3 – Sala íslenska ríkisins á eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf.

(einföld vefútgáfa)

 

3.1  Aðdragandinn að gerð kaupsamnings S-hópsins og íslenska ríkisins

Hinn 10. júlí 2002 sendi framkvæmdanefnd um einkavæðingu frá sér fréttatilkynningu þar sem auglýst var eftir fjárfestum sem vildu kaupa að minnsta kosti fjórðungshlut í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Kom þar fram að framkvæmdanefndin, fyrir hönd viðskiptaráðherra, leitaði eftir innlendum eða erlendum fjárfestum með það að markmiði að efla bankana og samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði.

Í auglýsingunni var væntanlegum fjárfestum settur frestur til 25. júlí 2002 til að skila tilkynningu um áhuga sinn, en í tilkynningunni skyldi gera grein fyrir „fjárhagsstöðu, þekkingu og reynslu á fjármálamarkaði, eignarhlut sem viðkomandi óskaði eftir kaupum á, hugmyndum um staðgreiðsluverð og áformum varðandi rekstur þess banka sem áhugi væri á.“ Þá sagði jafnframt í auglýsingunni að kaupendur skyldu uppfylla skilyrði um hæfi eigenda virkra eignarhluta og tekið fram að umræddur hlutur yrði aðeins seldur í öðrum bankanum, ef viðunandi verð fengist og viðræður leiddu til sölu en stefnt væri að því að hlutur í hinum bankanum yrði seldur síðar á árinu.

Í kjölfar auglýsingarinnar lýstu alls fimm hópar fjárfesta yfir áhuga á því að fjárfesta í Landsbankanum eða Búnaðarbankanum. Meðal þeirra var hópur fjárfesta, sem lýsti yfir áhuga á báðum bönkunum í tilkynningu sinni til framkvæmdanefndarinnar, dags. 25. júlí 2002. Í tilkynningunni, sem Kristinn Hallgrímsson hrl. sendi fyrir hönd hópsins, var hópurinn sagður samanstanda af eignarhaldsfélaginu Andvöku, eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, Fiskiðjunni Skagfirðingi hf., Kaupfélagi Skagfirðinga svf., Keri hf., Samskipum hf. og Samvinnulífeyrissjóðnum. Í tilkynningu hópsins kom meðal annars fram að „náið samstarf og hugsanlega eignaraðild erlends banka að bönkunum [kæmi] til greina“.[16] Fulltrúar þessa hóps munu hafa komið til fundar hjá framkvæmdanefnd um einkavæðingu 29. júlí 2002. Á fundinum mun Ólafur Ólafsson, forstjóri Samskipa hf., hafa haft orð fyrir hópnum og greint frá því að áhugi væri fyrir kaupum í báðum bönkunum, en Búnaðarbankinn væri þó ákjósanlegri kostur. Til þessa hóps er að jafnaði vísað sem S-hópsins í þessari skýrslu.[17]

Á fundi framkvæmdanefndar um einkavæðingu 31. júlí 2002 var ákveðið að taka upp viðræður við þrjá hópa, S-hópinn, Samson-hópinn og fjárfestingarfélagið Kaldbak hf. um kaup í Landsbankanum en að loknum þeim viðræðum yrði tekin afstaða til Búnaðarbankans. Í fréttatilkynningu framkvæmdanefndar um einkavæðingu 31. júlí 2002 var síðan tilkynnt að fyrst yrði seldur hlutur ríkisins í Landsbankanum en síðar yrði ákveðið með sölu hlutabréfa í Búnaðarbankanum. Tekið var fram að miðað væri við að „umtalsverður hlutur [yrði] seldur í báðum bönkunum á þessu ári“.[18]

Eftir fundi með hverjum og einum þeirra hópa sem valdir höfðu verið til viðræðna sendi framkvæmdanefnd fulltrúum þeirra samhljóða bréf, dags. 28. ágúst 2002. Með bréfunum tilkynnti nefndin og afmarkaði fimm nánar tilgreinda áhrifaþætti eða viðmið sem líta átti til við val á þeim fjárfestahópi sem rætt yrði beint við um kaup á Landsbankanum.

Ljóst er af þeim gögnum sem liggja fyrir rannsóknarnefndinni að þátttaka erlendra aðila var á þessum tímapunkti ekki meðal þeirra markmiða eða viðmiða sem Framkvæmdanefnd um einkavæðingu lagði sérstaklega upp með að ræða við hópana sem lýstu yfir áhuga á kaupum á kjölfestuhlutum í bönkunum eftir auglýsingu nefndarinnar, sbr. fréttatilkynningu hennar, dags. 10. júlí 2002.

Ekki verður annað séð en að ráðagerð um aðkomu erlendra aðila að kaupum S-hópsins á hlut í íslenskum ríkisbanka hafi fyrst komið fram á einkafundi fulltrúa S-hópsins með framkvæmdanefndinni 28. ágúst 2002. Af fundargerð verður ráðið að fulltrúar S-hópsins hafi vakið máls á þessu atriði. Þannig var bókað í fundargerð að fulltrúar S-hópsins hafi upplýst að „tveir erlendir bankar hefðu sýnt áhuga á að koma að málinu sem ráðgjafar eða fjárfestar“ og síðan hafi fulltrúar hópsins spurt hvort það breytti stöðu hópsins í ferlinu. Samkvæmt fundargerðinni svaraði formaður framkvæmdanefndarinnar því til að svo væri ekki, frekar væri „gefinn plús fyrir erlenda peninga“.[19] Af fundargerðabók stjórnar Kers hf. frá þessum tíma má sjá að á fundi stjórnar félagsins daginn eftir, eða 29. ágúst 2002, hafi Ólafur Ólafsson, varaformaður stjórnar, undir liðnum „önnur mál“, gert grein fyrir undirbúningi að aðild Kers hf. að kaupum á kjölfestuhlut í Landsbankanum með framangreindum félögum í S-hópnum.[20] Fram kom einnig að engar skuldbindandi yfirlýsingar yrðu gefnar af hálfu fyrirsvarsmanna Kers hf. án ítarlegrar kynningar í stjórn félagsins. Af fyrirliggjandi fundargerðum stjórnar Kers hf. verður ekki annað ráðið en að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem málið var borið upp á stjórnarfundi.

Á vettvangi stjórnar Kers hf. var næst bókað um þátttöku félagsins í tilboðsferlinu á fundi stjórnarinnar 5. september 2002. Samkvæmt fundargerðinni skýrði þá Ólafur Ólafsson frá „aðdraganda og framgangi“ þess að Ker hf. tæki þátt í tilboðsgerð S-hópsins í Landsbankann. Bókað var eftir Ólafi að unnið hefði verið að málinu af metnaði, „m.a. með aðstoð frá frönskum banka og Guðmundi Hjaltasyni fjármálastjóra Samskipa hf., auk fyrirsvarsmanna þeirra félaga sem að hópnum stæðu auk lögmanns“. Ljóst má telja, með hliðsjón af síðari atvikum, að með skírskotun til „fransks banka“ hefur þarna verið átt við Société Générale. Upplýsingar sem bókað var um vörðuðu annars það að framkvæmdanefndin hefði óskað eftir verðhugmynd hópsins fyrir tiltekinn tíma daginn eftir. Ekki þarf að rekja þau atriði frekar hér.

Fjallað er um samband S-hópsins við franska bankann Société Générale í sérstakri samantekt breska bankans HSBC frá september 2002 um þá aðila sem lýst höfðu áhuga á að kaupa hlut ríkisins í Landsbankanum. Samantektin var kynnt á fundi framkvæmdanefndarinnar 8. september 2002. HSBC var á þessum tíma, samkvæmt sérstökum samningi þar um, ráðgjafi framkvæmdanefndar um einkavæðingu í tengslum við sölu ríkisins á eignarhlutum þess í bönkunum. Í umfjöllun í samantektinni um fjárhagslega stöðu („financial standing“) hópanna kemur fram að Société Générale væri S-hópnum til ráðgjafar og hefði milligöngu um gerð og fjármögnun tilboðs hans og myndi hugsanlega veita slíka fjármögnun sjálfur. Af því virðist ljóst að á þessu stigi hafi tilvísanir S-hópsins til franska bankans í samskiptum við framkvæmdanefnd um einkavæðingu fyrst og fremst lotið að hugsanlegum þætti hans í fjármögnun hópsins en ekki beinni og sjálfstæðri þátttöku sem fjárfestis í tilboði hópsins. S-hópurinn var ekki valinn til einkaviðræðna um Landsbankann og lauk þar með þátttöku hópsins í því söluferli.

Þann 19. október 2002 ákvað framkvæmdanefnd um einkavæðingu að velja S-hópinn, ásamt Kaldbaki fjárfestingarfélagi hf., úr hópi þeirra fjárfesta sem lýst höfðu áhuga fyrir Búnaðarbankanum til að skila inn frekari upplýsingum um hugsanleg kaup sín á þeim banka, sbr. samhljóða bréf nefndarinnar til hópanna tveggja, dags. 23. október 2002. Í bréfinu leitaði framkvæmdanefndin eftir svörum við nánar tilgreindum atriðum sem lögð yrðu til grundvallar við val kaupanda að Búnaðarbankanum. Í bréfinu kom fram að markmið þess væri að afla upplýsinga um tiltekna áhrifaþætti sem framkvæmdanefndin myndi byggja á við val á fjárfestahópi til einkaviðræðna um kaup á bankanum. Áhrifaþættirnir voru alls fimm en í því sambandi var ekki nefnt að það hefði vægi við mat framkvæmdanefndarinnar að erlendur aðili ætti þátt í tilboði hópsins sem fjárfestir, þ.e. með sjálfstæðum hætti sem væntanlegur meðeigandi að eignarhlutnum í bankanum.

Samkvæmt fundargerðum stjórnar Kers hf. var þetta málefni til umræðu í stjórn félagsins á þessum tíma. Á fundi stjórnarinnar snemma morguns 23. október 2002 er þannig bókað eftir Kristjáni Loftssyni, stjórnarformanni, að Keri hf. ásamt samstarfsfyrirtækjum byðist að gera tilboð í hlut ríkisins í Búnaðarbankanum og að fyrir dyrum stæði fundur með framkvæmdanefnd um einkavæðingu síðar sama dag. Boðað var að nánar yrði farið yfir málið á næsta stjórnarfundi. Næsti fundur stjórnarinnar var samkvæmt fundargerðarbók 30. október 2002 og var þar rædd fyrirhuguð þátttaka Kers hf. í kaupum S-hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Bókað er eftir formanni stjórnarinnar, Kristjáni Loftssyni, að beiðni S-hópsins um vikufrest til að skila gögnum til framkvæmdanefndar um einkavæðingu hefði verið hafnað. Því yrði Ker hf. að gera upp við sig hvort félagið vildi „standa við óskuldbindandi boð“ til framkvæmdanefndarinnar um hluti í Búnaðarbankanum eða ekki. Því næst er í fundargerðinni greint frá kynningu Ólafs Ólafssonar á „vinnu fulltrúa Société Générale“ fyrir S-hópinn. Helstu niðurstöður þeirrar vinnu eru sagðar þær að ekki væri áhugavert að kaupa minni hlut en 45,6%, rétt væri að „leggja inn erindi með ásættanlegum verðramma fyrir væntanlega bjóðendur“ og fram kemur einnig að miðað við forsendur hinna ótilgreindu fulltrúa franska bankans þá vonuðust þeir til að hægt væri að auka verðmæti Búnaðarbankans um allt að 10-13 milljarða á næstu 2-5 árum. Síðan segir í fundargerðinni að rætt hefði verið um „að SG og/eða tengdir aðilar kæmu með allt að 4 milljarða króna af væntanlegu kaupverði“. Loks er greint frá því að rætt hafi verið um 65% eiginfjárhlutfall í væntanlegu eignarhaldsfélagi um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Í fundargerðinni er þessu næst bókað að eftir umræður stjórnarinnar hafi verið samþykkt samhljóða tillaga um að Ker hf. tæki þátt í fyrirhuguðum kaupum á hlutum í Búnaðarbankanum af ríkissjóði fyrir allt að 2 milljarða króna (en þar var átt við fjárhæð þátttöku Kers hf. út af fyrir sig í kaupum) ef aðrir í fjárfestahópnum „skiluðu sér“ þannig að hægt yrði að „loka kaupunum í heild“.

Svör S-hópsins og Kaldbaks við bréfi framkvæmdanefndarinnar þar sem óskað var frekari upplýsinga vegna sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum bárust nefndinni með bréfum hvors hóps um sig, báðum dags. 31. október 2002. Bréf S-hópsins var ritað á ensku og bar yfirskriftina „Concept for the acquisition of shares in Búnaðarbankinn“.[21] Fyrsti kafli bréfsins fjallaði um fjármögnun hinna fyrirhuguðu kaupa. Þar sagði meðal annars að hluthafar í fjárfestahópnum litu á kaup í Búnaðarbankanum sem langtímafjárfestingu. Traust og örugg fjármögnun kaupanna skipti mjög miklu máli fyrir framtíðarþróun bankans og væri lykilþáttur í tilboði hópsins. Hér til hliðar er vitnað beint til þessara orða úr bréfinu á frummáli.[22] Í sama kafla bréfsins kom fram að ætlun hópsins væri að standa að kaupunum á hlut í Búnaðarbankanum gegnum eignarhaldsfélag og að í fyrstu, til að tryggja fulla greiðslu fyrir hlutina í Búnaðarbankanum um leið og gengið yrði frá viðskiptunum, myndi eignarhaldsfélagið verða fjármagnað með eigin fé og hluthafalánum sem alfarið kæmu frá S-hópnum. Meirihluti fjármögnunarinnar yrði eigið fé og svo yrði áfram meðan hluturinn yrði í eigu hópsins. Fram kom einnig í þessum kafla í umfjöllun um tiltæka fjármuni (e. „funds available“), í sérstökum undirkafla a), að lausafé og lánalínur sem hópurinn hefði til ráðstöfunar fyrir hin fyrirhuguðu kaup nægðu til að fjármagna alfarið það eigið fé og hluthafalán sem eignarhaldsfélagið þyrfti til að fjármagna öll kaupin. Tekið var fram að upplýsingar í smáatriðum um fjárhagslegt bolmagn hópsins væru settar fram í viðauka 1 með bréfinu (sjá umfjöllun um hann hér á eftir). Sérstaklega var tekið fram í umfjöllun um umfang utanaðkomandi fjármögnunar (e. „level of external funding“), sem var í sérstökum undirkafla b), að eignarhaldsfélagið myndi ekki þurfa neina utanaðkomandi fjármögnun „í fyrsta skrefi“ en hygðist þó með tímanum skipta út sumum eða öllum hluthafalánum fyrir bankalán. Loks var tekið fram í undirkafla c) um stöðu fjármögnunar (e. „status of funding“) að fjármögnun kaupanna hefði þegar verið tryggð en um það var vísað til áðurnefndra upplýsinga um tiltæka fjármuni og umfang utanaðkomandi fjármögnunar. Í sama kafla var tekið fram að hópurinn hefði „átt í viðræðum“ við Société Générale varðandi síðari tíma endurfjármögnun á hluthafalánum til eignarhaldsfélagsins og að franski bankinn „styddi almennt séð fyllilega þessi viðskipti“. Varðandi hugsanlegar spurningar um fjármögnun kaupa S-hópsins var vísað á fulltrúa Société Générale í Frankfurt sem af hálfu bankans kæmi að málinu og hann nánar tilgreindur sem Dr. Michael Sautter.

Í kafla 3-a) í bréfi S-hópsins var fjallað um fyrirkomulag eignarhalds, með fyrirvara um að þar kæmu fram fyrstu ráðagerðir þar um. Samkvæmt þeim var gert ráð fyrir að allir aðilar S-hópsins stæðu að eignarhaldsfélagi um hlutinn í Búnaðarbankanum. Stærstu hluthafarnir voru tilgreindir sem VÍS og Ker hf. með 20-25% hlut hvort félag og „Société Générale eða alþjóðlegur fjárfestir“ (e. „SG or international investor“) með 25-30% hlut.[23] Þannig var gert ráð fyrir því að franski bankinn eða annar „alþjóðlegur fjárfestir“ yrði stærsti eigandinn í eignarhaldsfélaginu um kaupin og síðar eignarhald á hlutnum í Búnaðarbankanum.

Bréf S-hópsins var undirritað af Kristni Hallgrímssyni hrl. fyrir hönd fjárfestahópsins. Viðauki 1 (af 2 viðaukum) með bréfinu bar yfirskriftina „Upplýsingar um fjárfestahópinn“ (e. „Information on the Investor Group“). Þar kom í upphafi fram að fjárfestahópurinn myndi samanstanda af þeim sex íslensku félögum sem áður var getið um (sjá neðanmáls hér á undan) ásamt „SG eða alþjóðlegum fjárfesti“ (e. „SG or international investor“). Í framhaldi af þessu voru settar fram stuttar sjálfstæðar lýsingar á hverjum einstökum aðila að hópnum. Lýsingarnar höfðu að geyma upplýsingar um eignarhald þeirra, fjárhag, stjórn og helstu eignir.[24] Þar á meðal var lýsing á Société Générale sem ekki var aðgreind frá lýsingum á öðrum félögum í hópnum.

Í bréfi Kaldbaks 31. október 2002 til framkvæmdanefndar um einkavæðingu var ekki getið um erlenda fjármálastofnun meðal þeirra stofnana og einstaklinga sem sagðir voru meðfjárfestar að tilboði Kaldbaks.

Upplýsingar S-hópsins og Kaldbaks voru metnar og bornar saman af HSBC á sama hátt og gert var við söluna á Landsbankanum í september 2002. Í samantekt HSBC frá 4. nóvember 2002 var einkunn S-hópsins fyrir tvo áhrifaþætti, framtíðaráætlanir um bankann og þekkingu og reynslu af fjármálamörkuðum, látin endurspegla vafa um það hvort Société Générale eða annar alþjóðlegur fjárfestir myndi fjárfesta með hópnum í Búnaðarbankanum. Einkunnin var þannig gefin á bili þar sem nokkru munaði á lægri og hærri einkunn miðað við hvort þetta tiltekna atriði væri hluti af tilboði hópsins eða ekki. Þá sagði í töflu um fjárhagsstöðu S-hópsins að franski bankinn væri að „meta möguleikann á að kaupa fyrir eigið fé eða lánsfé sjálfur“. Verður ekki séð að vafinn hafi haft áhrif á einkunn fyrir það viðmið á sama hátt og fyrir áðurnefnda áhrifaþætti. Sérstök athygli var þó vakin á álitaefni sem laut að stöðu Société Générale í fjármögnun verkefnisins.

Í samantekinni komst HSBC að þeirri niðurstöðu að S-hópurinn uppfyllti markmið og áhrifaþætti framkvæmdanefndarinnar betur en Kaldbakur. Í samantekt HSBC var þátttaka virtrar alþjóðlegrar fjármálastofnunar, þar sem upplýst hefði verið að Société Générale og/eða önnur fjármálastofnun myndi fjárfesta fyrir eigið fé í eignarhaldsfélagi S-hópsins að Búnaðarbankanum, talin vera einn af þremur helstu styrkleikum tilboðs S-hópsins.

Samantekt HSBC um tilboðin í Búnaðarbankann var kynnt framkvæmdanefnd um einkavæðingu á fundi 4. nóvember 2002. Í fundargerð var bókað að fulltrúi HSBC hefði sagt S-hópinn vera sterkari kost en Kaldbak „hvort sem Société Générale væri með eða ekki“.[25] Mat HSBC var m.a. sett fram á töfluformi, þar sem ein tafla var fyrir hvern af hinum fimm matsþáttum og sérstök tafla með samantekt einkunna fyrir matsþættina fimm og heildarniðurstöðu. Í einni töflu er vísað til matsþáttarins „þekking og reynsla af fjármálamörkuðum“ hjá þeim sem gerðu tilboðið í Búnaðarbankann. Annað af tveimur atriðum sem þar var nefnt hjá S-hópnum um alþjóðlega reynslu af fjármálamörkuðum var að „Société Générale eða annar alþjóðlegur fjárfestir [væri] meðal hluthafa“.

Í framhaldi af bókun í fundargerð framkvæmdanefndar 4. nóvember 2002 um það mat HSBC að S-hópurinn væri sterkari óháð þátttöku Société Générale var bókað að ákveðið hefði verið að fá „nánari skýringu á hlutverki Société Générale í fjárfestahópnum“ og ræða málið frekar á fundi síðar um daginn. Á síðari fundi framkvæmdanefndarinnar sama dag, kl. 15.00, var málið tekið upp aftur. Bókað var að fulltrúi HSBC hefði gert grein fyrir „samskiptum við S-hópinn og Société Générale“ frá fundinum um morguninn og lýst samtali sem hann hefði átt við Michael Sautter, framkvæmdastjóra yfir fjárfestingabankastarfsemi Société Générale í Frankfurt, sem S-hópurinn hafði gefið upp sem tengilið hjá bankanum. Einnig hefði fulltrúi HSBC farið yfir bréf sem Sautter hefði sent honum með staðfestingu á efni samtalsins. Afrit af þessu bréfi er meðal gagna rannsóknarnefndarinnar. Í því koma efnislega sömu upplýsingar fram og S-hópurinn hafði gefið upp og HSBC byggði á í samantekt sinni samkvæmt ofangreindu: Fulltrúi Société Générale staðfesti annars vegar ráðgjafarstarf bankans fyrir S-hópinn og hins vegar að Société Générale hefði „að auki mögulega áhuga á að fjárfesta fyrir eigið fé í eignarhaldsfélagi sem fjárfestahópurinn væri að koma á fót um kaup á hlutum í Búnaðarbankanum, líkt og gerð væri grein fyrir í tillögunni sem framkvæmdanefndin hefði fengið senda“. Þá var í bréfinu einnig getið um viðræður við ónefndan „norrænan banka“ (e. „a Nordic Bank“) sem hefði lýst verulegum áhuga á að eignast hlut í eignarhaldsfélaginu (þ.e. Eglu ehf., síðar hf.). Fjallað var nokkru nánar um þann möguleika í bréfinu og kom meðal annars fram að hinn ónefndi norræni banki myndi þá hafa áhuga á „umtalsverðri minnihlutaeign“ (e. „a significant minority percentage“) í eignarhaldsfélaginu, sem og að Société Générale kynni að hafa áhuga á að fjárfesta fyrir eigið fé samhliða slíkri minnihlutafjárfestingu „norræna bankans“. Franski bankinn staðfesti að slíkur viðbótarfjárfestir myndi uppfylla öll skilyrði framkvæmdanefndar um einkavæðingu, en um það var vísað nánar til bréfs S-hópsins til framkvæmdanefndarinnar, dags. 31. október 2002. Því var einnig lýst yfir að Société Générale og hinn hugsanlegi fjárfestir til viðbótar myndi fjárfesta í eignarhaldsfélagi fjárfestahópsins og halda þeim hlut í full tvö ár. Að lokum sagði að viðkomandi fjárfestir myndi verða kynntur framkvæmdanefnd um einkavæðingu ef viðskiptin myndu eiga sér stað. Vitnað er til þeirra hluta bréfs Sautter sem hafa verið dregnir saman hér til hliðar á frummáli.

Á þessum síðari fundi framkvæmdanefndar um einkavæðingu 4. nóvember 2002 ákvað framkvæmdanefndin að mæla með því við ráðherranefnd um einkavæðingu að gengið yrði til samningaviðræðna við S-hópinn, þ.e. hóp fjárfesta sem samanstæði af „Eignarhaldsfélaginu Andvöku, Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, Vátryggingafélagi Íslands hf., Kaupfélagi Skagfirðinga svf., Keri hf. og Samvinnulífeyrissjóðnum, auk einnar eða fleiri erlendra fjármálastofnana um kaup á umtalsverðum hlut í Búnaðarbanka Íslands hf.“ Var gengið frá bréfi þess efnis til ráðherranefndarinnar á fundinum. Í bréfinu var í almennu og afar stuttu máli gerð grein fyrir mati og samanburði HSBC á tilboðum S-hópsins og Kaldbaks og áhrifaþáttum sem byggt var á. Í bréfinu sagði jafnframt að það væri niðurstaða HSBC, sbr. meðfylgjandi vinnuskjal, að hópur sem samanstæði af þeim íslensku félögum sem þá mynduðu S-hópinn „auk eins eða fleiri erlendra fjármálastofnana, þ.á.m. franska bankans Société Générale“ uppfyllti betur þær væntingar sem gerðar væru til kjölfestufjárfestis í Búnaðarbanka Íslands hf. Um þá niðurstöðu var vísað til vinnuskjals sem fylgdi bréfinu.

Ráðherranefndin samþykkti tillögu framkvæmdanefndar samdægurs og áritaði forsætisráðherra fyrrgreint bréf framkvæmdanefndarinnar því til staðfestingar. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði er það ráðið af ummælum Valgerðar Sverrisdóttur, þáverandi viðskiptaráðherra, sem átti sæti í ráðherranefndinni, við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni að ráðherranefndin hafi almennt fylgt ráðgjöf framkvæmdanefndarinnar við ákvarðanir sínar án sérstakrar sjálfstæðrar athugunar eða endurskoðunar á forsendum hennar.

Sama dag, 4. nóvember 2002, sendi framkvæmdanefnd um einkavæðingu (FNE) annars vegar Kaldbaki hf. og hins vegar umboðsmanni S-hópsins bréf þar sem tilkynnt var um ákvörðunina. Bréfið til S-hópsins er á ensku og stílað á Fulltingi ehf., lögmannsstofu umboðsmannsins, fyrir hönd nánar tilgreindra félaga sem þá mynduðu S-hópinn „[...] og Société Générale“. Í þessu bréfi setti framkvæmdanefndin einnig fram nokkrar „athugasemdir“ um „viðræðurnar framundan“. Þar sagði m.a. að S-hópurinn hefði gefið til kynna að 25–30% hlutur í eignarhaldsfélagi um eign í Búnaðarbankanum yrði í eigu Société Générale eða annars alþjóðlegs fjárfestis. Framkvæmdanefndin lagði áherslu á að „þátttaka Société Générale eða annarrar hátt virtrar alþjóðlegrar fjármálastofnunar, sem umtalsverðs hluthafa í eignarhaldsfélagi um tilboðið [hefði] verið veigamikill þáttur á bak við ákvörðun nefndarinnar að efna til einkaviðræðna við [S-hópinn]“. Lögð var áhersla á að einkaviðræður yrðu ákveðnar til tiltekins takmarkaðs tíma og að framkvæmdanefndin yrði treg til að framlengja einkaviðræður ef hún teldi þá „Société Générale eða annan alþjóðlegan fjárfesti ólíklegan til að eiga umtalsverðan hlut í eignarhaldsfélagi um tilboðið“.

Daginn eftir, 5. nóvember 2002, staðfesti framkvæmdanefnd við Fulltingi ehf. fyrir hönd sömu aðila og í bréfinu daginn áður að nefndin myndi eiga einkaviðræður við S-hópinn um kaup á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum og að frestur til einkaviðræðna rynni út 15. nóvember 2002.

Sama dag, 5. nóvember, sendi Eiríkur S. Jóhannsson, framkvæmdastjóri Kaldbaks starfsmanni framkvæmdanefndar tölvubréf og óskaði eftir nánari útskýringum á „ákvörðun FNE vegna sölu á eignarhluta í Búnaðarbanka Íslands hf., þ.e.a.s. hvaða atriði það voru í svörum aðilanna sem réðu úrslitum við val nefndarinnar“. Í svari formanns framkvæmdanefndar 8. nóvember 2003 var vísað almennt um forsendur ákvörðunarinnar til samhljóða bréfs nefndarinnar til S-hópsins og Kaldbaks, dags. 23. október 2002 og mats HSBC á svörum beggja aðila frá 31. október 2002. Formaðurinn tiltók hins vegar sérstaklega þrjú atriði sem að mati nefndarinnar hefðu „skilið á milli við val á viðsemjanda“. Meðal þeirra atriða sem nefnd voru í þessu sambandi var að S-hópurinn hefði haft í sínum hópi „virt erlent fjármálafyrirtæki sem fjárfesti“ en að mati nefndarinnar og HSBC hefði það verið „eftirsóknarverð samsetning fjárfestahóps.“ Eins og rakið er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði fullyrti formaðurinn þannig án fyrirvara í bréfinu að virt erlent fjármálafyrirtæki væri meðlimur í S-hópnum sem fjárfestir og að það atriði hefði verið veruleg forsenda fyrir mati HSBC og nefndarinnar sem val þeirra á S-hópnum sem viðsemjanda var grundvallað á.[26]

Fjórum dögum eftir að framkvæmdanefnd um einkavæðingu ákvað að ganga til einkaviðræðna við S-hópinn um kaup á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, eða 8. nóvember 2002, er bókað í fundargerð stjórnarfundar Kers hf. um gang þessara mála undir liðnum „Kaup á hlut í Búnaðarbanka Íslands hf.“. Samkvæmt bókun undir þeim lið gerðu Kristján Loftsson og Ólafur Ólafsson grein fyrir söluferlinu og ákvörðun framkvæmdanefndar um einkaviðræður við S-hópinn. Fyrir dyrum stæðu þá lokaviðræður um hvort af kaupunum yrði og var nánar tilgreint að þær myndu snúast „um verð o.fl. þætti málsins“. Bókað er eftir Kristjáni Loftssyni að hann teldi nauðsynlegt að strax skýrðist hvort geta og áhugi væri í fjárfestahópnum til að ljúka málinu. Var því ákveðið að boða til fundar með fyrirsvarsmönnum annarra fjárfesta í S-hópnum daginn eftir, 9. nóvember 2002, til viðræðna um málið. Að öðru leyti var ákvörðun stjórnar Kers hf. um málið frá 30. október 2002, sbr. áður, sögð standa óhögguð. Rannsóknarnefndin hefur ekki upplýsingar um hvort þessi fyrirhugaði fundur fyrirsvarsmanna aðila að S-hópnum fór fram eða hvað var þá þar til umræðu eða ákveðið.

Með tilkynningu, dags. 14. nóvember 2002, var tilkynnt um stofnun Eglu ehf. til fyrirtækjaskrár, en samþykktir félagsins voru dagsettar sama dag. Í tilkynningunni er tilgangi félagsins lýst sem svo að það sé „eignarhaldsfélag um hluti í Búnaðarbanka Íslands hf., kaup og sala hlutabréfa, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur.“

Næsta dag, 15. nóvember 2002, hélt stjórn Kers hf. fund þar sem þátttaka félagsins í kaupum á Búnaðarbankanum var eina málið á dagskrá.[27] Fram kom að boðað væri til fundarins að lokinni kynningu „ráðgjafa frá Société Générale, Frankfurt“ sem unnið hefðu að mati á Búnaðarbankanum. Í fundargerðinni var greint frá því að tillaga lægi fyrir fundinum um að Ker hf., Samvinnutryggingar og Société Générale stofnuðu eignarhaldsfélag sem nefnt hefði verið Egla ehf.[28] Samvinnulífeyrissjóðurinn og VÍS myndu fjárfesta beint í bankanum en gert yrði hluthafasamkomulag við Eglu ehf. þannig að allir þessir aðilar kæmu fram sem einn. Þessu næst var greint í fundargerðinni frá því að fyrir fundinn hefði verið lagt fram uppkast að samkomulagi við framkvæmdanefnd um einkavæðingu um efnisatriði (til nánari skýringar kom fram að átt væri við „heads of agreement“) sem undirritað yrði daginn eftir, 16. nóvember 2002, en áformað væri að undirrita kaupsamning 20. desember 2002. Efnisatriðum samkomulagsins var svo nánar lýst. Sú lýsing er í öllum aðalatriðum, til dæmis um stærð hins selda hlutar, tvo áfanga kaupanna, gengi í viðskiptunum og tímabundnar söluhömlur á hinum keyptu hlutum, í samræmi við hið endanlega rammasamkomulag. Það samkomulag mun hafa hafa verið undirritað 16. nóvember 2002 í samræmi við það sem boðað var í fundargerðinni en ber engu að síður dagsetninguna 15. nóvember 2002.[29]

Þessu næst kom fram í fundargerðinni tafla þar sem lýst var tillögu sem fram hefði komið á fyrrnefndum kynningarfundi um skiptingu á kaupunum milli aðila S-hópsins. Samkvæmt töflunni var gert ráð fyrir að Egla ehf., sem samanstæði af „SG banka“, Keri hf. og Samvinnutryggingum legði fram samtals 9,3 milljarða króna til kaupanna, 4800 milljónir króna í fyrri áfanga kaupanna en 4500 milljónir í seinni áfanga þeirra. Þessar fjárhæðir áttu samkvæmt töflunni að skiptast svo milli hluthafa í Eglu ehf. (fjárhæð í fyrri áfanga/ fjárhæð í seinni áfanga): „SG banki“ (2000 m.kr./2100 m.kr.), Ker hf. (2000 m.kr./2100 m.kr.) og Samvinnutryggingar (800 m.kr./300 m.kr.). Ekki þykir ástæða hér til að tilgreina áætlaðar fjárhæðir kaupa VÍS og Samvinnulífeyrissjóðsins. Heildarkaupverð fyrir hlutinn í hinum fyrirhuguðu viðskiptum var tilgreint 11,8 milljarðar króna eða nokkurn veginn sama fjárhæð og varð endanlega raunin samkvæmt kaupsamningi aðila 16. janúar 2003 (11,9 milljarðar króna).

Í beinu framhaldi af þessu var bókað í fundargerðinni að fram hefði komið hjá ráðgjöfum SG banka að þeir teldu „mögulegt að ná fram sparnaði í BÍ þannig að umrætt verð væri forsvaranlegt við rekstur bankans“. Fram kom einnig að ráðgjafarnir hefðu gert „grein fyrir sínu mati á mögulegri verðmætaaukningu bankans við samruna við einhvern af eftirtöldum aðilum: VÍS, Landsbankinn og Kaupþing.“

Að síðustu er bókað í þessari fundargerð um samþykki stjórnar við þeim atriðum sem áður voru rakin. Tekið var fram að gert væri ráð fyrir að hluthafar Eglu ehf. legðu fram „65% eigið fé á móti kaupunum en Egla ehf. fjármagni 35% kaupanna með lánsfé“.

Í kjölfar samningaviðræðna framkvæmdanefndar um einkavæðingu fyrir hönd ríkisins og S-hópsins var hinn 16. nóvember 2002 gengið frá rammasamkomulagi (e. „Heads of Agreement“) um kaup S-hópsins á 45,8% hlutabréfa í Búnaðarbankanum af ríkinu.[30] Undir samkomulagið rituðu Kristinn Hallgrímsson hrl., f.h. Eglu ehf., Margeir Daníelsson, f.h. Samvinnulífeyrissjóðsins og Finnur Ingólfsson, f.h. Vátryggingafélags Íslands, en Ólafur Davíðsson formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu, undirritaði samkomulagið f.h. nefndarinnar.

Í samkomulaginu var „Société Générale og/eða önnur alþjóðleg fjármálastofnun“ talin upp meðal væntanlegra kaupenda, annaðhvort sem beinn kaupandi eða hluthafi í eignarhaldsfélaginu Eglu sem þá hafði verið stofnað utan um hluta tilboðs S-hópsins. Í grein 12 í samkomulaginu er fjallað um „Samsetningu tilboðsgjafa“ („Composition of Bidders“) en þar var efnislega kveðið á um að S-hópurinn skyldi fyrir 6. desember 2002 veita ríkinu fullnægjandi upplýsingar um umtalsverðan (e. „meaningful“) eignarhluta í Eglu eða beina fjárfestingu af hálfu „Société Générale og/eða annarrar alþjóðlegrar fjármálastofnunar“ sem væri ásættanleg fyrir framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Í beinu framhaldi sagði að líkt og áður hefði verið upplýst væri þetta mikilvægt grundvallaratriði og yrðu upplýsingarnar ekki veittar gæti það leitt til slita bæði einkaviðræðnanna og frekari viðræðna.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu sendi frá sér fréttatilkynningu 16. nóvember 2002 um undirritun rammasamkomulagsins. Í henni kom meðal annars fram að helstu atriði samkomulagsins væru tvenn og þeim nánar lýst. Lýsing á hinu síðara var á þá leið að Egla ehf. væri í eigu Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga og Kers hf. „auk þess sem ein eða fleiri erlendar fjármálastofnanir [myndu] eiga aðild að félaginu“.

Af fyrirliggjandi fundargerðum stjórnar Kers hf. má sjá að þátttaka félagsins í kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum kom aftur til umræðu stjórnarinnar á fundi hennar 11. desember 2002 og var þá eina dagskrármálið, líkt og á fyrri fundi stjórnarinnar 15. nóvember s.á.[31] Fyrir utan viðstadda stjórnarmenn var bókað í upphafi fundargerðarinnar að á fundinn væru einnig mættir Guðmundur Hjaltason, framkvæmdastjóri hjá Samskipum hf., og Ralf Darpe frá „Þýskalandsdeild franska bankans Société Générale“, og tekið fram varðandi þá að „báðir [hefðu] komið að undirbúningi á kaupum valdra fjárfesta á kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands hf.“. Þessu næst var greint frá kynningu Ólafs Ólafssonar á framvindu málsins, sem hann kvað vera fjórþætta og snúast um „aðkomu erlendra fjárfesta að fjárfestahópnum“, staðfestingu annarra í fjárfestahópnum fyrir þátttöku, samningagerð við framkvæmdanefnd um einkavæðingu um skilmála og framkvæmd kostgæfnisathugunar (áreiðanleikakönnunar) á Búnaðarbankanum. Samkvæmt fundargerðinni voru fyrst kynntar á fundinum helstu niðurstöður áreiðanleikakönnunar endurskoðunarfyrirtækisins PWC á Búnaðarbankanum. Haft er eftir Ralf Darpe sem og Guðmundi Hjaltasyni að skýrsla um þá áreiðanleikakönnun væri ófullnægjandi, af nánar tilgreindum ástæðum, sem einkum vörðuðu það að skýrslan væri ekki nógu skýr og ítarleg.

Næst kemur fram í þessari fundargerð að svo hafi verið vikið að „hugsanlegri þátttöku SG í fjárfestahópnum um kaup á kjölfestuhlut í BÍ“. Síðan segir í beinu framhaldi:

  „RD [það er Ralf Darpe, fulltrúi Société Générale – viðbót RNA] upplýsti að SG myndi ekki taka beinan þátt í fyrirhugaðri fjárfestingu. Ræddi hann nánar ástæður þessa sem fyrst og fremst væru stjórnmálalegs eðlis og snertu aðstæður hér innanlands. SG vildi einfaldlega halda stjórnmálum og viðskiptum aðskildum. Viðskiptalegar forsendur fyrirhugaðra kaupa væru hins vegar ásættanlegar. Upplýsti RD jafnframt að teknar hefðu verið upp viðræður við þrjá evrópska banka um hugsanlega aðkomu þeirra að málinu. Niðurstöðu þeirra viðræðna væri að vænta fljótlega.“

 Ekki kom nánar fram í fundargerðinni um hvaða þrjá evrópsku banka væri þarna að ræða.

Fram kom einnig í þessari fundargerð að ótilgreindir fulltrúar fjárfestahópsins og framkvæmdanefnd um einkavæðingu væru farin að skiptast á „tillögum að drögum að kaupsamningi“ og að ekki væri annað vitað en að önnur félög í S-hópnum (Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, Vátryggingafélag Íslands hf. og Samvinnulífeyrissjóðurinn) „stefndu öll ótrauð að sameiginlegu marki, þ.e. kaupum á kjölfestuhlut í BÍ“. Í lok fundargerðarinnar kemur fram að eftir umræður um málið hafi Ólafur Ólafsson dregið saman niðurstöðu þeirra, sem fundarmenn væru sammála um. Þeirri samantekt var lýst svo í fundargerðinni: 

  „Eðlilegt væri að sækja um frest á því að tilkynna um endanlega samsetningu fjárfestahópsins þar til ljóst yrði hvort og hver hinn erlendi fjárfestir yrði. Unnið yrði að því að fá skýr svör í kostgæfnisathugun PWC á BÍ, og engar skuldbindingar undirritaðar fyrr.“

 Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að nokkrar vikur hafi liðið frá undirritun rammasamkomulags aðila 16. nóvember 2002 þar til málefni Búnaðarbankans komu efnislega til umræðu á ný innan framkvæmdanefndar um einkavæðingu.[32] Hinn 12. desember 2002 er bókað að ráðgjafi framkvæmdanefndarinnar frá HSBC hafi komið á fundinn og að m.a. hafi komið fram að gert væri ráð fyrir að „aðild Soc. Gen. yrði staðfest morguninn eftir“. Ekki kom þó til þess. Á fundi daginn eftir, 13. desember 2002, sagði formaður nefndarinnar frá fundi sínum og annars nefndarmanns með Ólafi Ólafssyni og Finni Ingólfssyni, forsvarsmönnum S-hópsins og „fulltrúa Soc. Gen.“ þar sem óskað hefði verið eftir frestun á undirskrift kaupsamnings til 13. janúar 2003. Lengri tíma þyrfti til að ljúka áreiðanleikakönnun en endanleg útgáfa hennar væri „skilyrði fyrir því að draga erlenda aðila að samningaborðinu“.

Síðan sagði í fundargerðinni að fram hefði komið að „ekki væri hægt að tilkynna um erlendan aðila fyrr en við undirskrift“. Í fundargerðinni er hvorki getið um hvort og þá til hvaða sérstöku ástæðna hafi verið vísað af hálfu S-hópsins fyrir þessari yfirlýsingu sinni. Í fundargerðinni er rakin nokkuð gagnrýnin umræða nefndarmanna um ósk S-hópsins um frestun á kaupsamningsgerð og tilkynningu um hver hinn erlendi fjárfestir væri í hópnum. Fram kom að nefndin teldi nauðsynlegt að vita hverjir væru væntanlegir fjárfestar meðal annars m.t.t. markmiða ríkisins með sölunni. Rædd voru úrræði sem nefndin hefði gagnvart þessu útspili S-hópsins, allt frá því að hætta viðræðum, sbr. áðurnefnt ákvæði 12. gr. samkomulagsins frá 16. nóvember 2002, til þess að fallast á óskina. Afdráttarlaus niðurstaða er hins vegar ekki bókuð. Í fundargerðinni segir það eitt að nefndarmenn hafi talið „mikilvægt að halda erlendri þátttöku inni til að styrkja hópinn“ og ákveðið hafi verið að „fara aftur yfir þau atriði sem réðu vali á samningsaðila en á sínum tíma [hefði S-hópurinn] verið metinn með og án þátttöku erlendrar fjármálastofnunar“. Loks var ákveðið að fengnar yrðu frekari skýringar frá S-hópnum.

Á meðal gagna rannsóknarnefndar liggur fyrir afrit af tölvubréfi, dags. sama dag og framangreindur fundur var haldinn eða 13. desember 2002, frá Edward Williams, starfsmanni HSBC sem sá um ráðgjöf gagnvart framkvæmdanefnd um einkavæðingu, til starfsmanns nefndarinnar. Í tölvubréfinu koma m.a. fram upplýsingar um athugun Williams á erlendum fjármálastofnunum. Þar segir m.a. að aðeins eitt af fjórum nöfnum sem ráðgjafanum hefðu verið látin í té væri þekkt hjá „öðrum en þýskum sérfræðingum um lánastofnanir“ (e. „non-German Financial Institutions specialists“). Í lok bréfsins var lagt til að þó svo ekki væri til staðar „fullt öryggi“ teldi ráðgjafinn „skynsamlegt að halda áfram á grundvelli þess sem SocGen hefði sagt honum“.

Eins og sést af orðalagi tölvubréfsins tók ráðgjafinn ekki fram við starfsmann framkvæmdanefndarinnar um hvaða fjármálastofnanir væri að ræða. Þá verður ekki ráðið af fundargerðum nefndarinnar að hann hafi nefnt einhverjar tilteknar fjármálastofnanir á þeim vettvangi, en í fundargerðunum kemur fram að Williams hafi verið viðstaddur og veitt upplýsingar um atriði sem vörðuðu aðkomu erlendrar fjármálastofnunar að tilboði S-hópsins. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði er raunar dregin sú ályktun að fyrirkomulagið í samningaviðræðunum hafi verið með þeim hætti að fulltrúar HSBC, sem ráðnir voru sem ráðgjafar íslenskra stjórnvalda í ferlinu, fengu upplýsingar hjá fulltrúum S-hópsins um það hvaða stofnanir kæmu til greina í þessu sambandi. Fulltrúar HSBC hafi síðan leitast við að afla upplýsinga um viðkomandi stofnanir og komu síðan almennum upplýsingum á framfæri við íslensk stjórnvöld, umbjóðendur sína, án þess að geta um það með nafni hvaða stofnanir væri um að ræða.[33]

Af tölvupósti Williams verður skýrlega ráðið, sbr. tilvitnun til hans hér framar, að Williams hafi fengið upplýsingar um þessar ónefndu fjármálastofnanir (sem ráða má af samhengi að hafi verið þýskar) frá „SocGen“ og byggt á þeim í svörum sínum til framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Ljóst er því að þessar upplýsingar hefur hann fengið frá þeim fulltrúum Société Générale sem aðstoðuðu S-hópinn á þessum tíma, það er annað hvort Michael Sautter eða Ralf Darpe.

Af fundargerðum framkvæmdanefndar um einkavæðingu verður ekki ráðið hvort einhverjar skýringar hafi komið fram um þessi atriði eða hvort framkvæmdanefndin hafi mótað sér formlega afstöðu til óskar S-hópsins um að fresta tilkynningu um það hver hin erlenda fjármálastofnun væri þar til skrifað væri undir kaupsamninginn. Í fundargerð framkvæmdanefndarinnar frá 6. janúar 2003 er loks bókað um samtal formanns nefndarinnar við Ólaf Ólafsson, forsvarsmann S-hópsins, þar sem fram hafi komið að „samningar við erlenda fjármálastofnun væru langt komnir“ og að vilji stæði til að klára þá sem fyrst. Ráðgjafar frá Société Générale væru á leið til landsins í tengslum við innri samningagerð S-hópsins.

Á meðal gagna rannsóknarnefndar er einnig afrit af bréfi til Fjármálaeftirlitsins, dags. 8. janúar 2003, frá lögmanni á lögfræðistofunni Fulltingi ehf. fyrir hönd Kristins Hallgrímssonar hrl., sem starfaði fyrir S-hópinn að þessu verkefni eins og fram hefur komið. Í upphafi bréfsins var vísað til þess að Fjármálaeftirlitinu væri kunnugt að fjárfestahópur undir forystu Kers hf. hefði undirritað fyrrgreint rammasamkomulag við íslenska ríkið um kaup á 45,8% hlut í Búnaðarbanka Íslands hf. Í bréfinu var því síðan lýst að í samræmi við ákvæði þágildandi 10. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, óskaði fjárfestahópurinn eftir samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir kaupunum. Því næst sagði í bréfinu:

 „Sá annmarki er á beiðninni á þessu stigi að fjárfestahópurinn, sem fyrirhugar kaup á virkum eignarhluta í BÍ, er enn ekki fullskipaður. Óvissan snýr að aðkomu erlendrar fjármálastofnunar og/eða erlendra fjármálastofnana að kaupunum, en henni verður eytt næstu daga. Umsækjendur, væntanlegir kaupendur, gera sér grein fyrir að FME getur ekki tekið formlega afstöðu til kaupanna fyrr en fjárfestahópurinn hefur verið fullskipaður. Það gæti hins vegar orðið til þess að flýta endanlegri afgreiðslu umsóknar ef FME treysti sér til þess að skoða og meta stöðu annarra aðila fjárfestahópsins nú.“

Með bréfinu voru svo veittar upplýsingar um íslensk félög sem stóðu að S-hópnum en ekki þarf að rekja þau atriði frekar hér.[34]

Á fundi framkvæmdanefndar um einkavæðingu 9. janúar 2003 mætti Edward Williams, ráðgjafi frá HSBC, að því er virðist einkum til að fara yfir „stöðu varðandi erlenda fjármálastofnun“ sem honum hafði verið kynnt. Í sömu fundargerð er bókað að ráðgjafinn frá HSBC teldi þann banka sem kominn væri til liðs við S-hópinn „góðan fjárfesti og vel ásættanlegan fyrir íslensk stjórnvöld“. Óveruleg tengsl væru milli bankans og annarra í hluthafahópnum og „einhver samlegðaráhrif “ væru milli bankans og Búnaðarbankans. Fjármálastofnunin er sem fyrr ekki nefnd á nafn í fundargerðinni.

Samkvæmt þeim fundargerðum stjórnar Kers hf. sem liggja fyrir hjá rannsóknarnefndinni var síðasti fundur stjórnarinnar fyrir undirritun kaupsamnings um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum haldinn 10. janúar 2003. Á fundinum var meðal annars rædd staða mála varðandi kaupin á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.[35] Bókun í fundargerðinni um þetta hefst á því að Ólafur Ólafsson hafi lýst stöðu mála í viðræðum við ríkið um kaupin og meðal annars greint frá því að stefnt væri að undirritun skjala vegna kaupanna á þriðjudag eða miðvikudag í vikunni á eftir (það er 15. eða 16. janúar 2003, svo fór að skrifað var undir samninginn síðari daginn, eins og fyrr greindi). Í fundargerðinni segir svo:

 „Upplýsti [Ólafur] að þýskur banki kæmi að Eglu hf. í þessu máli og Martin Ziel [svo] lögmaður Hauck & Aufhäuser (HA) væri að yfirfara og skoða drög að skjölum og kynna sér löggjöf henni tengdri hérlendis.“

 Í fyrirliggjandi fundargerðum stjórnar Kers hf. hjá rannsóknarnefndinni er þetta í fyrsta sinn sem getið er um upplýsingar um Hauck & Aufhäuser sem fram hafi komið á vettvangi stjórnarinnar.

Samkvæmt fundargerðinni var á fundinum einnig fjallað nánar um atriði varðandi áreiðanleikakönnun á Búnaðarbankanum og væntanlegt eignarhald Eglu hf.[36] Um hið síðarnefnda kemur fram að Ólafur Ólafsson hafi gert grein fyrir því að koma þyrfti til eignarhalds þriðja aðila í Eglu hf. ásamt Keri hf. og Hauck & Aufhäuser „af skattalegum ástæðum svo Egla hf. félli ekki undir samstæðu Kers hf.“ Af þessu má sjá að á þessum tímapunkti var komin endanleg mynd á það að Ker hf. og Hauck & Aufhäuser yrðu skráðir eigendur að Eglu hf. því sem næst til helminga, fyrir utan aðild þessa þriðja aðila, sem að endingu varð VÍS hf. með 0,5% eignarhlut. Samkvæmt fundargerðinni var að loknum umræðum um þetta borin upp tillaga formanns stjórnarinnar, Kristjáns Loftssonar, um að Ker hf. tæki áfram þátt í kaupum á kjölfestuhlut í BÍ með því að gerast eigandi 49% alls hlutafjár í Eglu hf. ásamt Hauck & Aufhäuser (auk þriðja aðila sem eiganda lítils hlutar af skattalegum ástæðum) sem „myndi kaupa 2/3 hluta kjölfestunnar“. Tillagan var sögð samþykkt af öllum fundarmönnum. Aðrar umræður á þessum fundi tengdust væntanlegri skipan stjórnar Eglu hf. Samþykkt var að Kristján Loftsson og Ólafur Ólafsson tækju sæti í stjórn félagsins.

Sama dag var haldinn hluthafafundur í Eglu ehf. þar sem samþykktum félagsins frá 14. nóvember 2002 var breytt og félaginu jafnframt breytt í hlutafélag.

Næsti fundur framkvæmdanefndar um einkavæðingu fór fram sama dag og áðurnefndur stjórnarfundur í Keri hf., 10. janúar 2003. Í fundargerð vegna þess fundar er bókað að rætt hafi verið um undirskrift kaupsamnings og vandkvæði við að „að fá fulltrúa erlends banka til að skrifa undir fyrir tiltekinn tíma“. Tekið er fram að ljóst sé „að miklu máli skipti að bakhjarl bankans [væri] Bayerische Landesbank sem [væri] þekktur og stór banki“.

Í Fréttablaðinu 11. janúar 2003 var greint frá gangi mála varðandi kaup S-hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Í frétt á bls. 2 í blaðinu sagði að Société Générale myndi ekki kaupa sjálfur hlut í bankanum. Í fréttinni sagði enn fremur að „aðrir erlendir bankar“ myndu kaupa þann hlut sem franski bankinn hefði ætlað að kaupa og voru þýskir bankar nefndir í því sambandi. Varðandi það „að önnur bankastofnun en Société Générale kæmi að kaupunum“ var haft eftir Ólafi Ólafssyni, sem sagður var mest hafa farið fyrir S-hópnum í kaupunum á Búnaðarbankanum, að S-hópurinn hefði aldrei gefið neitt út um það að franski bankinn keypti í bankanum heldur það eitt að erlend fjármálastofnun eða stofnanir myndu taka þátt í kaupunum. Einnig var fjallað um hugsanlega sameiningu Búnaðarbankans við aðra fjármálastofnun og voru þar nefnd Landsbankinn annars vegar eða Kaupþing hins vegar. Af því tvennu var sameining Búnaðarbankans við Kaupþing sögð „stjórnendum Kaupþings og S-hópnum síður en svo á móti skapi“. Í fréttinni var sagt að engar viðræður um þetta hefðu farið fram en „menn [horfðu] af alvöru til þessa möguleika“. Í beinu framhaldi af þessari umfjöllun um hugsanlega sameiningu Búnaðarbankans við aðra fjármálastofnun, og þá augljóslega líklegast Kaupþing hf., kom fram í fréttinni sú athugasemd sem vitnað er til á spássíu um afstöðu „hinna erlendu fjárfesta“ til „sameiningarmöguleika á markaði“. Loks var í fréttinni fjallað um þóknun bankans vegna þjónustu við S-hópinn. Nánar er vitnað til þessara atriða úr frétt Fréttablaðsins hér til hliðar.

Síðasta fundargerð framkvæmdanefndar fyrir undirritun kaupsamnings um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum er frá 14. janúar 2003. Þar kemur fram að Baldur Guðlaugsson hafi farið yfir fund sinn með Finni Ingólfssyni og Ólafi Ólafssyni þar sem fjallað hefði verið um undirskrift, kynningar og lokafrágang samninga. Ekkert er þar bókað um málefni varðandi erlendan fjárfesti.

Með samningi Eglu hf. og Hauck & Aufhäuser sem dagsettur er 15. janúar 2003 var kveðið á um að bankinn keypti 50% hlutafjár í Eglu fyrir 5.000.000 króna að nafnvirði. Þá var þar kveðið á um að Egla hf. myndi samtímis gera samning við Ker hf. um kaup 50% hlutafjár í Eglu og sams konar samning við Vátryggingafélag Íslands um kaup á 0,5% í Eglu. Samninginn undirrituðu Kristinn Hallgrímsson hrl. f.h. Eglu hf. en Peter Gatti fyrir hönd Hauck & Aufhäuser.

Eins og framangreind lýsing ber með sér fóru samningaviðræður framkvæmdanefndarinnar og S-hópsins að meginstefnu fram í samræmi við þá ósk forsvarsmanna S-hópsins að fresta undirritun kaupsamnings og tilkynningu um hver erlendi fjárfestirinn væri, sem kom fram og var rædd á fundi 13. desember 2002. Ekki var skrifað undir kaupsamninginn fyrr en 16. janúar 2003 og samkvæmt fundargerðum virðist framkvæmdanefndin í fyrsta lagi örfáum dögum áður hafa byrjað að fá upplýsingar, og a.m.k. í upphafi hvorki miklar né nákvæmar, um hver hinn erlendi fjárfestir væri.[37]

3.2. Undirritun kaupsamnings og tilkynningar í kjölfar hans

Kaupsamningur milli íslenska ríkisins og Eglu hf., Samvinnulífeyrissjóðsins, Vátryggingafélags Íslands hf. og Eignarhaldsfélagsins Samvinnutryggingar um 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum var undirritaður 16. janúar 2003 í þáverandi höfuðstöðvum Búnaðarbankans í Austurstræti. Í aðfararorðum kaupsamningsins sem og skilgreiningum í 1. gr. hans kom fram að Hauck & Aufhäuser væri meðal eigenda alls hlutafjár í Eglu hf. ásamt Keri hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf. Hluturinn sem seldur var í Búnaðarbankanum var að nafnverði kr. 2.481.542.021 eða tæpir 2,5 milljarðar króna. Miðað við útgefið hlutafé í bankanum jafngilti það 45,8% hlut í bankanum.

Hluturinn skiptist milli kaupenda í eftirfarandi hlutföllum, sbr. 2. gr. kaupsamningsins: Egla hf. (um 71,2%), Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar (um 7,6%), Samvinnulífeyrissjóðurinn (um 8,5%) og Vátryggingafélag Íslands hf. (um 12,7%). Fram kom einnig að hlutafé í Eglu hf. skiptist með þessum hætti: Ker hf. (49,5%), Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA (50%) og Vátryggingafélag Íslands hf. (0,5%). Samkvæmt þessum hlutfallstölum um þátttöku einstakra félaga í kaupendahópnum í kaupunum, og ákvæðum kaupsamningsins að öðru leyti, var Hauck & Aufhäuser samkvæmt kaupsamningnum kaupandi að um 35,6% þess hlutar í Búnaðarbankanum sem seldur var, sem aftur jafngilti um 16,3% af öllu hlutafé Búnaðarbankans.

Afhending hlutanna skyldi samkvæmt 3. gr. kaupsamningsins fara fram í tveimur lotum, 27,48% samkvæmt fyrri lotu innan 30 daga frá undirritun samningsins að uppfylltum skilyrðum hans (sbr. einkum samþykki Fjármálaeftirlitsins og tilkynningu frá systurstofnun Fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg) en 18,32% samkvæmt síðari lotu „þegar kaupandi [óskaði], en þó eigi síðar en 20. desember 2003“ að uppfylltum skilyrðum samningsins.

Kaupverð hlutanna samkvæmt samningnum var annars vegar í íslenskum krónum og hins vegar Bandaríkjadölum eftir nánari ákvæðum í 4. gr. kaupsamningsins. Heildarkaupverðið nam um 11,9 milljörðum íslenskra króna, eins og ráð var fyrir gert í rammasamkomulagi aðila frá 16. nóvember 2002.[38]

Kveðið var á um fjármögnun kaupanda í 7. gr. kaupsamningsins. Kaupendur „[skuldbundu] sig til að fjármagna kaupin“ með þeim hætti sem greinin kvað nánar á um. Kveðið var á um fjármögnun hvers kaupanda sérstaklega, sbr. nánar um fjármögnun Eglu hf. hér á eftir. Samkvæmt sérstöku ákvæði í 7. gr. var kaupendum „óheimilt að fjármagna kaupin með þátttöku Búnaðarbanka Íslands hf.“, sbr. nánari tilvitnun til greinarinnar hér til hliðar.[39] Kaupsamningur aðila kvað ekki á um frekari takmörkun við því hvaðan kaupendur öfluðu lánsfjár vegna kaupanna. Sérstakt ákvæði um fjármögnun Eglu hf. kvað þó á um að hlutur þess félags í kaupunum yrði fjármagnaður „að minnsta kosti 65% með eigin fé, en allt að 35% með lánsfé í samræmi við grein 7.3“. Sú grein hljóðaði svo:

 „Eins og fram kemur í gr. 7.1 fjármagnar Egla hf. sinn hluta að minnsta kosti 65% með eigin fé og allt að 35% með lánsfé. Eigendur hlutafjár í Eglu hf. eru Ker hf. 49,5%, Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGAA 50% og Vátryggingafélag Íslands hf. 0,5%. Hluthafar í Eglu hf. ábyrgjast hver fyrir sig það framlag sitt til eigin fjár Eglu hf., sem nauðsynlegt er til þess að fjármagna kaup Eglu hf. í fyrstu og annarri lotu. Lánsfé til Eglu hf. verður lagt fram af íslenskum banka á kjörum lánsloforðs sem leggja skal fram eigi síðar en 3. febrúar 2003. Kjörum þessa lánsloforðs geta hvorki Egla hf. né viðkomandi íslenskur banki breytt án skriflegs samþykkis seljanda fyrr en kaupverð annarrar lotu hefur verið greitt. Lánsloforð þetta skal m.a. fela í sér skilyrðislausa skuldbindingu af hálfu viðkomandi íslensks banka til Eglu hf. vegna þeirra skuldbindinga sem hvíla á Eglu hf. samkvæmt samningi þessum, og að Egla hf. geti eingöngu nýtt sér lánsféð til þess að greiða 35% af skuldbindingu sinni samkvæmt fyrstu og annarri lotu kaupanna án frekari skilyrða.“[40]

Eins og fram kom í tilvitnuðu ákvæði var það skýrt samkvæmt kaupsamningnum að hluthafar í Eglu hf. báru hver fyrir sig ábyrgð á því framlagi til eigin fjár Eglu hf. sem nauðsynlegt væri til þess að fjármagna kaup Eglu hf. samkvæmt kaupsamningnum.

Í 11. gr. kaupsamningsins var kveðið á um takmarkanir sem vera skyldu á ráðstöfun kaupenda á tilteknum hluta af þeim hlutum í Búnaðarbankanum sem ríkið seldi þeim með samningnum. Í sömu grein var lýst ákvæðum um það hvaða hluta af hinum keypta hlut kaupendum var frjálst að ráðstafa og með hvaða skilyrðum. Fleiri ákvæði var að finna í þessari grein, meðal annars um sérstakar frekari takmarkanir varðandi ráðstöfun á hlutum Eglu hf. og málefni þess félags að öðru leyti. Vegna samhengis og annarrar umfjöllunar í skýrslu þessari er rétt að vitna beint til helstu ákvæða 11. gr. kaupsamningsins nokkurn veginn í heild sinni.[41] Greinin hafði að geyma 8 undirgreinar, 11.1 til 11.8, með nánari ákvæðum, svo sem hér greinir nánar:

1.   „11. Takmarkanir á ráðstöfun hlutanna

2.   11.1 Kaupendum, í heild eða hverjum fyrir sig, er óheimilt, nema að fengnu skriflegu samþykki seljanda, að selja, eða ráðstafa á annan hátt, þeim hlutum sem afhentir verða í fyrstu lotu, og 5,82% útgefnu hlutafé Búnaðarbanka Íslands hf., sem hluta af þeim hlutum sem afhentir verða í annarri lotu, eða samtals 33,3% af útgefnu hlutafé í Búnaðarbanka Íslands hf., eða veðsetja hlutina þannig að hægt verði að ganga að veðinu fyrr en að liðnum tuttugu og einum mánuði frá undirritun samnings þessa eða selja, ráðstafa eða veðsetja réttindi samkvæmt þeim, í tuttugu og einn mánuð frá undirritun samnings þessa. Kaupendum er hins vegar frjálst að ráðstafa 12,5% af útgefnu hlutafé í Búnaðarbanka Íslands hf. sem afhent er í annarri lotu.

3.   11.2 Þrátt fyrir ofangreint er kaupendum þó heimilt að framselja samtals allt að 5,82% af útgefnu hlutafé í Búnaðarbanka Íslands hf. til þriðja aðila sem undirgengst allar þær skuldbindingar sem kaupendur hafa undirgengist samkvæmt samningi þessum, fylgiskjölum og öðrum samningum tengdum þeim viðskiptum sem hér um ræðir, þannig að hann verði jafnsettur kaupendum gagnvart seljanda við kaup á ofangreindum hlutum. […]

4.   11.3 Hluthöfum Eglu hf. er einnig óheimilt að selja, veðsetja eða ráðstafa á annan hátt, hlutum sínum í Eglu hf. eða réttindum samkvæmt þeim, í tuttugu og einn mánuð frá undirritun samnings þessa, nema að fengnu skriflegu samþykki seljanda. Þrátt fyrir þetta ákvæði getur Vátryggingafélag Íslands hf. selt sinn hlut í Eglu hf., að hluta eða öllu leyti, til annars hvors eða beggja annarra hluthafa í Eglu hf. […]

5.   11.4 Hluthöfum Eglu hf. er óheimilt að slíta félaginu án skriflegs samþykkis seljanda fyrr en að liðnum tuttugu og einum mánuði frá undirritun samnings þessa nema þær hömlur sem eru á ráðstöfun hluta á hinum seldu hlutum verði fyrr niður fallnar. […]

6.   11.5 Ákvæði greinar 11.1 skulu þó ekki standa í vegi fyrir hugsanlegum samruna Búnaðarbanka Íslands hf. við önnur fjármálafyrirtæki, eða yfirtöku annarra fjármálafyrirtækja á Búnaðarbanka Íslands hf., þar sem hlutir í öðru fjármálafyrirtæki koma í stað hluta kaupenda í Búnaðarbanka Íslands hf., að því gefnu að hlutir kaupenda í hinu sameinaða félagi eða yfirtökufélaginu verði háðir þeim takmörkunum sem fram koma hér að ofan. […]

7. […]

8.   11.7 Samþykktir Eglu hf. skulu endurspegla þær kvaðir sem gilda um ráðstöfun hluta í félaginu og allir útgefnir hlutir í Eglu hf. skulu jafnframt áritaðir um kvaðirnar. Í fylgiskjali nr. 2 er að finna ákvæði sem koma skulu fram í samþykktum Eglu hf. og árita skal á hlutina.

9.   11.8 Viðskiptaráðherra kemur fram fyrir hönd seljanda vegna þeirra tilvika sem leita þarf samþykkis seljanda samkvæmt samningi þessum.“

 Í 12. gr. kaupsamningsins voru ákvæði um hluthafasamkomulag sem fram kom að kaupendur hefðu þá þegar gert með sér. Markmið slíks hluthafasamkomulags var sagt að tryggja að kaupendur „kæmu fram sem einn aðili, kjölfestufjárfestir, í tengslum við eignarhald þeirra“ á hlutnum í Búnaðarbankanum. Nánar sagði um það að samkvæmt hluthafasamkomulaginu skyldu kaupendur „koma fram sem einn hluthafi“ í Búnaðarbankanum, þar með við beitingu atkvæðisréttar á hluthafafundum og „áhrifum innan stjórnar félagsins“.[42] Þess skal loks getið að ákvæði kaupsamningsins um vanefndir kaupenda og fleira, sbr. 13. gr. samningsins, gerðu hins vegar ráð fyrir því að kaupendur bæru ekki ábyrgð á vanefndum meðkaupenda og að vanefndir hluthafa Eglu hf. skyldi líta svo á að þær jafngiltu vanefndum Eglu hf. pro rata, eða í réttu hlutfalli, við eignarhluta hvers hluthafa.

Kaupsamninginn undirrituðu Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra og Geir H. Haarde fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins en Ólafur Ólafsson fyrir hönd Eglu hf., Margeir Daníelsson fyrir hönd Samvinnulífeyrissjóðsins, Finnur Ingólfsson fyrir hönd Vátryggingafélags Íslands hf. og Axel Gíslason fyrir hönd Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga. Í 20. gr. kaupsamningsins kom einnig fram að allir hluthafar Eglu hf. undirrituðu samninginn til staðfestingar þeim skuldbindingum sem kæmu fram í greinum 7, 9, 11, 12 og 13. Samningurinn hafði að geyma sérstakt fylgiskjal með slíkum undirritunum Kristjáns Loftssonar af hálfu Kers hf., Peter Gatti af hálfu Hauck & Aufhäuser og Finns Ingólfssonar af hálfu Vátryggingafélags Íslands hf.

Önnur ákvæði kaupsamningsins þykir ekki sérstök þörf á að rekja hér.

Að lokinni undirskrift kaupsamningsins var send út sameiginleg fréttatilkynning íslenska ríkisins og kaupenda. Hún bar yfirskriftina „Þýskur banki í hópi nýrra eigenda Búnaðarbanka Íslands hf.“ Í henni kom einnig efnislega fram að Hauck & Aufhäuser hefði staðið að kaupum á rúmlega þriðjungi, eða 35,6%, þess hlutar í Búnaðarbankanum sem seldur var en að öðru leyti var þar einungis greint frá meginatriðum kaupsamningsins á ámóta hátt og hér hefur þegar verið gert.

Fréttatilkynningu þessari fylgdi sérstakt skjal þar sem starfsemi þýska bankans var lýst frekar. Í því kom m.a. fram að bankinn væri að meiri hluta í eigu einstaklinga (70%) og stofnanafjárfesta og að hann væri „einn virtasti banki Þýskalands“. Bankinn hefði verið stofnaður fyrir 206 árum og að hann væri m.a. með starfsemi í Sviss og Lúxemborg og sérhæfði sig í „sjóða- og eignastýringu fyrir stofnanir og einkaaðila, umsjón verðbréfa fyrir sjóði og fjármálastjórn fyrirtækja og einstaklinga“. Í skjalinu var tekið fram að í árslok 2001 hafi bankinn farið með stjórn eigna og sjóða að andvirði 12 milljarða evra. Brúttó heildareignir í samstæðureikningum hafi numið 1.694 milljónum evra og eigið fé 107 milljónum evra. Þá kom þar fram að nokkrar ástæður lægju að baki fjárfestingu Hauck & Aufhäuser en í því sambandi var þó aðeins tilgreint að Búnaðarbankinn væri „vænleg fjárfesting“ en þýski bankinn teldi sig „hafa hag af því að miðla af sérþekkingu sinni til BÍ“. Þannig gæti vöxtur Búnaðarbankans farið fram úr væntingum, „ekki síst á erlendum mörkuðum“.

Í sérstakri tilkynningu frá kaupendum 45,8% hlutar í Búnaðarbankanum til fjölmiðla sama dag og kaupin voru gerð sagði síðan:

„Það eru mikil tíðindi að traustur, erlendur banki taki þátt í að fjárfesta í íslenskri fjármálastofnun. Búnaðarbankinn kemur til með að njóta þekkingar, reynslu og viðskiptasambanda þýska bankans í starfsemi sinni. Enn mikilvægara er að með eignarhaldi þýska bankans í Búnaðarbankanum skapast tengsl sem íslensk fyrirtæki geta notfært sér til að styrkja starfsemi sína og sókn á erlendum mörkuðum. Þetta er afar mikilvægt þegar haft er í huga að möguleikar íslenskra fyrirtækja til að vaxa verulega og dafna tengjast fyrst og fremst alþjóðlegri starfsemi.“

 Fjallað var um undirskrift kaupsamningsins í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu daginn eftir undirskriftina, 17. janúar 2003. Í Morgunblaðinu var annars vegar sagt frá undirskriftinni og meginatriðum samningsins en hins vegar birt stutt viðtöl við hlutaðeigandi fólk, þar á meðal Valgerði Sverrisdóttur viðskiptaráðherra, Ólaf Ólafsson og Peter Gatti. Eftir Valgerði Sverrisdóttur var meðal annars haft:

„Samningurinn er góður því verðið er gott, auk þess sem það er áhugavert að fá erlendan banka inn í kaupin. Að því hefur ríkisstjórnin stefnt allt frá árinu 1995. Vel hefur því tekist til í þessum viðskiptum.“

 Einnig var haft eftir Valgerði að það gæti ekki annað en verið neytendum í hag að fá erlendan banka til landsins. Það hefði aukið samkeppnina „sem talað hafi verið um að hafi vantað“. Ólafur Ólafsson var í sömu umfjöllun Morgunblaðsins sagður sá sem hefði verið „formælandi S-hópsins“. Hann kvað kaupsamninginn vera í meginatriðum í samræmi við „það sem farið [hefði] verið af stað með þegar fyrst var rætt um kaupin“. Einnig var haft eftir Ólafi:

„Nokkrir bankar sýndu því áhuga að taka þátt í þessu með okkur. […] Við völdum þýska bankann úr þeim hópi, að undangenginni skoðun, því við töldum hann heppilegastan fyrir Búnaðarbankann og okkar starf.“

 Eftir Peter Gatti, sem titlaður var framkvæmdastjóri og meðeigandi Hauck & Aufhäuser, var haft að Búnaðarbankinn væri „vænleg fjárfesting“ og að „hinn þýski banki [teldi] einnig að hann [hefði] hag af því að miðla af sérþekkingu sinni. Þá var haft eftir Gatti að bankinn myndi „halda eignarhlut sínum í Búnaðarbankanum í a.m.k. tvö ár eins og kveðið [væri] á um í kaupsamningnum“ en að þeim tíma yrði „ávöxtunin metin og fjárfestingin endurskoðuð“.

Í Fréttablaðinu var frétt á forsíðu um kaupin. Fram kom í undirfyrirsögn að þýskur banki hefði „[keypt] í Búnaðarbanka fyrir um fjóra milljarða“. Í meginmáli fréttarinnar kom nánar fram að Hauck & Aufhäuser hefði keypt 35,6% af hinum selda hlut fyrir umrædda fjárhæð. Í fréttinni var haft eftir Ólafi Ólafssyni, sem sagður var hafa „[farið] fyrir kaupendum bankans“, að hann fagnaði þátttöku þýska bankans í verkefninu og að það væri gott fyrir kaupendurna „að fá það aðhald sem [fylgdi] eign þýska bankans í Búnaðarbankanum“. Í fréttinni voru einnig höfð ummæli eftir Peter Gatti, meðal annars um að bankinn „[horfði] til nokkurra ára í fjárfestingu sinni“. Á forsíðu Fréttablaðsins birtist önnur frétt með umfjöllun um kaupin. Þar var einnig haft eftir Peter Gatti að hann væri „ánægður með kaup bankans í Búnaðarbankanum“. Í þeirri frétt var einnig haft eftir Valgerði Sverrisdóttur að „aðkoma þýska bankans [væri] mikið ánægjuefni“.

3.3  Samskipti S-hópsins við Fjármálaeftirlitið í kjölfar kaupa á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum

Með bréfi, dags. 16. janúar 2003, lögðu Egla hf., Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, Samvinnulífeyrissjóðurinn og Vátryggingafélag Íslands hf. fram umsókn um samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir kaupum á virkum eignarhlut, eða 45,8%, í Búnaðarbanka Íslands hf. Umsóknin var sett fram með vísan til 40. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Fram kom í upphafi fylgibréfs með umsókninni að „fjárfestahópur“ óskaði eftir samþykki FME fyrir umræddum kaupum og tekið fram að á eftir færi lýsing á fjárfestunum. Erindi þetta var sem fyrr undirritað af Kristni Hallgrímssyni hrl. og sagt sent „f.h. Fulltingi ehf.“.

Af erindinu mátti m.a. skýrlega ráða að Hauck & Aufhäuser myndi gegnum 50% eignarhald á Eglu hf. eiga 35,59% hlutdeild í kaupum á eignarhlutnum í Búnaðarbankanum. Þá voru í bréfinu veittar ákveðnar upplýsingar um mat alþjóðlegra matsfyrirtækja á bankanum, eignir bankans, hlutföll fjármagns og rekstrar, ásamt helstu tölum úr ársreikningi bankans fyrir árin 2001 og 2000. Í þeirri upptalningu kom meðal annars fram að eigið fé bankans í árslok 2001 hefði numið 79,6 milljónum evra (75,8 milljónir evra í árslok 2000) og að hagnaður þess árs eftir skatta hafi numið 13,2 milljónum evra (19,2 milljónum evra árið 2000). Í 8. lið bréfsins er fjallað um reynslu umsækjanda af fjármálastarfsemi en í því sambandi er einungis vísað til bréfs S-hópsins til framkvæmdanefndar um einkavæðingu, dags. 31. október 2002, þar sem fjallað var um ráðgjafarhlutverk Société Générale í tengslum við fjárfestingu S-hópsins. Í þessum lið bréfsins til Fjármálaeftirlitsins var með öðrum orðum ekkert vikið að Hauck & Aufhäuser. Í bréfinu er síðan gerð grein fyrir helstu hluthöfum Hauck & Aufhäuser og segir jafnframt að bankanum sé stjórnað af „managing partners“, sem nánar var skýrt sem „sambland af eigendum og stjórnendum“.

Áður en vikið er að fyrstu viðbrögðum Fjármálaeftirlitsins við umsókn S-hópsins er rétt að fram komi að 25. janúar 2003, eða fáum dögum eftir undirskrift kaupsamningsins og sendingu umsóknarinnar 16. janúar 2003, birtist í Fréttablaðinu ítarleg fréttaskýring um einkavæðingu þáverandi ríkisstjórnar á ríkiseignum. Þar á meðal var fjallað um einkavæðingu ríkisbankanna tveggja, Landsbankans og Búnaðarbankans. Í umfjöllun um einkavæðingu Búnaðarbankans var meðal annars fjallað um aðkomu Société Générale að söluferli bankans og hugsanlega sameiningu bankans við Kaupþing hf. með svofelldum hætti:

„Einn stærsti banki Evrópu, franski bankinn Société Générale, hugðist taka beinan þátt í kaupunum. Fréttablaðið hafði áreiðanlegar heimildir fyrir því að bankinn ætlaði að fjárfesta í Búnaðarbankanum fyrir þrjá milljarða. Útibú Société Générale í Frankfurt var ráðgjafi S-hópsins og fékk 300 milljónir í sinn hlut fyrir viðvikið.

Michael Sautter, fulltrúi bankans, staðfesti við Fréttablaðið að hreinar viðskiptalegar ástæður hefðu ekki legið að baki því að Société Générale hætti við beina þátttöku í kaupunum. Ástæðurnar voru samkvæmt heimildum einkum þrjár. Bankinn varð undir í baráttu um bankann Credit Lyonnais. Það þótti því ímyndarlega veikt að tapa þeim slag og kaupa banka á litla Íslandi á sama tíma. Grein Euromoney um Samson og fortíð meðlima þess hóps dró augu evrópskra fjármálamanna að landinu. Menn vildu ekki lenda í því kastljósi. Þá bættist við að stjórnendum Société Générale þótti of mikil pólitík í íslensku viðskiptalífi. Bankinn útvegaði því Hauck & Aufhäuser, sem tók við keflinu.

Sætasta stelpan í bænum

Hvað sem mönnum kann að finnast um söluferlið og nýja eigendur bankanna er ljóst að fróðlegt verður að fylgjast með næstu skrefum í þróun fjármálakerfisins. […] Nýir eigendur munu leita leiða til að hagræða og hámarka arðinn af fjárfestingu sinni. Eigendurnir eru bundnir af því að eiga að minnsta kosti þriðjung í bönkunum til næstu tuttugu mánaða.

Ýmsar vangaveltur eru um framhaldið. Margir telja að Kaupþing sé ákjósanlegur kostur til sameiningar við annan hvorn ríkisbankanna. „Sætasta stelpan í bænum“ er Kaupþing kallað meðal gárunga í fjármálaheiminum. Sögusagnir hafa verið á kreiki um að samkomulag liggi fyrir um að Kaupþing kaupi hlut bankans [svo] að þessum tíma liðnum. Fulltrúi þýska bankans, Peter Gatti, neitaði því að aðrir stæðu á bak við kaupin.“

 Víkur þá að meðferð Fjármálaeftirlitsins á fyrrnefndri umsókn S-hópsins um samþykki fyrir að mega fara með virkan eignarhlut í Búnaðarbankanum. Með bréfi, dags. 5. febrúar 2003, til Kristins Hallgrímssonar hrl., þar sem vísað var í upphafi til umsóknar hans „f.h. fjárfestahóps undir forystu Kers hf.“ um samþykki fyrir kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, óskaði Fjármálaeftirlitið eftir ítarlegri upplýsingum, sjónarmiðum og gögnum sem tengdust umsókninni. Í bréfinu segir meðal annars:

„Í kaupsamningi kemur fram að kaupendur hafi gert með sér hluthafasamkomulag sem tryggi að þeir komi fram sem einn aðili, kjölfestufjárfestir, í tengslum við eignarhald þeirra á þeim hlutum sem um ræðir. Óumdeilt er í því að umsækjendur teljast saman fara með virkan eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. Óskað er eftir afriti af fyrrgreindu hluthafasamkomulagi.

Fjármálaeftirlitið leggur mikla áherslu á gegnsæi í eignarhaldi ráðandi hluthafa í fyrirtækjum á fjármálamarkaði. Í því skyni kann við tilteknar aðstæður að vera nauðsynlegt að leggja fyrir umsækjenda að fela allt eignarhald í viðkomandi fjármálafyrirtæki í sérstöku eignarhaldsfélagi sem hefði aðeins þann tilgang að sinna eignarhaldi í fjármálafyrirtækinu. Það á m.a. við ef hinn virki eignarhlutur er stór, innbyrðis eignartengsl eru flókin, til álita kemur hvort sameinaður eignarhlutur myndi stofna til réttarsambands móður- og dóttur- félags, eða ef eftirlit með hinum virka eignarhlut væri ella torvelt. Óskað er sjónarmiða umsækjenda til þess að allur eignarhlutur þeirra í Búnaðarbanka Íslands verði færður undir Eglu hf.

[…]

Erindi umsækjenda varðar kaup á 45,8% hlutafjár í Búnaðarbanka Íslands hf. Í því skyni að ganga úr skugga um að hinn virki eignarhlutur takmarkist nú við fyrrgreint hlutfall óskar Fjármálaeftirlitið eftir upplýsingum frá umsækjendum um hvort þeir eigi eða fari með hluti í Búnaðarbanka Íslands hf. beint eða óbeint, til viðbótar við það hlutafé sem samið hefur verið við ríkissjóð um kaup á. Einnig er óskað fyrirliggjandi upplýsinga um aðila sem tengdir eru umsækjendum, auk upplýsinga um hlutafjáreign þeirra í Búnaðarbanka Íslands hf.

Í þessu sambandi er minnt á skilgreiningu á virkum eignarhlut í 2. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002, en með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild í fyrirtæki sem nemur 10% eða meira af eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti, eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi fyrirtækis. Í skýringum með 2. mgr. 40. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 161/2002 kemur m.a. fram að um óbeina hlutdeild í hlutafé megi vísa til þess tilviks þegar tveir eða fleiri hluthafar kæmu sér saman með formlegu eða óformlegu samkomulagi um samræmda beitingu samanlagðs atkvæðisréttar eða að samkomulag tækist við annan eða aðra slíka hópa um beitingu atkvæðisréttar. Hvers konar samstilltar aðgerðir, hverju nafni sem nefnast, kunni þannig að falla undir virka eignaraðild.

[…]

Í fyrirliggjandi umsókn er um þennan lið [4. tölulið 1. mgr. 41. gr. laga nr. 161/2002] vísað til bréfs umsækjenda til framkvæmdanefndar um einkavæðingu, dags. 31. október 2002. Þar er m.a. fjallað um vilja umsækjenda til að styrkja Búnaðarbanka Íslands hf. Fjármálaeftirlitið óskar eftir upplýsingum um hvort umsækjandi hafi kynnt sér markmið bankans um eiginfjárhlutföll, arðsemi eigin fjár og útlánaþróun, auk þess sem óskað er eftir umfjöllun umsækjanda um þessi markmið og hugsanlegar breytingar á þeim.

Í fyrrgreindu bréfi til framkvæmdanefndar um einkavæðingu kemur fram vilji til að styrkja stjórnun bankans á ýmsum sviðum, þ.á m. á sviði áhættustýringar og alþjóðlegra tengsla. Óskað er nánari umfjöllunar um þetta. Í þessu efni er vísað til samstarfs við Société Générale, en sá banki var til ráðgjafar í samningaferlinu og mun hafa komið til greina sem þátttakandi í kaupandahópnum. Óskað er upplýsinga um áframhaldandi aðild hans að þessu samstarfi. Enn fremur er óskað upplýsinga um í hverju þátttaka hins þýska banka Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA mun felast.

[…]

Í umsókn þeirri sem barst Fjármálaeftirlitinu er aðeins að finna takmarkaðar upplýsingar um hvernig staðið verður að fjármögnun fjárfestingarinnar en rakið er hvernig greiðslum kaupverðs verður háttað samkvæmt kaupsamningi. Af kaupsamningnum má þó ráða hvernig umsækjandi hyggst fjármagna kaupin.

Samkvæmt samningnum munu VÍS og Samvinnulífeyrissjóðurinn greiða hlutfallslegt kaupverð sitt með óbundnu eigin fé en Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar mun fjármagna með lánum allt að 35% af sínum hluta kaupverðs, en eftirstöðvarnar með sölu eigna, annarra en hluta sinna í Búnaðarbanka Íslands hf., eða með veðsetningu eigna. Einnig kemur fram að Búnaðarbanki Íslands hf. sé hugsanlegur lánveitandi félagsins. Fjármálaeftirlitið óskar því upplýsinga um hvort leitað verði til Búnaðarbanka Íslands hf. um fjármögnun kaupa félagsins að þessu leyti.

Samkvæmt kaupsamningi kemur fram að Egla hf. hyggst fjármagna sinn hluta að minnsta kosti 65% með eigin fé, en allt að 35% með lánsfé. Hluthafar Eglu hf. ábyrgjast hver fyrir sig það framlag sitt til eigin fjár félagsins sem nauðsynlegt er til að fjármagna kaupin en lánsfé til Eglu hf. verður lagt fram af íslenskum banka á kjörum fyrirliggjandi lánsloforðs.

Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt að fá frekari upplýsingar um fjármögnun fyrirhugaðra viðskipta. Óskað er staðfestingar á að hjá VÍS og Samvinnulífeyrissjóðnum sé fyrirliggjandi óbundið eigið fé sem sé fullnægjandi til að standa við skuldbindingar félaganna samkvæmt kaupsamningnum. Einnig er óskað ítarlegri upplýsinga um fjármögnun Eignarhaldsfélagsins Samvinnutryggingar en sérstaklega er óskað upplýsinga um fyrirhugaða lánsfjármögnun ásamt því að gerð skal nánar grein fyrir því með hvaða hætti félagið hyggst standa við þann hluta kaupverðsins sem er ekki fjármagnaður með lánsfé. Enn fremur er óskað staðfestingar á að eiginfjárframlag til Eglu hf. sé fyrirliggjandi ásamt því að óskað er afrits af fyrirliggjandi lánsloforði til félagsins.

[…]

Vakin er athygli á því að samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laga nr. 161/2002, eiga upplýsingar skv.

1. mgr. sömu greinar við um lögaðilann sjálfan, stjórnarmenn hans, framkvæmdastjóra og þá einstaklinga og lögaðila sem eiga virkan eignarhlut í lögaðilanum.“

 Með bréfi, dags. 17. febrúar 2003, var síðastnefndu bréfi Fjármálaeftirlitsins svarað. Í bréfinu, sem Kristinn Hallgrímsson hrl. undirritaði fyrir hönd umsækjenda, kom fram í upphafi að hann hefði móttekið fyrrnefnt bréf Fjármálaeftirlitsins fyrir hönd hóps fjárfesta samkvæmt kaupsamningi við íslenska ríkið um 45,8% hlut í Búnaðarbanka Íslands hf. Sérstaklega var tekið fram í upphafi bréfsins að fjárfestahópurinn lyti ekki sérstakri forystu Kers hf., eins og kæmi fram í bréfi FME, heldur væri Ker hf. eigandi nærri helmings hlutafjár í Eglu hf. og þannig stærsti einstaki íslenski fjárfestirinn í fjárfestahópnum. Samstarf aðila byggði þó á hluthafasamningi þeirra. Í þessu bréfi Kristins fyrir hönd S-hópsins sagði meðal annars:

„Samkvæmt upplýsingum umbjóðenda minna, þá á enginn þeirra, eða fer með beinan og/eða óbeinan eignarhlut í BÍ umfram þann hlut sem keyptur er nú af íslenska ríkinu, utan hvað Ker hf. á hluti í BÍ að nafnverði kr. 15.000,00. Á meðfylgjandi yfirliti koma fram upplýsingar um aðila sem tengdir eru umsækjendum með hliðsjón af skilgreiningu 2. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002 […]

2.2. Spurt er sérstaklega hvort umsækjendur telji eignarhlut stærsta hluthafa Kers hf., Norvíkur ehf., og tengdra aðila með virkum eignarhlut umsækjenda í BÍ. Umsækjendur svara þeirri spurningu hiklaust neitandi. Ekkert samkomulag er á milli eigenda Norvíkur ehf. og umsækjenda um meðferð hluta þeirra í BÍ. Rétt er að Norvík ehf. (reyndar hefur Norvík selt eignarhluta sinn í Keri hf. til Gerðis ehf., sem er dótturfélag Norvíkur ehf., sbr. tilkynningu til Verðbréfaþings dags. 6/1 2003) er stærsti einstaki hluthafinn í Keri hf., en það hefur ekki leitt af sér samkomulag um meðferð eignarhluta framangreindra aðila í BÍ. Umsækjendum er ekki kunnugt um hvort Gerðir ehf. eða Norvík ehf. hafi gert samninga við aðra hluthafa í BÍ um meðferð hluta sinna þar. Enn fremur er umbjóðendum mínum ekki kunnugt um að í gildi séu samningar milli annarra en umsækjenda um ráðstöfun hluta í BÍ, um það hvernig beita skuli atkvæðisrétti eða um nokkuð það sem varðar eignarhald og þann rétt og þær skyldur sem slíkt eignarhald veitir.

[…]

Spurt er hvernig vilji til að styrkja stjórnun bankans t.d. á sviði áhættustýringar og alþjóðlegra tengsla muni koma fram. Í því tilviki er rétt að vekja athygli á að starfsmenn Société Générale (SG), sem verið hafa umsækjendum til ráðgjafar við kaupin á kjölfestuhlutnum í BÍ, öfluðu sér upplýsinga um íslenska fjármálamarkaðinn, báru saman íslensk fjármálafyrirtæki við önnur fjármálafyrirtæki á Norðurlöndum, verðmátu hlutabréfin í BÍ, undirbjuggu samningaviðræður við ríkið, aðstoðuðu við áreiðanleikakönnun og túlkun niðurstöðu hennar, aðstoðuðu við kaupin sjálf o.m.f. Umsækjendur munu áfram njóta góðs af ráðgjöf SG um ókomna framtíð, gerist þess þörf. Samskipti við SG hafa verið gagnleg fyrir fjárfestahópinn og mun hópurinn leita ráða hjá SG um einstök málefni er snúa að stefnumótun, áhættustýringu, og hagræðingarmöguleikum á íslenskum fjármálamarkaði.

3.3.        Peter Gatti, sem m.a. hitti forsvarsmenn FME, einn af eigendum og stjórnendum H&A ræddi við stjórnendur BÍ um hugsanlegt samstarf þegar hann var staddur á Íslandi til að undirrita samning um kaup Hauck & Aufhäuser á hlutum í BÍ. Ákveðið var að fulltrúar bankanna myndu hittast og ræða hvaða fletir væru á samstarfi. Nýverið fóru tveir fulltrúar BÍ til Munchen og hittu Gatti og fleiri starfsmenn Hauck & Aufhäuser. Niðurstaða þess fundar var m.a. sú að bankarnir sjá möguleika á samstarfi á þremur sviðum: Þjónustu við fyrirtæki (Corporate Finance), eignastýringu (Asset Management) og rannsóknum (Research). Var ákveðið að bankarnir myndu ræða frekar um hugsanlegt samstarf á þessum sviðum, en engin ákvörðun hefur verið tekin á þessari stundu hvort af slíku samstarfi verði og með hvaða hætti því yrði hagað.

3.4.        Umsækjendur hafa leitað eftir því við dr. Michael Sautter, en hann er yfirmaður SG í Frankfurt, og þeirri málaleitan hefur verið vel tekið, að hann taki sæti í stjórn BÍ, sem einn fulltrúa fjárfestahópsins og sérfræðingur í málefnum fjármálastofnana. Umsækjendur álíta það feng fyrir fjárfestahópinn og bankann að fá dr. Sautter í stjórn hans. Hann hefur áratuga reynslu af alþjóðlegum bankarekstri og sem ráðgjafi og starfsmaður SG hefur hann öðlast yfirgripsmikla þekkingu til að takast á við það mikilvæga starf sem felst í stjórnarsetu í bankaráði BÍ.

[…]

4.5. Samkvæmt upplýsingum Hauck & Aufhäuser ætlar bankinn að fjármagna kaupin með eigin fé, þ.e. nota óbundna fjármuni til fjárfestinga: “Hauck & Aufhäuser will finance its purchase from its own resources - meaning that it will use its free assets purchase the shares in Egla”.

[…]

4.8. Aðilar fjárfestahópsins eiga aðild að kaupsamningnum við íslenska ríkið í tilgreindum hlutföllum sem koma fram í samningnum. Þátttaka þeirra í kaupum samkv. fyrstu og annarri lotu samningsins lúta sömu hlutföllum.

[…]

5.2. Hauck & Aufhäuser munu ekki birta ársreikning bankans fyrir árið 2002 fyrr en í lok apríl á þessu ári. Fram hefur komið af þeirra hálfu að hagnaður bankans skv. bráða birgðatölum nemi um EUR 8 millj. Bankinn mun, svo sem gert hefur verið undanfarin ár, greiða 30% arð af hlutafé, en eftirstöðvar verða hagnaður bankans. Eigið fé bankans, svo sem fram kemur á efnahagsreikningi, mun aukast um sem nemur EUR 3 millj., í EUR 83 millj. Efnahagsreikningur mun af þeim sökum stækka úr EUR 1.520 millj. í EUR 1.601 millj. Ársreikningur 2002 verður aðgengilegur strax og hann er birtur.

[…]

11.1.      Vegna áforma FME um að leita nánari upplýsinga um Hauck & Aufhäuser hjá systurstofnun sinni í Þýskalandi, þá hafa eftirfarandi skilaboð borist frá Hauck & Aufhäuser rituð í nafni undirritaðs: “General management of Hauck & Aufhaeuser has meanwhile informed us, that their supervisory authority in Bonn, Germany, has been informed about their indirect investment in Bunadarbanki. The authority has no objection to the investment for a medium term period. Their prime contact in Bonn is Mr. Happel.“

11.2.      Í framangreindu bréfi er leitast við að svara þeim spurningum sem fram koma í bréfi FME til umsækjenda dags. 5. febrúar 2003. Telji FME að ítarlegri upplýsinga sé þörf áður en hægt verður að taka afstöðu til erindis umsækjenda, þá vinsamlega hikið ekki við að hafa samband við undirritaðan sem mun hafa milligöngu um að útvega viðbótar upplýsingar svo fremi sem það er í valdi umsækjenda eða gefa þær.“

 Með bréfi til S-hópsins, dags. 13. mars 2003, óskaði Fjármálaeftirlitið eftir frekari sjónarmiðum og upplýsingum frá umsækjendum. Eitt af því sem óskin laut að var „skipulag á eignarhaldi“ á eignarhlutanum í Búnaðarbankanum. Í bréfinu sagði nánar um það:

„Ein megin forsenda þess að aðili geti talist hæfur til að fara með virkan eignarhlut, m.t.t. heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis, er að tryggt sé gegnsæi í eignarhaldi og meðferð eignarhluta. Slíkt gegnsæi varðar almennt mat á þeim atriðum sem kveðið er á um í 42. gr. laga nr. 161/2002 að hafa skuli hliðsjón af við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Í þessu skyni kann við tilteknar aðstæður að vera nauðsynlegt að leggja fyrir umsækjanda að fela allt eignarhald í viðkomandi fjármálafyrirtæki sérstöku eignarhaldsfélagi sem hefði aðeins þann tilgang að sinna eignarhaldi á fjármálafyrirtækinu. […]

[…]

Bein og óbein tengsl umsækjenda við fyrirtæki á íslenskum samkeppnismarkaði eru talsverð. Fjármálaeftirlitið hefur í samstarfi við forsvarsmenn umsækjenda dregið upp ítarlega mynd af þeim tengslum. Að mati Fjármálaeftirlitsins myndi það greiða verulega fyrir gegnsæi, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og auðvelda eftirlit með eignarhaldinu ef Egla hf. færi með allan eignarhlutinn sem umsóknin lýtur að. […]“

 Að auki var spurst fyrir um það í ofangreindu bréfi Fjármálaeftirlitsins hvernig mál stæðu varðandi þær upplýsingar S-hópsins að hann hefði leitað eftir því við erlendan ráðgjafa að taka sæti í bankaráði Búnaðarbankans, eins og fram hefði komið í bréfi S-hópsins til Fjármálaeftirlitsins, dags. 17. febrúar 2003.

Svar við bréfi Fjármálaeftirlitsins, dags. 13. mars 2003, barst með bréfi Kristins Hallgrímssonar hrl. fyrir hönd S-hópsins, dags. 14. mars 2003. Í bréfinu var meðal annars upplýst að dr. Michael Sautter hefði fallist á að taka sæti í stjórn Búnaðarbankans fyrir hönd fjárfestahópsins, það er S-hópsins.

Af þeim gögnum sem rannsóknarnefndin hefur aflað verður ráðið að Fjármálaeftirlitið hafi í tengslum við meðferð eftirlitsins á umræddri umsókn S-hópsins átt í samskiptum við og beint erindum til eftirlitsaðila í Þýskalandi, vegna umsóknar S-hópsins. Þannig ritaði Fjármálaeftirlitið þýska fjármálaeftirlitinu (BaFin) bréf, dags. 10. febrúar 2003 og tölvubréf, dags. 10. mars 2003, þar sem óskað var eftir að BaFin lýsti sjónarmiðum sínum til þess að Hauck & Aufhäuser eignaðist óbeint hlut í Búnaðarbanka Íslands hf.

Í svarbréfi BaFin við fyrirspurn Fjármálaeftirlitsins, dags. 12. mars 2003, kom fram að Hauck & Aufhäuser hefði starfsleyfi sem banki samkvæmt þýskum lögum og að hann væri rekin í formi hlutafélags. Þá kom þar fram að 70% bankans væru í eigu einstaklinga en 30% bankans væru í eigu bankans Bayerische Landesbank í gegnum eignarhaldsfélagið GZ-Holding, og vátryggingarfyrirtækjanna Münchener Verein Versicherungsgruppe og WWK Lebensversicherung a.G, en hver þessara aðila ætti 10% hlut í bankanum. Auk þess kom fram í bréfinu að tveir þriðju hlutar rekstrartekna Hauck & Aufhäuser væru í formi þóknana en bankinn væri einnig virkur í útlánastarfsemi. Fram kom að Hauck & Aufhäuser hefði átt óhagstætt uppgjör á árinu 2002. Skörp lækkun á þóknunum og framlög í afskriftasjóð hefðu valdið þeirri útkomu. Fram kom að Hauck & Aufhäuser byggist við einungis 3,8 milljóna evra hagnaði á árinu 2003. BaFin gerði ekki athugasemdir við að bankinn eignaðist ráðandi hlut í Búnaðarbankanum. Hér til hliðar er nánar vitnað til svars BaFin, í heild sinni að því leyti sem það tók til fyrirspurnar Fjármálaeftirlitsins um Hauck & Aufhäuser.

Með ákvörðun 17. mars 2003 komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að með vísan til VI. kafla laga nr. 161/2002 og miðað við fyrirliggjandi áform væru Egla hf., Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar hf., Samvinnulífeyrissjóðurinn og Vátryggingafélag Íslands hf. allt hæfir aðilar til að fara með virkan eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. Því væri samþykkt að þessir aðilar eignuðust virkan eignarhlut, eða 45,8% hlutafjár, í Búnaðarbanka Íslands hf. Í inngangi ákvörðunarinnar var gerð grein fyrir kaupendum hlutafjárins samkvæmt kaupsamningi. Í umfjöllun um Eglu hf. voru Ker hf., Hauck & Aufhäuser og Vátryggingafélag Íslands hf. tilgreindir eigendur Eglu hf. í sömu hlutföllum og áður hefur verið getið um. Í ákvörðun FME var meðal annars tekið til sérstakrar athugunar hvort tengsl umsækjenda við aðra eigendur hlutafjár í Búnaðarbankanum væru slík að þeir teldust fara saman með virkan eignarhlut í skilningi 40. gr. laga nr. 161/2002, það er í raun stærri eignarhlut heldur en einungis þann sem kaup og þar með umsókn S-hópsins lutu að. Í umfjöllun Fjármálaeftirlitsins um þetta atriði kom meðal annars fram:

„Samkvæmt hluthafalista Búnaðarbanka Íslands hf. eru umsækjendur ekki eigendur hlutafjár í bankanum með beinum hætti en nauðsynlegt er að líta til þess hver hugsanleg óbein hlutdeild þeirra er í hlutafé Búnaðarbanka Íslands hf. Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002 er með virkum eignarhlut átt við beina eða óbeina hlutdeild í fyrirtæki sem nemur 10% eða meira af eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti, eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi fyrirtækis. Í skýringum við þetta ákvæði í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 161/2002 kemur fram að með

„óbeinni“ hlutdeild sé átt við að ekki sé nauðsynlegt að aðili sé sjálfur eigandi hlutanna eða atkvæðisréttarins, heldur nægi að hann ráði með einhverjum öðrum hætti yfir virka eignarhlutnum. Í dæmaskyni er síðan meðal annars tekið fram að undir óbeina hlutdeild falli einnig það tilvik þegar tveir eða fleiri hluthafar komi sér með formlegu eða óformlegu samkomulagi saman um samræmda beitingu samanlagðs atkvæðisréttar.

Fjármálaeftirlitið aflaði upplýsinga og sjónarmiða frá umsækjendum og aðilum sem það taldi að kynnu að vera tengdir umsækjendum. Hafði Fjármálaeftirlitið, m.a. með vísan til fyrirliggjandi hluthafasamkomulags, ástæðu til að ætla að virkur eignarhlutur umsækjenda og tengdra aðila, í skilningi 2. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002, kynni í raun að nema stærri hluta af heildarhlutafé Búnaðarbanka Íslands hf. en umsókn þeirra gaf til kynna.

Fram kom hjá umsækjendum að þeir teldu að ekki væri um að ræða tengsl í skilningi

2. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002 og að ekkert samkomulag væri á milli umsækjenda og annarra aðila um meðferð eignarhluta í Búnaðarbankanum. Enn fremur væri þeim ekki kunnugt um að í gildi væru samningar milli annarra en umsækjenda um ráðstöfun hluta í bankanum. Sjónarmið forsvarsmanna þeirra eignarhluta sem Fjármálaeftirlitið leitaði upplýsinga um eru á sama veg.

[…]

Umsækjendur hafa svarað fyrirspurnum greiðlega og hefur Fjármálaeftirlitið ekki forsendur til þess að ætla annað en að því hafi verið veittar réttar og fyrirliggjandi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið taldi í fyrirspurnum sínum að skiptu máli við mat á umsókninni.“

 Af þeim gögnum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur aflað um ofangreinda ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, það er bréfaskiptum aðila sem hér hafa verið rakin að hluta og öðrum gögnum Fjármálaeftirlitsins um aðdraganda ákvörðunarinnar og afhent voru nefndinni, verður ekki séð að Fjármálaeftirlitið hafi á nokkru stigi málsins átt bein og milliliðalaus skrifleg samskipti við Hauck & Aufhäuser eða fyrirsvarsmenn bankans um aðild þýska bankans að kaupunum.

Á næstu dögum eftir þessa ákvörðun Fjármálaeftirlitsins reiddi S-hópurinn fram fyrstu greiðslu á grundvelli kaupsamningsins um hlutinn í Búnaðarbankanum, gegn afhendingu ríkisins á hlutafé, enda var þá fram komið skilyrði samkvæmt þeim samningi til að sú greiðsla og afhending hlutafjár færu fram samkvæmt fyrri lotu efnda samningsins. Um það er nánar vísað til fyrri umfjöllunar um kaupsamninginn en einnig er fjallað um atvik tengd þessari greiðslu síðar í skýrslunni.

3.4  Samantekt og ályktanir rannsóknarnefndar

Í kafla 3 hér á undan var meðal annars rakið hvernig ádráttur um að erlendur banki kæmi að tilboði S-hópsins, hvort heldur í Landsbankann eða Búnaðarbankann, var frá upphafi hluti af þeim upplýsingum sem hópurinn veitti framkvæmdanefnd um einkavæðingu í söluferli ríkisbankanna. Þetta má rekja allt aftur til fyrsta bréfs S-hópsins til framkvæmdanefndar um einkavæðingu, dags. 25. júlí 2002, þar sem áhuga var lýst á að kaupa eignarhlut í öðrum hvorum bankanum en þar sagði að „náið samstarf og hugsanlega eignaraðild erlends banka að bönkunum [kæmi] til greina“.

Um mánaðamótin ágúst-september 2002, um það leyti sem S-hópurinn varð undir við val á viðsemjanda um Landsbankann, hafði þessi upplýsingagjöf tekið á sig þá mynd að franski bankinn Société Générale veitti S-hópnum ráðgjöf um gerð og fjármögnun tilboðs hans og myndi hugsanlega veita slíka fjármögnun sjálfur. Af fundargerð framkvæmdanefndar um einkavæðingu 28. ágúst 2002 má einnig ráða að forsvarsmenn S-hópsins hafi þá vakið máls á þessu atriði með því að upplýsa að „tveir erlendir bankar hefðu sýnt áhuga á að koma að málinu sem ráðgjafar eða fjárfestar“ og þá fengið það jákvæða svar frá formanni nefndarinnar að fremur en hitt væri gefinn „plús fyrir erlenda peninga“. Þetta var í fyrsta sinn, samkvæmt þeim gögnum og upplýsingum sem liggja fyrir rannsóknarnefndinni, sem hugmynd um erlendan banka sem fjárfesti með S-hópnum kemur fram í þessu ferli.

Þegar söluferli Búnaðarbankans hófst á ný í október 2002 var bókað í fundargerð stjórnar Kers hf. 23. október 2002 að rætt hefði verið að Société Générale „og/eða tengdir aðilar kæmu með allt að 4 milljarða króna af væntanlegu kaupverði“. Í bréfi S-hópsins til framkvæmdanefndar um einkavæðingu 31. október 2002 var því svo haldið fram að meðal hluthafa í eignarhaldsfélagi um hlutinn í Búnaðarbankanum yrði „Société Générale eða alþjóðlegur fjárfestir“ (e. „SG or international investor“) með 25-30% hlut og þar með stærsti einstaki fjárfestirinn í hópnum. Í viðauka með bréfinu komu fram stuttar sjálfstæðar lýsingar á hverju og einu félagi og fjárfesti í hópnum. Þar á meðal var lýsing á franska bankanum sem greindi sig ekki frá öðrum slíkum lýsingum.

Ljóst er að við mat framkvæmdanefndar um einkavæðingu á tilboði S-hópsins taldi erlendur ráðgjafi nefndarinnar vafa vera uppi um það hvort Société Générale eða annar „alþjóðlegur fjárfestir“ myndi fjárfesta með hópnum. Þátttaka „virtrar alþjóðlegrar fjármálastofnunar“ var engu að síður talin einn af þremur helstu styrkleikum í tilboði S-hópsins og tilboðið raunar metið betra en hitt tilboðið sem var til skoðunar „hvort sem Société Générale væri með eða ekki“.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu ákvað í ljósi þessa vafa að fá „nánari skýringu á hlutverki Société Générale í fjárfestahópnum“ áður en endanleg afstaða væri tekin til tilboðanna. Það var gert með þeim hætti að yfirstandandi fundi nefndarinnar um mat á tilboðunum var frestað og ákveðið að funda aftur síðdegis þann sama dag, 4. nóvember 2002, að fengnum þessum nánari skýringum.

Þessi athugun, sem þannig var gert ráð fyrir að færi fram og yrði lokið á fáeinum klukkustundum, var falin erlendum ráðgjafa nefndarinnar og fólst samkvæmt fundargerð framkvæmdanefndar í „samskiptum við S-hópinn og Société Générale“. Af gögnum nefndarinnar er ljóst að þar var um að ræða símtal ráðgjafans við Michael Sautter, áðurnefndan ráðgjafa S-hópsins frá útibúi Société Générale í Frankfurt, og viðtöku bréfs frá Sautter með staðfestingu á efni símtalsins. Upplýsingarnar sem erlendi ráðgjafinn kynnti svo framkvæmdanefndinni þegar fundi var fram haldið reyndust svo samkvæmt fundargerð nefndarinnar varla vera aðrar en efnislega sömu upplýsingar og þegar lágu fyrir henni – að vísu þó nú á formi bréfs frá Sautter af hálfu Société Générale: sem sagt að Société Générale væri ráðgjafi S-hópsins í verkefninu og hefði „mögulega áhuga“ á að fjárfesta fyrir eigið fé í eignarhaldsfélagi hópsins um fjárfestingu í Búnaðarbankanum.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu frestaði þannig mati sínu á tilboðunum í nokkrar klukkustundir í því sérstaka skyni að fá fram nánari skýringu á hlutverki Société Générale í fjárfestahópnum. Athugun ráðgjafa nefndarinnar reyndist ekki skila neinum skýrari yfirlýsingum, hvað þá staðfestingu, á að Société Générale eða nokkur annar erlendur fjárfestir myndi fjárfesta með S-hópnum í Búnaðarbankanum. Engu að síður ákvað framkvæmdanefndin á þessum síðari fundi þennan dag, 4. nóvember 2002, að leggja til við ráðherranefnd um einkavæðingu að gengið yrði til einkaviðræðna við hóp fjárfesta sem samanstæði af „Eignarhaldsfélaginu Andvöku, Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, Vátryggingafélagi Íslands hf., Kaupfélagi Skagfirðinga svf., Keri hf. og Samvinnulífeyrissjóðnum, auk einnar eða fleiri erlendra fjármálastofnana um kaup á umtalsverðum hlut í Búnaðarbanka Íslands hf.“ Athygli vekur þó að í bréfi með formlegri tillögu framkvæmdanefndarinnar til ráðherranefndarinnar um þetta, sem afhent var og samþykkt af ráðherranefndinni þennan sama dag, 4. nóvember 2002, var þó gengið nokkru lengra varðandi þátttöku erlendrar fjármálastofnunar. Þar var samsetningu S-hópsins lýst á þann veg að hann samanstæði af þeim íslensku félögum sem um ræddi „auk einnar eða fleiri erlendra fjármálastofnana, þ. á m. franska bankanum Société Générale“.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu tilkynnti S-hópnum að hann hefði verið valinn til einkaviðræðna strax og þessi ákvörðun lá fyrir, eða með bréfi sem sent var sama dag, 4. nóvember 2002. Það bréf var stílað á Société Générale samhliða hinum íslensku félögum sem stóðu að S-hópnum. Sérstaklega var tekið fram í bréfinu, með skírskotun til þess að S-hópurinn hefði „gefið til kynna“ (e. „indicated“) að 25-30% hlutur í eignarhaldsfélagi um fyrirhuguð kaup yrði í eigu franska bankans eða annars alþjóðlegs fjárfestis, að þátttaka franska bankans „eða annarrar hátt virtrar alþjóðlegrar fjármálastofnunar, sem umtalsverðs hluthafa í eignarhaldsfélagi um tilboðið“ hefði verið „veigamikill þáttur“ (e. „major factor“) í þeirri ákvörðun að ganga til einkaviðræðna við S-hópinn. Í ofanálag var því einnig lýst yfir að framkvæmdanefndin yrði treg til að framlengja slíkar viðræður umfram hinn tiltekna ákveðna tíma, sem var einungis um 10 dagar, eða til 15. nóvember 2002, ef hún teldi þá slíka þátttöku franska bankans eða annars alþjóðlegs fjárfestis vera ólíklega.

Við lok þessa frests, eða 16. nóvember 2002, var undirritað rammasamkomulag („Heads of Agreement“) um kaupin. Enn var þar „ráðgert“ (e. „intended“) að „Société Générale og/eða önnur alþjóðleg fjármálastofnun“ yrði hluthafi í Eglu ehf. eða fjárfesti beint í Búnaðarbankanum samkvæmt nánari ákvæðum samkomulagsins. Og enn gerði framkvæmdanefnd um einkavæðingu sérstakan fyrirvara um að umtalsverð þátttaka erlendrar fjármálastofnunar væri mikilvægt grundvallaratriði af hálfu íslenskra stjórnvalda í þessum viðskiptum og setti jafnframt fram sérstakan áskilnað um fullnægjandi upplýsingagjöf um þetta innan þriggja vikna (fyrir 6. desember 2002) að viðlögðum hugsanlegum endanlegum slitum viðræðna.

Þrátt fyrir að enn lægi þannig engin staðfesting fyrir um þetta var eignarhaldi Eglu ehf. samt sem áður lýst svo í fréttatilkynningu framkvæmdanefndar um einkavæðingu um rammasamkomulagið að ein eða fleiri erlendar fjármálastofnanir myndu eiga aðild að Eglu ehf., þ.e. án nokkurs fyrirvara um óvissu í þessu sambandi. Af fundargerð stjórnar Kers hf., dagsettri daginn áður eða 15. nóvember 2002, verður einnig ráðið að full þátttaka Société Générale sem fjárfestis í Búnaðarbankanum gegnum Eglu ehf., þar sem miðað var við að fjárframlag franska bankans yrði samtals 4,1 milljarðar króna (eða um 44% af heildarfjárframlagi Eglu hf.) hafi þá verið kynnt fyrir stjórn Kers hf. og drög rammasamkomulagsins í endanlegri mynd þá einnig verið lögð fyrir fundinn.

Gögn og upplýsingar rannsóknarnefndar um þetta efni og frá þessum tíma takmarkast að meginstefnu við fundargerðir stjórnar Kers hf. og fundargerðir framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Í hvorugu tilviki er nokkuð að finna um þetta efni næstu vikurnar eftir þetta eða allt þar til nokkuð var liðið á desembermánuð. Þann 11. desember 2002 er dagsett fundargerð stjórnar Kers hf. þar sem viðskiptin með hlut ríkisins í Búnaðarbankanum voru eina málið á dagskrá. Þar var skráður mættur meðal annarra Ralf Darpe, ráðgjafi S-hópsins og starfsmaður Société Générale. Samkvæmt fundargerðinni tilkynnti Darpe stjórn Kers hf. á þessum fundi að Société Générale myndi „ekki taka beinan þátt í fyrirhugaðri fjárfestingu“. Ástæður fyrir þessu sem bókaðar voru eftir Darpe í fundargerðinni voru óljósar og aðeins sagðar vera „stjórnmálalegs eðlis“ og snerta „aðstæður hér innanlands“, nánar tiltekið að „SG vildi einfaldlega halda stjórnmálum og viðskiptum aðskildum“. Jafnframt er bókað eftir Darpe að hann hefði upplýst að teknar hefðu verið upp viðræður við þrjá evrópska banka, sem ekki voru tilgreindir nánar, „um hugsanlega aðkomu þeirra að málinu“. Í lok fundargerðarinnar var bókað að Ólafur Ólafsson, sem einnig hafði samkvæmt henni hafið umræður um málið með kynningu á framvindu verkefnisins, hefði dregið saman niðurstöðu úr umræðum fundarmanna um málið, sem fundarmenn væru sammála um. Sú samantekt laut meðal annars að því að eðlilegt væri að sækja um frest á því að tilkynna um endanlega samsetningu fjárfestahópsins „þar til ljóst væri hvort og hver hinn erlendi fjárfestir yrði“.

Í framburði Kristjáns Loftssonar, þáverandi stjórnarformanns Kers hf., fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að af hálfu S-hópsins hefði Ólafur Ólafsson, að þessu leyti sem í öllu öðru varðandi hugsanlega aðkomu erlends fjárfestis að kaupum hópsins, séð um ásamt ráðgjöfunum frá Société Générale að reyna að fá aðra erlenda fjármálastofnun til liðs við S-hópinn.

Tveimur dögum síðar, eða 13. desember 2002, var svo bókað í fundargerð framkvæmdanefndarinnar að Ólafur Ólafsson hafi komið til fundar við formann nefndarinnar, ásamt Finni Ingólfssyni og ónefndum fulltrúa Société Générale, og óskað eftir frestun á undirskrift kaupsamningsins til 13. janúar 2003. Uppgefin ástæða fyrir þessu samkvæmt því sem haft var eftir formanni nefndarinnar í fundargerðinni var sú að áreiðanleikakönnun væri ekki lokið, sem aftur væri nauðsynlegt til að „draga erlenda aðila að samningaborðinu“. Einnig var haft eftir formanninum í fundargerðinni að umræddir forsvarsmenn S-hópsins hefðu þá tilkynnt að „ekki væri hægt að tilkynna um erlendan aðila fyrr en við undirskrift“.

Í fundargerð framkvæmdanefndarinnar þar sem getið er um þetta verður ekkert frekar ráðið um hvaða ástæður voru gefnar upp fyrir þessari yfirlýsingu S-hópsins né viðbrögð formanns framkvæmdanefndarinnar við henni. Í fundargerðinni er hins vegar lýst gagnrýninni umræðu um þessi atriði innan framkvæmdanefndar um einkavæðingu á viðkomandi fundi hennar og að nefndin hafi þá ákveðið að biðja ráðgjafa sinn frá HSBC banka að afla frekari skýringa um þetta frá S-hópnum.

Um þessa upplýsingaöflun ráðgjafans og svör sem hann virðist hafa fengið frá ráðgjöfum S-hópsins frá Société Générale (sem sagt Michael Sautter og/eða Ralf Darpe) og svo komið á framfæri við starfsmann framkvæmdanefndar um einkavæðingu er nánar fjallað í kafla 3.1 hér á undan. Eins og þar er nánar lýst virðast þau svör hafa lotið að því að nöfn fjögurra banka kæmu til greina, þar sem ráðgjafi HSBC taldi þrjá vera „raunhæfa hugsanlega fjárfesta“ og þar af væri aðeins einn vel kunnur öðrum en „sérfræðingum um þýskar fjármálastofnanir“. Ráðgjafinn lauk samt sem áður stuttum tölvupósti sínum um þetta með þeirri ráðleggingu að enda þótt ekki væri til staðar „fullt öryggi“ teldi hann „skynsamlegt að halda áfram á grundvelli þess sem SocGen hefði sagt honum“. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu virðist svo hafa kosið að treysta og una við þessa tilhögun það sem eftir lifði söluferlisins.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var því haldið að Framkvæmdanefnd um einkavæðingu allt frá fyrstu samskiptum S-hópsins við nefndina í júlí 2002 að erlend fjármálastofnun væri á einhvern hátt þátttakandi í samstarfi hópsins sem miðaði fyrst að kaupum á hlut í öðrum hvorum ríkisbankanna og síðar Búnaðarbankanum eingöngu. Örðugt er að festa nokkuð frekar hendur á nánara inntaki þeirra upplýsinga sem S-hópurinn veitti í þessu sambandi, enda benda fyrirliggjandi gögn til að upplýsingagjöf S-hópsins um þetta í söluferli Búnaðarbankans hafi hvorki verið skýr né afdráttarlaus, hvort heldur þá um eðli slíkrar þátttöku né um það hver hin erlenda fjármálastofnun væri eða yrði. Þannig gaf hvorki Société Générale né S-hópurinn lengst af út neinar afgerandi yfirlýsingar um aðild franska bankans að tilboði S-hópsins, hvort sem er að eigin frumkvæði eða við umleitanir nefndarinnar. Á sama hátt hélt S-hópurinn því opnu lengst af að aðrar og með öllu ótilgreindar erlendar fjármálastofnanir kynnu þar að koma til skjalanna, annað hvort þá með Société Générale eða í staðinn fyrir franska bankann.

Á hinn bóginn gefa sömu gögn skýra mynd af því hvaða þýðingu framkvæmdanefnd um einkavæðingu ætlaði þessu atriði við töku ákvörðunar um viðsemjanda um Búnaðarbankann í byrjun nóvember 2002 sem og við undirskrift rammasamkomulags um kaupin um miðjan sama mánuð. Þótt væntanleg þátttaka erlendrar fjármálastofnunar sem fjárfestis í Búnaðarbankanum samhliða öðrum aðilum í S-hópnum hafi hugsanlega ein og sér ekki ráðið úrslitum um að S-hópurinn var valinn til einkaviðræðna við nefndina um kaupin, er ljóst að það atriði vó engu að síður þungt við val nefndarinnar. Jafnframt er ljóst að „umtalsverð“ bein eða óbein fjárfesting erlendrar fjármálastofnunar í Búnaðarbankanum var ein helsta forsenda framkvæmdanefndarinnar fyrir undirritun rammasamkomulags um kaupin við S-hópinn. Hvort tveggja kemur skýrt fram í gögnum sem þetta varða, eins og rakið hefur verið. Önnur gögn um samskipti framkvæmdanefndar um einkavæðingu við S-hópinn sýna ótvírætt sömu áherslur og væntingar nefndarinnar um þetta atriði.

Öll framangreind gögn um þetta sýna á sama hátt að þeim sem leiddu viðræðurnar af hálfu S-hópsins var fyllilega kunnugt um eða gat ekki dulist að stór fjárfesting erlendrar fjármálastofnunar í Búnaðarbankanum samhliða öðrum félögum í S-hópnum var ein af grundvallarforsendum framkvæmdanefndar um einkavæðingu fyrir að velja þá sem kaupendur að hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

 


[16] Orðalagið hér, það er að vísa til „bankanna“ í fleirtölu, helgast af því að með tilkynningunni var lýst yfir áhuga á kaupum í annaðhvort Búnaðarbankanum eða Landsbankanum.

[17] Í fundargerð framkvæmdanefndar um einkavæðingu frá 31. júlí 2002 er að vísu rætt um þennan hóp sem „Ker-hópinn“ en frá og með 9. september 2002 er jafnan vísað til hópsins sem „S-hópsins“. Rétt er að taka fram að samsetning hópsins tók breytingum meðan á söluferli Búnaðarbankans stóð. Þegar kaupsamningur um sölu Búnaðarbankans við íslenska ríkið var endanlega undirritaður 16. janúar 2003 voru Eignarhaldsfélagið Andvaka, Fiskiðjan Skagfirðingur hf., Kaupfélag Skagfirðinga svf., Ker hf. og Samskip hf. ekki beinir aðilar að kaupunum. Þeirra í stað voru Egla hf., þar sem Ker átti tæpan helmingshlut og var þar með óbeinn aðili að kaupunum, og Vátryggingafélag Íslands hf. á meðal aðila.

[18] Fréttatilkynning framkvæmdanefndar um einkavæðingu 31. júlí 2002.

[19] Sjá 1. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, bls. 251. Þar kemur fram að ekki verði ráðið af öðrum gögnum sem rannsóknarnefndin aflaði um einkavæðingarferlið að þessum upplýsingum hafi með formlegum hætti verið komið á framfæri við aðra bjóðendur í ferlinu.

[20] Rétt er að fram komi að S-hópurinn er ekki nefndur því nafni í fundargerðabókum stjórnar Kers hf.

[21] Hér er efni bréfsins einungis rakið að því leyti sem það varðar rannsóknarefni nefndarinnar, það er upplýsingar varðandi hugsanlega aðkomu erlendrar fjármálastofnunar að fyrirhuguðum kaupum S-hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

[22] Aðrar beinar tilvitnanir til bréfsins á frummáli hér á eftir koma einnig fram á spássíu.

[23] Fjárfestar í S-hópnum og hluthafar að fyrirhuguðu eignarhaldsfélagi voru í bréfinu sagðir vera eða verða samtals sjö félög: VÍS, Ker hf., Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, Kaupfélag Skagfirðinga svf., Samvinnulífeyrissjóðurinn, Eignarhaldsfélagið Andvaka og „SG eða alþjóðlegur fjárfestir“.

[24] Sjá fyrri upptalningu þeirra neðanmáls.

[25] „Bunaðarbanki – summary ranking of preliminary bids.“ HSBC, 4. nóvember 2002. Sjá hér bls. 1, 2–3, 8, 9 og 11. Heildar- niðurstaðan um samanburð á hópunum tveimur var reiknuð út frá einkunnum fyrir tiltekin viðmið sem höfðu misjafnt vægi. Af eitt hundrað mögulegum stigum var einkunn S-hópsins á bilinu 66–74 stig vegna vafa um aðkomu Société Générale sem sjálfstæðs fjárfestis. Einkunn Kaldbaks var 64 stig. Niðurstaða HSBC var að boð S-hópsins væri „örlítið betra“ jafnvel þó tekið væri tillit til vafa um Société Générale. Í niðurstöðunni sagði þannig: „In making the assessment, the uncertainty surrounding the involvement of international financial institution(s) has been taken into account and it has been concluded that the S-Group submission is marginally more attractive, even in the event that an equity investment by an international institution would not be a part of the final deal.“ Sjá „Bunaðarbanki – summary ranking of preliminary bids“, bls. 11.

[26] Sjá skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, bls. 255-256. Í skýrslu þeirrar nefndar er lögð áhersla á að á þessum tímapunkti hafði framkvæmdanefnd um einkavæðingu ekki fengið neina raunhæfa staðfestingu á þátttöku erlendrar fjármálastofnunar sem fjárfestis í S-hópnum, hvorki Société Générale né annarrar, hvað þá að bein skuldbinding slíks aðila lægi fyrir.

[27] Fundinn sátu samkvæmt fundargerð stjórnarmennirnir Kristján Loftsson formaður, Margeir Daníelsson og Ólafur Ólafsson.

[28] Til skýringar skal nefnt að Egla var stofnuð sem einkahlutafélag 25. september 2002 en síðar breytt í hlutafélag 10. janúar 2003, áður en gengið var frá kaupum S-hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Í tilkynningu til hlutafélagaskrár er enginn framkvæmdastjóri tilgreindur en Kristinn Hallgrímsson, hæstaréttarlögmaður, nefndur sem prókúruhafi félagsins. Á stjórnarfundi 16. janúar var ákveðið að ráða Guðmund Hjaltason sem framkvæmdastjóra félagsins með prókúruumboði. Þetta var ekki tilkynnt til hlutafélagaskrár fyrr en 3. júlí 2003, sbr. bréf Kristins Hallgrímssonar hrl. f.h. Eglu hf. dags. sama dag.

[29] Þess má geta að ef fréttir fjölmiðla frá þessum tíma eru athugaðar benda þær einnig til að samkomulagið hafi verið undirritað 16. nóvember 2002, sbr. t.d. forsíðufrétt Morgunblaðsins 17. nóvember 2002 þar sem greint er frá undirritun samkomulagsins og hún sögð hafa átt sér stað deginum áður. Þá ber það afrit samkomulagsins sem fyrir liggur hjá rannsóknarnefndinni einnig dagsetninguna „16/11/02“ efst í hægra horni hverrar af fjórum blaðsíðum þess. Samkomulagið er engu að síður með dagsetningunni 15. nóvember 2002 næst á undan undirskriftum aðila þess. Fram virðist komið samkvæmt þessu að það sé röng dagsetning og hafi átt að vera 16. nóvember 2002. Verður miðað við það hér eftir. Fyrir utan þessar athugasemdir er ekki þörf að fjalla frekar um þetta atriði. Varðandi þau efnisatriði samkomulagsins sem nefnd eru í meginmáli er vísað til umfjöllunar um endanlegan kaupsamning aðila síðar í þessum kafla.

[30] Líkt og áður sagði er samkomulagið dagsett 15. nóvember 2002 en fram virðist komið að það hafi verið undirritað degi síðar. Vísað er til fyrri skýringa neðanmáls um þetta.

[31] Fundinn sátu samkvæmt fundargerðinni stjórnarmennirnir Kristján Loftsson, formaður, Gísli Jónatansson, Margeir Daníelsson og Ólafur Ólafsson, auk forstjóra félagsins og lögmanns sem skrifaði fundargerð.

[32] Nærtækt er að það skýrist af því að á þessum tíma hafi nefndin fyrst og fremst unnið að því að ljúka við sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum en kaupsamningur þar um var undirritaður 31. desember 2002.

[33] Sjá 1. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, bls. 257. Þar kemur einnig fram að af þeim gögnum sem rannsóknarnefndin hafi haft aðstöðu til að kynna sér um söluferli Búnaðarbankans verði ekki með vissu ráðið um ástæður fyrir því að þessu fyrirkomulagi var fylgt eða hvers vegna íslensk stjórnvöld ákváðu að láta viðgangast að upplýsingagjöf frá samningsbundnum ráðgjöfum sínum við söluna væri takmörkuð með þessum hætti. Ekki sé heldur ljóst hvort einhverjar ástæður, sem hefðu þá getað talist réttmætar frá sjónarhóli íslenskra stjórnvalda, hafi verið færðar fram fyrir þessu af hálfu S-hópsins eða hvaða ástæður það hafi þá verið.

[34] Af fyrirliggjandi gögnum rannsóknarnefndarinnar verður ekki ráðið að Fjármálaeftirlitið hafi brugðist sérstaklega við þessari ósk S-hópsins. Samskipti S-hópsins og Fjármálaeftirlitsins í kjölfar undirskriftar kaupsamnings 16. janúar 2003 eru nánar rakin síðar í þessum kafla

[35] Fundinn sátu samkvæmt fundargerð stjórnarmennirnir Kristján Loftsson, formaður, Margeir Daníelsson og Ólafur Ólafsson.

[36] Félaginu var breytt úr einkahlutafélagi í hlutafélag samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár Hagstofu Íslands, dags. þennan sama dag, 10. janúar 2003.

[37] Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, bls. 258- 259 segir svo um þetta atriði: „Ljóst er að hvað sem líður eftirgangsmunum eða gagnrýni og umræðum á fundum FnE [Framkvæmdanefndar um einkavæðingu], sætti nefndin sig við að S-hópurinn hvorki staðfesti þátttöku erlends fjárfestis né segði deili á honum, hvað þá að hópurinn veitti frekari upplýsingar að því leyti. Í því sambandi verður að hafa hliðsjón af þeirri áherslu sem nefndin hafði lagt á að fullnægjandi upplýsingar yrðu veittar um þetta atriði. Með rammasamkomulaginu frá 15. nóvember 2002 gekkst S-hópurinn undir þá skyldu að veita FnE fullnægjandi upplýsingar fyrir 6. desember 2002 um beina fjárfestingu af hálfu „Société Générale og/eða annarrar alþjóðlegrar fjármálastofnunar“ sem væri ásættanleg fyrir nefndina, að því viðlögðu að viðræðum yrði að öðrum kosti hugsanlega slitið með öllu. Endanleg tilkynning um þetta dróst í um það bil mánuð þar fram yfir og fór fyrst fram við eða rétt fyrir undirskrift kaupsamnings. Fyrirliggjandi gögn hjá rannsóknarnefndinni veita ekki nánari upplýsingar um það með hvaða hætti FnE eða eftir atvikum öðrum stjórnvöldum var loksins tilkynnt um þetta.“

[38] Hér er um að ræða námundun á heildarkaupverðinu, eingöngu út frá ákvæðum kaupsamningsins um kaupverðið á þeim tíma sem skrifað var undir hann en ekki miðað við endanlega greiðslu þess á síðara tímamarki. Þannig er ekki tekið tillit til hugsanlegra áhrifa breytingarliða, sem m.a. var að finna í ákvæðum 4. gr. kaupsamningsins, á endanlegt kaupverð, hvort heldur til hækkunar eða lækkunar, en eftir því sem næst verður komist tók kaupverð ekki umtalsverðum breytingum frá því sem ráðgert var í samningnum.

[39] Þó var veitt viss undanþága frá þessu banni í tilviki Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga af ástæðum sem ekki þarf að rekja nánar hér.

[40] Á meðal gagna sem rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði aflaði vegna athugunar sinnar á söluferli bankanna og tengdum atriðum á árunum 2009 til 2010 er lánssamningur milli Landsbanka Íslands og Eglu hf., dags. 18. mars 2003 eða daginn eftir að Fjármálaeftirlitið samþykkti umsókn félaga þeirra sem stóðu að kaupum Búnaðarbankans um heimild til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Á undan meginefni samningsins er sérstaklega getið um forsendur hans í nokkrum liðum. Þar er vísað til kaupsamnings um Búnaðarbankann, hlutar Eglu í kaupunum, félaga innan Eglu og hlutfalls eigin fjár (65%) og lánsfjármagns (35%) í hlut Eglu í kaupunum. Síðan er m.a. vísað til lánsloforðs Landsbankans frá 3. febrúar s.á. sem skuldbindi bankann til að lána Eglu fjármagn sem taki til 35% af kaupverði á hlut félagsins samkvæmt samningnum. Einnig kemur fram að Egla skuldbindi sig til að greiða andvirði lánsins beint til íslenska ríkisins í samræmi við greiðslukjör og greiðsluskilmála lánssamningsins og að Eglu sé aðeins heimilt að nýta lánið í þessu skyni. Fjárhæð lánsins er tilgreind ,,allt að kr. 2.995.000.000“ en endanleg fjárhæð lánsins sögð ráðast af „gengisskráningu USD vegna síðari hluta lánsins“. Skyldi lánið veitt í tveimur hlutum til samræmis við tvær lotur afhendingar hluta og greiðslna samkvæmt kaupsamningi S-hópsins við ríkið. Lánið var kúlulán til tveggja ára, þ.e. skyldi greiðast til baka í einu lagi á gjalddaga 18. mars 2005. Vexti skyldi þó greiða sérstaklega á lánstímanum samkvæmt nánari ákvæðum. Í ákvæðum um kostnað lántaka í samningnum var ekki kveðið á um lántökugjald. Til tryggingar láninu stóðu „öll hlutabréf [lántaka] í Búnaðarbanka Íslands hf. með þeim takmörkunum sem [leiddi] af kaupsamningnum“. Meðal gagna rannsóknarnefndar var einnig handveðssamningur, dags. 19. mars 2003, undirritaður af forsvarsmönnum Eglu hf. Efni hans er í meginatriðum í samræmi við framangreint efni lánssamningsins. Með veðsamningnum setti Egla hf. bréf sín í Búnaðarbankanum að nánar tilgreindu nafnverði til tryggingar skuld samkvæmt lánssamningnum. Bréfin voru veðsett í tveimur lotum, sbr. áðurnefnda áfangaskiptingu kaup- og lánssamninganna. Í veðsamningnum var kveðið á um það að ekki mætti ganga að veðunum fyrr en tuttugu og einum mánuði eftir dagsetningu kaupsamningsins um Búnaðarbankann.

Með hliðsjón af þessum ákvæðum lánssamningsins vísaði rannsóknarnefnd til tilvitnaðs ákvæðis 7.3 í kaupsamningnum um Búnaðarbankann en ákvæði lánssamningsins virðast í meginatriðum vera í samræmi við þann áskilnað sem þar kemur fram, t.d. varðandi lánsfjárloforð fyrir tilgreindan frest frá íslenskum banka, hlutfall lánsfjármögnunar og takmarkanir á ráðstöfun lánsins.

[41] Sleppt er að vitna til hluta ákvæða, einkum varðandi nánari útfærslu eða skilyrða fyrir meginákvæðum greinarinnar, sem augljóst þykir að geti enga þýðingu haft og slíkar úrfellingar auðkenndar.

[42] Í hluthafasamkomulagi kaupenda frá 16. janúar 2003 var kveðið á um hvernig samningsaðilar ætluðu að rækja hlutverk sitt sem kjölfestufjárfestar í Búnaðarbanka Íslands meðan skilyrði/kvaðir ríkissjóðs um bann við framsali seldra hluta í bankanum væru í gildi, og eftir atvikum eftir það tímamark meðan samningsaðilar ættu meira en 20% af heildarhlutafé í bankanum, sbr. grein 1.2. í samkomulaginu. Í III. og IV. gr. samkomulagsins var síðan fjallað um gagnkvæman forkaupsrétt aðila, samkomulag um fylgni, svo og samvinnuskyldu.