðið samtals um 4,5 milljarðar króna.158 Gengi bréfa í Kistu var þá metið á 3,98 og hlutafjáraukningin því samtals 5,7 milljarðar króna.

Frá desember 2006 til júní 2007 seldu eigendur Kistu og Sparisjóðabankinn fjár­festingarfélaginu hluti í Exista hf. fyrir 26,7 milljarða króna. Kista greiddi fyrir bréfin með 16,9 milljörðum króna í peningum og það sem eftir stóð með hlutabréfum í sjálfu sér. Sparisjóðabankinn var eini seljandinn sem fékk eingöngu peninga fyrir hluti í Exista hf. Auk Exista-hlutanna sem Kista keypti, lögðu eigendur þess fram hluti í Exista hf. fyrir tæpa 2 milljarða króna sem hlutafé í fjárfestingarfélagið. Það voru samtals um 88 milljónir hluta.

Gengi hlutabréfa í Exista varð hæst 18. júlí 2007, 40,25, og hafði þá hækkað um 78,9% frá áramótum. Markaðsvirði eignar Kistu-sparisjóðanna í Exista hf. var þá um 61,5 milljarðar króna og heildarverðmæti hlutafjár Exista hf. um 457,3 milljarðar króna. Gengi hlutabréfanna lækkaði síðan nær stöðugt frá 18. júlí 2007 og var 19,75 í árslok. Þar sem Kista hafði keypt bréf í Exista hf. á árinu 2007 á mun hærra gengi en lokagengi ársins nam gengistap af bréfunum 8,7 milljörðum króna árið 2007.

Sparisjóðirnir sem áttu Kistu áttu hlutabréf í Exista hf. sem þeir höfðu ekki selt fjár­festingarfélaginu. Utanumhald um Exista-hluti í Kistu gerði heildareign þessara sparisjóða, þ.e. beina og óbeina eign, nokkuð óljósa.

Í árslok 2007 átti Icebank hf. 281,5 milljónir hluta í Exista hf., eða 2,5% af heildarhlutafé félagsins. Markaðsverðmæti hlutarins var um 5,6 milljarðar króna. Eignarhlutur sparisjóðanna í Icebank hf. í árslok 2007 var 57% og því áttu sparisjóðirnir allir óbeint um 160,5 milljónir hluta í Exista hf. að markaðsvirði 3,2 milljarðar króna.

Kista – fjárfestingarfélag ehf. hafði tekist á hendur skuldbindingar gagnvart lána­stofnunum með veði í bréfunum í Exista, en virði þeirra þurfti að vera ákveðið hlutfall skuldbindingarinnar, eins og fram er komið, ella yrði farið fram á auknar tryggingar eða uppgjör lánanna. Í skýrslu stjórnar með ársreikningi Kistu fyrir árið 2007 kom fram í áritun stjórnar félagsins að hlutafé þess yrði aukið um 7,1 milljarð króna á árinu 2008 og yrði fjárhæðin notuð til að greiða niður skuldir félagsins. Enn fremur myndu hluthafar leggja fram ábyrgðir til að uppfylla kröfur í lánasamningum um tryggingar.

Eiginfjárhlutfall Exista í árslok 2006 var 43,2% en eiginfjárhlutfall Kistu á sama tíma var 52%. Þannig voru 48% eigna Kistu fjármögnuð með lánsfé til kaupa á hlutabréfum í Exista sem fjármagnaði 57% eignasafns síns með lánsfé. Eiginfjárhlutfall Kistu lækkaði á árinu 2007 og var 22% í árslok en eiginfjárhlutfall Exista hf. var 30% á sama tíma. Því var eiginfjárhlutfall Kistu, að teknu tilliti til eignar fjárfestingarfélagsins í hlutabréfum Exista hf. í raun 6,7%.159 Eins og áður hefur verið bent á var markaðsvirði eigna Exista hf. lægra en bókfært virði þeirra. Eiginfjárhlutfall miðað við markaðsvirði undirliggjandi hlutabréfa var því lægra en það sem var á bókum í árslok 2007.

Jón Hallur Pétursson, framkvæmdastjóri SPRON-verðbréfa hf. og framkvæmdastjóri Kistu, skrifaði minnisblað til stjórnar fjárfestingarfélagsins 7. janúar 2008. Útreikningar hans höfðu þá sýnt að miðað við gengi Exista hf. væri eigið fé Kistu uppurið. Jón Hallur gerði það að umtalsefni hversu viðkvæmt eigið fé félagsins var fyrir gengisbreytingum Exista hf. sem var bein afleiðing skuldsetningar félagsins. Útreikningar Jóns Halls miðuðu við gengið 17 krónur á hlut í Exista hf. en væri gengið 20 krónur á hlut væri eigið fé þrír milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 14%. Í lok árs 2007 var innra virði eigin fjár Exista hf. 11,05 krónur.160

Lagt var til að eigið fé Kistu yrði aukið, helst um að minnsta kosti 10 milljarða króna.161 Rúmum tveimur vikum síðar var lögð fram önnur greining um gengisþróun hlutabréfa í Exista og var eigið fé Kistu þá orðið neikvætt um 4 milljarða króna.162 Þessi staða var rædd á stjórnarfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 23. janúar 2008:

Jón Hallur Pétursson kom inn á fundinn til að gera stjórn grein fyrir málefnum Kistu fjárfestingarfélags. Í kjölfar lækkandi gengis hlutabréfa undanfarið og þá ekki síst bréfa Exista, þá er ljóst að auka þarf hlutafé í Kistu til að mæta auknum veðsetningarkröfum lánveitenda. Eigendur voru búnir að samþykkja að leggja 10 milljarða kr. í félagið, en nú er ljóst að 15 milljarða kr. aukningu þarf til að mæta veðköllum. Nokkrar umræður voru í stjórn um þetta mál og var ákveðið að leggja til bankaábyrgð, en að áframhald verði ákveðið í kjölfar stefnumótunarviðræðna stjórnar.163

Á næsta stjórnarfundi sparisjóðsins, 28. janúar 2008, var aftur komið inn á málefni Kistu:

Staða Kistu fjárfestingarfélags var yfirfarin og snérust umræður um hvernig taka skuli á eignarhaldi í félaginu, í ljósi síhækkandi þarfar á hlutafjáraukningu í kjölfar gengislækkunar bréfa Exista á markaði. Niðurstaðan varð sú, að forstjóra var falið að kanna hjá Icebank hvort þeir vilji koma að félaginu og láti hlutafjáreign sína í Exista renna inn í það og ræða við aðra hluthafa um viðunandi lausn.164

Með lækkandi gengi Exista minnkaði tryggingarþekja lána Kistu. Til þess að bæta tryggingastöðuna samþykktu stjórnir Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðsins í Keflavík snemma árs 2008 að sparisjóðirnir tveir tækjust á hendur ábyrgðir fyrir skuldum félagsins. Ábyrgðirnar námu rúmum 10 milljörðum króna við þrjá banka og giltu frá 31. desember 2007 til 22. febrúar 2008.

Hinn 12. febrúar 2008 birtist stutt frétt á vefmiðlinum visir.is undir yfirskriftinni „Eigið fé Kistu aukið þegar eignir rýrna“. Þar sagði m.a.:

Kista Fjárfestingafélag, sem er í helmingseigu SPRON, á ekki í vandræðum jafnvel þótt verðmæti eignarhlutar félagsins í Exista sé komið rúmum fjórum milljörðum undir skuldir þess. Guðmundur Hauksson, stjórnarformaður félagsins, segir að eigið fé verði aukið eftir þörfum.
„Kista er verkfæri sparisjóðanna til að halda utan um eignarhlut þeirra í Exista. Við setjum inn og tökum út pening eftir þörfum. Ef eignin lækkar þá aukum við eigið fé,“ segir Guðmundur og blæs á þær sögusagnir að sparisjóðirnir séu ekki nógu fjársterkir til að standa af sér þær lækkanir sem hafa orðið á bréfum í Exista að undanförnu. „Eiginfjárstaðan er sterk.“165

Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóður Svarfdæla gáfu út ábyrgðir fyrir skuldum Kistu í fyrri hluta febrúarmánaðar sem giltu til 22. febrúar 2008, eða til sama dags og ábyrgðir sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðurinn í Keflavík höfðu gengist í. Ábyrgðirnar voru samtals 271 milljón króna gagnvart Glitni hf., 163 milljónir króna gagnvart Straumi-Burðarási hf. og 270 milljónir króna gagnvart Kaupþingi banka hf. Allar ábyrgðir gagnvart Kaupþingi banka hf., sem námu 3,7 milljörðum króna í febrúar 2008, féllu niður og voru ekki endurnýjaðar þar sem eigendur Kistu tóku á sig hluta skulda félagsins hjá bankanum í samræmi við samþykkt á aðalfundi 28. mars 2008.166

Á aðalfundinum var samþykkt að auka hlutafé Kistu um 7,1 milljarð króna og varð það eftir aukninguna 11,6 milljarðar króna. Greitt var fyrir nýtt hlutafé með tvennum hætti. Annars vegar greiddu hluthafar Kistu 3,5 milljarða króna í reiðufé en 2 milljarðar króna fóru í að greiða niður skuldir Kistu við Glitni banka og 1,5 milljarðar króna í að greiða niður skuldir við Straum-Burðarás Fjárfestingabanka hf. Það sem eftir stóð af hlutafjáraukningunni greiddu hluthafar með yfirtöku á 3,6 milljarða króna skuld félagsins við Kaupþing banka hf.167 Hlutur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í láninu var 1,8 milljarðar króna, hlutur Sparisjóðsins í Keflavík 1,2 milljarðar króna, Sparisjóðs Mýrasýslu 371 milljón króna og Sparisjóðs Svarfdæla 255 milljónir króna.168 Á stjórnarfundi sem haldinn var í kjölfar aðalfundarins var samþykkt að ráða Ragnar Þóri Guðgeirsson sem framkvæmdastjóra félagsins, en hann var nýráðinn framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis.

Í maí 2008 hófust viðræður milli Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og Kaupþings banka hf. um samruna fyrirtækjanna. Í samrunaáætlun félaganna var meðal annars gert ráð fyrir að 3/5 þess endurgjalds sem hluthafar í sparisjóðnum fengju við samrunann yrðu hlutabréf í Exista en 2/5 endurgjaldsins yrðu hlutabréf í Kaupþingi banka hf.169 Í tengslum við sameiningaráform Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Kaupþings banka gerði bankinn Kistu tilboð um að kaupa hlutabréfaeign þess í Exista með fyrirvara um að samruni Kaupþings banka og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis gengi eftir. Stjórn Kistu hugnaðist ekki þetta tilboð en vegna þröngrar eiginfjárstöðu og erfiðleika hluthafa með að leggja félaginu til meira fé var Guðmundi Haukssyni falið að ræða frekar við Kaupþing banka.170 Í drögum að nýjum kaupsamningi var gert ráð fyrir að Kaupþing keypti tæplega 492 milljónir hluti í Exista af Kistu á genginu 7,52 og var söluverðið 3,7 milljarðar króna. Þetta var um 48% af eign Kistu í Exista hf., eða sama hlutfall og eignarhlutur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var í Kistu. Samningurinn var með fyrirvara um að af samruna sparisjóðsins og Kaupþings yrði.171 Samruninn gekk hins vegar ekki eftir.172

Jón Hallur Pétursson, framkvæmdastjóri SPRON-Verðbréfa hf., vann annað minnisblað um stöðu Kistu 12. júní 2008 fyrir stjórn félagsins. Þar kom fram að á fundi vinnuhóps á vegum eigenda Kistu hefði náðst samstaða um að draga úr áhættu vegna eignarhalds í Exista og hópurinn hefði lagt til tvær leiðir til að ná fram því markmiði. Annars vegar að selja Kistu í heilu lagi gegn því að kaupandinn yfirtæki ábyrgð sparisjóðanna á skuldum félagsins og hins vegar að selja eignir félagsins í skiptum fyrir aðrar sem sjóðirnir gætu tekið inn á eigin bækur og Kista yrði leyst upp í framhaldinu. Þá voru fulltrúar í vinnuhópnum sammála um að reynt yrði að nýta eignir félagsins í tengslum við uppstokkun sem kynni að verða á komandi mánuðum í fjármálastarfsemi á Íslandi.173 Gengi hlutabréfa í Exista hf. hafði þegar þetta var ritað lækkað um 55,1% frá áramótum.

Á stjórnarfundi Kistu 27. júní 2008 var meðal annars lagt fram yfirlit um fjárhagsstöðu félagsins og bókað að: „staða félagsins [væri] orðin mjög alvarleg þar sem hlutabréf í Exista [hefðu] haldið áfram að lækka“. Á fundinn var mættur Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista hf., sem fór yfir stöðu og fjárfestingarstefnu félagsins. Í fundargerð var haft eftir Erlendi „að reksturinn gengi vel og að engin sjáanleg ástæða væri fyrir þessari miklu gengislækkun sem hefði orðið á bréfum félagsins“. Þrátt fyrir bjartsýni Erlendar á stöðu og framtíð Exista hf. var eftirfarandi bókað í fundarlok:

Alvarleg staða er að myndast hjá hluthöfum í Kistu, m.a. vegna þeirra miklu fjármuna sem hefur þurft að leggja félaginu til og því svigrúm lítið til að leggja frekari fjármuni í félagið. Ákveðið að eigendur skoði hver fyrir sig hvaða eignir þeir geta komið með sem fjármögnun í félagið og að hittast á fundi á mánudag þar sem gengið verði frá þessum málum.

Á hluthafafundi Kistu sem haldinn var síðar sama dag var samþykkt að auka hlutafé félagsins um 1,5 milljarða króna, eða úr 11,6 milljörðum í 13,1 milljarð að nafnverði. Tóku allir sparisjóðirnir fjórir þátt í hlutafjáraukningunni í samræmi við eignarhlut þeirra í fjárfestingarfélaginu. Þá var samþykkt á fundinum heimild til að hækka hlutafé félagsins um allt að 2,5 milljarða króna til viðbótar með áskrift nýrra hluta. Heimildin gilti til febrúarloka 2012.

Í lok júní átti Kista að greiða afborganir og vexti af lánum. Samkomulag náðist um að fresta afborgunum lánsins frá Kaupþingi en greiða vexti. Aðrir lánveitendur fengu greidda afborgun og vexti. Til greiðslu voru 1.479 milljónir eða sem samsvaraði hlutafjáraukningunni. Af tölvupóstsamskiptum starfsmanna að dæma var tilgangur hlutafjáraukningarinnar fyrst og fremst að afla fjár til þess að inna af hendi þessar greiðslur.174 Á þessum tíma voru eignir félagsins metnar á 7,9 milljarða króna en skuldir námu 10,3 milljörðum króna. Eigið fé Kistu hafði því lækkað úr 4,8 milljörðum króna í ársbyrjun 2008 í að vera neikvætt um 2,4 milljarða króna. Þó hafði hlutafé félagsins verið aukið tvívegis á þessu sex mánaða tímabili, samtals um 8,6 milljarða króna. Á stjórnarfundi Kistu 27. júlí 2008 var samþykkt að hækka hlutafé félagsins um 2,4 milljarða króna, í 15,5 milljarða að nafnverði. Eignarhlutföll sparisjóðanna fjögurra héldust óbreytt eftir hækkunina sem ætlað var að jafna út áætlað neikvætt eigið fé félagsins miðað við fjárhagsstöðu þess 30. júní 2008.175

Hinn 30. september 2008, sama dag og Glitnir banki var tekinn yfir, var haldinn hluthafafundur í Kistu þar sem samþykktar voru þrjár meginbreytingar á samþykktum félagsins. Í fyrsta lagi yrði hlutafé félagsins fært niður um 99,9%, úr 15,5 milljörðum króna í 15,5 milljónir króna. Lækkun hlutafjár var til jöfnunar á tapi af rekstri félagsins, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 51. gr. hlutafélagalaga. Í öðru lagi yrði hlutafé félagsins hækkað aftur um 184,5 milljónir króna sem yrði lagt fram í reiðufé samdægurs, og í þriðja lagi var samþykkt heimild til stjórnar Kistu til að hækka hlutafé félagsins um 2,5 milljarða króna með áskrift nýrra hluta.176 Þessar breytingar á samþykktum höfðu fyrst komið til umræðu á stjórnarfundi félagsins 1. júlí 2008 og stóð þá til að hlutur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðsins í Keflavík í félaginu yrði 49% hvor og að Sparisjóður Svarfdæla og Sparisjóður Mýrasýslu ættu 1% hvor. Hlutafjárhækkunin sem samþykkt var á fundinum kom þó aldrei til framkvæmda og nafnvirði hlutafjár í Kistu hélst 15,5 milljónir króna og eignarhlutir óbreyttir.

Eins og framar greinir gengust eigendur Kistu í ábyrgð fyrir skuldum félagsins sem giltu frá lokum árs 2007 og byrjun árs 2008 fram í febrúar 2008. Í upphafi voru veittar ábyrgðir fyrir skuldum Kistu við alla þrjá lánveitendurna, Kaupþing, Glitni og Straum-Burðarás Fjárfestingarbanka, en sem þátt í hlutafjáraukningu Kistu í mars 2008 tóku eigendur félagsins yfir skuldir þess við Kaupþing banka. Því voru eingöngu ábyrgðir við Glitni og Straum-Burðarás endurnýjaðar á gjalddaga þeirra í febrúar 2008. Þær voru svo endurnýjaðar nokkrum sinnum, í síðasta sinn 25. júní 2008 en þá fékk Straumur-Burðarás ábyrgðir sem námu 2,4 milljörðum króna og giltu til 15. október 2008 en Glitnir ábyrgðir sem samtals námu 1,7 milljörðum króna og giltu til 30. desember 2008.

Kista greiddi afborganir og vexti af lánum sínum í júní 2008 eftir 1,5 milljarðs króna hlutafjáraukningu, eins og framar greinir. Á fundi lánanefndar Glitnis 11. júní 2008 hafði verið samþykkt að Kista greiddi 500 milljónir króna inn á lánið en lokagjalddagi framlengdur um sex mánuði til 21. desember 2008.177 Félagið greiddi 148 milljónir króna í vexti á sama tíma og hafði áður greitt 2 milljarða króna inn á höfuðstól lánsins, en aðrar greiðslur voru ekki inntar af hendi. Eftirstöðvar lánsins námu 3,7 milljörðum króna í lok árs 2008. Ábyrgðaryfirlýsingar sparisjóðanna gagnvart bankanum vegna þessa láns voru í gildi til loka desember 2008 en bankinn krafði ábyrgðarveitendur ekki um greiðslu áður en ábyrgðin rann út.

Lán Straums-Burðaráss til Kistu var upprunalega á gjalddaga 30. mars 2008. Þá var láninu skilmálabreytt og lánstíminn framlengdur til 31. desember 2009, en við undirritun samkomulagsins greiddi Kista lánið niður um milljarð króna. Eftirstöðvar lánsins skyldu síðan greiðast með sex afborgunum fram til lokadags samningsins. Kista greiddi 500 milljónir í afborgun og 183 milljónir króna í vexti af láninu í lok júní 2008. Með bréfi til Kistu 8. október 2008 gjaldfelldi Straumur-Burðarás lánasamninginn og var farið fram á fullnustu gjaldfallinna krafna. Félagið komst síðar að samkomulagi við bankann um að veittar ábyrgðir, að fjárhæð 2,3 milljarðar króna, yrðu greiddar til bankans og hann myndi auk þess leysa til sín 283 milljónir hluta af handveðsettum hlutabréfum í Exista hf. Taldist lánið þá uppgert.178

Engin eiginleg starfsemi var hjá Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. síðustu mánuði ársins 2008 og í lok árs voru eignir þess nánast verðlausar. Áritun endurskoðanda Kistu á ársreikning ársins 2008 var með fyrirvara:

Samkvæmt rekstrarreikningi nam tap ársins 24.312 millj. kr. og var eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi neikvætt um 8.490 millj. kr. í árslok 2008. Rekstrarafkoma og fjárhagsstaða félagsins eru nú með þeim hætti að réttmæti þeirra forsendna, sem færsla eigna og skulda í ársreikningi byggist á, er háð möguleikum til fjármögnunar. Takist ekki að fjármagna félagið leikur verulegur vafi á áframhaldandi rekstrarhæfi þess. Ekki er víst að mat eigna og skulda félagsins væri með sama hætti ef rekstur félagsins legðist af. Framsetning eigna og skulda í efnahagsreikningi miðast þó við áframhaldandi rekstur.

Engin starfsemi var í félaginu á árinu 2009 en afkoma af starfseminni var 2,1 milljarðs króna tap af rekstri félagsins og eigið fé neikvætt um 10,6 milljarða króna. Unnið var að slitum á félaginu í samvinnu við kröfuhafa sem miðaði að því að ráðstafa sjóðum félagsins til kröfuhafa í samræmi við hlutfall krafna þeirra af heildarkörfum á félagið.179 Kista – fjárfestingarfélag ehf. var úrskurðað gjaldþrota 20. febrúar 2013. Á þeim tíma sem félagið starfaði lögðu sparisjóðirnir fram um 20,7 milljarða króna í hlutafé í félagið, yfirtóku 3,6 milljarða króna lán frá Kaupþingi banka hf. og greiddu ábyrgðir sem námu 2,3 milljörðum króna. Kista – fjárfestingarfélag ehf. keypti hluti í Exista hf. af eigendum sínum fyrir 11,5 milljarða króna.

10.6 Ályktun rannsóknarnefndar

Umræður á Alþingi í kringum fyrstu lagasetningar um sparisjóði gefa til kynna að almennt hafi ekki verið talið æskilegt að sparisjóðir stunduðu verðbréfastarfsemi. Lögð var áhersla á verndun innistæðueigenda og að þeir hefðu ávallt aðgengi að sínum fjármunum og því ekki fýsilegt að fjármunir sparisjóðs væru bundnir í áhættufjármunum. Ekki var leyfilegt að fjármagna verðbréfakaup sparisjóðs með lántöku, enda snerist hefðbundin sparisjóðastarfsemi um innlán og útlán.

Á níunda áratug síðustu aldar þótti rétt að breyta skilgreiningu á sparisjóðastarfsemi til að endurspegla betur „nútímaaðstæður“. Í umræðum á Alþingi um frumvarp það sem varð að lögum nr. 87/1985 kom fram að markmið þeirra væri að treysta stöðu sparisjóðanna með því að veita þeim starfsheimildir sem væru hliðstæðar viðskiptabönkunum. Aukið var við hugtakið sparisjóðastarfsemi samkvæmt eldri skilningi og taldist hún nú fólgin í geymslu og ávöxtun fjár, miðlun á peningum og annarri þjónustustarfsemi sem væri í eðlilegum tengslum við slík viðskipti. Þannig voru verðbréfaviðskiptin talin falla undir þjónustustarfsemi sem væri í eðlilegum tengslum við hina hefðbundnu sparisjóðastarfsemi. Sparisjóðum var þar með orðið fært að stunda verðbréfaviðskipti og fjárfesta í verðbréfum, þó með takmörkunum. Meginstefna frumvarpsins var þó að sparisjóðir rækju eingöngu sparisjóðastarfsemi. Tryggja skyldi öryggi í rekstri sparisjóða og þar með hagsmuni sparifjáreigenda.

Með lögum nr. 43/1993 var lögum um sparisjóði og viðskiptabanka steypt saman í einn lagabálk og sagði í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna að enginn munur væri á starfsheimildum þessara stofnana. Með þessu voru heimildir sparisjóða til að fjárfesta auknar og með lögum nr. 161/2002 varð til einn lagabálkur um starfsemi fjármálafyrirtækja, þar á meðal sparisjóða. Með lögunum varð lánastofnunum heimilt að stunda verðbréfaviðskipti fyrir þriðja aðila og tiltekið í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna að öllum væri í raun frjálst að stunda verðbréfaviðskipti fyrir eigin reikning. Fjárfestingum fjármálafyrirtækja, hvað þessi efni varðar, eru þó settar skorður með ákvæðum laga um stórar áhættur og með þeim ákvæðum laga sem tilgreina með hvaða hætti eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækja og áhættugrunnur þeirra skuli reiknaður.

Við endurskoðun laga eftir fall bankanna og nokkurra sparisjóða náðist sátt um að sparisjóðir með takmarkað starfsleyfi við staðbundinn afmarkaðan markað og að minnsta kosti 1 milljón evra í eigið fé, hefðu ekki heimildir til verðbréfaviðskipta, hvorki fyrir eigin reikning né fyrir aðra, sbr. lög nr. 77/2012. Þeir sparisjóðir sem uppfylla kröfur laganna um 5 milljóna evra stofn- eða hlutafé hafa hins vegar fullar starfsheimildir til viðskipta með fjármálagerninga fyrir eigin reikning eða viðskiptavini.

Þróun laganna endurspeglar það sem var að gerast í íslensku og erlendu fjármálaumhverfi. Bankar fóru að bjóða upp á fjölbreyttari þjónustu og fjárfestu í því skyni í félögum með skylda starfsemi. Sparisjóðirnir gerðu slíkt hið sama og má nefna stofnun Sparisjóðabankans 1986 og fjárfestingu í Kaupþingi hf. sem þá var nokkurs konar verðbréfaarmur sparisjóðanna. Samkeppnisumhverfið breyttist mikið, til að mynda með einkavæðingu bankanna, og fjármálastofnanir kepptust um að bjóða lægsta verðið sem leiddi til sífellt minni vaxtamunar. Það sem kallað hafði verið hefðbundin sparisjóðastarfsemi átti sífellt erfiðara með að standa undir rekstri sparisjóðanna. Tekjur af fjárfestingum sparisjóðanna höfðu því mikið að segja um rekstrarafkomu þeirra og voru frá 2001 til 2007 um það bil þær sömu og hagnaður sparisjóðanna fyrir skatt. Ekki verður þó fullyrt að rekstur sparisjóðanna hefði ekki skilað neinum hagnaði ef tekjur af fjáreignum hefðu ekki komið til þar sem fjármunir hefðu eflaust verið bundnir í öðrum eignum sem tekjur hefðu verið af. Hins vegar skiluðu fáar, ef nokkrar, aðrar eignir sparisjóðanna jafn góðri ávöxtun og fjáreignir á árunum 2001–2007.

Ávöxtun fjáreigna sparisjóðakerfisins fylgdi uppgangi og falli skráðra hlutabréfa að mestu leyti frá 2001 til 2008. Vöxtur fjáreigna sparisjóðakerfisins stafaði fyrst og fremst af gengisbreytingum hlutabréfa og minna af nýjum fjárfestingum. Skráning Kaupþings hf. á markað árið 2000 og Exista hf. árið 2006 höfðu mikið að segja um afkomu fjáreigna sparisjóðanna, en gengi hlutabréfa í félögunum hækkaði mikið frá skráningu. Þegar sparisjóðirnir hófu að færa Sparisjóðabankann á gangvirði á bókum sínum árið 2007 jukust tekjur þeirra af verðbréfaeign töluvert, auk hagnaðar sem stærstu sparisjóðirnir tveir bókuðu vegna sölu á bankanum. Frá árslokum 2001 til ársloka 2007 jukust fjáreignir sparisjóðanna úr 26 milljörðum króna í 114 milljarða króna, eða sem nam 88 milljörðum króna. Þar af voru 64 milljarðar króna vegna gengishækkana en 27 milljarðar króna vegna nýrra fjárfestinga. Frá 2008 til 2011 var heildartap sparisjóða af fjáreignum 88,8 milljarðar króna, sem var um 66% af virði fjáreigna sparisjóðanna eins og það var í árslok 2007. Á verðlagi hvers árs mætti því áætla að eftir 2008 hafi nær allur sá hagnaður sem sparisjóðirnir höfðu bókfært frá árinu 2001 tapast. Á verðlagi ársins 2011 var heildarhagnaður af fjárfestingum, án tillits til söluhagnaðar, 7,5 milljarðar króna.

Nokkur félög mynduðu meiri hluta afkomu sparisjóðanna af fjáreignum á því tímabili sem rannsóknin náði til en það voru Kaupþing hf., Exista hf., Kista – fjárfestingarfélag ehf., Icebank hf., VBS Fjárfestingarbanki hf. og Saga Capital hf. Exista hf. og Kista – fjárfestingarfélag ehf. voru félög sem stofnuð voru meðal annars til að draga úr áhrifum fjárfestinga í fjármálafyrirtækjum á eiginfjárútreikninga sparisjóðanna. Ákveðna fyrirmynd að félögunum var að finna í félaginu Scandinavian Holding S.A. sem stofnað var utan um eign sparisjóðanna í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Fjármálaeftirlitið ákvað í desember 1999, í kjölfar athugunar á fjárfestingum sparisjóðanna og Scandinavian Holding, að almennt skyldu félög í meirihlutaeigu sparisjóðanna gerð upp með hlutfallslegum samstæðureikningsskilum við eiginfjárútreikninga og setti fram ákveðin viðmið þar um. Eignarhaldsfélög um fjárfestingar sparisjóða í fjármálafyrirtækjum ættu ekki að breyta áhættuútreikningum og skipti ekki máli með hvaða hætti eigendurnir sjálfir kæmu að fjármögnun félaganna. Mikilvægt væri að sama eigið fé væri ekki notað oftar en einu sinni í fjármálafyrirtækjum.

Rannsóknarnefndin hafði til skoðunar hvort þessi almennu viðmið hefðu átt að gilda um Kistu – fjárfestingarfélag ehf. en fram kom í blaðaviðtali við stjórnarformann félagsins við stofnun að tilgangur þess væri meðal annars að hafa áhrif á eiginfjárútreikninga. Lánveitendur félagsins væru ótengdir sparisjóðunum og bæru hluta áhættunnar. Fjármálaeftirlitið hafði haft eiginfjárútreikninga sparisjóðanna í tengslum við SP-eignarhaldsfélag ehf. til skoðunar árið 2001 og þá vikið frá þeim almennu skilyrðum sem höfð voru til hliðsjónar við beitingu hlutfallslegs samstæðuuppgjörs við eiginfjárútreikninga tveimur árum áður. Þá kom fram að ef tryggt væri að sparisjóðirnir myndu ekki bera ábyrgð á skuldbindingum félagsins kæmi til greina að frádráttur vegna þess væri lægri en ef sparisjóðirnir ættu hlutabréf í eigu SP-eignarhaldsfélags beint. Í svörum Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurnum rannsóknarnefndarinnar um hvort beita hefði átt sömu aðferðum við eiginfjárútreikninga Kistu og Scandinavian Holding kom fram að meðan áhætta einstakra sparisjóða vegna Kistu hefði eingöngu verið bundin við hlutafé í félaginu hefði ekki verið nauðsynlegt að krefjast hlutfallslegra samstæðureikningsskila til að koma í veg fyrir að sama eigið fé væri notað oftar en einu sinni.

Áhætta af verðbréfaeign er ekki meiri en sem nemur virði hennar, þ.e. ekki er hægt að tapa meiru en eigninni. Bókfært virði hlutafjár sparisjóðanna í Kistu var mun lægra en bókfært virði hlutafjár í Exista hf. sem Kista keypti af sparisjóðunum. Að því leytinu til var áhætta sparisjóðanna minni af óbeinni eign af bréfum í Exista hf. sem Kista átti en verið hefði af sömu eign ef hún hefði verið á bókum sparisjóðanna: tap sparisjóðanna gat ekki orðið meira af eigninni í Kistu en bókfært virði hennar og það var sannanlega lægra en virði hlutanna í Exista. Munurinn á virði hlutanna í Kistu annars vegar og Exista hins vegar felst í skuldsetningu fjárfestingarfélagsins, en þrír bankar lánuðu félaginu til að kaupa bréf af eigendum sínum.

Sparisjóðirnir innleystu hagnað af bréfum í Exista hf. með því að selja bréfin til Kistu, sem fékk fjármagn til kaupanna frá þremur bönkum. Þá hækkaði virði Kistu með gengishækkunum Exista hf. Með því að stofna sérstakt eignarhaldsfélag um hluta eignar sinnar í Exista hf., sem fjármagnað var af þriðja aðila, gátu sparisjóðirnir notið góðs af gengishækkunum bréfa í Exista hf. en minnkað íþyngjandi áhrif eignarinnar á eiginfjárgrunninn. Lánveitendur Kistu gátu hæglega litið svo á að lánin væru ekki einungis til félagsins sjálfs heldur myndu eigendur félagsins hlaupa undir bagga með félaginu ef á reyndi. Þeir sparisjóðir sem áttu hlut í Kistu áttu mikið undir að félagið myndi vaxa og dafna. Þeir voru einu eigendur þess og bréfin í Exista nær eina eign félagsins. Færi félagið í þrot má telja að slíkt yrði mikill álitshnekkir fyrir eigendur félagsins og að efast yrði um fjárhagslegan styrk þeirra. Raunin varð sú að sparisjóðirnir ábyrgðust lán eða tóku á sig skuldbindingar Kistu. Í því ljósi er sá söluhagnaður sem eigendur Kistu höfðu af því að selja félaginu hluti í Exista hf. lítill sem enginn, enda báru þeir á endanum áhættu af félaginu upp að því marki sem þeir ábyrgðust skuldir þess. Að þessu leytinu til var áhættan ekki eingöngu bundin við hlutafé sparisjóðanna í félaginu.

Frá því sparisjóðirnir fjárfestu í Kaupþingi hf. árið 1986 voru töluverð eignarhaldsleg og stjórnunarleg tengsl milli þeirra, þó hluti sparisjóðanna ætti í litlu samstarfi við aðra um eignarhald í félaginu. Auk þess að stofna Exista og Kistu til þess að hafa áhrif á eiginfjárútreikninga kunna sjónarmið um áhrif sölu á stórum eignarhlut á gengi bréfa að hafa komið til álita við stofnun þeirra. Forveri Exista hf. var stofnaður meðal annars vegna þess að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafði áhuga á að selja 12,6% hlut sinn í Kaupþingi hf. og var talið óheppilegt að of mikið framboð yrði af bréfum í félaginu. Sparisjóðabankinn, sem var fjórði stærsti eigandi Exista hf. í árslok 2005, hafði hug á að selja hluti sína í félaginu á árinu 2006. Sambærileg sjónarmið eiga við um áhrif sölu á svo stórum hluta bréfa í Exista á gengi þeirra. Af gögnum að dæma var fulltrúi sparisjóðanna, sem jafnframt var bankaráðsmaður í Sparisjóðabankanum, í samskiptum við stærsta eiganda Exista á þessum tíma um hlut sparisjóðanna í félaginu, enda þykir ljóst að svo stór hluti hefði ekki verið seldur án þess að meðeigendur yrðu upplýstir um það. Þótt ekki verði fullyrt um hver samskiptin voru hefði sala á bréfunum á markaði að öllum líkindum haft áhrif á gengi þeirra.

 


 

1 . Sjá nánari umfjöllun í 4. kafla.

2 . Alþingistíðindi, 1941, A-deild, bls. 147.

3 . Alþingistíðindi, 1941, A-deild, bls. 148.

4 . Alþingistíðindi, 1984–1985, A-deild, bls. 3331.

5 . Í lögunum var vísað til 3. málsl. 18. gr. þágildandi laga nr. 32/1978 um hlutafélög. Í ákvæðinu var fjallað um hömlur á viðskiptum með hlutabréf, en engar hömlur voru heimilar á viðskiptum með hlutabréf í fjölmennum félögum sem löggjafinn taldi að ættu að vera hindrunarlaus. Ákvæði 3. málsl. 18. gr. laganna hljóðaði svo: „Hömlur má þó ekki leggja á viðskipti með almenn hlutabréf milli aðila í hlutafélögum, þar sem hluthafar eru 200 eða fleiri.“

6 . Alþingistíðindi, 1984–1985, A-deild, bls. 3344–3345.

7 . Sjá b-lið 1. mgr. 24. gr. laganna þar sem sagði að sparisjóðsstjórn tæki ákvörðun um kaup og sölu hlutabréfa og annarra eignarhluta í félögum eða stofnunum sem sparisjóður ætti aðild að, sbr. einnig 33. gr. laganna.

8 . Alþingistíðindi, 1984–1985, A-deild, bls. 3345.

9 . Sbr. 16. gr. laga nr. 69/1941 um sparisjóði.

10 . Alþingistíðindi, 1984–1985, A-deild, bls. 3346.

11 . Alþingistíðindi, 1984–1985, A-deild, bls. 3333.

12 . Venja var að kalla þessar reglur BIS-reglur og kenna þær við Alþjóðagreiðslubankann (Bank of International Settlements). Við síðari yfirferð og uppfærslu regluverksins, með svokölluðum Basel II-reglum, voru eldri reglurnar kallaðar Basel I-reglur.

13 . Alþingistíðindi, 1992–1993, A-deild, bls. 1980.

14 . Sjá m.a. umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 2010, 5. bindi, bls. 13–14.

15 . Þetta nýmæli var rökstutt með tilvísun til þróunar á starfsumhverfi fjármálastofnana, m.a. í ríkjum innan Evrópubandalagsins, og nauðsyn þess að gera viðskiptabönkum og sparisjóðum kleift að laga starfsemi sína að frekari þróun af því tagi. Þó var áskilið að sérstakt dótturfélag yrði stofnað um þessa starfsemi, fyrst og fremst vegna þeirrar áhættu sem fylgir tryggingastarfsemi almennt. Samsvarandi ákvæði var að finna í dönskum lögum um viðskiptabanka og sparisjóði frá árinu 1991. Sjá Alþingistíðindi, 1992–1993, A-deild, bls. 1997.

16 . Undir ákvæðið þótti og eðlilegt að fella veðréttindi, þar sem þau eru í eðli sínu óbein eignarréttindi.

17 . Þær reglur voru settar 28. júní 1994 og voru í raun þær fyrstu sem settar voru um stórar áhættur, enda þótt ýmsar lagagreinar hefðu í gegnum tíðina takmarkað nokkuð áhættu sparisjóðanna. Reglugerðin nr. 366/1994 um hámark lána og ábyrgða viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana byggðist að miklu leyti á tilskipun 92/121/EBE, en lög nr. 43/1993 og mikið af því regluverki sem sett var vegna þeirrar löggjafar var til komið vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Sjá nánari umfjöllun í 4. kafla.

18 . Virkur eignarhlutur var skilgreindur í 3. mgr. 10. gr. laganna sem bein eða óbein hlutdeild sem næmi 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða önnur hlutdeild sem gerði kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi stofnunar.

19 . Eignarhlutir í fyrirtækjum sem mynduðu samstæðu með viðkomandi banka eða sparisjóði skyldu þó ekki teknir með í þessa útreikninga eða tímabundinn eignarhlutur í fyrirtæki samkvæmt 45 gr.

20 . Skyldi þar reikna með tímabundinn eignarhlut í fyrirtækjum, en ekki fyrirtækjum í samstæðu.

21 . Breytingin var gerð með vísan til Evrópuréttar og danskrar löggjafar. Sjá Alþingistíðindi, 1992–1993, A-deild, bls. 1998. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls bankanna 2008 og tengda atburði, 5. bindi, bls. 9–40, var vikið að því að með breytingunni hafi hætta á hagsmunaárekstrum í rekstri banka og sparisjóða aukist, og að það hefði getað ýtt undir aukna kerfisáhættu.

22 . Alþingistíðindi, 1992–1993, A-deild, bls. 2000.

23 . Sjá nánari umfjöllun í 4. kafla.

24 . Alþingistíðindi, 2002–2003, A-deild, bls. 1089.

25 . Hugtakið fjármálafyrirtæki er því víðara en lánastofnanir eða lánafyrirtæki. Þannig eru viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki allt lánastofnanir, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna, en lánafyrirtækjum er þó óheimilt að taka á móti innlánum, sbr. 2. mgr. 20. gr. laganna. Þau hafa hins vegar heimild til að kalla sig fjárfestingarbanka samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002.

26 . Í 20. gr. laganna eru tíundaðar þær starfsheimildir sem viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki geta fengið.

27 . Alþingistíðindi, 2002–2003, A-deild, bls. 1101.

28 . Alþingistíðindi, 2002–2003, A-deild, bls. 1108.

29 . Alþingistíðindi, 2002–2003, A-deild, bls. 1110.

30 . Alþingistíðindi, 2002–2003, A-deild, bls. 1111–1112.

31 . Alþingistíðindi, 2002–2003, A-deild, bls. 1112.

32 . Alþingistíðindi, 2002–2003, A-deild, bls. 1112.

33 . Alþingistíðindi, 1992–1993, A-deild, bls. 1999.

34 . Ákvæðinu hefur nú verið breytt og er sambærilegt ákvæði 5. mgr. 86. gr. gildandi laga nr. 161/ 2002 um fjármálafyrirtæki.

35 . Með lögum nr. 75/2010 var ákvæðinu breytt og er nú lagt bann við því að fjármálafyrirtæki eða dótturfélög þess veiti lán sem tryggð eru með veði í hlutabréfum eða stofnfjárbréfum útgefnum af fjármálafyrirtækinu sjálfu í a-lið 29. gr. laga nr. 161/2002.

36 . Skerpt var á ákvæði 30. gr. í lögum nr. 75/2010. Sjá nánari umfjöllun um ákvæðið og stórar áhættuskuldbindingar í 6. kafla.

37 . Lög nr. 77/2012 breyttu ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki hvað þetta varðar og hafa sparisjóðir sem starfa á staðbundnu og afmörkuðu starfssvæði ekki heimild til verðbréfaviðskipta fyrir eigin reikning eða fyrir þriðja aðila, sbr. það sem greinir frá hér aftar. Á hinn bóginn geta þeir aflað sér starfsleyfis sem verðbréfafyrirtæki.

38 . Gerðar eru minni kröfur til stofn- eða hlutafjár slíkra sparisjóða, en það skal að lágmarki nema 1 milljón evra, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 161/2002. Fyrir aðra sparisjóði gildir hærri viðmiðunarfjárhæð, eða 5 milljónir evra, sem er sambærileg þeim kröfum sem gerðar eru til viðskiptabanka, sbr. 2. mgr. sömu greinar laganna.

39 . Þegar þetta er ritað uppfylla aðeins tveir sparisjóðir þessar kröfur laganna, Afl sparisjóður og Sparisjóður Vestmannaeyja.

40 . Robert F. Bruner og Sean D. Carr, The Panic of 1907: Lessons Learned from the Market’s Perfect Storm, Hoboken 2007, bls. 145–150.

41 . Robert Sobel, The Great Bull Market: Wall Street in the 1920s, New York 1968, bls. 159.

42 . Simon Johnson og James Kwak, 13 Bankers: The Wall Street Takeover and the Next Financial Meltdown, New York 2011.

43 . Corporate Governance, Innovation and Economic Performance in the EU – CGEP, Brussel 2004, bls. 50–51.

44 . Simon Johnson og James Kwak, 13 Bankers: The Wall Street Takeover and the Next Financial Meltdown, New York 2011, bls. 35–37.

45 . Barry Ritholtz, Bailout Nation, Hoboken 2009, bls. 135.

46 . Sigurður Jóhannesson, „Frelsi á fjármagnsmarkaði“, Rætur Íslandsbanka: 100 ára fjármálasaga, ritstj. Eggert Þór Bernharðsson, Reykjavík 2004, bls. 186.

47 . Guðmundur Jónsson, „Myndun fjármálakerfis á Íslandi“, Rætur Íslandsbanka: 100 ára fjármálasaga, ritstj. Eggert Þór Bernharðsson, Reykjavík 2004, bls. 46.

48 . P. Englund og V. Vihriala, „Financial crisis in Finland and Sweden: Similar but not quite the same“, The great financial crisis in Finland and Sweden: The Nordic experience of financial liberalization, Cheltenham 2009.

49 . Seðlabanki Íslands, The Economy of Iceland 2006, 2006, bls. 31.

50 . Sjá umræðu í Guðmundur Jónsson, „Myndun fjármálakerfis á Íslandi“, Rætur Íslandsbanka: 100 ára fjármálasaga, ritstj. Eggert Þór Bernharðsson, Reykjavík 2004, bls. 11.

51 . P. Englund, „The Swedish banking crisis: Roots and consequences“, Oxford Review of Economic Policy 3. tbl. 15. árg. (1999).

52 . Um þetta er fjallað í 11. kafla, um fjármögnun.

53 . Skattaumhverfi hafði áhrif á þessa eftirspurn en rammagrein hér aftar um frestun skattgreiðslu af söluhagnaði hlutabréfa fjallar um þetta.

54 . Magnús Sveinn Helgason, „Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið“, viðauki 5 með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls bankanna 2008 og tengda atburði.

55 . „180 milljóna króna nýtt hlutafé á genginu 10,25“, Morgunblaðið, 6. október 2000. Um var að ræða nýtt hlutafé að andvirði um það bil 1,9 milljarða króna.

56 . „Sparisjóðir og dótturfélög ráða 23% atkvæða“, Morgunblaðið, 22. desember 1998.

57 . Hluthafar Scandinavian Holding voru Kaupþing hf., Sparisjóður Hafnarfjarðar, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóður vélstjóra, Sparisjóðabanki Íslands hf., Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Siglufjarðar.

58 . Magnús Sveinn Helgason, „Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið“, viðauki 5 með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls bankanna 2008 og tengda atburði.

59 . „Sala Kaupþings og sparisjóðanna á bréfum í FBA“, Morgunblaðið, 8. júní 1999.

60 . Slík lagaskylda hvílir á lífeyrissjóðum, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þá eru fjárfestingaheimildir verðbréfa- og fjárfestingasjóða ákveðnar í lögum sbr. lög nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði og fagfjárfestasjóði.

61 . Sjá nánar í 17. kafla, um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis.

62 . Skýrsla Gunnars Árnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

63 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

64 . Skýrsla Þrastar Leóssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóina, 14. desember 2012

65 . Skýrsla Jóns Axelssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

66 . Sjá nánari umfjöllun í 19. kafla, um Sparisjóðinn í Keflavík.

67 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina, 16. maí 2013; skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina, 21. maí 2013.

68 . Skýrsla Þorsteins Erlingssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 7. ágúst 2013.

69 . Skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

70 . Myndin vantelur 7,3 milljarða króna í söluhagnað sem Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis höfðu af sölu eignarhluta í Icebank hf. síðla árs 2007.

71 . Hér er þó rétt að nefna að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður bókfærðu töluverðan söluhagnað af eignarhluta sínum í Sparisjóðabankanum á árinu 2007, en hann var ekki færður undir tekjur af fjáreignum í ársreikningi, heldur „aðrar tekjur“. Fjallað er um sölu þessara sparisjóða á eignarhlutnum í 17. og 18. kafla.

72 . Hér eru ótalin áhrif Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda á árunum 2005 og 2006 en þeir, og síðar dótturfélög þeirra, voru meðal Exista-sparisjóðanna. Upp á vantar hluta tekna Byrs sparisjóðs af fjáreignum á árunum 2005–2007 og áhrif eignanna á tekjur sparisjóðanna því meiri en hér eru gefin upp.

73 . Einkum og sér í lagi vegna þess að þegar á reyndi ábyrgðust sparisjóðirnir stóran hluta skulda Kistu – fjárfestingarfélags ehf. og félagið því í reynd ekki með takmarkaða ábyrgð.

74 . Um Sparisjóðabanka Íslands og þátt Exista hf. í afkomu hans er fjallað í 31. kafla.

75 . Í lok árs 2007 hafði Sparisjóðabankinn selt hluta eignar sinnar í Exista hf. til Kistu og eignarhlutur sparisjóðanna í bankanum hafði minnkað töluvert. Þess vegna er hlutur Sparisjóðabankans á þessum tíma lítill. Þá skal bent á að bókfært virði hluta í Exista hf. árið 2005 var háð mati, þar sem bréfin voru óskráð og því ekki um eiginlegt markaðsverð að ræða.

76 . Hér er miðað við uppsafnaðan hagnað eða tap af fjáreignum og útlánum á árunum 2008–2011 á verðlagi ársins 2011 og stöðu eigna í árslok 2007 á sama verðlagi.

77 . Allar tölur í þessum samanburði hafa verið færðar á verðlag ársins 2011.

78 . Bréf Fjármálaeftirlitsins 28. maí 1999.

79 . Bréf Fjármálaeftirlitsins 28. maí 1999.

80 . Bréf eigenda Scandinavian Holding S.A. til Fjármálaeftirlitsins 30. júní 1999.

81 . Til einföldunar er ekki gert ráð fyrir skattgreiðslum í eignarhaldsfélaginu.

82 . Þessi dæmi og önnur sem á eftir fara eru aðeins ætluð sem dæmi til útskýringa á áhrifum eignfjárútreikninga miðað við mismunandi samsetningu efnahagsreikninga. Eiginfjárútreikningar eru flóknari en hér kemur fram og margt gert til einföldunar til þess að varpa skýrara ljósi á áhrifin. Hér eða í þeim dæmum sem á eftir fara er ekki um að ræða gagnrýni eða leiðréttingar á útreikningum sparisjóðanna eða Fjármálaeftirlitsins enda útreikningar einfaldaðir til muna hér í dæmaskyni.

83 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til eigenda Scandinavian Holding S.A. 12. ágúst 1999.

84 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðabanka Íslands hf. 20. október 1999.

85 . Bréf Sparisjóðabanka Íslands hf. til Fjármálaeftirlitsins 18. nóvember 1999.

86 . Bréf Fjármálaeftirlitsins 6. desember 1999.

87 . Minnisblað Fjármálaeftirlitsins um möguleika á stofnun eignarhaldsfélags til að halda utan um hluta eignarhluta sparisjóðanna í Kaupþingi hf., 29. maí 2001.

88 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Kristjáns Þorbergssonar hrl. 30. maí 2001.

89 . Nafni SP-eignarhaldsfélags hafði verið breytt á aðalfundi félagsins 19. júní 2002 og hét félagið Meiður frá þeim tíma, sbr. tilkynningu til fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands 14. október 2002.

90 . Bréf KPMG endurskoðunar hf. til Fjármálaeftirlitsins 30. ágúst 2003; bréf Fjármálaeftirlitsins til KPMG endurskoðunar hf. 16. september 2003.

91 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til sjö sparisjóða og Sparisjóðabanka Íslands hf. 29. júní 2004.

92 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 6. september 2004.

93 . Þó var í 55. gr. eldri laga nr. 113/1996 ákvæði um að við eiginfjárútreikning skyldi draga frá eignarhlut í félögum sem höfðu starfsheimildir samkvæmt 44. gr. laganna en þar féllu meðal annars undir félög sem stunduðu viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning.

94 . Bréf Kistu – fjárfestingarfélags ehf. til Fjármálaeftirlitsins 13. mars 2007.

95 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar 26. nóvember 2013.

96 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar 18. mars 2014.

97 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar 18. mars 2014.

98 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðabanka Íslands hf. 20. október 1999.

99 . Hafa má í huga að tryggingafélög teljast til fjármálafyrirtækja í þessu tilliti.

100 . „Búnaðarbankinn selur hlut sinn í Kaupþingi hf. til sparisjóðanna. Kaupverð bréfanna um 185 milljónir kr.“, Morgunblaðið 1. mars 1996. Í bók Ármanns Þorvaldssonar Frozen assets: How I lived Iceland’s boom and bust sem út kom árið 2009 kemur fram á bls. 101 að Kaupþing hafi verið metið á um 3 milljónir sterlingspunda þegar sparisjóðirnir keyptu 51% hlutinn árið 1996.

101 . Tilkynning frá Kauphöll Íslands um niðurstöðu í hlutafjárútboði Kaupþings hf., 13. október 2000.

102 . „Hlutabréf Kaupþings hf. skráð á aðallista Verðbréfaþings“, fréttavefur Kauphallar Íslands hf. 26. október 2000, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=EN&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=8502.

103 . „Flöggun frá SP-eignarhaldsfélagi ehf í Kaupþingi hf. og afnám hluthafasamkomulag[s]“, fréttavefur Kauphallar Íslands hf. 26. júní 2001, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=EN&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=10824.

104 . Skýrsla um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fyrir árið 2001; skýrsla um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðabanka Íslands hf. 2001; skýrsla um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 2001.

105 . Skýrsla um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fyrir árið 2001; skýrsla um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðabanka Íslands hf. 2001; skýrsla um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 2001.

106 . Samandreginn ársreikningur SP-eignarhaldsfélags ehf. 2001. Félagið fékk 1,2 milljarða króna lán frá Landsbanka Íslands hf. 22. júní 2001.

107 . Þó að gengi bréfa í Kaupþingi væri lægra en í október 2000 við útboð þess, þegar það var 15,00, var markaðsvirði Kaupþings orðið hærra vegna þess að útgefnum hlutabréfum hafði fjölgað umfram lækkun á gengi þeirra.

108 . Á hluthafalista Kaupþings samkvæmt skráningarlýsingu bankans 16. maí 2002 áttu þrír aðrir sparisjóðir hluti í Kaupþingi. Eyrasparisjóður átti 0,63% hlut, Sparisjóður Norðfjarðar átti 0,66% hlut og Sparisjóður Vestmannaeyja átti 1,34% hlut.

109 . Tilkynning Meiðs ehf. til hlutafélagaskrár 4. október 2002.

110 . Tilkynning til hlutafélagaskrár, 10. október 2002.

111 . „Kaupþing banki hf. – tilkynningarskyld viðskipti“, fréttavefur Kauphallar Íslands hf. 11. október 2002 kl. 10:09:54, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=IS&pagetype=newstypesnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=18820.

112 . „Kaupþing banki hf. – tilkynningarskyld viðskipti“, fréttavefur Kauphallar Íslands hf. 11. október 2002 kl. 10:08:14, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=EN&pagetype=newstypesnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=18819.

113 . Lokagengi hlutabréfa Kaupþings hf. í Kauphöllinni þann 11. október 2002 var 12,60.

114 . „Meiður orðinn stærsti hluthafi Kaupþings“, Morgunblaðið 22. október 2002.

115 . Magnús Sveinn Helgason, „Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið“, viðauki 5 með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls bankanna 2008 og tengda atburði, bls. 143.

116 . „Bakkabræður Holding kaupir meirihluta í Meiði ehf.“, fréttavefur Kauphallar Íslands hf. 27. desember 2002, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=IS&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=20128.

117 . „Bakkabræður kaupa stóran hlut í Kaupþingi“, Morgunblaðið 28. desember 2002.

118 . Samningur um kaup og sölu á hlutum í Meiði ehf., 27. desember 2002.

119 . „Bakkabræður SARL og Scandinavian Holding sameinast Meiði hf.“, fréttavefur Kauphallar Íslands 12. ágúst 2003, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=IS&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=25205.

120 . Sérfræðiskýrsla Hilmars A. Alfreðssonar, löggilts endurskoðanda Meiðs ehf., 11. ágúst 2003.

121 . Viðauki við hluthafasamkomulag hluthafa Meiðs ehf. frá því í desember 2002.

122 . „Búnaðarbanki Íslands – flöggun“, fréttavefur Kauphallar Íslands hf. 23. maí 2003, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=IS&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=24008.

123 . „Meiður kaupir 8,88% í Búnaðarbankanum“, Morgunblaðið, 24. maí 2003.

124 . „Niðurstöður hluthafafundar Búnaðarbanka Íslands 26. maí 2003“, fréttavefur Kauphallar Íslands hf. 27. maí 2003, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=IS&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=24069.

125 . „Bakkabræður SARL og Scandinavian Holding sameinast Meiði hf.“, fréttavefur Kauphallar Íslands 12. ágúst 2003, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=IS&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=25205.

126 . Í árshlutareikningi þremur mánuðum áður kom fram að liðurinn samanstæði nær eingöngu af eignarhlutum í félögum.

127 . „Kaupþing Búnaðarbanki – tilkynningaskyld viðskipti“, fréttavefur Kauphallar Íslands 2. mars 2004, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=IS&pagetype=newstypesnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=27762.

128 . Kaupthing Bank Annual Report, 2004; „Kaupþing Búnaðarbanki – niðurstöður hlutafjárútboðs“, fréttavefur Kauphallar Íslands 9. ágúst 2004, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=en&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=29032.

129 . „Erlendur Hjaltason ráðinn forstjóri Meiðs ehf.“, Morgunblaðið 18. september 2004.

130 . Upplýsingar um gengi hlutabréfanna eru fengnar frá Kauphöll Íslands.

131 . „Sala á hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf.“, fréttavefur forsætisráðuneytisins 28. júlí 2005, http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/1929.

132 . „Þrjú bindandi tilboð bárust í eignarhlut ríkisins í Símanum í stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar: 12 milljörðum eða 18% munaði á hæsta og lægsta tilboði“, Morgunblaðið 29. júlí 2005.

133 . „Hlutafjárútboði Skipta hf. lokið“, heimasíða Skipta ehf., http://skipti.is/fjarfestar/frettir/nanar/item354/.

134 . „Exista gerir tilboð í allt hlutafé Skipta“, Viðskiptablaðið 19. mars 2008.

135 . Tilkynning til Fyrirtækjaskrár 30. maí 2008.

136 . Exista Prospectus September 2006, skýrsla frá Kaupþingi banka hf.; „Exista kaupir VÍS“, Viðskiptablaðið 31. maí 2006; „Heildareignir Exista yfir 280 milljarða króna“, Viðskiptablaðið 31. maí 2006; ársskýrsla Vátryggingafélags Íslands hf. 2005.

137 . Ársskýrsla Vátryggingarfélags Íslands hf. 2005.

138 . Í ársskýrslu Vátryggingafélags Íslands hf. fyrir árið 2005 sést á bls. 72 að heildareignir félagsins voru 92,9 milljarðar króna. Þar kemur einnig fram að eignarhlutur vátryggingarfélagsins í bréfum Kaupþings banka hf. árið 2004 var 13,3 milljarða króna virði og heildareignir félagsins þá 43,1 milljarður króna.

139 . „Exista með 15,48% hlut í Sampo Group í Finnlandi“, fréttavefur Kauphallar Íslands 8. febrúar 2007, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=IS&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=36674.

140 . Sjá nánari umfjöllun um þessi viðskipti og ábyrgð Kaupþings banka vegna bréfa í Sampo Group í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 2010, 2. bindi, bls. 175.

141 . Umreiknað yfir í íslenskar krónur á árslokagengi.

142 . Sjá ársskýrslu Investor AB 2013, bls. 102.

143 . Ársreikningur Exista hf. 2007.

144 . „SEB Enskilda segir Exista nú berjast fyrir lífi sínu“, Morgunblaðið 23. janúar 2008.

145 . „Lækkun í kauphöll 463 milljarðar frá áramótum“, Morgunblaðið 24. janúar 2008.

146 . Hæstiréttur komst síðar að þeirri niðurstöðu í dómi 13. mars 2014 í máli nr. 450/2013 að einungis 1 milljarður króna hefði verið greiddur af þeim 50 sem leggja átti í hlutafélagið. Stjórnarmaður félagsins hefði gerst sekur um brot á 1. mgr. 16. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög þegar greitt var minna fyrir hlutafé en nam nafnvirði þess. Lögmaður Exista hf. var sakfelldur fyrir brot gegn 1. tölul. 153. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög með því að hafa sent villandi tilkynningu til fyrirtækjaskrár þar sem sagði að hlutafjárhækkunin hefði verið að fullu greidd til félagsins.

147 . Minnisblað bankastjóra Sparisjóðabanka Íslands hf. til bankaráðs, 15. september 2006. Minnisblaðið er birt í 31. kafla.

148 . Fundargerð bankaráðs Sparisjóðabanka Íslands hf., 19. september 2006.

149 . Tölvuskeyti Sigurðar Jónssonar til Guðmundar Haukssonar 1. nóvember 2006.

150 . Ítarlega er fjallað um fjárfestingar í fjármálafyrirtækjum og frádrátt frá eigin fé hér framar í kaflanum.

151 . Sá hagnaður myndaði síðan stofn til útreiknings arðgreiðslna til stofnfjáreigenda. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla, um eignarhald sparisjóðanna.

152 . Tölvuskeyti Finns Sveinbjörnssonar til Guðmundar Haukssonar og Geirmundar Kristinssonar 2. nóvember 2006. Tölvuskeytið er birt í heild sinni í 31. kafla.

153 . Minnisblað bankastjóra Sparisjóðabanka Íslands hf. til bankaráðs, 17. nóvember 2006.

154 . „Sparisjóðir stofna Kistu“, Fréttablaðið 22. desember 2006.

155 . Þessi bréfaskrif voru rakin nánar hér framar í kafla 10.4, um áhrif fjárfestinga á eiginfjárgrunn.

156 . Minnisblað til stjórnar Kistu fjárfestingarfélags ehf. frá Guðmundi Haukssyni sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 8. mars 2007.

157 . Minnisblað Jóns Halls Péturssonar, framkvæmdastjóra SPRON-Verðbréfa, 13. júní 2007.

158 . Tilkynning til fyrirtækjaskrár, 27. desember 2007.

159 . Sé litið til þess að hlutabréf í Exista hf. voru verðlögð í Kauphöllinni á töluvert hærra gengi en innra virði þeirra þá var eiginfjárhlutfallið með tilliti til markaðsvirðis í raun enn lægra.

160 . Innra virði er bókfært virði eigin fjár deilt með fjölda hluta.

161 . Minnisblað um stöðu Kistu – fjárfestingafélags hf., lagt fyrir stjórn félagsins 7. janúar 2008.

162 . Minnisblað Kistu – fjárfestingarfélags ehf. um verðmat á Exista hf., 25. janúar 2008.

163 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 23. janúar 2008.

164 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 28. janúar 2008.

165 . „Eigið fé Kistu aukið þegar eignir rýrna“, visir.is 12. febrúar 2008, http://www.visir.is/eigid-fe-kistu-aukid-thegar-eignir-ryrna/article/200880212084.

166 . Ábyrgðir gagnvart Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. og Glitni hf. voru endurnýjaðar nokkrum sinnum og giltu þar til í október og desember 2008. Um þær er fjallað hér aftar.

167 . Tölvuskeyti Jóns Halls Péturssonar til hluthafa Kistu 18. mars 2008; tölvuskeyti Jóns Halls Péturssonar til hluthafa Kistu 25. mars 2008.

168 . Á gjalddaga skuldabréfanna 15. júní 2008 var lokagreiðslum frestað um eitt ár eða til 15. júní 2009.

169 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 1. júlí 2008.

170 . Fundargerð stjórnar Kistu – fjárfestingarfélags ehf., 30. júní 2008.

171 . Fundargerð stjórnar Kistu – fjárfestingarfélags ehf., 1. júlí 2008. Sama dag var gerður samningur um kaup Kaupþings banka hf. á 340.966 hlutum í Exista hf. af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis á genginu 7,52 krónur á hlut. Sá samningur var með sama fyrirvara um samruna sparisjóðsins og bankans.

172 . Sjá frekari umfjöllun um fyrirhugaðan samruna í 17. kafla.

173 . Minnisblað Jóns Halls Péturssonar til stjórnar Kistu fjárfestingarfélags ehf., 12. júní 2008.

174 . Tölvuskeyti Jóns Halls Péturssonar til hluthafa Kistu – fjárfestingarfélags ehf. 27. júlí 2008.

175 . Fundargerð stjórnar Kistu – fjárfestingarfélags ehf., 27. júlí 2008.

176 . Fundargerð hluthafafundar Kistu – fjárfestingarfélags ehf., 30. september 2008.

177 . Fundargerð áhættunefndar Glitnis banka hf., 11. júní 2008.

178 . Bréf Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. til Kistu – fjárfestingarfélags ehf. 21. október 2008.

179 . Ársreikningur Kistu – fjárfestingarfélags ehf. 2009.