1 - Um rannsókn nefndarinnar

(einföld vefútgáfa)

1.1  Inngangur – tilefni og aðdragandi rannsóknar

Hinn 16. janúar 2003 undirrituðu Ólafur Ólafsson, f.h. Eglu hf., Margeir Daníelsson, f.h., Samvinnulífeyrissjóðsins, Finnur Ingólfsson, f.h. Vátryggingafélags Íslands hf. og Axel Gíslason, f.h. Eignarhaldsfélagsins Samvinnutryggingar, samning við Geir H. Haarde fjármálaráðherra og Valgerði Sverrisdóttur viðskiptaráðherra, f.h. íslenska ríkisins, um kaup fyrrnefndra félaga á 45,8% hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. Í samningnum kom fram[1] að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA (hér eftir „Hauck & Aufhäuser“) ætti 50% hlutafjár í Eglu hf., sem keypti rúmlega tvo þriðju hluta, eða 71,19%, af hlutnum. Heildarkaupverð samkvæmt samningnum var um 11,9 milljarðar íslenskra króna. Jafngilti þetta því að Hauck & Aufhäuser hefði í gegnum Eglu hf. keypt alls 16,3% hlut í Búnaðarbankanum en aðrir kaupendur samanlagt 29,5% hlut. Undir samninginn rituðu einnig Peter Gatti, f.h. Hauck & Aufhäuser, Kristján Loftsson, f.h. Kers hf. og Finnur Ingólfsson, f.h. Vátryggingafélags Íslands, sem eigendur alls útgefins hlutafjár í Eglu hf., meðal annars til staðfestingar tilteknum sérákvæðum samningsins sem vörðuðu félagið og fram komu í köflum 9, 11, 12 og 13 í samningnum.[2]

Eins og rakið verður nánar síðar í skýrslunni var þátttaka Hauck & Aufhäuser gegnum Eglu hf. í þessum kaupum á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum kynnt með þeim hætti beint og óbeint, bæði gagnvart viðsemjandanum við kaupin sem og íslenskum almenningi gegnum fjölmiðla, að um væri að ræða fjárfestingu þýska bankans sjálfs í Búnaðarbankanum fyrir alls um 4 milljarða íslenskra króna.

Allar götur frá þessum kaupum hafa ítrekað komið opinberlega fram efasemdir um að þátttaka þýska bankans hafi í reynd verið með þeim hætti sem kynnt var samkvæmt framangreindu. Hér á eftir fylgir stutt ágrip þar sem helstu atvik varðandi þetta eru rakin í grófum dráttum en nánar er fjallað um þau í síðari köflum skýrslunnar.

Nokkrum mánuðum eftir undirritun kaupsamningsins fóru að birtast í íslenskum fjölmiðlum vangaveltur um að aðrir aðilar hefðu staðið á bak við kaup þýska bankans í Búnaðarbankanum eða fjármagnað þau kaup en tilgreindir voru í samningnum. Stjórnarformaður Eglu hf., Ólafur Ólafsson, vísaði þessum fullyrðingum opinberlega á bug.

Rúmum tveimur árum eftir einkavæðingu Búnaðarbankans, á árinu 2005, hófst umfjöllun af þessum toga í fjölmiðlum á ný. Í júní það ár birtust opinberlega fréttir um að Hauck & Aufhäuser hefði selt sinn hlut í Eglu hf., sem eftir sölu á um 4% hlut í KB banka hf. í febrúar 2004 átti þá um 10% hlut í bankanum og var næststærsti hluthafi hans. Bankinn hafði þá fengið heitið Kaupþing banki hf.[3] Í sama mánuði sögðu fjölmiðlar fréttir af staðhæfingum og nánari röksemdum Vilhjálms Bjarnasonar, þá aðjúnkts við viðskiptaog hagfræðideild Háskóla Íslands, um að þýski bankinn hefði aldrei verið hluthafi í Búnaðarbankanum og að „íslenska þjóðin [hefði] verið blekkt með því að láta líta svo út að þýski bankinn [hefði] tekið þátt í kaupunum.“ Þýski bankinn hefði „aldrei ráðið nokkru um þennan meinta hlut, heldur hefðu aðrir farið með eignarhaldið“. Í því sambandi vísaði Vilhjálmur til ótilgreindra annarra aðila úr kaupendahópnum að hlutnum í Búnaðarbankanum, það er hinum svonefnda S-hópi, eða Kaupþings hf. Í fjölmiðlum strax í kjölfarið birtust þá annars vegar yfirlýsing frá Eglu hf. og hins vegar yfirlýsing sem sögð var stafa frá Hauck & Aufhäuser þar sem staðhæfingar og röksemdir Vilhjálms voru bornar til baka. Nokkur frekari umræða varð um þetta, og tengd atriði, í fjölmiðlum á þessum tíma.

Þegar kom fram á árið 2006 voru uppi kröfur á Alþingi, að því er virðist aftur með vísan til staðhæfinga Vilhjálms og röksemda hans fyrir þeim, um að sala ríkisins á eignarhlutnum í Búnaðarbankanum yrði rannsökuð. Forsvarsmenn Eglu hf. og Hauck & Aufhäuser höfnuðu á ný framangreindum staðhæfingum opinberlega. Í mars 2006 aflaði ríkisendurskoðun gagna og vann samantekt um málið sem send var formanni fjárlaganefndar Alþingis. Niðurstaða stofnunarinnar var að við athugun hennar hefði ekkert komið fram sem styddi staðhæfingar Vilhjálms. Um sama leyti setti Ögmundur Jónasson, þáverandi alþingismaður, fram skriflega fyrirspurn til viðskiptaráðherra um hvort ráðherrann gæti upplýst með óyggjandi hætti hvort Hauck & Aufhäuser hefði verið meðal raunverulegra kaupenda og síðar eigenda að Búnaðarbankanum sem hluti af Eglu hf. Í svari viðskiptaráðherra, sem lagt var fram í maí 2006, var vísað til athugunar Fjármálaeftirlitsins sem ráðuneyti hennar hefði óskað eftir og tekið fram að niðurstaðan hefði verið að ekkert benti til annars en að Hauck & Aufhäuser hefði verið hluthafi í Eglu hf. í samræmi við veittar upplýsingar í tengslum við sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. í janúar 2003.

Eftir fjármálahrunið í október 2008 setti Alþingi lög nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Samkvæmt lögunum skyldi sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis leita sannleikans um þessi atvik. Sú rannsóknarnefnd var sett á fót og skilaði skýrslu sinni 12. apríl 2010. Í henni var meðal annars fjallað um einkavæðingu ríkisbankanna, það er Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., í lok árs 2002 og upphafi árs 2003.[4] Í þeirri skýrslu var vitnað til verulegra efasemda Sigurjóns Þ. Árnasonar, áður bankastjóra Landsbankans og forstjóra rekstrarsviðs Búnaðarbankans fyrir einkavæðingu, um að þátttaka Hauck & Aufhäuser í henni hefði í reynd verið með þeim hætti sem opinberlega var kynnt.

Á síðustu árum hafa svo ítrekað komið fram opinberar staðhæfingar í þá átt að nafngreina íslenska fjármálafyrirtækið Kaupþing hf. sem þann aðila er í reynd hafi staðið að baki Hauck & Aufhäuser við einkavæðingu Búnaðarbankans, nánar tiltekið að aðkoma Hauck & Aufhäuser hafi þá einungis verið yfirvarp fyrir þátttöku Kaupþings hf. í þessum viðskiptum.

Ljóst er að efasemdir og vangaveltur um viðfangsefni þessarar rannsóknar hafa haldið áfram að koma upp í opinberri umræðu um langt skeið eftir að samningur um kaup á Búnaðarbankanum var undirritaður 16. janúar 2003. Á þessum tíma hefur fyrrverandi framkvæmdastjóri Eglu hf., Guðmundur Hjaltason, ítrekað neitað eða borið til baka umfjöllun um að þátttaka Hauck & Aufhäuser hafi verið með öðrum hætti en greint var frá opinberlega.

Víkur þá að beinum aðdraganda þeirrar rannsóknar sem skýrsla þessi varðar.

Hinn 19. maí 2016 ritaði umboðsmaður Alþingis stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis bréf þar sem hann upplýsti að honum hefðu nýverið borist upplýsingar og ábendingar um hvernig leiða mætti í ljós hver þátttaka þýska bankans Hauck & Aufhäuser hefði í reynd verið í kaupum á eignarhluta íslenska ríkisins með aðild hans að Eglu hf. Þessum upplýsingum hefði verið komið til umboðsmanns undir þeim formerkjum að hann gætti trúnaðar um uppruna þeirra. Í bréfi umboðsmanns sagði auk þess eftirfarandi:

„Eðli máls samkvæmt kunna upplýsingar af þessu tagi að hafa þýðingu um réttmæti þeirra upplýsinga sem íslensk stjórnvöld byggðu á við sölu á umræddum eignarhluta, þ. á m. við val á viðsemjanda um kaupin. Þá kann einnig að skipta máli hvort þau skilyrði sem fram komu í kaupsamningi um þessi viðskipti hafi að öllu leyti verið uppfyllt sem og þegar tekin var afstaða til beiðna kaupandans á síðari stigum um breytingar á samningsbundnum skyldum aðila. Í ljósi þess tíma sem liðinn er frá þessum atburðum tel ég ekki líkur á að þessar upplýsingar gefi, nema annað komi fram við frekari athugun á grundvelli þeirra, tilefni til rannsóknar þar til bærra yfirvalda vegna meintrar refsiverðar háttsemi. Ég hef því ekki talið skilyrði til að koma ábendingu um þetta mál á framfæri við þau yfirvöld.

Eftir að hafa starfað í rannsóknarnefnd um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, sem fjallaði m.a. um einkavæðingu bankanna, er mér hins vegar ljóst að lengi hafa verið uppi óskir um að aðild hins þýska banka að kaupunum verði skýrð nánar. Tilefnið eru efasemdir um að þáttur bankans hafi í raun verið með þeim hætti sem kynnt var af hálfu kaupenda eignarhlutans. […] Ég þekki það úr starfi mínu í rannsóknarnefndinni að þar var reynt að fá fram gleggri upplýsingar en áður hafði tekist um tilefni og aðild þýska bankans að kaupum á hlutnum í Búnaðarbanka Íslands hf. Þetta var liður í því að fá fram eins miklar upplýsingar og kostur var um einkavæðingu bankanna en athugun nefndarinnar beindist m.a. að því hvaða þýðingu erlend þátttaka í kaupum á hlut í Búnaðarbankanum hefði haft við ákvarðanir um val á kaupendum, sjá einkum bls. 250-261 í 1. bindi skýrslu RNA. Eftir þá vinnu, og með hliðsjón af því sem fram kemur í skýrslu nefndarinnar um þau atriði, tel ég að í reynd verði ekki bætt við upplýsingum sem hafa þýðingu um það hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna nema annars vegar komi til nýjar upplýsingar af hálfu þeirra sem unnu að sölu bankanna til viðbótar því sem þeir hafa áður greint frá og hins vegar að upplýst verði hver hafi í raun verið þátttaka þýska bankans í kaupum á hlutnum í Búnaðarbanka Íslands hf.“

Í bréfi umboðsmanns kemur fram að hann hefði talið ástæðu til að kanna upplýsingarnar sem honum hefðu borist nánar með tilliti til fyrri vitneskju sinnar um þessi mál og rannsókn þeirra og þess hvort á grundvelli þeirra væru líkur á að unnt væri leiða fram nýjar staðreyndir um hver þátttaka hins þýska banka hefði verið í reynd. Niðurstaða hans væri sú að frekari úrvinnsla þessara upplýsinga og tilteknar athuganir og gagnaöflun væri líkleg til þess. Hins vegar teldi umboðsmaður ljóst að hvorki lögbundnar starfsheimildir hans sjálfs né Ríkisendurskoðunar dygðu til að afla þeirra gagna sem þær upplýsingar sem hann hefði fengið vísuðu til, og jafnframt, eftir því sem þörf krefði, til að afla upplýsinga og skýringa hjá fyrirsvarsmönnum þeirra lögaðila sem kæmu við sögu í málinu. Markmið upplýsingaöflunar af þessu tilefni væri fyrst og fremst að draga saman og útbúa til birtingar samandregnar upplýsingar um hvernig atvik og aðkoma einstakra aðila að þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupunum hefðu verið, og þá með tilliti til þess að bera saman við þær upplýsingar sem kaupendurnir veittu íslenska ríkinu sem seljanda. Þar skipti m.a. máli að geta aflað þeirra gagna sem kynnu að vera tiltæk um tilflutning fjármuna í tengslum við kaupin.

Umboðsmaður tók í kjölfarið fram að í ljósi þeirrar reynslu sem hann hefði af því að hafa unnið að slíku verkefni undir áþekkum lagareglum og nú væri að finna í lögum nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir, og í samræmi við það hlutverk sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis væri falið samkvæmt 1. gr. þeirra laga, hefði hann ákveðið að koma þeirri ábendingu á framfæri við nefndina að ef Alþingi teldi rétt að freista þess að fá fram og birta nýjar upplýsingar um þátttöku Hauck & Aufhäuser að kaupunum í Búnaðarbankanum væri eðlilegast að unnið yrði að því verkefni á grundvelli laga nr. 68/2011. Þá kynni jafnframt að vera tilefni til þess að bera nýjar upplýsingar saman við upplýsingar sem stjórnvöldum voru látnar í té á sínum tíma og við skilyrði sem sett voru af hálfu ríkisins við kaupin. Með tilliti til efnis laga nr. 68/2011 tók umboðsmaður fram að í þeim upplýsingum sem hann hefði kynnt sér kæmi ekkert fram sem gæfi ástæðu til að ætla að þeir sem tóku ákvörðun um og unnu að sölu á umræddum eignarhluta ríkisins hefðu haft vitneskju um þau atriði sem kæmu fram í þeim upplýsingum sem vísað væri til í bréfi umboðsmanns.

Fjallað var um bréf umboðsmanns á fundum stjórnskipunar– og eftirlitsnefndar Alþingis 20. og 24. maí 2016 og sótti umboðsmaður báða fundina. Á síðari fundinum var fjallað um drög að ályktun Alþingis um rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. Á fundi nefndarinnar 26. maí 2016 samþykktu allir viðstaddir nefndarmenn fyrirliggjandi drög að slíkri ályktun.

Hinn 2. júní 2016 samþykkti Alþingi síðan ályktun í samræmi við ákvæði 1. gr. laga nr. 68/2011 um að fram færi rannsókn á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA (,,Hauck & Aufhäuser“) í kaupum á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. 52 þingmenn greiddu atkvæði með ályktuninni en 11 voru fjarverandi. Var þar jafnframt mælt fyrir að rannsóknin yrði falin einum einstaklingi sem forseti Alþingis skipaði samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 68/2011, sem drægi saman og birti upplýsingar um málsatvik og aðkomu einstakra aðila að þátttöku þýska bankans í kaupunum með tilliti til þeirra upplýsinga sem kaupendur veittu íslenska ríkinu sem seljanda og stofnunum þess.[5]

Með vísan til þessarar ályktunar Alþingis og í samræmi við 2. gr. laga nr. 68/2011 skipaði forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, Kjartan Bjarna Björgvinsson, dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, til að stýra rannsókninni. Í framhaldinu var komið upp skrifstofu og vinnuaðstöðu fyrir nefndina í húsnæði Alþingis að Austurstræti 14 og síðar í húsnæði þingsins við Kirkjustræti. Hinn 1. september var Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá embætti Héraðssaksóknara, ráðinn starfsmaður við rannsóknina. Meðal þeirra sem hafa veitt nefndinni liðsinni við ráðgjöf og ákveðin verkefni eru Heiðar Þór Guðnason, kerfisstjóri, dr. Páll Hreinsson, dómari við EFTA-dómstólinn, Sigríður Benediktsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. Pétur Hrafn Árnason hafði umsjón með prófarkalestri og Anna Sigríður Guðfinnsdóttir aðstoðaði nefndina við útgáfu skýrslunnar. Þá veittu þeir Fjölnir Sæmundsson, Guðmundur Halldórsson, Gústaf Anton Ingason og Ragnar Svanur Þórðarson, starfsmenn Héraðssaksóknara, aðstoð við upptöku á vitnaskýrslum fyrir nefndinni og fyrir dómi, auk þess að birta vitnum kvaðningar til að koma fyrir dóm þegar þess þurfti við. Loks er starfsmönnum Alþingis þakkað fyrir margháttaða aðstoð við störf rannsóknarnefndarinnar.

1.2  Viðfangsefni rannsóknarinnar

Við lestur þessarar skýrslu og frekari umræðu um störf nefndarinnar er nauðsynlegt að hafa í huga ákveðin grundvallaratriði sem gilda um störf rannsóknarnefnda sem Alþingi skipar. Um slíkar nefndir gilda lög nr. 168/2011, um rannsóknarnefndir. Samkvæmt þeim lögum er það meginhlutverk rannsóknarnefndar að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum í tilteknu máli, eins og Alþingi hefur skilgreint það í umboði sínu til nefndarinnar, sbr. 1. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 168/2011.

Eins og áður er rakið tók Alþingi ákvörðun um þessa rannsókn í því skyni að leiða í ljós málsatvik og aðkomu einstakra aðila að þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupum á eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. með tilliti til þeirra upplýsinga sem kaupendur veittu íslenska ríkinu sem seljanda og stofnunum þess, og jafnframt að rannsakað yrði hvernig þátttöku Hauck & Aufhäuser var háttað með tilliti til þeirra upplýsinga sem kaupendur að hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. veittu íslenska ríkinu og stofnunum þess.

Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að fjalla í þessari skýrslu um þær upplýsingar sem fyrirsvarsmenn Eglu hf., Samvinnulífeyrissjóðsins, Vátryggingafélags Íslands hf. og Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga, svo og umboðsmenn þessara aðila, veittu íslenska ríkinu fyrir og eftir undirritun kaupsamnings um kaup hlutabréfa í Búnaðarbankanum 16. janúar 2003, og einnig Fjármálaeftirlitinu í kjölfarið. Það fellur hins vegar utan marka þessarar rannsóknar að fjalla um hvernig íslensk stjórnvöld stóðu almennt að einkavæðingu ríkisbankanna á árunum 2002-2003. Um síðara atriðið er auk þess fjallað ítarlega í fyrrnefndri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, ,,Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir“, sem út kom 12. apríl 2010.[6]

Í störfum rannsóknarnefnda almennt séð geta komið upp álitamál um hvort grundvöllur sé fyrir því að tilteknir einstaklingar eða lögaðilar skuli sæta refsiábyrgð eða sérstökum stjórnsýsluviðurlögum vegna háttsemi sinnar.[7] Leggja verður áherslu á að rannsóknarnefndinni, sem stofnað var til með ályktun Alþingis frá 2. júní 2016 og skilar nú af sér skýrslu þessari, var ekki falið að taka neina slíka afstöðu, það er til þess hvort einstaklingar eða lögaðilar gætu hugsanlega borið lagalega ábyrgð með þeim hætti sem greinir í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 68/2011 vegna þeirra atriða sem rannsóknin beinist að. Með hliðsjón af þeim tíma sem liðinn er frá því að atburðir gerðust sem þessi rannsókn hefur beinst að, sem og eðli rannsóknarefnisins, verður jafnframt að leggja til grundvallar að sökum ákvæða IX. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um fyrningu geti ekki lengur komið til þess að einstaklingar eða lögaðilar yrðu dregnir til refsiábyrgðar vegna nokkurrar þeirrar háttsemi sem skýrsla þessi varðar, hvernig sem slík háttsemi þætti horfa við hugtaksskilyrðum refsiákvæða einum og sér á hverjum tímapunkti.[8]

Af þessum sökum er engin afstaða tekin til þess í þessari skýrslu hvort tilteknir einstaklingar eða lögaðilar hafi hugsanlega gerst sekir um refsiverða háttsemi. Þar sem enginn þeirra einstaklinga sem kvaddur var fyrir nefndina féll undir ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 168/2011 áttu ákvæði 10. gr. sömu laga ekki við um aðstæður neins þeirra. Í 1. mgr. 10. gr. laganna er fjallað um rétt einstaklinga til aðstoðarmanns að eigin vali en í 2. mgr. 10. gr. er mælt fyrir um rétt manna til aðgangs að gögnum málsins, á meðan það skaðar ekki rannsóknarhagsmuni.

1.3  Málsmeðferð og rannsóknarheimildir

Það leiðir af 1. mgr. 4. gr. laga nr. 68/2011 að rannsóknarnefnd er í störfum sínum óháð fyrirmælum frá öðrum, þar með talið Alþingi. Í sama ákvæði er einnig mælt fyrir um að nefndarmenn skuli jafnframt vera óhlutdrægir og óvilhallir gagnvart þeim stofnunum, fyrirtækjum, einstaklingum og öðrum sem nefndin hefur til athugunar. Sama á við um starfsmenn og aðstoðarmenn rannsóknarnefndarinnar að öðru leyti. Samkvæmt 1. mgr.

4. gr. er það einnig í verkahring rannsóknarnefndar að skera úr um hæfi starfsmanna nefndarinnar. Um sérstakt hæfi nefndarmanna og starfsmanna fer eftir sömu reglum og fram koma í 3. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 4. gr.

Á starfstíma nefndarinnar gerði Gísli Guðni Hall hrl., lögmaður Ólafs Ólafssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Eglu hf., og Guðmundar Hjaltasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra sama félags, athugasemdir við hæfi Finns Þórs Vilhjálmssonar starfsmanns nefndarinnar til að koma að rannsókninni, á þeim forsendum að sambýliskona hans starfaði sem lögmaður hjá Advel lögmönnum, sem áður hét Fulltingi. Var þá vísað til þess að meðal eigenda þeirrar lögmannsstofu væri Kristinn Hallgrímsson, hrl., sem áður hafi verið lögmaður hins svonefnda S-hóps sem festi kaup á Búnaðarbankanum árið 2003.

Rannsóknarnefndin taldi umræddar athugasemdir ekki eiga við rök að styðjast. Leit nefndin þá meðal annars til þess að ekkert í gögnum hennar bendir til þess að sambýliskona Finns hafi tengst atvikum málsins eða fjallað um þau í starfi sínu, enda starfaði hún ekki sem lögmaður, og hafði raunar ekki lokið laganámi, á þeim tíma sem þau áttu sér stað. Enn fremur var það afstaða nefndarinnar að Kristinn Hallgrímsson hafi ekki komið að þeim atvikum sem rannsókn nefndarinnar laut að með þeim hætti að aðstæður væru fallnar til þess að draga óhlutdrægni Finns í efa vegna fyrrgreindra tengsla sambýliskonu hans við Kristin, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.[9]

Fjallað er um heimildir rannsóknarnefnda Alþingis í 7. og 8. gr. laga nr. 168/2011. Samkvæmt 7. gr. er sérhverjum, jafnt einstaklingum, stofnunum sem lögaðilum, skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té upplýsingar, gögn og skýringar sem hún fór fram á. Undir hugtakið gögn í þessum skilningi falla m.a. skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir, samningar og önnur gögn sem nefnd óskar eftir í þágu rannsóknar, hvort sem þau eru prentuð (skrifleg) eða á rafrænu formi. Þagnarskylda stendur ekki í vegi fyrir rannsókn nefndarinnar því að almennt er skylt að verða við kröfu hennar um að veita upplýsingar þó að þær séu háðar þagnarskyldu. Frá þessu gildir þó sú undantekning að lögmaður, endurskoðandi eða annar aðstoðarmaður verður ekki krafinn upplýsinga sem honum hefur verið trúað fyrir út af rannsókn nefndarinnar nema með leyfi þess sem í hlut á, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 168/2011.

Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laganna er heimilt að bera ágreining um upplýsingaskyldu samkvæmt lögunum undir héraðsdóm á grundvelli XV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ekki kom til þess í starfi nefndarinnar að mál væri lagt fyrir dóm til úrskurðar um upplýsingaskyldu.

Á grundvelli framangreindra rannsóknarheimilda fékk nefndin aðgang að upplýsingum úr gögnum sem lágu til grundvallar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá 12. apríl 2010 um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði og vistaðar eru hjá Þjóðskjalasafni Íslands. Þá fékk nefndin aðgang að upplýsingum úr kerfum Arion banka hf., Deloitte ehf., Fjármálaeftirlitsins, forsætisráðuneytisins, héraðssaksóknara (áður embætti sérstaks saksóknara), Íslandsbanka hf., Kauphallar Íslands hf., Kaupþings ehf. (áður slitastjórn Kaupþings), Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hf. og Ríkisendurskoðunar. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að eftir að rannsóknarnefnd Alþingis lauk störfum 12. apríl 2010 hefur umtalsvert magn gagna komið í vörslur ofangreindra stofnana og aðila sem varpað hafa skýrara ljósi á þau atvik sem þessi rannsókn tekur til. Allir þessir aðilar brugðust greiðlega við beiðnum nefndarinnar og færir hún þeim öllum þakkir fyrir veitta aðstoð.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 168/2011 var nefndinni heimilt að kveðja menn til skýrslutöku. Nánari grein er gerð fyrir atriðum varðandi skýrslutökur nefndarinnar í kafla 1.5 hér á eftir.

Á starfstíma sínum hafði nefndin heimasíðu þar sem veittar voru upplýsingar um skipan og störf hennar. Jafnframt var almenningi veitt færi á að koma að ábendingum til nefndarinnar um hvaðeina sem varðaði rannsóknina. Bárust nefndinni nokkrar ábendingar en engin þeirra varð þó tilefni frekari athugunar.

Rannsóknarheimildir nefndarinnar tóku ekki til erlendra stjórnvalda og einkaaðila. Nefndin lét eigi að síður á það reyna hvort afla mætti upplýsinga frá erlendum stjórnvöldum. Þannig var þýska fjármálaeftirlitinu (Bundesanstalt für Finanzdienstleistungsaufsicht, „BaFin“) ritað bréf 29. september 2016 þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort stofnunin byggi yfir gögnum um raunverulegt eignarhald Hauck & Aufhäuser á Eglu hf. á tímabilinu janúar 2003 til loka ársins 2005. Í bréfi BaFin frá 18. nóvember 2016 bar eftirlitið fyrir sig þagnarskyldu um þau málefni og vísaði til þess að samkvæmt gildandi ákvæðum þýskra laga gæti stofnunin einungis miðlað upplýsingum um fjármálafyrirtæki sem ekki væru opinberar til Fjármálaeftirlitsins hér á landi. Fyrirspurn rannsóknarnefndarinnar um þetta atriði var því ekki svarað. Rannsóknarnefndin leitaði í kjölfarið til Fjármálaeftirlitsins um að það beindi sambærilegu erindi til BaFin og nefndin hafði áður sent. Fjármálaeftirlitið sendi tölvubréf með slíkri fyrirspurn 25. nóvember 2016. Með bréfi dags. 21. desember 2016 hafnaði BaFin erindi Fjármálaeftirlitsins.

1.4  Um þagnarskyldu og birtingu trúnaðarupplýsinga

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 168/2011 er skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að veita upplýsingar þó að þær séu háðar þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, sérstökum reglum um utanríkismál, öryggi ríkisins eða fundargerð ríkisstjórnar og ráðherrafunda og fundargerðir nefnda Alþingis. Sama gilti um upplýsingar sem óheimilt var að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki.

Vegna framangreinds lagaákvæðis fékk rannsóknarnefndin í hendur trúnaðargögn frá íslenskum stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum sem vörðuðu viðfangsefni rannsóknarinnar og um var beðið. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 168/2011 hvílir þagnarskylda á nefndarmönnum og starfsmönnum hennar um upplýsingar sem leynt eiga að fara. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. sömu laga stendur þessi þagnarskylda nefndarmanna þó ekki í vegi fyrir því að nefndin geti birt upplýsingar í skýrslu sinni til Alþingis sem annars væru háðar þagnarskyldu, ef nefndin telur slíkt nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöður sínar. Nefndin skal þó því aðeins birta upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga, þ.m.t. fjármál þeirra, að verulegir almannahagsmunir af því að birta upplýsingarnar vegi þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut á.

Á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis eru í skýrslu þessari birtar upplýsingar sem að öðrum kosti væru undanþegnar aðgangi almennings. Þannig er í skýrslunni gerð grein fyrir efni tölvupóstsamskipta milli starfsmanna fjármálafyrirtækja, vinnuskjölum, samningsdrögum og öðrum sambærilegum gögnum. Á sama hátt er fjallað um fjárhagsmálefni þeirra fjármálafyrirtækja sem undir rannsóknina falla og þeirra aðila sem komu að málinu á sínum tíma að því leyti sem þörf er á til að útskýra rannsóknarefnið og rökstyðja niðurstöður nefndarinnar. Í samræmi við fyrrgreint ákvæði er á hinn bóginn ekki fjallað um persónuleg málefni einstaklinga nema almannahagsmunir af því að birta upplýsingarnar vegi þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut á að mati nefndarinnar.

1.5  Skýrslutökur nefndarinnar, sbr. 8. gr. laga nr. 68/2011

Á starfstíma nefndarinnar neytti nefndin heimildar í 8. gr. laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir, til að taka skýrslur af einstaklingum. Nær allar skýrslurnar voru teknar upp í hljóði og mynd, þar á meðal allar þær sem rannsóknarnefndin taldi mikilvægastar í ljósi rannsóknarefnisins.

Fjórir einstaklingar, Ólafur Ólafsson, fyrrverandi stjórnarformaður Eglu hf., Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri sama félags, Sigurður Einarsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings hf. og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri sama fyrirtækis mættu ekki til boðaðrar skýrslutöku á vegum nefndarinnar.[10] Af þeim sökum beindi rannsóknarnefndin því erindi, dags. 22. nóvember 2016, til Héraðsdóms Reykjavíkur að tekin yrði skýrsla af þessum einstaklingum. Í þinghaldi fyrir Héraðsdómi 23. nóvember 2016 kröfðust Ólafur, Guðmundur og Hreiðar Már þess að dómari í málinu viki sæti. Með úrskurði sem kveðinn var upp samdægurs var þessari kröfu hafnað. Ólafur, Guðmundur og Hreiðar Már kærðu úrskurðinn til Hæstaréttar sama dag. Þann 28. nóvember 2016 staðfesti Hæstiréttur úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Þegar beiðni rannsóknarnefndar var tekin aftur fyrir í Héraðsdómi 8. desember 2016 báru Guðmundur og Ólafur brigður á að þeim væri skylt að svara spurningum nefndarinnar. Byggðist málflutningur þeirra á því að Alþingi hefði ekki haft heimild til að mæla fyrir um rannsókn á þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupum á 45,8% eignarhlut íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. þar sem slíkt samræmdist ekki ákvæðum laga nr. 68/2011. Þá töldu þeir að við meðferð málsins hefði ekki verið gætt réttinda þeirra að lögum.

Með úrskurði, dags. 15. desember 2016, hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur málatilbúnaði þeirra í tengslum við heimild Alþingis til að mæla fyrir um skipun nefndarinnar og þar með heimild nefndarinnar til að rannsaka málið á grundvelli laga nr. 68/2011. Héraðsdómur taldi hins vegar að þegar litið væri til viðfangsefnis rannsóknarinnar, stöðu Guðmundar og Ólafs við kaupin á Búnaðarbanka Íslands hf., svo og afstöðu þeirra til beiðni rannsóknarnefndarinnar um að þeir gæfu skýrslu fyrir dómi, yrði að líta svo á að þeim væri í raun gert að vitna gegn sjálfum sér í máli sem gæti valdið þeim alvarlegum mannorðshnekki. Taldi Héraðsdómur að við þessar aðstæður gæti þeim ekki verið skylt, gegn vilja sínum, að gefa skýrslu sem vitni með þeim skyldum og þeirri ábyrgð sem því fylgdi að lögum. Þar sem tilefni rannsóknarinnar beindist í raun að framgöngu þeirra í viðskiptunum taldi Héraðsdómur að 4. mgr. 10. gr. laga nr. 68/2011 og 1. mgr. 118. gr. laga nr. 88/2008 megnuðu ekki að tryggja þeim þá réttarvernd sem fælist í meginreglunni um þagnarrétt, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Í þessu ljósi yrði að játa Guðmundi og Ólafi heimild til þess að skorast með öllu undan því að gefa vitnaskýrslu fyrir dómi í málinu.

Rannsóknarnefndin skaut úrskurðum Héraðsdóms til Hæstaréttar með kæru 16. desember þar sem þess var krafist að skýrslutakan af Guðmundi og Ólafi færi fram. Hæstiréttur féllst á kröfur nefndarinnar með dómum sem kveðnir voru upp 17. janúar 2017. Taldi Hæstiréttur að ekki yrði fyrirfram úr því skorið hvort spurningar sem rannsóknarnefndin hygðist leggja fyrir Guðmund og Ólaf væru þess eðlis að ákvæði 1. mgr. 118. gr. laga nr. 88/2008 og 4. mgr. 10. gr. laga nr. 68/2011 tæki til þeirra, en heimild til handa Guðmundi og Ólafi til þess að skorast með öllu undan því að gefa vitnaskýrslu fyrir dómi yrði ekki fundin stoð í þessum lagaákvæðum.

Í kjölfarið tók rannsóknarnefndin skýrslu af Ólafi Ólafssyni og Hreiðari Má Sigurðssyni í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. janúar 2017. Þann 1. febrúar 2017 tók nefndin skýrslu af Sigurði Einarssyni en 8. febrúar af Guðmundi Hjaltasyni.

Rannsóknarnefndin ræddi enn fremur við nokkra erlenda aðila sem féllu ekki undir ákvæði laga nr. 168/2011 um skýrslutökur fyrir nefndinni. Meðal þeirra voru Helmut Landwehr, fyrrverandi meðeigandi í Hauck & Aufhäuser, sem nefndin ræddi við 4. október 2016. Þá ræddi nefndin við Edward Williams, fyrrverandi starfsmann HSBC-banka, hinn 12. október 2016, en hann var framkvæmdanefnd um einkavæðingu og íslenska ríkinu til ráðgjafar við sölu hlutarins í Búnaðarbankanum.

Rannsóknarnefndin óskaði einnig eftir að ræða við Peter Gatti, fyrrverandi framkvæmdastjóra Hauck & Aufhäuser, Martin Zeil, fyrrverandi forstöðumann lögfræðisviðs bankans, Ralf Darpe, starfsmann Société Générale og Eggert Jónas Hilmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra lögfræðisviðs dótturfélags Kaupþings hf., og síðar Kaupþings banka hf., í Lúxemborg, Kaupthing Bank Luxembourg S.A.[11] Þeir Zeil og Eggert kváðust ekki getað svarað fyrirspurnum nefndarinnar vegna reglna um bankaleynd í Lúxemborg og Þýskalandi.[12] Peter Gatti og Ralf Darpe svöruðu hins vegar ekki erindum nefndarinnar. Í ljósi þeirra upplýsinga sem Zeil og Eggert veittu um þagnarskyldu samkvæmt fyrrnefndum erlendum lögum og þess að nefndin hefur ekki valdheimildir til að afla slíkra upplýsinga utan íslenskrar lögsögu taldi nefndin ekki tilefni til að freista þess frekar að fá aðra erlenda aðila í Þýskalandi og Lúxemborg til að ræða við nefndina.

1.5.1 Meginatriði úr munnlegum framburðum fyrir nefndinni

Hér á eftir fylgja stutt yfirlit um meginatriði úr framburðum einstakra skýrslugjafa sem kallaðir voru fyrir nefndina að því leyti sem nefndin telur þá hafa þýðingu fyrir umfjöllun nefndarinnar. Eftir atvikum er svo vitnað nánar til framburða, og til einstakra atriða úr þeim, þar sem við á í umfjöllun í skýrslunni og tilefni telst til.

1.5.1.1 Ólafur Ólafsson

Í vitnisburði Ólafs Ólafssonar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 30. janúar 2017, kom fram að hann teldi með öllu ótækt að stóla á minnið um viðfangsefni rannsóknarinnar án þess að honum yrðu veittar upplýsingar fyrirfram um hvað rannsóknarnefnd hygðist spyrja hann. Kvaðst hann ekki geta svarað því nákvæmlega hvar hann hefði starfað á umræddum tíma. Enn fremur kvaðst hann ekki geta lýst því hver hans þáttur hefði verið í tilboðsgerð S-hópsins og samningaviðræðum við íslensk stjórnvöld um kaup hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Í máli hans kom hins vegar fram að hann hefði talið það óðs manns æði fyrir Íslendinga að taka þátt í kaupum á banka án þess að fá erlenda sérfræðiaðstoð og því hefði Société Générale verið fenginn til að vera hópnum innan handar. Þá kom fram að hann sjálfur og Guðmundur Hjaltason hefðu verið helst í samskiptum við starfsmenn Société Générale fyrir hönd S-hópsins en hann myndi það ekki nákvæmlega. Ólafur staðfesti að starfsmenn Société Générale hefðu átt virkan þátt í að tengja Hauck & Aufhäuser inn í S-hópinn og að Michael Sautter, starfsmaður franska bankans og ráðgjafi S-hópsins, hefði átti í mestum samskiptum við þýska bankann en hann hefði sjálfur ekki heyrt bankans getið áður.

Aðspurður um hvers vegna hann hefði talið Hauck & Aufhäuser heppilegan kost á sínum tíma svaraði Ólafur til að þýski bankinn hefði verið með mjög öfluga einkabankaþjónustu í Lúxemborg sem hefði verið sams konar starfsemi og Búnaðarbankinn hefði verið að byrja á. S-hópurinn hefði enn fremur talið að Hauck & Aufhäuser gæti „hjálpað mjög mikið upp á að tryggja rekstur Búnaðarbankans“.

Ólafur sagði í framburði sínum fyrir dómi að eftir því sem hann best vissi, en hann þyrfti þó að fara í gegnum alla samninga í því sambandi til að staðfesta, væru allar þær upplýsingar sem íslenska ríkinu voru veittar á þessum tíma, eða annars sú aðkoma Hauck & Aufhäuser sem bæði kaupsamningurinn og fylgigögn hans kváðu á um, og kynnt voru í fjölmiðlum samhliða kaupunum, réttar og nákvæmar varðandi aðkomu Hauck & Aufhäuser. Ólafur sagðist ekki muna hvort einhverjar ráðstafanir hefðu verið gerðar, t.d. með samningum, til að draga úr eða girða fyrir fjárhagslega áhættu Hauck & Aufhäuser af viðskiptunum. Þá kvaðst Ólafur ekki muna hvort einhverjir aðrir aðilar en þeir sem stóðu að kaupsamningnum við íslenska ríkið hefðu komið að kaupum S-hópsins, t.d. með samningum.

Í framburði sínum kvaðst Ólafur ekki hafa hugmynd um og að hann myndi ekki eftir því hvort Kaupþing hf. hafi komið að fjármögnun kaupa einhvers þeirra sem tilgreindir voru sem kaupendur að hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Aðspurður um hvort rétt væri að Hauck & Aufhäuser hefði tekið „fullan þátt í kaupunum á kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. í gegnum kaup sín í Eglu hf.“ svaraði Ólafur að þeir hefðu verið „að fullu hluthafar í Eglu hf.“ og hann hefði „ekki verið upplýstur um annað af þeim“. Þá kvaðst Ólafur ekki geta varpað ljósi á hvort fullyrðingar Guðmundar Hjaltasonar, framkvæmdastjóra Eglu hf., í fjölmiðlum um að hann vissi ekki til þess að Hauck & Aufhäuser hefði verið „leppur fyrir aðra aðila“, væru réttar og nákvæmar. Enn fremur sagðist Ólafur ekki muna eftir því hvort með þessum staðhæfingum Guðmundar hefði verið eitthvað látið ósagt sem þýðingu gat hafa talist um aðkomu þýska bankans að einkavæðingu Búnaðarbankans“. Aðspurður um fullyrðingar Sigurjóns Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans og framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Búnaðarbankans, í skýrslu hjá Rannsóknarnefnd Alþingis árið 2009, að Hauck & Aufhäuser hafi verið fulltrúi fyrir aðra aðila og að það hafi verið gerður einhvers konar framvirkur samningur um viðskipti bankans, sagði Ólafur að honum vitanlega ætti það ekki við rök að styðjast og að hann myndi „ekki eftir neinu svona“.

1.5.1.2 Guðmundur Hjaltason

Í vitnisburði Guðmundar Hjaltasonar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur kom fram að hann hefði á þeim tíma sem kaup Eglu hf. á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum fóru fram verið framkvæmdastjóri Eglu hf., sem og framkvæmdastjóri hjá Samskipum hf. og framkvæmdastjóri Kers hf. Í framburði hans kom fram að hann hafi á sama tíma starfað sem fulltrúi S-hópsins og átt í samskiptum við fulltrúa ríkisins f.h. hópsins eftir að rammasamkomulag hafði verið undirritað á síðari hluta árs 2002 fram til þess að kaupsamningur var undirritaður í janúar 2003. Í því sambandi hefði hann tekið þátt í samningaviðræðum við starfsmenn framkvæmdanefndar um einkavæðingu sem lutu að einstökum þáttum rammasamkomulagsins. Guðmundur minntist þess ekki hvort hann hefði haft umboð frá öllum í hópnum til þessa en hópurinn hefði hist mjög reglulega og rætt samningagerðina sem og fjármögnun. Þá hefði Kristinn Hallgrímsson, hæstaréttarlögmaður, tekið þátt í samningagerðinni með honum en Guðmundur gat ekki fullyrt um hvort hann hefði haft umboð frá öllum hópnum til samningagerðarinnar. Guðmundur kvað þá í S-hópnum sem áttu bein samskipti við fulltrúa ríkisins hafa verið Ólaf Ólafsson og Margeir Daníelsson, framkvæmdastjóra Samvinnulífeyrissjóðsins og ef til vill einnig Finnur Ingólfsson, forstjóri Vátryggingafélags Íslands hf.

Guðmundur kvaðst ekki hafa komið að þeirri vinnu að fá erlendan fjárfesti inn í S-hópinn á sínum tíma. Starfsmenn Société Générale, þeir Michael Sautter og Ralf Darpe, hefðu hins vegar veitt S-hópnum ráðgjöf á þessum tíma sem fólst í uppbyggingu viðskiptanna, samningagerð, hjálp við gerð áreiðanleikakönnunar og almennri ráðgjöf um kaupin. Guðmundur sagði það hafa komið til greina að Société Générale yrði sjálfur fjárfestir við kaupin en gat ekki lýst því með hvaða hætti það varð. Bankinn hefði hins vegar verið viðskiptabanki Samskipa á þessum tíma og Guðmundur hefði farið og boðið þeim til Íslands og þeir í framhaldinu gerst ráðgjafar S-hópsins við söluna.

Guðmundur kvað það vel geta staðist að S-hópurinn hefði greitt Société Générale 300 milljónir íslenskra króna fyrir ráðgjöf við söluna, en slíkt svaraði til um 3% þóknunar af viðskiptunum sem væri ekki óeðlilegt í viðskiptum af þessum toga.

Guðmundur upplýsti fyrir dómi að hann hefði tekið fullan þátt í að semja við Hauck & Aufhäuser um aðkomu þeirra þegar þeir komu að borðinu. Í þeim samningum hafi hann samið við þýska bankann um hluthafasamkomulag inni í Eglu sem varð hluti af kaupsamningi við ríkið, samþykktir við Eglu hf. og átt í samskiptum við Martin Zeil, forstöðumann lögfræðisviðs bankans. Guðmundur kvað samningaviðræðurnar við Hauck & Aufhäuser helst hafa lotið að aðkomu bankans að fjármögnun viðskiptanna og með hvaða hætti bankinn ætti að koma inn í Eglu hf., en þeir Ólafur Ólafsson, Ralf Darpe og Michael Sautter hefðu allir komið að þessum viðræðum með honum.

Guðmundur bar fyrir dómi að þær upplýsingar sem veittar voru á sínum tíma um þá aðkomu Hauck & Aufhäuser, sem kaupsamningurinn og fylgigögn hans kváðu á um og kynnt voru í fjölmiðlum samhliða kaupunum, hefðu verið réttar og nákvæmar, að því er hann best vissi. Jafnframt kvað Guðmundur að ekki hefðu verið gerðar neinar ráðstafanir umfram aðra fjárfesta, t.d. með samningum, til að draga úr eða girða fyrir fjárhagslega áhættu Hauck & Aufhäuser af viðskiptunum. Þá kvaðst Guðmundur ekki minnast þess hvort einhverjir aðrir hafi komið að viðskiptum S-hópsins um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum en Hauck & Aufhäuser og þeir aðilar innan S-hópsins sem gefnir voru upp gagnvart íslenska ríkinu. Þá minntist Guðmundur þess ekki að hann eða aðrir aðilar innan S-hópsins hefði veitt öðrum aðilum utan hópsins upplýsingar um viðræðurnar við íslenska ríkið á meðan þær fóru fram.

1.5.1.3 Hreiðar Már Sigurðsson

Hreiðar Már Sigurðsson upplýsti við skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. janúar 2017 að hann hefði árin 2002-2003 starfað sem aðstoðarforstjóri Kaupþings hf. Í framburði Hreiðars Más kom fram að hann teldi að Hauck & Aufhäuser hefði verið raunverulegur eigandi bréfa í Eglu hf. og að enginn annar en bankinn hefði staðið að kaupum hans í Eglu hf. Jafnframt kvaðst Hreiðar Már ekki hafa vitneskju um hvort Kaupþing hf. hefði komið að kaupum S-hópsins á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum og ekki reka minni til þess hvort Kaupþing eða önnur fyrirtæki í eigu þess, eða undir yfirráðum þess, hafi veitt ráðgjöf, lagt á ráðin um eða fjármagnað kaup Eglu hf., og þar með Hauck & Aufhäuser á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

1.5.1.4 Sigurður Einarsson

Við skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 1. febrúar 2017 bar Sigurður Einarsson, sem var forstjóri Kaupþings hf. á þeim tíma sem Egla hf. festi kaup á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum, að það væri alveg ljóst að Kaupþing hafi ekki verið hluti af kaupendum á Búnaðarbankanum. Aðspurður um hvort það lægi að hans mati fyrir að hvorki Kaupþing né önnur fyrirtæki í eigu Kaupþings eða undir yfirráðum Kaupþings eða félaga í eigu þess hefðu veitt ráðgjöf eða lagt á ráðin um að fjármagna kaup S-hópsins eða Eglu hf. svaraði hann að honum væri það ekki minnisstætt.

Í skýrslutökunni sagðist Sigurður enn fremur ekki vita til þess að staðhæfingar Vilhjálms Bjarnasonar, um að Hauck & Aufhäuser hefði í reynd ekki staðið að kaupum á hlut í Eglu hf. heldur einungis verið leppur fyrir aðra, ættu við rök að styðjast. Þá kvaðst Sigurður ekki geta upplýst nefndina um neitt að eigin frumkvæði og án þess að nefndin beindi til hans sérstökum spurningum þar um varðandi þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

1.5.1.5 Aðrir skýrslugjafar

Rannsóknarnefnd Alþingis tók m.a. einnig skýrslu af þeim Ármanni Þorvaldssyni, fyrrverandi forstöðumanni fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings, Bjarka Diego, starfsmanni fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings, svo og Kristínu Pétursdóttur, fyrrverandi forstöðumanni fjárstýringar félagsins, og Steingrími Kárasyni, yfirmanni áhættustýringar. Þá tók nefndin einnig skýrslu af Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Kaupthing Bank Luxembourg S.A., dótturfélags Kaupþings í Lúxemborg. Enginn þessara aðila kannaðist við eða rak minni til þess að Kaupþing eða dótturfélag þess í Lúxemborg hefðu komið að viðskiptum Hauck & Aufhäuser með hluti í Eglu hf.

Rannsóknarnefndin tók auk þess skýrslu af Kristjáni Loftssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kers hf., Finni Ingólfssyni, fyrrverandi forstjóra Vátryggingafélags Íslands hf. og Margeiri Daníelssyni, framkvæmdastjóra Samvinnulífeyrissjóðsins.[13] Enn fremur tók nefndin skýrslu af Ólafi Davíðssyni, fyrrverandi formanni framkvæmdanefndar um einkavæðingu, svo og Benedikt Árnasyni, Guðmundi Ólasyni og Skarphéðni Berg Steinarssyni, sem voru starfsmenn nefndarinnar á þeim tíma sem rannsókn nefndarinnar beinist að. Enginn þessara aðila kvaðst hafa orðið var við neitt annað en að aðkoma Hauck & Aufhäuser hefði verið með þeim hætti sem upplýst var um opinberlega á sínum tíma. Nánar verður vitnað til framburða þeirra sem komu til skýrslutöku síðar í skýrslunni eftir því sem tilefni gefst til.

Nefndin ræddi enn fremur við Helmut Landwehr, sem var meðeigandi í Hauck & Aufhäuser (e. „managing partner“) og sat í stjórn bankans þegar bankinn kom fram gagnvart íslenska ríkinu sem hluthafi í Eglu hf. Í gögnum rannsóknarnefndar kemur fram að Landwehr hafi ásamt Martin Zeil, forstöðumanni lögfræðisviðs Hauck & Aufhäuser, undirritað umboð til Peter Gatti, dags. 14. janúar 2003, þar sem Gatti var veitt heimild til að skrifa undir kaupsamning um hlut í Eglu hf. f.h. Hauck & Aufhäuser, svo og til að gera hluthafasamkomulag við aðra hluthafa í Eglu og aðra aðila í S-hópnum, auk kaupsamnings við íslenska ríkið.

Landwehr gaf nefndinni þær upplýsingar að Peter Gatti hefði komið að einkavæðingu Búnaðarbankans fyrir hönd Hauck & Aufhäuser. Landwehr tjáði nefndinni að miðað við þær upplýsingar sem hefðu verið kynntar innan bankans á þeim tíma þá hefði þátttaka Hauck & Aufhäuser einskorðast við hafa vörslur hlutanna í Eglu hf. fyrir hönd íslenskra aðila. Landwehr sagði að ef bankinn hefði fest kaup á hlutabréfum í eigin nafni, sem hefði þá numið fjárfestingu upp á um það bil 35 milljón Bandaríkjadali, þá hefði þurft að afla samþykkis stjórnar fyrir fjárfestingunni. Slík fjárfesting hefði hins vegar ekki verið kynnt í stjórn.[14]

1.6  Skriflegar fyrirspurnir nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 68/2011

Þegar hillti undir lok rannsóknarinnar taldi nefndin, í ljósi þeirra upplýsinga um rannsóknarefnið sem fram komu í gögnum sem nefndin hafði aflað, rétt að senda tilteknum einstaklingum bréf þar sem þeim var gefinn kostur á því að koma að frekari upplýsingum og eftir atvikum lýsa afstöðu til atriða sem fyrirséð var að skýrsla nefndarinnar myndi einkum beinast að. Bréf þessi voru send 13. og 14. mars 2017 á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 68/2011 með þeim fyrirspurnum til hvers og eins sem fyrirliggjandi gögn og upplýsingar nefndarinnar gáfu tilefni til. Þess var óskað að svör bærust nefndinni í síðasta lagi 20. og 21. mars.

Í þessum bréfum voru kynntar helstu upplýsingar úr þeim gögnum sem nefndin hafði aflað um aðkomu Hauck & Aufhäuser að viðskiptum með hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum og gerð er grein fyrir í 5. kafla þessarar skýrslu. Ljóst er að á rannsóknarnefndinni hvíldi engin skylda að lögum til að veita umræddum einstaklingum aðgang að gögnum sem vísað var til í fyrirspurnum nefndarinnar. Bréfin voru hins vegar send í því skyni að afla frekari upplýsinga frá þessum einstaklingum um viðfangsefni rannsóknar nefndarinnar. Rannsóknarnefndin hafði áður við skýrslutöku lagt fyrir þessa einstaklinga spurningar, m.a. um hvort Hauck & Aufhäuser hafi verið leppur fyrir aðra aðila í viðskiptunum, og þá Kaupþing hf., og hvort það væri eitthvað sem þau gætu upplýst nefndina um að eigin frumkvæði, og án þess að nefndin beindi til þeirra sérstökum spurningum þar um, varðandi þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Meðal þeirra sem fengu slík bréf voru Ólafur Ólafsson, fyrrverandi stjórnarformaður Eglu hf., Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri sama félags, Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri og aðstoðarforstjóri Kaupþings á þeim tíma þegar S-hópurinn festi kaup á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Í þessum hópi voru einnig Steingrímur Kárason, yfirmaður áhættustýringar í Kaupþingi hf., Kristín Pétursdóttir, forstöðumaður fjárstýringar Kaupþings hf., og Bjarki Diego, sem starfaði sem lögfræðingur í Kaupþingi hf. á sama tíma, svo og Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Svarbréf þessara einstaklinga bárust 20. og 21. mars og eru svör þeirra rakin í 6. kafla þessarar skýrslu að því marki sem nefndin telur tilefni til.[15] 

Auk þeirra voru þýska bankanum Hauck & Aufhäuser og Kristjáni Loftssyni send fyrirspurnarbréf, en hvorugur svaraði bréfi nefndarinnar.

 


[1] Sbr. grein 2.3 í samningnum. Þar kemur jafnframt fram að Vátryggingafélag Íslands keypt 12,71% hlutarins sem seldur var, Samvinnulífeyrissjóðurinn 8,47%, en Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar 7,627%.

[2] Hér eftir er jafnan vísað til þessara viðskipta sem sölunnar á eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum eða einkavæðingar Búnaðarbankans.

[3] Nánar er greint frá þessum viðskiptum, sem og öðrum atvikum sem hér eru rakin í grófum dráttum, síðar í skýrslunni.

[4] Sjá 6. kafla 1. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði.

[5] Í þingsályktuninni var mælt fyrir um að rannsókninni skyldi ljúka svo fljótt sem verða mætti og eigi síðar en 31. desember 2016. Alþingi breytti síðan þeirri ályktun 15. desember 2016 þannig að tímamarkið 31. desember 2016 var fellt brott.

[6] Sjá skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 1. bindi bls. 227-306.

[7] Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 68/2011, má fela rannsóknarnefnd það verkefni að gefa álit á því hvort til staðar kunni að vera lögfræðileg atriði sem gætu varpað ljósi á hvort tilefni sé til þess að þar til bær stjórnvöld kanni grundvöll ábyrgðar einstaklinga eða lögaðila. Skal rannsóknarnefnd þá eftir atvikum tilkynna ríkissaksóknara eða viðeigandi stjórnvaldi um háttsemina samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 5. gr. laga nr. 68/2011.

[8] Áréttað er að með þessari athugasemd, sem sett er fram til skýringar, er ekki á nokkurn hátt tekin bein eða óbein afstaða til þess hvort þau atvik sem skýrslan varðar feli í sér háttsemi sem kynni á einhverjum tíma að hafa varðað við refsilöggjöf. Af þeim ástæðum sem fram koma í meginmáli lítur nefndin svo á að slík álitaefni séu nefndinni óviðkomandi.

[9] Rannsóknarnefndin vekur í þessu sambandi athygli á að í umfjöllun um sérstakt hæfi dómara til meðferðar máls, þar sem mun strangari kröfur eru gerðar en til sérstaks hæfis starfsmanna stjórnsýslunnar samkvæmt 3. gr. stjórnsýslulaga, hefur ekki verið talið að sú staðreynd að maki dómara sé meðeigandi að lögmannsstofu með lögmanni sem flytur mál fyrir dómi leiði til þess að sá dómari teljist vanhæfur til meðferðar málsins, sjá hér til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Danmerkur sem birtur er í Ugeskrift for Retsvæsen 2011, bls. 3374.
Tekið skal fram að með bréfi, dags. 20. febrúar 2017, óskaði rannsóknarnefndin eftir því við Kristinn Hallgrímsson, með vísan til þess sem fram hefði komið í bréfi Gísla Hall, að hann lýsti viðhorfi sínu til þess hvort hann teldi ástæðu til að gera athugasemdir við aðkomu Finns Þórs Vilhjálmssonar að rannsókn nefndarinnar með vísan til þeirra lagaákvæða sem giltu um sérstakt hæfi starfsmanna rannsóknarnefnda. Í svarbréfi lögmanns Kristins, dags. 27. febrúar 2017, voru ekki gerðar athugasemdir við hæfi Finns til að koma að yfirstandandi rannsókn.

[10] Þegar rætt er í skýrslunni um Kaupþing hf. í samhengi við þessi starfsheiti Sigurðar og Hreiðars Más er átt við fjármálafyrirtækið Kaupþing hf. sem svo hét til vors 2003 þegar það sameinaðist Búnaðarbanka Íslands hf. undir nafninu Kaupþing Búnaðarbanki hf. Nánar er vikið að sameiningu félaganna tveggja síðar í skýrslunni.

[11] Sjá hér tölvubréf rannsóknarnefndar til Peter Gatti, dags. 11. mars 2017, tölvubréf nefndarinnar til Martin Zeil, dags. 11. október 2016 og tölvubréf nefndarinnar til Eggerts Jónasar Hilmarssonar, dags. 28. febrúar 2017.

[12] Sjá tölvubréf Martin Zeil til rannsóknarnefndarinnar, dags. 14. október 2016 og tölvubréf Eggerts J. Hilmarssonar, dags. 2. mars 2017.

[13] Axel Gíslason forstjóri Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga sá sér ekki fært að gefa skýrslu fyrir nefndinni af heilsufarsástæðum.

[14] Viðtal við rannsóknarnefnd Alþingis 4. október 2016.

[15] Umrædd bréf nefndarinnar og svör við þeim eru birt í viðauka með vefútgáfu skýrslunnar.